Lögmálið fyrir Krist
Lögmálið fyrir Krist
„Hve mjög elska ég lögmál þitt, allan liðlangan daginn íhuga ég það.“ — SÁLMUR 119:97.
1. Hvað stjórnar hreyfingum himintunglanna?
TRÚLEGA hefur Job starað undrunaraugum á stjörnurnar allt frá barnæsku. Foreldrar hans hafa líklega kennt honum heitin á stærstu stjörnumerkjunum og það sem þau vissu um lögmálin er stjórna hreyfingum þeirra um himininn. Fornmenn merktu einmitt árstíðaskiptin af reglulegri hreyfingu þessara glæsilegu stjörnumerkja. En þótt Job hafi oft starað lotningarfullur á stjörnurnar vissi hann ekki hvaða ofuröfl héldu þeim saman svo að þær mynduðu ákveðin mynstur. Honum var því svarafátt er Jehóva Guð spurði hann: „Þekkir þú lög himinsins?“ (Jobsbók 38:31-33) Já, stjörnurnar stjórnast af lögum eða lögmálum — svo nákvæmum og flóknum að vísindamenn okkar tíma skilja þau ekki til hlítar.
2. Af hverju má segja að allt sköpunarverkið stjórnist af lögum og lögmálum?
2 Jehóva er æðsti löggjafi alheimsins. Öll verk hans stjórnast af lögum og lögmálum. Elskaður sonur hans, „frumburður allrar sköpunar,“ hlýddi lögum föður síns trúfastlega áður en efnisheimurinn varð til. (Kólossubréfið 1:15) Englarnir stjórnast einnig af lögum. (Sálmur 103:20) Jafnvel dýrin stjórnast af lögum er þau hlýða eðlisávísuninni sem skaparinn gaf þeim. — Orðskviðirnir 30:24-28; Jeremía 8:7.
3. (a) Af hverju þarf mannkynið að hafa lög? (b) Hvernig stjórnaði Jehóva Ísraelsþjóðinni?
3 Hvað um mannkynið? Enda þótt okkur sé gefið vit, siðferðiskennd og andlegt hugarfar þurfum við samt að vissu marki lög frá Guði til að stýra notkun þessara hæfileika. Fyrstu foreldrar okkar, Adam og Eva, voru fullkomnir svo að ekki þurfti nema fáein lög til að leiðbeina þeim. Kærleikur til síns himneska föður átti að vera þeim ærin ástæða til að hlýða honum fúslega. En þau óhlýðnuðust. (1. Mósebók 1:26-28; 2:15-17; 3:6-19) Þar af leiðandi voru niðjar þeirra syndugir svo að margfalt fleiri lög þurfti til að leiðbeina þeim. Í tímans rás hefur Jehóva fullnægt þessari þörf í kærleika sínum. Hann gaf Nóa ákveðin lög sem hann átti að miðla fjölskyldu sinni. (1. Mósebók 9:1-7) Öldum síðar gaf Guð hinni nýju Ísraelsþjóð ítarlegan, ritaðan lagabálk fyrir milligöngu Móse. Það var í fyrsta sinn sem Jehóva stjórnaði heilli þjóð með lögum sínum. Ef við skoðum þetta lögmál skiljum við betur hið þýðingarmikla hlutverk laga Guðs í lífi kristinna manna nú á tímum.
Móselögin og tilgangur þeirra
4. Af hverju var það áskorun á útvalda afkomendur Abrahams að leiða fram fyrirheitna sæðið?
4 Páll postuli, sem var mjög vel að sér í lögmálinu, spurði: „Hvað er þá lögmálið?“ (Galatabréfið 3:19) Til að svara því þurfum við að muna að Jehóva hét vini sínum Abraham að afkvæmið eða sæðið, er verða skyldi öllum þjóðum til mikillar blessunar, myndi koma af hans ættlegg. (1. Mósebók 22:18) En í því fólst áskorun: Útvaldir afkomendur Abrahams, Ísraelsmenn, elskuðu ekki allir Jehóva. Með tíð og tíma reyndust flestir þeirra þrjóskir og uppreisnargjarnir — og sumir næstum óviðráðanlegir! (2. Mósebók 32:9; 5. Mósebók 9:7) Slíkir menn tilheyrðu ekki þjóð Guðs af því að þeir vildu það heldur af því að þeir fæddust inn í hana.
5. (a) Hvað kenndi Jehóva Ísraelsmönnum með Móselögunum? (b) Hvernig var lögmálið gert til að hafa áhrif á hegðun þeirra sem fylgdu því?
5 Hvernig gat hið fyrirheitna sæði komið af slíkri þjóð og verið henni til gagns? Í stað þess að stjórna þjóðinni eins og vélmenni kenndi Jehóva henni með lögum. (Sálmur 119:33-35; Jesaja 48:17) Hebreska orðið tóhrahʹ, sem þýtt er „lög“ eða „lögmál,“ merkir reyndar „fræðsla.“ Hvað kenndi lögmálið? Fyrst og fremst að Ísraelsmenn þörfnuðust Messíasar er myndi frelsa þá undan syndinni. (Galatabréfið 3:24) Það kenndi líka guðsótta og hlýðni. Í samræmi við Abrahamsloforðið áttu Ísraelsmenn að vera vottar Jehóva gagnvart öllum öðrum þjóðum. Lögmálið varð því að kenna þeim háleitan og göfugan hegðunarstaðal er væri Jehóva til sóma; það myndi hjálpa Ísrael að halda sér aðgreindum frá spillingu þjóðanna umhverfis. — 3. Mósebók 18:24, 25; Jesaja 43:10-12.
6. (a) Hve mörg ákvæði eru í Móselögunum og hvers vegna ætti það ekki að teljast óhóflegt? (Sjá neðanmálsathugasemd.) (b) Hvaða innsýn getur athugun á Móselögunum veitt okkur?
6 Það er því engin furða að ákvæði Móselaganna skuli vera æði mörg eða yfir 600. * Þetta ritaða lagasafn stýrði tilbeiðslu, stjórnsýslu, siðferði, réttarfari og jafnvel mataræði og hreinlæti. En var lögmálið aðeins samsafn kuldalegra reglna og stuttorðra skipana? Alls ekki! Athugun á lögmálinu veitir okkur mjög góða innsýn í ástríkan persónuleika Jehóva. Lítum á nokkur dæmi.
Lög sem endurspegluðu miskunn og meðaumkun
7, 8. (a) Hvernig lagði lögmálið áherslu á miskunn og meðaumkun? (b) Hvernig framfylgdi Jehóva lögmálinu af miskunn gagnvart Davíð?
7 Lögmálið lagði áherslu á miskunn og meðaumkun, einkum gagnvart bágstöddum og hjálparvana. Sérstaklega var tekið fram að ekkjur og munaðarleysingjar skyldu njóta verndar. (2. Mósebók 22:22-24) Vinnudýr voru vernduð gegn illri meðferð. Eignarréttur var virtur. (5. Mósebók 24:10; 25:4) Samkvæmt lögmálinu lá dauðarefsing við morði, en sá sem varð manni óviljandi að bana gat vænst miskunnar. (4. Mósebók 35:11) Ljóst er að ísraelskir dómarar höfðu svigrúm til að ákveða refsingu fyrir sum brot með hliðsjón af hugarfari hins brotlega. — Samanber 2. Mósebók 22:7 og 3. Mósebók 6:1-7.
8 Jehóva gaf dómurum fordæmið með því að framfylgja lögmálinu af festu þar sem nauðsynlegt var en af miskunn hvar sem hægt var. Davíð konungi, sem hafði drýgt hór og framið morð, var miskunnað. Ekki svo að skilja að honum væri óhegnt því að Jehóva hlífði honum ekki við skelfilegum afleiðingum syndar sinnar. En vegna sáttmálans um ríkið og vegna þess að Davíð var miskunnsamur maður að eðlisfari og iðraðist af öllu hjarta, var hann ekki líflátinn. — 1. Samúelsbók 24:4-7; 2. Samúelsbók 7:16; Sálmur 51:3-6; Jakobsbréfið 2:13.
9. Hvert var hlutverk kærleikans í Móselögunum?
9 Og Móselögin lögðu áherslu á kærleika. Hugsaðu þér ef einhver af þjóðum nútímans hefði löggjöf sem hreinlega krefðist kærleika! Móselögin bönnuðu ekki aðeins morð heldur fyrirskipuðu: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (3. Mósebók 19:18) Lögmálið bannaði ekki bara ranglæti gagnvart búföstum útlendingi heldur fyrirskipaði: „Þú skalt elska hann eins og sjálfan þig, því að þér voruð útlendingar í Egyptalandi.“ (3. Mósebók 19:34) Það bannaði ekki aðeins hórdóm heldur fyrirskipaði eiginmanninum að gleðja eiginkonu sína! (5. Mósebók 24:5) Í 5. Mósebók einni koma um 20 sinnum fyrir hebresk orð um kærleika. Jehóva fullvissaði Ísraelsmenn um sinn eigin kærleika — bæði í fortíð, nútíð og framtíð. (5. Mósebók 4:37; 7:12-14) Mesta boðorð Móselaganna var: „Þú skalt elska [Jehóva] Guð þinn af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni og af öllum mætti þínum.“ (5. Mósebók 6:5) Jesús sagði að allt lögmálið væri byggt á þessu boðorði ásamt því að elska náunga sinn. (3. Mósebók 19:18; Matteus 22:37-40) Það er engin furða að sálmaritarinn skyldi skrifa: „Hve mjög elska ég lögmál þitt, allan liðlangan daginn íhuga ég það.“ — Sálmur 119:97.
Misbeiting lögmálsins
10. Hvernig litu Gyðingar að stórum hluta til á Móselögin?
10 Það var því sorglegt að Ísraelsmenn skyldu upp til hópa ekki kunna að meta Móselögmálið. Þjóðin óhlýðnaðist lögmálinu, hunsaði það eða gleymdi því. Hún mengaði hreina tilbeiðslu með viðurstyggilegum trúariðkunum annarra þjóða. (2. Konungabók 17:16, 17; Sálmur 106:13, 35-38) Og hún sveikst undan lögmálinu á ýmsa aðra vegu.
11, 12. (a) Hvernig unnu trúarleiðtogahópar tjón eftir daga Esra? (Sjá rammagrein.) (b) Af hverju fannst rabbínum til forna þurfa að ‚reisa skjólgarð um lögmálið‘?
11 Þeir sem sögðust vera kennarar og verndarar lögmálsins unnu eitthvert mesta tjónið á því. Það gerðist eftir daga hins trúfasta Esra fræðimanns á fimmtu öld f.o.t. Esra barðist af krafti gegn spillandi áhrifum annarra þjóða og lagði áherslu á lestur og kennslu lögmálsins. (Esrabók 7:10; Nehemíabók 8:5-8) Sumir lögmálskennarar þóttust feta í fótspor hans og mynduðu það sem kallað var „Miklasamkunda.“ Þeir höfðu meðal annars að viðkvæði: „Reisið skjólgarð um lögmálið.“ Þessir kennarar hugsuðu sér lögmálið eins og dýrmætan garð. Til að enginn færi í leyfisleysi inn í garðinn með því að brjóta lög hans settu þeir önnur lög, „munnlegu lögin,“ til að koma í veg fyrir slíka villu.
12 Sumir halda kannski að það hafi verið réttlætanlegt af leiðtogum Gyðinga að hugsa þannig. Eftir daga Esra voru Gyðingar undir erlendum yfirráðum, einkum Grikkja. Ýmsir trúarleiðtogahópar komu fram meðal Gyðinga í því skyni að berjast gegn áhrifum grískrar heimspeki og menningar. (Sjá rammagrein bls. 21) Er fram liðu stundir gerðust sumir þessara hópa keppinautar levítaprestanna um lögmálskennsluna og urðu jafnvel áhrifameiri en þeir. (Samanber Malakí 2:7.) Árið 200 f.o.t. voru munnlegu lögin farin að hafa áhrif á líf Gyðinga. Í fyrstu áttu þessi lög að vera óskráð til að þau yrðu ekki talin jafngild hinu ritaða lögmáli. En smám saman voru skoðanir manna teknar fram yfir skoðanir Guðs þannig að ‚skjólgarðurinn‘ tók að lokum að spilla „garðinum“ sem hann átti að vernda.
Mengun faríseanna
13. Hvers vegna fannst sumum trúarleiðtogum Gyðinga réttlætanlegt að setja ótal reglur?
13 Rabbínarnir hugsuðu sem svo að fyrst Tóran eða Móselögin væru fullkomin hlytu þau að geyma svör við öllum spurningum er kynnu að vakna. Þessi skoðun bar ekki vott um fulla lotningu fyrir lögmálinu. Í reynd heimilaði hún rabbínunum að beita klókindalegum mannarökum til að láta líta út fyrir að orð Guðs væri undirstaða reglna um alls konar mál — sum persónuleg en önnur hreinlega ómerkileg.
14. (a) Hvernig teygðu trúarleiðtogar Gyðinga ákvæði Ritningarinnar um aðgreiningu frá þjóðunum út í óbiblíulegar öfgar? (b) Hvað sýnir að rabbínareglurnar vernduðu Gyðinga ekki gegn heiðnum áhrifum?
14 Æ ofan í æ tóku trúarleiðtogarnir lífsreglur Ritningarinnar og teygðu þær út í öfgar. Til dæmis stuðluðu Móselögin að aðgreiningu frá öðrum þjóðum, en rabbínarnir prédikuðu eins konar hugsunarlausa fyrirlitningu fyrir öllu sem ekki var gyðinglegt. Þeir kenndu að Gyðingur mætti ekki skilja nautgripi sína eftir við gistihús heiðingja því að heiðingjar „eru grunaðir um kynmök við skepnur.“ Gyðingakona mátti ekki aðstoða heiðingjakonu við barnsburð því að þá væri hún að „aðstoða við fæðingu barns til hjáguðadýrkunar.“ Þar eð rabbínarnir höfðu réttilega ímugust á íþróttahúsum Grikkja bönnuðu þeir allar íþróttaæfingar. Sagan sannar að þetta dugði skammt til að vernda Gyðinga fyrir heiðnum trúarskoðunum. Meira að segja tóku farísearnir sjálfir að kenna hina heiðnu grísku kenningu um ódauðleika sálarinnar. — Esekíel 18:4.
15. Hvernig rangsneru trúarleiðtogar Gyðinga lögunum um hreinsun og sifjaspell?
15 Farísearnir rangsneru einnig hreinsunarlögunum. Sagt var að þeir myndu jafnvel hreinsa sólina ef færi gæfist. Lög þeirra héldu því fram að maðurinn saurgaðist ef hann drægi það að gera þarfir sínar. Handþvottur varð að flóknum helgisið með reglum um hvor höndin skyldi þvegin fyrst og hvernig. Konur voru álitnar sérstaklega óhreinar. Út frá því ákvæði Ritningarinnar að ‚koma ekki nærri‘ nokkru nánu skyldmenni (sem var í raun ákvæði gegn sifjaspelli) settu rabbínarnir þá reglu að maður mætti ekki ganga á eftir konu sinni og ekki heldur tala við hana á markaðstorginu. — 3. Mósebók 18:6.
16, 17. Hverju bættu munnlegu lögin við boðið um vikulegan hvíldardag og með hvaða afleiðingum?
16 Hin andlega afskræming hvíldardagslaganna, sem munnlegu lögin höfðu í för með sér, er alþekkt. Guð gaf Ísraelsmönnum einföld fyrirmæli: Vinnið engin störf á sjöunda degi vikunnar. (2. Mósebók 20:8-11) En munnlegu lögin skilgreindu 39 ólíkar tegundir bannaðrar vinnu, meðal annars að binda eða leysa hnút, sauma tvö spor, skrifa tvo hebreska bókstafi og svo framvegis. Síðan þurfti endalausar viðbótarreglur við þessar skilgreiningar. Hvaða hnútar voru leyfðir og hverjir ekki? Munnlegu lögin svöruðu með gerræðislegum reglum. Lækningar voru álitin vinna sem var bönnuð. Til dæmis var bannað að setja saman brotið bein á hvíldardegi. Maður með tannpínu mátti krydda mat sinn með ediki en hann mátti ekki sjúga edikið á milli tannanna. Það gæti læknað hann af tannpínunni!
17 Þannig skyggðu hundruð mannareglna á hvíldardagslögin svo að þau glötuðu andlegri merkingu sinni í hugum flestra Gyðinga. Fræðimennirnir og farísearnir létu sér fátt um finnast þegar Jesús Kristur, „herra hvíldardagsins,“ vann stórbrotin og hjartnæm kraftaverk á hvíldardegi. Þeir sáu það eitt að hann virtist hunsa reglur þeirra. — Matteus 12:8, 10-14.
Lærum af flónsku faríseanna
18. Hvaða áhrif hafði viðbót munnlegu laganna og erfikenninganna á Móselögin? Skýrðu með dæmi.
18 Í stuttu máli má segja að þessi viðbótarlög og erfikenningar hafi fest sig utan á Móselögmálið líkt og hrúðurkarlar á skipsskrokk. Skipaeigendur kosta miklu til að skrapa þessi hvimleiðu dýr af skipum sínum því að þau hægja á skipum og eyðileggja ryðvarnarmálningu. Á sama hátt voru munnlegu lögin og erfikenningarnar lögmálinu til þyngsla og skemmdu það sökum misbeitingar. En í stað þess að skrapa þessi utanaðkomandi lög af bættu rabbínarnir stöðugt við þau. Þegar Messías kom til að uppfylla lögmálið var „skipið“ svo þakið „hrúðurkörlum“ að það flaut tæpast! (Samanber Orðskviðina 16:25.) Í stað þess að vernda lagasáttmálann gerðust trúarleiðtogarnir sekir um þá flónsku að svívirða hann og svíkjast undan honum. En hvers vegna brást ‚skjólgarðurinn‘ þeirra?
19. (a) Hvers vegna brást ‚skjólgarðurinn um lögmálið‘? (b) Hvað sýnir að trúarleiðtoga Gyðinga skorti sanna trú?
19 Leiðtogar gyðingdómsins skildu ekki að baráttan gegn spillingunni er háð í hjarta mannsins en ekki á síðum lögbókanna. (Jeremía 4:14) Kærleikur er siguraflið — kærleikur til Jehóva, laga hans og réttlátra meginreglna. Slíkur kærleikur skapar samsvarandi hatur á því sem Jehóva hatar. (Sálmur 97:10; 119:104) Þeir sem eru fullir kærleika í hjörtum sér eru því trúir lögum Jehóva í þessum spillta heimi. Trúarleiðtogar Gyðinga höfðu þau miklu sérréttindi að kenna fólkinu í þeim tilgangi að stuðla að slíkum kærleika og örva hann. Hvers vegna mistókst þeim það? Greinilega vegna þess að þá skorti trú. (Matteus 23:23, NW Ref. Bi., neðanmáls) Ef þeir hefðu trúað á mátt anda Jehóva til að starfa í hjörtum trúfastra manna hefðu þeir ekki talið að þeir þyrftu að stjórna lífi annarra í smáu sem stóru. (Jesaja 59:1; Esekíel 34:4) En þá skorti trú þannig að þeir miðluðu ekki trú, heldur íþyngdu fólki með mannaboðorðum. — Matteus 15:3, 9; 23:4.
20, 21. (a) Hvaða áhrif hafði erfikenningahugarfar á gyðingdóminn á heildina litið? (b) Hvaða lærdóm drögum við af því sem henti gyðingdóminn?
20 Þessir Gyðingaleiðtogar hvöttu ekki til kærleika. Erfikenningar þeirra gátu af sér trú sem var gagntekin sýndarmennsku og hugsunarlausri hlýðni útlitsins vegna — og þar lifði hræsnin góðu lífi. (Matteus 23:25-28) Reglur þeirra gáfu mönnum ótal tilefni til að dæma aðra. Þess vegna töldu hinir stoltu og ráðríku farísear sig með réttu geta gagnrýnt sjálfan Jesú Krist. Þeir misstu sjónar á megintilgangi lögmálsins og höfnuðu hinum eina sanna Messíasi. Þar af leiðandi þurfti hann að segja Gyðingaþjóðinni: „Hús yðar verður í eyði látið.“ — Matteus 23:38; Galatabréfið 3:23, 24.
21 Hvað lærum við af þessu? Ljóst er að ósveigjanlegt hugarfar mótað af erfikenningum stuðlar ekki að hreinni tilbeiðslu á Jehóva! En þýðir það að tilbiðjendur Jehóva nú á tímum eigi alls engar reglur að hafa nema þær sem eru sérstaklega settar fram í Heilagri ritningu? Nei. Til að svara þessari spurningu til hlítar skulum við skoða næst hvernig Jesús Kristur setti ný og betri lög í stað Móselaganna.
[Neðanmáls]
^ Það eru eigi að síður mjög fá ákvæði í samanburði við lagabálka nútímaþjóða. Til dæmis fylltu alríkislög Bandaríkjanna yfir 125.000 blaðsíður snemma á þessum áratug, og þúsundir nýrra laga bætast við á ári hverju.
Geturðu útskýrt?
◻ Hvernig er allri sköpuninni stjórnað af lögum Guðs?
◻ Hver var aðaltilgangur Móselaganna?
◻ Hvað sýnir að Móselögin lögðu áherslu á miskunn og meðaumkun?
◻ Hvers vegna bættu trúarleiðtogar Gyðinga ótal reglum við Móselögin og með hvaða afleiðingum?
[Spurningar]
[Rammi á blaðsíðu 21]
Trúarleiðtogar Gyðinga
Fræðimenn: Þeir litu á sig sem lögmálsskýrendur og arftaka Esra. Að sögn bókarinnar A History of the Jews voru „fræðimennirnir ekki allir nein göfugmenni og tilraunir þeirra til að lesa dulda merkingu út úr lögmálinu breyttust oft í merkingarlausar kennisetningar og heimskulegar hömlur. Þær urðu síðan að hefð sem breyttist fljótlega í miskunnarlausan harðstjóra.“
Hasídar: Nafnið merkir „hinir guðræknu“ eða „helgir menn.“ Þeirra er fyrst getið sem hóps um árið 200 f.o.t. Þeir voru áhrifamiklir í stjórnmálum og vörðu hreinleika lögmálsins með ofstæki gegn ofríki grískra áhrifa. Hasídar klofnuðu í þrjá hópa: Farísea, saddúkea og essena.
Farísear: Sumir fræðimenn telja nafnið komið af orðum er merkja „aðskildir“ eða „aðskilnaðarmenn.“ Þeir voru mjög ofstækisfullir í því að halda sér aðgreindum frá heiðingjum en litu einnig á bræðralag sitt sem greint frá — og hafið yfir — almúga Gyðinga er þekkti ekki hin flóknu munnlegu lög. Sagnfræðingur nokkur segir um farísea: „Almennt komu þeir fram við menn eins og börn, og bundu og skilgreindu helgihald og trúarsiði í smæstu smáatriðum.“ Annar fræðimaður segir: „Farísear settu fram ógrynni lagaboða og reglna um allar hugsanlegar aðstæður, með þeim óhjákvæmilegu afleiðingum að þeir gerðu stórmál úr smámunum og smámuni úr stórmálum (Mt. 23:23).“
Saddúkear: Hópur sem var nátengdur hástéttinni og prestastéttinni. Þeir voru harðir andstæðingar fræðimanna og farísea og sögðu að munnlegu lögin væru ekki jafngild hinum rituðu. Mísna, helgisiðabók Gyðinga, ber því vitni að saddúkear hafi orðið undir í baráttunni: „Mikilvægara er [að halda] orð fræðimannanna en [að halda] orð lögmálsins [hins ritaða].“ Talmúdinn, þar sem finna má ítarlegar skýringar við munnlegu lögin, gekk síðar svo langt að segja: „Orð fræðimannanna eru . . . dýrmætari en orð Tórunnar.“
Essenar: Hópur meinlætamanna sem einangraði sig í sérstökum samfélögum. Að sögn The Interpreter’s Dictionary of the Bible skáru essenar sig jafnvel enn meira úr en farísear og „gátu stundum verið meiri farísear en farísearnir sjálfir.“