Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Blessun eða bölvun — fordæmi fyrir okkur

Blessun eða bölvun — fordæmi fyrir okkur

Blessun eða bölvun — fordæmi fyrir okkur

„Allt þetta kom yfir þá sem fyrirboði, og það er ritað til viðvörunar oss, sem endir aldanna er kominn yfir.“ — 1. KORINTUBRÉF 10:11.

1. Hvað ættum við að rannsaka alveg eins og við skoðum áhald úr járni?

 JÁRNHLUTUR getur byrjað að ryðga undir málningunni án þess að það sjáist. Nokkur tími getur liðið uns ryðið sést á yfirborðinu. Eins geta viðhorf og langanir hjartans spillst löngu áður en alvarlegar afleiðingar koma í ljós eða aðrir taka eftir því. Alveg eins og við skoðum áhald úr járni vandlega til að sjá hvort það sé farið að ryðga, eins getur nákvæm athugun á hjartanu og tímanlegt viðhald varðveitt kristna ráðvendni okkar. Með öðrum orðum getum við hlotið blessun Guðs og forðast bölvun hans. Sumir halda kannski að blessanirnar og bölvanirnar, sem kveðnar voru upp yfir Ísrael fortíðarinnar, hafi lítið gildi fyrir þá sem lifa við endalok þessa heimskerfis. (Jósúabók 8:34, 35; Matteus 13:49, 50; 24:3) En það er öðru nær. Við getum haft mikið gagn af þeim varnaðardæmum sem tengjast Ísrael, eins og fram kemur í 1. Korintubréfi 10. kafla.

2. Hvað segir 1. Korintubréf 10:5, 6 um reynslu Ísraelsmanna í eyðimörkinni?

2 Páll postuli bendir á samsvörun með Ísraelsmönnum undir forystu Móse og kristnum mönnum undir forystu Krists. (1. Korintubréf 10:1-4) Enda þótt Ísraelsmenn hefðu getað gengið inn í fyrirheitna landið „hafði Guð enga velþóknun á flestum þeirra og þeir féllu í eyðimörkinni.“ Þess vegna sagði Páll kristnum bræðrum sínum: „Þessir hlutir hafa gjörst sem fyrirboðar fyrir oss, til þess að vér verðum ekki sólgnir í það, sem illt er, eins og þeir urðu sólgnir í það.“ (1. Korintubréf 10:5, 6) Langanir eru fóstraðar í hjartanu þannig að við þurfum að fara eftir varnaðardæmunum sem Páll nefnir.

Varað við skurðgoðadýrkun

3. Hvernig syndguðu Ísraelsmenn í sambandi við gullkálfinn?

3 Fyrsta viðvörun Páls er þessi: „Verðið ekki skurðgoðadýrkendur, eins og nokkrir þeirra. Ritað er: ‚Lýðurinn settist niður til að eta og drekka, og þeir stóðu upp til að leika.‘“ (1. Korintubréf 10:7) Ísraelsmenn sneru sér aftur að háttum Egyptalands og gerðu sér skurðgoð, gullkálf. Það var þetta varnaðardæmi sem Páll var að tala um. (2. Mósebók 32. kafli) Lærisveinninn Stefán benti á hvaða vandamál lá hér að baki: „Eigi vildu feður vorir hlýðnast [Móse, fulltrúa Guðs], heldur hrundu honum frá sér og þráðu í hjörtum sínum Egyptaland. Þeir sögðu við Aron: ‚Gjör oss guði, er fyrir oss fari, því að ekki vitum vér, hvað orðið er af Móse þeim, sem leiddi oss brott af Egyptalandi.‘ Og á þeim dögum smíðuðu þeir kálf, færðu skurðgoðinu fórn og kættust af verki handa sinna.“ (Postulasagan 7:39-41) Taktu eftir að það var „í hjörtum sér“ sem hinir einþykku Ísraelsmenn ólu með sér rangar langanir er leiddu til skurðgoðadýrkunar. ‚Þeir smíðuðu kálf og færðu skurðgoðinu fórn.‘ Og þeir „kættust af verki handa sinna.“ Þeir spiluðu, sungu, dönsuðu, átu og drukku. Skurðgoðadýrkunin var greinilega lokkandi og skemmtileg.

4, 5. Hvaða skurðgoðaathafnir þurfum við að forðast?

4 Heimur Satans, sem Egyptaland táknaði, nánast tilbiður skemmtanalífið. (1. Jóhannesarbréf 5:19; Opinberunarbókin 11:8) Hann dýrkar leikara, söngvara og íþróttastjörnur eins og goð, og einnig tónlist þeirra og hugmyndir um að njóta lífsins og skemmta sér. Margir hafa freistast til að steypa sér út í hringiðu skemmtanalífsins en segjast þó tilbiðja Jehóva. Þegar áminna þarf kristinn mann vegna rangrar breytni má oft rekja andlega veikleika hans til áfengisdrykkju, dans og skemmtunar sem jaðrar við skurðgoðadýrkun. (2. Mósebók 32:5, 6, 17, 18) Sum skemmtun er heilnæm og ánægjuleg. En veraldleg tónlist, dans, kvikmyndir og myndbönd höfða að stærstum hluta til spilltra og holdlegra langana.

5 Sannkristnir menn falla ekki fyrir skurðgoðadýrkun. (2. Korintubréf 6:16; 1. Jóhannesarbréf 5:21) Megi hvert og eitt okkar gæta þess jafnvel að ánetjast ekki skurðgoðakenndri skemmtun og hætta á skaðleg áhrif þess að sökkva sér niður í veraldlegt skemmtanalíf. Ef við gerum okkur berskjölduð fyrir veraldlegum áhrifum geta skaðlegar langanir og viðhorf tekið sér bólfestu í hugum okkar og hjörtum næstum án þess að við tökum eftir því. Ef þau eru ekki upprætt geta þau með tímanum orðið til þess að við ‚föllum í eyðimörkinni‘ eða heimskerfi Satans.

6. Hvaða afdráttarlausra aðgerða þurfum við ef til vill að grípa til í sambandi við skemmtanir?

6 Hinn „trúi og hyggni þjónn“ segir eiginlega við okkur eins og Móse gerði í sambandi við gullkálfinn: „Hver sem heyrir [Jehóva] til, komi hingað til mín!“ Afdráttarlausar aðgerðir til að sýna að við stöndum ákveðin með sannri tilbeiðslu geta bjargað lífi okkar. Levíættkvísl, sem Móse tilheyrði, greip til tafarlausra aðgerða til að uppræta spillingaráhrifin. (Matteus 24:45-47; 2. Mósebók 32:26-28) Skoðaðu því vandlega skemmtanaval þitt, tónlist, myndbönd og þess háttar. Ef það er spillandi á einhvern hátt, sýndu þá að þú standir með Jehóva. Reiddu þig á Guð, leitaðu til hans í bæn og breyttu skemmtanavali þínu og tónlist, og eyðileggðu andlega skaðlegt efni eins og Móse eyðilagði gullkálfinn. — 2. Mósebók 32:20; 5. Mósebók 9:21.

7. Hvernig getum við verndað hið táknræna hjarta?

7 Hvernig getum við unnið gegn því að hjartað spillist? Með því að nema orð Guðs af kappi og láta sannindi þess festa djúpar rætur í hugum okkar og hjörtum. (Rómverjabréfið 12:1, 2) Við ættum auðvitað að sækja kristnar samkomur reglulega. (Hebreabréfið 10:24, 25) Að sækja samkomur án þess að fylgjast með er sambærilegt við að mála yfir ryðbletti. Það lítur kannski vel út um tíma en það leysir ekki vandann sem er undir niðri. Með því að búa okkur undir samkomurnar, hugleiða efni þeirra og taka virkan þátt í þeim getum við ráðist harkalega gegn spillingaráhrifum sem leynast kannski í fylgsnum hins táknræna hjarta. Það hjálpar okkur að halda okkur við orð Guðs og styrkir okkur í að standast trúarraunir og verða „fullkomnir og algjörir.“ — Jakobsbréfið 1:3, 4; Orðskviðirnir 15:28.

Viðvörun gegn saurlifnaði

8-10. (a) Hvaða viðvörunardæmi er bent á í 1. Korintubréfi 10:8? (b) Hvernig getum við farið eftir orðum Jesú í Matteusi 5:27, 28 okkur til gagns?

8 Í næsta dæmi, sem Páll nefnir, er okkur ráðlagt: „Drýgjum ekki heldur hórdóm, eins og nokkrir þeirra drýgðu hórdóm, og tuttugu og þrjár þúsundir féllu á einum degi.“ * (1. Korintubréf 10:8) Postulinn hafði það í huga er Ísraelsmenn féllu fram fyrir falsguðum og ‚drýgðu hór með Móabs dætrum.‘ (4. Mósebók 25:1-9) Kynferðislegt siðleysi er lífshættulegt! Ef við leyfum siðlausum hugsunum og löngunum að leika lausum hala er það eins og að leyfa hjartanu að „ryðga.“ Jesús sagði: „Þér hafið heyrt, að sagt var: ‚Þú skalt ekki drýgja hór.‘ En ég segi yður: Hver sem horfir á konu í girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“ — Matteus 5:27, 28.

9 Afleiðingarnar af auvirðilegri hugsun óhlýðnu englanna fyrir flóðið á dögum Nóa sýna glöggt afleiðingarnar af því að ‚horfa á konu í girndarhug.‘ (1. Mósebók 6:1, 2) Mundu líka að kveikjan að einhverjum sorglegustu atburðunum í ævi Davíðs konungs var sú að hann hélt áfram að horfa á óviðeigandi hátt á konu. (2. Samúelsbók 11:1-4) Hinn réttláti Job, sem var kvæntur, gerði aftur á móti ‚sáttmála við augu sín að líta ekki til yngismeyjar‘ og forðaðist þannig siðleysi og reyndist ráðvandur. (Jobsbók 31:1-3, 6-11) Líkja mætti augunum við glugga hjartans. Og það er úr spilltu hjarta sem mörg ill verk og hugsanir koma. — Markús 7:20-23.

10 Ef við förum eftir orðum Jesú gefum við röngum hugsunum ekki lausan tauminn með því að horfa á klámfengið efni eða með því að gæla við siðlausar hugsanir um kristið trúsystkini, vinnufélaga eða einhvern annan. Við hreinsum ekki ryð af málmi með því að renna aðeins lauslega yfir það með bursta. Gerðu því ekki lítið úr siðlausum hugsunum og tilhneigingum eins og þær skipti litlu máli. Beittu kröftugum aðferðum til að losa þig við siðlausar hneigðir. (Samanber Matteus 5:29, 30.) Páll hvetur kristna menn: „Deyðið . . . hið jarðneska í fari yðar: Hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn og ágirnd, sem ekki er annað en skurðgoðadýrkun. Af þessu kemur reiði Guðs.“ Já, vegna synda eins og siðleysis „kemur reiði Guðs“ eins og bölvun frá honum. Við þurfum því að ‚deyða‘ limi okkar í sambandi við slíkt. — Kólossubréfið 3:5, 6.

Varað við aðfinnslum og uppreisnarhug

11, 12. (a) Hvaða viðvörun er veitt í 1. Korintubréfi 10:9 og hvaða atvik er átt við? (b) Hvaða áhrif ætti viðvörun Páls að hafa á okkur?

11 Því næst varar Páll við: „Freistum ekki heldur [Jehóva], eins og nokkrir þeirra freistuðu hans, þeir biðu bana af höggormum.“ (1. Korintubréf 10:9) Á eyðimerkurgöngu sinni nálægt landamærum Edóms talaði „lýðurinn . . . í gegn Guði og í gegn Móse: ‚Hví leidduð þið oss brott af Egyptalandi, til þess að vér dæjum í eyðimörkinni. Hér er hvorki brauð né vatn, og vér erum orðnir leiðir á þessu léttmeti,‘“ himnabrauðinu manna sem Guð sá þeim fyrir. (4. Mósebók 21:4, 5) Hugsaðu þér! Þessir Ísraelsmenn ‚töluðu í gegn Guði‘ og kölluðu ráðstafanir hans fyrirlitlegt léttmeti!

12 Með umkvörtunarsemi sinni voru Ísraelsmenn að reyna á þolinmæði Jehóva. Ekki var haldið aftur af refsingunni því að Jehóva sendi eitraða höggorma meðal þeirra og margir dóu af höggormsbitum. Plágan stöðvaðist eftir að fólkið hafði iðrast og Móse hafði beðið fyrir því. (4. Mósebók 21:6-9) Þetta atvik ætti vissulega að vera okkur til viðvörunar svo að við sýnum ekki uppreisnarhug eða kvörtum, einkum gegn Guði og guðræðisskipan hans.

Varað við mögli

13. Hverju varar 1. Korintubréf 10:10 við og hvaða uppreisn hafði Páll í huga?

13 Í síðasta dæminu um Ísraelsmenn í eyðimörkinni, sem Páll nefnir, segir hann: „Möglið ekki heldur eins og nokkrir þeirra mögluðu, þeir fórust fyrir eyðandanum.“ (1. Korintubréf 10:10) Uppreisn braust út þegar Kóra, Datan, Abíram og félagar þeirra komu óguðræðislega fram og véfengdu vald Móse og Arons. (4. Mósebók 16:1-3) Ísraelsmenn mögluðu eftir að uppreisnarmönnunum var eytt. Ástæðan var sú að þeim fannst óréttlátt að eyða þeim. Fjórða Mósebók 16:41 segir: „Daginn eftir möglaði allur söfnuður Ísraelsmanna í gegn þeim Móse og Aroni og sagði: ‚Þið hafið myrt lýð [Jehóva]!‘“ Þar eð Ísraelsmenn fundu að því hvernig réttvísinni var beitt í þetta skipti dóu 14.700 þeirra í plágunni sem Guð sendi. — 4. Mósebók 16:49.

14, 15. (a) Hver var ein af syndum þeirra ‚óguðlegu manna‘ sem læddust inn í söfnuðinn? (b) Hvaða lærdóm er hægt að draga af atvikinu í sambandi við Kóra?

14 Á fyrstu öld okkar tímatals læddust „óguðlegir menn“ inn í kristna söfnuðinn og reyndust vera bæði falskennarar og möglarar. Þessir menn ‚mátu að engu drottinvald og lastmæltu tignum,‘ smurðum karlmönnum sem var þá falin andleg umsjón safnaðarins. Lærisveinninn Júdas sagði jafnframt um þessa óguðlegu fráhvarfsmenn: „Þessir menn eru möglarar, umkvörtunarsamir og lifa eftir girndum sínum.“ (Júdasarbréfið 3, 4, 8, 16) Sumir verða möglarar nú á tímum af því að þeir leyfa andlega spillandi viðhorfum að þróast í hjörtum sér. Oft einblína þeir á ófullkomleika þeirra sem fara með umsjón í söfnuðinum og mögla gegn þeim. Möglið og umkvörtunarsemin nær jafnvel svo langt að gagnrýna rit ‚þjónshópsins.‘

15 Það er viðeigandi að spyrja einlægra spurninga um biblíuefni. En hvað þá ef neikvætt hugarfar gerir vart við sig og birtist í gagnrýnum umræðum innan þröngs vinahóps? Við ættum að spyrja okkur: ‚Hvernig ætli þetta endi? Væri ekki miklu betra að hætta möglinu og biðja auðmjúklega um visku?‘ (Jakobsbréfið 1:5-8; Júdasarbréfið 17-21) Kóra og stuðningsmenn hans, sem gerðu uppreisn gegn yfirráðum Móse og Arons, hafa kannski verið svo sannfærðir um að sjónarmið sín væru rétt að þeir skoðuðu ekki hvatir sínar. Hvað sem því leið höfðu þeir kolrangt fyrir sér. Eins var með Ísraelsmennina sem mögluðu yfir eyðingu Kóra og hinna uppreisnarmannanna. Það er viturlegt að láta slík dæmi koma okkur til að rannsaka hvatir okkar, kveða niður mögl eða umkvörtunarsemi og leyfa Jehóva að bæta okkur. — Sálmur 17:1-3.

Lærðu og njóttu blessunar

16. Hvert er inntak áminningarinnar í 1. Korintubréfi 10:11, 12?

16 Eftir að Páll hefur talið upp þessi viðvörunardæmi hvetur hann vegna innblásturs frá Guði: „Allt þetta kom yfir þá sem fyrirboði, og það er ritað til viðvörunar oss, sem endir aldanna er kominn yfir. Sá, er hyggst standa, gæti því vel að sér, að hann falli ekki.“ (1. Korintubréf 10:11, 12) Lítum ekki á stöðu okkar í kristna söfnuðinum sem sjálfsagðan hlut.

17. Hvað ættum við að gera ef við finnum fyrir röngum hvötum í hjörtum okkar?

17 Á sama hátt og járn hefur tilhneigingu til að ryðga, eins höfum við, afkomendur hins synduga Adams, erft tilhneigingu til illsku. (1. Mósebók 8:21; Rómverjabréfið 5:12) Þess vegna ættum við ekki að missa kjarkinn þótt við verðum vör við rangar hvatir í hjörtum okkar. Göngum heldur einbeitt til verks. Járn ryðgar mun hraðar en ella í röku lofti eða í snertingu við tærandi efni. Við þurfum að forðast snertingu við ‚loftið‘ í heimi Satans ásamt auvirðandi skemmtun þess, taumlausu siðleysi og skaðlegum tilhneigingum. — Efesusbréfið 2:1, 2.

18. Hvað hefur Jehóva gert í sambandi við rangar tilhneigingar mannkynsins?

18 Jehóva hefur séð mannkyninu fyrir leið til að vinna gegn röngum tilhneigingum sem það hefur erft. Hann gaf eingetinn son sinn til að þeir sem trúa á hann geti öðlast eilíft líf. (Jóhannes 3:16) Ef við fetum nákvæmlega í fótspor Jesú Krists og látum persónuleika okkar líkjast honum verðum við öðrum til blessunar. (1. Pétursbréf 2:21) Þá hljótum við blessun Guðs en ekki bölvun.

19. Hvernig getum við haft gagn af því að íhuga dæmi úr Ritningunni?

19 Þótt okkur sé jafn villugjarnt og Ísraelsmönnum fortíðar höfum við allt hið ritaða orð Guðs til leiðsagnar. Á síðum þess lærum við um viðskipti Jehóva við mannkynið og eiginleika hans eins og þeir birtust í Jesú, ‚ljóma dýrðar Guðs og ímynd veru hans.‘ (Hebreabréfið 1:1-3; Jóhannes 14:9, 10) Með bæn og kostgæfnu námi í Ritningunni getum við öðlast „huga Krists.“ (1. Korintubréf 2:16) Þegar freistingar og aðrar trúarprófraunir mæta okkur getum við notið góðs af því að hugleiða forn dæmi úr Ritningunni en einkum þó hið afbragðsgóða fordæmi Jesú Krists. Ef við gerum það uppskerum við ekki bölvun Jehóva Guðs, heldur njótum hylli hans núna og blessunar um alla eilífð.

[Neðanmáls]

^ Sjá Varðturninn 1. ágúst 1992, bls. 4.

Hvert er svar þitt?

◻ Hvernig getum við farið eftir ráðum Páls um að verða ekki skurðgoðadýrkendur?

◻ Hvað getum við gert til að fara eftir viðvörun postulans gegn hórdómi og saurlifnaði?

◻ Hvers vegna ættum við að forðast að mögla og kvarta?

◻ Hvernig getum við hlotið blessun Guðs en ekki bölvun?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 29]

Ef við viljum blessun Guðs verðum við að forðast skurðgoðadýrkun.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Fjarlægjum rangar langanir afdráttarlaust úr hjörtum okkar alveg eins og ryð af áhaldi.