Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Bænahús fyrir allar þjóðir“

„Bænahús fyrir allar þjóðir“

„Bænahús fyrir allar þjóðir“

„Er ekki ritað: ‚Hús mitt á að vera bænahús fyrir allar þjóðir?‘“ — MARKÚS 11:17.

1. Hvers konar samband áttu Adam og Eva upphaflega við Guð?

 ADAM og Eva áttu mjög náið samband við himneskan föður sinn eftir að þau voru sköpuð. Jehóva Guð talaði við þau og gerði þeim grein fyrir stórkostlegum tilgangi sínum með mannkynið. Oft hljóta þau að hafa lofað Jehóva fyrir stórfengleg sköpunarverk hans. Adam og Eva gátu nálgast Guð hvar sem þau voru stödd á paradísarheimili sínu ef þau þurftu nánari skýringar á hlutverki sínu sem framtíðarforeldrar mannkyns. Þau þurftu ekki þjónustu prests í musteri. — 1. Mósebók 1:28.

2. Hvaða breyting átti sér stað þegar Adam og Eva syndguðu?

2 Það breyttist þegar uppreisnargjarn engill tældi Evu til að halda að hún myndi bæta hlutskipti sitt í lífinu og „verða eins og Guð“ ef hún hafnaði drottinvaldi Jehóva. Eva át því ávöxt af trénu sem Guð hafði bannað þeim að eta af. Síðan notaði Satan Evu til að freista eiginmanns hennar. Því miður hlustaði Adam á synduga eiginkonu sína og sýndi þar með að hann mat samband sitt við hana meir en samband sitt við Guð. (1. Mósebók 3:4-7) Í reynd kusu Adam og Eva að eiga Satan fyrir guð. — Samanber 2. Korintubréf 4:4.

3. Hvaða slæmar afleiðingar hafði uppreisn Adams og Evu?

3 Með því bæði glötuðu fyrstu mannhjónin dýrmætu sambandi sínu við Guð og einnig þeim möguleika að lifa eilíflega í jarðneskri paradís. (1. Mósebók 2:16, 17) Syndugir líkamar þeirra hrörnuðu smám saman uns þau dóu. Afkomendur þeirra erfðu þetta synduga ástand. „Þannig er dauðinn runninn til allra manna,“ útskýrir Biblían. — Rómverjabréfið 5:12.

4. Hvaða von veitti Guð syndugu mannkyni?

4 Einhvern veginn þurfti að sætta syndugt mannkyn við heilagan skapara sinn. Er Guð dæmdi Adam og Evu veitti hann ófæddum afkomendum þeirra von með því að lofa ‚sæði‘ er myndi bjarga mannkyninu undan áhrifunum af uppreisn Satans. (1. Mósebók 3:15) Síðar opinberaði Guð að afkvæmi eða sæði blessunarinnar myndi koma í ættlegg Abrahams. (1. Mósebók 22:18) Með þennan kærleiksríka tilgang í huga útvaldi Guð afkomendur Abrahams, Ísraelsmennina, sem þjóð sína.

5. Hvers vegna ættum við að hafa áhuga á lagasáttmála Guðs við Ísrael í einstökum atriðum?

5 Árið 1513 f.o.t. gengust Ísraelsmenn undir sáttmálasamband við Guð og féllust á að hlýða lögum hans. Allir sem vilja tilbiðja Guð nú á tímum, ættu að hafa mikinn áhuga á þessum lagasáttmála vegna þess að hann benti á fyrirheitna sæðið. Páll sagði að hann hefði að geyma „skugga hins góða, sem er í vændum.“ (Hebreabréfið 10:1) Þegar Páll sagði þetta var hann að ræða um þjónustu ísraelskra presta í færanlegum helgidómi, tjaldbúðinni. Hún var kölluð ‚musteri Jehóva‘ eða ‚hús Jehóva.‘ (1. Samúelsbók 1:9, 24) Með því að kynna okkur hina helgu þjónustu í jarðnesku húsi Jehóva Guðs getum við betur skilið miskunnarráðstöfun hans til að sætta synduga menn við sig.

Hið allra helgasta

6. Hvað var í hinu allra helgasta og hvernig var návist Guðs táknuð þar?

6 „Eigi býr hinn hæsti í því, sem með höndum er gjört,“ segir Biblían. (Postulasagan 7:48) En návist Guðs í jarðnesku húsi hans var táknuð með skýi í innsta rými þess, hinu allra helgasta. (3. Mósebók 16:2) Björtum ljóma virðist hafa stafað af skýinu sem lýsti upp hið allra helgasta. Skýið var yfir helgri kistu sem kallaðist ‚sáttmálsörkin‘ en í henni voru steintöflur sem sum af boðorðunum, er Guð gaf Ísrael, voru letruð á. Á arkarlokinu voru tveir gullkerúbar með útrétta vængi sem táknuðu háttsettar andaverur í himnesku skipulagi Guðs. Hið undraverða, lýsandi ský var yfir arkarlokinu milli kerúbanna. (2. Mósebók 25:22) Það táknaði hinn alvalda Guð sem situr í hásæti á himneskum stríðsvagni yfir lifandi kerúbum. (1. Kroníkubók 28:18) Það skýrir hvers vegna Hiskía konungur bað: „[Jehóva] allsherjar, Guð Ísraels, þú sem situr uppi yfir kerúbunum.“ — Jesaja 37:16.

Hið heilaga

7. Hvaða munir voru í hinu heilaga?

7 Annað rými tjaldbúðarinnar kallaðist hið heilaga. Þar inni, vinstra megin við innganginn, stóð fögur, sjöarma ljósastika og á hægri hönd var borð með skoðunarbrauðum. Beint á móti innganginum stóð altari og upp af því steig ilmurinn af brennandi reykelsi. Altarið stóð við fortjald milli hins heilaga og hins allra helgasta.

8. Hvaða skyldur inntu prestarnir reglulega af hendi í hinu heilaga?

8 Kvölds og morgna varð prestur að ganga inn í tjaldbúðina og brenna reykelsi á reykelsisaltarinu. (2. Mósebók 30:7, 8) Að morgni átti að bæta olíu á lampana sjö á gullljósastikunni meðan reykelsið brann. Að kvöldi var kveikt á lömpunum sjö til að lýsa upp hið heilaga. Hvern hvíldardag varð prestur að leggja 12 ný brauð á skoðunarbrauðaborðið. — 3. Mósebók 24:4-8.

Forgarðurinn

9. Til hvers var vatnskerið og hvað getum við lært af því?

9 Í tjaldbúðinni var einnig forgarður umlukinn gerði úr tjalddúk. Í þessum forgarði var stórt ker þar sem prestarnir þvoðu hendur sínar og fætur áður en þeir gengu inn í hið heilaga. Þeir urðu líka að þvo sér áður en þeir færðu fórnir á altarinu sem stóð í forgarðinum. (2. Mósebók 30:18-21) Þessi hreinlætiskrafa minnir þjóna Guðs nú á dögum sterklega á að þeir verði að kappkosta að vera hreinir líkamlega, siðferðilega, hugarfarslega og andlega til þess að tilbeiðsla þeirra sé Guði þóknanleg. (2. Korintubréf 7:1) Síðar voru musterisþjónar af erlendum uppruna látnir bera eldivið til altarisins og vatn í kerið. — Jósúabók 9:27.

10. Hvaða fórnir voru meðal annars færðar á fórnaraltarinu?

10 Kvölds og morgna var fórnað ungum hrút sem var brenndur á altarinu ásamt mjöl- og dreypifórn. (2. Mósebók 29:38-41) Aðrar fórnir voru færðar á tilteknum dögum. Stundum þurfti að færa fórn vegna ákveðinnar syndar. (3. Mósebók 5:5, 6) Við önnur tækifæri gat Ísraelsmaður sjálfviljuglega fært samfélagsfórn og þá átu prestanir hluta fórnarinnar og sá sem hana færði annan hluta. Það merkti að mennskir syndarar gætu átt frið við Guð, matast með honum ef svo mátti segja. Jafnvel útlendingur búsettur í landinu gat gerst tilbiðjandi Jehóva og öðlast þau sérréttindi að færa sjálfviljafórnir í húsi hans. En prestarnir gátu aðeins tekið við fórnum í hæsta gæðaflokki. Þannig sýndu þeir Jehóva tilhlýðilega virðingu. Mjölið, sem fórnað var, átti að vera fínmalað og fórnardýrin urðu að vera gallalaus. — 3. Mósebók 2:1; 22:18-20; Malakí 1:6-8.

11. (a) Hvað var gert við blóð fórnardýranna og til hvers vísaði það? (b) Hvernig lítur Guð á blóð bæði manna og dýra?

11 Blóð þessara fórnardýra var borið að altarinu. Það var þjóðinni dagleg áminning um að hún væri syndug og þarfnaðist lausnara sem myndi með úthelltu blóði sínu friðþægja varanlega fyrir syndir hennar og bjarga henni frá dauða. (Rómverjabréfið 7:24, 25; Galatabréfið 3:24; samanber Hebreabréfið 10:3.) Þessi helga notkun blóðsins minnti Ísraelsmenn líka á að blóðið táknaði lífið sem tilheyrir Guði. Guð hefur alltaf bannað mönnum alla aðra notkun blóðs. — 1. Mósebók 9:4; 3. Mósebók 17:10-12; Postulasagan 15:28, 29.

Friðþægingardagurinn

12, 13. (a) Til hvers var friðþægingardagurinn? (b) Hvað þurfti æðsti presturinn að gera áður en hann gat farið með blóð inn í hið allra helgasta?

12 Einu sinni á ári, á hinum svonefnda friðþægingardegi, varð öll Ísraelsþjóðin, þeirra á meðal útlendingar sem tilbáðu Jehóva, að leggja niður alla vinnu og fasta. (3. Mósebók 16:29, 30) Á þessum mikilvæga degi var þjóðin á táknrænan hátt hreinsuð af synd þannig að hún gæti átt friðsamlegt samband við Guð í eitt ár enn. Ímyndum okkur að við séum á staðnum og fylgjumst með því helsta sem við ber.

13 Æðsti presturinn er í forgarði tjaldbúðarinnar. Hann hefur þvegið sér við vatnskerið og slátrar uxa sem fórn. Blóði uxans er hellt í skál og það er síðan notað á sérstakan hátt til að friðþægja fyrir syndir prestaættar Leví. (3. Mósebók 16:4, 6, 11) En áður en æðsti presturinn gerir nokkuð meira við fórnina þarf hann að gera annað. Hann tekur ilmreykelsi (líklega í ausu) og glóð af altarinu í eldpönnu. Hann fer inn í hið heilaga og gengur í áttina að fortjaldinu fyrir hinu allra helgasta. Hann gengur hægt bak við fortjaldið og stendur frammi fyrir sáttmálsörkinni. Síðan, hulinn sjónum annarra manna, leggur hann reykelsi á glóandi kolin og hið allra helgasta fyllist ilmsætu skýi. — 3. Mósebók 16:12, 13.

14. Af hverju þurfti æðsti presturinn að fara með blóð tveggja mismunandi dýra inn í hið allra helgasta?

14 Nú er Guð fús til að sýna miskunn og taka við táknrænni friðþægingu. Það er vegna þessa sem arkarlokið er kallað ‚náðarstóllinn.‘ (Hebreabréfið 9:5) Æðsti presturinn gengur út úr hinu allra helgasta, tekur uxablóðið og gengur aftur inn. Eins og lögmálið býður dýfir hann fingri í blóðið og stekkur því sjö sinnum fyrir framan lokið á sáttmálsörkinni. (3. Mósebók 16:14) Því næst gengur hann aftur út í forgarðinn og slátrar hafri sem syndafórn ‚handa lýðnum.‘ Hann tekur hluta af blóði hafursins inn í hið allra helgasta og gerir hið sama og hann gerði við blóðið úr uxanum. (3. Mósebók 16:15) Önnur mikilvæg þjónusta var einnig veitt á friðþægingardeginum. Til dæmis varð æðsti presturinn að leggja hendur á höfuð annars hafurs og játa yfir honum „afbrot Ísraelsmanna.“ Þessi hafur var síðan leiddur lifandi út í eyðimörkina til að bera burt syndir þjóðarinnar í táknrænum skilningi. Á þennan hátt var friðþægt ár hvert „fyrir prestana og allt fólk safnaðarins.“— 3. Mósebók 16:16, 21, 22, 33.

15. (a) Að hvaða leyti var musteri Salómons líkt tjaldbúðinni? (b) Hvað segir Hebreabréfið um hina heilögu þjónustu bæði í tjaldbúðinni og musterinu?

15 Fyrstu 486 árin, sem Ísrael var sáttmálaþjóð Guðs, var hin færanlega tjaldbúð sá staður þar sem þjóðin tilbað Guð sinn, Jehóva. Þá voru Salómon Ísraelskonungi veitt þau sérréttindi að reisa varanlegt hús. Þótt þetta musteri skyldi vera stærra og íburðarmeira en tjaldbúðin fylgdi teikningin, sem Guð lét í té, sömu fyrirmynd og tjaldbúðin. Líkt og tjaldbúðin táknaði musterið meira og áhrifaríkara tilbeiðslufyrirkomulag sem Jehóva ætlaði ‚að reisa, en eigi maður.‘ — Hebreabréfið 8:2, 5; 9:9, 11.

Fyrra musterið og hið síðara

16. (a) Hvaða kærleiksríkrar bænar bað Salómon er hann vígði musterið? (b) Hvernig sýndi Jehóva að hann heyrði bæn Salómons?

16 Er Salómon vígði þetta dýrlega musteri bað hann þessarar innblásnu bænar: „Ef útlendingur, sem eigi er af lýð þínum Ísrael, en kemur úr fjarlægu landi sakir þíns mikla nafns, . . . ef þeir koma hingað og biðja frammi fyrir þessu húsi, þá heyr þú það frá himnum, aðseturstað þínum, og gjör allt það, sem útlendingurinn biður þig um, til þess að öllum þjóðum jarðarinnar verði kunnugt nafn þitt og þær óttist þig eins og lýður þinn Ísrael, og til þess að þær megi vita, að hús þetta, sem ég hefi byggt, er kennt við þig.“ (2. Kroníkubók 6:32, 33) Guð sýndi með ótvíræðum hætti að hann heyrði vígslubæn Salómons. Eldsúla kom af himni og eyddi dýrafórnunum á altarinu og dýrð Jehóva fyllti musterið. — 2. Kroníkubók 7:1-3.

17. Hvað varð að lokum um musterið sem Salómon reisti og hvers vegna?

17 Því miður glötuðu Ísraelsmenn heilnæmum ótta sínum við Jehóva. Er fram liðu stundir vanhelguðu þeir hið mikla nafn hans með blóðsúthellingum, skurðgoðadýrkun, hórdómi, sifjaspelli og illri meðferð á munaðarleysingjum, ekkjum og útlendingum. (Esekíel 22:2, 3, 7, 11, 12, 26, 29) Þess vegna fullnægði Guð dómi á þeim árið 607 f.o.t. með því að láta hersveitir Babýlonar eyða musterinu. Eftirlifandi Ísraelsmenn voru fluttir sem fangar til Babýlonar.

18. Hvaða sérréttindi buðust sumum mönnum af erlendum uppruna sem studdu tilbeiðsluna á Jehóva af heilu hjarta?

18 Eftir 70 ár sneru iðrunarfullar leifar Gyðinga heim til Jerúsalem og var veitt þau sérréttindi að endurbyggja musteri Jehóva. Athyglisvert er að skortur var á prestum og levítum til að þjóna í þessu síðara musteri. Af því leiddi að musterisþjónarnir, sem voru afkomendur erlendra musterisþræla, fengu enn meiri sérréttindi sem þjónustumenn í húsi Guðs. En þeir urðu aldrei jafningjar prestanna og levítanna. — Esrabók 7:24; 8:17, 20.

19. Hverju lofaði Guð í sambandi við síðara musterið og hvernig rættust orð hans?

19 Í fyrstu leit út fyrir að síðara musterið yrði ekki nema svipur hjá sjón í samanburði við hið fyrra. (Haggaí 2:3) En Jehóva lofaði: „Ég mun hræra allar þjóðir, svo að gersemar allra þjóða skulu hingað koma, og ég mun fylla hús þetta dýrð . . . Hin síðari dýrð þessa musteris mun meiri verða en hin fyrri var.“ (Haggaí 2:7, 9) Eins og spáð var veittist síðara musterinu meiri dýrð en hinu fyrra. Það stóð 164 árum lengur og miklu fleiri tilbiðjendur frá miklu fleiri löndum flykktust í forgarða þess. (Samanber Postulöguna 2:5-11.) Á dögum Heródesar konungs var hafist handa við að gera síðara musterið upp og forgarðarnir voru stækkaðir. Það stóð hátt á miklum steinpalli og var umkringt fögrum súlnagöngum, svo að tign þess jafnaðist fyllilega á við upphaflega musterið sem Salómon reisti. Þar var stór, ytri forgarður handa fólki af þjóðunum sem vildi tilbiðja Jehóva. Steinveggur var milli þessa forgarðs heiðingjanna og innri forgarðanna sem voru fyrir Ísraelsmenn eina.

20. (a) Hvaða sérstöðu naut endurbyggða musterið? (b) Hvað sýndi að Gyðingar höfðu rangt viðhorf til musterisins og hvað gerði Jesús þar af leiðandi?

20 Síðara musterið naut þeirrar miklu sérstöðu að sonur Guðs, Jesús Kristur, kenndi í forgörðum þess. En eins og var á dögum fyrra musterisins höfðu Gyðingar almennt ekki rétt viðhorf til þeirra sérréttinda að vera gæslumenn húss Guðs. Þeir leyfðu jafnvel kaupmönnum að stunda viðskipti í forgörðum heiðingjanna. Auk þess var fólki leyft að stytta sér leið um musterissvæðið er það flutti varning milli borgarhluta Jerúsalem. Fjórum dögum fyrir dauða sinn hreinsaði Jesús musterið af slíku veraldarvafstri og sagði margsinnis: „Er ekki ritað: ‚Hús mitt á að vera bænahús fyrir allar þjóðir?‘ En þér hafið gjört það að ræningjabæli.“ — Markús 11:15-17.

Guð yfirgefur jarðneskt hús sitt að eilífu

21. Hvað gaf Jesús til kynna í sambandi við musterið í Jerúsalem?

21 Jesús var hugrakkur málsvari hreinnar tilbeiðslu á Guði þannig að trúarleiðtogar Gyðinga voru staðráðnir í að drepa hann. (Markús 11:18) Jesús vissi að hann yrði myrtur innan skamms og sagði þessum trúarleiðtogum: „Hús yðar verður í eyði látið.“ (Matteus 23:37, 38) Þar með gaf hann til kynna að Guð myndi bráðlega hætta að viðurkenna tilbeiðsluna í hinu bókstaflega musteri í Jerúsalem. Það yrði ekki lengur „bænahús fyrir allar þjóðir.“ Þegar lærisveinar Jesú bentu honum á hinar mikilfenglegu musterisbyggingar sagði hann: „Þér sjáið allt þetta? . . . Hér mun ekki eftir látinn steinn yfir steini, er eigi sé niður brotinn.“ — Matteus 24:1, 2

22. (a) Hvernig rættust orð Jesú um musterið? (b) Hverju sóttust frumkristnir menn eftir í stað þess að binda vonir sínar jarðneskri borg?

22 Spádómur Jesú rættist 37 árum síðar árið 70 þegar rómverskur her eyddi Jerúsalem og musterinu. Það var ótvíræð sönnun þess að Guð hefði sannarlega yfirgefið jarðneskt hús sitt. Jesús spáði aldrei að musteri yrði endurreist á ný í Jerúsalem. Páll skrifaði kristnum Hebreum um þessa jarðnesku borg: „Hér höfum vér ekki borg er stendur, heldur leitum vér hinnar komandi.“ (Hebreabréfið 13:14) Frumkristnir menn hlökkuðu til að verða hluti „hinnar himnesku Jerúsalem“ — Guðsríkis sem líkja mátti við borg. (Hebreabréfið 12:22) Sönn tilbeiðsla Jehóva fer því ekki lengur fram í bókstaflegu musteri á jörð. Í næstu grein fjöllum við um hið ágætara fyrirkomulag sem Guð hefur gert handa öllum er þrá að tilbiðja hann „í anda og sannleika.“ — Jóhannes 4:21, 24.

[Upprifjunarspurningar]

◻ Hvaða samband við Guð misstu Adam og Eva?

◻ Af hverju ætti tilhögun tjaldbúðarinnar að vekja áhuga okkar?

◻ Hvað lærum við af því sem fram fór í forgarði tjaldbúðarinnar?

◻ Af hverju leyfði Guð að musteri hans væri eyðilagt?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 10, 11]

Hið endurbyggða musteri heródesar

1. Hið allra helgasta

2. Hið heilaga

3. Brennifórnaraltarið

4. Eirhafið

5. Forgarður prestanna

6. Forgarður Ísraels

7. Forgarður kvenna