Megi Jehóva muna okkur það til góðs
Megi Jehóva muna okkur það til góðs
„Mundu mér . . . þetta, Guð minn . . . Mundu mér það, Guð minn, til góðs.“ — NEHEMÍABÓK 13:22, 31.
1. Hvað hjálpar þeim sem eru vígðir Guði að standa honum reikning með sóma?
ÞJÓNAR Jehóva Guðs hafa alla þá hjálp sem þeir þurfa til að standa honum reikning með sóma. Hvers vegna? Vegna þess að þeir tilheyra jarðnesku skipulagi hans og eiga náið samband við hann. Hann hefur opinberað þeim tilgang sinn, hjálpað þeim og veitt þeim andlegt innsæi með heilögum anda sínum. (Sálmur 51:13; 119: 105; 1. Korintubréf 2:10-13) Í ljósi þessara sérstöku aðstæðna hvetur Jehóva jarðneska þjóna sína ástúðlega til að standa honum reikningsskap af sjálfum sér, bæði fyrir það sem þeir eru og eins það sem þeir áorka í krafti hans og með hjálp heilags anda hans.
2. (a) Á hvaða vegu stóð Nehemía Guði reikning með sóma? (b) Með hvaða bæn lauk Nehemía biblíubókinni sem við hann er kennd?
2 Nehemía, byrlari Artaxerxesar (Longimanus) Persakonungs, var maður sem stóð Guði reikning með sóma. (Nehemíabók 2:1) Nehemía varð landstjóri Gyðinga og endurreisti múra Jerúsalem andspænis mikilli andstöðu og hættum. Með brennandi áhuga á sannri tilbeiðslu framfylgdi hann lögmáli Guðs og sýndi undirokuðum umhyggju. (Nehemíabók 5:14-19) Hann hvatti levítana til að hreinsa sig reglulega, gæta borgarhliðanna og helga hvíldardaginn. Hann gat því beðið: „Mundu mér og þetta, Guð minn, og þyrm mér af mikilli miskunn þinni.“ Hann lauk guðinnblásinni bók sinni líka á viðeigandi hátt með bæninni: „Mundu mér það, Guð minn, til góðs.“ — Nehemíabók 13:22, 31.
3. (a) Hvernig lýsir þú manni sem gerir gott? (b) Hvaða spurninga gætum við spurt okkur eftir að hafa hugleitt feril Nehemía?
3 Sá sem gerir gott er dyggðugur og vinnur að heill annarra. Nehemía var slíkur maður. Hann bar lotningarfullan ótta af Guði og hafði brennandi áhuga á sannri tilbeiðslu. Hann var líka þakklátur fyrir sérréttindi sín í þjónustu Jehóva og stóð honum reikning með sóma. Er við íhugum feril hans getum við spurt: ‚Hvernig lít ég á þau sérréttindi og þá ábyrgð sem Guð hefur gefið mér? Hvernig reikning stend ég Jehóva Guði og Jesú Kristi fyrir sjálfan mig?
Þekking felur í sér ábyrgð
4. Hvaða verkefni fól Jesús fylgjendum sínum og hvað gerðu þeir sem ‚hneigðust til eilífs lífs‘?
4 Jesús fékk fylgjendum sínum þetta verkefni: „Farið . . . og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá . . . og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 28:19, 20) Það átti að gera menn að lærisveinum með því að kenna þeim. Þeir sem þægju kennsluna og ‚hneigðust til eilífs lífs‘ myndu láta skírast eins og Jesús. (Postulasagan 13:48, NW; Markús 1:9-11) Löngun þeirra að halda allt sem hann hafði boðið þeim átti að koma frá hjartanu. Þeir myndu afla sér nákvæmrar þekkingar á orði Guðs, fara eftir því og síðan vígjast honum. — Jóhannes 17:3.
5, 6. Hvernig ber okkur að skilja Jakobsbréfið 4:17? Lýstu heimfærslunni með dæmi.
5 Því dýpri sem biblíuþekking okkar er, þeim mun sterkari er trúargrundvöllur okkar. En jafnframt eykst ábyrgð okkar gagnvart Guði. Jakobsbréfið 4:17 segir: „Hver sem því hefur vit á gott að gjöra, en gjörir það ekki, hann drýgir synd.“ Þessi orð eru greinilega ályktun lærisveinsins Jakobs af því sem hann sagði framar í bréfinu um stærilæti í stað þess að reiða sig algerlega á Guð. Ef maður veit að hann getur ekkert varanlegt gert án hjálpar Jehóva en hegðar sér ekki samkvæmt því, þá er það synd. En orð Jakobs geta líka átt við vanrækslusyndir. Í dæmisögu Jesú um sauðina og hafrana eru hafrarnir dæmdir, ekki fyrir vond verk heldur fyrir að hjálpa ekki bræðrum Krists. — Matteus 25:41-46.
6 Maður nokkur, sem vottar Jehóva voru að kenna í biblíunámi, tók litlum andlegum framförum, greinilega af því að hann hætti ekki reykingum þótt hann vissi að hann ætti að gera það. Öldungur bað hann að lesa Jakobsbréfið 4:17. Eftir að hafa sagt nokkur orð um gildi þessa ritningarstaðar sagði öldungurinn: „Þótt þú sért ekki skírður þarftu að standa Guði reikningsskap gerða þinna og taka fulla ábyrgð á ákvörðun þinni.“ Sem betur fór tók maðurinn það til sín, hætti reykingum og var bráðlega hæfur til að láta skírast til tákns um vígslu sína til Jehóva Guðs.
Ábyrgð á þjónustu okkar
7. Nefndu eina leið til að sýna þakklæti fyrir ‚þekkinguna á Guði.‘
7 Við ættum að þrá innilega að þóknast skapara okkar. Ein leið til að sýna þakklæti fyrir ‚þekkinguna á Guði,‘ er sú að framfylgja fyrirmælunum um að gera menn að lærisveinum sonar hans, Jesú Krists. Það er líka leið til að sýna kærleika okkar til Guðs og náungans. (Orðskviðirnir 2:1-5; Matteus 22:35-40) Já, þekking okkar á Guði gerir okkur ábyrg frammi fyrir honum, og við þurfum að líta á aðra menn sem mögulega lærisveina.
8. Hvers vegna getum við sagt að Páll hafi talið sig þurfa að standa Guði reikning þjónustu sinnar?
8 Páll postuli vissi að það hefði hjálpræði í för með sér að taka við fagnaðarerindinu af öllu hjarta og hlýða því, en að höfnun gæti leitt til tortímingar. (2. Þessaloníkubréf 1:6-8) Honum fannst hann því þurfa að standa Jehóva reikningsskap þjónustu sinnar. Reyndar mátu Páll og félagar hans þjónustuna svo mikils að þeir forðuðust vandlega að láta einu sinni líta svo út sem þeir hefðu fjárhagslegan ávinning af henni. Og hjarta Páls knúði hann til að segja: „Þótt ég sé að boða fagnaðarerindið, þá er það mér ekki neitt hrósunarefni, því að skyldukvöð hvílir á mér. Já, vei mér, ef ég boðaði ekki fagnaðarerindið.“ — 1. Korintubréf 9:11-16.
9. Hvaða mikilvæga skuld eiga allir kristnir menn að gjalda?
9 Þar sem við erum vígðir þjónar Jehóva ‚hvílir á okkur skyldukvöð að boða fagnaðarerindið.‘ Það er verkefni okkar að prédika boðskapinn um Guðsríki. Við tókum þá ábyrgð á okkur þegar við vígðum okkur Guði. (Samanber Lúkas 9:23, 24.) Og við eigum skuld að gjalda. Páll sagði: „Ég er í skuld bæði við Grikki og útlendinga, vitra og fávísa. Svo er ég og fyrir mitt leyti fús til að boða fagnaðarerindið, einnig yður, sem eruð í Róm.“ (Rómverjabréfið 1:14, 15) Páll var í skuld af því að hann vissi að það var skylda hans að prédika þannig að fólk gæti heyrt fagnaðarerindið og frelsast. (1. Tímóteusarbréf 1:12-16; 2:3, 4) Þess vegna lagði hann hart að sér til að gera verkefni sínu skil og gjalda skuld sína við aðra menn. Við sem erum kristin eigum einnig slíka skuld að gjalda. Prédikun Guðsríkis er þar að auki helsta leiðin til að sýna kærleika til Guðs, sonar hans og náungans. — Lúkas 10:25-28.
10. Hvernig hafa sumir fært út kvíarnar í þjónustunni?
10 Ein leið til að vera Guði þóknanleg er að nota hæfileika okkar til að færa út kvíarnar í þjónustunni. Tökum dæmi: Á síðustu árum hefur fólk af mörgum þjóðernum streymt til Bretlands. Til að koma fagnaðarerindinu til slíks fólks eru yfir 800 brautryðjendur (prédikarar Guðsríkis í fullu starfi) og hundruð annarra votta að læra önnur tungumál. Það hefur haft örvandi áhrif á starfið. Brautryðjandi, sem kennir kínversku, segir: „Ég bjóst aldrei við að eiga eftir að kenna öðrum vottum móðurmál mitt til að þeir gætu komið sannleikanum á framfæri. Ég hef ómælda ánægju af því.“ Getur þú fært út kvíarnar í þjónustu þinni á svipaðan hátt?
11. Hvaða árangri skilaði óformlegur vitnisburður í einu tilviki?
11 Líklega myndum við öll gera hvað sem við gætum til að bjarga manni frá drukknun. Þjónar Jehóva eru á sama hátt ákafir að nota aðstöðu sína og hæfileika til að bera vitni við hvert tækifæri. Vottur sat nýverið hjá konu í strætisvagni og talaði við hana um Biblíuna. Konan var yfir sig hrifin af því sem hún heyrði og spurði margra spurninga. Þegar votturinn, sem var kona, gerði sig líklega til að yfirgefa vagninn sárbændi konan hana um að koma heim með sér í staðinn, því að hún hefði enn margar spurningar. Votturinn féllst á það. Afleiðingin varð sú að biblíunám var hafið, og hálfu ári síðar varð konan óskíður boðberi Guðsríkis. Innan skamms var hún sjálf komin með sex heimabiblíunám. Hvílík umbun fyrir að nota hæfileika sína í þjónustu Guðsríkis!
12. Hvernig geta hæfileikar okkar sem þjóna orðsins nýst vel í boðunarstarfinu?
12 Oft getum við nýtt hæfileika okkar með góðum árangri í boðunarstarfinu með því að nota rit eins og bókina Þekking sem leiðir til eilífs lífs. Í apríl 1996 hafði ritnefnd hins stjórnandi ráðs votta Jehóva samþykkt útgáfu Þekkingarbókarinnar á meira en 140 tungumálum, og heildarupplagið var þá komið upp í 30.500.000 eintök á 111 tungumálum. Þessi bók var samin með það að markmiði að hjálpa biblíunemendum að læra nóg um orð Guðs og tilgang til að vígjast Jehóva og láta skírast. Þar eð boðberar Guðsríkis hafa ekki heimabiblíunám með sama nemanda í mörg ár geta þeir kennt fleirum eða aukið hlutdeild sína í starfinu hús úr húsi og öðrum greinum þjónustunnar. (Postulasagan 5:42; 20:20, 21) Þeir vekja athygli á viðvörunum Guðs af því að þeim er ljóst að þeir þurfa að standa honum reikning. (Esekíel 33:7-9) En fyrst og fremst er þeim hugleikið að heiðra Jehóva og hjálpa eins mörgum og hægt er að kynnast fagnaðarerindinu á þeim stutta tíma sem enn er eftir af þessu illa heimskerfi.
Fjölskyldur sem standa Guði reikning með sóma
13. Hvers vegna ættu guðræknar fjölskyldur að hafa reglulegt biblíunám?
13 Hver maður og hver fjölskylda, sem tekur við sannri kristni, þarf að standa Guði reikning og ætti því að „sækja fram“ til þroska og verða ‚stöðug í trúnni.‘ (Hebreabréfið 6:1-3; 1. Pétursbréf 5:8, 9) Til dæmis þurfa þeir sem hafa numið Þekkingarbókina og látið skírast að auka biblíuþekkingu sína með því að sækja samkomur að staðaldri og lesa Biblíuna og biblíutengd rit. Guðræknar fjölskyldur ættu líka að hafa reglulegt fjölskyldunám því að það er mikilvæg leið til að ‚vaka, standa stöðugur í trúnni og vera karlmannlegur og styrkur.‘ (1. Korintubréf 16:13) Ef þú ert fjölskylduhöfuð berð þú sérstaka ábyrgð frammi fyrir Guði á því að fjölskylda þín sé andlega vel nærð. Á sama hátt og næringarrík líkamleg fæða stuðlar að heilbrigði, eins er ríkuleg andleg fæða nauðsynleg að staðaldri til að þú og fjölskyldan séuð ‚heilbrigð í trúnni.‘ — Títusarbréfið 1:13.
14. Hvað hlaust af vitnisburði vel fræddrar Ísraelsstúlku?
14 Ef börn eru á heimilinu man Guð ykkur það til góðs ef þið veitið þeim góða andlega fræðslu. Slík kennsla er gagnleg fyrir þau, alveg eins og litlu Ísraelsstúlkuna sem Sýrlendingar tóku á dögum Elísa spámanns Guðs. Hún varð ambátt eiginkonu sýrlenska hershöfðingjans Naamans sem var holdsveikur. Þótt ung væri sagði stúlkan húsmóður sinni: „Ég vildi óska að húsbóndi minn væri kominn til spámannsins í Samaríu. Hann mundi losa hann við líkþrána.“ Sökum vitnisburðar hennar hélt Naaman til Ísraels og fór að lokum eftir fyrirmælum Elísa um að baða sig sjö sinnum í Jórdan, og hreinsaðist af holdsveikinni. Og Naaman gerðist dýrkandi Jehóva. Það hlýtur að hafa glatt litlu stúlkuna mjög! — 2. Konungabók 5:1-3, 13-19.
15. Hvers vegna er mikilvægt fyrir foreldra að veita börnum sínum gott andlegt uppeldi? Lýstu með dæmi.
15 Það er ekki hlaupið að því að ala upp guðhrædd börn í þessum siðspillta heimi sem er á valdi Satans. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Allt frá bernsku kenndi Lóis, amma Tímóteusar, og Evnike, móðir hans, honum Ritninguna með góðum árangri. (2. Tímóteusarbréf 1:5; 3:14, 15) Fræddu börn þín um Biblíuna, taktu þau reglulega með þér á kristnar samkomur og taktu þau líka með þér í boðunarstarfið. Allt er þetta kennsla og þjálfun sem þú þarft að standa Guði reikningsskap fyrir. Kristin kona í Wales, nú hálfníræð, minnist þess að snemma á þriðja áratugnum tók faðir hennar hana með sér fótgangandi 10 kílómetra leið yfir fjall (20 kílómetra fram og til baka) til að dreifa smáritum um Biblíuna meðal fólks í þorpunum í næsta dal. „Það var á þessum gönguferðum sem faðir minn innrætti mér sannleikann,“ segir hún þakklát.
Öldungar standa Guði reikning — hvernig?
16, 17. (a) Hvaða sérréttinda nutu andlega þroskaðir öldungar í Forn-Ísrael? (b) Hvers vegna er meira krafist af kristnum nútímaöldungum en öldungum í Forn-Ísrael?
16 „Gráar hærur eru heiðurskóróna, á vegi réttlætis öðlast menn hana,“ segir spekingurinn Salómon. (Orðskviðirnir 16:31) En það þarf meira en gráar hærur til að gera mann hæfan fyrir ábyrgðarstörf í söfnuði fólks Guðs. Andlega þroskaðir öldungar í Forn-Ísrael þjónuðu sem dómarar og umsjónarmenn til að halda uppi réttlæti, friði, röð og reglu og andlegu heilbrigði. (5. Mósebók 16:18-20) Enda þótt hið sama gildi um kristna söfnuðinn er meira krafist af öldungum núna er endalok heimskerfisins nálgast. Hvers vegna?
17 Ísraelsmenn voru „eignarlýður“ Guðs sem hann frelsaði úr Forn-Egyptalandi. Þar eð þeir fengu lögmálið fyrir atbeina meðalgangarans Móse fæddust afkomendur þeirra inn í vígða þjóð og þekktu tilskipanir Jehóva. (5. Mósebók 7:6, 11) En enginn fæðist inn í slíka vígða þjóð nú á dögum, og tiltölulega fáir alast upp í guðræknum fjölskyldum sem eru vel heima í sannleika Ritningarinnar. Þeir sem eru nýlega byrjaðir að ‚lifa í sannleikanum‘ þarfnast sérstaklega leiðbeininga um hvernig eigi að fara eftir meginreglum Biblíunnar. (3. Jóhannesarbréf 4) Það hvílir því mikil ábyrgð á herðum trúfastra öldunga sem halda sér við „heilnæmu orðin“ og eru fólki Jehóva til aðstoðar. — 2. Tímóteusarbréf 1:13, 14.
18. Hvers konar aðstoð verða safnaðaröldungar að vera tilbúnir að veita og hvers vegna?
18 Barn, sem er að læra að ganga, hrasar og dettur. Það er óöruggt og þarfnast hjálpar og hughreystingar foreldra sinna. Sá sem er vígður Jehóva getur líka hrasað eða fallið andlega. Jafnvel Páll postuli átti í baráttu við að gera það var rétt eða gott í augum Guðs. (Rómverjabréfið 7:21-25) Hirðar hjarðar Guðs þurfa að styðja og styrkja kristna menn sem stigið hafa víxlspor en iðrast einlæglega. Þegar öldungar heimsóttu vígða konu, er orðið höfðu á alvarleg mistök, sagði hún í áheyrn eiginmanns síns sem var einnig í trúnni: „Ég veit að þið gerið mig ræka!“ En svo brast hún í grát þegar hún heyrði að öldungarnir vildu vita hvaða hjálp þyrfti að veita til að hressa fjölskylduna andlega. Öldungunum var ljóst að þeir yrðu að standa Guði reikningsskap og voru meira en fúsir til að aðstoða iðrunarfulla trúsystur sína. — Hebreabréfið 13:17.
Höldum áfram að standa Guði reikning með sóma
19. Hvernig getum við haldið áfram að standa Guði reikning með sóma?
19 Safnaðaröldungar og allir aðrir þjónar Guðs þurfa að halda áfram að standa honum reikning með sóma. Við getum það ef við höldum okkur við orð Guðs og gerum vilja hans. (Orðskviðirnir 3:5, 6; Rómverjabréfið 12:1, 2, 9) Einkum viljum við gera trúbræðrum okkar gott. (Galatabréfið 6:10) En uppskeran er enn mikil og verkamennirnir fáir. (Matteus 9:37, 38) Við skulum því gera öðrum gott með því að boða Guðsríki kostgæfilega. Jehóva man okkur það til góðs ef við framfylgjum vígsluheiti okkar, gerum vilja hans og boðum fagnaðarerindið með trúfesti.
20. Hvað lærum við af lífsferli Nehemía?
20 Við skulum því halda áfram að vera önnum kafin í verki Drottins. (1. Korintubréf 15:58) Og við ættum að hugleiða fordæmi Nehemía sem endurreisti múra Jerúsalem, framfylgdi lögmáli Guðs og efldi sanna tilbeiðslu kostgæfilega. Hann bað þess að Jehóva Guð minntist hans fyrir hið góða sem hann hefði gert. Megir þú reynast jafndyggur þjónn Jehóva og megi hann muna þér það til góðs.
Hvernig svarar þú?
◻ Hvaða fordæmi gaf Nehemía?
◻ Hvers vegna hefur þekking í för með sér ábyrgð gagnvart Guði?
◻ Hvernig getum við staðið Jehóva reikning af boðunarstarfi okkar með sóma?
◻ Hvað geta fjölskyldur gert til að standa Guði reikning með sóma?
◻ Hvernig standa kristnir öldungar Guði reikningsskap?
[Spurningar]
[Myndir á blaðsíðu 26]
Líkt og Páll getum við staðið Guði reikning með sóma sem boðberar Guðsríkis.
[Mynd á blaðsíðu 27]
Eru börn þín sterk í trúnni eins og litla Ísraelsstúlkan á heimili Naamans?