Einhleypi — dyr að ótrufluðu starfi
Einhleypi — dyr að ótrufluðu starfi
„[Það er] til stöðugrar þjónustu við Drottin án truflunar.“ — 1. KORINTUBRÉF 7:35, NW.
1. Hvaða kvíðvænlegar fréttir fékk Páll af kristnum mönnum í Korintu?
PÁLL postuli hafði áhyggjur af kristnum bræðrum sínum í Korintu í Grikklandi. Um fimm árum áður hafði hann stofnað söfnuð í þessari auðugu borg sem var alkunn fyrir siðleysi sitt. Núna, um árið 55 er hann var staddur í Efesus í Litlu-Asíu, fékk hann kvíðvænlegar fréttir frá Korintu af sundrung og alvarlegu siðleysi sem látið var viðgangast. Auk þess hafði Páll fengið bréf frá kristnum mönnum í Korintu þar sem þeir óskuðu leiðsagnar um kynferðismál, einlífi, hjónaband, skilnað og stofnun nýrra hjónabanda.
2. Hvernig hafði siðleysið í Korintu greinilega áhrif á kristna menn þar í borg?
2 Hið grófa siðleysi Korintubúa virðist hafa haft tvenns konar áhrif á söfnuðinn þar. Sumir kristnir menn létu undan siðferðislausunginni og umbáru siðleysi. (1. Korintubréf 5:1; 6:15-17) Ljóst er að hin sínálæga munaðargirnd borgarbúa hafði þau áhrif á aðra safnaðarmenn að þeir fóru út í hinar öfgarnar og hvöttu til kynlífsbindindis, jafnvel meðal hjóna. — 1. Korintubréf 7:5.
3. Hvað fjallaði Páll fyrst um í fyrra bréfi sínu til Korintumanna?
3 Í löngu bréfi til Korintumanna, sneri Páll sér fyrst að óeiningunni. (1. Korintubréf 1. til 4. kafli) Hann hvatti þá til að fylgja ekki mönnum því að það gæti aðeins leitt til skaðlegra flokkadrátta. Þeir ættu að vera sameinaðir sem „samverkamenn“ Guðs. Svo gaf hann þeim sérstök fyrirmæli um að halda söfnuðinum siðferðilega hreinum. (5. og 6. kafli) Síðan sneri postulinn sér að bréfi þeirra.
Mælt með einhleypi
4. Hvað átti Páll við þegar hann sagði að ‚það væri gott fyrir mann að snerta ekki konu‘?
4 Hann hóf mál sitt: „Svo að ég minnist á það, sem þér hafið ritað um, þá er það gott fyrir mann að snerta ekki konu.“ (1. Korintubréf 7:1) Orðalagið „að snerta ekki konu“ merkir hér að forðast líkamlega snertingu eða mök við konu í því skyni að fullnægja kynhvötinni. Þar eð Páll hafði þegar fordæmt saurlifnað átti hann hér við kynmök innan hjónabands. Hann var í raun að mæla með einhleypi. (1. Korintubréf 6:9, 16, 18; samanber 1. Mósebók 20:6; Orðskviðina 6:29.) Skömmu síðar skrifaði hann: „Hinum ókvæntu og ekkjunum segi ég, að þeim er best að halda áfram að vera ein eins og ég.“ (1. Korintubréf 7:8) Páll var ókvæntur eða kannski ekkill. — 1. Korintubréf 9:5.
5, 6. (a) Hvers vegna er ljóst að Páll var ekki að mæla með klausturlífi? (b) Hvers vegna mælti Páll með einhleypi?
5 Líklega höfðu kristnir menn í Korintu orðið fyrir áhrifum af grískri heimspeki, en sumir skólar hennar lofsungu öfgafyllsta meinlætalíf eða sjálfsafneitun. Getur það hafa verið ástæðan fyrir því að Korintumenn spurðu Pál hvort það væri „gott“ fyrir kristna menn að forðast öll kynmök? Svar Páls bar ekki keim af grískri heimspeki. (Kólossubréfið 2:8) Ólíkt kaþólskum guðfræðingum mælti hann aldrei með klausturlifnaði, ókvæni og meinlætalífi, rétt eins og einhleypt fólk væri sérstaklega heilagt og gæti unnið að eigin hjálpræði með líferni sínu og bænum.
6 Páll mælti með einhleypi „vegna yfirstandandi neyðar.“ (1. Korintubréf 7:26) Vera má að hann hafi haft í huga þá erfiðu tíma sem kristnir menn voru að ganga gegnum og gátu orðið enn verri fyrir þá sem voru í hjónabandi. (1. Korintubréf 7:28) Hann ráðlagði ógiftum kristnum mönnum: „Þeim er best að halda áfram að vera ein eins og ég.“ Ekklum sagði hann: „Ertu laus orðinn við konu? Leita þá ekki kvonfangs.“ Um kristnar ekkjur skrifaði hann: „Þó er hún sælli, ef hún heldur áfram að vera eins og hún er, það er mín skoðun. En ég þykist og hafa anda Guðs.“ — 1. Korintubréf 7:8, 27, 40.
Ekki kvöð að vera einhleypur
7, 8. Hvað sýnir að Páll var ekki að þvinga nokkurn kristinn mann til að vera einhleypur?
7 Heilagur andi Jehóva var áreiðanlega að leiðbeina Páli er hann gaf þessi ráð. Öll umfjöllun hans um einhleypi og hjónaband ber vott um jafnvægi og hófsemi. Hann setur það ekki fram sem spurningu um trúfesti eða ótrúfesti, heldur valfrelsi þar sem frekar er þó hvatt til einhleypis ef menn geta verið hreinlífir þannig.
8 Eftir að Páll segir að það sé „gott fyrir mann að snerta ekki konu“ bætir hann við: „En vegna saurlifnaðarins hafi hver og einn sína eiginkonu og hver og ein hafi sinn eiginmann.“ (1. Korintubréf 7:1, 2) Eftir að hafa ráðlagt ógiftu fólki og ekkjum að „halda áfram að vera ein eins og ég“ bætir hann strax við: „En hafi þau ekki taumhald á sjálfum sér, þá gangi þau í hjónaband, því að betra er að ganga í hjónaband en að brenna af girnd.“ (1. Korintubréf 7:8, 9) Og ekklum ráðlagði hann: „Leita . . . ekki kvonfangs. En þótt þú kvongist, syndgar þú ekki.“ (1. Korintubréf 7:27, 28) Þetta eru öfgalaus ráð sem bera vitni um frjást val.
9. Hvernig eru bæði hjónaband og einhleypi gjafir frá Guði að sögn Jesú og Páls?
9 Páll benti á að bæði hjónaband og einhleypi séu gjafir Guðs. „Þess óska ég, að allir menn væru eins og ég er sjálfur, en hver hefur sína náðargjöf frá Guði, einn þessa og annar hina.“ (1. Korintubréf 7:7) Eflaust hafði hann í huga það sem Jesús sagði. Eftir að hafa minnt á að hjónabandið væri frá Guði benti Jesús á að það væri sérstök gjöf að vilja vera einhleypur til að þjóna hagsmunum Guðsríkis: „Þetta er ekki á allra færi, heldur þeirra einna, sem það er gefið. Sumir eru vanhæfir til hjúskapar frá móðurlífi, sumir eru vanhæfir gjörðir af manna völdum, sumir hafa sjálfir gjört sig vanhæfa vegna himnaríkis. Sá höndli, sem höndlað fær.“ — Matteus 19:4-6, 11, 12.
Að höndla einhleypi
10. Hvernig er hægt að ‚höndla‘ einhleypi?
10 Þótt Jesús og Páll hafi báðir talað um einhleypi sem ‚gjöf‘ sagði hvorugur þeirra að það væri undraverð gjöf sem aðeins sumir fengju. Jesús sagði að það væri „ekki á allra færi“ að vera einhleypir og hvatti þá sem gætu það að ‚höndla‘ það. Jesús og Páll gerðu það báðir. Páll skrifaði að vísu: „Betra er að ganga í hjónaband en að brenna af girnd,“ en hann var þá að tala um þá sem hafa „ekki taumhald á sjálfum sér.“ (1. Korintubréf 7:9) Í fyrri bréfum sínum benti Páll á að kristnir menn gætu forðast það að brenna af girnd. (Galatabréfið 5:16, 22-24) Að lifa í andanum merkir að láta anda Jehóva stýra hverju skrefi sínu. Geta ungir kristnir menn gert það? Já, ef þeir fylgja orði Jehóva gaumgæfilega. Sálmaritarinn orti: „Með hverju getur ungur maður [eða kona] haldið vegi sínum hreinum? Með því að gefa gaum að orði þínu.“ — Sálmur 119:9.
11. Hvað merkir það að ‚lifa í andanum‘?
11 Þetta felur í sér að vara sig á undanlátshugmyndum sem fram eru bornar í mörgum sjónvarpsþáttum, kvikmyndum, tímaritum, bókum og lagatextum. Slíkar hugmyndir höfða til holdsins. Ungt kristið fólk af báðum kynjum, sem vill höndla einhleypi, ætti að ‚lifa, ekki eftir holdi, heldur eftir anda. Því að þeir sem láta stjórnast af holdinu, hyggja á það sem holdsins er, en þeir, sem láta stjórnast af andanum, hyggja á það sem andans er.‘ (Rómverjabréfið 8:4, 5) Það sem tilheyrir andanum er réttlátt, hreint, elskuvert og dyggðugt. Kristnir menn, ungir sem gamlir, ættu að ‚hugfesta það.‘ — Filippíbréfið 4:8, 9.
12. Hvað er aðallega fólgið í því að höndla einhleypi?
12 Að höndla einhleypi byggist aðallega á því að setja sér það sem markmið og biðja um hjálp Jehóva til að vinna að því. (Filippíbréfið 4:6, 7) Páll skrifaði: „Ef einhver er staðfastur í hjarta sínu og óþvingaður, en hefur vald yfir vilja sínum og hefur afráðið í hjarta sínu að varðveita sveindóm sinn, þá gerir hann vel. Þar af leiðandi gerir sá sem gefur sveindóm sinn í hjónaband vel, en sá sem ekki gefur hann í hjónaband gerir betur.“ — 1. Korintubréf 7:37, 38, NW.
Tilgangsríkt einhleypi
13, 14. (a) Hvernig bar Páll postuli saman ógifta kristna menn og gifta? (b) Hver er eina leiðin til að einhleypur kristinn maður ‚geri betur‘ en giftur?
13 Einhleypi er engin dyggð í sjálfu sér. Í hvaða skilningi er það þá ‚betra‘? Það ræðst algerlega af því hvernig menn nota frelsið sem fylgir því. Páll skrifaði: „Ég vil, að þér séuð áhyggjulausir. Hinn ókvænti ber fyrir brjósti það, sem Drottins er, hversu hann megi Drottni þóknast. En hinn kvænti ber fyrir brjósti það, sem heimsins er, hversu hann megi þóknast konunni, og er tvískiptur. Hin ógifta kona og mærin ber fyrir brjósti það, sem Drottins er, til þess að hún megi vera heilög, bæði að líkama og anda. En hin gifta kona ber fyrir brjósti það, sem heimsins er, hversu hún megi þóknast manninum. Þetta segi ég sjálfum yður til gagns, ekki til þess að varpa snöru yfir yður, heldur til þess að efla velsæmi og óbifanlega fastheldni við Drottin [„til stöðugrar þjónustu við Drottin án truflunar,“ NW].“ — 1. Korintubréf 7:32-35.
14 Einhleypur kristinn maður, sem notar einhleypi sitt til að þjóna eigingjörnum markmiðum, gerir ekkert „betur“ en giftir kristnir menn. Hann er ekki einhleypur „vegna himnaríkis“ heldur af persónulegum ástæðum. (Matteus 19:12) Ókvæntur maður eða ógift kona ætti að ‚bera fyrir brjósti það sem Drottins er,‘ láta sér annt um að ‚þóknast Drottni,‘ og ‚þjóna Drottni stöðugt án truflunar.‘ (NW) Það felur í sér að gefa þjónustunni við Jehóva og Krist Jesú óskipta athygli. Það er eina leiðin fyrir ókvænta kristna karla og ógiftar konur að gera „betur“ en þeir sem eru í hjónabandi.
Ótruflað starf
15. Hver er kjarninn í rökum Páls í 7. kafla 1. Korintubréfs?
15 Rökfærsla Páls í þessum kafla er í hnotskurn þessi: Þótt hjónaband sé réttmætt og við vissar aðstæður ráðlegt fyrir suma, þá hefur einhleypi óneitanlega kosti fyrir kristinn karl eða konu sem vill láta sem fæst trufla sig í þjónustu Jehóva. Giftur maður er „tvískiptur“ en ógiftur kristinn maður er aftur á móti frjáls til að einbeita sér að ‚því sem Drottins er.“
16, 17. Hvernig getur einhleypur kristinn maður einbeitt sér betur en giftur að ‚því sem Drottins er‘?
16 Hvað er ‚það sem Drottins er‘ og ógiftur kristinn maður hefur meira frelsi til að einbeita sér að en þeir sem eru í hjónabandi? Í öðru samhengi talaði Jesús um „það, sem Guðs er“ — það sem kristinn maður getur ekki gefið keisaranum. (Matteus 22:21) Þetta eru í meginatriðum mál sem snúa að lífi kristins manns, tilbeiðslu og þjónustu. — Matteus 4:10; Rómverjabréfið 14:8; 2. Korintubréf 2:17; 3:5, 6; 4:1.
17 Einhleypir kristnir menn hafa yfirleitt meiri tíma en giftir til þjónustu Jehóva og það getur haft góð áhrif á andlegt hugarfar þeirra og boðunarstarf. Þeir geta notað meiri tíma en ella til einkanáms og hugleiðingar. Einhleypir kristnir menn eiga oft auðveldara með að finna sér tíma til biblíulestrar en giftir. Þeir geta búið sig betur undir samkomur og boðunarstarf. Allt er þetta ‚sjálfum þeim til gagns.‘ — 1. Korintubréf 7:35
18. Hvernig geta margir einhleypir bræður sýnt að þeir vilji þjóna Jehóva „án truflunar“?
18 Margir einhleypir bræður eru safnaðarþjónar og geta sagt við Jehóva: „Hér er ég, send þú mig!“ (Jesaja 6:8) Þeir geta sótt um skólavist í Þjónustuþjálfunarskólanum, en hann er ætlaður einhleypum safnaðarþjónum og öldungum sem geta þjónað þar sem þörfin er meiri. Jafnvel bræður, sem hafa ekki tök á að fara frá söfnuði sínum, geta þjónað bræðrum sínum sem safnaðarþjónar eða öldungar. — Filippíbréfið 2:20-23.
19. Hvernig njóta margar einhleypar systur blessunar og hvernig eru þær meðal annars til blessunar í söfnuðunum?
19 Einhleypar systur eiga sér ekki eiginmann fyrir höfuð til að ráðfæra sig við og trúa fyrir tilfinningum sínum og eru því líklegri til að ‚varpa áhyggjum sínum á Jehóva.‘ (Sálmur 55:23; 1. Korintubréf 11:3) Einkum er það mikilvægt fyrir systur sem eru einhleypar vegna kærleika síns til Jehóva. Ef þær giftast síðar ætti það ‚aðeins að vera í Drottni,‘ það er að segja manni sem er vígður Jehóva. (1. Korintubréf 7:39) Öldungar eru þakklátir fyrir að hafa ógiftar systur í söfnuðunum, því að þær heimsækja oft sjúka og aldraða og hjálpa þeim. Það er öllum hlutaðeigandi til gleði. — Postulasagan 20:35.
20. Hvernig sýna margir kristnir menn að þeir ‚þjóna Drottni stöðugt án truflunar‘?
20 Margt ungt, kristið fólk hefur hagað málum sínum svo að það geti ‚þjónað Drottni stöðugt án truflunar.‘ (1. Korintubréf 7:35, NW) Það þjónar Jehóva í fullu starfi sem brautryðjendur, trúboðar eða starfsmenn við eitthvert af útibúum Varðturnsfélagsins. Og þetta er hamingjusamur hópur! Návist hans er mjög hressandi! Í augum Jehóva og Jesú er þetta unga fólk alveg eins og ‚daggardropar.‘ — Sálmur 110:3.
Ekki ævarandi einlífisheit
21. (a) Hvers vegna er ljóst að Páll hvatti ekki til einlífisheits? (b) Hvað átti hann við með orðalaginu þegar „æskublóminn er hjá“?
21 Eitt aðalatriðið í ráðleggingum Páls er að kristnir menn geri „vel“ ef þeir höndla það að vera einhleypir. (1. Korintubréf 7:1, 8, 26, 37) En Páll er alls ekki að hvetja þá til að vinna einlífisheit heldur skrifaði: „Ef einhver heldur að hann hegði sér ósæmilega gagnvart sveindómi sínum og æskublóminn er hjá, þá geri hann það sem hann vill, ef ekki verður hjá því komist. Hann syndgar ekki. Þau skulu giftast.“ (1. Korintubréf 7:36, NW) Gríska orðið hypeʹrakmos, sem þýtt er „æskublóminn er hjá,“ merkir bókstaflega „kominn yfir hátindinn“ og vísar til þess að öldutindur kynhvatarinnar sé liðinn hjá. Þeim sem hafa verið einhleypir um nokkurra ára skeið og finnst að þeir ættu að giftast er fullkomlega frjálst að giftast trúsystkini sínu. — 2. Korintubréf 6:14.
22. Hvers vegna er gagnlegt á alla vegu fyrir kristinn mann að giftast ekki of ungur?
22 Þeim árum er viturlega varið sem ungur kristinn maður eða kona ver til að þjóna Jehóva án truflunar. Þau gefa honum eða henni tíma til að afla sér visku, reynslu og innsæis. (Orðskviðirnir 1:3, 4) Sá sem verið hefur einhleypur vegna Guðsríkis er í miklu betri aðstöðu til að axla ábyrgð hjónabands og kannski foreldrahlutverks síðar, ef hann ákveður að gera það.
23. Hvað gætu sumir ætlað sér sem hyggja á hjónaband, en hvaða spurningu er svarað í næstu greinum?
23 Sumir kristnir menn hafa þjónað Jehóva einhleypir í fullu starfi um nokkurra ára skeið, en velja sér síðan maka með það fyrir augum að þeir geti haldið áfram í fullu starfi í einhverri þjónustugrein. Það er vissulega hrósunarvert. Sumir gætu jafnvel hugsað sér að ganga í hjónaband án þess að láta það hamla sér á nokkurn hátt í þjónustunni. En ætti giftur kristinn maður að líta svo á að hann geti einbeitt sér jafnmikið að þjónustunni við Jehóva eins og þegar hann var einhleypur? Þeirri spurningu er svarað í greinunum á eftir.
Til upprifjunar
◻ Hvers vegna fannst Páli postula hann þurfa að skrifa söfnuðinum í Korintu?
◻ Hvers vegna vitum við að Páll var ekki að mæla með klausturlifnaði?
◻ Hvernig er hægt að ‚höndla‘ einhleypi?
◻ Hvaða gagn gætu systur haft af því að vera einhleypar?
◻ Á hvaða vegu geta einhleypir bræður notfært sér frelsi sitt til að þjóna Jehóva „án truflunar“?
[Spurningar]