Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að lifa eftir lögmáli Krists

Að lifa eftir lögmáli Krists

Að lifa eftir lögmáli Krists

„Berið hver annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists.“ — GALATABRÉFIÐ 6:2.

1. Hvers vegna má segja að lögmál Krists hafi geysiöflug og góð áhrif nú á dögum?

 VOTTAR Jehóva af ættflokkum hútúa og tútsa í Rúanda hættu lífi sínu til að vernda hver annan í ættflokkadrápunum þar í landi fyrir nokkru. Margir vottar Jehóva í Kobe í Japan misstu ættingja í jarðskjálftanum mikla þar. En þótt þeir væru harmi slegnir létu þeir hendur standa fram úr ermum til að bjarga öðrum úr rústunum. Hjartnæm dæmi víða um heim bera vott um að lögmál Krists er að verki nú á dögum. Hin góðu áhrif þess eru geysiöflug.

2. Hvernig hefur kristni heimurinn misskilið tilganginn með lögmáli Krists og hvernig förum við að því að uppfylla þetta lögmál?

2 Samtímis er biblíuspádómur um þessa örðugu ‚síðustu daga‘ að rætast. Margir hafa á sér „yfirskin guðhræðslunnar, en afneita krafti hennar.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1, 5) Í kristna heiminum er áberandi að trúin er oft aðeins ytra form en nær ekki til hjartans. Er of erfitt að lifa eftir lögmáli Krists? Nei. Jesús hefði ekki gefið okkur lögmál sem við gætum ekki farið eftir. Kristni heimurinn hefur einfaldlega ekki skilið tilganginn með þessu lögmáli. Hann hefur ekki farið eftir þessum innblásnu orðum: „Berið hver annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists.“ (Galatabréfið 6:2) Við ‚uppfyllum lögmál Krists‘ með því að bera hver annars byrðar, ekki með því að líkja eftir faríseunum og þyngja byrðar bræðra okkar að þarflausu.

3. (a) Nefndu nokkur boð sem eru fólgin í lögmáli Krists. (b) Hvers vegna væri rangt að álíta að kristni söfnuðurinn ætti ekki að hafa neinar aðrar reglur en bein boð Krists?

3 Lögmál Krist felur í sér öll boð Jesú Krists — um að prédika og kenna, að varðveita augað heilt og hreint, að halda frið við náungann og að útrýma óhreinleika úr söfnuðinum. (Matteus 5:27-30; 18:15-17; 28:19, 20; Opinberunarbókin 2:14-16) Já, kristnum mönnum er skylt að halda öll boð Biblíunnar sem beint er til fylgjenda Krists. Og ekki aðeins það. Skipulag Jehóva og einstakir söfnuðir þurfa að setja ýmis ákvæði og starfsreglur til að halda uppi röð og reglu. (1. Korintubréf 14:33, 40) Kristnir menn gætu ekki einu sinni komið saman ef þeir hefðu engar reglur um það hvar, hvenær og hvernig ætti að halda slíkar samkomur! (Hebreabréfið 10:24, 25) Að fara eftir sanngjörnum viðmiðunarreglum þeirra sem falin eru yfirráð í skipulaginu er líka þáttur í því að uppfylla lögmál Krists. — Hebreabréfið 13:17.

4. Hver er aflvaki hreinnar tilbeiðslu?

4 En sannkristnir menn gæta þess að tilbeiðsla þeirra breytist ekki í merkingarlaust samsafn laga og reglna. Þeir þjóna ekki Jehóva aðeins af því að einhver maður eða skipulag segir þeim að gera það. Aflvakinn að baki tilbeiðslu þeirra er kærleikur. Páll skrifaði: „Kærleiki Krists knýr oss.“ (2. Korintubréf 5:14) Jesús fyrirskipaði fylgjendum sínum að elska hver annan. (Jóhannes 15:12, 13) Lögmál Krists byggist á fórnfúsum kærleika sem knýr og hvetur sannkristna menn alls staðar, bæði innan fjölskyldunnar og safnaðarins. Lítum nánar á það.

Innan fjölskyldunnar

5. (a) Hvernig geta foreldrar uppfyllt lögmál Krists á heimilinu? (b) Hvers þarfnast börn frá foreldrum sínum og hvað þurfa sumir foreldrar að yfirstíga til að veita það?

5 Páll postuli skrifaði: „Þér menn, elskið konur yðar eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana.“ (Efesusbréfið 5:25) Þegar eiginmaður líkir eftir Kristi og er kærleiksríkur og skilningsríkur við konu sína uppfyllir hann mikilvægan þátt í lögmáli Krists. Og Jesús sýndi opinskátt ást sína á litlum börnum, tók þau í faðm sér, lagði hendur yfir þau og blessaði þau. (Markús 10:16) Foreldrar, sem uppfylla lögmál Krists, sýna börnum sínum líka ástúð. Vissulega eru til foreldrar sem finnst erfitt að líkja eftir fordæmi Jesú að þessu leyti. Sumir eiga ekki auðvelt með að sýna tilfinningar sínar. Foreldrar, látið slíkt ekki koma í veg fyrir að þið tjáið börnunum ást ykkar til þeirra! Það er ekki nóg að þið vitið að þið elskið börnin. Þau þurfa líka að vita það. Og það vita þau ekki nema þið sýnið ást ykkar með einhverjum hætti. — Samanber Markús 1:11.

6. (a) Þarfnast börn reglna frá foreldrum sínum? Skýrðu svarið. (b) Hvaða ástæðu fyrir heimilisreglum þurfa börn að skilja? (c) Hvaða hættum sneiðum við hjá þegar lögmál Krists ríkir á heimilinu?

6 Jafnframt þarf að setja börnum viss takmörk sem þýðir að foreldrarnir þurfa að setja reglur og stundum framfylgja þeim með því að beita aga. (Hebreabréfið 12:7, 9, 11) Samt þarf að sýna börnunum jafnt og þétt fram á hvað búi að baki þessum reglum — að foreldrarnir elski þau. Og þau þurfa að læra að kærleikur er besta ástæðan til að hlýða foreldrunum. (Efesusbréfið 6:1; Kólossubréfið 3:20; 1. Jóhannesarbréf 5:3) Hyggnir foreldrar hafa það markmið að kenna börnunum að beita ‚skynseminni‘ þannig að þau læri smám saman að taka heilbrigðar ákvarðanir hjálparlaust. (Rómverjabréfið 12:1, Biblían 1912; samanber 1. Korintubréf 13:11.) Á hinn bóginn ættu reglur ekki að vera of margar eða aginn of harður. Páll segir: „Þér feður, verið ekki vondir við börn yðar, svo að þau verði ekki ístöðulaus.“ (Kólossubréfið 3:21; Efesusbréfið 6:4) Þegar lögmál Krists ríkir á heimilinu, þá á meiðandi kaldhæðni eða agi, sem beitt er í stjórnlausu reiðikasti, ekki heima þar. Á slíku heimili finnst börnunum þau uppbyggð og örugg, ekki niðurbrotin eða þjökuð. — Samanber Sálm 36:8.

7. Á hvaða vegu gætu Betelheimilin verið fordæmi um að setja heimilisreglur?

7 Sumir, sem hafa heimsótt Betelheimilin víða um lönd, segja að þau séu gott dæmi um öfgalausar fjölskyldureglur. Enda þótt heimilismenn þar séu fulltíða fólk eru þetta að mörgu leyti eins og fjölskyldur. * Starfsemi Betelheimilanna er margþætt og því þarf að setja talsvert margar reglur — mun fleiri en á venjulegu heimili. Engu að síður leitast öldungarnir, sem fara með forystuna á Betelheimilunum, skrifstofunum og í prentsmiðjunum, við að fara eftir lögmáli Krists. Þeir líta ekki aðeins á það sem hlutverk sitt að skipuleggja vinnuna heldur líka að stuðla að andlegum framförum og ‚gleði Jehóva‘ meðal samverkamanna sinna. (Nehemíabók 8:10) Þess vegna leitast þeir við að vera sanngjarnir, uppörvandi og jákvæðir. (Efesusbréfið 4:31, 32) Það er engin furða að Betelheimilin skuli vera kunn fyrir glaðlegt andrúmsloft!

Innan safnaðarins

8. (a) Hvert ætti alltaf að vera markmið okkar í söfnuðinum? (b) Undir hvaða kringumstæðum hafa sumir óskað eftir reglum eða reynt að setja þær?

8 Innan safnaðarins er það einnig markmið okkar að uppbyggja hvert annað í anda kærleikans. (1. Þessaloníkubréf 5:11) Allir kristnir menn ættu því að gæta þess að íþyngja ekki öðrum með því að þröngva skoðunum sínum upp á þá þar sem persónulegt valfrelsi á að ráða. Stundum skrifar fólk Varðturnsfélaginu og vill fá úrskurð um það hvaða afstöðu eigi að taka til ákveðinna kvikmynda, bóka og jafnvel leikfanga. En Félagið hefur ekki umboð til að fjalla um slík mál og fella dóma um þau. Um flest mál þarf hver einstaklingur eða fjölskylduhöfuð að taka eigin ákvörðun byggða á kærleika sínum til Biblíunnar og meginreglna hennar. Sumir hafa tilhneigingu til að búa til fastar reglur úr tillögum og viðmiðunarreglum Félagsins. Til dæmis var góð grein í Varðturninum (enskri útgáfu) 15. mars 1996 sem hvatti öldunga til að fara í reglulegar hirðisheimsóknir til safnaðarmanna. Var ætlunin sú að setja reglur? Nei, enda þótt þeir sem geta fylgt tillögunum sjái margvíslegt gagn af því eru ekki allir öldungar í aðstöðu til þess. Í „Spurningum frá lesendum“ í Varðturninum (enskri útgáfu) 1. apríl 1995 var varað við því að draga úr virðuleika skírnarathafnar með því að fara út í öfgar, svo sem að halda upp á skírnina með taumlausum gleðskap eða fjölmennum veisluhöldum. Sumir hafa farið út í öfgar í túlkun sinni á þessum hollu ráðum og jafnvel sett þá reglu að það væri rangt að senda hlýlegt og hvetjandi kort við slíkt tækifæri.

9. Hvers vegna er þýðingarmikið að við séum ekki of gagnrýnin og dómhörð hvert gagnvart öðru?

9 Höfum líka í huga að ef „hið fullkomna lögmál frelsisins“ á að ríkja meðal okkar verðum við að viðurkenna að samviska kristinna manna er ólík. (Jakobsbréfið 1:25) Ættum við að komast í uppnám ef fólk hefur persónulegan smekk sem stangast ekki á við meginreglur Biblíunnar? Nei, það myndi valda sundurlyndi. (1. Korintubréf 1:10) Páll varaði okkur við því að dæma bróður okkar og sagði: „Hann stendur og fellur herra sínum. Og hann mun standa, því að megnugur er [Jehóva] þess að láta hann standa.“ (Rómverjabréfið 14:4) Við tökum þá áhættu að vanþóknast Guði ef við tölum illa hver um annan í málum þar sem samviskan á að ráða. — Jakobsbréfið 4:10-12.

10. Hverjum er falin umsjón safnaðarins og hvernig ættum við að styðja þá?

10 Við skulum líka muna að öldungum er falið að gæta hjarðar Guðs. (Postulasagan 20:28) Það er hlutverk þeirra að hjálpa. Okkur ætti að finnast við geta óhikað leitað ráða hjá þeim því að þeir eru biblíunemendur og þekkja vel til þess sem fjallað hefur verið um í ritum Varðturnsfélagsins. Þegar öldungarnir koma auga á hegðun sem hætt er við að leiði til brots á meginreglum Ritningarinnar leiðbeina þeir óttalaust eftir því sem við á. (Galatabréfið 6:1) Safnaðarmenn fylgja lögmáli Krists með því að vera samvinnuþýðir við þessa ástkæru hirða sem taka forystuna meðal þeirra. — Hebreabréfið 13:7.

Öldungar fara eftir lögmáli Krists

11. Hvernig fara öldungarnir eftir lögmáli Krists í söfnuðinum?

11 Öldungum er mikið í mun að uppfylla lögmál Krists í söfnuðinum. Þeir taka forystuna í prédikun fagnaðarerindisins, kenna með hjálp Biblíunnar þannig að þeir nái til hjartans og hughreysta ‚niðurdregna‘ sem kærleiksríkir og mildir hirðar. (1. Þessaloníkubréf 5:14, NW) Þeir forðast hin ókristilegu viðhorf sem eru áberandi í mörgum trúfélögum kristna heimsins. Heiminum hnignar að vísu ört og öldungarnir hafa kannski áhyggjur af hjörðinni eins og Páll, en þeir gæta jafnvægis í viðbrögðum sínum við þessum áhyggjum. — 2. Korintubréf 11:28.

12. Hvernig gæti öldungur brugðist við þegar safnaðarmaður biður um hjálp?

12 Kristinn maður vill kannski ráðfæra sig við öldung um mikilvægt mál sem ekki er beinlínis talað um í Biblíunni eða þar sem finna þarf jafnvægi milli ólíkra kristinna meginreglna. Ef til vill hefur honum verið boðin stöðuhækkun með hærri launum en meiri ábyrgð. Eða þá að vantrúaður faðir ungs kristins drengs gerir kröfur til hans sem gætu haft áhrif á þátttöku hans í boðunarstarfinu. Í slíkum tilvikum stillir öldungurinn sig um að segja persónulega skoðun sína. Líklega opnar hann frekar Biblíuna og hjálpar viðkomandi að rökhugsa út af viðeigandi meginreglum. Hann notar kannski Efnisskrá Varðturnsfélagsins til að finna það sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ hefur sagt um málið í Varðturninum og öðrum ritum. (Matteus 24:45) Hvað þá ef boðberinn tekur síðan ákvörðun sem öldungnum finnst ekki viturleg? Ef ákvörðunin brýtur ekki beinlínis í bága við meginreglur eða lög Biblíunnar kemst boðberinn að raun um að öldungurinn virðir rétt hans til að taka slíka ákvörðun, vitandi að „sérhver mun verða að bera sína byrði.“ En hann ætti líka að muna að „það sem maður sáir, það mun hann og uppskera.“ — Galatabréfið 6:5, 7.

13. Hvers vegna þurfa öldungar að hjálpa öðrum að rökhugsa í stað þess að svara spurningum beint eða segja sína eigin skoðun?

13 Hvers vegna tekur reyndur öldungur þessa afstöðu? Ástæðurnar eru að minnsta kosti tvær. Í fyrsta lagi sagði Páll safnaðarmönnum að hann vildi ekki ‚drottna yfir trú þeirra.‘ (2. Korintubréf 1:24) Þegar öldungurinn hjálpar bróður sínum að rökhugsa út frá Ritningunni og taka sína eigin ákvörðun byggða á þekkingu, þá er hann að líkja eftir Páli. Hann gerir sér ljóst að vald hans er takmarkað alveg eins og Jesús viðurkenndi að vald sitt væri takmarkað. (Lúkas 12:13, 14; Júdasarbréfið 9) Um leið veita öldungar gagnleg, biblíuleg ráð, jafnvel afdráttarlaus þar sem þörf gerist. Í öðru lagi er öldungurinn að þjálfa kristinn trúbróður sinn. Páll postuli sagði: „Fasta fæðan er fyrir fullorðna, fyrir þá, sem jafnt og þétt hafa tamið skilningarvitin til að greina gott frá illu.“ (Hebreabréfið 5:14) Þess vegna verðum við að nota okkar eigin skilningarvit til að vaxa til þroska en ekki reiða okkur alltaf á að aðrir taki ákvarðanir fyrir okkur. Öldungurinn er þannig að hjálpa kristnum bróður sínum að taka framförum með því að sýna honum hvernig hann eigi að rökhugsa út af Ritningunni.

14. Hvernig geta þroskaðir einstaklingar sýnt að þeir treysti Jehóva?

14 Við getum treyst að Jehóva Guð láti heilagan anda sinn hafa áhrif á hjörtu sannra tilbiðjenda sinna. Þroskaðir kristnir menn höfða því til hjartna bræðra sinna og hvetja þá eins og Páll postuli gerði. (2. Korintubréf 8:8; 10:1; Fílemonsbréfið 8, 9) Páll vissi að það eru aðallega hinir ranglátu, ekki hinir réttlátu, sem þurfa ítarleg lög til að halda sér á réttri braut. (1. Tímóteusarbréf 1:9) Hann lét ekki í ljós tortryggni eða vantraust heldur trú á bræður sína. Hann skrifaði einum söfnuði: „Vér höfum . . . traust til yðar vegna Drottins.“ (2. Þessaloníkubréf 3:4) Trú Páls og traust var mjög hvetjandi fyrir þessa kristnu menn. Öldungar og farandumsjónarmenn nú á tímum hafa svipuð markmið. Kærleiksrík gæsla þessara trúföstu manna er vissulega mjög hressandi fyrir hjörð Guðs! — Jesaja 32:1, 2; 1. Pétursbréf 5:1-3.

Að lifa eftir lögmáli Krists

15. Nefndu nokkrar spurningar sem við getum spurt okkur til að kanna hvort við förum eftir lögmáli Krists í samskiptum við bræður okkar?

15 Öll þurfum við að rannsaka okkur jafnt og þétt til að sjá hvort við lifum eftir lögmáli Krists og stuðlum að því að það sé haldið. (2. Korintubréf 13:5) Öll höfum við gott af því að spyrja: ‚Er ég uppbyggjandi eða gagnrýninn? Hef ég gott jafnvægi eða er ég öfgafullur? Er ég tillitssamur við aðra eða krefst réttar míns?‘ Kristinn maður reynir ekki að skipa bróður sínum fyrir hvað hann eigi eða eigi ekki að gera í málum sem Biblían fjallar ekki sérstaklega um. — Rómverjabréfið 12:1; 1. Korintubréf 4:6.

16. Hvernig getum við hjálpað þeim sem hafa lítið álit á sjálfum sér og uppfyllt þannig mikilvægan þátt í lögmáli Krists?

16 Á þessum erfiðu tímum er mikilvægt að leitast alltaf við að hvetja hver annan. (Hebreabréfið 10:24, 25; samanber Matteus 7:1-5.) Þegar við horfum á bræður okkar og systur, skipta þá ekki góðir eiginleikar þeirra miklu meira máli fyrir okkur en veikleikarnir? Hver og einn er dýrmætur í augum Jehóva. Því miður eru ekki allir sama sinnis, ekki einu sinni um sjálfa sig. Margir hafa tilhneigingu til að sjá aðeins galla sína og ófullkomleika. Til að uppörva þá — og sjálfa okkur — gætum við ekki reynt að tala við einn eða tvo þeirra á hverri samkomu, láta þá vita hvers vegna við metum návist þeirra og mikilvægt hlutverk þeirra í söfnuðinum? Það er ánægjulegt að létta byrðar þeirra með þeim hætti og uppfylla þannig lögmál Krists! — Galatabréfið 6:2.

Lögmál Krists er að verki!

17. Á hvaða ólíka vegu sérðu lögmál Krists að verki í söfnuði þínum?

17 Lögmál Krists er að verki í kristna söfnuðinum. Við sjáum það daglega — þegar samvottar okkar segja ákafir frá fagnaðarerindinu, þegar þeir hughreysta og hvetja hver annan, þegar þeir streitast við að þjóna Jehóva þrátt fyrir hin erfiðustu vandamál, þegar foreldrar kappkosta að ala börn sín upp þannig að þau elski Jehóva með glöðu hjarta, þegar umsjónarmenn kenna orð Guðs með kærleika og hlýju og hvetja hjörðina til að hafa brennandi kostgæfni og þjóna Jehóva að eilífu. (Matteus 28:19, 20; 1. Þessaloníkubréf 5:11, 14) Það gleður hjarta Jehóva mikið þegar við hvert og eitt látum lögmál Krists starfa í lífi okkar! (Orðskviðirnir 23:15) Hann vill að allir þeir sem elska fullkomið lögmál hans lifi að eilífu. Í paradís framtíðarinnar verður mannkynið fullkomið, engir lögbrjótar verða til og við höfum stjórn á öllum tilhneigingum hjartna okkar. Hvílík umbun fyrir að lifa eftir lögmáli Krists!

[Neðanmáls]

^ Þessi heimili líkjast ekki klaustrum kristna heimsins. Þar eru engir „ábótar“ eða „feður“ í þeim skilningi. (Matteus 23:9) Bræðrum, sem fara með ábyrgð, er sýnd tilhlýðileg virðing, en þjónusta þeirra stjórnast af sömu meginreglum og þjónusta allra annarra öldunga.

Hvað finnst þér?

◻ Hvers vegna hefur kristni heimurinn ekki skilið tilganginn með lögmáli Krists?

◻ Hvernig getum við farið eftir lögmáli Krists í fjölskyldunni?

◻ Hvað verðum við að forðast til að fara eftir lögmáli Krists í söfnuðinum, og hvað verðum við að gera?

◻ Hvernig geta öldungar hlýtt lögmáli Krists í samskiptum við söfnuðinn?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 32]

Barn þitt hefur mikla þörf fyrir kærleika.