Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sigur sannrar tilbeiðslu er í nánd

Sigur sannrar tilbeiðslu er í nánd

Sigur sannrar tilbeiðslu er í nánd

„Jehóva skal verða konungur yfir allri jörðinni.“ — SAKARÍA 14:9, NW.

1. Hverju urðu smurðir kristnir menn fyrir í fyrri heimsstyrjöldinni og hvernig var því spáð?

 Á DÖGUM fyrri heimsstyrjaldarinnar þoldu smurðir kristnir menn miklar þrengingar og fangavist af hendi hinna stríðandi þjóða. Lofgerðarfórnum þeirra til Jehóva voru veruleg takmörk sett og þeir voru hnepptir í andlega fjötra. Allt var þetta sagt fyrir í Sakaría 14:2 sem lýsir alþjóðlegri árás á Jerúsalem. Borgin í þessum spádómi er ‚hin himneska Jerúsalem,‘ himneskt ríki Guðs þar sem „hásæti Guðs og lambsins“ er. (Hebreabréfið 12:22, 28; 13:14; Opinberunarbókin 22:3) Smurðir þjónar Guðs á jörðinni voru fulltrúar þessarar borgar. Hinir trúföstu þeirra á meðal lifðu árásina af og neituðu að láta herleiða sig „úr borginni.“ *

2, 3. (a) Hvernig hefur tilbeiðslan á Jehóva hrósað sigri frá 1919? (b) Hvaða þróun hefur átt sér stað frá 1935?

2 Árið 1919 voru trúfastir smurðir kristnir menn frelsaðir úr ánauð sinni og nýttu sér friðartímabilið í kjölfar stríðsins þegar í stað. Sem erindrekar hinnar himnesku Jerúsalem gripu þeir hið ágæta tækifæri, sem gafst, til að prédika fagnaðarerindið um ríki Guðs og aðstoða við samansöfnun þeirra síðustu af hinum 144.000. (Matteus 24:14; 2. Korintubréf 5:20) Árið 1931 tóku þeir sér hið viðeigandi biblíulega nafn vottar Jehóva. — Jesaja 43:10, 12.

3 Þaðan í frá hafa smurðir vottar Guðs aldrei slegið slöku við. Hitler gat ekki einu sinni þaggað niður í þeim með nasistahervél sinni. Þrátt fyrir ofsóknir um heim allan hefur starf þeirra alls staðar borið ávöxt. Sérstaklega frá 1935 hefur alþjóðlegur „mikill múgur,“ sem spáð var um í Opinberunarbókinni, gengið í lið með þeim. Þeir eru líka vígðir, skírðir kristnir menn og hafa „þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins.“ (Opinberunarbókin 7:9, 14) En þeir eru ekki smurðir og hafa ekki von um líf á himnum. Von þeirra er sú að að erfa það sem Adam og Eva glötuðu, það er að segja fullkomið líf sem menn í paradís á jörð. (Sálmur 37:29; Matteus 25:34) Í þessum mikla múgi eru nú yfir fimm milljónir sálna. Sönn tilbeiðsla Jehóva hrósar sigri en lokasigur hennar er enn framundan.

Útlendingar í andlegu musteri Guðs

4, 5. (a) Hvar tilbiður múgurinn mikli Jehóva? (b) Hvaða sérréttinda nýtur hann og hvaða spádómur er þar að uppfyllast?

4 Eins og spáð var „tilbiður“ múgurinn mikli Guð „dag og nótt í musteri hans.“ (Opinberunarbókin 7:15, NW Ref. Bi. neðanmáls) Þar eð þeir sem mynda múginn mikla eru ekki andlegir Ísraelsmenn og prestar er líklegt að Jóhannes hafi séð þá standa í ytri forgarði heiðingjanna í musterinu. (1. Pétursbréf 2:5) Andlegt musteri Jehóva er sannarlega orðið dýrlegt þar sem forgarðar þess fyllast þessari miklu mannþröng er lofar hann ásamt leifum hins andlega Ísraels!

5 Múgurinn mikli þjónar Guði ekki á þann hátt sem innri forgarður prestanna táknar. Þeir sem mynda hann eru ekki lýstir réttlátir í þeim tilgangi að vera andlegir kjörsynir Guðs. (Rómverjabréfið 8:1, 15) Engu að síður standa þeir hreinir frammi fyrir Jehóva af því að þeir trúa á lausnarfórn Jesú. Þeir eru lýstir réttlátir sem vinir Guðs. (Samanber Jakobsbréfið 2:21, 23.) Þeir hafa líka þau sérréttindi að færa Guði velþóknanlegar fórnir á andlegu altari hans. Þannig er spádómurinn í Jesaja 56:6, 7 að fá dýrlega uppfyllingu í þessum mikla múgi: „Útlendinga, sem gengið hafa [Jehóva] á hönd til þess að þjóna honum og til þess að elska nafn [Jehóva], . . . þá mun ég leiða til míns heilaga fjalls og gleðja þá í bænahúsi mínu. Brennifórnir þeirra og sláturfórnir skulu vera mér þóknanlegar á altari mínu. Því að hús mitt skal nefnast bænahús fyrir allar þjóðir.“

6. (a) Hvers konar fórnir færa útlendingarnir? (b) Hvað minnir vatnskerið í forgarði prestanna þá á?

6 Meðal fórnanna, sem þessir útlendingar færa, er ‚ávöxtur vara [líkt og matfórn úr fínu mjöli] er játa nafn Guðs,‘ ásamt ‚velgjörðasemi og hjálpsemi.‘ (Hebreabréfið 13:15, 16) Vatnskerið stóra, sem prestarnir urðu að nota til að þvo sér, er einnig mikilvæg áminning fyrir þessa útlendinga. Þeir verða líka að hreinsast andlega og siðferðilega samhliða því að orð Guðs skýrist stig af stigi fyrir þeim.

Hið heilaga og munirnir í því

7. (a) Hvernig lítur múgurinn mikli á sérréttindi hins heilaga prestafélags? (b) Hvaða viðbótarsérréttindi hafa sumir útlendingar hlotið?

7 Hafa hið heilaga og munirnir í því einhverja þýðingu fyrir þennan mikla múg útlendinga? Þeir verða auðvitað aldrei í því ástandi sem hið heilaga táknaði. Þeir eru ekki endurfæddir sem andlegir synir Guðs með himneskt ríkisfang. Finna þeir til öfundar eða ágirndar? Nei, þeir fagna þeim sérréttindum sínum að styðja leifar hinna 144.000, og þeir sýna að þeir meta þann tilgang Guðs mikils að taka sér þessa andlegu syni sem eiga munu hlutdeild með Kristi í að lyfta mannkyninu upp til fullkomleika. Og hin mikla, óverðskuldaða góðvild Guðs að veita hinum mikla múgi útlendinga von um eilíft líf í paradís á jörð, er þeim mjög dýrmæt. Sumum þessara útlendinga hafa verið veitt umsjónarsérréttindi til aðstoðar hinu heilaga prestafélagi eins og musterisþjónunum til forna. * (Jesaja 61:5) Jesús skipar ‚höfðingja um alla jörðina‘ úr hópi þeirra. — Sálmur 45:17.

8, 9. Hvaða gagn hefur múgurinn mikli af því að hugleiða þýðingu munanna í hinu heilaga?

8 Enda þótt hinn mikli múgur útlendinga gangi aldrei inn í það sem hið heilaga táknaði draga þeir verðmætan lærdóm af mununum þar. Alveg eins og ljósastikan þurfti stöðugt að fá olíu þurfa útlendingarnir heilagan anda til að hjálpa sér að skilja sannleikann í orði Guðs stig af stigi, eins og ‚trúi og hyggni þjónninn‘ kemur honum á framfæri. (Matteus 24:45-47) Og andi Guðs hjálpar þeim að þiggja eftirfarandi boð: „Andinn og brúðurin [hinar smurðu leifar] segja: ‚Kom þú!‘ Og sá sem heyrir segi: ‚Kom þú!‘ Og sá sem þyrstur er, hann komi. Hver sem vill, hann fær ókeypis lífsins vatn.“ (Opinberunarbókin 22:17) Ljósastikan minnir múginn mikla þannig á skyldu sína að skína sem kristnir menn og forðast hvaðeina í viðhorfi, hugsun, orði eða verki sem myndi hryggja heilagan anda Guðs. — Efesusbréfið 4:30.

9 Skoðunarbrauðaborðið minnir þá, sem eru af múginum mikla, á að til þess að halda sér andlega heilbrigðum verði þeir stöðuglega að neyta andlegrar fæðu frá Biblíunni og ritum hins ‚trúa og hyggna þjóns.‘ (Matteus 4:4) Reykelsisaltarið minnir þá á hve mikilvægt sé að biðja Jehóva um hjálp til að varðveita ráðvendni sína. (Lúkas 21:36) Bænir þeirra ættu líka að fela í sér innilegt lof og þakkir. (Sálmur 106:1) Reykelsisaltarið minnir þá einnig á að þeir þurfi að lofa Guð á aðra vegu, svo sem með því að syngja ríkissöngvana af hjartans lyst á kristnum samkomum og með því að undirbúa sig vel svo að ‚játning þeirra til hjálpræðis‘ verði árangursrík. — Rómverjabréfið 10:10.

Fullnaðarsigur sannrar tilbeiðslu

10. (a) Hvaða stórkostlegs atburðar getum við hlakkað til? (b) Hvað verður að gerast fyrst?

10 „Margar þjóðir“ frá öllum heimshornum streyma nú til tilbeiðsluhúss Jehóva. (Jesaja 2:2, 3) Opinberunarbókin 15:4 staðfestir það og segir: „Hver skyldi ekki óttast, [Jehóva], og vegsama nafn þitt? Því að þú einn ert heilagur, allar þjóðir munu koma og tilbiðja frammi fyrir þér, því að réttlátir dómar þínir eru opinberir orðnir.“ Framhaldinu er lýst í 14. kafla hjá Sakaría. Í náinni framtíð nær fjandskapur þorra manna á jörðinni hámarki er þeir safnast saman í síðasta sinn í stríð gegn Jerúsalem — gegn fulltrúum hinnar himnesku Jerúsalem á jörð. Þá lætur Jehóva til skarar skríða. Hann gengur fram sem stríðsguð og mun „út fara og berjast við þessar þjóðir“ sem voga sér að gera árás. — Sakaría 14:2, 3.

11, 12. (a) Hvernig mun Jehóva bregðast við hinni komandi árás um allan heim á dýrkendurna í musteri sínu? (b) Hvernig mun stríði Guðs lykta?

11 „Þetta mun verða plágan, sem [Jehóva] mun láta ganga yfir allar þær þjóðir, sem fóru herför gegn Jerúsalem: Hann mun láta hold þeirra upp þorna, meðan þeir enn standa á fótum, augu þeirra munu hjaðna í augnatóttunum og tungan visna í munninum. Á þeim degi mun mikill felmtur frá [Jehóva] koma yfir þá, og þeir munu þrífa hver í höndina á öðrum og hver höndin vera uppi á móti annarri.“ — Sakaría 14:12, 13.

12 Við verðum að bíða og sjá hvort þessi plága verður bókstafleg eða táknræn. En eitt er víst. Meðan óvinir Jehóva Guðs eru að búa sig undir árás á þjóna hans um allan heim stöðvar hann þá með ógurlegu almætti sínu. Þaggað verður niður í þeim. Það er eins og ögrandi tungur þeirra visni í munninum. Þeir missa sjónar á sameiginlegu markmiði sínu eins og augun hafi hjaðnað. Líkamskraftur þeirra, sem atti þeim út í árásina, fjarar út. Ráðvilltir snúast þeir hver gegn öðrum með miklum blóðsúthellingum. Þannig verða allir jarðneskir óvinir tilbeiðslunnar á Guði þurrkaðir út. Þá loksins hafa allar þjóðir neyðst til að viðurkenna alheimsdrottinvald Jehóva. Spádómurinn rætist: „Jehóva skal verða konungur yfir allri jörðinni.“ (Sakaría 14:9, NW) Eftir það verða Satan og illir andar hans fjötraðir er þúsund ára stjórn Krists hefst og veitir mannkyni mikla blessun. — Opinberunarbókin 20:1, 2; 21:3, 4.

Jarðneska upprisan

13. Hverjir eru það sem ‚eftir verða af öllum þjóðum‘?

13 Spádómur Sakaría heldur áfram í 14. kafla, 16. versi: „Allir þeir, sem eftir verða af öllum þeim þjóðum, sem farið hafa móti Jerúsalem, munu á hverju ári fara upp þangað til þess að falla fram fyrir konunginum, [Jehóva] allsherjar, og til að halda laufskálahátíðina.“ Að sögn Biblíunnar munu allir núlifandi menn, sem lifa fram að endalokum þessa illa heimskerfis og eru dæmdir óvinir sannrar tilbeiðslu, „sæta hegningu, eilífri glötun“ eða eyðingu. (2. Þessaloníkubréf 1:7-9; sjá einnig Matteus 25:31-33, 46.) Þeir fá ekki upprisu. Líklegt er því að þeir „sem eftir verða“ séu meðal annars menn af þjóðunum sem dóu fyrir lokastríð Guðs og eiga sér biblíulega upprisuvon. „Sú stund kemur,“ sagði Jesús, „þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans og ganga fram, þeir, sem gjört hafa hið góða, munu rísa upp til lífsins, en þeir, sem drýgt hafa hið illa, til dómsins.“ — Jóhannes 5:28, 29.

14. (a) Hvað verða hinir upprisnu að gera til að öðlast eilíft líf? (b) Hvað verður um hvern þann sem neitar að vígjast Jehóva og stunda sanna tilbeiðslu?

14 Allir þessir upprisnu menn verða að gera eitthvað til að upprisa þeirra verði til lífs en ekki dóms þeim í óhag. Þeir verða að koma í jarðneska forgarða musteris Jehóva og falla fram sem vígðir þjónar hans fyrir milligöngu Jesú Krists. Sérhver upprisinn maður, sem neitar að gera það, verður fyrir sömu plágu og þjóðir nútímans. (Sakaría 14:18) Hver veit hve margir upprisnir menn slást fúslega í lið með múginum mikla í því að halda það sem laufskálahátíðin táknaði? Vafalaust verða þeir margir, og hið mikla andlega musteri Jehóva verður enn dýrlegra fyrir vikið!

Það sem laufskálahátíðin táknaði

15. (a) Nefndu nokkur aðalatriði laufskálahátíðarinnar hjá Ísraelsmönnum að fornu? (b) Hvers vegna var fórnað 70 nautum á hátíðinni?

15 Ísraelsmenn til forna áttu að halda laufskálahátíðina ár hvert. Hún stóð í viku og var haldin í lok uppskerutímans. Þetta var gleðileg þakkarhátíð. Alla vikuna urðu þeir að búa í bráðabirgðaskýlum sem þakin voru tjálaufi, aðallega pálmagreinum. Hátíðin minnti Ísraelsmenn á hvernig Guð hafði bjargað forfeðrum þeirra úr Egyptalandi og hvernig hann annaðist þá meðan þeir bjuggu í skálum á 40 ára eyðimerkurgöngu sinni uns þeir komu til fyrirheitna landsins. (3. Mósebók 23:39-43) Sjötíu nautum var fórnað á musterisaltarinu á hátíðinni. Ljóst er að þessi þáttur hátíðarinnar var spádómsmynd um hið fullkomna og algera björgunarstarf Jesú Krists. Gagnið af lausnarfórn hans á eftir að streyma til óteljandi afkomenda hinna 70 fjölskyldna manna er komu af Nóa. — 1. Mósebók 10:1-29; 4. Mósebók 29:12-34; Matteus 20:28.

16, 17. (a) Hvenær hófst það sem laufskálahátíðin táknaði og hvernig fór það fram? (b) Hvernig á múgurinn mikli hlutdeild í hátíðahöldunum?

16 Laufskálahátíðin til forna vísaði því til hinnar gleðilegu samansöfnunar endurleystra syndara inn í hið mikla andlega musteri Jehóva. Það sem hátíðin táknaði byrjaði að rætast á hvítasunnunni árið 33 er gleðileg samansöfnun andlegra Ísraelsmanna inn í kristna söfnuðinn hófst. (Postulasagan 2:41, 46, 47) Þessum smurðu mönnum var ljóst að þeir voru ‚gestir‘ í heimi Satans vegna þess að raunverulegt ‚föðurland þeirra var á himni.‘ (1. Pétursbréf 2:11; Filippíbréfið 3:20) Fráhvarfið, sem kristni heimurinn spratt úr, skyggði um tíma á gleðihátíðina. (2. Þessaloníkubréf 2:1-3) En hátíðinni var fram haldið árið 1919 með gleðilegri samansöfnun þeirra sem eftir voru af hinum 144.000 andlegu Ísraelsmönnum og síðan alþjóðlega mikla múgsins í Opinberunarbókinni 7:9.

17 Múginum mikla er svo lýst að hann hafi pálmagreinar í höndum sem sýnir að hann heldur líka glaður upp á það sem laufskálahátíðin táknaði. Þeir sem eru af múginum mikla taka sem vígðir kristnir menn fagnandi þátt í því starfi að safna fleiri tilbiðjendum inn í musteri Jehóva. Þeim er líka ljóst að þeir eiga ekki varanlegan dvalarrétt á jörðinni af því að þeir eru syndarar. Þeir verða að halda áfram að trúa á lausnarfórn Krists ásamt þeim sem eiga eftir að fá upprisu, uns þeir ná mannlegum fullkomleika við lok þúsund ára stjórnar hans. — Opinberunarbókin 20:5.

18. (a) Hvað gerist við lok þúsund ára stjórnar Jesú Krists? (b) Hvernig mun sönn tilbeiðsla Jehóva að lokum hrósa sigri?

18 Þá munu dýrkendur Guðs á jörðinni standa frammi fyrir honum sem fullkomnir menn, án þess að þörf sé fyrir himneskt prestafélag. Þá er kominn tími til að Jesús Kristur ‚selji ríkið Guði föður í hendur.‘ (1. Korintubréf 15:24) Satan verður leystur „um stuttan tíma“ til að prófa fullkomnað mannkyn. Sérhverjum ótrúum manni verður eytt að eilífu ásamt Satan og illum öndum hans. Þeim sem reynast trúfastir verður veitt eilíft líf. Þeir fá að búa varanlega í jarðneskri paradís. Þannig lýkur því farsællega og með dýrlegum hætti sem laufskálahátíðin táknaði. Sönn tilbeiðsla hefur hrósað sigri, Jehóva til eilífrar dýrðar og mannkyni til eilífrar hamingju. — Opinberunarbókin 20:3, 7-10, 14, 15.

[Neðanmáls]

^ Fjallað er um 14. kafla Sakaría vers fyrir vers í 21. og 22. kafla bókarinnar Paradís endurreist handa mannkyninu — með guðræði!, gefin út árið 1972 af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

^ Ítarlegri upplýsingar um musterisþjóna nútímans er að finna í Varðturninum 1. október 1992, bls. 31, 32.

Upprifjunarspurningar

◻ Hvernig sætti „Jerúsalem“ árásum í fyrri heimsstyrjöldinni? — Sakaría 14:2.

◻ Hvernig hefur fólki Guðs farnast frá 1919?

◻ Hverjir eiga hlutdeild núna í því sem laufskálahátíðin táknar?

◻ Hvernig mun sönn tilbeiðsla hrósa fullnaðarsigri?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 22]

Pálmagreinar voru notaðar á laufskálahátíðinni.