Blessun eða bölvun — við getum valið!
Blessun eða bölvun — við getum valið!
„Ég hefi lagt fyrir þig lífið og dauðann, blessunina og bölvunina. Veldu þá lífið, til þess að þú . . . [megir] lifa.“ — 5. MÓSEBÓK 30:19.
1. Hvaða hæfileiki var mönnum gefinn?
JEHÓVA GUÐ skapaði okkur, skynsemigæddar sköpunarverur sínar, með frjálsa siðferðisvitund. Við vorum ekki sköpuð eins og vélmenni heldur veitt þau sérréttindi og sú ábyrgð að mega velja. (Sálmur 100:3) Fyrstu mennirnir, Adam og Eva, voru frjálsir til að velja sér lífsstefnu og báru ábyrgð fyrir Guði á vali sínu.
2. Hvað valdi Adam og með hvaða afleiðingum?
2 Skaparinn hefur af miklu örlæti gert ráðstafanir til að menn geti hlotið eilífa blessun í paradís á jörð. Hvers vegna hefur sá tilgangur enn ekki náð fram að ganga? Vegna þess að Adam valdi ekki rétt. Jehóva hafði lagt fyrir manninn: „Af öllum trjám í aldingarðinum máttu eta eftir vild, en af skilningstrénu góðs og ills mátt þú ekki eta, því að jafnskjótt og þú etur af því, skalt þú vissulega deyja.“ (1. Mósebók 2:16, 17) Ef Adam hefði kosið að hlýða hefðu fyrstu foreldrar okkar uppskorið blessun. Óhlýðni hafði dauða í för með sér. (1. Mósebók 3:6, 18, 19) Synd og dauði hafa því gengið í arf til allra afkomenda Adams. — Rómverjabréfið 5:12.
Gerðar ráðstafanir til blessunar
3. Hvernig veitti Guð vissu fyrir því að tilgangur hans með mannkynið næði fram að ganga?
3 Jehóva Guð gerði ráðstafanir til að sá tilgangur hans að blessa allt mannkyn næði fram að ganga um síðir. Hann sagði sjálfur fyrir um komu sæðis er hann spáði í Eden: „Fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess.“ (1. Mósebók 3:15) Guð lofaði síðar að hlýðið mannkyn myndi öðlast blessun fyrir atbeina þessa sæðis eða afkvæmis sem yrði afkomandi Abrahams. — 1. Mósebók 22:15-18.
4. Hvaða ráðstöfun hefur Jehóva gert til blessunar mannkyni?
4 Þetta fyrirheitna sæði blessunarinnar reyndist vera Jesús Kristur. Kristni postulinn Páll skrifaði um hlutverk Jesú í blessunarráðstöfun Jehóva handa mannkyni: „Guð auðsýnir kærleika sinn til vor, þar sem Kristur er fyrir oss dáinn meðan vér enn vorum í syndum vorum.“ (Rómverjabréfið 5:8) Þeir syndugu menn, sem hlýða Guði og notfæra sér gildi lausnarfórnar Jesú Krists, munu hljóta blessun Guðs. (Postulasagan 4:12) Ætlar þú að velja hlýðni og blessun? Óhlýðni hefur allt annað í för með sér.
Hvað um bölvunina?
5. Hvað merkir orðið „bölvun“?
5 Bölvun er andstæða blessunar. Orðið „bölvun“ merkir að óska öðrum ills eða formæla honum. Hebreska orðið kúelalahʹ er dregið af sagnrótinni kúalalʹ sem merkir bókstaflega að „vera léttur.“ Í óeiginlegri merkingu þýðir það hins vegar að ‚bölva,‘ ‚lítilsvirða‘ eða formæla. — 3. Mósebók 20:9; 2. Samúelsbók 19:43.
6. Hvaða atvik átti sér stað í sambandi við Elísa í grennd við Betel?
6 Tökum áhrifamikið dæmi um tafarlausar aðgerðir er tengdust bölvun. Það átti sér stað þegar Elísa, spámaður Guðs, var á gangi frá Jeríkó til Betel. Frásagan segir: „Er hann gekk upp veginn, gengu smásveinar út úr borginni, hæddu hann og kölluðu til hans: ‚Kom hingað, skalli! Kom hingað, skalli!‘ Sneri hann sér þá við, og er hann sá þá, formælti hann þeim í nafni [Jehóva]. Þá komu tvær birnur út úr skóginum og rifu í sundur fjörutíu og tvo af drengjunum.“ (2. Konungabók 2:23, 24) Frásagan getur þess ekki nákvæmlega hvað Elísa sagði er hann formælti börnunum sem hæddust að honum. En orð hans voru áhrifamikil af því að þau voru töluð í nafni Jehóva Guðs af spámanni hans og í samræmi við vilja hans.
7. Hvernig fór fyrir börnunum, sem hæddu Elísa, og hvers vegna?
7 Aðalástæðan fyrir háðsglósunum virðist hafa verið sú að Elísa var í hinni kunnuglegu embættisskikkju Elía, og börnin vildu ekki sjá neinn arftaka spámannsins. (2. Konungabók 2:13) Þau voru að véfengja að Elísa væri arftaki Elía. Til að svara því og kenna þessum krökkum og foreldrum þeirra að sýna spámanni Jehóva tilhlýðilega virðingu kallaði hann bölvun yfir hópinn í nafni Guðs Elía. Jehóva sýndi að Elísa hefði velþóknun hans sem spámaður með því að láta tvær birnur koma út úr skóginum og rífa sundur 42 af drengjunum sem hæddust að honum. Jehóva tók afdráttarlaust á málinu vegna þessa óskammfeilna virðingarleysis gagnvart þeirri boðleið sem hann notaði á jörðinni á þeim tíma.
8. Hvað samþykktu Ísraelsmenn að gera og hvað áttu þeir í vændum?
8 Löngu áður höfðu Ísraelsmenn sýnt sams konar virðingarleysi fyrir ráðstöfunum Guðs. Málsatvik voru þessi: Árið 1513 f.o.t. sýndi Jehóva Ísraelsmönnum velvild með því að frelsa þá úr ánauð í Egyptalandi eins og „á arnarvængjum.“ Skömmu síðar skuldbundu þeir sig til að hlýða honum. Taktu eftir hvernig hlýðni við Guð og velþóknun hans voru óaðskiljanleg. Jehóva sagði fyrir munn Móse: „Ef þér hlýðið minni röddu grandgæfilega og haldið minn sáttmála, þá skuluð þér vera mín eiginleg eign umfram allar þjóðir, því að öll jörðin er mín.“ Fólkið játaðist undir það og sagði: „Vér viljum gjöra allt það, sem [Jehóva] býður.“ (2. Mósebók 19:4, 5, 8; 24:3) Ísraelsmenn sögðust elska Jehóva, vígðust honum og hétu að hlýða röddu hans. Það myndi hafa mikla blessun í för með sér.
9, 10. Hvað gerðu Ísraelsmenn meðan Móse var á Sínaífjalli og með hvaða afleiðingum?
9 En áður en undirstöðureglur þessa sáttmála voru grafnar í stein með „fingri Guðs“ reyndist bölvun frá Guði nauðsynleg. (2. Mósebók 31:18) Hvers vegna verðskulduðu Ísraelsmenn hana? Höfðu þeir ekki látið í ljós að þeir vildu gera allt sem Jehóva hafði talað? Jú, í orði kveðnu sóttust þeir eftir blessun hans, en í verki tóku þeir stefnu sem verðskuldaði bölvun.
10 Meðan Móse dvaldist í 40 daga á Sínaífjalli þar sem hann fékk boðorðin tíu, brutu Ísraelsmenn nýlegt hollustuheit sitt við Jehóva. „Er fólkið sá, að seinkaði komu Móse ofan af fjallinu,“ segir frásagan, „þyrptist fólkið í kringum Aron og sagði við hann: ‚Kom og gjör oss guð, er fyrir oss fari, því að vér vitum ekki, hvað af þessum Móse er orðið, manninum, er leiddi oss burt af Egyptalandi.‘“ (2. Mósebók 32:1) Þetta er annað dæmi um óvirðingu gagnvart manni sem Jehóva notaði á þeim tíma til að leiða og leiðbeina fólki sínu. Ísraelsmenn létu tælast til að herma eftir egypskri skurðgoðadýrkun með skelfilegum afleiðingum þegar hér um bil 3000 þeirra féllu fyrir sverði á einum degi. — 2. Mósebók 32:2-6, 25-29.
Lýst yfir blessun og bölvun
11. Hvaða fyrirmælum framfylgdi Jósúa í sambandi við blessanir og bölvanir?
11 Er dró að lokum 40 ára eyðimerkurgöngu Ísraelsmanna taldi Móse upp blessanirnar sem öðlast mátti með því að velja að hlýða Guði. Hann taldi líka upp bölvanirnar sem Ísraelsmenn hlytu ef þeir kysu að óhlýðnast Jehóva. (5. Mósebók 27:11–28:10) Skömmu eftir að Ísraelsmenn gengu inn í fyrirheitna landið framfylgdi Jósúa fyrirmælum Móse í sambandi við þessar blessanir og bölvanir. Sex ættkvíslir Ísraels stóðu við rætur Ebalfjalls og hinar sex stóðu við Garísímfjall. Levítarnir stóðu í dalnum á milli fjallanna. Að því er virðist sögðu ættkvíslirnar við Ebalfjall „amen“ við bölvununum sem lesnar voru í þá áttina. Hinar svöruðu blessununum sem levítarnir lásu í áttina til þeirra við rætur Garísímfjalls. — Jósúabók 8:30-35.
12. Nefndu nokkrar bölvanir sem levítarnir lýstu yfir.
12 Ímyndaðu þér að þú heyrir levítana segja: „Bölvaður er sá maður, sem býr til skurðgoð eða steypt líkneski, andstyggð [Jehóva], handaverk smiðs, og reisir það á laun! . . . Bölvaður er sá, sem óvirðir föður sinn eða móður sína! . . . Bölvaður er sá, sem færir úr stað landamerki náunga síns! . . . Bölvaður er sá, sem leiðir blindan mann af réttri leið! . . . Bölvaður er sá, sem hallar rétti útlends manns, munaðarleysingja eða ekkju! . . . Bölvaður er sá, sem leggst með konu föður síns, því að hann hefir flett upp ábreiðu föður síns! . . . Bölvaður er sá, sem hefir samlag við nokkra skepnu! . . . Bölvaður er sá, sem leggst með systur sinni, hvort heldur hún er dóttir föður hans eða dóttir móður hans! . . . Bölvaður er sá, sem leggst með tengdamóður sinni! . . . Bölvaður er sá, sem vegur náunga sinn á laun! . . . Bölvaður er sá, sem lætur múta sér til þess að vega saklausan mann! . . . Bölvaður er sá, sem eigi heldur í gildi orðum þessa lögmáls með því að breyta eftir þeim!“ Eftir hverja bölvun segja ættkvíslirnar við rætur Ebalfjalls: „Amen.“ — 5. Mósebók 27:15-26.
13. Hvernig gætirðu lýst með eigin orðum nokkrum blessunum sem levítarnir lásu upp?
13 Ímyndaðu þér nú að þú heyrir þá sem standa við rætur Garísímfjalls svara hverri blessun um leið og levítarnir hrópa: „Blessaður ert þú í borginni og blessaður ert þú á akrinum. Blessaður er ávöxtur kviðar þíns og ávöxtur lands þíns og ávöxtur fénaðar þíns, viðkoma nautgripa þinna og burðir hjarðar þinnar. Blessuð er karfa þín og deigtrog þitt. Blessaður ert þú, þegar þú gengur inn, og blessaður ert þú, þegar þú gengur út.“ — 5. Mósebók 28:3-6.
14. Á hvaða forsendum gátu Ísraelsmenn hlotið blessun?
14 Á hvaða forsendum gátu þeir hlotið þessar blessanir? Frásagan segir: „Ef þú hlýðir grandgæfilega raustu [Jehóva] Guðs þíns, svo að þú varðveitir og heldur allar skipanir hans, þær er ég legg fyrir þig í dag, þá mun [Jehóva] Guð þinn hefja þig yfir allar þjóðir á jörðu, og þá munu fram við þig koma og á þér rætast allar þessar blessanir, ef þú hlýðir raustu [Jehóva] Guðs þíns.“ (5. Mósebók 28:1, 2) Já, hlýðni við Guð var lykillinn að blessun hans. En hvað um okkur nútímamenn? Munum við hvert og eitt velja blessun og líf með því að halda áfram að ‚hlýða raustu Jehóva‘? — 5. Mósebók 30:19, 20.
Málið skoðað nánar
15. Hvað var bent á í sambandi við blessunina, sem lýst er í 5. Mósebók 28:3, og hvernig getum við notið góðs af henni?
15 Við skulum líta á vissar blessanir sem Ísraelsmaður gat notið ef hann hlýddi Jehóva. Til dæmis segir 5. Mósebók 28:3: „Blessaður ert þú í borginni og blessaður ert þú á akrinum.“ Blessun Guðs er ekki háð því hvar við erum stödd eða hvaða verkefni við höfum. Sumum kann að finnast aðstæðurnar hneppa sig í fjötra, kannski í stríðshrjáðu landi eða á svæði þar sem fátækt er mikil. Aðrir þrá kannski að þjóna Jehóva annars staðar. Kristinn maður getur verið daufur í dálkinn af því að hann hefur ekki verið skipaður safnaðarþjónn eða öldungur. Stundum eru kristnar konur niðurdregnar af því að þær eru ekki í aðstöðu til að starfa sem brautryðjendur eða trúboðar. En allir, sem ‚hlýða raustu Jehóva og varðveita og halda allar skipanir hans,‘ hljóta blessun nú og um eilífð.
16. Hvernig finnur skipulag Jehóva nú á tímum fyrir meginreglunni í 5. Mósebók 28:4?
16 Fimmta Mósebók 28:4 segir: „Blessaður er ávöxtur kviðar þíns og ávöxtur lands þíns og ávöxtur fénaðar þíns, viðkoma nautgripa þinna og burðir hjarðar þinnar.“ Að hebreska fornafnið, sem þýtt er „þíns,“ skuli standa í eintölu gefur til kynna að hér sé átt við persónulega reynslu hlýðins Ísraelsmanns. Hvað um hlýðna þjóna Jehóva nú á dögum? Vöxturinn og aukningin í skipulagi votta Jehóva, sem á sér stað núna, er afleiðing af því að Guð blessar einlæga viðleitni meira en 5.000.000 boðbera fagnaðarerindisins um ríkið. (Markús 13:10) Og vaxtarmöguleikarnir eru miklir því að yfir 13.000.000 manna voru viðstaddar kvöldmáltíð Drottins árið 1995. Nýtur þú blessunar Guðsríkis?
Val Ísraels skipti sköpum
17. Hverju var það háð að blessanir eða bölvanir ‚hrinu á‘ Ísraelsmönnum?
17 Blessanirnar myndu eiginlega elta hlýðinn Ísraelsmann. Honum var heitið: „Þá munu fram við þig koma og á þér rætast allar þessar blessanir.“ (5. Mósebók 28:2) Eins var sagt um bölvanirnar: „Þá munu fram við þig koma og á þér hrína allar þessar bölvanir.“ (5. Mósebók 28:15) Ef þú hefðir verið Ísraelsmaður til forna, hefðu þá blessanir eða bölvanir ‚hrinið á þér‘? Það hefði ráðist af því hvort þú hlýddir Guði eða óhlýðnaðist.
18. Hvernig gátu Ísraelsmenn umflúið bölvanirnar?
18 Í 5. Mósebók 28:15-68 er þungbærum afleiðingum óhlýðninnar lýst sem bölvunum. Sumar eru nákvæm andstæða blessananna sem upp eru taldar í 5. Mósebók 28:3-14. Oft uppskáru Ísraelsmenn vægðarlausar bölvanir vegna þess að þeir kusu að taka þátt í falsguðadýrkun. (Esrabók 9:7; Jeremía 6:6-8; 44:2-6) Það var sorglegt! Slíkar afleiðingar hefði mátt forðast með því að velja rétt, það er að segja að hlýða heilnæmum lögum Jehóva og meginreglum sem skilgreina gott og illt mjög greinilega. Margir mega þola sársauka og ógæfu af því að þeir hafa valið að ganga gegn meginreglum Biblíunnar með því að stunda falstrú, taka þátt í siðleysi, neyta fíkniefna, drekka í óhófi og þess háttar. Eins og í Forn-Ísrael og Júda hefur það vanþóknun Guðs í för með sér að velja svona illa og veldur óþarfri hjartasorg. — Jesaja 65:12-14.
19. Lýstu aðstæðunum sem Júda- og Ísraelsmenn bjuggu við þegar þeir kusu að hlýða Jehóva.
19 Það var aðeins þegar Ísrael hlýddi Jehóva sem blessunin og friðsældin var ríkuleg. Til dæmis lesum við um stjórnarár Salómons konungs: „Júda og Ísrael voru fjölmennir, sem sandur á sjávarströndu, þeir átu og drukku og voru glaðir . . . svo að Júda og Ísrael bjuggu öruggir, hver maður undir sínu víntré og fíkjutré, frá Dan til Beerseba, alla ævi Salómons.“ (1. Konungabók 4:20-25) Jafnvel á dögum Davíðs konungs, sem einkenndust af mikilli andstöðu óvina Guðs, fann þjóðin fyrir stuðningi hans og blessun þegar hún kaus að hlýða Guði sannleikans. — 2. Samúelsbók 7:28, 29; 8:1-15.
20. Hverju treystir Guð í sambandi við menn?
20 Ætlar þú að hlýðnast Guði eða óhlýðnast? Ísraelsmenn gátu valið. Enda þótt við höfum öll erft syndugar tilhneigingar frá Adam hefur okkur líka verið veitt valfrelsi. Þrátt fyrir Satan, þennan illa heim og ófullkomleika okkar getum við valið rétt. Og skapari okkar treystir því að til verði menn sem velji rétt andspænis öllum prófraunum og freistingum, ekki bara í orði heldur líka verki. (1. Pétursbréf 5:8-10) Verður þú meðal þeirra?
21. Hvað skoðum við í næstu grein?
21 Í næstu grein er okkur hjálpað að vega og meta viðhorf okkar og verk í ljósi fornra dæma. Megum við hvert og eitt bregðast þakklát við orðum Guðs fyrir munn Móse: „Ég hefi lagt fyrir þig lífið og dauðann, blessunina og bölvunina. Veldu þá lífið, til þess að þú . . . [megir] lifa.“ — 5. Mósebók 30:19.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvernig hefur Jehóva gert syndugum mönnum kleift að öðlast blessun?
◻ Hvað er bölvun?
◻ Hvernig hefðu Ísraelsmenn getað hlotið blessun en ekki bölvun?
◻ Hvaða blessunar nutu Ísraelsmenn þegar þeir hlýddu Guði?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 26]
Ísraelsmenn komu saman við rætur Garísímfjalls og Ebalfjalls.
[Rétthafi]
Pictorial Archive (Near Eastern History) Est.