Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lögmál Krists

Lögmál Krists

Lögmál Krists

„Ég [er] . . . bundinn lögmáli Krists.“ — 1. KORINTUBRÉF 9:21.

1, 2. (a) Hvernig hefði mátt koma í veg fyrir mörg af mistökum mannkynsins? (b) Hvað lærði kristni heimurinn ekki af sögu gyðingdómsins?

 „ÞJÓÐIR og ríkisstjórnir hafa aldrei lært neitt af sögunni eða farið eftir meginreglum sem læra má af henni.“ Svo mælti þýskur heimspekingur á 19. öld. Mannkynssagan hefur verið kölluð „herganga heimskunnar,“ saga síendurtekinna mistaka og kreppna sem hefði að miklu leyti mátt afstýra ef mannkynið hefði aðeins verið fúst til að læra af mistökum fortíðar.

2 Sama tregða til að læra af fyrri mistökum er umfjöllunarefni þessarar greinar um lög Guðs. Jehóva Guð setti betri lög í stað Móselaganna — lögmál Krists. En leiðtogar kristna heimsins, sem segjast kenna þessi lög og lifa eftir þeim, hafa ekki lært af hrikalegri heimsku faríseanna. Kristni heimurinn hefur því rangsnúið og misbeitt lögmáli Krists alveg eins og gyðingdómurinn fór með Móselögin. Hvernig getur það verið? Fjöllum fyrst um þetta lögmál sjálft — hvað það er, hverjum það stjórnar og hvernig, og hvaða munur er á því og Móselögunum. Síðan skulum við athuga hvernig kristni heimurinn hefur misbeitt því. Megum við læra af sögunni og hafa gagn af henni.

Nýi sáttmálinn

3. Hverju lofaði Jehóva í sambandi við nýjan sáttmála?

3 Hver nema Jehóva Guð gat betrumbætt fullkomið lögmál? Lagasáttmáli Móse var fullkominn og lýtalaus. (Sálmur 19:8) Þrátt fyrir það lofaði Jehóva: „Sjá, þeir dagar munu koma . . . að ég mun gjöra nýjan sáttmála við Ísraels hús og Júda hús, ekki eins og þann sáttmála, er ég gjörði við feður þeirra.“ Boðorðin tíu — kjarni Móselaganna — voru rituð á steintöflur. En Jehóva sagði um nýja sáttmálann: „Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra.“ — Jeremía 31:31-34.

4. (a) Hvaða Ísrael á aðild að nýja sáttmálanum? (b) Hverjir aðrir en andlegir Ísraelsmenn eru undir lögmáli Krists?

4 Hverjum yrði veitt aðild að þessum nýja sáttmála? Vissulega ekki hinu bókstaflega ‚Ísraels húsi‘ sem hafnaði meðalgangara þessa sáttmála. (Hebreabréfið 9:15) Nei, þessi nýi ‚Ísrael‘ yrði „Ísrael Guðs,“ þjóð andlegra Ísraelsmanna. (Galatabréfið 6:16; Rómverjabréfið 2:28, 29) Þessi litli, andagetni hópur kristinna manna fengi síðar til liðs við sig ‚mikinn múg‘ af öllum þjóðum sem myndi líka leitast við að tilbiðja Jehóva. (Opinberunarbókin 7:9, 10; Sakaría 8:23) Enda þótt múgurinn ætti ekki aðild að nýja sáttmálanum yrði hann líka bundinn af lögmáli. (Samanber 3. Mósebók 24:22; 4. Mósebók 15:15.) Þeir yrðu allir „ein hjörð“ undir umsjón ‚eins hirðis‘ og allir bundnir af „lögmáli Krists“ eins og Páll skrifaði. (Jóhannes 10:16; 1. Korintubréf 9:21) Páll kallaði þennan nýja sáttmála „betri sáttmála.“ Hvers vegna? Meðal annars vegna þess að hann er byggður á uppfylltum fyrirheitum en ekki skugga þess sem koma á. — Hebreabréfið 8:6; 9:11-14.

5. Hver er tilgangur nýja sáttmálans og hvers vegna næst sá tilgangur?

5 Hver er tilgangur þessa sáttmála? Hann er sá að leiða fram þjóð konunga og presta til blessunar öllu mannkyni. (2. Mósebók 19:6; 1. Pétursbréf 2:9; Opinberunarbókin 5:10) Lagasáttmáli Móse leiddi þessa þjóð aldrei fullkomlega fram því að Ísraelsþjóðin sem heild gerði uppreisn og glataði tækifærinu sem hún hafði. (Samanber Rómverjabréfið 11:17-21.) En nýja sáttmálanum tekst það örugglega því að hann byggist á gerólíkum lögum. Hvernig eru þau ólík?

Lögmál frelsisins

6, 7. Hvernig veitir lögmál Krists meira frelsi en Móselögin?

6 Lögmál Krists er sífellt sett í samband við frelsi. (Jóhannes 8:31, 32) Það er kallað ‚lögmál frelsisins‘ og „hið fullkomna lögmál frelsisins.“ (Jakobsbréfið 1:25; 2:12) Meðal manna er allt frelsi að sjálfsögðu afstætt. En þetta lögmál veitir þó miklu meira frelsi en forveri þess, Móselögmálið. Hvernig þá?

7 Til dæmis er enginn fæddur undir lögmál Krists. Kynþáttur og fæðingarstaður skipta ekki máli. Sannkristnir menn ákveða fúslega í hjörtum sér að taka á sig það ok að hlýða þessu lögmáli. Þegar þeir gera það uppgötva þeir að okið er ljúft og byrðin létt. (Matteus 11:28-30) Þegar allt kemur til alls var það hlutverk Móselaganna að kenna manninum að hann sé syndugur og þarfnist sárlega lausnarfórnar til að leysa sig. (Galatabréfið 3:19) Lögmál Krists kennir að Messías sé kominn, hafi greitt lausnargjaldið með lífi sínu og opnað okkur leiðina til að öðlast frelsi undan hræðilegri kúgun syndar og dauða! (Rómverjabréfið 5:20, 21) Til að njóta góðs af þurfum við að ‚trúa‘ á þessa fórn. — Jóhannes 3:16.

8. Hvað er fólgið í lögmáli Krists en hvers vegna þarf ekki að leggja hundruð lagaákvæða á minnið til að lifa eftir því?

8 Að ‚trúa‘ felur í sér að lifa eftir lögmáli Krists. Það felur í sér að hlýða öllum boðorðum hans. Þurfum við þá að leggja hundruð laga og ákvæða á minnið? Nei. Enda þótt Móse, meðalgangari gamla sáttmálans, hafi fært Móselögin í letur, skrifaði Jesús, meðalgangari nýja sáttmálans, aldrei niður eitt einasta lagaákvæði. Hann var lifandi dæmi um þetta lögmál. Með fullkominni lífsstefnu sinni gaf hann öllum fyrirmynd til að líkja eftir. (1. Pétursbréf 2:21) Kannski er það þess vegna sem tilbeiðsla frumkristinna manna var kölluð ‚vegurinn.‘ (Postulasagan 9:2; 19:9, 23; 22:4; 24:22) Í hugum þeirra var líf Krists lifandi dæmi um lögmál hans. Með því að líkja eftir Jesú voru þeir að hlýða þessu lögmáli. Brennandi kærleikur þeirra til hans þýddi að þetta lögmál væri ritað í hjörtu þeirra eins og spáð hafði verið. (Jeremía 31:33; 1. Pétursbréf 4:8) Og sá sem er hlýðinn vegna kærleika finnst það aldrei þjakandi — sem er önnur ástæða fyrir því að lögmál Krists getur kallast ‚lögmál frelsisins.‘

9. Hver er kjarninn í lögmáli Krists og á hvaða hátt felur þetta lögmál í sér nýtt boðorð?

9 Ef kærleikur var þýðingarmikill í Móselögunum er hann sjálfur kjarni lögmáls kristninnar. Lögmál Krists felur þannig í sér nýtt boðorð — kristnir menn eiga að bera fórnfúsan kærleika hver til annars. Þeir eiga að elska eins og Jesús; hann lagði líf sitt fúslega í sölurnar fyrir vini sína. (Jóhannes 13:34, 35; 15:13) Það mætti því segja að lögmál Krists sé enn háleitari tjáning guðræðis en Móselögin. Eins og þetta tímarit hefur áður bent á er „guðræði . . . stjórn Guðs; Guð er kærleikur; þess vegna er ræður kærleikurinn ríkjum í guðræði.“

Jesús og farísearnir

10. Hvernig var kennsla Jesú ólík kennslu faríseanna?

10 Það kemur því tæplega á óvart að Jesús skyldi lenda upp á kant við trúarleiðtoga samtíðarinnar. „Hið fullkomna lögmál frelsisins“ var eins fjarlægt fræðimönnunum og faríseunum og verið gat. Þeir reyndu að stjórna fólki með mannareglum. Kennsla þeirra varð þjakandi, fordæmandi og niðurdrepandi. Kennsla Jesú var aftur á móti framúrskarandi uppbyggjandi og gagnleg! Hann var raunsær og tók á raunverulegum þörfum og áhyggjum fólks. Kennsla hans var einföld og hjartnæm, hann notaði líkingar úr daglegu lífi og byggði á orði Guðs sem heimild. Þess vegna „undraðist mannfjöldinn mjög kenningu hans.“ (Matteus 7:28) Já, kennsla Jesú náði til hjartans!

11. Hvernig sýndi Jesús að það hefði átt að beita Móselögunum af sanngirni og miskunn?

11 Jesús bætti ekki fleiri reglum við Móselögin heldur sýndi fram á hvernig Gyðingar hefðu átt að beita lögmálinu alla tíð — af sanngirni og miskunn. Rifjaðu til dæmis upp fyrir þér hvernig kona, sem hafði stöðug blóðlát, kom til hans. Samkvæmt Móselögunum varð hver sá er hún snerti óhreinn, þannig að hún átti vissulega ekki að vera í fjölmenni! (3. Mósebók 15:25-27) En svo heitt þráði hún að læknast að hún olnbogaði sig gegnum mannþröngina og snerti klæði Jesú. Blæðingarnar stöðvuðust þegar í stað. Ávítaði hann hana fyrir að brjóta lögmálið? Nei, hann skildi örvæntingu hennar og sýndi mestu lífsreglu lögmálsins í verki — kærleika. Hann sagði henni fullur hluttekningar: „Dóttir, trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði, og ver heil meina þinna.“ — Markús 5:25-34.

Er lögmál Krists undanlátssamt?

12. (a) Af hverju ættum við ekki að halda að Kristur sé undanlátssamur? (b) Hvað sýnir að smugunum fjölgar í takt við lagaboðin?

12 Eigum við þá að halda að lögmál Krists sé undanlátssamt fyrst það er ‚lögmál frelsisins‘ en að farísearnir hafi, með öllum sínum munnlegu erfikenningum, í það minnsta haldið hegðun fólks innan strangra marka? Nei. Löggjöf manna nú á tímum sýnir að oft finnur fólk því fleiri smugur í lögum sem lögin eru fleiri. * Lagamergð faríseanna á dögum Jesú hvatti fólk til að leita að smugum, stuðlaði að kærleikslausum málamyndaverkum og fékk menn til að leyna innri spillingu sinni bak við sjálfbirgingslega grímu. — Matteus 23: 23, 24.

13. Hvers vegna stuðlar lögmál Krists að betri breytni en nokkur skráð lög?

13 Lögmál Krists elur hins vegar ekki á slíkum viðhorfum. Að hlýða lagaboði byggðu á kærleika Jehóva með því að líkja eftir fórnfúsum kærleika Krists til annarra, stuðlar að miklu háleitari breytni en það að fylgja formlegu lagasafni. Kærleikur leitar ekki að smugum; hann kemur í veg fyrir að við gerum eitthvað skaðlegt sem lagasafn bannar kannski ekki beint. (Sjá Matteus 5:27, 28.) Lögmál Krists kemur okkur þannig til að gera ýmislegt fyrir aðra — vera örlát, gestrisin og ástrík — sem ekkert formlegt lagasafn gæti fengið okkur til að gera. — Postulasagan 20:35; 2. Korintubréf 9:7; Hebreabréfið 13:16.

14. Hvaða áhrif hafði það að lifa eftir lögmáli Krists á kristna söfnuðinn á fyrstu öld?

14 Frumkristni söfnuðurinn bjó við hlýlegt, kærleiksríkt andrúmsloft í sama mæli og safnaðarmenn lifðu eftir lögmáli Krists, og var þokkalega laus við þau ströngu, dómhörðu og hræsnisfullu viðhorf sem einkenndu svo samkundur þess tíma. Þeir sem tilheyrðu þessum nýja söfnuði hljóta að hafa skynjað að þeir lifðu eftir „lögmáli frelsisins“!

15. Nefndu nokkur dæmi um tilraunir Satans til að spilla frumkristna söfnuðinum.

15 En Satan var mikið í mun að spilla kristna söfnuðinum innan frá, alveg eins og hann hafði spillt Ísraelsþjóðinni. Páll postuli varaði við skæðum vörgum sem myndu „flytja rangsnúna kenningu“ og kúga hjörð Guðs. (Postulasagan 20:29, 30) Hann átti í höggi við þá sem vildu fylgja siðum og skoðunum Gyðinga, sem vildu skipta á frelsi lögmáls Krists og þrælkun Móselaganna er höfðu uppfyllst í Kristi. (Matteus 5:17; Postulasagan 15:1; Rómverjabréfið 10:4) Eftir að síðasti postulinn dó hélt ekkert aftur af slíku fráhvarfi lengur. Spillinginn tók því að dafna. — 2. Þessaloníkubréf 2:6, 7.

Kristni heimurinn mengar lögmál Krists

16, 17. (a) Hvaða myndir tók spillingin á sig í kristna heiminum? (b) Hvernig stuðluðu lög kaþólsku kirkjunnar að ranghugmyndum um kynlíf?

16 Rétt eins og spillingin í gyðingdómnum tók á sig fleiri en eina mynd varð kristnin líka fórnarlamb falskenninga og siðferðislausungar. Og viðleitni þessarar fráhvarfskristni til að vernda hjörðina gegn ytri áhrifum reyndist oft stórskaðleg því litla sem eftir var af sannri guðsdýrkun. Ströng og óbiblíuleg lög margfölduðust.

17 Kaþólska kirkjan hefur gengið hvað vasklegast fram í því að setja yfirgripsmikil kirkjulög. Þessi lög voru sérstaklega brengluð í afstöðunni til kynferðismála. Að sögn bókarinnar Sexuality and Catholicism drakk kirkjan í sig hina grísku stóuspeki sem tortryggði ánægju og skemmtun af hverju tagi. Kirkjan tók að kenna að öll nautn tengd kynlífi, þar á meðal eðlilegu kynlífi hjóna, væri syndsamleg. (Sjá til samanburðar Orðskviðina 5:18, 19.) Kynlífið var sagt vera ætlað til getnaðar, einskis annars. Kirkjulög fordæmdu þannig hvers kyns getnaðarvarnir sem mjög alvarlega synd er kallaði í sumum tilvikum á margra ára yfirbót. Og prestum var bannað að kvænast, en sú tilskipun hefur stuðlað mjög að óleyfilegu kynlífi og misnotkun barna. — 1. Tímóteusarbréf 4:1-3.

18. Hvaða afleiðingar hafði fjölgun kirkjulaga?

18 Er kirkjulögum fjölgaði voru þau tekin saman í bækur. Þessar bækur skyggðu smám saman á Biblíuna og voru loks teknar fram yfir hana. (Samanber Matteus 15:3, 9.) Líkt og gyðingdómurinn vantreysti kaþólska kirkjan veraldlegum ritum og dæmdi stóran hluta þeirra varhugarverðan. Þetta sjónarmið gekk fljótlega miklu lengra en sú skynsamlega varfærni sem Biblían hvatti til. (Prédikarinn 12:12; Kólossubréfið 2:8) Híerónýmus, kirkjulegur rithöfundur á fjórðu öld, sagði: „Ó Drottinn, ef ég eignast nokkurn tíma veraldlegar bækur eða les þær, hef ég afneitað þér.“ Síðar tók kirkjan að ritskoða bækur — jafnvel bækur um veraldleg málefni. Þess vegna var 17. aldar stjörnufræðingurinn Galileo víttur fyrir að skrifa að jörðin gengi um sólu. Sú krafa kirkjunnar að hún hefði síðasta orðið í öllum málum — jafnvel í stjörnufræði — gróf til langs tíma litið undan trú á Biblíuna.

19. Hvernig stuðluðu klaustrin að strangri valdboðshneigð?

19 Reglusmíði kirkjunnar dafnaði vel í klaustrunum þar sem munkar aðgreindu sig frá þessum heimi til að lifa í sjálfsafneitun. Flest kaþólsk klaustur fylgdu „Reglu heilags Benedikts.“ Ábóti (dregið af arameíska orðinu fyrir „föður“) fór með alræðisvald. (Samanber Matteus 23:9.) Fengi munkur gjöf frá foreldrum sínum ákvað ábótinn hvort sá munkur eða einhver annar fengi hana. Auk þess að fordæma klúrt orðafar bannaði ein reglan allt skraf og glens og sagði: „Enginn lærisveinn skal mæla slíkt.“

20. Hvað sýnir að mótmælendatrúin ól ekki síður á óbiblíulegri valdboðshneigð?

20 Í upphafi reyndi mótmælendatrúin að forðast óbiblíulegar öfgar kaþólskunnar, en fljótlega stóð hún henni fyllilega á sporði í ráðríki og reglugleði sem átti sér engan grundvöll í lögmáli Krists. Til dæmis var siðbótarmaðurinn Jóhann Kalvín kallaður „löggjafi hinnar endurnýjuðu kirkju.“ Hann stjórnaði Genf með ótal ströngum reglum sem „öldungar“ framfylgdu, en embætti þeirra var, að sögn Kalvíns, „að hafa umsjón með lífi sérhvers manns.“ (Sjá til samanburðar 2. Korintubréf 1:24.) Kirkjan stjórnaði veitingahúsum og setti reglur um leyfileg umræðuefni. Ströng viðurlög voru við brotum svo sem að syngja óskammfeilin ljóð eða dansa. *

Lærum af mistökum kristna heimsins

21. Hvaða áhrif hefur tilhneiging kristna heimsins að ‚fara lengra en ritað er‘ haft þegar á heildina er litið?

21 Hafa allar þessar reglur og lög varið kristna heiminn gegn spillingu? Þvert á móti! Kristni heimurinn er nú margklofinn í hundruð sértrúarflokka sem spanna allt litrófið frá gríðarlegri siðavendni til grófrar undanlátssemi. Allir hafa þeir á einn eða annan hátt ‚farið lengra en ritað er‘ og leyft mannlegri hugsun að stjórna hjörðinni og hrófla við lögum Guðs. — 1. Korintubréf 4:6.

22. Hvers vegna hafa svik kristna heimsins ekki haft í för með sér endalok lögmáls Krists?

22 En saga lögmáls Krists er enginn harmleikur. Jehóva Guð mun aldrei leyfa mönnum að afmá lög sín. Kristin lög eru í fullu gildi nú á dögum meðal sannkristinna manna og þeir hafa þau miklu sérréttindi að lifa eftir þeim. En eftir að hafa skoðað hvernig gyðingdómurinn og kristni heimurinn hafa farið með lög Guðs gæti okkur verið spurn hvernig við getum lifað eftir lögmáli Krists en forðast jafnframt þá gildru að menga orð Guðs með mannarökum sem grafa undan anda laga hans? Hvaða jafnvægi ætti lögmál Krists að veita okkur nú á dögum? Þessum spurningum er svarað í greininni á eftir.

[Neðanmáls]

^ Gyðingdómur nútímans á að mestu leyti rætur sínar að rekja til faríseanna þannig að það kemur ekki á óvart að gyðingdómurinn skuli enn leita að smugum í hinum mörgu hömlum sem hann hefur bætt við hvíldardagsboðið. Sá sem heimsækir spítala rétttrúnaðargyðinga á hvíldardegi kemst kannski að raun um að lyftan stöðvast sjálfkrafa á hverri hæð til að farþegar geti forðast þá syndsamlegu „vinnu“ að ýta á lyftuhnappinn. Sumir rétttrúaðir læknar skrifa lyfseðla með bleki sem hverfur á fáeinum dögum. Hvers vegna? Mísna flokkar skrift sem „vinnu“ en skilgreinir „skrift“ sem það að skilja eftir sig varanlegt merki.

^ Servetus, sem deildi á sum af guðfræðiviðhorfum Kalvíns, var brenndur á báli sem trúvillingur.

Hvert er svar þitt?

Hver er kjarni lögmáls Krists?

Hvernig voru kennsluaðferðir Jesú og faríseanna ólíkar?

Hvernig beitti Satan strangri reglugleði til að spilla kristna heiminum?

Hvaða gagn er að því að lifa eftir lögmáli Krists.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 26]

Jesús beitt Móselögunum af sanngirni og miskunn.