Draumar eru nauðsyn
Draumar eru nauðsyn
DREYMIR þig? Áreiðanlega, því að alla dreymir þegar þeir sofa, jafnvel þótt þeir haldi öðru fram. Áætlað hefur verið að við gleymum 95 af hundraði allra drauma. Hverju manst þú eftir? Yfirleitt munum við það sem okkur dreymdi rétt áður en við vöknuðum.
Draumarannsóknarmenn hafa komist að raun um að svefninn er ákveðið ferli og er dýpstur fyrstu klukkustundirnar en léttist síðan. Okkur dreymir helst í bliksvefni, svefnlotum sem einkennast af kvikum augnhreyfingum sem skiptast á við augnkyrrðarsvefn. Hver augnkyrrðar- og bliksvefnslota tekur um 90 mínútur. Þessar lotur eru fimm til sex á nóttu; sú síðasta rétt áður en við vöknum.
Heilastarfsemin er ekki í neinum hægagangi meðan við sofum eins og sumir halda. Komið hefur í ljós að heilinn er virkari þegar okkur dreymir en sumar vökustundir, ef frá eru taldir vissir taugungar í heilastofninum sem tengjast athygli og minni. Þeir virðast hvílast í bliksvefni. En yfirleitt eru stöðug boðskipti í gangi milli taugafrumna heilans.
Heilinn er ótrúlega flókið líffæri með milljörðum eininga sem gefa frá sér á bilinu eitt hundrað til tvö eða þrjú hundruð merki á sekúndu. Einingar mannsheilans eru fleiri en allir jarðarbúar. Sumir vísindamenn áætla að þær liggi á bilinu 20 til meira en 50 milljarðar. Hin flókna gerð heilans staðfestir orð biblíuritarans Davíðs sem sagði um mannslíkamann: „Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín.“ — Sálmur 139:14.
Draumaheimurinn
Í vöku eru skilningarvitin fimm sífellt að flytja heilanum upplýsingar og myndir. Í svefni gegnir öðru máli. Þá býr heilinn sér til myndir án nokkurra utanaðkomandi skynáhrifa. Þess vegna er það sem við sjáum í draumi og það sem okkur finnst gerast stundum eins og skynvillur. Þar af leiðandi erum við ekki einu sinni bundin náttúrulögmálunum í draumi, og getum flogið eða fallið af kletti án þess að slasast. Tíminn brenglast þannig að fortíð virðist nútíð. Eða þá að við reynum að forða okkur á hlaupum en virðumst ekki ráða hreyfingum okkar — fæturnir hreinlega hlýða ekki. Sterk skynáhrif eða atvik, sem við höfum orðið fyrir í vöku, geta auðvitað haft áhrif á drauma okkar. Margir, sem hafa orðið vitni að hræðilegum grimmdarverkum í stríði, eiga ekki auðvelt með að gleyma þeim, og sumir geta ekki gleymt hvernig tilfinning það er að verða fyrir árás glæpamanns. Slík lífsreynsla í vöku getur birst í draumum okkar og valdið martröðum. Hversdagsleg mál, sem eru í huga okkar þegar við göngum til náða, geta komið fram í draumum okkar.
Stundum erum við að reyna að leysa vandamál og við dettum niður á lausnina í svefni. Það sýnir kannski að svefn er ekki bara draumar heldur einnig að hluta til hugsun.
Bók um drauma og heilann segir: „Algengasta hugarstarfsemi í svefni er ekki draumar heldur hugsun. Hugsun í svefni er ekki tengd skynblekkingum og er á engan hátt fjarstæðukennd. Hún er yfirleitt hversdagsleg og oft tengd raunverulegum atburðum gærdagsins eða morgundagsins, og er oftast venjuleg, ófrumleg og endurtekningarsöm.“
Sumir telja sérstakan boðskap fólginn í draumum sínum. Þeir hafa því minnisblokk við rúmstokkinn svo að þeir geti skrifað þá hjá sér þegar þeir vakna og látið túlka þá. Ann Faraday fjallar í bók sinni The Dream Game um gildi draumaráðningabóka: „Draumaráðningabækur, þar sem hægt er að fletta upp á merkingu draumastefja og draumatákna, eru jafngagnslausar hvort sem þær eru hefðbundnar eða byggðar á einhverri nýlegri sálfræðikenningu.“
Þar eð draumar virðast fyrst og fremst eiga upptök sín í heilanum er ekki rökrétt að halda að þeir flytji okkur sérstakan boðskap. Við ættum að líta á þá sem eðlilega starfsemi heilbrigðs heila.
En hvað um þá sem telja sig hafa dreymt fyrir dauða vinar eða ættingja og uppgötva svo næsta dag að hann er dáinn? Bendir það ekki til þess að mann geti dreymt fyrir daglátum? Í greininni á eftir fjöllum við um hvað búi að baki spádómsdraumum.