Viðurkennir Guð hvaða tilbeiðslu sem er?
Viðurkennir Guð hvaða tilbeiðslu sem er?
GUÐ skapaði manninn með andlega þörf — tilbeiðsluþörf. Hún var hluti af manninum frá upphafi en kom ekki til vegna þróunar.
Því miður hefur mannkynið valið sér margar ólíkar tilbeiðslustefnur, og í fæstum tilfellum hafa þær stuðlað að einingu og hamingju þess. Enn er verið að heyja blóðug stríð í nafni trúarinnar. Það vekur þá mikilvægu spurningu hvort það skipti máli hvernig maður tilbiður Guð.
Vafasöm tilbeiðsla til forna
Saga fornþjóða Miðausturlanda er gott dæmi til að svara þeirri spurningu. Margar dýrkuðu guð sem kallaðist Baal. Þær tilbáðu einnig gyðjur, svo sem Aséru, er voru lagsmeyjar Baals. Í Asérudýrkun var notuð helg súla, eða aséra, sem talin er kynferðistákn. Fornleifafræðingar hafa grafið upp fjölmargar líkneskjur og styttur í Miðausturlöndum af nöktum konum. Alfræðibókin The Encyclopedia of Religion bendir á að líkneskin séu af „gyðju með áberandi kynfæri. Hún heldur undir brjóstin“ og „táknar sennilega . . . Aséru.“ Eitt er víst að Baalsdýrkunin var oft mjög siðlaus.
Það kemur því ekki á óvart að kynsvall var mjög algengur þáttur Baalsdýrkunar. (4. Mósebók 25:1-3) Kanverjinn Síkem nauðgaði hinni ungu Dínu sem var mey. Þrátt fyrir það var hann talinn manna ágætastur í sinni ætt. (1. Mósebók 34:1, 2, 19) Sifjaspell, kynvilla og samræði við skepnur voru algeng. (3. Mósebók 18:6, 22-24, 27) Sjálft orðið „sódómska“ eða kynvilla er dregið af heiti borgar sem eitt sinn stóð í þeim heimshluta. (1. Mósebók 19:4, 5, 28) Baal var einnig dýrkaður með blóðsúthellingum. Baalsdýrkendur köstuðu meira að segja börnum sínum lifandi á bál sem fórn handa guðunum! (Jeremía 19:5) Allir þessir siðir voru tengdir trúarkenningum. Hvernig þá?
„Grimmdin, lostinn og taumleysið í goðafræði Kanverja er langtum verri en þekktist annars staðar í Austurlöndum nær á þeim tíma. Og hið furðulega einkenni kanverskra guðdóma, að þeir voru gersneyddir öllu siðferði, hlýtur að hafa kallað fram verstu lesti í fari dýrkenda þeirra og haft í för með sér margar afar siðspillandi iðkanir á þeim tíma, svo sem heilagt vændi [og] barnafórnir,“ segir dr. Merrill Unger í bók sinni Archaeology and the Old Testament.
Viðurkenndi Guð tilbeiðslu Kanverja? Auðvitað ekki. Hann kenndi Ísraelsmönnum að tilbiðja sig í hreinleika. Hann varaði við áðurnefndum siðum og sagði: „Saurgið yður ekki með nokkru þvílíku, því að með öllu þessu hafa heiðingjarnir saurgað sig, sem ég mun reka á burt undan yður. Og landið saurgaðist, og fyrir því vitjaði ég misgjörðar þess á því, og landið spjó íbúum sínum.“ — 3. Mósebók 18:24, 25.
Hrein tilbeiðsla spillist
Margir Ísraelsmenn viðurkenndu ekki sjónarmið Guðs til sannrar tilbeiðslu og 2. Konungabók 21:3-7.
leyfðu Baalsdýrkun að haldast við í landi sínu. Ekki leið á löngu áður en þeir létu tælast til að reyna að blanda tilbeiðslunni á Jehóva saman við Baalsdýrkun. Viðurkenndi Guð þessa blönduðu tilbeiðslu? Lítum á það sem gerðist í stjórnartíð Manasse konungs. Hann reisti Baal ölturu, brenndi sinn eigin son sem fórn og stundaði galdra. „Hann setti asérulíkneskið, er hann hafði gjöra látið, í musterið, er [Jehóva] hafði sagt um . . . ‚Í þessu húsi . . . vil ég láta nafn mitt búa að eilífu.‘“ —Þegnar Manasse konungs fylgdu fordæmi hans. Hann „leiddi þá afvega, svo að þeir breyttu verr en þær þjóðir, er [Jehóva] hafði eytt fyrir Ísraelsmönnum.“ (2. Konungabók 21:9) Manasse fyllti Jerúsalem blóði saklausra manna með morðum sínum í stað þess að fara eftir ítrekuðum viðvörunum spámanna Guðs. Um síðir söðlaði Manasse um en sonur hans og arftaki, Amón konungur, endurvakti Baalsdýrkunina. — 2. Konungabók 21:16, 19, 20.
Síðar tóku vændismenn að stunda iðju sína í musterinu. Hvernig leit Guð á þennan þátt Baalsdýrkunarinnar? Fyrir munn Móse hafði hann varað við: „Þú skalt eigi bera skækjulaun eða hundsgjald [líklega átt við kynvilltan karlmann sem hneigist að piltum] inn í hús [Jehóva] Guðs þíns eftir neinu heiti, því að einnig hvort tveggja þetta er [Jehóva] Guði þínum andstyggilegt.“ — 5. Mósebók 23:17, 18.
Jósía konungur, sonarsonur Manasse, hreinsaði musterið af siðlausri Baalsdýrkun. (2. Konungabók 23:6, 7) En þjóðin var of langt leidd. Skömmu eftir dauða Jósía konungs var skurðgoðadýrkun aftur stunduð í musteri Jehóva. (Esekíel 8:3, 5-17) Jehóva lét því konung Babýlonar eyða Jerúsalem og musterinu. Þessi sorglega saga er sönnun þess að sum tilbeiðsluform séu Guði vanþóknanleg. Hvað um okkar daga?