Nærvera Jesú eða koma — Hvort heldur?
Nærvera Jesú eða koma — Hvort heldur?
„Hvert verður tákn nærveru þinnar og endaloka heimskerfisins?“—MATTEUS 24:3, NW.
1. Hvaða hlutverki gegndu spurningar í þjónustu Jesú?
MEÐ fimlegum spurningum fékk Jesús áheyrendur sína til að hugsa og jafnvel að sjá hlutina í nýju ljósi. (Markús 12:35-37; Lúkas 6:9; 9:20; 20:3, 4) Við megum vera þakklát fyrir að hann skyldi líka svara spurningum. Svör hans varpa ljósi á sannindi sem við hefðum ekki vitað eða skilið ella. — Markús 7:17-23; 9:11-13; 10:10-12; 12:18-27.
2. Hvaða spurningu ættum við að gefa gaum núna?
2 Í Matteusi 24:3 finnum við eina af þýðingarmestu spurningum sem Jesús svaraði. Jarðlíf hans var næstum á enda og hann var nýbúinn að vara við að musterinu í Jerúsalem yrði eytt og gyðingakerfið liði undir lok. Frásaga Matteusar bætir við: „Er hann sat á Olíufjallinu komu lærisveinarnir einslega til hans og spurðu: ‚Segðu okkur, hvenær verður þetta og hvert verður tákn nærveru [„komu,“ Biblían 1981] þinnar og endaloka heimskerfisins?‘“ — Matteus 24:3, NW.
3, 4. Hvaða mikilvægur munur er á þýðingu ákveðins lykilorðs í Matteusi 24:3 í ýmsum biblíum?
3 Milljónir lesenda Biblíunnar hafa velt fyrir sér hvers vegna lærisveinarnir hafi spurt þessarar spurningar og hvaða áhrif svar Jesú ætti að hafa á þá. Í svari sínu talaði Jesús um að sumar væri „í nánd“ þegar laufið tæki að springa út. (Matteus 24:32, 33) Þess vegna kenna margar kirkjur að postularnir hafi verið að spyrja Jesú um tákn „komu“ sinnar, táknið er sannaði að endurkoma hans stæði fyrir dyrum. Þeir trúa að þessi ‚koma‘ sé sú stund er hann taki kristna menn til himna og láti síðan heimsendi koma. Trúir þú að það sé rétt?
4 Í stað orðsins „koma“ nota sumar biblíuþýðingar, þeirra á meðal Nýheimsþýðing Heilagrar ritningar, orðið „nærvera.“ Getur hugsast að lærisveinarnir hafi verið að spyrja um annað og Jesús að svara öðru en kennt er í kirkjum? Um hvað var raunverulega spurt? Og hvernig svaraði Jesús?
Um hvað spurðu þeir?
5, 6. Hvað getum við ályktað að lærisveinarnir hafi verið að hugsa þegar þeir spurðu spurningarinnar í Matteusi 24:3?
5 Í ljósi þess sem Jesús sagði um musterið er líklegt að lærisveinarnir hafi verið að hugsa um gyðingafyrirkomulagið er þeir spurðu um ‚tákn nærveru [eða „komu“] hans og endaloka heimskerfisins [bókstaflega „tímaskeiðsins“].‘ — Samanber „öld“ í 1. Korintubréfi 10:11 og Galatabréfinu 1:4, Biblían 1981.
6 Postularnir höfðu aðeins takmarkaðan skilning á kenningum Jesú á þeirri stundu. Þeir höfðu áður ímyndað sér að „Guðs ríki mundi þegar birtast.“ (Lúkas 19:11; Matteus 16:21-23; Markús 10:35-40) Og jafnvel eftir umræðurnar á Olíufjallinu en áður en þeir voru smurðir heilögum anda spurðu þeir hvort Jesús ætlaði þá þegar að endurreisa ríkið handa Ísrael. — Postulasagan 1:6.
7. Af hverju ætli postularnir hafi spurt Jesú um framtíðarhlutverk hans?
7 En þeir vissu að hann færi því að hann hafði sagt skömmu áður: „Ljósið [er] enn á meðal yðar. Gangið, meðan þér hafið ljósið.“ (Jóhannes 12:35; Lúkas 19:12-27) Þeim hefur kannski verið spurn hvernig þeir myndu vita af endurkomu Jesú fyrst hann væri að fara. Fæstir þekktu hann þegar hann kom fram sem Messías. Og meira en ári síðar voru menn enn að spyrja hvort hann myndi uppfylla allt sem Messías átti að gera. (Matteus 11:2, 3) Postularnir höfðu því ástæðu til að spyrja hann um framtíðina. En voru þeir að spyrja um tákn þess að hann kæmi fljótlega eða um eitthvað annað?
8. Á hvaða tungumáli hafa postularnir líklega talað við Jesú?
8 Ímyndaðu þér að þú værir fugl sem heyrðir á samræðurnar á Olíufjallinu. (Samanber Prédikarann 10:20.) Sennilega myndirðu heyra Jesú og postulana mæla á hebresku. (Markús 14:70; Jóhannes 5:2; 19:17, 20; Postulasagan 21:40) En trúlega kunnu þeir líka grísku.
Frásaga Matteusar — á grísku
9. Á hverju byggjast flestar nútímaþýðingar Matteusar?
9 Samkvæmt heimildum frá annarri öld skrifaði Matteus guðspjall sitt upphaflega á hebresku. Greinilega skrifaði hann það síðar á grísku. Mörg grísk handrit hafa varðveist til okkar tíma og frá þeim hefur guðspjall hans verið þýtt á nútímatungumál. Hvað skrifaði Matteus á grísku um samræðurnar á Olíufjallinu? Hvað skrifaði hann um ‚komuna‘ eða ‚nærveruna‘ sem lærisveinarnir spurðu um og Jesús tjáði sig um?
10. (a) Hvaða grískt orð fyrir „komu“ notaði Matteus oft og hvað getur það merkt? (b) Hvaða annað grískt orð er athyglisvert?
10 Í fyrstu 23 köflum Matteusar rekumst við meira en 80 sinnum á hina algengu grísku sögn erʹkhomæ sem merkir „koma.“ Oft felur hún í sér hugsunina að nálgast eða bera að garði, eins og til dæmis í Jóhannesi 1:47: „Jesús sá Natanael koma til sín.“ Eftir samhengi og notkun getur sögnin erʹkhomæ merkt „koma,“ „ganga,“ „sækja“ og „fara.“ (Matteus 2:8, 11; 8:28; Jóhannes 4:25, 27, 45; 20:4, 8; Postulasagan 8:40; 13:51) En í Matteusi 24:3, 27, 37, 39 er notað annað orð, nafnorð sem kemur hvergi annars staðar fyrir í guðspjöllunum: parósíʹa. Þar eð Guð innblés ritun Biblíunnar, hvers vegna skyldi hann þá hafa látið Matteus nota þetta gríska orð í þessum versum þegar hann skrifaði guðspjall sitt á grísku? Hvað merkir það og hvers vegna ættum við að vilja vita það?
11. (a) Hvað merkir parósíʹa? (b) Hvernig sýna dæmi úr ritum Jósefusar að við skiljum parósíʹa rétt? (Sjá neðanmálsathugasemd.)
11 Orðið parósíʹa merkir hreint og beint „nærvera.“ Expository Dictionary of New Testament Words eftir Vine segir: „PARÓSÍA, . . . bókstaflega nærvera, para, með og ósía, verandi (af eimi, að vera), merkir bæði komu og nærveru í framhaldi af því. Til dæmis talar hefðarkona í papýrusbréfi um nauðsyn parósía sinnar á vissum stað til að sinna málum er vörðuðu eign hennar.“ Aðrar fornmálsorðabækur benda á að parósíʹa merki ‚heimsókn valdhafa.‘ Það er því ekki aðeins átt við komustundina heldur einnig nærveruna sem á sér stað frá og með komunni. Athyglisvert er að það er þannig sem gyðingasagnfræðingurinn Jósefus, er var samtíða postulunum, notaði orðið parósíʹa. *
12. Hvernig hjálpar Biblían sjálf okkur að staðfesta merkingu parósíʹa?
12 Merkingin ‚nærvera‘ kemur glögglega fram í fornritum, en kristnir menn hafa sérstaklega áhuga á því hvernig orð Guðs notar parósíʹa. Svarið er hið sama — nærvera. Við sjáum það af dæmum úr bréfum Páls. Til dæmis skrifaði hann Filippímönnum: „Þér sem ætíð hafið verið hlýðnir, vinnið nú að sáluhjálp yðar með ugg og ótta eins og þegar ég var hjá yður, því fremur nú, þegar ég er fjarri.“ Hann talaði líka um að vera hjá þeim til að þeir gætu fagnað „vegna nærveru [parósíʹa] [hans] hjá þeim.“ (Filippíbréfið 1:25, 26; 2:12, Biblían 1981, NW) Aðrar biblíuþýðingar tala um „er ég verð hjá ykkur aftur“ (Weymouth; New International Version); „þegar ég er hjá ykkur aftur“ (Jerusalem Bible; New English Bible) og „þegar þið hafið mig meðal ykkar aftur.“ (Twentieth Century New Testament) Í 2. Korintubréfi 10:10, 11, Biblían 1912, talaði Páll annars vegar um ‚líkamlega návist sína‘ og hins vegar um að vera ‚fjarlægur.‘ Þarna var hann greinilega ekki að tala um komu sína heldur notaði hann parósíʹa í merkingunni að vera nærverandi. * (Samanber 1. Korintubréf 16:17.) En hvað um þá staði þar sem talað er um parósíʹa Jesú? Er þá átt við „komu“ hans eða er átt við langa nærveru?
13, 14. (a) Hvers vegna hljótum við að álykta að parósíʹa standi um tíma? (b) Hvað verður að segja um lengdina á parósíʹa Jesú?
13 Andasmurðir kristnir menn á dögum Páls höfðu áhuga á parósíʹa Jesú. En Páll hvatti þá til að ‚komast ekki í uppnám.‘ Fyrst kæmi „lögleysinginn“ fram sem hefur reynst vera klerkastétt kristna heimsins. Páll talaði um ‚komu [parósíʹa, nærveru] lögleysingjans fyrir tilverknað Satans með miklum krafti og lygatáknum.‘ (2. Þessaloníkubréf 2:2, 3, 9, neðanmáls) Parósíʹa eða nærvera ‚lögleysingjans‘ er greinilega ekki aðeins stutt viðkoma heldur langvarandi, og á þeim tíma kæmu lygatáknin fram. Hvers vegna skiptir það máli?
14 Líttu á versið á undan: „Þá mun lögleysinginn opinberast, — og honum mun Drottinn Jesús tortíma með anda munns síns og að engu gjöra þegar hann birtist við endurkomu [parósíʹa, nærveru] sína.“ Á sama hátt og nærvera ‚lögleysingjans‘ stæði um nokkurn tíma, eins myndi nærvera Jesú standa um tíma og ná hámarki með eyðingu þessa löglausa ‚sonar glötunarinnar.‘ — 2. Þessaloníkubréf 2:8.
Hebreskan skoðuð
15, 16. (a) Hvaða sérstakt orð er notað í mörgum þýðingum Matteusar á hebresku? (b) Hvernig er bohʼ notað í Ritningunni?
15 Eins og nefnt hefur verið er greinilegt að Matteus skrifaði guðspjall sitt upphaflega á hebresku. Hvaða hebreskt orð skyldi hann þá hafa notað í Matteusi 24:3, 27, 37, 39? Þýðingar Matteusarguðspjalls á nútímahebresku nota mynd sagnarinnar bohʼ, bæði í spurningu postulanna og svari Jesú. Þá gæti þýðingin orðið á þessa leið: „Hvert mun tákn [bohʼ] þinnar og endaloka veraldar?“ og: „Eins og var á dögum Nóa, svo mun verða við [bohʼ] Mannssonarins.“ Hvað merkir hebreska sagnorðið bohʼ?
16 Það getur haft ýmsar merkingar en fyrst og fremst merkir það „að koma.“ Theological Dictionary of the Old Testament segir: ‚Bohʼ kemur 2532 sinnum fyrir og er eitt algengasta sagnorðið í Hebresku ritningunum, og það er helsta sögnin sem notuð er um hreyfingu.‘ (1. Mósebók 7:1, 13; 2. Mósebók 12:25; 28:35; 2. Samúelsbók 19:30; 2. Konungabók 10:21; Sálmur 65:3; Jesaja 1:23; Esekíel 11:16; Daníel 9:13; Amos 8:11) Ef Jesús og postular hans hefðu notað orð með svona breitt merkingarsvið gæti merkingin verið umdeilanleg. En gerðu þeir það?
17. (a) Hvers vegna gefa nútímaþýðingar Matteusar á hebresku ekki endilega til kynna hvað Jesús og postularnir sögðu? (b) Hvar annars staðar finnum við vísbendingu um orðið sem Jesús og postular hans kunna að hafa notað, og af hvaða annarri ástæðu er þessi heimild athyglisverð fyrir okkur? (Sjá neðanmálsathugasemd.)
17 Höfum í huga að hebreskar útgáfur Biblíunnar nú á tímum eru þýðingar sem segja ef til vill ekki nákvæmlega það sama og Matteus skrifaði á hebresku. Sannleikurinn er sá að Jesús hefur hæglega getað notað annað orð en bohʼ, orð sem samsvaraði merkingu parósíʹa. Við sjáum það af bókinni Hebrew Gospel of Matthew eftir prófessor George Howard, sem út kom árið 1995. Bókin fjallar um ádeilu Gyðings og læknis á 14. öld, er hét Shem-Tob ben Isaac Ibn Shaprut, á kristnina. Í riti hans er að finna hebreskan texta Matteusarguðspjalls. Rök hníga að því að þessi texti Matteusar sé ekki þýðing á latneskum eða grískum texta guðspjallsins frá tímum Shem-Tobs, heldur sé hann ævaforn og upphaflega saminn á hebresku. * Hann er því kannski nær því sem sagt var á Olíufjallinu.
18. Hvaða athyglisvert hebreskt orð notar Shem-Tob og hvað merkir það?
18 Matteusarguðspjall Shem-Tobs notar ekki sögnina bohʼ í Matteusi 24:3, 27, 39, heldur skylt nafnorð, biʼahʹ. Í Hebresku ritningunum finnst þetta nafnorð aðeins í Esekíel 8:5 og er þýtt „þar sem inn er gengið.“ Þarna lýsir orðið biʼahʹ ekki komu heldur inngangi í hús. Sá sem er í innganginum eða á þröskuldinum er í húsinu. Í óbiblíulegum trúarritum meðal Dauðahafshandritanna er biʼahʹ oft notað um tilkomu eða viðtöku prestsembætta. (Sjá 1. Kroníkubók 24:3-19; Lúkas 1:5, 8, 23.) Og í þýðingu hinnar fornsýrlensku (eða arameísku) Peshitta á hebresku frá árinu 1986 er orðið biʼahʹ notað í Matteusi 24:3, 27, 37, 39. Því má ætla að nafnorðið biʼahʹ hafi til forna verið eitthvað annarrar merkingar en sögnin bohʼ í Biblíunni. Hvað er athyglisvert við þetta?
19. Hvað gætum við ályktað ef Jesús og postular hans hafa notað nafnorðið biʼahʹ?
19 Postularnir kunna að hafa notað þetta nafnorð, biʼahʹ, í spurningu sinni og Jesús í svari sínu. Jafnvel þótt postularnir hafi einungis verið að hugsa um komu Jesú Krists í framtíðinni, kann hann að hafa notað biʼahʹ í víðari merkingu en þeir höfðu í huga. Jesús kann að hafa verið að benda á komu sína til að taka við nýju embætti; koma hans yrði upphaf hins nýja hlutverks hans. Það myndi hæfa merkingu parósíʹa sem Matteus notaði síðar. Slík notkun orðsins biʼahʹ yrði skiljanlega að styðja það sem vottar Jehóva hafa lengi kennt, að hið samsetta „tákn,“ sem Jesús gaf, ætti að sýna að hann væri nærverandi.
Beðið eftir hámarki nærveru hans
20, 21. Hvað getum við lært af orðum Jesú um daga Nóa?
20 Athugun okkar á nærveru Jesú ætti að hafa bein áhrif á líf okkar og væntingar. Jesús hvatti fylgjendur sína til að halda vöku sinni. Hann gaf tákn sem þekkja mætti nærveru hans á, þótt fæstir gæfu því gaum: „Eins og var á dögum Nóa, svo mun verða við komu [parósíʹa, nærveru] Mannssonarins. Dagana fyrir flóðið átu menn og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags, er Nói gekk í örkina. Og þeir vissu ekki, fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt. Eins verður við komu [parósíʹa, nærveru] Mannssonarins.“ — Matteus 24:37-39.
21 Flestir á dögum Nóa héldu einfaldlega áfram sínu daglega lífi. Jesús sagði fyrir að eins yrði það við ‚nærveru Mannssonarins.‘ Samtíðarmönnum Nóa fannst kannski að ekkert myndi gerast. En þú veist hvernig fór. Þessir dagar, sem stóðu um nokkurt tímabil, náðu hámarki þegar „flóðið kom og hreif þá alla burt.“ Lúkas segir svipaða sögu þar sem Jesús líkti „dögum Nóa“ við ‚daga Mannssonarins.‘ Jesús hvatti: „Eins mun verða á þeim degi, er Mannssonurinn opinberast.“ — Lúkas 17:26-30.
22. Af hverju ættum við sérstaklega að hafa áhuga á spádómi Jesú í Matteusi 24. kafla?
22 Allt hefur þetta sérstaka þýðingu fyrir okkur af því að við lifum á tíma er við sjáum alla þá atburði gerast sem Jesús sagði fyrir — styrjaldir, jarðskjálfta, drepsóttir, hallæri og ofsóknir á hendur lærisveinum hans. (Matteus 24:7-9; Lúkas 21:10-12) Táknin hafa blasað við alla tíð frá þeim straumhvörfum sem urðu í sögunni með fyrri heimsstyrjöldinni, enda þótt flestir líti á þau sem eðlilegan gang sögunnar. En sannkristnir menn skilja merkingu þessara örlagaríku atburða, alveg eins og vökulir menn sjá að sumar er í nánd þegar fíkjutré laufgast. Jesús sagði: „Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd.“ — Lúkas 21:31.
23. Fyrir hverja hafa orð Jesú í Matteusi 24. kafla sérstaka merkingu og hvers vegna?
23 Jesús beindi svari sínu á Olíufjallinu að stórum hluta til fylgjenda sinna. Þeir áttu að taka þátt í því björgunarstarfi að prédika fagnaðarerindið um alla jörðina áður en endirinn kæmi. Það voru þeir sem gátu komið auga á „viðurstyggð eyðingarinnar . . . standa á helgum stað.“ Það voru þeir sem áttu að ‚flýja‘ fyrir þrenginguna miklu. Og þeir yrðu sérstaklega fyrir áhrifum af því sem hann bætti svo við: „Ef dagar þessir hefðu ekki verið styttir, kæmist enginn maður af. En vegna hinna útvöldu munu þeir dagar styttir verða.“ (Matteus 24:9, 14-22) En hvað merkja þessi umhugsunarverðu orð eiginlega og hvers vegna er hægt að segja að þau séu tilefni til aukinnar hamingju, trausts og kostgæfni núna? Eftirfarandi athugun á Matteusi 24:22 svarar því.
[Neðanmáls]
^ Dæmi úr ritum Jósefusar: Á Sínaífjalli lýstu þrumur og eldingar yfir „nærveru [parósíʹa] Guðs þar.“ Hin undraverða opinberun í tjaldbúðinni „sýndi nærveru [parósíʹa] Guðs.“ Með því að sýna þjóni Elísa stríðsvagnana umhverfis sýndi Guð „þjóni sínum mátt sinn og nærveru [parósíʹa].“ Þegar rómverski embættismaðurinn Petróníus reyndi að friða Gyðinga fullyrðir Jósefus að ‚Guð hafi sýnt Petróníusi nærveru [parósíʹa] sína‘ með því að láta rigna. Jósefus notaði ekki orðið parósíʹa til að tákna aðeins aðkomu eða stutta komu. Orðið merkti óslitna, jafnvel ósýnilega nærveru. (2. Mósebók 20:18-21; 25:22; 3. Mósebók 16:2; 2. Konungabók 6:15-17) — Samanber Antiquities of the Jews, 3. bók, 5. kafla, 2. grein [80]; 8. kafla, 5. grein [203]; 9. bók, 4. kafla, 3. grein [55]; 18. bók, 8. kafla, 6. grein [284].
^ E. W. Bullinger bendir á í orðabókinni A Critical Lexicon and Concordance to the English and Greek New Testament að parósíʹa merki ‚að vera eða verða nærverandi og þar af leiðandi nærveru, komu; komu sem feli í sér hugmyndina um varanlega dvöl frá og með þeirri komu.‘
^ Ein rök fyrir þessu eru þau að hebreska orðið fyrir „Nafnið“ kemur 19 sinnum fyrir þar, útskrifað eða skammstafað. Prófessor Howard segir: „Það er eftirtektarvert að sjá nafn Guðs í tilvitnun ritdeilumanns, sem er Gyðingur, í kristið rit. Ef þetta væri hebresk þýðing kristins rits úr grísku eða latínu mætti búast við orðinu adonai [Drottinn] í textanum en ekki tákni hins ósegjanlega nafns Guðs, JHVH. . . . Það fær ekki staðist að hann hafi bætt þessu ósegjanlega nafni við. Rök hníga sterklega að því að í eintaki Matteusarguðspjalls, sem Shem-Tom hafði undir höndum, hafi nafnið þegar staðið í textanum og að hann hafi sennilega haldið því til að eiga ekki á hættu að gerast sekur um að fella það niður.“ Nýheimsþýðing Heilagrar ritningar — með tilvísunum notar Matteusarguðspjall Shem-Tobs (J2) til stuðnings því að láta nafn Guðs standa í kristnu Grísku ritningunum.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvers vegna er mikilvægt að sjá muninn á ýmsum þýðingum Biblíunnar á Matteusi 24:3?
◻ Hvað merkir parósíʹa og hvers vegna skiptir það máli?
◻ Hvaða hugsanleg hliðstæða gæti verið með grískum og hebreskum útgáfum Matteusar 24:3?
◻ Hvað þurfum við að vita um tímann til að skilja 24. kafla Matteusar?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 10]
Olíufjallið með útsýni yfir Jerúsalem.