Er hægt að dreyma fyrir daglátum?
Er hægt að dreyma fyrir daglátum?
ALLT frá fornu fari hefur mannkynið haft brennandi áhuga á draumum. Egyptar sömdu vandaðar draumaráðningabækur, og Babýloníumenn áttu sér draumaráðningamenn. Meðal Grikkja var siður að láta veikt fólk sofa í helgidómum Asklepíosar til að fá fyrirmæli í draumi um læknismeðferð. Á annarri öld okkar tímatals samdi Artemídórus bók til að túlka draumatákn. Margar svipaðar bækur hafa verið gefnar út síðan byggðar á bók hans. Allt fram á þennan dag er verið að reyna að túlka og ráða drauma. En veita draumar virkilega innsýn í atburði framtíðarinnar?
Til að draumar hafi eitthvert gildi fyrir framtíðina þyrftu æðri máttarvöld að hafa áhrif á þá. Í Biblíunni finnum við mörg dæmi um að Guð hafi haft slík áhrif. Hann lét bæði þjóna sína og suma, sem tilbáðu hann ekki, dreyma spádómlega drauma. Jobsbók 33:14-16 segir jafnvel: „Vissulega talar Guð . . . Í draumi, í nætursýn, þá er þungur svefnhöfgi er fallinn yfir mennina, í blundi á hvílubeði, opnar hann eyru mannanna.“
Guð lét Faraó Egyptalandskonung dreyma drauma á dögum Jósefs, meira en 1700 árum fyrir okkar tímatal. Draumur Faraós er skráður í 1. Mósebók 41:1-7, og í versi 25 til 32 túlkar Jósef drauminn þannig að hann boði sjö ár með ‚miklum nægtum um allt Egyptaland.‘ Eftir það skyldu koma sjö hallærisár. Jósef sagði Faraó: „Það sem Guð ætlar að gjöra, hefir hann sýnt Faraó.“ (1. Mósebók 41:28) Draumurinn boðaði það sem síðar gerðist.
Voldugur konungur í Babýlon varð fyrir svipaðri reynslu. Nebúkadnesar dreymdi draum sem gerði honum mjög órótt í skapi, en svo mundi hann ekki drauminn. Hann kallaði því á galdramenn sína til að segja sér drauminn og þýðingu hans. Þeim var um megn að verða við beiðni hans. — Daníel 2:1-11.
Þar eð Guð hafði látið konung dreyma drauminn upplýsti hann spámanninn Daníel svo að hann gæti opinberað drauminn og þýðingu hans. Daníel 2:19 segir: „Þá var leyndardómurinn opinberaður Daníel í nætursýn.“ Daníel eignaði Guði heiðurinn af þessum draumi: „Leyndardóm þann, sem konungurinn spyr um, geta hvorki vitringar, særingamenn, spásagnamenn né stjörnuspekingar sagt konunginum. En sá Guð er á himnum, sem opinberar leynda hluti, og hann hefir kunngjört Nebúkadnesar konungi það, er verða mun á hinum síðustu dögum.“ — Daníel 2:27, 28.
Stundum gaf Guð þjónum sínum fyrirmæli í draumum og stundum fullvissaði hann þá um hylli sína eða hjálpaði þeim að skilja hvernig hann var að hjálpa þeim. Til dæmis opinberaði hann Jakobi velþóknun sína í draumi. — 1. Mósebók 48:3, 4.
Þegar Jósef, fósturfaðir Jesú, komst að raun um að María var barnshafandi ákvað hann að skilja við hana. En þá fékk hann fyrirmæli í draumi um að gera það ekki. Matteus 1:20 segir: „Hann hafði ráðið þetta með sér, en þá vitraðist honum engill [Jehóva] í draumi og sagði: ‚Jósef, sonur Davíðs, óttastu ekki að taka til þín Maríu, heitkonu þína. Barnið, sem hún gengur með, er af heilögum anda.‘“ Síðar fékk hann viðvörun í draumi: „Þá vitrast engill [Jehóva] Jósef í draumi og segir: ‚Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands.‘“ — Matteus 2:13.
Draumar sem eru ekki frá Guði
Sú staðreynd að draumaráðningar voru algengar meðal þeirra sem þjónuðu ekki Guði gefur til kynna að ekki sé almennt hægt að líta á drauma sem áreiðanlegar opinberanir um framtíðina. Á dögum Jeremía, spámanns Guðs, sögðu falsspámenn: „Mig dreymdi, mig dreymdi!“ (Jeremía 23:25) Þeir hugðust telja fólki trú um að Guð talaði fyrir munn þeirra. Jeremía var innblásið að segja um þessa draumamenn: „Svo segir [Jehóva] allsherjar, Ísraels Guð: Látið eigi spámenn yðar, sem meðal yðar eru, né spásagnamenn yðar tæla yður, og trúið ekki á drauma yðar, sem yður dreymir. Því að þeir spá yður ranglega í mínu nafni . . . — segir [Jehóva].“ — Jeremía 29:8, 9.
Þar eð þessir falsspámenn voru „spásagnamenn“ kunna draumar þeirra að hafa verið undir áhrifum illra anda í þeim tilgangi að blekkja þjóðina. Það má einnig ráða af orðum Sakaría 10:2: „Húsgoðin veittu fánýt svör, og spásagnamennirnir sáu falssýnir. Þeir kunngjöra aðeins hégómlega drauma.“
Djöfullinn er blekkingameistari sem hefur um árþúsundir notað trúarleiðtoga er Júdasarbréfið 4, 8.
segja ranglega að Guð hafi talað fyrir munn þeirra með sýnum og draumum, alveg eins og falsspámennirnir gerðu á dögum Jeremía og Sakaría. Innblásni biblíuritarinn Júdas skrifaði kristnum mönnum á fyrstu öld um slíka menn: „Inn hafa læðst nokkrir menn, sem fyrir löngu var ritað um að þessi dómur biði þeirra. Þeir eru óguðlegir menn, sem misnota náð Guðs vors til taumleysis og afneita vorum einasta lávarði og Drottni, Jesú Kristi.“ Þessir menn voru ‚draumvilltir,‘ eins og hann komst að orði. —Prófaðu fullyrðingarnar
Einhver fullyrðir kannski að Guð hafi talað til hans í draumi eða að hann hafi reynst draumspakur, en það er ekki næg ástæða til að trúa honum og fylgja í blindni. Taktu eftir fyrirmælunum í 5. Mósebók 13:1-3, 5: „Ef spámaður eða draumamaður rís upp meðal yðar og boðar þér tákn eða undur, og táknið eða undrið rætist, það er hann hafði boðað þér og sagt um leið: ‚Vér skulum snúa oss til annarra guða (þeirra er þú hefir eigi þekkt), og vér skulum dýrka þá!‘ þá skalt þú ekki hlýða á orð þess spámanns eða draumamanns . . . En spámann þann eða draumamann skal deyða.“ Guð leyfði slíkum mönnum að fara með rangindi til að prófa hollustu fólks síns.
Í stað þess að trúa fullyrðingum draumamanna í blindni er viturlegt af okkur að prófa fullyrðingar þeirra til að láta ekki blekkingameistarann ósýnilega afvegaleiða okkur, en hann „afvegaleiðir alla heimsbyggðina.“ (Opinberunarbókin 12:9) En hvernig er hægt að ganga úr skugga um slíkt svo óyggjandi sé?
Guð hefur gefið okkur ritað orð sitt sem sannleiksmælikvarða. Jesús Kristur sagði um það: „Þitt orð er sannleikur.“ (Jóhannes 17:17) Við erum því hvött í 1. Jóhannesarbréfi 4:1: „Þér elskaðir, trúið ekki sérhverjum anda [„innblásnum orðum,“ NW], heldur reynið andana [„hin innblásnu orð,“ NW], hvort þeir séu frá Guði. Því margir falsspámenn eru farnir út í heiminn.“ Þegar við berum fullyrðingar þeirra, heimspeki og verk vandlega saman við Biblíuna sjáum við að þau stangast á við hana. Aðeins orð Guðs segir okkur hvað sé sannleikur.
Beitir draumamaðurinn, sem kveðst búa yfir sérþekkingu, spásagnalist eða spíritisma í einhverri annarri mynd? Ef svo er fordæmir orð Guðs hann. „Eigi skal nokkur finnast hjá þér . . . er fari með galdur eða spár eða fjölkynngi, eða töframaður eða gjörningamaður eða særingamaður eða spásagnamaður eða sá er leiti frétta af framliðnum. Því að hver sá, er slíkt gjörir, er [Jehóva] andstyggilegur.“ — 5. Mósebók 18:10-12.
Ef hann segist hafa sál sem deyi ekki, er hann að andmæla orði Guðs sem segir skýrt og greinilega: „Sú sálin, sem syndgar, hún skal deyja.“ (Esekíel 18:4) Upphefur hann sjálfan sig og safnar um sig fylgjendum? Matteus 23:12 varar við: „Hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða.“ Og Postulasagan 20:30 segir kristnum mönnum í viðvörunarskyni: „Úr hópi sjálfra yðar munu koma fram menn, sem flytja rangsnúna kenningu til að tæla lærisveinana á eftir sér.“
Er hann talsmaður ofbeldisaðgerða? Þá fordæmir Jakobsbréfið 3:17, 18 hann: „Sú speki, sem að ofan er, hún er í fyrsta lagi hrein, því næst friðsöm, ljúfleg, sáttgjörn, full miskunnar og góðra ávaxta, óhlutdræg, hræsnislaus. En ávexti réttlætisins verður sáð í friði þeim til handa, er frið semja.“ Sækist hann eftir pólitísku valdi eða áhrifum í heiminum? Þá fordæmir orð Guðs hann eindregið og segir: „ Hver sem . . . vill vera vinur heimsins, hann gjörir sig að óvini Guðs.“ Þannig flettir Biblían ofan af lyginni. — Jakobsbréfið 4:4.
Þegar einhvern dreymir dauða ættingja eða vinar stafar það kannski af því að hann hefur haft áhyggjur af þessum einstaklingi. Þótt maðurinn hafi dáið sömu nótt og draumurinn átti sér stað sannar það ekki sjálfkrafa að draumurinn sé spádómlegur. Fyrir hvern slíkan draum, sem virðist rætast, eru hundruð drauma sem ekki rætast.
Enda þótt Guð hafi notað drauma í fortíðinni til að opinbera óorðna atburði og veita fyrirmæli meðan verið var að færa orð hans í letur, þarf hann ekki að gera það núna. Þetta ritaða orð inniheldur allar upplýsingar sem mannkynið þarfnast frá Guði núna, og spádómar þess fjalla um atburði meira en þúsund ár fram í tímann. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Við getum því treyst að draumar okkar séu ekki vísbendingar frá Guði um óorðna atburði heldur nauðsynleg heilastarfsemi til viðhalds heilbrigðum huga.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Líkt og draumur Faraós sýndi hvað í vændum væri, eins varpar orð Guðs ljósi á framtíð okkar.