Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kristin gestrisni í sundruðum heimi

Kristin gestrisni í sundruðum heimi

Kristin gestrisni í sundruðum heimi

„Þess vegna ber oss að taka þvílíka menn að oss, til þess að vér verðum samverkamenn sannleikans.“ — 3. JÓHANNESARBRÉF 8.

1. Hvaða eftirsóknarverða gjöf hefur skaparinn gefið mannkyninu?

 „EKKERT betra er til fyrir manninn undir sólinni en að eta og drekka og vera glaður. Og það fylgi honum í striti hans um ævidagana, sem Guð hefir gefið honum undir sólinni.“ (Prédikarinn 8:15) Með þessum orðum segir hinn hebreski prédikari fortíðarinnar að Jehóva Guð bæði vilji að mennirnir, sem hann skapaði, séu glaðir og hamingjusamir, og eins að hann sjái til þess að þeir geti verið það. Sú löngun að vilja njóta lífsins og vera glaðir virðist hvarvetna hafa verið mönnum sameiginleg alla mannkynssöguna.

2. (a) Hvernig hefur mannkynið misnotað það sem Jehóva ætlaði því? (b) Með hvaða afleiðingum?

2 Við lifum í nautnasinnuðu þjóðfélagi þar sem fólk er niðursokkið í að skemmta sér og njóta lífsins. Flestir eru ‚sérgóðir . . . og elska munaðarlífið meira en Guð.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:1-4) Það er auðvitað gróf afbökun á því sem Jehóva Guð ætlaðist til. Þegar helsta markmið manna er að njóta lífsins eða þegar þeir hugsa um það eitt að fullnægja sjálfum sér, þá njóta þeir ekki raunverulegrar lífsfyllingar og ‚allt verður hégómi og eftirsókn eftir vindi.‘ (Prédikarinn 1:14; 2:11) Þess vegna er heimurinn fullur af einmana og vonsviknu fólki og mörgum þjóðfélagsvandamálum sem af því leiða. (Orðskviðirnir 18:1) Fólk verður tortryggið hvert gagnvart öðru og sundrað eftir kynþáttum, þjóðfélagi og efnahag.

3. Hvernig getum við notið sannrar gleði og lífsfyllingar?

3 Þjóðfélagið væri harla ólíkt ef fólk líkti eftir því hvernig Jehóva kemur fram við aðra — væri góðviljað, örlátt og gestrisið! Hann bendir á að lykill sannrar hamingju sé ekki sá að reyna að fullnægja löngunum sjálfra okkar. Lykillinn er þessi: „Sælla er að gefa en þiggja.“ (Postulasagan 20:35) Til að njóta sannrar gleði og lífsfyllingar verðum við að yfirstíga hindranir og sundrungaráhrif sem gætu verið okkur fjötur um fót. Og við verðum að leitast við að hjálpa þeim sem þjóna Jehóva ásamt okkur. Það er nauðsynlegt að fara eftir heilræðinu: „Þess vegna ber oss að taka þvílíka menn að oss, til þess að vér verðum samverkamenn sannleikans.“ (3. Jóhannesarbréf 8) Gestrisni við verðuga í þeim mæli sem aðstæður okkar leyfa er til hagsbóta á tvo vegu — það er gagnlegt bæði gefendum og þiggjendum. Hverjir eru verðugir okkar á meðal sem við ættum að ‚taka að okkur‘ og sýna gestrisni?

„Að vitja munaðarlausra og ekkna“

4. Hvaða breytingar í fjölskyldugerð sjást nú víða, jafnvel meðal fólks Jehóva?

4 Traustar fjölskyldur og hamingjusöm hjónabönd eru orðin sjaldgæf. Tíðari hjónaskilnaðir og fjölgun ógiftra mæðra um heim allan hefur gerbreytt hefðbundnu fjölskyldumynstri. Þar af leiðandi eru margir, sem gerst hafa vottar Jehóva á síðustu árum, komnir úr sundruðum fjölskyldum, ýmist fráskilið fólk, einstæðir foreldrar eða börn þeirra. Auk þess hefur sannleikurinn, sem Jesús kenndi, valdið sundrung í mörgum fjölskyldum eins og hann sagði fyrir. — Matteus 10:34-37; Lúkas 12:51-53.

5. Hvað sagði Jesús sem getur verið uppörvandi fyrir fólk í sundruðum fjölskyldum?

5 Það yljar okkur um hjartarætur að sjá nýja taka eindregna afstöðu með sannleikanum, og við hughreystum þá oft með hinu hvetjandi loforði Jesú: „Sannlega segi ég yður, að enginn hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, móður eða föður, börn eða akra vegna mín og fagnaðarerindisins, án þess að hann fái hundraðfalt aftur, nú á þessum tíma heimili, bræður og systur, mæður, börn og akra, jafnframt ofsóknum, og í hinum komandi heimi eilíft líf.“ — Markús 10:29, 30.

6. Hvernig getum við orðið ‚munaðarlausum og ekkjum‘ okkar á meðal sem ‚bræður, systur, mæður og börn‘?

6 En hverjir eru þessir ‚bræður og systur og mæður og börn‘? Það eitt að sjá fjölda fólks samankominn í ríkissal, kannski hundrað eða fleiri sem kalla sig bræður og systur, hefur ekki sjálfkrafa í för með sér að manni finnist þetta sínir bræður, systur, mæður og börn. Hugleiddu þetta: Lærisveinninn Jakob minnir okkur á að við verðum að ‚vitja munaðarlausra og ekkna í þrengingu þeirra og varðveita sjálf okkur óflekkuð af heiminum,‘ eigi tilbeiðsla okkar að vera Jehóva þóknanleg. (Jakobsbréfið 1:27) Það þýðir að við megum ekki leyfa fjárhag eða þjóðfélagsstétt að fylla okkur veraldlegu stolti þannig að við sýnum slíkum ‚munaðarleysingjum og ekkjum‘ ekki meðaumkun. Þess í stað verðum við að eiga frumkvæðið að því að vera vingjarnleg og gestrisin við þau.

7. (a) Hver er raunverulegi tilgangurinn með því að vera gestrisin við ‚munaðarlausa og ekkjur‘? (b) Hverjir geta líka átt þátt í að sýna kristilega gestrisni?

7 Gestrisni í garð „munaðarlausra og ekkna“ er ekki alltaf fólgin í því að bæta úr efnislegum skorti þeirra. Einstæðir foreldrar eða trúarlega skipt heimili eru ekki endilega í fjárkröggum. En heilnæmur félagsskapur, heimilislegt andrúmsloft, vinátta við fólk á ýmsum aldri og það að deila andlegum gæðum — allt eru þetta verðmætir þættir lífsins. Með því að hafa hugfast að það er ekki íburður í mat, drykk og skemmtun sem skiptir máli heldur andi kærleika og einingar, þá geta jafnvel ‚munaðarlausir og ekkjur‘ stundum sýnt kristnum bræðrum sínum gestrisni! — Samanber 1. Konungabók 17:8-16.

Eru útlendingar á meðal okkar?

8. Hvaða breyting sést í mörgum söfnuðum votta Jehóva?

8 Við lifum á tímum gríðarlegra fólksflutninga. „Meira en 100 milljónir manna um heim allan hafa ekki þegnrétt í því landi þar sem þeir búa, og 23 milljónir manna eru uppflosnaðar í heimalandi sínu,“ segir tímaritið World Press Review. Það hefur haft í för með sér að víða, einkum í stórborgarsöfnuðum votta Jehóva sem áður voru aðallega af einum kynþætti eða þjóðerni, er nú fólk úr ýmsum heimshornum. Kannski þekkir þú það sjálfur. En hvernig ættum við að líta á þessa „útlendinga“ eða „innflytjendur,“ eins og heimurinn kallar þá, sem hafa kannski annað tungumál en við, ólíka siði og aðrar lífsvenjur?

9. Í hvaða alvarlega tálgryfju gætum við fallið í sambandi við „útlendinga“ og „innflytjendur“ sem koma inn í kristna söfnuðinn?

9 Við megum alls ekki láta einhverja útlendingahræðslu eða -óvild valda því að okkur finnist við á einhvern hátt verðugari þeirra sérréttinda að þekkja sannleikann en fólk frá ókunnu eða svokölluðu heiðnu landi, og okkur ætti ekki að finnast að þessir aðkomumenn séu að ganga á rétt okkar til að nota ríkissalinn eða annað húsnæði. Páll postuli þurfti að minna suma kristna Gyðinga á fyrstu öld, sem voru þannig þenkjandi, á að enginn væri í rauninni verðugur; það væri vegna óverðskuldaðrar góðvildar Guðs sem nokkur maður ætti kost á hjálpræði. (Rómverjabréfið 3:9-12, 23, 24) Við ættum að fagna því að óverðskulduð góðvild Guðs skuli nú ná til svo margra manna sem hafði á einn eða annan veg verið meinað að heyra fagnaðarerindið. (1. Tímóteusarbréf 2:4, NW) Hvernig getum við sýnt að okkur finnist virkilega vænt um þá?

10. Hvernig getum við sýnt að við séum virkilega gestrisin við „útlendinga“ á meðal okkar?

10 Við getum fylgt hvatningu Páls: „Takið því hver annan að yður, eins og Kristur tók yður að sér, Guði til dýrðar.“ (Rómverjabréfið 15:7) Við ættum að hafa hugfast að fólk frá öðrum löndum eða af öðrum uppruna er oft verr statt en við og sýna því þá góðvild og umhyggju sem við höfum tök á. Við ættum að bjóða það velkomið í okkar hóp, koma fram við hvern og einn „sem innborinn mann“ og ‚elska hann eins og sjálf okkur.‘ (3. Mósebók 19:34) Það er kannski ekki auðvelt en okkur tekst það ef við munum ráðlegginguna: „Hegðið yður eigi eftir öld þessari, heldur takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins, svo að þér fáið að reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.“ — Rómverjabréfið 12:2.

Takið þátt í þörfum heilagra

11, 12. Hvaða sérstakt tillit var tekið til vissra þjóna Jehóva (a) í Forn-Ísrael, (b) á fyrstu öldinni?

11 Þroskaðir kristnir menn, sem vinna kappsamlega að andlegri velferð okkar, eru í hópi þeirra sem verðskulda virkilega umhyggju okkar og gestrisni. Jehóva gerði sérstakar ráðstafanir handa prestum og levítum í Forn-Ísrael. (4. Mósebók 18:25-29) Á fyrstu öld voru kristnir menn einnig hvattir til að annast þá sem þjónuðu þeim í sérstökum ábyrgðarstörfum. Frásagan í 3. Jóhannesarbréfi 5-8 gefur okkur innsýn í hin innilegu kærleiksbönd sem ríktu meðal frumkristinna manna.

12 Hinn aldraði Jóhannes postuli mat mjög mikils vinsemd og gestrisni Gajusar í garð bræðra sem sendir voru til að heimsækja söfnuðinn. Gajus þekkti engan þessara bræðra fyrir — ekki heldur Demetríus sem greinilega kom með bréf postulans. En þeir fengu góðar viðtökur því að það var ‚sakir nafnsins [nafns Guðs] sem þeir lögðu af stað.‘ Jóhannes orðaði það þannig: „Þess vegna ber oss að taka þvílíka menn að oss, til þess að vér verðum samverkamenn sannleikans.“ — 3. Jóhannesarbréf 1, 7, 8.

13. Hverjir á meðal okkar verðskulda sérstaklega að við sýnum þeim gestrisni?

13 Innan skipulags Jehóva nú á dögum eru margir sem leggja sig kappsamlega fram í þágu alls bræðrafélagsins. Þeirra á meðal eru farandumsjónarmennirnir sem nota tíma sinn og krafta viku eftir viku í að uppbyggja söfnuðina; trúboðarnir sem kveðja fjölskyldur sínar og vini til að prédika erlendis; þeir sem þjóna á Betelheimilum eða í útibúum Félagsins og bjóða fram þjónustu sína til að styðja hið alþjóðlega prédikunarstarf; og brautryðjendurnir sem verja stærstum hluta tíma síns og krafta til boðunarstarfsins. Allir vinna þeir kappsamlega, ekki til að upphefja sjálfa sig eða hagnast á því heldur vegna kærleika til hins kristna bræðrafélags og Jehóva. Þeir eru verðugir eftirbreytni vegna þess að þeir þjóna af allri sálu, og þeir verðskulda að við sýnum þeim gestrisni.

14. (a) Hvernig verðum við betri kristnir menn þegar við sýnum trúföstum þjónum Guðs gestrisni? (b) Hvers vegna sagði Jesús að María hefði valið „góða hlutskiptið“?

14 Þegar við ‚tökum þvílíka menn að oss‘ og sýnum þeim gestrisni verðum við „samverkamenn sannleikans“ eins og Jóhannes postuli benti á. Í vissum skilningi verðum við betri kristnir menn fyrir vikið vegna þess að kristin verk fela í sér að gera trúbræðrum gott. (Orðskviðirnir 3:27, 28; 1. Jóhannesarbréf 3:18) Við njótum líka ýmissar annarrar umbunar. Þegar María og Marta tóku á móti Jesú á heimili sínu vildi Marta vera góður gestgjafi og útbúa ‚margt‘ handa honum. María sýndi gestrisni með öðrum hætti. Hún „settist . . . við fætur Drottins og hlýddi á orð hans“ og Jesús hrósaði henni fyrir að hafa valið „góða hlutskiptið.“ (Lúkas 10:38-42) Þegar við eyðum kvöldi með vinum, sem eiga margra ára reynslu að baki, er mesta ánægjan oft fólgin í því að spjalla við þá. — Rómverjabréfið 1:11, 12.

Við sérstök tækifæri

15. Hvaða sérstök tækifæri geta verið ánægjustundir fyrir fólk Jehóva?

15 Enda þótt sannkristnir menn fylgi ekki vinsælum siðvenjum eða haldi upp á veraldlega helgidaga eða hátíðir koma þeir stundum saman til að njóta félagsskapar hver annars. Til dæmis var Jesús viðstaddur brúðkaupsveislu í Kana og stuðlaði að ánægjulegri veislu með því að vinna fyrsta kraftaverkið sitt þar. (Jóhannes 2:1-11) Eins er það núna að fólk Jehóva á ánægjustundir saman við svipuð tækifæri, og viðeigandi fjör og glaðværð getur gert slíka stund mjög ánægjulega. En hvað kallast viðeigandi?

16. Hvaða viðmiðunarreglur höfum við um rétta hegðun jafnvel þegar við gerum okkur glaðan dag?

16 Af biblíunámi okkar lærum við hvað sé viðeigandi hegðun fyrir kristna menn og förum eftir því öllum stundum. (Rómverjabréfið 13:12-14; Galatabréfið 5:19-21; Efesusbréfið 5:3-5) Samkvæmi, hvort heldur í tengslum við brúðkaup eða af einhverju öðru tilefni, heimila okkur ekki að láta kristna staðla lönd og leið eða gera eitthvað sem við myndum ekki venjulega gera; og okkur er ekki heldur skylt að fylgja öllum siðum þess lands sem við búum í. Margir slíkir siðir eru byggðir á falstrúariðkunum eða hjátrú, og aðrir tengjast hegðun sem er greinilega ósæmandi kristnum mönnum. — 1. Pétursbréf 4:3, 4.

17. (a) Hvað sýnir að brúðkaupið í Kana var vel skipulagt og undir góðri umsjón? (b) Hvað bendir til að Jesús hafi haft velþóknun á þessari veislu?

17 Þegar við lesum Jóhannes 2:1-11 er ekki vandséð að mikið var lagt í veisluna og gestir margir. En Jesú og lærisveinum hans var „boðið“ til brúðkaupsins; þeir voru ekki boðflennur enda þótt sumir þeirra að minnsta kosti hafi líklega verið skyldir gestgjafanum. Við tökum líka eftir að þarna voru ‚þjónar‘ og „veislustjóri“ sem gaf fyrirmæli um hvað skyldi borið fram eða gert. Allt bendir þetta til þess að veislan hafi verið vel skipulögð og umsjón með ágætum. Frásögunni lýkur með því að segja að Jesús hafi ‚opinberað dýrð sína‘ með því sem hann gerði í veislunni. Hefði hann valið þetta tækifæri til þess ef þetta hefði verið hávær og taumlaus svallveisla? Örugglega ekki.

18. Hvað þurfum við að hugsa alvarlega um í sambandi við öll samkvæmi?

18 Hvað þá um sérstök tækifæri þar sem við erum í hlutverki gestgjafans? Við viljum hafa hugfast að tilgangurinn með því að sýna öðrum gestrisni er sá að við getum öll ‚orðið samverkamenn sannleikans.‘ Það er því ekki nóg að kalla boðið „vottasamkvæmi.“ Spyrja mætti hvort það sé í reynd til vitnisburðar um hverjir við séum og hvað við trúum á. Við ættum aldrei að líta á slíka viðburði sem tækifæri til að sjá hve langt við getum gengið í því að líkjast heiminum, í því að fullnægja „fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti.“ (1. Jóhannesarbréf 2:15, 16) Þess í stað verða þessir viðburðir að endurspegla með viðeigandi hætti hlutverk okkar sem vottar Jehóva, og við ættum að ganga úr skugga um að það sem við gerum heiðri og vegsami Jehóva. — Matteus 5:16; 1. Korintubréf 10:31-33.

‚Verið gestrisnir án möglunar‘

19. Hvers vegna þurfum við að vera „gestrisnir hver við annan án möglunar“?

19 Heimsástandið versnar og fólk verður sundraðra þannig að við verðum að gera allt sem við getum til að styrkja hin nánu bönd sem tengja sannkristna menn. (Kólossubréfið 3:14) Til að svo megi verða þurfum við að hafa „brennandi kærleika hver til annars,“ eins og Pétur hvetur okkur. Síðan bætir hann við: „Verið gestrisnir hver við annan án möglunar.“ (1. Pétursbréf 4:7-9) Erum við fús til að eiga frumkvæðið að því að vera gestrisin við bræður okkar, að leggja okkur fram um að sýna góðvild og vera hjálpsöm? Eða möglum við þegar slík tækifæri bjóðast? Ef við gerum það spillum við gleðinni sem við gætum haft af því og missum af ánægjunni sem fylgir því að gera gott. — Orðskviðirnir 3:27; Postulasagan 20:35.

20. Hvaða blessun bíður okkar ef við stundum gestrisni í sundruðum heimi nútímans?

20 Náin samvinna við trúbræður okkar ásamt góðvild og gestrisni hver við annan hefur takmarkalausa blessun í för með sér. (Matteus 10:40-42) Jehóva heitir að „tjalda yfir þá“ sem slíkt gera og segir: „Eigi mun þá framar hungra og eigi heldur framar þyrsta.“ Að gista í tjaldi Jehóva merkir að njóta verndar hans og gestrisni. (Opinberunarbókin 7:15, 16; Jesaja 25:6) Já, í náinni framtíð eigum við í vændum að njóta gestrisni Jehóva að eilífu. — Sálmur 27:4; 61:4, 5.

Geturðu svarað?

◻ Hvað má okkur ekki yfirsjást ef við viljum njóta sannrar gleði og lífsfyllingar?

◻ Hverjir eru ‚munaðarleysingjar og ekkjur‘ og hvernig ættum við að „vitja“ þeirra?

◻ Hvernig ættum við að líta á „útlendinga“ og „innflytjendur“ á meðal okkar?

◻ Hverjir verðskulda sérstaka athygli nú á dögum?

◻ Hvernig ætti andi sannrar gestrisni að ríkja þegar við gerum okkur glaðan dag?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 17]

Þegar við gerum okkur glaðan dag getum við verið gestrisin við útlendinga, föðurlaus börn, þá sem þjóna í fullu starfi og aðra gesti.