Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Guðspjallið eftir túlkun fræðimanna

Guðspjallið eftir túlkun fræðimanna

Guðspjallið eftir túlkun fræðimanna

HVERN segir fólkið mig vera?“ (Lúkas 9:18) Jesús spurði lærisveina sína þessarar spurningar fyrir nálega tvö þúsund árum. Á þeim tíma var mjög umdeilt hver Jesús væri. Nú virðist það enn umdeildara, einkum nálægt jólum sem eru að sögn helguð Jesú. Margir trúa að Jesús hafi verið sendur frá himnum til að endurleysa mannkynið. Hvað álítur þú?

Sumir fræðimenn halda öðru fram. „Sú ímynd af Jesú að hann hafi kennt að hann væri sonur Guðs sem ætti að deyja fyrir syndir heimsins, er ekki sögulega rétt,“ fullyrðir Marcus J. Borg, prófessor í trúfræði og menningarsögu.

Aðrir fræðimenn segja að hinn raunverulegi Jesús hafi verið ólíkur þeim sem við lesum um í Biblíunni. Sumir telja að öll guðspjöllin hafi verið skrifuð fjórum áratugum eftir dauða Jesú eða síðar, og að þá hafi verið búið að skreyta og ýkja hlutverk hans. Ekki svo að skilja að guðspjallariturunum hafi verið farið að förlast minni, segja fræðimenn, heldur var túlkun þeirra röng. Eftir dauða Jesú hafi lærisveinarnir farið að líta hann öðrum augum — sem son Guðs, frelsara og Messías. Sumir staðhæfa ósvífnislega að Jesús hafi ekki verið annað en farandspekingur eða þjóðfélagsbyltingarmaður. Það segja fræðimennirnir vera hinn heilaga sannleika.

Hið „fræðilega“ viðhorf til Jesú

Til að verja „fræðileg“ viðhorf sín lítur út fyrir að gagnrýnendur séu meira en fúsir til að hafna öllu sem virðist yfirnáttúrlegt í sambandi við Jesú. Sumir segja til dæmis að meyjarfæðingin hafi verið fundin upp til að hylma yfir það að Jesús hafi verið óskilgetinn. Aðrir hafna spádómum Jesú um eyðingu Jerúsalem og staðhæfa að þeim hafi verið skotið inn í guðspjöllin eftir „uppfyllingu“ þeirra. Sumir segja jafnvel að lækningar Jesú hafi verið algerlega geðvefrænar — sigur hugans yfir líkamanum. Þykir þér þessi afstaða skynsamleg eða fráleit?

Til eru fræðimenn sem segja jafnvel að lærisveinar Jesú hafi spunnið upp söguna um upprisuna til að forða trúarhreyfingu sinni frá falli. Þegar allt kom til alls voru fylgjendur Jesú vanmáttugir án hans, segja fræðimenn, þannig að þeir suðu saman sögu til að hafa meistara sinn aftur með. Í reynd eru þeir að segja að það hafi verið kristnin sem fékk upprisu en ekki Kristur. Ef þetta hljómar eins og fræðimannlegt skáldaleyfi, hvað þá um hugmynd guðfræðingsins Barböru Thierings að Jesús hafi alls ekki verið líflátinn? Hún álítur að Jesús hafi lifað staurfestinguna af, kvænst tvisvar og eignast þrjú börn.

Allar þessar staðhæfingar draga Jesú niður á eina planið sem margir fræðimenn vilja viðurkenna: að hann hafi verið vitur maður við útjaðar hins gyðinglega samfélags, þjóðfélagsumbótamaður — allt annað en sonur Guðs sem kom til að „gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.“ — Matteus 20:28.

Kannski hefurðu um þetta leyti árs lesið kafla úr guðspjöllunum, svo sem um fæðingu Jesú í jötu eða heyrt þá lesna í kirkju. Tókstu frásagnir guðspjallanna góðar og gildar? Taktu þá eftir þessari ótrúlegu uppákomu. Hópur fræðimanna hefur komið saman tvisvar á ári frá 1985 til svokallaðs Málþings um Jesú, í þeim tilgangi að úrskurða um áreiðanleika orða hans. Sagði Jesús virkilega það sem Biblían eignar honum? Málþingsmenn greiddu atkvæði með lituðum perlum um hver einustu ummæli Jesú. Rauð perla merkti að Jesús hefði örugglega mælt umrædd orð, bleik perla að hann hefði sennilega sagt þau, grá perla táknaði vafa og svört perla fölsun.

Þér bregður kannski við það að Málþingið um Jesú skuli hafa lýst yfir að Jesús hafi sennilega ekki sagt 82 af hundraði þess sem honum er eignað. Aðeins ein tilvitnun Markúsarguðspjalls var talin trúverðug. Lúkasarguðspjall var sagt svo fullt af áróðri að því sé „ekki við bjargandi.“ Allar línur Jóhannesarguðspjalls nema þrjár fengu svarta perlu til tákns um að þær væru fölsun, og það sem þá var eftir fékk gráa perlu til tákns um vafa.

Meira en fræðilegt mál

Ertu sammála fræðimönnunum? Draga þeir upp nákvæmari mynd fyrir okkur af Jesú en við finnum í Biblíunni? Þessar spurningar eru meira en bara deiluefni fræðimanna. Um þetta leyti árs er líklegt að þú sért minntur á að Guð hafi sent Jesú „til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf,“ eins og Biblían segir. — Jóhannes 3:16.

Ef Jesús var bara farandspekingur sem við vitum harla lítið um, þá er út í hött að ‚trúa‘ á hann. Ef lýsing Biblíunnar á Jesú er hins vegar sönn, þá erum við að ræða um eilíft hjálpræði okkar. Þess vegna þurfum við að vita hvort Biblían hefur að geyma sannleikann um Jesú.