Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Varðveitum einingu núna á síðustu dögum

Varðveitum einingu núna á síðustu dögum

Varðveitum einingu núna á síðustu dögum

„Hegðið yður eins og samboðið er fagnaðarerindinu . . . Standið stöðugir í einum anda og berjist saman með einni sál fyrir trúnni á fagnaðarerindið.“ — FILIPPÍBRÉFIÐ 1:27.

1. Hvaða munur er á vottum Jehóva og heiminum?

 NÚNA eru ‚síðustu dagar.‘ Engum blöðum er um það að fletta að við lifum „örðugar tíðir.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Í allri þjóðfélagsólgu ‚endalokatímans‘ skera vottar Jehóva sig greinilega úr vegna friðar síns og einingar. (Daníel 12:4) En hver einstakur maður, sem tilheyrir heimsfjölskyldu dýrkenda Jehóva, þarf að leggja sig vel fram við að viðhalda þessari einingu.

2. Hvað sagði Páll um að varðveita einingu og hvaða spurningu íhugum við?

2 Páll postuli hvatti kristna bræður sína til að varðveita einingu. Hann skrifaði: „Hegðið yður eins og samboðið er fagnaðarerindinu um Krist. Hvort sem ég kem og heimsæki yður eða ég er fjarverandi, skal ég fá að heyra um yður, að þér standið stöðugir í einum anda og berjist saman með einni sál fyrir trúnni á fagnaðarerindið og látið í engu skelfast af mótstöðumönnunum. Fyrir þá er það merki frá Guði um glötun þeirra, en um hjálpræði yðar.“ (Filippíbréfið 1:27, 28) Orð Páls sýna greinilega að kristnir menn verða að vinna saman. Hvað getur þá hjálpað okkur að varðveita kristna einingu á þessum erfiðu tímum?

Lútum vilja Guðs

3. Hvenær og hvernig urðu fyrstu óumskornu heiðingjarnir fylgjendur Krists?

3 Ein leið til að varðveita einingu okkar er sú að lúta vilja Guðs öllum stundum. Það getur kostað breyttan hugsunarhátt. Tökum fyrstu lærisveina Jesú Krists af hópi Gyðinga sem dæmi. Þegar Pétur postuli prédikaði fyrst fyrir óumskornum heiðingjum árið 36 úthellti Guð heilögum anda yfir þetta fólk af þjóðunum og það lét skírast. (Postulasagan 10. kafli) Fram að þeim tíma höfðu aðeins Gyðingar, menn sem tekið höfðu gyðingatrú og Samverjar gerst fylgjendur Jesú Krists. — Postulasagan 8:4-8, 26-38.

4. Hvað sagði Pétur eftir að hann hafði útskýrt það sem gerðist í sambandi við Kornelíus og hvernig reyndi það á lærisveina Jesú af hópi Gyðinga?

4 Er postularnir og aðrir bræður í Jerúsalem fréttu af trúskiptum Kornelíusar og annarra heiðingja fýsti þá að fá nánari fregnir af því hjá Pétri. Eftir að postulinn hafði útskýrt hvað gerst hefði í sambandi við Kornelíus og aðra trúaða menn af þjóðunum lauk hann máli sínu með þessum orðum: „Fyrst Guð gaf þeim [þessum trúuðu mönnum af þjóðunum] nú sömu gjöf [heilagan anda] og oss [Gyðingum], er vér tókum trú á Drottin Jesú Krist, hvernig var ég þá þess umkominn að standa gegn Guði?“ (Postulasagan 11:1-17) Þarna reyndi á fylgjendur Jesú Krists af hópi Gyðinga. Myndu þeir lúta vilja Guðs og viðurkenna trúaða menn af þjóðunum sem trúbræður sína eða yrði einingu jarðneskra þjóna Guðs stofnað í hættu?

5. Hvernig brugðust postularnir og aðrir bræður við þeirri staðreynd að Guð hafði veitt heiðingjum afturhvarf og hvað getum við lært af því?

5 Frásagan segir: „Þegar þeir [postularnir og aðrir bræður] heyrðu þetta, stilltust þeir, og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: ‚Guð hefur þá einnig gefið heiðingjunum afturhvarf til lífs.‘“ (Postulasagan 11:18) Þessi afstaða varðveitti og efldi einingu fylgjenda Jesú. Á örskömmum tíma fleygði prédikunarstarfinu fram meðal heiðingjanna eða þjóðanna og Jehóva blessaði þetta starf. Við ættum sjálf að vera samvinnuþýð þegar samstarfs okkar er óskað í tengslum við stofnun nýs safnaðar eða þegar einhver guðræðisleg breyting er gerð undir handleiðslu heilags anda Guðs. Með heilshugar samvinnu okkar þóknumst við Jehóva og varðveitum einingu okkar núna á síðustu dögum.

Höldum fast við sannleikann

6. Hvaða áhrif hefur sannleikurinn á einingu dýrkenda Jehóva?

6 Við tilheyrum fjölskyldu dýrkenda Jehóva og varðveitum einingu okkar vegna þess að við erum öll ‚af Jehóva frædd‘ og höldum okkur fast við opinberaðan sannleika hans. (Jóhannes 6:45; Sálmur 43:3, NW) Þar eð kenningar okkar eru byggðar á orði Guðs tölum við öll hið sama. Við þiggjum fúslega andlegu fæðuna sem Jehóva lætur í té fyrir milligöngu ‚hins trúa og hyggna þjóns.‘ (Matteus 24:45-47) Slík samræmd kennsla auðveldar okkur að viðhalda einingu okkar um heim allan.

7. Hvað ættum við að gera ef við eigum erfitt með að skilja ákveðið atriði, og hvað ættum við ekki að gera?

7 Hvað nú ef við eigum erfitt með að skilja eða viðurkenna ákveðið atriði? Við ættum að biðja um visku og grúska í Biblíunni og biblíutengdum ritum. (Orðskviðirnir 2:4, 5; Jakobsbréfið 1:5-8) Samtal við öldung gæti hjálpað. Ef við skiljum það ekki enn er kannski best að gera sér ekki verulegar áhyggjur af því. Ef til vill verða birtar nánari upplýsingar um þetta efni síðar og þá mun skilningur okkar aukast. Hins vegar væri rangt að reyna að sannfæra aðra í söfnuðinum um að okkar skoðun, ef ólík, sé sú rétta. Þá værum við að sá sundurlyndi, ekki að vinna að einingu. Það er miklu betra að halda áfram að ‚lifa í sannleikanum‘ og hvetja aðra til að gera það líka! — 3. Jóhannesarbréf 4.

8. Hvaða afstaða til sannleikans er viðeigandi?

8 Páll postuli sagði á fyrstu öldinni: „Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í ráðgátu, en þá munum vér sjá augliti til auglitis. Nú er þekking mín í molum, en þá mun ég gjörþekkja, eins og ég er sjálfur gjörþekktur orðinn.“ (1. Korintubréf 13:12) Frumkristnir menn voru sameinaðir enda þótt þeir hafi ekki getað skilið allt til hlítar. Við höfum miklu skýrari skilning núna á tilgangi Jehóva og sannleiksorði. Við skulum því vera þakklát fyrir sannleikann sem við höfum fengið fyrir milligöngu hins ‚trúa þjóns.‘ Og verum þakklát fyrir að Jehóva skuli hafa leitt okkur fyrir atbeina skipulags síns. Enda þótt við höfum ekki alltaf haft jafnmikla þekkingu höfum við ekki verið andlega svelt. Hirðir okkar, Jehóva, hefur viðhaldið einingunni og annast okkur vel. — Sálmur 23:1-3.

Notum tunguna rétt

9. Hvernig er hægt að nota tunguna til að stuðla að einingu?

9 Að nota tunguna til að hvetja og uppörva aðra er mikilvæg leið til að stuðla að einingu og bróðurþeli. Bréf hins stjórnandi ráðs fyrstu aldar, sem skar úr umskurnardeilunni, var uppörvandi. Eftir að hafa lesið það urðu lærisveinarnir í Antíokkíu, sem voru af heiðnum uppruna, „glaðir yfir þessari uppörvun.“ Júdas og Sílas, sem höfðu verið sendir frá Jerúsalem með bréfið, „hvöttu bræðurna með mörgum orðum og styrktu þá.“ Vafalaust hefur nærvera Páls og Barnabasar einnig hvatt og styrkt bræðurna í Antíokkíu. (Postulasagan 15:1-3, 23-32) Við getum gert eitthvað svipað þegar við söfnumst saman á kristnum samkomum og ‚uppörvum hver annan‘ með návist okkar og uppbyggjandi orðum. — Hebreabréfið 10:24, 25.

10. Hvað gæti þurft að gera til að varðveita einingu ef lastmælgi ætti sér stað?

10 En röng notkun tungunnar getur ógnað einingu okkar. „Tungan [er] lítill limur, en lætur mikið yfir sér,“ skrifaði lærisveinninn Jakob. „Sjá hversu lítill neisti getur kveikt í miklum skógi.“ (Jakobsbréfið 3:5) Jehóva hatar þá sem valda illdeilum. (Orðskviðirnir 6:16-19) Slíkt tal getur valdið sundrungu. Hvað þá ef einhver úthúðar öðrum, lastar hann og smánar með móðgandi orðum? Öldungarnir reyna að hjálpa syndaranum. En iðrunarlausum lastara ætti að víkja úr söfnuðinum þannig að varðveita megi frið, reglu og einingu safnaðarins. Páll postuli skrifaði: „Þér skuluð ekki umgangast nokkurn þann, er nefnir sig bróður, en er . . . lastmáll . . . Þér skuluð jafnvel ekki sitja að borði með slíkum manni.“ — 1. Korintubréf 5:11.

11. Af hverju er auðmýkt þýðingarmikil ef við höfum sagt eitthvað sem hefur valdið spennu milli okkar og trúbróður?

11 Að beisla tunguna hjálpar okkur að varðveita einingu. (Jakobsbréfið 3:10-18) En setjum sem svo að eitthvað sem við sögðum hafi valdið spennu milli okkar og annars kristins manns. Væri þá ekki viðeigandi að eiga frumkvæðið að því að friðmælast við bróður okkar og biðjast afsökunar þegar þess er þörf? (Matteus 5:23, 24) Vissulega útheimtir það auðmýkt eða lítillæti en Pétur skrifaði: „Skrýðist allir lítillætinu hver gagnvart öðrum, því að ‚Guð stendur gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð‘.“ (1. Pétursbréf 5:5) Auðmýkt kemur okkur til að ‚keppa eftir friði‘ við bræður okkar, viðurkenna mistök okkar og biðjast afsökunar þegar við á. Það stuðlar að einingu fjölskyldu Jehóva. — 1. Pétursbréf 3:10, 11.

12. Hvernig getum við notað tunguna til að stuðla að og varðveita einingu fólks Jehóva?

12 Við getum eflt fjölskylduandann innan skipulags Jehóva enn frekar með réttri notkun tungunnar. Páll gerði það sjálfur og gat því minnt Þessaloníkumenn á: „Þér vitið, hvernig vér áminntum og hvöttum og grátbændum hvern og einn yðar, eins og faðir börn sín, til þess að þér skylduð breyta eins og samboðið er Guði.“ (1. Þessaloníkubréf 2:11, 12) Þar eð Páll hafði sett gott fordæmi í þessu efni gat hann hvatt kristna bræður sína til að ‚hughreysta ístöðulitla‘ eða niðurdregna. (1. Þessaloníkubréf 5:14) Hugsaðu þér hve margt gott við getum látið af okkur leiða með því að nota tunguna til að hughreysta, uppörva og uppbyggja aðra. Já, „hversu fagurt er orð í tíma talað!“ (Orðskviðirnir 15:23) Og slíkt tal á sinn þátt í að efla og varðveita einingu fólks Jehóva.

Verum fús til að fyrirgefa

13. Af hverju ættum við að vera sáttfús?

13 Til að varðveita kristna einingu okkar er nauðsynlegt að fyrirgefa þeim sem gerir á hlut okkar en biðst afsökunar. Og hve oft ættum við að fyrirgefa? Jesús sagði Pétri: „Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö.“ (Matteus 18:22) Ef við fyrirgefum ekki erum við að vinna gegn eigin hag. Hvernig þá? Nú, fjandskapur og langvinn óvild rænir okkur hugarfriði. Og ef við fengjum á okkur orð fyrir að vera grimm og langrækin gætum við kallað yfir okkur útskúfun. (Orðskviðirnir 11:17, NW) Óvild og langrækni er Guði vanþóknanleg og getur leitt til alvarlegrar syndar. (3. Mósebók 19:18) Við munum að Jóhannes skírari var hálshöggvinn að undirlagi hinnar illu Heródíasar sem ‚lagði fæð‘ á hann. — Markús 6:19-28.

14. (a) Hvað kennir Matteus 6:14, 15 okkur um fyrirgefningu? (b) Verðum við alltaf að bíða eftir afsökunarbeiðni áður en við fyrirgefum öðrum?

14 Í fyrirmyndarbæn Jesú segir: „Fyrirgef oss vorar syndir, enda fyrirgefum vér öllum vorum skuldunautum.“ (Lúkas 11:4) Ef við erum langrækin hættum við á að sá dagur komi að Jehóva Guð fyrirgefi ekki lengur syndir okkar því að Jesús sagði: „Ef þér fyrirgefið mönnum misgjörðir þeirra, þá mun og faðir yðar himneskur fyrirgefa yður. En ef þér fyrirgefið ekki öðrum, mun faðir yðar ekki heldur fyrirgefa misgjörðir yðar.“ (Matteus 6:14, 15) Ef við viljum í alvöru leggja okkar af mörkum til að varðveita eininguna í tilbiðjendafjölskyldu Jehóva erum við sáttfús og gleymum kannski bara móðgun eða misgerð sem kann að hafa stafað af hugsunarleysi og er án alls illvilja. Páll sagði: „Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og [Jehóva] hefur fyrirgefið yður, svo skuluð þér og gjöra.“ (Kólossubréfið 3:13) Þegar við fyrirgefum stuðlum við að hinni dýrmætu einingu skipulags Jehóva.

Eining og persónulegar ákvarðanir

15. Hvað hjálpar þjónum Jehóva að varðveita einingu þegar þeir taka persónulegar ákvarðanir?

15 Guð skapaði okkur með frjálsa siðferðisvitund sem felur í sér þau sérréttindi og ábyrgð að taka persónulegar ákvarðanir. (5. Mósebók 30:19, 20; Galatabréfið 6:5) En við erum samt fær um að varðveita einingu okkar af því að við förum eftir lögum og meginreglum Biblíunnar. Við miðum við þær þegar við tökum persónulegar ákvarðanir. (Postulasagan 5:29; 1. Jóhannesarbréf 5:3) Setjum sem svo að spurning vakni um hlutleysi. Við getum tekið skynsamlega ákvörðun með því að muna að við ‚erum ekki af heiminum‘ og höfum ‚smíðað plógjárn úr sverðum okkar.‘ (Jóhannes 17:16; Jesaja 2:2-4) Þegar við þurfum að taka persónulega ákvörðun um samband okkar við ríkið íhugum við líka orð Biblíunnar um að gjalda „Guði það sem Guðs er“ jafnhliða því að lúta „yfirvöldum“ í veraldlegum málum. (Lúkas 20:25; Rómverjabréfið 13:1-7; Títusarbréfið 3:1, 2) Já, með því að taka mið af lögum og meginreglum Biblíunnar þegar við tökum persónulegar ákvarðanir stuðlum við að kristinni einingu okkar.

16. Hvernig getum við viðhaldið einingu þegar við tökum ákvarðanir sem eru hvorki réttar né rangar biblíulega? Lýstu með dæmi.

16 Við getum lagt okkar af mörkum til að varðveita kristna einingu jafnvel þegar við tökum ákvörðun sem er algerlega persónuleg og hvorki rétt né röng biblíulega. Hvernig þá? Með því að sýna öðrum, sem ákvörðun okkar kann að hafa áhrif á, kærleiksríka umhyggju. Lýsum því með dæmi: Í söfnuðinum í Korintu til forna kom upp spurning um kjöt fórnað skurðgoðum. Kristinn maður myndi auðvitað ekki taka þátt í skurðgoðaathöfn. En það var engin synd að borða rétt blóðgað afgangskjöt af þessu tagi sem selt var á almennum markaði. (Postulasagan 15:28, 29; 1. Korintubréf 10:25) Hins vegar var samviska sumra kristinna manna ekki sátt við að þeir borðuðu þetta kjöt. Páll hvatti því aðra kristna menn til að hneyksla þá ekki. Hann skrifaði meira að segja: „Þess vegna mun ég, ef matur verður bróður mínum til falls, um aldur og ævi ekki kjöts neyta, til þess að ég verði bróður mínum ekki til falls.“ (1. Korintubréf 8:13) Jafnvel þótt engin biblíulög eða meginreglur komi málinu við er kærleiksríkt að taka tillit til annarra þegar við tökum persónulegar ákvarðanir sem gætu haft áhrif á einingu fjölskyldu Guðs!

17. Hvað er ráðlegt að gera þegar við þurfum að taka persónulegar ákvarðanir?

17 Ef við erum ekki viss hvaða stefnu við eigum að taka er hyggilegt að taka þannig ákvörðun að við varðveitum hreina samvisku, og aðrir ættu að virða ákvörðun okkar. (Rómverjabréfið 14:10-12) Að sjálfsögðu ættum við að leita leiðsagnar Jehóva í bæn þegar við þurfum að taka persónulega ákvörðun. Líkt og sálmaritarinn getum við beðið með trúartrausti: „Hneig eyru þín til mín, . . . því að þú ert bjarg mitt og vígi, og sakir nafns þíns munt þú leiða mig og stjórna mér.“ — Sálmur 31:3, 4.

Varðveitum alltaf kristna einingu

18. Við hvað líkti Páll einingu kristna safnaðarins?

18 Í 12. kafla 1. Korintubréfs tók Páll líkama mannsins sem dæmi til að lýsa einingu kristna safnaðarins. Hann lagði áherslu á að allir væru hver öðrum háðir og að hver og einn skipti máli. „Ef allir limirnir væru einn limur, hvar væri þá líkaminn?“ spurði Páll. „En nú eru limirnir margir, en líkaminn einn. Augað getur ekki sagt við höndina: ‚Ég þarfnast þín ekki!‘ né heldur höfuðið við fæturna: ‚Ég þarfnast ykkar ekki!‘“ (1. Korintubréf 12:19-21) Á sama hátt geta ekki allir í fjölskyldu dýrkenda Jehóva gegnt sama hlutverki. Samt erum við sameinuð og við þörfnumst hvert annars.

19. Hvernig getum við notið góðs af andlegum ráðstöfunum Jehóva og hvað sagði aldraður bróðir um það?

19 Eins og líkaminn þarfnast fæðu, umönnunar og stjórnar þörfnumst við hinnar andlegu fæðu sem Guð veitir okkur fyrir milligöngu orðs síns, anda og skipulags. Til að njóta góðs af þessari fæðu verðum við að tilheyra jarðneskri fjölskyldu Jehóva. Bróðir skrifaði eftir áralanga þjónustu við Guð: „Ég er innilega þakklátur að ég skuli hafa lifað eftir þekkingunni á tilgangi Jehóva frá því rétt fyrir 1914 þegar margt var fremur óljóst . . . fram á þennan dag þegar sannleikurinn skín skært eins og hádegissólin. Það hefur skipt mig mestu máli að halda mig sem næst sýnilegu skipulagi Jehóva. Ég lærði snemma af reynslunni hve ótraust væri að reiða sig á mannleg rök. Eftir að ég hafði gert upp hug minn í sambandi við þetta ákvað ég að halda mig við hið trúfasta skipulag. Hvernig er annars hægt að öðlast velþóknun Jehóva og blessun?“

20. Hvað ættum við að vera staðráðin í að gera í sambandi við einingu okkar sem fólk Jehóva?

20 Jehóva hefur kallað fólk sitt út úr myrkri og óeiningu heimsins. (1. Pétursbréf 2:9) Hann hefur veitt okkur blessunarríka einingu við sjálfan sig og trúbræður okkar. Þessi eining mun haldast í nýja heimskerfinu sem er svo nærri. Núna á þessum örðugu síðustu dögum skulum við því ‚íklæðast elskunni‘ og gera allt sem við getum til að stuðla að og varðveita dýrmæta einingu okkar. — Kólossubréfið 3:14.

Hvert er svar þitt?

◻ Hvernig stuðlum við að einingu með því að gera vilja Guðs og halda okkur fast við sannleikann?

◻ Hvernig er eining tengd réttri notkun tungunnar?

◻ Hvað er fólgið í sáttfýsi?

◻ Hvernig getum við varðveitt einingu þegar við tökum persónulegar ákvarðanir?

◻ Hvers vegna ættum við að varðveita kristna einingu?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 26]

Jehóva heldur fólki sínu sameinuðu á sama hátt og þessi fjárhirðir heldur hjörð sinni saman.

[Myndir á blaðsíðu 28]

Við stuðlum að einingu með því að biðjast auðmjúklega afsökunar er við móðgum aðra.