Betri von um sálina
Betri von um sálina
RÓMVERSKU hermennirnir höfðu ekki búist við þessu. Er þeir æddu inn í fjallavirkið Masada, síðasta vígi uppreisnarsveita Gyðinga, bjuggu þeir sig undir árás óvinarins, köll stríðsmanna, óp kvenna og barna. En allt var hljótt ef frá er talið snarkið í eldinum. Er Rómverjar könnuðu brennandi virkið uppgötvuðu þeir hinn skelfilega sannleika: Óvinir þeirra — um 960 manns — voru þegar dánir! Kerfisbundið höfðu stríðsmenn Gyðinga drepið sínar eigin fjölskyldur og síðan hver annan. Sá síðasti hafði svipt sig lífi. * Hvað kom þeim til að fremja þetta óhugnanlega fjöldamorð og sjálfsmorð?
Samtímasagnaritarinn Jósefus segir að trúin á ódauðlega sál hafi átt verulegan þátt í því. Eleasar Ben Jaír, leiðtogi öfgamannanna í Masada, hafði fyrst reynt að sannfæra menn sína um að sjálfsmorð væri heiðvirðara en þrælkun Rómverja eða dauði fyrir þeirra hendi. Er þeir hikuðu flutti hann tilfinningaþrungna ræðu um sálina. Hann sagði þeim að líkaminn væri bara baggi, fangelsi sálarinnar. „En þegar sálin er losuð við baggann sem umlykur hana og dregur niður til jarðar,“ hélt hann áfram, „hverfur hún til síns heima, og þá verður hún hluttakandi í heilögum mætti og takmarkalausu afli, jafnósýnileg augum manna og Guð sjálfur.“
Hver urðu viðbrögðin? Jósefus segir að eftir að Eleasar hafi talað lengi og ítarlega í þessa veru hafi „allir áheyrendur hans gripið fram í fyrir honum og unnið verkið í flýti, fullir af óstjórnlegum eldmóði.“ Jósefus bætir svo við: „Þeir hlupu af stað eins og helteknir, ákafir að vera fyrri til en næsti maður, . . . svo ómótstæðileg löngun hafði gripið þá að drepa eiginkonur sínar, börn og sjálfa sig.“
Þetta óhugnanlega dæmi sýnir hvernig kenningin um ódauðleika sálarinnar getur gerbreytt eðlilegum viðhorfum manna til dauðans. Þeim sem trúa henni er kennt að sjá dauðann ekki sem versta óvin mannsins heldur sem dyr æðra tilverustigs og frelsis handa
sálinni. En hvers vegna höfðu öfgamenn Gyðinga þessa trú? Margir myndu halda að helgirit þeirra, Hebresku ritningarnar, kenni að maðurinn hafi meðvitaðan anda innra með sér, sál sem lifir áfram eftir dauðann. En er það svo?Sálin í Hebresku ritningunum
Í stuttu máli, nei. Strax í fyrstu bók Biblíunnar, 1. Mósebók, er okkur sagt að sálin hafi ekki búsetu í manninum heldur sé maðurinn sjálfur. Við lesum um sköpun Adams, fyrsta mannsins: „Þannig varð maðurinn lifandi sál.“ (1. Mósebók 2:7) Hér er notað hebreska orðið nefesh um sálina en það kemur talsvert meira en 700 sinnum fyrir í Hebresku ritningunum. Hvergi gefur það þó hugmynd um aðskilinn, himneskan eða andlegan hluta af manninum. Þvert á móti er sálin áþreifanleg, hlutstæð og líkamleg.
Flettu upp á eftirfarandi ritningarstöðum í þinni eigin biblíu því að hebreska orðið nefesh kemur fyrir á þeim öllum þótt það sé oft þýtt með persónufornöfnum eða orðunum maður eða líf í íslensku biblíunni. Þessir ritningarstaðir sýna greinilega að sálin getur lent í hættu og háska og jafnvel er hægt að ræna henni (5. Mósebók 24:7; Dómarabókin 9:17; 1. Samúelsbók 19:11), henni getur orðið óglatt (Jobsbók 6:7), hægt er að leggja hana í járnfjötra (Sálmur 105:18), hún getur þráð að eta, hægt er að þjá hana með föstum, hún getur orðið magnþrota af hungri og þorsta, megrast eða tárast af trega. (5. Mósebók 12:20; Sálmur 35:13; 69:11; 106:15; 107:9; 119:28) Með öðrum orðum, sálin er þú sjálfur, og þar af leiðandi getur sálin orðið fyrir öllu sem þú getur orðið fyrir. *
Þýðir þetta þá að sálin geti hreinlega dáið? Já, sálin er alls ekki ódauðleg heldur tala Hebresku ritningarnar svo um hana að hægt sé að ‚uppræta‘ hana eða lífláta fyrir afbrot, drepa hana og rífa sundur. (2. Mósebók 31:14; 5. Mósebók 19:6; 22:26; Sálmur 7:3) „Sú sálin, sem syndgar, hún skal deyja,“ segir Esekíel 18:4. Ljóst er því að dauðinn er hin sameiginlegu endalok allra mannssálna því að öll syndgum við. (Sálmur 51:7) Fyrsta manninum, Adam, var sagt að refsingin fyrir synd væri dauði — ekki flutningur á andlegt tilverusvið og ódauðleiki. (1. Mósebók 2:17) Og þegar hann syndgaði var felldur eftirfarandi dómur: „Því að mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!“ (1. Mósebók 3:19) Þegar Adam og Eva dóu urðu þau einfaldlega það sem Biblían kallar oft ‚dauðar sálir‘ eða ‚látnar sálir‘ (þýtt „lík“ í íslensku biblíunni). — 4. Mósebók 5:2; 6:6.
Engin furða að alfræðiorðabókin The Encyclopedia Americana skuli segja um sálina eins og hugtakið er notað í Hebresku ritningunum: „Í Gamla testamentinu er litið á manninn sem heild, ekki sameining sálar og líkama.“ Hún bætir við: „Nefesh . . . er aldrei skoðuð sem hún starfi aðskilin frá líkamanum.“
Hvað héldu trúfastir Gyðingar þá um dauðann? Þeir litu einfaldlega á hann sem andstæðu lífsins. Sálmur 146:4 segir okkur hvað gerist þegar andinn eða lífskrafturinn yfirgefur menn: „Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu.“ * Salómon konungur tók í sama streng og skrifaði að ‚hinir dauðu vissu ekki neitt.‘ — Prédikarinn 9:5.
Hvers vegna voru þá margir Gyðingar á fyrstu öld, líkt og öfgamennirnir í Masada, svona sannfærðir um ódauðleika sálarinnar?
Áhrif Grikkja
Gyðingar fengu þessa hugmynd ekki úr Biblíunni heldur frá Grikkjum. Á sjöundu til fimmtu öld f.o.t. virðist hugmyndin hafa verið tekin frá dultrúarreglum Grikkja og flutt inn í heimspeki þeirra. Hugmyndin um framhaldslíf þar sem vondar sálir hlytu kvalafull málagjöld hafði lengi þótt mjög heillandi og smám saman festist hún í sessi og breiddist út. Heimspekingar rökræddu endalaust hvert eðli sálarinnar væri nákvæmlega. Hómer staðhæfði að sálin flögraði burt á dauðastundinni með heyranlegu suði, tísti eða skrjáfi. Epíkúros hélt því fram að sálin hefði raunverulegan massa og væri því agnarsmár líkami. *
En einhver helsti málsvari kenningarinnar um ódauðlega sál var sennilega gríski heimspekingurinn Platón sem uppi var á fjórðu öld f.o.t. Lýsing hans á dauða kennara síns, Sókratesar, ber vitni um mjög áþekka sannfæringu og öfgamennirnir í Masada höfðu öldum síðar. Eins og fræðimaðurinn Oscar Cullmann orðar það „sýnir Platón okkur hvernig Sókrates deyr með fullkomnum friði og reisn. Dauði Sókratesar er fagur dauði. Hér vottar hvergi fyrir skelfingu dauðans. Sókrates getur ekki óttast dauðann því að dauðinn frelsar okkur úr líkamanum. . . . Dauðinn er hinn mikli vinur sálarinnar. Þannig kennir hann og þannig deyr hann í dásamlegu samræmi við kenningu sína.“
Það virðist hafa verið á Makkabeatímanum á annarri öld fyrir Krist sem Gyðingar byrjuðu að taka upp þessa kenningu frá Grikkjum. Jósefus segir að farísear og essenar — áhrifamiklir trúarhópar meðal Gyðinga — hafi aðhyllst hana á fyrstu öld okkar tímatals. Einstaka ljóð, sem ort var á þessum tíma, endurspeglar sömu trú.
En hvað um Jesú Krist? Kenndi hann og fylgjendur hans líka þessa grísku trúarhugmynd?
Viðhorf frumkristinna manna til sálarinnar
Kristnir menn á fyrstu öld litu sálina ekki sömu augum og Grikkir. Tökum dauða Lasarusar, vinar Jesú, sem dæmi. Ætli frásagan í 11. kafla Jóhannesar hefði ekki hljóðað talsvert öðruvísi ef Lasarus hefði haft ódauðlega sál sem flögraði burt á dauðastundinni, frjáls og alsæl? Jesús hefði örugglega sagt fylgjendum sínum frá því ef Lasarus hefði verið heill og hraustur og með meðvitund á himnum, en Jesús endurómaði hins vegar kenningu Hebresku ritninganna og sagði þeim að Lasarus væri sofandi, meðvitundarlaus. (Vers 11) Jesús hefði væntanlega fagnað ef vinur hans hefði verið búinn að öðlast undursamlega, nýja tilveru, en í staðinn grét hann dauða hans í annarra augsýn. (Vers 35) Ef sál Lasarusar hefði verið á himni, alsæl og ódauðleg, þá hefði Jesús áreiðanlega ekki verið svo grimmur að kalla hann þaðan til að lifa fáein ár í viðbót í „fangelsi“ ófullkomins mannslíkama meðal sjúkra og deyjandi manna.
Sagði Lasarus sögur af fjögurra daga undursamlegri andatilveru sinni, yfir sig hrifinn yfir frelsi og lausn úr viðjum líkamans? Nei, það gerði hann ekki. Þeir sem trúa á ódauðlega sál segja það stafa af því að lífsreynsla þessa manns hafi hreinlega verið ólýsanleg. En það eru ekki sannfærandi rök — hefði Lasarus ekki að minnsta kosti getað sagt ástvinum sínum að reynsla hans væri einfaldlega stórkostlegri en svo að orð fengju lýst? En Lasarus sagði ekki aukatekið orð um nokkra reynslu sem hann hefði haft meðan hann var dáinn. Hugleiddu þetta — hann steinþagði um það mál sem menn eru forvitnari um en nokkuð annað: hvernig dauðinn sé! Þessi þögn verður aðeins skýrð á einn
veg. Það var engu frá að segja. Hinir dánu eru sofandi, meðvitundarlausir.Talar Biblían þá um dauðann sem vin sálarinnar, sem umskipti frá einu tilverustigi til annars? Nei, sannkristnir menn eins og Páll postuli litu ekki á dauðann sem vin heldur sem ‚síðasta óvininn.‘ (1. Korintubréf 15:26) Kristnir menn líta ekki á dauðann sem eðlilegan heldur sem hræðilegan og óeðlilegan af því að hann er bein afleiðing syndar og uppreisnar gegn Guði. (Rómverjabréfið 5:12; 6:23) Dauðinn var aldrei þáttur í upphaflegum tilgangi Guðs með mannkynið.
En þótt sálin deyi eru sannkristnir menn ekki án vonar. Upprisa Lasarusar er ein af mörgum frásögum Biblíunnar sem benda okkur greinilega á hina sönnu, biblíulegu von dáinna sálna — upprisuna. Biblían greinir frá tvenns konar ólíkri upprisu. Yfirgnæfandi meirihluti mannkyns, jafnt réttlátir sem ranglátir er liggja sofandi í gröfinni, á von um upprisu til eilífs lífs hér í paradís á jörð. (Lúkas 23:43, NW; Jóhannes 5:28, 29; Postulasagan 24:15) Lítill hópur, sem Jesús kallaði „litla hjörð“ sína, fær upprisu sem ódauðlegar andaverur á himnum. Þessi hópur, þeirra á meðal postular Jesú Krists, mun ríkja með honum yfir mannkyninu og lyfta því upp til fullkomleika. — Lúkas 12:32; 1. Korintubréf 15:53, 54; Opinberunarbókin 20:6.
En hvers vegna kenna kirkjur kristna heimsins þá ekki upprisuna heldur að mannssálin sé ódauðleg? Lítum á svar guðfræðingsins Werners Jaegers sem birtist í blaðinu The Harvard Theological Review árið 1959: „Mikilvægasta staðreyndin í sögu kristinnar kenningar er sú að faðir kristinnar guðfræði, Órigenes, var platónskur heimspekingur við skólann í Alexandríu. Hann bætti hinu víðtæka kenningakerfi um sálina, sem
hann tók frá Platón, við hina kristnu kenningu.“ Kirkjan gerði þannig nákvæmlega hið sama og Gyðingar höfðu gert öldum áður er þeir yfirgáfu kenningar Biblíunnar og tóku upp gríska heimspeki.Raunverulegur uppruni kenningarinnar
Sumir vilja halda uppi vörnum fyrir þessa kenningu og spyrja hvers vegna svona mörg trúarbrögð heims kenni hana í einni eða annarri mynd. Ritningin færir fram skynsamleg rök fyrir því hvers vegna þessi kenning sé svona útbreidd meðal trúfélaga heims.
Biblían segir okkur að ‚allur heimurinn sé á valdi hins vonda‘ og nefnir Satan sérstaklega sem „höfðingja þessa heims.“ (1. Jóhannesarbréf 5:19; Jóhannes 12:31) Augljóst er að trúarbrögð heims hafa ekki verið ónæm fyrir áhrifum Satans. Öllu heldur hafa þau átt verulegan þátt í erfiðleikum og átökum heimsins nú á tímum. Og í sambandi við sálina virðast þau endurspegla huga Satans mjög svo greinilega. Hvernig þá?
Mundu eftir fyrstu lyginni. Guð hafði sagt Adam og Evu að þau myndu deyja ef þau syndguðu gegn honum. En Satan fullvissaði Evu: „Vissulega munuð þið ekki deyja!“ (1. Mósebók 3:4) Adam og Eva dóu auðvitað og hurfu aftur til moldarinnar eins og Guð hafði sagt. Satan, „lyginnar faðir,“ hvarf aldrei frá fyrstu lygi sinni. (Jóhannes 8:44) Í ótal trúarbrögðum, sem ýmist víkja frá kenningu Biblíunnar eða hreinlega hafna henni, er þessari sömu hugmynd hampað: ‚Vissulega munuð þið ekki deyja. Líkaminn deyr kannski en sálin lifir áfram, að eilífu — eins og Guð!‘ Það er athyglisvert að Satan hafði líka sagt Evu að hún yrði „eins og Guð“! — 1. Mósebók 3:5.
Það er miklu betra að hafa von sem er byggð á sannleika en á lygum eða heimspeki manna. Það er miklu betra að hafa þá vissu að látnir ástvinir okkar liggi meðvitundarlausir í gröfinni en að hafa áhyggjur af því hvar einhver ódauðleg sál sé niður komin! Þessi dauðasvefn þarf ekki að skelfa okkur eða hryggja. Á vissan hátt getum við litið svo á að ástvinir okkar hvíli óhultir á öruggum stað. Hvers vegna óhultir? Vegna þess að Biblían fullvissar okkur um að hinir dánu, sem Jehóva elskar, séu lifandi í sérstökum skilningi. (Lúkas 20:38) Þeir lifa í minni hans. Það er ákaflega hughreystandi vegna þess að minni hans er takmarkalaust. Hann er mjög áfram um að vekja milljónir manna, sem hann elskar, aftur til lífs og gefa þeim tækifæri til að lifa að eilífu í paradís á jörð. — Samanber Jobsbók 14:14, 15.
Hinn dýrlegi upprisudagur kemur því að öll fyrirheit Jehóva hljóta að rætast. (Jesaja 55:10, 11) Hugsaðu þér bara þennan spádóm verða að veruleika: „Menn þínir, sem dánir eru, skulu lifna, lík þeirra rísa upp. Vaknið og hefjið fagnaðarsöng, þér sem búið í duftinu, því að döggin þín er dögg ljóssins, og jörðin skal fæða þá, sem dauðir eru.“ (Jesaja 26:19) Hinir dánu, sem sofa í gröfinni, eru jafnöruggir og barn í móðurkviði. Bráðlega ‚fæðast‘ þeir þegar þeir verða endurlífgaðir í paradís á jörð!
Er hægt að hugsa sér nokkra betri von?
[Neðanmáls]
^ Sagt er að tvær konur og fimm börn hafi falið sig og lifað af. Konurnar sögðu rómverskum föngurum sínum síðan frá því sem gerst hafði.
^ Orðið nefesh hefur auðvitað ýmsan annan merkingarblæ eins og algengt er með orð sem spanna breitt merkingarsvið. Það getur til dæmis átt við hinn innri mann, einkum djúpstæðar tilfinningar. (1. Samúelsbók 18:1) Það getur einnig átt við líf manns sem sálar. — 1. Konungabók 17:21-23.
^ Hebreska orðið rúach, sem þýtt er „andi,“ merkir „andardráttur“ eða „vindur.“ Þegar það er notað í sambandi við manninn lýsir það ekki meðvituðum andlegum hluta hans heldur „lífskrafti einstaklingsins“ eins og orðabókin The New International Dictionary of New Testament Theology orðar það.
^ Hann var ekki sá síðasti sem aðhylltist þessa fremur sérkennilegu hugmynd. Snemma á þessari öld kvaðst vísindamaður hreinlega hafa vigtað sálir nokkurra manna með því að draga þyngd þeirra strax eftir dauðann frá þyngd þeirra rétt fyrir dauðann.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Öfgamenn Gyðinga í Masada trúðu að dauðinn myndi frelsa sálir þeirra.