Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Eiginmaður og öldungur — Að gegna báðum skyldum

Eiginmaður og öldungur — Að gegna báðum skyldum

Eiginmaður og öldungur — Að gegna báðum skyldum

‚Umsjónarmaður á að vera einnar konu eiginmaður.‘ — 1. TÍMÓTEUSARBRÉF 3:2, NW.

1, 2. Hvers vegna er ókvæniskvöð presta óbiblíuleg?

 KRISTNUM mönnum á fyrstu öld var annt um að halda jafnvægi milli ýmissa skyldna sinna. Þegar Páll postuli sagði að einhleypur kristinn maður ‚gerði betur‘ en kvæntur, átti hann þá við að slíkur maður væri hæfari en hinn til að gegna umsjónarstarfi í kristna söfnuðinum? Var hann að gera þá kröfu að öldungar væru einhleypir? (1. Korintubréf 7:38) Einhleypis eða ókvænis er krafist af klerkum kaþólskra. En á ókvæni presta sér biblíulega forsendu? Rétttrúnaðarkirkjurnar leyfa prestum að kvænast en ekki biskupum. Samræmist það Biblíunni?

2 Margir hinna 12 postula Krists, sem voru undirstaða kristna safnaðarins, voru kvæntir menn. (Matteus 8:14, 15; Efesusbréfið 2:20) Páll skrifaði: „Höfum vér ekki rétt til að ferðast um með kristna eiginkonu, alveg eins og hinir postularnir og bræður Drottins og Kefas [Pétur]?“ (1. Korintubréf 9:5) Alfræðibókin New Catholic Encyclopedia viðurkennir að „ókvænislögin séu kirkjuleg að uppruna“ og að „ókvænisskylda hafi ekki verið lögð á presta Nt [Nýja testamentisins].“ Vottar Jehóva fylgja fyrirmynd Ritningarinnar en ekki kirkjulögum. — 1. Tímóteusarbréf 4:1-3.

Öldungsstarf og hjónaband fara saman

3. Hvaða biblíulegar staðreyndir sýna að kristnir umsjónarmenn geta verið kvæntir?

3 Páll krafðist þess alls ekki að menn skipaðir til umsjónarstarfa væru ókvæntir heldur skrifaði Títusi: „Ég lét þig eftir á Krít, til þess að þú færðir í lag það, sem ógjört var, og skipaðir öldunga [á grísku presbyʹteros] í hverri borg, svo sem ég lagði fyrir þig. Öldungur á að vera óaðfinnanlegur, einkvæntur, á að eiga trúuð börn, sem eigi eru sökuð um gjálífi eða óhlýðni. Því að biskup [„umsjónarmaður,“ NW; á grísku: epiʹskopos sem orðið „biskup“ er dregið af] á að vera óaðfinnanlegur, þar sem hann er ráðsmaður Guðs.“ — Títusarbréfið 1:5-7.

4. (a) Hvernig vitum við að þess er ekki krafist að kristnir umsjónarmenn séu kvæntir? (b) Hvaða kosti hefur það fyrir öldung að vera einhleypur?

4 Biblían krefst þess hins vegar ekki að öldungur sé kvæntur. Jesús var einhleypur. (Efesusbréfið 1:22) Páll var framúrskarandi umsjónarmaður í kristna söfnuðinum á fyrstu öld og var þá ókvæntur maður. (1. Korintubréf 7:7-9) Margir einhleypir kristnir menn nú á dögum þjóna sem öldungar. Einhleypi þeirra veitir þeim sennilega rýmri tíma til að gegna umsjónarskyldum sínum.

‚Hinn kvænti er tvískiptur‘

5. Hvaða biblíulega staðreynd ættu kvæntir bræður að viðurkenna?

5 Þegar kristinn maður kvænist ætti hann að gera sér ljóst að hann er að taka á sig nýjar skyldur sem kosta hann tíma og athygli. Biblían segir: „Hinn ókvænti ber fyrir brjósti það, sem Drottins er, hversu hann megi Drottni þóknast. En hinn kvænti ber fyrir brjósti það, sem heimsins er, hversu hann megi þóknast konunni og er tvískiptur.“ (1. Korintubréf 7:32-34) Í hvaða skilningi er hann tvískiptur?

6, 7. (a) Á hvaða hátt er kvæntur maður „tvískiptur“? (b) Hvað ráðleggur Páll kvæntum kristnum mönnum? (c) Hvaða áhrif gæti það haft á ákvörðun manns í sambandi við vinnu?

6 Til dæmis afsalar kvæntur maður sér valdi yfir líkama sínum. Páll tók það skýrt fram: „Ekki hefur konan vald yfir eigin líkama, heldur maðurinn. Sömuleiðis hefur og maðurinn ekki heldur vald yfir eigin líkama, heldur konan.“ (1. Korintubréf 7:4) Sumum finnst þetta kannski skipta litlu máli er þeir hyggja á hjónaband því að kynlífið verði ekki aðalatriði hjónabandsins. En þar eð Ritningin krefst skírlífis fyrir hjónaband vita kristnir menn í rauninni ekki hverjar kynferðislegar þarfir væntanlegs maka þeirra eru.

7 Páll bendir á að jafnvel hjón, sem ‚hyggja á það sem andans er,‘ verði að taka tillit til kynferðislegra þarfa maka síns. Hann ráðlagði kristnum mönnum í Korintu: „Maðurinn gæti skyldu sinnar gagnvart konunni og sömuleiðis konan gagnvart manninum. Haldið yður eigi hvort frá öðru, nema þá eftir samkomulagi um stundarsakir, til þess að þér getið haft næði til bænahalds, og takið svo saman aftur, til þess að Satan freisti yðar ekki vegna ístöðuleysis yðar.“ (Rómverjabréfið 8:5; 1. Korintubréf 7:3, 5) Því miður hafa hjúskaparbrot átt sér stað þegar þessu ráði hefur ekki verið fylgt. Þess vegna ætti kvæntur kristinn maður að hugsa sinn gang vel áður en hann þiggur starf sem útheimtir að hann sé fjarri konu sinni um langt skeið. Hann hefur ekki lengur sama athafnafrelsi og hann hafði meðan hann var einhleypur.

8, 9. (a) Hvað átti Páll við þegar hann sagði að giftir kristnir menn ‚bæru fyrir brjósti það sem heimsins er‘? (b) Hvað ætti gift kristið fólk að bera fyrir brjósti?

8 Í hvaða skilningi er hægt að segja að kvæntir kristnir menn, þeirra á meðal öldungar, ‚beri fyrir brjósti það sem heimsins [koʹsmos] er‘? (1. Korintubréf 7:33) Augljóst er að Páll var ekki að tala um hið illa í þessum heimi sem allir sannkristnir menn eiga að forðast. (2. Pétursbréf 1:4; 2:18-20; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Orð Guðs fyrirskipar okkur að „afneita óguðleik og veraldlegum [kosmikosʹ] girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum.“ — Títusarbréfið 2:12.

9 Gift kristið fólk ‚ber því fyrir brjósti það sem heimsins er‘ í þeim skilningi að það lætur sér réttilega umhugað um veraldlega hluti og mál sem tilheyra eðlilegu hjónalífi. Þar má nefna húsnæði, fæði, klæði og afþreyingu — að ekki sé talað um ótal önnur áhyggjuefni ef þau eiga börn. En jafnvel barnlaus hjón verða bæði að leggja sig fram um að „þóknast“ hvort öðru, eigi hjónabandið að vera farsælt. Það er sérstaklega umhugsunarvert fyrir kristna öldunga svo þeir geti gegnt skyldum sínum með jafnvægi.

Góðir eiginmenn og einnig góðir öldungar

10. Hvað ættu bræður og utansafnaðarmenn að geta séð í fari kristins manns til að hann sé hæfur sem öldungur?

10 Enda þótt þess sé ekki krafist að öldungar séu kvæntir ætti kvæntur kristinn karlmaður vissulega að sýna þess merki að hann leitist við að vera góður, ástríkur eiginmaður og fari vel með forystuhlutverkið, áður en mælt er með honum til öldungsstarfs. (Efesusbréfið 5:23-25, 28-31) Páll skrifaði: „Sækist einhver eftir biskupsstarfi [„umsjónarstarfi,“ NW], þá girnist hann fagurt hlutverk. Biskup á að vera óaðfinnanlegur, einnar konu eiginmaður.“ (1. Tímóteusarbréf 3:1, 2, neðanmáls) Ljóst ætti að vera að öldungur sé að gera sitt ítrasta til að vera góður eiginmaður, hvort sem eiginkona hans er í trúnni eða ekki. Jafnvel utansafnaðarmenn ættu að geta séð að hann annast eiginkonu sína vel og rækir aðrar skyldur með ágætum. Páll bætti við: „Hann á líka að hafa góðan orðstír hjá þeim, sem standa fyrir utan, til þess að hann verði eigi fyrir álasi og lendi í tálsnöru djöfulsins.“ — 1. Tímóteusarbréf 3:7.

11. Hvað felst í orðunum „einnar konu eiginmaður“ og hvaða aðgát ættu öldungar því að sýna?

11 Orðin „einnar konu eiginmaður“ útiloka auðvitað fjölkvæni, en þau gefa líka í skyn tryggð í hjónabandi. (Hebreabréfið 13:4) Öldungar þurfa að vera sérstaklega gætnir þegar þeir aðstoða systur í söfnuðinum. Þeir ættu ekki að vera einir þegar þeir heimsækja systur sem þarfnast ráðlegginga eða hughreystingar. Rétt er af þeim að hafa með sér annan öldung, safnaðarþjón eða jafnvel eiginkonuna ef heimsóknin er aðeins hugsuð til uppörvunar. — 1. Tímóteusarbréf 5:1, 2.

12. Hvaða lýsingu ættu eiginkonur öldunga og safnaðarþjóna að leitast við að uppfylla?

12 Þegar Páll postuli taldi upp kröfurnar til öldunga og safnaðarþjóna lét hann reyndar fylgja nokkur heilræði til eiginkvenna þeirra sem koma til álita til slíkra sérréttinda. Hann skrifaði: „Svo eiga og konur að vera heiðvirðar, ekki rógberar, heldur bindindissamar, trúar í öllu.“ (1. Tímóteusarbréf 3:11) Kristinn eiginmaður getur margt gert til að hjálpa konu sinni að samsvara þessari lýsingu.

Biblíulegar skyldur gagnvart eiginkonu

13, 14. Hvers vegna ætti öldungur að búa með eiginkonu og vera góður eiginmaður, jafnvel þótt hún sé ekki vottur?

13 Þessar ráðleggingar, sem gefnar eru eiginkonum öldunga eða safnaðarþjóna, miðast að sjálfsögðu við það að þær séu sjálfar vígðar kristnar konur. Yfirleitt er raunin sú því að kristnir menn eiga að giftast ‚aðeins í Drottni.‘ (1. Korintubréf 7:39) En hvað um bróður sem var giftur vantrúaðri konu þegar hann vígði Jehóva líf sitt, eða þá ef konan fellur frá trúnni án þess að honum verði um kennt?

14 Það gerir hann í sjálfu sér ekki óhæfan til að vera öldungur. En það réttlætir ekki heldur að hann skilji við konu sína fyrir það eitt að hún er ekki sömu trúar og hann. Páll ráðlagði: „Ertu við konu bundinn? Leitast þá ekki við að verða laus.“ (1. Korintubréf 7:27) Hann bætti við: „Ef bróðir nokkur á vantrúaða konu og hún lætur sér það vel líka að búa saman við hann, þá skilji hann ekki við hana. En ef hinn vantrúaði vill skilja, þá fái hann skilnað. Hvorki bróðir né systir eru þrælbundin í slíkum efnum. Guð hefur kallað yður að lifa í friði. Því að hvað veist þú, kona, hvort þú munir geta frelsað manninn þinn? Eða hvað veist þú, maður, hvort þú munir geta frelsað konuna þína?“ (1. Korintubréf 7:12, 15, 16) Jafnvel þótt eiginkona öldungs sé ekki vottur ætti hann að vera góður eiginmaður.

15. Hvað ráðleggur Pétur postuli kristnum eiginmönnum og hvaða afleiðingar gæti það haft ef öldungur vanrækti ábyrgð sína sem eiginmaður?

15 Hvort sem eiginkona kristins öldungs er í trúnni eða ekki ætti hann að gera sér ljóst að hún þarfnast ástar hans og athygli. Pétur postuli skrifaði: „Þér eiginmenn, búið með skynsemi saman við konur yðar sem veikari ker og veitið þeim virðingu, því að þær munu erfa með yður náðina og lífið. Þá hindrast bænir yðar ekki.“ (1. Pétursbréf 3:7) Eiginmaður stofnar sambandi sínu við Jehóva í hættu ef hann af ásettu ráði sinnir ekki þörfum konu sinnar. Það gæti hindrað aðgang hans að Jehóva eins og ‚ský, svo að engin bæn kemst í gegn.‘ (Harmljóðin 3:44) Hann gæti þar af leiðandi orðið óhæfur til að þjóna sem kristinn umsjónarmaður.

16. Hver er kjarninn í leiðbeiningum Páls og hvernig ættu öldungar að líta á þær?

16 Eins og nefnt hefur verið er kjarninn í rökfærslu Páls sá að þegar maður kvænist afsalar hann sér að hluta frelsi sínu til að ‚þjóna Drottni án truflunar‘ sem hann naut meðan hann var einhleypur. (1. Korintubréf 7:35, NW) Skýrslur sýna að sumir kvæntir öldungar hafa ekki alltaf skoðað innblásin orð Páls af jafnvægi. Þá langar til að gera það sem þeir telja að góðir öldungar eigi að gera og sést þá kannski yfir sumar af skyldum eiginmannsins. Sumir eiga erfitt með að afþakka sérréttindi í söfnuðinum, jafnvel þótt það yrði eiginkonum þeirra greinilega til tjóns andlega ef þeir þægju þau. Þeir njóta sérréttindanna, sem fylgja hjónabandi, en eru þeir fúsir til að axla ábyrgðina sem fylgir því?

17. Hvernig hefur farið fyrir sumum eiginkonum og hvernig hefði mátt afstýra því?

17 Það er vissulega hrósunarvert að öldungur sé kostgæfinn. En ber það vott um kristið jafnvægi ef hann axlar ekki biblíulega ábyrgð sína gagnvart eiginkonu sinni þegar hann gegnir safnaðarskyldum sínum? Enda þótt öldungur vilji styðja aðra í söfnuðinum lætur hann sér líka annt um andlegt ástand konu sinnar ef hann gætir jafnvægis. Eiginkonur sumra öldunga hafa orðið andlega veikar og sumar hafa beðið andlegt „skipbrot.“ (1. Tímóteusarbréf 1:19) Enda þótt eiginkona beri sjálf ábyrgð á hjálpræði sínu hefði í sumum tilfellum mátt afstýra andlegum vandkvæðum ef öldungurinn hefði ‚alið og annast‘ konu sína ‚eins og Kristur söfnuðinn.‘ (Efesusbréfið 5:28, 29) Öldungar verða vissulega að ‚hafa gát á sjálfum sér og allri hjörðinni.‘ (Postulasagan 20:28) Ef þeir eru kvæntir eru eiginkonur þeirra meðtaldar.

‚Þrenging fyrir holdið‘

18. Nefndu suma þætti þeirrar ‚þrengingar‘ sem gift kristið fólk verður fyrir. Hvaða áhrif gæti það haft á starf öldungs?

18 Postulinn skrifaði einnig: „Ef mærin giftist, syndgar hún ekki; en þrenging munu slíkir hljóta fyrir hold sitt, en eg vildi hlífa yður.“ (1. Korintubréf 7:28, Biblían 1912) Páll vildi hlífa þeim sem gátu fylgt fordæmi hans og verið einhleypir, við þeim áhyggjum sem óhjákvæmilega fylgja hjónabandi. Jafnvel barnlaus hjón geta haft áhyggjur svo sem heilsuvandamál eða fjárhagserfiðleika, auk biblíulegra skyldna gagnvart öldruðum tengdaforeldrum sínum. (1. Tímóteusarbréf 5:4, 8) Öldungur verður að taka á sig þessar skyldur svo til fyrirmyndar sé, og það getur stundum haft áhrif á kristið umsjónarstarf hans. Sem betur fer tekst flestum öldungum að gegna bæði fjölskylduábyrgð sinni og safnaðarábyrgð með ágætum.

19. Hvað átti Páll við þegar hann sagði: „Þeir, sem kvæntir eru, [skulu] vera eins og þeir væru það ekki“?

19 Páll bætti við: „Tíminn er orðinn stuttur. Hér eftir skulu jafnvel þeir, sem kvæntir eru, vera eins og þeir væru það ekki.“ (1. Korintubréf 7:29) Í ljósi þess sem Páll sagði áður í þessum sama kafla bréfsins til Korintumanna er auðvitað ljóst að hann átti ekki við að kvæntir kristnir menn ættu á einhvern hátt að vanrækja eiginkonur sínar. (1. Korintubréf 7:2, 3, 33) Hann sýndi hvað hann átti við þegar hann skrifaði: „Þeir sem nota heiminn, [skulu vera] eins og þeir færðu sér hann ekki í nyt. Því að heimurinn í núverandi mynd líður undir lok.“ (1. Korintubréf 7:31) Heimurinn er miklu nær því að ‚fyrirfarast‘ nú en hann var á dögum Páls eða Jóhannesar postula. (1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Giftir kristnir menn, sem finna að þeir þurfa að færa einhverjar fórnir til að fylgja Kristi, geta því ekki sökkt sér algerlega niður í gleði og sérréttindi hjónabandsins. — 1. Korintubréf 7:5.

Fórnfúsar eiginkonur

20, 21. (a) Hvaða fórnir eru margar kristnar eiginkonur fúsar til að færa? (b) Hvers getur kristin eiginkona réttilega vænst af manni sínum, jafnvel þótt hann sé öldungur?

20 Alveg eins og öldungar færa fórnir öðrum til gagns hafa margar eiginkonur öldunga kappkostað að halda jafnvægi milli ábyrgðar sinnar í hjónabandinu og hinna mikilvægu hagsmuna Guðsríkis. Þúsundir kristinna kvenna vinna fúslega með eiginmönnum sínum til að þeir geti rækt umsjónarskyldur sínar. Jehóva elskar þær fyrir það og blessar hinn góða anda þeirra. (Fílemonsbréfið 25) En öfgalaus ráð Páls sýna að eiginkonur umsjónarmanna geta réttilega vænst þess að fá sanngjarnan skerf af tíma og athygli eiginmanna sinna. Það er biblíuleg skylda kvæntra öldunga að helga eiginkonum sínum nægan tíma til að þeir gæti jafnvægis í skyldum sínum sem eiginmenn og umsjónarmenn.

21 En hvað nú ef kristinn öldungur er ekki aðeins eiginmaður heldur líka faðir? Það eykur ábyrgð hans og skapar honum nýtt umsjónarsvið eins og fjallað er um í næstu grein.

Til upprifjunar

◻ Hvaða biblíulegar staðreyndir sýna að kristinn umsjónarmaður má vera kvæntur?

◻ Hverju ætti einhleypur öldungur, sem kvænist, að gera sér grein fyrir?

◻ Á hvaða vegu ‚ber gift kristið fólk fyrir brjósti það sem heimsins er‘?

◻ Hvernig sýna eiginkonur margra umsjónarmanna mikla fórnfýsi?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 25]

Enda þótt öldungur sé upptekinn af guðræðislegu starfi ætti hann að veita eiginkonu sinni ást og athygli.