Kennt að gera vilja Jehóva
Kennt að gera vilja Jehóva
„Kenn mér að gjöra vilja þinn, því að þú ert minn Guð.“ — SÁLMUR 143:10.
1, 2. (a) Hvenær ættum við að fá kennslu og með hvaða raunsæi að leiðarljósi? (b) Hvers vegna er svona mikilvægt að Jehóva kenni okkur?
VIÐ getum lært eitthvað gagnlegt hvern einasta dag sem við lifum og störfum. Það gildir jafnt um þig sem aðra. En hvað gerist við dauðann? Dánum manni verður ekkert kennt og hann getur ekkert lært. Biblían segir greinilega að hinir dánu ‚viti ekki neitt.‘ Engin þekking er í dánarheimum eða Séol, sameiginlegri gröf mannkyns. (Prédikarinn 9:5, 10) Merkir það þá að það sé til einskis að láta kenna sér og viða að sér þekkingu? Það er undir því komið hvað okkur er kennt og til hvers við notum þekkinguna.
2 Ef okkur eru aðeins kennd veraldleg fræði höfum við enga varanlega framtíðarvon. En sem betur fer er verið að kenna milljónum manna af öllum þjóðum vilja Guðs með eilíft líf fyrir augum. Þessi von byggist á því að Jehóva, uppspretta lífgandi þekkingar, kenni okkur. — Sálmur 94:9-12.
3. (a) Hvers vegna má segja að Jesús hafi verið fyrsti nemandi Guðs? (b) Hvernig erum við fullvissuð um að Jehóva myndi kenna mönnum og með hvaða árangri?
3 Frumgetnum syni Guðs, fyrsta nemanda hans, var kennt að gera vilja föður síns. (Orðskviðirnir 8:22-30; Jóhannes 8:28) Jesús benti síðan á að faðir hans myndi kenna ótal mönnum. Hvaða horfur höfum við sem lærum af Guði? Jesús sagði: „Hjá spámönnunum er skrifað: ‚Þeir munu allir verða af [Jehóva] fræddir.‘ Hver sem hlýðir á föðurinn og lærir af honum, kemur til mín. . . . Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir, hefur eilíft líf.“ — Jóhannes 6:45-47.
4. Hvernig verða milljónir manna fyrir áhrifum af kennslu Guðs og hvað eiga þeir í vændum?
4 Jesús vitnaði hér í Jesaja 54:13 þar sem táknræn kona Guðs, Síon á himnum, er ávörpuð. Þessi spádómur á sérstaklega við syni hennar, 144.000 andagetna lærisveina Jesú Krists. Leifar þessara andlegu sona eru starfandi nú á dögum og veita forystu kennsluáætlun um heim allan. Árangurinn er sá að milljónir annarra, sem mynda ‚mikinn múg,‘ njóta einnig góðs af kennslu Jehóva. Þeir eiga fyrir sér þá einstæðu framtíð að læra án þess að dauðinn trufli lærdóminn. Hvernig þá? Þeir eiga í vændum að lifa af ‚þrenginguna miklu,‘ sem nálgast óðfluga, og öðlast eilíft líf í paradís á jörð. — Opinberunarbókin 7:9, 10, 13-17.
Aukin áhersla á að gera vilja Guðs
5. (a) Hver er árstextinn fyrir árið 1997? (b) Hvað ætti okkur að finnast um það að sækja kristnar samkomur?
5 Árið 1997 munu vottar Jehóva hafa ofarlega í huga inngangsorðin í Sálmi 143:10: „Kenn mér að gjöra vilja þinn.“ Þetta verður árstexti meira en 80.000 safnaða þeirra um allan heim árið 1997. Þessi orð, sem sett verða upp á áberandi stað í ríkissölum þeirra, minna þá á að safnaðarsamkomurnar eru afbragðsvettvangur til að fá fræðslu frá Guði og njóta góðs af óslitinni fræðsluáætlun. Þegar við hittum bræður okkar á samkomum þar sem við fáum kennslu frá okkar mikla fræðara, ætti okkur að vera innanbrjósts eins og sálmaritaranum sem sagði: „Ég varð glaður, er menn sögðu við mig: ‚Göngum í hús [Jehóva].‘“ — Sálmur 122:1; Jesaja 30:20.
6. Hvað viðurkennum við með orðum Davíðs?
6 Já, við þráum að láta kenna okkur að gera vilja Guðs en ekki vilja óvinar okkar, djöfulsins, eða vilja ófullkominna manna. Við viðurkennum því líkt og Davíð þann Guð sem við dýrkum og þjónum: „Því að þú ert minn Guð. Þinn góði andi leiði mig um slétta braut.“ (Sálmur 143:10) Davíð vildi heldur vera þar sem Jehóva var tilbeðinn en blanda geði við lygara. (Sálmur 26:4-6) Hann gat gengið rétta vegu þar eð andi Guðs stýrði skrefum hans. — Sálmur 17:5; 23:3.
7. Hvernig hefur andi Guðs starfað með kristna söfnuðinum?
7 Hinn meiri Davíð, Jesús Kristur, fullvissaði postulana um að heilagur andi myndi kenna þeim allt og minna þá á allt sem hann hafði sagt þeim. (Jóhannes 14:26) Frá og með hvítasunnunni hefur Jehóva jafnt og þétt verið að opinbera „djúp Guðs“ sem ritað orð hans geymir. (1. Korintubréf 2:10-13) Til þess hefur hann notað sýnilega boðleið sem Jesús kallaði ‚hinn trúa og hyggna þjón.‘ Þjónshópurinn sér fyrir andlegri fæðu sem er notuð við kennsluáætlun safnaða fólks Guðs um heim allan. — Matteus 24:45-47.
Vilji Jehóva kenndur á samkomum
8. Hvers vegna er svona verðmætt að taka þátt í Varðturnsnáminu?
8 Efni vikulega Varðturnsnámsins í söfnuðunum fjallar oft um það hvernig beita eigi meginreglum Biblíunnar. Það hjálpar okkur tvímælalaust að takast á við áhyggjur lífsins. Á öðrum námssamkomum er fjallað um djúp, andleg sannindi eða biblíuspádóma. Okkur er svo sannarlega kennt mikið á slíkum samkomum! Víða um lönd eru ríkissalirnir troðfullir á þessum samkomum. En annars staðar hefur samkomusókn dvínað. Hvers vegna heldurðu að það sé? Getur verið að sumir leyfi veraldlegri vinnu að hindra sig í að koma reglulega saman í þeim tilgangi að ‚hvetja til kærleika og góðra verka‘? Eða getur verið að svo mikill tími fari í félagslíf eða í að horfa á sjónvarp að það virðist ekki tími til að sækja allar samkomurnar? Rifjaðu upp hina innblásnu hvatningu í Hebreabréfinu 10:23-25. Er ekki mikilvægara núna að koma saman til að fá kennslu frá Guði þegar við ‚sjáum að dagurinn færist nær‘?
9. (a) Hvernig getur þjónustusamkoman undirbúið okkur fyrir boðunarstarfið? (b) Hvernig ættum við að líta á boðunarstarfið?
9 Boðunarstarfið er ein helsta ábyrgð okkar. Þjónustusamkoman er til þess ætluð að kenna okkur að gera því góð skil. Við lærum að taka fólk tali, fáum leiðbeiningar um hvað við eigum að segja, hvernig við eigum að bregðast við jákvæðum viðtökum og jafnvel hvað við eigum að gera þegar fólk hafnar boðskapnum. (Lúkas 10:1-11) Þegar sýndar eru áhrifaríkar aðferðir og fjallað um þær á þessari vikulegu samkomu erum við vel í stakk búin til að ná sambandi við fólk, bæði þegar við prédikum hús úr húsi, á götum úti, á bílastæðum, í almennum samgöngutækjum, á flugvöllum, á viðskiptasvæðum og í skólum. Í samræmi við beiðni okkar, „kenn mér að gjöra vilja þinn,“ viljum við notfæra okkur hvert tækifæri til að gera eins og meistarinn hvatti til: „Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna, að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum.“ — Matteus 5:16.
10. Hvernig getum við hjálpað ‚verðugum‘?
10 Á slíkum safnaðarsamkomum er okkur líka kennt að gera aðra að lærisveinum. Þegar við höfum fundið áhuga eða dreift ritum stefnum við að því að hefja heimabiblíunám þegar við heimsækjum fólk aftur. Í vissum skilningi er það áþekkt því að lærisveinarnir ‚höfðu aðsetur hjá verðugum‘ til að kenna þeim það sem Jesús hafði boðið. (Matteus 10:11; 28:19, 20) Við höfum afbragðsgóð hjálpargögn, til dæmis bókina Þekking sem leiðir til eilífs lífs, og erum þar af leiðandi mjög vel undir það búin að gera þjónustu okkar rækileg skil. (2. Tímóteusarbréf 4:5) Í hverri viku á þjónustusamkomunni og í Guðveldisskólanum skaltu reyna að skilja og síðan nota gagnleg kennsluatriði. Það ber vitni um að þú sért hæfur þjónn Guðs sem gerir vilja hans. — 2. Korintubréf 3:3, 5; 4:1, 2.
11. Hvernig hafa sumir sýnt trú á orðin í Matteusi 6:33?
11 Það er vilji Guðs að við ‚leitum fyrst ríkis hans og réttlætis.‘ (Matteus 6:33) Spyrðu þig hvernig þú myndir fara eftir þessari meginreglu ef vinnan stangaðist á við samkomusókn þína eða maka þíns. Margir andlega þroskaðir boðberar myndu ræða málið við vinnuveitanda sinn. Systir nokkur, sem var boðberi í fullu starfi, sagði vinnuveitanda sínum að hún þyrfti að fá frí í hverri viku til að sækja safnaðarsamkomur. Hann varð við ósk hennar. En hann var forvitinn að sjá hvað fram færi á samkomunum og spurði hvort hann mætti koma. Þar heyrði hann tilkynningu um væntanlegt umdæmismót. Hann gerði þá ráðstafanir til að vera heilan dag á mótinu. Hvaða lærdóm dregur þú af þessu dæmi?
Guðræknir foreldrar kenna börnum sínum að gera vilja Jehóva
12. Hvað ættu kristnir foreldrar að gera með þolinmæði og festu til að kenna börnum sínum vilja Jehóva?
12 En safnaðarsamkomur og mót eru ekki eina ráðstöfunin sem gerð er til að kenna vilja Guðs. Guðræknum foreldrum er sagt að kenna, aga og ala börn sín upp til að lofa Jehóva og gera vilja hans. (Sálmur 148:12, 13; Orðskviðirnir 22:6, 15) Til þess þarf að taka börnin með á samkomur þar sem þau geta ‚hlýtt á og lært.‘ En hvað um kennslu í Heilagri ritningu heima fyrir? (5. Mósebók 31:12; 2. Tímóteusarbréf 3:15) Margar fjölskyldur hafa samviskusamlega komið af stað reglulegu fjölskyldubiblíunámi sem hefur síðan orðið óreglulegt eða fjarað út á skömmum tíma. Hefur það gerst hjá þér? Heldurðu þá að sú hvatning að hafa slíkt reglulegt nám sé út í hött eða að fjölskylda þín sé svo ólík öðrum að það henti ykkur ekki? Hvernig sem ástatt er ættuð þið foreldrar að rifja upp hinar ágætu greinar „Ríkuleg, andleg arfleifð okkar“ („Our Rich Spiritual Heritage“) og „Umbun þrautseigjunnar“ („The Rewards of Persistence“) í enskri útgáfu Varðturnsins hinn 1. ágúst 1995.
13. Hvernig geta fjölskyldur haft gagn af því að hugleiða dagstextann?
13 Fjölskyldur eru hvattar til að venja sig á að fara yfir dagstextann í Rannsökum daglega ritningarnar. Það eitt að lesa textann og athugasemdirnar er ágætt, en það er enn gagnlegra að ræða um textann og fara eftir honum. Ef verið væri að fara yfir Efesusbréfið 5:15-17, svo dæmi sé tekið, gæti fjölskyldan rætt um hvernig hægt væri að ‚nota hverja stundina‘ til einkanáms, til þátttöku í einhverri þjónustugrein í fullu starfi og til að sinna öðrum guðræðislegum verkefnum. Já, umræður fjölskyldunnar um dagstextann gætu hjálpað einhverjum eða mörgum til að „skilja [enn betur], hver sé vilji Drottins.“
14. Hvers konar kennarar ættu foreldrar að vera samkvæmt 5. Mósebók 6:6, 7 og hvað útheimtir það?
14 Foreldrar verða að vera duglegir að kenna börnum sínum. (5. Mósebók 6:6, 7) En kennsla er meira en að lesa yfir börnunum eða skipa þeim fyrir. Foreldrar ættu líka að hlusta og kynnast þannig betur hvað þurfi að útskýra, undirstrika eða endurtaka. Í einni kristinni fjölskyldu stuðla foreldrarnir að opinskáum tjáskiptum með því að hvetja börnin til að spyrja spurninga um það sem þau skilja ekki eða veldur þeim áhyggjum. Þannig komust foreldrarnir að raun um að sonur þeirra á unglingsaldri átti erfitt með að skilja það að Jehóva ætti sér ekkert upphaf. Foreldrarnir gátu notað efni í ritum Varðturnsfélagsins til að sýna honum að tími og rúm séu talin endalaus. Það skýrði málið fyrir syni þeirra og gerði hann ánægðan. Taktu þér tíma til að svara spurningum barna þinna skýrt og frá Ritningunni og sýndu þeim fram á að það geti verið mjög ánægjulegt að læra að gera vilja Guðs. Hvað annað er verið að kenna fólki Guðs — ungu sem öldnu — nú á dögum?
Kennt að elska og berjast
15. Hvenær gæti reynt á hvort bróðurást okkar er einlæg?
15 Í samræmi við nýtt boðorð Jesú ‚kennir Guð okkur að elska hver annan.‘ (1. Þessaloníkubréf 4:9) Þegar allt er með kyrrð og spekt og gengur vel finnst okkur að við elskum alla bræður okkar. En hvað gerist þegar ágreiningur kemur upp eða við móðgumst vegna þess sem annar kristinn maður segir eða gerir? Þá reynir kannski á hvort kærleikur okkar sé einlægur. (Samanber 2. Korintubréf 8:8.) Hvað kennir Biblían okkur að gera í slíkum tilvikum? Meðal annars að leitast við að sýna kærleika í fyllsta skilningi. (1. Pétursbréf 4:8) Í stað þess að hugsa fyrst og fremst um eigin hag, reiðast út af minni háttar mistökum annarra eða vera langrækin, ættum við að leggja okkur fram um að láta kærleikann hylja fjölda synda. (1. Korintubréf 13:5) Við vitum að það er vilji Guðs því að orð hans kennir það.
16. (a) Hvers konar hernaði er kristnum mönnum kennt að taka þátt í? (b) Hvernig erum við búin?
16 Fæstir myndu sennilega tengja kærleika hernaði en það er samt verið að kenna okkur hernað af sérstakri tegund. Davíð gerði sér ljóst að hann væri háður því að Jehóva kenndi honum að heyja stríð, og á þeim tíma fól það í sér bókstaflegan hernað gegn óvinum Ísraels. (1. Samúelsbók 17:45-51; 19:8; 1. Konungabók 5:3; Sálmur 144:1) Hvað um baráttu okkar nú á tímum? Vopn okkar eru ekki jarðnesk. (2. Korintubréf 10:4) Við eigum í andlegri baráttu og til hennar verðum við að vera búin andlegum herklæðum. (Efesusbréfið 6:10-13) Fyrir milligöngu orðs síns og safnaðar kennir Jehóva okkur að berjast árangursríkri, andlegri baráttu.
17. (a) Hvaða herkænsku beitir Satan til að beina athygli okkar á aðrar brautir? (b) Hvað er viturlegt af okkur að forðast?
17 Með lævísi og blekkingum notar djöfullinn oft veraldlegar freistingar, fráhvarfsmenn og aðra andstæðinga sannleikans til að reyna að beina kröftum okkar og athygli að málum sem litlu skipta. (1. Tímóteusarbréf 6:3-5, 11; Títusarbréfið 3:9-11) Það er eins og hann sjái að hann hafi litla möguleika á að sigra okkur með beinni árás, þannig að hann reynir að fella okkur með því að fá okkur til að viðra uppáhaldsumkvörtunarefni okkar og heimskulegar spurningar sem hafa ekkert andlegt gildi. Eins og vökulir hermenn ættum við að vera jafnvakandi fyrir slíkum hættum og fyrir beinum árásum. — 1. Tímóteusarbréf 1:3, 4.
18. Hvað er raunverulega fólgið í því að lifa ekki framar fyrir sjálfa okkur?
18 Við erum ekki að koma löngunum manna eða vilja þjóðanna á framfæri. Jehóva hefur kennt okkur með fordæmi Jesú að við megum ekki lifa lengur fyrir sjálfa okkur heldur ættum við að herklæðast sama hugarfari og Kristur Jesús og lifa fyrir vilja Guðs. (2. Korintubréf 5:14, 15) Sum okkar voru kannski mjög hóflaus og lastafull í fortíðinni og sólunduðum dýrmætum tíma. Óhóf, drykkjuskapur og siðleysi einkenna þennan illa heim. Núna er verið að kenna okkur að gera vilja Guðs. Erum við ekki þakklát að vera aðgreind frá þessum spillta heimi? Heyjum því harða, andlega baráttu til að flækja okkur ekki í spillandi, veraldlegri háttsemi. — 1. Pétursbréf 4:1-3.
Kennt að gera það sem okkur er gagnlegt
19. Hvaða gagn er að því að læra vilja Jehóva og gera hann síðan?
19 Það er mikilvægt að gera sér ljóst að það er mjög gagnlegt fyrir okkur að læra að gera vilja Jehóva. Eins og skiljanlegt er verðum við að leggja okkar af mörkum með því að fylgjast vandlega með þannig að við getum lært og síðan framfylgt þeim fyrirmælum sem við fáum fyrir milligöngu sonar hans, orðs og safnaðar. (Jesaja 48:17, 18; Hebreabréfið 2:1) Með því styrkjum við okkur til að vera staðföst á þessum óheillatímum og standa af okkur storma framtíðarinnar. (Matteus 7:24-27) Við þóknumst Guði nú þegar með því að gera vilja hans og tryggjum þannig að bænum okkar sé svarað. (Jóhannes 9:31; 1. Jóhannesarbréf 3:22) Og við njótum ósvikinnar hamingju. — Jóhannes 13:17.
20. Hvað væri gott fyrir þig að hugleiða þegar þú sérð árstextann árið 1997?
20 Árið 1997 höfum við mörg tækifæri til að lesa og hugleiða árstextann í Sálmi 143:10: „Kenn mér að gjöra vilja þinn.“ Um leið og við gerum það skulum við af og til íhuga þær ráðstafanir sem Guð hefur gert til að kenna okkur eins og greint er frá hér á undan. Og þegar við hugleiðum þessi orð skulum við láta það örva okkur til að hegða okkur í samræmi við þessa bæn, í þeirri vissu að ‚sá sem geri Guðs vilja vari að eilífu.‘ — 1. Jóhannesarbréf 2:17.
Hvert er svar þitt?
◻ Hverjum er kennt að gera vilja Jehóva nú á dögum?
◻ Hvernig ætti Sálmur 143:10 að hafa áhrif á okkur á árinu 1997?
◻ Hvernig er okkur kennt að gera vilja Jehóva?
◻ Hvers er krafist af kristnum foreldrum í sambandi við kennslu barna sinna?
[Spurningar]