Hvað er mikilvægast í lífi þínu?
Hvað er mikilvægast í lífi þínu?
„Gjör mér kunnan þann veg, er ég á að ganga.“ — SÁLMUR 143:8.
1. Að hvaða niðurstöðu komst Salómon konungur í sambandi við viðleitni og afrek manna?
ÞÚ VEIST sjálfsagt mætavel að lífið er fullt af athöfnum og áhyggjum. Þegar þú hugsar málið gerirðu þér ljóst að sumt af því er nauðsynlegt. Önnur viðfangsefni og áhyggjuefni skipta minna máli eða eru jafnvel einskis virði. Með því að gera þér grein fyrir því ertu sammála einhverjum vitrasta manni sögunnar, Salómon konungi. Eftir að hann hafði ígrundað athafnir lífsins komst hann að eftirfarandi niðurstöðu: „Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra.“ (Prédikarinn 2:4-9, 11; 12:13) Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir okkur nútímamenn?
2. Hvaða spurningar ætti guðhrætt fólk að spyrja sig og hvaða skyldar spurningar koma upp við það?
2 Ef þú vilt ‚óttast Guð og halda hans boðorð‘ skaltu spyrja þig þessarar ögrandi spurningar: ‚Hvað er mikilvægast í lífi mínu?‘ Sjálfsagt veltir þú þessari spurningu ekki fyrir þér daglega, en hví ekki að gera það núna? Hún leiðir reyndar af sér ýmsar skyldar spurningar, svo sem: ‚Getur verið að ég leggi of mikla áherslu á vinnu, starfsferil eða efnislega hluti? Hve miklu máli skiptir heimili mitt, fjölskylda og ástvinir mig?‘ Unglingur gæti spurt: ‚Hve mikinn tíma og athygli tekur menntun hjá mér? Hef ég mestan áhuga á einhverju tómstundagamni, íþróttum, afþreyingu eða einhverri tækni?‘ Og hver sem aldur okkar er eða staða ættum við að spyrja: ‚Hvaða sess skipar þjónusta við Guð í lífi mínu?‘ Þú fellst trúlega á að þú þurfir að ákveða hvað þú ætlar að láta ganga fyrir. En hvar og hvernig er hægt að fá hjálp til að gera það viturlega?
3. Hvað felst í því fyrir kristinn mann að skipa málum í forgangsröð?
3 Orðið „mikilvægastur“ felur í sér að eitthvað gangi fyrir öllu öðru eða þurfi að skoða fyrst. Hvort sem þú ert vottur Jehóva eða í hópi þeirra milljóna, sem eru að nema orð Guðs með þeim, skaltu íhuga þessi sannindi: „Öllu er afmörkuð stund, og sérhver hlutur undir himninum hefir sinn tíma.“ (Prédikarinn 3:1) Það felur réttilega í sér að láta sér mjög annt um samskiptin innan fjölskyldunnar. (Kólossubréfið 3:18-21) Það felur í sér að sjá sómasamlega fyrir fjölskyldu sinni með veraldlegri vinnu. (2. Þessaloníkubréf 3:10-12; 1. Tímóteusarbréf 5:8) Og til tilbreytingar geturðu stundum tekið þér tíma til að sinna tómstundagamni, skemmtun eða afþreyingu. (Samanber Markús 6:31.) En þegar grannt er skoðað er þér ljóst að ekkert af þessu er mikilvægast í lífinu. Annað er enn þýðingarmeira.
4. Hvernig tengist Filippíbréfið 1:9, 10 því að forgangsraða?
4 Þér er sennilega ljóst að meginreglur Biblíunnar eru mikilvæg leiðsögn og hjálp til að skipa málum í forgangsröð og taka viturlegar ákvarðanir. Til dæmis eru kristnir menn hvattir í Filippíbréfinu 1:9, 10 til að láta ‚þekkingu og alla dómgreind aukast meir og meir.‘ Í hvaða tilgangi? Páll postuli bætti við: „Svo að þér getið metið þá hluti rétt, sem máli skipta.“ Er það ekki skynsamlegt? Á grundvelli nákvæmrar þekkingar getur skarpskyggn kristinn maður komist að niðurstöðu um hvað gangi fyrir — hvað sé mikilvægast — í lífinu.
Fyrirmynd að því hvað sé mikilvægast
5. Hvernig sýnir Ritningin hvað var mikilvægast í lífi Jesú er hún lýsir fyrirmynd kristinna manna?
5 Orð Péturs postula benda okkur á verðmætt þekkingaratriði: „Til þessa eruð þér kallaðir. Því að Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor.“ (1. Pétursbréf 2:21) Já, til að fá vísbendingar um hvað sé mikilvægast í lífinu getum við skoðað hvað Jesú Kristi fannst um málið. Sálmur 40:9 spáði um hann: „Að gjöra vilja þinn, Guð minn, er mér yndi, og lögmál þitt er hið innra í mér.“ Hann orðaði sömu hugsun þannig: „Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans.“ — Jóhannes 4:34; Hebreabréfið 12:2.
6. Hvernig getum við náð sama árangri og Jesús í því að láta vilja Guðs ganga fyrir?
6 Taktu eftir þessu aðalatriði — að gera vilja Guðs. Með fordæmi sínu lagði Jesús áherslu á hvað ætti að vera mikilvægast í lífi lærisveina sinna, því að hann sagði: „Hver sem er fullnuma, verður eins og meistari hans.“ (Lúkas 6:40) Og þar eð Jesús framgekk eins og faðir hans ætlaðist til sýndi hann að „gleðignótt“ væri samfara því að láta vilja Guðs ganga fyrir öðru. (Sálmur 16:11; Postulasagan 2:28) Skilurðu hvað það þýðir? Þegar fylgjendur Jesú kjósa að láta það að gera vilja Guðs ganga fyrir öðru í lífi sínu, þá njóta þeir ‚gleðignóttar‘ og öðlast hið sanna líf. (1. Tímóteusarbréf 6:19) Það er því fleiri en ein ástæða til þess að láta vilja Guðs ganga fyrir í lífi okkar.
7, 8. Hvaða prófraunir urðu á vegi Jesú og hvað getum við lært af þeim?
7 Strax eftir að Jesús gaf tákn um að hann byði sig fram til að gera vilja Guðs, reyndi djöfullinn að beina honum á aðra braut. Hvernig? Með því að freista hans á þrjá vegu. Í öll skiptin svaraði Jesús skýrt og greinilega með tilvitnun í Biblíuna. (Matteus 4:1-10) En aðrar prófraunir biðu hans — ofsóknir, háð, svik Júdasar, falskærur og síðan dauði á kvalastaur. En engin þessara prófrauna fékk drottinhollan son Guðs til að hvika af réttri braut. Á úrslitastund bað Jesús: „Þó ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt. . . . Verði þinn vilji.“ (Matteus 26:39, 42) Ættum við ekki öll að vera djúpt snortin af þessari fyrirmynd sem okkur er gefin og vera ‚staðföst í bæninni‘? — Rómverjabréfið 12:12.
8 Leiðsögn Guðs er sérstaklega verðmæt hjálp til að skipa málum okkar í rétta forgangsröð, einkum ef við eigum í höggi við óvini sannleikans og andstæðinga vilja Guðs. Manstu eftir beiðni hins trúfasta Davíðs konungs um leiðsögn þegar hann varð fyrir andstöðu óvina sinna? Við athugum hana þegar við skoðum hluta af Sálmi 143. Það ætti að hjálpa okkur að skilja hvernig við getum styrkt einkasamband okkar við Jehóva og fengið kraft til að láta það að gera vilja hans ganga fyrir í lífi okkar.
Jehóva heyrir bænir okkar og svarar þeim
9. (a) Hvað leiða orð Davíðs og verk í ljós þótt hann væri syndari? (b) Af hverju ættum við ekki að hætta að gera það sem rétt er?
9 Þótt Davíð væri syndugur og dauðlegur maður trúði hann að Jehóva léði bæn hans eyra. Hann bað auðmjúklega: „[Jehóva], heyr þú bæn mína, ljá eyra grátbeiðni minni í trúfesti þinni, bænheyr mig í réttlæti þínu. Gakk eigi í dóm við þjón þinn, því að enginn er réttlátur fyrir augliti þínu.“ (Sálmur 143:1, 2) Davíð gerði sér grein fyrir ófullkomleika sínum en hjarta hans var hins vegar heilt gagnvart Guði. Þess vegna treysti hann að Jehóva bænheyrði hann í réttlæti. Er þetta ekki hvetjandi fyrir okkur? Jafnvel þótt við náum ekki réttlæti Guðs getum við treyst að hann heyri bæn okkar ef hjörtu okkar eru heil gagnvart honum. (Prédikarinn 7:20; 1. Jóhannesarbréf 5:14) Jafnframt því að vera staðföst í bæninni verðum við að vera staðráðin í að ‚sigra illt með góðu‘ á þessum vondu dögum. — Rómverjabréfið 12:20, 21; Jakobsbréfið 4:7.
10. Hvers vegna átti Davíð áhyggjustundir?
10 Davíð átti sér óvini alveg eins og við. Hann átti sínar áhyggjustundir, hvort sem hann var á flótta frá Sál og neyddist til að leita skjóls á afskekktum og óaðgengilegum stöðum, eða óvinir hans hrelldu hann eftir að hann varð konungur. Hann lýsir þeim áhrifum sem það hafði á hann: „Óvinurinn eltir sál mína, . . . lætur mig búa í myrkri . . . Andi minn örmagnast í mér, hjarta mitt er agndofa hið innra í mér.“ (Sálmur 143:3, 4) Hefur þú haft ástæðu til að líða þannig?
11. Hvaða áhyggjustundir hafa nútímaþjónar Guðs átt?
11 Þrýstingur frá óvinum, fjárhagskröggur, alvarleg veikindi eða önnur kvíðvænleg vandamál hafa vakið þá tilfinningu hjá sumum þjónum Guðs að andi þeirra væri að örmagnast í þeim. Stundum hafa hjörtu þeirra líka verið eins og agndofa. Það er eins og þeir hafi hrópað: „Þú sem hefir látið oss horfa upp á miklar nauðir og ógæfu, þú munt láta oss lifna við að nýju og . . . aftur veita mér huggun.“ (Sálmur 71:20, 21) Hvaða hjálp hafa þeir fengið?
Að standast tilraunir óvinanna
12. Hvernig tókst Davíð konungur á við hættur og prófraunir?
12 Sálmur 143:5 gefur til kynna hvað Davíð gerði þegar hættur og miklar prófraunir þrengdu að honum: „Ég minnist fornra daga, íhuga allar gjörðir þínar, ígrunda verk handa þinna.“ Davíð minntist þess hvernig Guð kom fram við þjóna sína og hvernig hann sjálfur hafði verið frelsaður. Hann íhugaði það sem Jehóva hafði gert sakir síns mikla nafns. Já, Davíð lét sér umhugað um verk Guðs.
13. Hvernig hjálpar það okkur að halda út í prófraunum ef við hugleiðum forn og ný dæmi um trúfasta þjóna Guðs?
13 Höfum við ekki oft minnst samskipta Guðs við fólk sitt? Vissulega! Þar kemur upp í hugann frásagan af hinum mikla „fjölda votta“ fyrir tíma kristninnar. (Hebreabréfið 11:32-38; 12:1) Smurðir kristnir menn á fyrstu öld voru líka hvattir til að ‚minnast fyrri daga‘ og þess sem þeir höfðu þolað. (Hebreabréfið 10:32-34) Hvað um reynslu þjóna Guðs nú á tímum eins og frá er greint til dæmis í bókinni Vottar Jehóva — boðendur ríkis Guðs? * Með frásögnum hennar og annarra rita getum við minnst þess hvernig Jehóva hefur hjálpað fólki sínu að þrauka gegnum bönn, fangavist, skrílsárásir, fangabúðavist og þrælkunarbúðavist. Menn hafa mátt þola prófraunir í stríðshrjáðum löndum, svo sem Búrúndi, fyrrverandi Júgóslavíu, Líberíu og Rúanda. Þegar andstaðan birtist voru þjónar Guðs þolgóðir vegna þess að þeir varðveittu sterkt samband við Jehóva. Hönd hans hélt þeim uppi sem álitu það mikilvægast að gera vilja hans.
14. (a) Nefndu dæmi um hvernig Guð hefur haldið þjóni sínum uppi við aðstæður sem gæti svipað til okkar. (b) Hvað lærir þú af þessu dæmi?
14 Kannski svarar þú því til að þú hafir ekki orðið fyrir svona hrottalegri meðferð og þér finnist ólíklegt að svo verði nokkurn tíma. En stuðningur Guðs við fólk sitt hefur ekki alltaf birst við aðstæður sem sumir kynnu að kalla stórbrotnar. Hann hefur stutt marga „venjulegt“ fólk við „hversdagslegar“ aðstæður. Hér er eitt dæmi af mörgum: Kannastu við myndina hér að ofan og hjálpar hún þér að minnast samskipta Guðs við fólk sitt? Hún birtist í enskri útgáfu Varðturnsins 1. desember 1996. Lastu frásögu Penelope Makris? Hún er frábært fordæmi um kristna ráðvendni! Manstu hvað hún þurfti að þola af hendi nágranna, hvernig hún barðist gegn alvarlegum sjúkdómi og hvað hún lagði á sig til að halda áfram að þjóna í fullu starfi? Hvað um gefandi reynslu hennar í Mytilene? Kjarni málsins er þessi: Líturðu á slík dæmi sem hjálp til að skipa málum í rétta forgangsröð, að láta það vera mikilvægast í lífinu að gera vilja Guðs?
15. Nefndu nokkur verk Jehóva sem við ættum að íhuga.
15 Það styrkir okkur að íhuga verk Jehóva eins og Davíð gerði. Jehóva gerði þá ráðstöfun að menn gætu hlotið hjálpræði vegna dauða sonar síns, upprisu og upphafningu. (1. Tímóteusarbréf 3:16) Hann hefur stofnað himneskt ríki sitt, úthýst Satan og illum öndum hans af himnum og endurreist sanna tilbeiðslu hér á jörð. (Opinberunarbókin 12:7-12) Hann hefur byggt upp andlega paradís og blessað fólk sitt með aukningu. (Jesaja 35:1-10; 60:22) Fólk hans er núna að bera lokavitni áður en þrengingin mikla skellur á. (Opinberunarbókin 14:6, 7) Já, við höfum margt að íhuga.
16. Hvað erum við hvött til að láta okkur umhugað um og hvað minnir það okkur á?
16 Með því að láta okkur umhugað um handaverk Guðs í stað þess að vera upptekin af viðleitni manna erum við minnt á hve ógurlegur máttur hans er. En þessi verk takmarkast ekki við hin frábæru efnislegu sköpunarverk á himni og jörð. (Jobsbók 37:14; Sálmur 19:2; 104:24) Jehóva frelsaði fólk sitt undan óvinakúgun, eins og útvalin þjóð hans til forna er dæmi um, og það er líka þáttur í stórkostlegum verkum hans. — 2. Mósebók 14:31; 15:6.
Að þekkja veginn sem við eigum að ganga
17. Hve raunverulegur var Jehóva Davíð og hvernig er það hughreystandi fyrir okkur?
17 Davíð bað um hjálp svo að lífsvökvi hans þornaði ekki upp: „Ég breiði út hendurnar í móti þér, sál mín er sem örþrota land fyrir þér. Flýt þér að bænheyra mig, [Jehóva], andi minn örmagnast, byrg eigi auglit þitt fyrir mér, svo að ég verði ekki líkur þeim, er gengnir eru til grafar.“ (Sálmur 143:6, 7) Þótt Davíð væri syndari vissi hann að Guð þekkti aðstæður hans. (Sálmur 31:8) Stundum finnst okkur kannski líka að andlegur þróttur okkar sé að fjara út. En ástandið er alls ekki vonlaust. Jehóva, sem heyrir bænir okkar, getur hraðað viðreisn okkar og hresst okkur með hjálp kærleiksríkra öldunga, greina í Varðturninum eða dagskrárliða á samkomu sem virðast fluttir sérstaklega fyrir okkur. — Jesaja 32:1, 2.
18, 19. (a) Hvað ættum við að biðja Jehóva einlæglega um? (b) Hvað megum við vera viss um?
18 Traust okkar til Jehóva fær okkur til að sárbæna hann: „Lát þú mig heyra miskunn þína . . . því að þér treysti ég. Gjör mér kunnan þann veg, er ég á að ganga.“ (Sálmur 143:8) Brást hann systur Makris þar sem hún var einöngruð á grískri ey? Heldurðu þá að hann bregðist þér þegar þú lætur vilja hans vera mikilvægastan í lífi þínu? Djöfullinn og útsendarar hans vilja gjarnan hindra þig í að boða Guðsríki eða fá þig til að hætta því alveg. Hvort sem við þjónum í landi þar sem sönn guðsdýrkun er almennt leyfð eða þar sem hún er takmörkunum háð eru bænir okkar samhljóða beiðni Davíðs: „Frelsa mig frá óvinum mínum, [Jehóva], ég flý á náðir þínar.“ (Sálmur 143:9) Öryggi okkar gagnvart andlegri ógæfu er fólgið í því að búa í skjóli hins hæsta. — Sálmur 91:1.
19 Sannfæring okkar um hvað sé mikilvægast er byggð á traustum grunni. (Rómverjabréfið 12:1, 2) Spornaðu þá gegn tilraunum heimsins til að þröngva upp á þig því sem hann telur mikilvægt samkvæmt fyrirætlunum manna. Láttu allt líf þitt endurspegla það sem þú veist að er mikilvægast — að gera vilja Guðs. — Matteus 6:10; 7:21.
20. (a) Hvað höfum við lært um Davíð í Sálmi 143:1-9? (b) Hvernig endurspegla kristnir menn nú á tímum sama anda og Davíð?
20 Fyrstu níu versin í Sálmi 143 leggja áherslu á náið einkasamband Davíðs við Jehóva. Þegar óvinirnir þrengdu að honum sárbændi hann Guð um leiðsögn. Hann úthellti hjarta sínu og leitaði hjálpar til að ganga réttan veg. Eins er það núna hjá leifum hinna andasmurðu á jörðinni og félögum þeirra. Þeir álíta samband sitt við Jehóva dýrmætt og sárbæna hann um leiðsögn. Þeir láta það ganga fyrir að gera vilja Guðs, þrátt fyrir þrýsting djöfulsins og heimsins.
21. Hvers vegna er mikilvægt fyrir okkur að setja gott fordæmi ef við ætlum að kenna öðrum hvað eigi að vera mikilvægast í lífi þeirra?
21 Milljónir manna, sem eru að kynna sér Biblíuna með hjálp votta Jehóva, þurfa gera sér ljóst að það mikilvægasta í lífinu er að gera vilja Guðs. Við getum hjálpað þeim að skilja það þegar við förum yfir 13. kafla bókarinnar Þekking sem leiðir til eilífs lífs sem leggur áherslu á meginreglur tengdar því að hlýða orðinu. * Þeir ættu auðvitað að sjá okkur sem lifandi dæmi þess sem við erum að kenna þeim. Eftir tiltölulega skamman tíma læra þeir líka að þekkja veginn sem þeir eiga að ganga. Þegar þessar milljónir manna skilja hvað ætti að vera allra mikilvægast í lífi þeirra, þá finna margir hjá sér löngun til að vígjast og skírast. Eftir það getur söfnuðurinn hjálpað þeim að halda áfram að ganga veg lífsins.
22. Hvaða spurningar er fjallað um í næstu grein?
22 Margir viðurkenna fúslega að vilji Guðs ætti að skipta langmestu máli í lífi þeirra. En hvernig kennir Jehóva þjónum sínum jafnt og þétt að gera vilja sinn? Hvaða gagn hafa þeir af því? Rætt er um þessar spurningar í greininni á eftir samhliða umfjöllun um mikilvægt vers, Sálm 143:10.
[Neðanmáls]
^ Gefin út á ensku árið 1992 af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
^ Gefin út árið 1995 af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvernig getum við notað Filippíbréfið 1:9, 10 til að skipa málum okkar í forgangsröð?
◻ Hvernig sýndi Jesús hvað væri mikilvægast í lífi hans?
◻ Hvað getum við lært af því sem Davíð gerði þegar hann átti í prófraunum?
◻ Á hvaða veg hjálpar Sálmur 143:1-9 okkur nú á dögum?
◻ Hvað ætti að vera mikilvægast í lífi okkar?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 10]
Verk Davíðs sönnuðu að hann reiddi sig á Jehóva.
[Rétthafi]
Eftir Illustrirte Pracht - Bibel/Heilige Schrift des Alten und Neuen Testaments, nach der deutschen Uebersetzung D. Martin Luther’s