Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kemst þú af þegar Guð hefst handa?

Kemst þú af þegar Guð hefst handa?

Kemst þú af þegar Guð hefst handa?

„Ef dagar þessir hefðu ekki verið styttir, kæmist enginn maður af. En vegna hinna útvöldu munu þeir dagar styttir verða.“ — MATTEUS 24:22.

1, 2. (a) Hvers vegna er áhugi á framtíðinni eðlilegur? (b) Hvað spurðu lærisveinar Jesú hann um?

 HVE mikinn áhuga hefurðu á sjálfum þér? Margir eru svo uppteknir af sjálfum sér nú orðið að allt snýst um þá. Biblían fordæmir þó ekki viðeigandi áhuga á því sem snertir okkur. (Efesusbréfið 5:33) Áhugi á framtíðinni er þar meðtalinn. Það er því eðlilegt að vilja vita hvað framtíðin beri í skauti sér. Hefur þú áhuga?

2 Við vitum með vissu að postular Jesú höfðu slíkan áhuga á framtíð sinni. (Matteus 19:27) Líklega átti það sinn þátt í spurningu sem fjórir þeirra spurðu hann á Olíufjallinu: „Hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn þess, að allt þetta sé að koma fram?“ (Markús 13:4) Jesús hunsaði ekki eðlilegan áhuga á framtíðinni — hvorki þeirra né okkar. Æ ofan í æ beindi hann athygli að því sem fylgjendur hans ættu í vændum og hver málalokin yrðu.

3. Hvers vegna tengjum við svar Jesú við okkar tíma?

3 Í svari sínu bar Jesús fram spádóm sem á sér aðaluppfyllingu á okkar tímum. Við sjáum það af heimsstyrjöldum og öðrum átökum okkar aldar, jarðskjálftum sem valda miklum mannskaða, hallærum sem valda sjúkdómum og dauða, og drepsóttum — allt frá spænska inflúensufaraldrinum árið 1918 til alnæmisplágu nútímans. En að stórum hluta til rættist svar Jesú einnig með aðdraganda og eyðingu Jerúsalem af völdum Rómverja árið 70. Jesús hvatti lærisveinana: „Gætið að sjálfum yður. Menn munu draga yður fyrir dómstóla, í samkundum verðið þér húðstrýktir, og þér munuð leiddir fyrir landshöfðingja og konunga mín vegna, þeim til vitnisburðar.“ — Markús 13:9.

Spá Jesú og uppfylling hennar

4. Nefndu nokkrar viðvaranir sem koma fram í svari Jesú.

4 Jesús sagði ekki aðeins fyrir hvernig aðrir færu með lærisveina hans. Hann benti þeim einnig á hvað þeir ættu sjálfir að gera. Til dæmis sagði hann: „Þegar þér sjáið viðurstyggð eyðingarinnar standa þar, er ekki skyldi — lesandinn athugi það — þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla.“ (Markús 13:14) Hliðstæð frásaga í Lúkasi 21:20 segir: „Þegar þér sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem.“ Hvernig hlutu þessi orð fyrri uppfyllingu sína?

5. Hvað gerðist meðal Gyðinga í Júdeu árið 66?

5 The International Standard Bible Encyclopedia (1982) segir: „Gyðingar fylltust æ meiri mótþróa undir stjórn Rómverja og landstjórarnir gerðust sífellt ofbeldisfyllri, grimmari og óheiðarlegri. Uppreisn braust svo út árið 66. . . . Stríðið hófst þegar öfgamenn Gyðinga tóku Masada og gengu síðan fylktu liði til Jerúsalem undir forystu Menahems. Á sama tíma voru Gyðingar í landstjóraborginni Sesareu strádrepnir og fregnirnar af ódæðinu breiddust um landið. Ný mynt var slegin merkt uppreisnarárinu 1 til ársins 5.“

6. Hvernig brugðust Rómverjar við uppreisn Gyðinga?

6 Tólfta hersveit Rómverja undir stjórn Cestíusar Gallusar hélt frá Sýrlandi, fór eyðileggingar- og ránshendi um Galíleu og Júdeu og réðst síðan á höfuðborgina og náði jafnvel efri hluta ‚Jerúsalem, borgarinnar helgu.‘ (Nehemíabók 11: 1; Matteus 4:5; 5:35; 27:53) Bókin The Roman Siege of Jerusalem lýsir framvindunni þannig: „Í fimm daga reyndu Rómverjar að klífa borgarmúrinn en var sífellt hrundið frá. Að lokum gáfust verjendur borgarinnar upp fyrir skothríðinni. Rómversku hermennirnir mynduðu skjaldborg með því að láta skildina skarast yfir höfðum sér og grófu undan múrnum og reyndu að kveikja í borgarhliðinu. Ógurleg skelfing greip um sig meðal verjenda borgarinnar.“ Kristnir menn í borginni gátu minnst orða Jesú og gert sér grein fyrir að viðurstyggð stæði á helgum stað. * En hvernig gátu þessir kristnu menn flúið eins og Jesús hafði ráðlagt, fyrst borgin var umkringd?

7. Hvað gerðu Rómverjar þegar sigur var nánast í höfn árið 66?

7 Sagnaritarinn Flavíus Jósefus segir: „Cestíusi [Gallusi] var hvorki kunnugt um örvæntingu hinna umsetnu né tilfinningar fólksins og fyrirskipaði mönnum sínum skyndilega að hætta aðgerðum, gaf upp von um sigur þótt hann hefði engan ósigur beðið, og hörfaði frá borginni gagnstætt allri skynsemi.“ (The Jewish War, II, 540 [xix, 7]) Hvers vegna hörfaði Gallus? Hver sem ástæðan var, gaf undanhald hans kristnum mönnum tækifæri til að hlýða boði Jesú og flýja í öruggt skjól til fjalla.

8. Lýstu öðrum áfanga í hernaði Rómverja gegn Jerúsalem og hvað varð um þá sem lifðu af.

8 Hlýðnin varð þeim til bjargar. Fyrr en varði voru Rómverjar komnir aftur til að bæla uppreisnina niður. Herförin, sem var undir stjórn Títusar hershöfðingja, náði hámarki með umsátri um Jerúsalem frá apríl til ágúst árið 70. Manni rennur kalt vatn milli skinns og hörunds að lesa lýsingu Jósefusar á þjáningum Gyðinga. Auk þeirra sem féllu í bardögum við Rómverja létu margir lífið í innbyrðis átökum gyðingaflokka, og hungur leiddi til mannáts. Þegar sigur Rómverja var í höfn lágu 1.100.000 Gyðingar í valnum. * Af þeim 97.000, sem eftir lifðu, voru sumir líflátnir tafarlaust en aðrir hnepptir í þrælkun. Jósefus segir: „Þeir sem voru eldri en 17 ára voru hlekkjaðir og sendir í þrælkunarvinnu til Egyptalands, og Títus flutti fjölda þeirra til skattlandanna þar sem þeir dóu í hringleikahúsunum fyrir sverði eða villidýrum.“ Og meðan þessi grisjun fór fram dóu 11.000 fangar úr hungri.

9. Hvers vegna farnaðist kristnum mönnum öðruvísi en Gyðingum en hvaða spurningum er ósvarað?

9 Kristnir menn gátu verið þakklátir að þeir skyldu hlýða viðvörun Drottins og flýja borgina áður en her Rómverja sneri aftur. Þannig forðuðu þeir sér að hluta til undan því sem Jesús kallaði ‚þá miklu þrengingu sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða‘ aftur gagnvart Jerúsalem. (Matteus 24:21) Jesús bætti við: „Ef dagar þessir hefðu ekki verið styttir, kæmist enginn maður af. En vegna hinna útvöldu munu þeir dagar styttir verða.“ (Matteus 24:22) Hvað átti hann við þá og hvað þýðir það núna?

10. Hvernig höfum við áður útskýrt Matteus 24:22?

10 Áður hefur verið útskýrt að ‚mennirnir sem komust af‘ hafi verið þeir Gyðingar sem lifðu af þrengingu Jerúsalem árið 70. Kristnir menn voru flúnir þannig að Guð gat látið Rómverja eyða borginni skjótlega. Með öðrum orðum, vegna þess að hinir „útvöldu“ voru úr allri hættu var hægt að stytta þrenginguna þannig að sumir ‚menn‘ af hópi Gyðinga kæmust af. Talið var að hinir eftirlifandi Gyðingar táknuðu þá sem lifa myndu af þrenginguna miklu sem kemur á okkar dögum. — Opinberunarbókin 7:14.

11. Af hverju virðist rétt að endurskoða skýringuna á Matteusi 24:22?

11 En kemur þessi skýring heim og saman við það sem gerðist árið 70? Jesús sagði að ‚menn‘ myndu ‚komast af‘ úr þrengingunni. Myndir þú segja að hinir 97.000, sem eftir lifðu, hafi ‚komist af‘ í ljósi þess að þúsundir þeirra dóu hungurdauða skömmu síðar eða voru strádrepnir í hringleikahúsinu? Jósefus segir um hringleikahús nokkurt í Sesareu: „Meira en 2500 fórust í bardögum við villidýr eða hver annan eða voru brenndir lifandi.“ Þótt þeir hafi ekki dáið í umsátrinu er varla hægt að segja að þeir hafi ‚komist af.‘ Og sæi Jesús eitthvað líkt með þeim og hinum hamingjusömu mönnum sem lifa af hina væntanlegu ‚miklu þrengingu‘?

Menn komast af — hvernig?

12. Hverjir voru ‚hinir útvöldu‘ sem Guð lét sér annt um á fyrstu öldinni?

12 Árið 70 leit Guð ekki lengur á Gyðinga að holdinu sem útvalda þjóð sína. Jesús benti á að Guð hefði hafnað þjóðinni og myndi láta höfuðborg hennar, musteri og tilbeiðslukerfi líða undir lok. (Matteus 23:37–24:2) Guð útvaldi nýja þjóð, andlegan Ísrael. (Postulasagan 15:14; Rómverjabréfið 2:28, 29; Galatabréfið 6:16) Hún var mynduð af körlum og konum sem voru útvalin af öllum þjóðum og smurð heilögum anda. (Matteus 22:14; Jóhannes 15:19; Postulasagan 10:1, 2, 34, 35, 44, 45) Nokkrum árum fyrir árás Cestíusar Gallusar skrifaði Pétur um þá sem voru „útvaldir samkvæmt fyrirvitund Guðs föður og helgaðir af anda hans.“ Hinir andagetnu voru „útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag, heilög þjóð.“ (1. Pétursbréf 1:1, 2; 2:9) Guð myndi kalla slíka útvalda menn til himna til að ríkja með Jesú. — Kólossubréfið 1:1, 2; 3:12; Títusarbréfið 1:1; Opinberunarbókin 17:14.

13, 14. Hvernig komust ‚menn‘ af þegar rómverski herinn hörfaði óvænt frá Jerúsalem árið 66?

13 Það er gagnlegt að bera þannig kennsl á hina útvöldu því að Jesús sagði fyrir að dagar þrengingarinnar yrðu styttir „vegna hinna útvöldu.“ Gerðist eitthvað „vegna“ eða til gagns útvöldum kristnum mönnum sem voru innikróaðir í Jerúsalem?

14 Mundu að árið 66 fóru Rómverjar um landið, hernámu efri hluta Jerúsalem og byrjuðu að grafa undan borgarmúrnum. Jósefus segir: „Ef [Gallus] hefði þraukað aðeins lengur við umsátrið hefði hann tekið borgina á augabragði.“ Hvers vegna skyldi hinn öflugi rómverski her hafa hætt herförinni skyndilega og hörfað „gagnstætt allri skynsemi“? Rupert Furneaux, sérfræðingur í hersögutúlkun, segir: „Engum sagnfræðingi hefur tekist að koma með nokkra viðunandi skýringu á hinni undarlegu og hrapallegu ákvörðun Gallusar.“ Hver sem ástæðan var hafði hún þær afleiðingar að þrengingin var stytt. Rómverjar hörfuðu og Gyðingar réðust á þá er þeir fóru. Hvað um ‚útvalda‘ kristna menn sem höfðu verið innikróaðir? Þegar umsátrinu linnti komust þeir undan blóðbaðinu sem ógnaði þeim meðan þrengingin stóð. Þeir kristnu menn, sem nutu góðs af því að þrengingin var stytt árið 66, eru því ‚mennirnir‘ sem Matteus 24:22 nefnir að hafi komist af.

Hvað ber framtíðin í skauti sér fyrir þig?

15. Af hverju telur þú að við ættum að hafa sérstakan áhuga á 24. kafla Matteusar?

15 Einhverjum er kannski spurn hvers vegna við ættum að hafa sérstakan áhuga á þessum skýrari skilningi á orðum Jesú. Það er ærin ástæða til að ætla að spádómur Jesú eigi að hljóta meiri uppfyllingu en þá sem átti sér stað fram til ársins 70. * (Samanber Matteus 24:7; Lúkas 21:10, 11; Opinberunarbókina 6:2-8.) Um áratuga skeið hafa vottar Jehóva prédikað að hin meiri uppfylling, sem á sér stað á okkar tímum, sanni að við getum vænst víðtækrar ‚mikillar þrengingar‘ innan skamms. Hvernig uppfyllast spádómsorðin í Matteusi 24:22 þá?

16. Hvaða hvetjandi staðreyndir er að finna í Opinberunarbókinni um þrenginguna miklu sem er framundan?

16 Jóhannes postuli skrifaði Opinberunarbókina um tveim áratugum eftir þrengingu Jerúsalemborgar. Hún staðfesti að mikil þrenging væri framundan. Og þar eð við höfum áhuga á því sem snertir okkur persónulega, léttir okkur kannski að vita að spádómar Opinberunarbókarinnar skuli fullvissa okkur um að menn muni komast lifandi gegnum þessa væntanlegu miklu þrengingu. Jóhannes talaði um ‚mikinn múg af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum.‘ Hverjir eru það? Rödd af himni svarar: „Þetta eru þeir, sem komnir eru úr þrengingunni miklu.“ (Opinberunarbókin 7:9, 14) Já, þeir munu lifa af! Opinberunarbókin veitir okkur líka innsýn í það hvernig málin munu þróast í þrengingunni miklu og hvernig Matteus 24:22 uppfyllist.

17. Hvað gerist meðal annars á fyrsta stigi þrengingarinnar miklu?

17 Fyrsta stig þessarar þrengingar verður árás á táknræna vændiskonu sem kölluð er „Babýlon hin mikla.“ (Opinberunarbókin 14:8; 17:1, 2) Hún táknar heimsveldi falskra trúarbragða þar sem kristni heimurinn er vítaverðastur. Að sögn Opinberunarbókarinnar 17:16-18 mun Guð leggja stjórnmálaöflunum það í brjóst að ráðast á þessa táknrænu skækju. * Hugsaðu þér hvernig það gæti litið út í augum hinna „útvöldu“ Guðs og félaga þeirra, ‚múgsins mikla.‘ Er þessari tortímingarárás á trúarbrögðin miðar fram gæti virst sem öll trúfélög, þeirra á meðal þjónar Jehóva, verði þurrkuð út.

18. Af hverju gæti virst sem enginn „maður“ kæmist af í fyrsta hluta þrengingarinnar miklu?

18 Nú er að því komið að orð Jesú í Matteusi 24:22 uppfyllist í stórum stíl. Líkt og hinir útvöldu í Jerúsalem virtust vera í hættu, eins gætu þjónar Jehóva virst eiga á hættu að þurrkast út í árásinni á trúarbrögðin, rétt eins og enginn „maður,“ enginn meðal þjóna Guðs, kæmist af. En við skulum hafa í huga það sem gerðist árið 66. Þrengingin, sem Rómverjar ollu, var stytt þannig að hinir smurðu og útvöldu Guðs höfðu gott tækifæri til að forða sér og halda lífi. Við getum því treyst að heimssöfnuði sannra guðsdýrkenda verði ekki tortímt í eyðingarárásinni á trúarbrögðin. Hún mun ganga fljótt fyrir sig, eins og „á einum degi.“ En einhvern veginn verður hún stytt svo að hún nái ekki markmiði sínu að fullu. Þannig mun fólk Guðs ‚komast af.‘ — Opinberunarbókin 18:8.

19. (a) Hvað verður ljóst eftir fyrsta hluta þrengingarinnar miklu? (b) Til hvers leiðir það?

19 Það sem eftir er af hinu jarðneska skipulagi Satans djöfulsins mun standa um tíma eftir þetta og harma viðskiptamissinn við sína gömlu, trúarlegu frillu. (Opinberunarbókin 18:9-19) Á einhverju stigi veita þeir því eftirtekt að sannir þjónar Guðs eru enn „óhultir, . . . búa allir múrveggjalausir“ og virðast auðveld bráð. Þeir eiga eftir að verða illilega undrandi! Þegar þeir ráðast á þjóna Guðs eða gera sig líklega til þess mun hann rísa upp til að dæma óvini sína í lokahluta þrengingarinnar miklu. — Esekíel 38:10-12, 14, 18-23.

20. Hvers vegna verður fólk Guðs ekki í hættu á öðru stigi þrengingarinnar miklu?

20 Þetta annað stig þrengingarinnar miklu verður hliðstætt því sem kom fyrir Jerúsalem og Jerúsalembúa í síðari árás Rómverja árið 70. Það verður „sú mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða“ aftur. (Matteus 24:21) En við getum treyst að hinir útvöldu Guðs og félagar þeirra verða ekki á hættusvæði eða í lífshættu. Þeir hafa að vísu ekki flúið á neinn ákveðinn stað. Kristnir menn í Jerúsalem á fyrstu öld gátu flúið frá borginni til fjallahéraða svo sem Pella handan Jórdanar. En í framtíðinni verður trúfasta votta Guðs að finna um allan hnöttinn, þannig að öryggi og vernd byggist ekki á neinum ákveðnum stað.

21. Hverjir munu heyja lokabardagann og með hvaða afleiðingum?

21 Eyðingin kemur ekki af hendi rómverskra herja eða nokkurra annarra mannlegra afla. Opinberunarbókin segir að aftökusveitirnar verði himneskar. Já, það verður ekki mennskur her sem leiðir lokakafla þrengingarinnar miklu til lykta heldur „Orðið Guðs,“ konungurinn Jesús Kristur, með aðstoð ‚hersveitanna sem á himni eru,‘ þeirra á meðal upprisinna smurðra kristinna manna. „Konungur konunga og Drottinn drottna“ mun framkvæma miklu rækilegri aftöku en Rómverjar gerðu árið 70. Með henni verður öllum mennskum andstæðingum Guðs útrýmt — konungum, herforingjum, frjálsum mönnum og ófrjálsum, smáum og stórum. Jafnvel mennskar stofnanir í heimi Satans munu líða undir lok. — Opinberunarbókin 2:26, 27; 17:14; 19:11-21; 1. Jóhannesarbréf 5:19.

22. Í hvaða frekari skilningi munu ‚menn‘ komast af?

22 Mundu að ‚menn,‘ bæði af hinum smurðu leifum og ‚múginum mikla,‘ hafa þegar komist af er Babýlon hin mikla líður skjótlega og endanlega undir lok í fyrsta hluta þrengingarinnar miklu. Eins munu ‚menn,‘ sem hafa flúið yfir til Jehóva, bjargast í lokahluta þrengingarinnar miklu. Það verður harla ólíkt afdrifum uppreisnargjarnra Gyðinga árið 70!

23. Hvers geta þeir ‚menn,‘ sem komast af, hlakkað til?

23 Taktu eftir loforðinu í Opinberunarbókinni 7:16, 17 og hugsaðu um framtíðarmöguleika þína og ástvina þinna: „Eigi mun þá framar hungra og eigi heldur framar þyrsta og eigi mun heldur sól brenna þá né nokkur hiti. Því að lambið, sem er fyrir miðju hásætinu, mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra.“ Þetta kallast sannarlega að ‚komast af‘ í stórfenglegum og varanlegum skilningi!

[Neðanmáls]

^ Jósefus segir: „Títus undraðist styrk borgarinnar er hann gekk inn í hana. . . . Hann sagði upphátt: ‚Guð hefur verið með okkur; það er Guð sem hefur dregið Gyðinga niður úr þessum virkjum; því að hvað megna hendur eða áhöld manna gegn slíkum turnum?‘“

^ Sjá Varðturninn 1. júlí 1994 bls. 11 og 12 og töfluna á bls. 14 og 15 þar sem spádómlegt svar Jesú í Matteusi 24. kafla, Markúsi 13. kafla og Lúkasi 21. kafla er sett upp í samsíða dálka.

^ Sjá bókina Opinberunarbókin — hið mikla hámark hennar er í nánd!, bls. 235-58, gefin út árið 1988 af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

Hvert er svar þitt?

◻ Í hvaða tveim áföngum réðst rómverski herinn á Jerúsalem?

◻ Hvers vegna er ólíklegt að þeir 97.000 Gyðingar, sem komust af árið 70, séu ‚mennirnir‘ sem nefndir eru í Matteusi 24:22?

◻ Hvernig voru þrengingadagar Jerúsalem styttir og hvernig varð það til þess að ‚menn‘ komust af?

◻ Hvernig verða dagar þrengingarinnar miklu, sem nálgast, styttir og hvernig komast ‚menn‘ af?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 16]

Peningur sem Gyðingar slógu eftir uppreisnina. Hebreska áletrunin merkir „árið tvö,“ það er að segja árið 67, annað sjálfsstjórnarár þeirra.

[Rétthafi]

Pictorial Archive (Near Eastern History) Est.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Rómverskur peningur sleginn árið 71. Vinstra megin er vopnaður Rómverji, hægra megin syrgjandi Gyðingakona. Orðin „IVDAEA CAPTA“ merkja „hernumin Júdea.“

[Rétthafi]

Pictorial Archive (Near Eastern History) Est.