Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er sálin ódauðleg?

Er sálin ódauðleg?

Er sálin ódauðleg?

HLJÓÐLEGA ganga vinir og ættingjar fram hjá opinni kistunni. Þeir stara á lík piltsins sem var 17 ára. Vinir hans úr skólanum þekkja hann varla. Hann hefur misst mestallt hárið vegna efnameðferðar og hefur horast mjög af völdum krabbameinsins. Er þetta virkilega vinur þeirra? Fyrir aðeins fáeinum vikum var hann uppfullur af hugmyndum, spurningum og kröftum — já, lífi! Móðir drengsins endurtekur í sífellu með tárvotum augum: „Tommy er glaðari núna. Guð vildi hafa Tommy á himnum hjá sér.“

Þessi harmi slegna móðir finnur einhverja von og hughreystingu í þeirri hugmynd að einhvern veginn sé sonur hennar enn á lífi. Í kirkjunni hefur henni verið kennt að sálin sé ódauðleg, að hún sé setur persónuleika, hugsana og minninga — „sjálfsins.“ Hún trúir að sál sonarins sé alls ekki dáin heldur hafi yfirgefið líkamann við dauðann og farið til himna til að vera með Guði og englunum.

Á sorgarstund rígheldur mannshjartað örvæntingarfullt í hvert hálmstrá, hvern vonarneista, þannig að ekki er vandséð hvers vegna þessi trú er svona útbreidd. Lítum á sem dæmi hvernig guðfræðingurinn J. Paterson-Smyth tjáir sig í ritinu The Gospel of the Hereafter: „Dauðinn er smávægilegur í samanburði við það sem á eftir kemur — hinn stórkostlega, undursamlega, unaðslega heim sem dauðinn veitir okkur inngöngu í.“

Um heim allan og í ólíkum trúarbrögðum og siðmenningu trúir fólk að maðurinn hafi ódauðlega sál innra með sér, meðvitandi anda sem lifir áfram eftir að líkaminn deyr. Þessi trú er næstum algild í hinum þúsundum kirkjudeilda og sértrúarflokka kristna heimsins. Hún er líka opinber kenning Gyðingdómsins. Hindúar trúa að sjálfið eða sálin hafi verið sköpuð í upphafi tímans og sé fangelsuð í líkamanum við fæðingu, og að við dauðann flytjist hún yfir í annan líkama í stöðugri endurfæðingarhringrás. Múslímar trúa að sálin verði til með líkamanum og lifi áfram eftir að líkaminn deyr. Önnur trúarbrögð — andatrú Afríkubúa, sjintótrúin og jafnvel búddhatrúin á vissan hátt — kenna tilbrigði um sama stef.

Nokkrar óþægilegar spurningar

Enda þótt hugmyndin um ódauðlega sál sé óneitanlega næstum algild í trúarbrögðunum vekur hún samt nokkrar óþægilegar spurningar. Fólk veltir til dæmis fyrir sér hvar sál þess ástvinar lendi sem lifði ekki beinlínis fyrirmyndarlíferni. Endurfæðist hann sem einhver óæðri lífvera? Eða er hann sendur í hreinsunareld uns hann telst verður inngöngu í himininn? Á hann kannski fyrir sér verri vist, eilífar kvalir í logandi víti? Eða er hann andi sem þarf að friða eins og kennt er í margs konar andatrú?

Hugmyndir sem þessar eru þungbærar fyrir þá sem lifa. Þurfum við að friða anda látinna ástvina til að þeir hefni sín ekki á okkur? Er ætlast til að við hjálpum þeim að komast út úr einhverjum hræðilegum hreinsunareldi? Eða á okkur bara að hrylla hjálparvana við tilhugsuninni um þjáningar þeirra í helvíti? Eigum við kannski að meðhöndla einhver lifandi dýr eins og sálir látinna manna byggju í þeim?

Spurningarnar, sem vakna um Guð sjálfan, veita síst meiri hughreystingu. Margir foreldrar, eins og móðirin sem nefnd var í greinarbyrjun, leita fyrst hughreystingar í þeirri trú að Guð hafi „tekið“ ódauðlega sál barnsins til að hafa hana hjá sér á himnum. En margir fara fyrr eða síðar að hugleiða hvers konar Guð það sé eiginlega sem leggi einhvern hræðilegan sjúkdóm á saklaust barn og slíti það frá harmi lostnum foreldrum sínum til þess eins að kalla það til himna langt fyrir tímann. Hvar er réttlætið, kærleikurinn og miskunnin hjá slíkum Guði? Sumir véfengja jafnvel visku slíks Guðs. Hvers vegna, spyrja þeir, ætli vitur Guð láti allar þessar sálir á jörðina ef þær eiga svo allar að enda á himnum hvort eð er? Þýðir það ekki að það hafi í rauninni verið ægileg sóun að skapa jörðina? — Samanber 5. Mósebók 32:4; Sálmur 103:8; Jesaja 45:18; 1. Jóhannesarbréf 4:8.

Ljóst er því að kenningin um ódauðleika mannssálarinnar, í hvaða mynd sem hún er kennd, vekur torráðnar spurningar og stingur í stúf við margt annað. Hvers vegna? Mörg þessara vandkvæða má rekja til uppruna kenningarinnar. Það er fróðlegt fyrir þig að kynna þér uppruna hennar stuttlega því að það kann að koma þér á óvart hvað Biblían segir sjálf um sálina. Hún býður upp á langtum betri von um líf eftir dauðann en trúarbrögð heims almennt kenna.