Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sannleikurinn um Jesú

Sannleikurinn um Jesú

Sannleikurinn um Jesú

KENNINGAR og tilgátur um það hver Jesús hafi verið og hverju hann hafi áorkað virðast endalausar. En hvað um Biblíuna sjálfa? Hvað segir hún okkur um Jesú Krist?

Það sem Biblían segir

Ef þú lest Biblíuna vandlega kemurðu auga á nokkur lykilatriði:

◻ Jesús er eingetinn sonur Guðs, frumburður allrar sköpunar. — Jóhannes 3:16; Kólossubréfið 1:15.

◻ Fyrir um tvö þúsund árum flutti Guð líf Jesú í móðurlíf Gyðingameyjar til að hann fæddist sem maður. — Matteus 1:18; Jóhannes 1:14.

◻ Jesús var meira en bara góður maður. Hann var á allan hátt sönn eftirmynd hins fagra persónuleika föður síns, Jehóva Guðs. — Jóhannes 14:9, 10; Hebreabréfið 1:3.

◻ Meðan jarðnesk þjónusta Jesú stóð yfir sinnti hann þörfum kúgaðra af ást og umhyggju. Með kraftaverkum læknaði hann sjúka og reisti jafnvel upp dána. — Matteus 11:4-6; Jóhannes 11:5-45.

◻ Jesús boðaði ríki Guðs sem einu von þjáðs mannkyns, og hann þjálfaði lærisveina sína til að halda þessu prédikunarstarfi áfram. — Matteus 4:17; 10:5-7; 28:19, 20.

◻ Hinn 14. nísan (um 1. apríl) árið 33 var Jesús handtekinn, leiddur fyrir rétt, dæmdur og líflátinn fyrir upplognar sakir um undirróðursstarfsemi. — Matteus 26:18-20, 48–27:50.

◻ Dauði Jesú þjónar sem lausnargjald og leysir trúaða menn undan syndinni, og opnar þannig öllum leiðina til eilífs lífs sem trúa á hann. — Rómverjabréfið 3:23, 24; 1. Jóhannesarbréf 2:2.

◻ Hinn 16. nísan var Jesús reistur upp frá dauðum og skömmu síðar steig hann aftur upp til himna til að greiða föður sínum lausnargjaldið sem fólst í fullkomnu mannslífi hans. — Markús 16:1-8; Lúkas 24:50-53; Postulasagan 1:6-9.

◻ Hinn upprisni Jesús er skipaður konungur Jehóva og hefur fullt vald til að hrinda í framkvæmd upphaflegum tilgangi hans með manninn. — Jesaja 9:6, 7; Lúkas 1:32, 33.

Biblían lýsir Jesú þannig sem aðalpersónunni í framvindu tilgangs Guðs. En hvernig geturðu verið viss um að þetta sé hinn raunverulegi Jesús — Jesús mannkynssögunnar sem fæddist í Betlehem og gekk um hér á jörð fyrir næstum 2000 árum?

Fullt tilefni trausts

Mörgum efasemdum má eyða með því einu að lesa kristnu Grísku ritningarnar með fordómalausum huga. Þannig kemstu að raun um að biblíusagan er ekki óljós og óskýr eins og goðsagnir manna, heldur eru tilgreind nöfn, tímasetningar og nákvæm staðarheiti. (Sjá til dæmis Lúkas 3:1, 2.) Enn fremur er lærisveinum Jesú lýst einstaklega heiðarlega, af traustvekjandi hreinskilni og einlægni. Ritaranir hvítþvo engan — jafnvel ekki sjálfa sig — heldur segja satt og rétt frá. Þú kemst að raun um að Biblían hefur yfir sér ósvikinn sannleiksblæ. — Matteus 14:28-31; 16:21-23; 26:56, 69-75; Markús 9:33, 34; Galatabréfið 2:11-14; 2. Pétursbréf 1:16.

En fleira kemur til. Fornleifafundir hafa aftur og aftur staðfest biblíusöguna. Í Ísraelska safninu í Jerúsalem er hægt að skoða stein sem ber áletrun með nafni Pontíusar Pílatusar. Aðrir fornleifafundir staðfesta að þeir Lýsanías og Sergíus Páll, sem Biblían nefnir, séu sannsögulegar persónur en ekki uppspuni frumkristinna manna. Atburðir, sem lýst er í kristnu Grísku ritningunum (Nýja testamentinu) eru rækilega staðfestir af umsögn fornra ritara, þeirra á meðal Júvenalis, Tacítusar, Seneca, Svetóníusar, Plíníusar yngri, Lúcíanusar, Celsusar og gyðingasagnfræðingsins Jósefusar. *

Þúsundir manna á fyrstu öld viðurkenndu frásagnir kristnu Grísku ritninganna án efasemda. Jafnvel óvinir kristninnar afneituðu ekki sannleiksgildi þess sem Jesús átti að hafa sagt og gert. Um þann möguleika að lærisveinar Jesú hafi skreytt og ýkt hlutverk hans eftir dauða hans segir prófessor F. F. Bruce: „Það hefur ekki verið jafnauðvelt og sumir virðast ætla að spinna upp sögu um orð og verk Jesú á þessum árum þegar svo margir lærisveinar hans voru enn á lífi og gátu munað hvað hafði gerst og hvað ekki. . . . Lærisveinarnir gátu ekki leyft sér að hætta á neina ónákvæmni (að ekki sé nú talað um vísvitandi staðreyndafölsun) því hún hefði þegar í stað verið afhjúpuð af þeim sem hefðu tekið slíku tækifæri tveim höndum.“

Hvers vegna trúa þeir ekki?

En sumir fræðimenn eru efagjarnir. Þeir gera ráð fyrir að frásaga Biblíunnar sé uppspuni en grannskoða svo apókrýfurit og viðurkenna þau sem góð og gild! Af hverju? Augljóslega af því að Biblían hefur eitthvað að geyma sem menntamenn nútímans vilja ekki trúa.

Í bók sinni Union Bible Companion, sem út kom árið 1871, setti S. Austin Allibone fram áskorun til efasemdamanna. Hann skrifaði: „Spyrðu hvern þann sem segist efast um sannleiksgildi guðspjallasögunnar hvaða ástæðu hann hafi til að trúa að Sesar hafi dáið í þinghúsinu eða að Leó páfi III hafi krýnt Karlamagnús keisara Vestrómverska ríkisins árið 800. . . . Við trúum öllum þessum fullyrðingum um ofangreinda menn vegna þess að við höfum sagnfræðilegar sannanir fyrir þeim. . . . Ef einhver neitar enn að trúa þegar sannanir svo sem þessar eru lagðar fram, þá látum við hann eiga sig sem heimskan þverhaus eða vonlausan fáfræðing. Hvað eigum við þá að segja um þá sem segjast ekki sannfærðir þrátt fyrir þær ríkulegu sannanir sem nú hafa verið lagðar fram um trúverðugleika Heilagrar ritningar? . . . Þeir [vilja] ekki trúa því sem lækkar í þeim rostann og neyðir þá til að breyta um lífsstefnu.“

Já, sumir efasemdamenn hafa annarlegar hvatir fyrir því að hafna kristnu Grísku ritningunum. Það er ekki trúverðugleiki guðspjallanna sem er vandamálið heldur lífsreglur þeirra. Til dæmis sagði Jesús um fylgjendur sína: „Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.“ (Jóhannes 17:14) En margir, sem kalla sig kristna, eru á kafi í stjórnmálavafstri þessa heims og taka jafnvel þátt í blóðugum styrjöldum hans. Margir vilja heldur laga Biblíuna að lífsreglum sínum en að laga sig að lífsreglum hennar.

Tökum siðferðismál einnig sem dæmi. Jesús setti alvarlega ofan í við söfnuðinn í Þýatíru fyrir að umbera saurlifnað. „Ég er sá, sem rannsakar nýrun og hjörtun,“ sagði hann safnaðarmönnum, „og ég mun gjalda yður, hverjum og einum, eftir verkum yðar.“ * (Opinberunarbókin 2:18-23) En er það ekki staðreynd að margir, sem kalla sig kristna, virða allar siðferðisreglur að vettugi? Þeir vilja heldur hafna orðum Jesú en siðlausu líferni sínu.

Fræðimönnum er þvert um geð að viðurkenna Jesú Biblíunnar og hafa þess vegna skapað annan Jesú eftir sínu höfði. Þeir gera sig seka um þá goðsagnagerð sem þeir saka guðspjallaritarana ranglega um. Þeir halda þeim æviköflum Jesú sem þeir vilja viðurkenna en hafna hinu, og bæta svo ýmsu við frá eigin brjósti. Sannleikurinn er sá að farandspekingurinn þeirra eða þjóðfélagsbyltingarmaðurinn er ekki sá Jesús mannkynssögunnar sem þeir segjast vera að leita, heldur er hann hugarburður rembilátra fræðimanna.

Að finna hinn sanna Jesú

Jesús leitaðist við að vekja hjörtu þeirra sem hungraði einlæglega í sannleika og réttlæti. (Matteus 5:3, 6; 13:10-15) Þeir þiggja boð Jesú: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ — Matteus 11:28-30.

Hinn raunverulega Jesú er hvorki að finna í bókum nútímafræðimanna né í kirkjum kristna heimsins sem eru orðnar að gróðrarstíu mannakenninga. Þú finnur hinn sannsögulega Jesú í biblíunni þinni. Langar þig til að fræðast meira um hann? Vottar Jehóva eru meira en fúsir til að aðstoða þig.

[Neðanmáls]

^ Nánari upplýsingar er að finna í bókinni Biblían — orð Guðs eða manna?, 5. kafla bls. 55-70, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

^ Í Biblíunni tákna nýru stundum innstu hugsanir og tilfinningar mannsins.

[Rammi á blaðsíðu 6]

ALDALÖNG GAGNGRÝNI

Gagnrýni á kristnu Grísku ritningarnar náði fótfestu fyrir meira en 200 árum þegar þýski heimspekingurinn Hermann Samuel Reimarus (1694-1768) staðhæfði: „Það er réttlætanlegt af okkur að gera skýran greinarmun á kenningu postularitanna og því sem Jesús boðaði og kenndi sjálfur ­meðan hann var uppi.“ Allar götur frá dögum Reimarusar hefur fræðimönnum verið kennt að hugsa eins.

Bókin The Real Jesus nefnir að margir gagnrýnendur fortíðar hafi ekki talið sig fráhvarfsmenn heldur „litið á sig sem þeim mun sannkristnari fyrir að hafa hrist af sér fjötra kreddna og hjátrúar.“ Þeir töldu hina æðri biblíugagnrýni vera „fágað form kristninnar.“

Það er sorgleg staðreynd að kristni heimurinn er orðinn gróðrarstía mannakenninga. Ódauðleg sál, þrenning og logandi víti eru aðeins dæmi um kennisetningar sem stangast á við Biblíuna. En ritarar kristnu Grísku ritninganna báru ekki ábyrgð á því að sannleikurinn spilltist með þessum hætti. Þeir börðust einarðlega gegn fyrstu ummerkjum falskra kenninga um miðbik fyrstu aldar þegar Páll skrifaði að fráhvarfið væri „þegar farið að starfa“ meðal þeirra sem játuðu kristni. (2. Þessaloníkubréf 2:3, 7) Við getum treyst að kristnu Grísku ritningarnar geymi sanna sögu og ómengaðar kenningar.

[Rammi á blaðsíðu 7]

HVENÆR VORU GUÐSPJÖLLIN SKRIFUÐ?

Margir gagnrýnendur Nýja testamentisins halda því fram að guðspjöllin hafi verið skrifuð löngu eftir atburðina sem þau segja frá, og séu þar af leiðandi örugglega ónákvæm í mörgu.

En rök hníga að því að Matteusar-, Markúsar- og Lúkasarguðspjall hafi verið skrifuð snemma. Neðanmálsvísar í sumum handritum Matteusarguðspjalls benda til að það hafi jafnvel verið skrifað árið 41. Lúkasarguðspjall var sennilega skrifað einhvern tíma á árabilinu 56 til 58, því að Postulasagan (sem líklega var lokið árið 61) gefur til kynna að ritarinn Lúkas hafi þá verið búinn að semja „fyrri sögu“ sína, guðspjallið. (Postulasagan 1:1) Markúsarguðspjall er talið hafa verið ritað í Róm annaðhvort meðan Páll postuli var fangi þar fyrra sinnið eða hið síðara — sennilega á árabilinu 60 til 65.

Prófessor Craig L. Blomberg tekur undir það að guðspjöllin hafi verið skrifuð snemma. Hann bendir á að jafnvel þótt við teljum Jóhannesarguðspjall með, en það var samið undir lok fyrstu aldar, séum við samt „miklu nær hinum upphaflegu atburðum en margar fornar ævisögur. Svo dæmi sé tekið voru tvær fyrstu ævisögur Alexanders mikla ekki ritaðar fyrr en rúmlega 400 árum eftir dauða hans árið 323 f.o.t. Sagnfræðingar telja þó almennt að þessar ævisögur séu trúverðugar, en það voru þeir Arrí­anos og Plútarchos sem rituðu þær. Með tíð og tíma urðu til kynjasögur af ævi Alexanders, en það var að langmestu leyti á nokkurra alda tímabili eftir daga þessara tveggja sagnaritara.“ Sögulegir kaflar kristnu Grísku ritninganna verðskulda að minnsta kost jafnmikla tiltrú og veraldleg verk.

[Mynd á blaðsíðu 8]

Gleðin verður mikil í hinni komandi paradís á jörð.