Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

‚Verið heilagir því að ég er heilagur‘

‚Verið heilagir því að ég er heilagur‘

‚Verið heilagir því að ég er heilagur‘

„Þér skuluð vera heilagir, því að ég, [Jehóva], Guð yðar, er heilagur.“ — 3. MÓSEBÓK 19:2.

1. Nefndu dæmi um menn sem heimurinn álítur heilaga.

 Í FLESTUM helstu trúarbrögðum heims er fólk að finna sem talið er heilagt. Móðir Teresa, sem fræg er af ævistarfi sínu á Indlandi, er oft álitin heilög sökum fórnfýsi sinnar í þágu fátækra. Páfinn er kallaður „heilagi faðir.“ Stofnandi kaþólsku hreyfingarinnar Opus Dei, José María Escrivá, er af sumum kaþólskum mönnum álitinn „fyrirmynd heilagleikans.“ Hindúatrúin á sér fræði- og meinlætamenn sem álitnir eru heilagir. Gandhi var virtur sem helgur maður. Búddhatrúin á sér heilaga munka og íslam heilagan spámann. En hvað merkir það eiginlega að vera heilagur?

2, 3. (a) Hvað merkja orðin „heilagur“ og „heilagleiki“? (b) Nefndu nokkrar spurningar sem svara þarf.

2 Orðið „heilagur“ hefur verið skilgreint sem „1. . . . tengt mætti Guðs; helgur. 2. Tignaður eða álitinn lotningarverður . . . 3. Sem lifir eftir ströngu eða mjög siðavöndu andlegu eða trúarlegu fyrirkomulagi . . . 4. Tiltekinn eða aðgreindur til trúarlegra nota.“ Í biblíulegu samhengi merkir heilagleiki „trúarlegan hreinleika, helgi.“ Að sögn biblíufræðiverksins Innsýn í Ritningarnar „felur hebreska frumorðið kvoʹðesh í sér hugmyndina um að vera aðgreindur, óskiptur eða helgaður Guði, . . . að vera aðgreindur til þjónustu Guðs.“ *

3 Ísraelsþjóðinni var fyrirskipað að vera heilög. Lögmál Guðs sagði: „Ég er [Jehóva], Guð yðar. Og helgist og verið heilagir, því að ég er heilagur.“ Hver var uppspretta heilagleikans? Hvernig gátu ófullkomnir Ísraelsmenn orðið heilagir? Og hvaða lærdóm getum við nútímamenn dregið af fyrirskipun Jehóva um að vera heilagir? — 3. Mósebók 11:44.

Hvernig Ísrael tengdist uppsprettu heilagleikans

4. Hvernig var heilagleiki Jehóva táknaður í Ísrael?

4 Allt sem tengdist tilbeiðslu Ísraels á Jehóva Guði átti að teljast heilagt og meðhöndlast sem slíkt. Hvers vegna? Vegna þess að Jehóva sjálfur er upphaf og uppspretta heilagleikans. Frásaga Móse af gerð tjaldbúðarinnar helgu, prestaskrúðanna og skreytinganna lauk með þessum orðum: „Síðan gjörðu þeir spöngina, hið helga ennishlað, af skíru gulli og letruðu á hana með innsiglisgrefti: ‚Helgaður [Jehóva].‘“ Þessi gullspöng var fest á vefjarhött æðsta prestsins og táknaði að hann væri aðgreindur til sérstakrar helgiþjónustu. Er Ísraelsmenn sáu glampa á þessa áletruðu spöng í sólskininu voru þeir minntir reglulega á heilagleika Jehóva. — 2. Mósebók 28:36; 29:6; 39:30.

5. Hvernig var hægt að líta á ófullkomna Ísraelsmenn sem heilaga?

5 En hvernig gátu Ísraelsmenn orðið heilagir? Aðeins með nánu sambandi sínu við Jehóva og hreinni tilbeiðslu á honum. Þeir þörfnuðust nákvæmrar þekkingar á ‚Hinum heilaga‘ til að tilbiðja hann í heilagleika og hreinleika, líkamlega og andlega. (Orðskviðirnir 2:1-6; 9:10) Ísraelsmenn urðu þess vegna að tilbiðja Guð af hreinu tilefni og hreinu hjarta. Sérhver hræsnisfull tilbeiðsla væri Jehóva andstyggileg. — Orðskviðirnir 21:27.

Hvers vegna Jehóva fordæmdi Ísrael

6. Hvernig litu Gyðingar á dögum Malakí á borð Jehóva?

6 Þetta sýndi sig greinilega þegar Ísraelsmenn komu með lélegar og gallaðar fórnir í musterið. Fyrir munn spámannsins Malakí fordæmdi Jehóva lítilfjörlegar fórnir þeirra: „Ég hefi enga velþóknun á yður — segir [Jehóva] allsherjar, og ég girnist enga fórnargjöf af yðar hendi. . . . En þér vanhelgið það, með því að þér segið: ‚Borð [Jehóva] er óhreint, og það sem af því fellur oss til fæðslu, er einskis vert.‘ Og þér segið: ‚Sjá, hvílík fyrirhöfn!‘ og fyrirlítið það, — segir [Jehóva] allsherjar —, og þér færið fram það sem rænt er og það sem halt er og það sem sjúkt er og færið það í fórn. Ætti ég að girnast slíkt af yðar hendi? — segir [Jehóva].“ — Malakí 1:10, 12, 13.

7. Hvaða vanheilög verk unnu Gyðingar á fimmtu öld f.o.t.?

7 Guð notaði Malakí til að fordæma sviksamlegt framferði Gyðinga, sennilega á fimmtu öld f.o.t. Prestarnir gáfu slæmt fordæmi og framferði þeirra var síður en svo heilagt. Fólkið fylgdi forystunni og fór ekki eftir meginreglum Guðs. Menn gengu jafnvel svo langt að skilja við konur sínar, ef til vill í þeim tilgangi að geta tekið sér yngri konur og heiðnar. Malakí skrifaði: „[Jehóva] var vottur að sáttmálsgjörðinni milli þín og konu æsku þinnar, er þú hefir nú brugðið trúnaði við, * enda þótt hún væri förunautur þinn og eiginkona þín eftir gjörðu sáttmáli. . . . Gætið yðar því í huga yðar, og bregð eigi trúnaði við eiginkonu æsku þinnar. Því að ég hata hjónaskilnað — segir [Jehóva], Ísraels Guð.“ — Malakí 2:14-16.

8. Hvernig hafa nútímaviðhorf til hjónaskilnaða haft áhrif á suma í kristna söfnuðinum?

8 Víða um lönd, þar sem skilnaður er auðfenginn, hefur hjónaskilnuðum stórfjölgað nú á tímum. Kristni söfnuðurinn hefur jafnvel ekki farið varhluta af því. Í stað þess að leita hjálpar öldunganna til að yfirstíga erfiðleika og reyna að láta hjónabandið heppnast hafa sumir slitið því í fljótræði. Oft eru það börnin sem verða verst úti tilfinningalega. — Matteus 19:8, 9.

9, 10. Hvað ættum við að hugleiða í sambandi við tilbeiðslu okkar á Jehóva?

9 Eins og áður er nefnt fordæmdi Jehóva tæpitungulaust innantóma tilbeiðslu Júdamanna þegar ástandið var sem verst andlega séð á dögum Malakí, og benti á að hann viðurkenndi aðeins hreina tilbeiðslu. Ætti þetta ekki að fá okkur til að íhuga hversu vönduð tilbeiðsla okkar á Jehóva Guði sé, drottinvaldi alheimsins, uppsprettu ósvikins heilagleika? Erum við í alvöru að veita Guði heilaga þjónustu? Höldum við okkur andlega hreinum?

10 Það merkir ekki að við verðum að vera fullkomin, enda getum við það ekki, eða að við eigum að bera okkur saman við aðra. En það merkir að hver einstakur kristinn maður eigi að tilbiðja Guð sem best hann getur miðað við aðstæður. Þar er átt við gæði tilbeiðslu okkar. Heilög þjónusta okkar ætti að vera það besta sem við getum veitt — helg þjónusta. Hvernig getum við gert það? — Lúkas 16:10; Galatabréfið 6:3, 4.

Hrein hjörtu leiða til hreinnar tilbeiðslu

11, 12. Af hverju eru vanheilög verk sprottin?

11 Jesús kenndi greinilega að það sem búi í hjartanu komi fram í því sem maðurinn segi og geri. Jesús sagði við sjálfbirgingslega en vanheilaga farísea: „Þér nöðru kyn, hvernig getið þér, sem eruð vondir, talað gott? Af gnægð hjartans mælir munnurinn.“ Síðar benti hann á að vond verk séu sprottin af illum hugsunum í hjartanu eða hinum innri manni. Hann sagði: „Það sem út fer af munni, kemur frá hjartanu. Og slíkt saurgar manninn. Því að frá hjartanu koma illar hugsanir, manndráp, hórdómur, saurlifnaður, þjófnaður, ljúgvitni, lastmælgi. Þetta er það, sem saurgar manninn.“ — Matteus 12:34; 15:18-20.

12 Þetta hjálpar okkur að skilja að vanheilög verk eru ekki bara ósjálfráð eða óundirbúin. Þau spretta af saurgandi hugsunum sem hafa leynst í hjartanu — leyndum löngunum og kannski hugarórum. Þess vegna gat Jesús sagt: „Þér hafið heyrt, að sagt var: ‚Þú skalt ekki drýgja hór.‘ En ég segi yður: Hver sem horfir á konu í girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“ Með öðrum orðum hefur saurlifnaður og hórdómur fest rætur í hjartanu áður en nokkur verknaður á sér stað. Síðan, ef réttar aðstæður skapast, birtast hinar vanheilögu hugsanir í vanheilagri breytni. Afleiðingarnar eru saurlífi, hórdómur, kynvilla, þjófnaður, lastmælgi, fráhvarf og annað slíkt. — Matteus 5:27, 28; Galatabréfið 5:19-21.

13. Nefndu nokkur dæmi um hvernig vanheilagar hugsanir geta leitt til vanheilagra verka.

13 Sýna má fram á þetta með ýmsum dæmum. Í sumum löndum spretta spilavíti upp eins og gorkúlur þannig að tækifærin til að spila fjárhættuspil verða æ fleiri. Maður gæti freistast til að reyna að leysa fjárhagserfiðleika sína með því að grípa til þessarar gervilausnar. Villandi rökfærsla gæti komið bróður til að hafna meginreglum Biblíunnar eða gera lítið úr þeim. * Í öðru tilviki gæti auðveldur aðgangur að klámi, annaðhvort í sjónvarpi, á myndböndum, í tölvum eða bókum, leitt kristinn mann út í vanheilaga breytni. Hann þarf ekki annað en að trassa andleg herklæði sín og áður en varir er hann kominn út í siðleysi. En í flestum tilvikum er það í huganum sem menn stíga fyrsta skrefið út í syndina. Við aðstæður eins og þessar uppfyllast orð Jakobs: „Það er eigin girnd, sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir. Þegar girndin síðan er orðin þunguð, elur hún synd.“ — Jakobsbréfið 1:14, 15; Efesusbréfið 6:11-18.

14. Hvernig hafa margir náð að snúa baki við vanheilagri breytni?

14 Sem betur fer sýna margir kristnir menn, sem syndga vegna veikleika, sanna iðrun og öldungarnir geta hresst þá við andlega. Meira að segja koma margir, sem iðrast ekki og eru gerðir rækir, til sjálfs sín síðar meir og eru teknir aftur inn í söfnuðinn. Þeir átta sig á því hve auðveldlega Satan yfirbugaði þá af því að þeir leyfðu vanheilögum hugsunum að festa rætur í hjartanu. — Galatabréfið 6:1; 2. Tímóteusarbréf 2:24-26; 1. Pétursbréf 5:8, 9.

Áskorunin — að horfast í augu við veikleika sína

15. (a) Hvers vegna verðum við að horfast í augu við veikleika okkar? (b) Hvað getur hjálpað okkur að viðurkenna veikleika okkar?

15 Við verðum að leggja okkur fram um að rannsaka hjarta okkar og sjá það eins og það er. Erum við fús til að horfast í augu við veikleika okkar, viðurkenna þá og vinna síðan að því að sigrast á þeim? Erum við fús til að spyrja hreinskilinn vin hvernig við getum bætt okkur og hlýða síðan á ráð hans? Til að varðveita okkur heilög verðum við að sigrast á veikleikum okkar. Hvers vegna? Vegna þess að Satan þekkir veikleika okkar. Hann beitir lævísum vélabrögðum sínum til að tæla okkur út í synd og vanheilaga breytni. Með slægð reynir hann að gera okkur viðskila við kærleika Jehóva Guðs þannig að við séum ekki lengur helguð og nothæf til tilbeiðslu hans. — Jeremía 17:9; Efesusbréfið 6:11; Jakobsbréfið 1:19.

16. Hvaða baráttu átti Páll í?

16 Páll postuli fékk sinn skerf af þrengingum og prófraunum eins og hann nefnir í Rómverjabréfinu: „Ég veit, að ekki býr neitt gott í mér, það er, í holdi mínu. Að vilja veitist mér auðvelt, en ekki að framkvæma hið góða. Hið góða, sem ég vil, gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég vil ekki, það gjöri ég. . . . Innra með mér hef ég mætur á lögmáli Guðs, en ég sé annað lögmál í limum mínum, sem berst á móti lögmáli hugar míns og hertekur mig undir lögmál syndarinnar í limum mínum.“ — Rómverjabréfið 7:18-23.

17. Hvernig sigraði Páll í baráttunni við veikleika sína?

17 Það sem máli skiptir er að Páll viðurkenndi veikleika sína. Þrátt fyrir veikleikana gat hann sagt: „Innra með mér hef ég mætur á lögmáli Guðs.“ Páll elskaði hið góða og hataði hið illa. Samt átti hann í baráttu, sömu baráttu og við öll — við Satan, heiminn og holdið. Hvernig getum við þá unnið stríðið og verið heilög og aðgreind frá þessum heimi og hugsunarhætti hans? — 2. Korintubréf 4:4; Efesusbréfið 6:12.

Hvernig getum við varðveitt okkur heilög?

18. Hvernig getum við varðveitt okkur heilög?

18 Við verðum ekki heilög með því að fara auðveldustu leiðina eða vera eftirlát við sjálf okkur. Þeir sem gera það finna alltaf afsakanir fyrir breytni sinni og reyna að skella skuldinni á aðra. Kannski þurfum við að læra að taka ábyrgð á verkum okkar og vera ekki eins og þeir sem halda því fram að örlögin hafi stokkað spilin þeim í óhag sökum uppruna eða erfða. Kjarni málsins er hvað býr í hjarta mannsins. Elskar hann réttlætið? Langar hann til að vera heilagur? Þráir hann blessun Guðs? Sálmaritarinn benti á nauðsyn þess að vera heilagur er hann sagði: „Forðast illt og gjörðu gott, leita friðar og legg stund á hann.“ Páll postuli skrifaði: „Elskan sé flærðarlaus. Hafið andstyggð á hinu vonda, en haldið fast við hið góða.“ — Sálmur 34:15; 97:10; Rómverjabréfið 12:9.

19, 20. (a) Hvernig getum við uppbyggt huga okkar? (b) Hvað felur árangursríkt einkanám í sér?

19 Við getum „haldið fast við hið góða“ ef við sjáum hlutina frá sjónarhóli Jehóva og ef við höfum huga Krists. (1. Korintubréf 2:16) Hvernig gerum við það? Með því að rannsaka og hugleiða orð Guðs að staðaldri. Þetta ráð hefur verið gefið margoft! En tökum við það nógu alvarlega? Nemurðu þetta tímarit til dæmis vandlega og flettir upp tilvísuðum ritningargreinum áður en þú kemur á samkomur? Með námi er ekki aðeins átt við það að undirstrika fáeinar setningar í hverri tölugrein. Það er hægt að renna yfir námsgrein og strika undir svör á 15 mínútum. Þýðir það að við höfum numið greinina? Reyndar gæti það tekið eina til tvær klukkustundir að nema greinina og meðtaka efni hennar.

20 Kannski þurfum við að beita okkur sjálfsaga til að slíta okkur frá sjónvarpinu í fáeinar klukkustundir í hverri viku og einbeita okkur virkilega að persónulegum heilagleika okkar. Reglulegt nám byggir upp andlegt hugarfar, örvar hugann til að taka réttar ákvarðanir — ákvarðanir sem leiða til ‚heilagrar breytni og guðrækni.‘ — 2. Pétursbréf 3:11; Efesusbréfið 4:23; 5:15, 16.

21. Hvaða spurningu er ósvarað?

21 En spyrja má á hvaða fleiri sviðum við, kristnir menn, getum verið heilagir eins og Jehóva er heilagur. Í greininni á eftir er sitthvað til umhugsunar.

[Neðanmáls]

^ Þetta tveggja binda uppsláttarrit er gefið út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

^ Nánari umfjöllun um orðalagið, sem hér er þýtt ‚að bregða trúnaði,‘ er að finna í Vaknið! (enskri útgáfu) 8. febrúar 1994, bls. 21 í grein sem nefnist „Hvers konar hjónaskilnað hatar Guð?“

^ Nánari upplýsingar um hvers vegna fjárhættuspil eru vanheilög er að finna í Vaknið! (enskri útgáfu) 8. ágúst 1994, bls. 14-15, gefið út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

Manstu?

◻ Hvernig var bent á uppsprettu heilagleikans í Ísrael?

◻ Á hvaða vegu var tilbeiðsla Ísraelsmanna vanheilög á dögum Malakí?

◻ Hvar á vanheilög breytni upptök sín?

◻ Hvað verðum við að viðurkenna til að vera heilög?

◻ Hvernig getum við varðveitt okkur heilög?

[Spurningar]