Hefur þú trú eins og Abraham?
Hefur þú trú eins og Abraham?
„Mun Mannssonurinn finna trúna á jörðu, þegar hann kemur?“ — LÚKAS 18:8.
1. Af hverju er erfitt að varðveita sterka trú nú á dögum?
ÞAÐ er ekki auðvelt að varðveita sterka trú nú orðið. Heimurinn þrýstir fast á kristna menn í þeim tilgangi að beina athygli þeirra frá því sem andlegt er. (Lúkas 21:34; 1. Jóhannesarbréf 2:15, 16) Margir eiga fullt í fangi með að bjarga sér gegnum styrjaldir, náttúruhamfarir, sjúkdóma eða hungur. (Lúkas 21:10, 11) Víða um lönd gætir sterkrar veraldarhyggju, og það er álitin óskynsemi eða jafnvel ofstæki að lifa eftir trú sinni. Og margir kristnir menn eru ofsóttir fyrir trú sína. (Matteus 24:9) Spurning Jesú fyrir nálega 2000 árum er sannarlega í fullu gildi: „Mun Mannssonurinn finna trúna á jörðu, þegar hann kemur?“ — Lúkas 18:8.
2. (a) Af hverju er sterk trú nauðsynleg fyrir kristinn mann? (b) Hvaða trúarfordæmi er gott að íhuga?
2 En sannleikurinn er sá að sterk trú er forsenda þess að við séum farsæl núna og hljótum hið fyrirheitna eilífa líf í framtíðinni. Páll postuli vitnaði í orð Jehóva við Habakkuk og skrifaði: „Minn réttláti mun lifa fyrir trúna, en skjóti hann sér undan, þá hefur sála mín ekki velþóknun á honum. . . . En án trúar er ógerlegt að þóknast [Guði].“ (Hebreabréfið 10:38–11:6; Habakkuk 2:4) Páll sagði Tímóteusi: „Berstu trúarinnar góðu baráttu, höndla þú eilífa lífið, sem þú varst kallaður til.“ (1. Tímóteusarbréf 6:12) En hvernig er hægt að hafa óhagganlega trú? Til að svara þessari spurningu er gott að hverfa um 4000 ár aftur í tímann og horfa til manns sem er enn þann dag í dag mikils metinn fyrir trú sína, jafnt í íslam, gyðingdómi sem kristni. Þetta er Abraham. Hvað er svona sérstakt við trú hans? Getum við líkt eftir honum?
Hlýðinn fyrirmælum Guðs
3, 4. Hvers vegna fluttist Tara með fjölskyldu sinni frá Úr til Harran?
3 Abraham (upphaflega kallaður Abram) er fyrst nefndur mjög framarlega í Biblíunni. Við lesum í 1. Mósebók 11:26: „Tara . . . gat . . . Abram, Nahor og Haran.“ Tara bjó ásamt fjölskyldu sinni í Úr í Kaldeu, blómlegri borg í sunnanverðri Mesópótamíu, en ekki þó til frambúðar. „Þá tók Tara Abram son sinn og Lot Haransson, sonarson sinn, og Saraí [Söru] tengdadóttur sína, konu Abrams sonar síns, og lagði af stað með þau frá Úr í Kaldeu áleiðis til Kanaanlands, og þau komu til Harran og settust þar að.“ (1. Mósebók 11:31) Nahor, bróðir Abrahams, fluttist einnig til Harran með fjölskyldu sinni. (1. Mósebók 24:10, 15; 28:1, 2; 29:4) En hvers vegna fluttist Tara langan veg frá hinni blómlegu Úr til Harran?
4 Um 2000 árum eftir daga Abrahams skýrði hinn trúfasti Stefán þennan undarlega flutning Tara og fjölskyldu í ræðu fyrir æðstaráði Gyðinga. Hann sagði: „Guð dýrðarinnar birtist föður vorum, Abraham, er hann var enn í Mesópótamíu, áður en hann settist að í Haran, og sagði við hann: ‚Far þú burt úr landi þínu og frá ættfólki þínu til landsins, sem ég mun vísa þér á.‘ Þá fór hann burt úr Kaldealandi og settist að í Haran.“ (Postulasagan 7:2-4) Tara laut vilja Jehóva með Abraham þegar hann flutti nánustu fjölskyldu sína til Harran.
5. Hvert fór Abraham eftir að faðir hans dó? Hvers vegna?
5 Fjölskylda Tara settist að í þessari nýju borg. Mörgum árum síðar talaði Abraham um ‚föðurland sitt‘ og átti þá við Harran og nágrenni en ekki Úr. (1. Mósebók 24:4) En Abraham átti ekki að búa í Harran til langframa. „Eftir lát föður hans leiddi Guð hann þaðan til þessa lands, sem þér nú byggið,“ eins og Stefán sagði. (Postulasagan 7:4) Abraham hlýddi fyrirmælum Jehóva og fór yfir um Efrat inn í Kanaanland ásamt Lot. *
6. Hverju lofaði Jehóva Abraham?
6 Af hverju lét Jehóva Abraham flytjast til Kanaanlands? Það tengdist tilgangi hans með þennan trúfasta mann. Jehóva hafði sagt honum: „Far þú burt úr landi þínu og frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns, til landsins, sem ég mun vísa þér á. Ég mun gjöra þig að mikilli þjóð og blessa þig og gjöra nafn þitt mikið, og blessun skalt þú vera. Ég mun blessa þá, sem þig blessa, en bölva þeim, sem þér formælir, og af þér skulu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta.“ (1. Mósebók 12:1-3) Abraham átti að verða ættfaðir mikillar þjóðar sem skyldi njóta verndar Jehóva og taka Kanaanland til eignar. Þetta var stórkostlegt fyrirheit! En Abraham þurfti að gera róttækar breytingar á lífi sínu til að erfa þetta land.
7. Hvaða breytingar þurfti Abraham að vera tilbúinn að gera til að erfa fyrirheit Jehóva?
7 Abraham yfirgaf blómlega borg þegar hann fór frá Úr og líklega einnig stórfjölskyldu föður síns sem var mikilvægt öryggisnet á ættfeðratímanum. Þegar hann fór frá Harran kvaddi hann fjölskyldu föður síns, þar á meðal fjölskyldu Nahors bróður síns, og fluttist til ókunnugs lands. Í Kanaanlandi leitaði hann ekki að öruggu skjóli innan borgarmúra, því að skömmu eftir að hann kom til landsins sagði Jehóva honum: „Tak þig nú upp og far þú um landið þvert og endilangt, því að þér mun ég gefa það.“ (1. Mósebók 13:17) Abraham, sem var 75 ára, og Sara, 65 ára, hlýddu þessum fyrirmælum. „Fyrir trú settist hann að í hinu fyrirheitna landi eins og útlendingur og hafðist við í tjöldum.“ — Hebreabréfið 11:9; 1. Mósebók 12:4.
Trú eins og Abraham hafði
8. Hvað ættum við að rækta með okkur með hliðsjón af fordæmi Abrahams og annarra votta fortíðar?
8 Abraham og fjölskylda hans eru nefnd með þeim „fjölda votta“ fyrir daga kristninnar sem 11. kafli Hebreabréfsins segir frá. Með hliðsjón af trú þessara þjóna Guðs forðum daga hvetur Páll kristna menn til að ‚létta af sér allri byrði og viðloðandi synd‘ sem er skortur á trú. (Hebreabréfið 12:1) Já, trúarskortur getur hæglega orðið „viðloðandi“ og fjötur um fót. En sannkristnir menn, bæði á okkar tímum og Páls, hafa getað ræktað með sér sterka trú sem jafnast á við trú Abrahams og annarra forðum daga. Páll segir um sjálfan sig og kristna bræður sína: „Vér skjótum oss ekki undan og glötumst, heldur trúum vér og frelsumst.“ — Hebreabréfið 10:39.
9, 10. Á hverju sést að margir hafa sams konar trú nú á tímum og Abraham hafði?
9 Heimurinn hefur vissulega breyst frá því Abraham var uppi. Samt sem áður þjónum við hinum sama ‚Guði Abrahams‘ og hann breytist ekki. (Postulasagan 3:13; Malakí 3:6) Jehóva verðskuldar tilbeiðslu núna alveg eins og á dögum Abrahams. (Opinberunarbókin 4:11) Margir vígjast Jehóva af heilum hug og breyta hverju sem þarf í lífi sínu til að gera vilja hans, líkt og Abraham gerði. Á síðasta ári létu 316.092 manns vígslu sína opinberlega í ljós með því að skírast „í nafni föður, sonar og heilags anda.“ — Matteus 28:19.
10 Fæstir þessara nýkristnu manna þurfa að flytjast til fjarlægs lands til að lifa eftir vígsluheiti sínu. En í andlegum skilningi hafa margir þeirra lagt langa leið að baki. Elsie á eynni Máritíus var seiðkona. Allir hræddust hana. Sérbrautryðjandi hóf biblíunámskeið hjá dóttur hennar og það varð til þess að snúa Elsie „frá myrkri til ljóss.“ (Postulasagan 26:18) Vegna áhuga dótturinnar féllst Elsie á að fara yfir Biblíusögubókina mína. Námskeiðið var haldið þrisvar í viku því að hún þurfti á stöðugri hvatningu að halda. Dulspekin veitti henni enga hamingju og hún átti í alls konar erfiðleikum. Um síðir tókst henni þó að ljúka sinni löngu ferð frá djöfladýrkun til sannrar tilbeiðslu. Þegar fólk kom til að leita þjónustu hennar útskýrði hún fyrir því að enginn nema Jehóva gæti verndað það gegn illu. Elsie er skírður vottur núna og 14 manns úr fjölskyldu hennar og kunningjahópi hafa tekið við sannleikanum.
11. Hvaða breytingar eru þeir sem vígjast Jehóva tilbúnir til að gera?
11 Fæstir þeirra sem vígðust Guði til þjónustu á síðasta ári þurftu að gera svona róttækar breytingar. En allir lifnuðu andlega eftir að hafa verið andlega dauðir. (Efesusbréfið 2:1) Þótt þeir séu enn í heiminum líkamlega eru þeir ekki hluti af honum lengur. (Jóhannes 17:15, 16) Þeir eru eins og ‚gestir og útlendingar,‘ líkt og smurðir kristnir menn sem eiga ‚föðurland á himni.‘ (Filippíbréfið 3:20; 1. Pétursbréf 2:11) Þeir samræmdu líf sitt meginreglum Guðs, knúðir af kærleika til hans og náungans. (Matteus 22:37-39) Þeir sökkva sér hvorki niður í efnishyggju né keppni að eigingjörnum markmiðum, og þeim finnst þeir ekki þurfa að sækja lífsfyllingu til þessa heims. Þeir horfa til fyrirheitsins um ‚nýjan himin og nýja jörð þar sem réttlæti býr.‘ — 2. Pétursbréf 3:13; 2. Korintubréf 4:18.
12. Hvaða starfsemi síðasta árs ber því vitni að Jesús hafi fundið „trúna á jörðu“ á nærverutíma sínum?
12 Þegar Abraham fluttist til Kanaanlands ásamt fjölskyldu sinni voru þau ein þar og höfðu aðeins Jehóva sér til styrks og verndar. En þeir 316.092 sem létu skírast á síðasta ári, eru ekki einir. Að vísu styður Jehóva þá og verndar með anda sínum eins og hann studdi Abraham. (Orðskviðirnir ) En að auki styður hann við bakið á þeim með öflugri og alþjóðlegri „þjóð“ sem er fjölmennari en margar núverandi þjóðir heims. ( 18:10Jesaja 66:8) Þegar flest var á síðasta ári sýndu 5.888.650 þegnar þessarar þjóðar trú sína í verki með því að tala við nágranna sína um fyrirheit Guðs. (Markús 13:10) Þeir vörðu hvorki meira né minna en 1.186.666.708 klukkustundum í að leita að áhugasömu fólki. Árangurinn varð sá að 4.302.852 biblíunámskeið voru haldin til að hjálpa fólki sem vildi rækta með sér trú. Sem annað dæmi um kostgæfni þessarar ‚þjóðar‘ má nefna að 698.781 tók þátt í brautryðjandastarfi, annaðhvort að staðaldri eða að minnsta kosti í einn mánuð. (Ítarlegar upplýsingar um starf votta Jehóva á síðasta ári er að finna á bls. 12 til 15.) Þessar tölur eru jákvætt og lifandi svar við spurningu Jesú: „Mun Mannssonurinn finna trúna á jörðu, þegar hann kemur?“
Trú í prófraunum
13, 14. Lýstu einhverjum af þeim erfiðleikum sem Abraham og fjölskylda hans urðu fyrir í Kanaan.
13 Lífið var oft erfitt fyrir Abraham og fjölskyldu hans í Kanaan. Að minnsta kosti einu sinni þurftu þau að flýja til Egyptalands sökum mikils hallæris í Kanaan. Og valdhafarnir í Egyptalandi og Gerar (í grennd við Gasa) reyndu báðir að taka Söru, konu Abrahams, handa sjálfum sér. (1. Mósebók 12:10-20; 20:1-18) Og þá kom til árekstra milli fjárhirða Abrahams og fjárhirða Lots, og það varð til þess að leiðir skildu með fjölskyldunum. Abraham sýndi þá óeigingirni að leyfa Lot að velja sér land fyrst, og Lot kaus að búa á Jórdansléttlendinu sem var einna líkast Eden sökum frjósemi og fegurðar. — 1. Mósebók 13:5-13.
14 Síðan flæktist Lot í stríð milli konungsins í Elam og bandamanna hans annars vegar, og konunga fimm borga á Siddímsvöllum hins vegar. Erlendu konungarnir sigruðu heimamenn og tóku mikið herfang, þar á meðal Lot og eignir hans. Þegar Abraham frétti það elti hann erlendu konungana óttalaust og tókst að ná Lot og fólki hans, svo og fjármunum heimakonunganna. (1. Mósebók 14:1-16) En þetta var ekki það versta sem kom fyrir Lot í Kanaan. Af einhverri ástæðu settist hann að í Sódómu þrátt fyrir að borgin væri alræmd fyrir siðleysi. * (2. Pétursbréf 2:6-8) Tveir englar vöruðu hann við að borginni yrði eytt og hann flúði ásamt konu sinni og dætrum. En kona Lots braut skýr fyrirmæli englanna með þeim afleiðingum að hún hjúpaðist salti. Lot neyddist til að búa um hríð með dætrum sínum í helli í Sóar. (1. Mósebók 19:1-30) Þessir atburðir hljóta að hafa fengið mjög á Abraham því að Lot hafði tilheyrt fjölskyldu hans þegar hann kom til Kanaanlands.
15. Hvaða hugsunarhátt forðaðist Abraham greinilega þrátt fyrir vandamálin sem fylgdu því að búa í tjöldum í ókunnu landi?
15 Ætli Abraham hafi einhvern tíma velt fyrir sér hvort þeir Lot hefðu átt að búa áfram í öryggi Úr-borgar með stórfjölskyldu föður síns, eða þá í Harran með Nahor bróður sínum? Skyldi hann einhvern tíma hafa óskað þess að hann hefði getað sest að í borg í skjóli öruggra múra í stað þess að búa í tjöldum? Ætli hann hafi kannski efast um að það hafi verið viturlegt af sér að færa þær fórnir sem hann færði með því að búa eins og hirðingi í ókunnu landi? Páll postuli sagði um Abraham og fjölskyldu hans: „Hefðu þeir nú átt við ættjörðina, sem þeir fóru frá, þá hefðu þeir haft tíma til að snúa þangað aftur.“ (Hebreabréfið 11:15) En þeir sneru ekki aftur. Þeir létu þrautirnar ekki á sig fá heldur dvöldust þar sem Jehóva vildi.
Þolgæði nú á tímum
16, 17. (a) Í hvaða erfiðleikum eiga margir kristnir menn? (b) Hvaða jákvæða afstöðu hafa kristnir menn og hvers vegna?
16 Við sjáum sams konar þolgæði í fari kristinna manna nú á tímum. Enda þótt þeir hafi mikla ánægju af því að þjóna Guði er lífið ekki auðvelt núna á síðustu dögum. Þótt þeir búi í andlegri paradís finna þeir fyrir sömu fjárhagsörðugleikum og nágrannarnir. (Jesaja 11:6-9) Margir eru saklaus stríðsfórnarlömb og sumir búa við sárustu örbirgð án þess að sjálfum þeim verði um kennt. Auk þess þurfa þeir að þola þá erfiðleika sem fylgja því að vera óvinsæll minnihluti. Víða um lönd prédika þeir fagnaðarerindið andspænis gríðarlegu sinnuleysi. Sums staðar sæta þeir blekkingarárásum manna sem ‚búa þeim tjón undir yfirskini réttarins‘ og „sakfella saklaust blóð.“ (Sálmur 94:20, 21) Jafnvel í löndum þar sem kristnir menn sæta ekki árásum og hljóta lof fyrir háleitar lífsreglur gera þeir sér fullljóst að þeir eru ólíkir skólafélögum sínum og vinnufélögum — ekki ósvipað Abraham sem bjó í tjöldum þótt flestir umhverfis hann byggju í borgum. Já, það er ekki auðvelt að búa í heiminum en tilheyra honum ekki. — Jóhannes 17:14.
17 Sjáum við þá eftir því að hafa vígst Guði? Óskum við þess að við hefðum tilheyrt heiminum áfram eins og allir aðrir? Hörmum við þær fórnir sem við höfum fært í þjónustu Jehóva? Því fer fjarri! Í stað þess að horfa löngunaraugum um öxl er okkur ljóst að ekkert, sem við höfum fórnað, er nokkurs virði í samanburði við þá blessun sem við njótum núna og eigum í vændum. (Lúkas 9:62; Filippíbréfið 3:8) Og er fólk hamingjusamt í heiminum? Sannleikurinn er sá að margir eru að leita svara sem við höfum þegar fengið. Þeir þjást af því að þeir fylgja ekki þeirri leiðsögn Guðs sem við finnum á blöðum Biblíunnar. (Sálmur 119:105) Og margir þrá sams konar félagsskap og vináttu og við finnum meðal trúsystkina okkar í kristna söfnuðinum. — Sálmur 133:1; Kólossubréfið 3:14.
18. Hver er árangurinn til langs tíma litið þegar kristnir menn sýna sams konar hugrekki og Abraham?
18 Stundum þurfum við að vera hugrökk eins og Abraham þegar hann elti uppi þá sem fönguðu Lot. En Jehóva blessar okkur þegar við gerum það. Svo dæmi séu tekin er hatrið á Norður-Írlandi orðið svo rótgróið sökum sértrúarofbeldis að það þarf hugrekki til að vera hlutlaus. En trúfastir kristnir menn hafa fylgt orðum Jehóva við Jósúa: „Hefi ég ekki boðið þér: Ver þú hughraustur og öruggur? Lát eigi hugfallast og óttast eigi, því að [Jehóva] Guð þinn er með þér í öllu, sem þú tekur þér fyrir hendur.“ (Jósúabók 1:9; Sálmur 27:14) Óttalaus afstaða þeirra um margra ára skeið hefur aflað þeim virðingar, og núna geta þeir prédikað hindrunarlaust í öllum byggðarlögum þar.
19. Hvar vilja kristnir menn allra helst vera og hverju treysta þeir um árangurinn af því að fylgja leiðsögn Jehóva?
19 Við skulum aldrei efast um að það verður Jehóva alltaf til dýrðar og sjálfum okkur til góðs til langs tíma litið ef við fylgjum leiðsögn hans undir öllum kringumstæðum. Þrátt fyrir krefjandi hlutskipti og fórnir, sem við þurfum að færa, viljum við ekkert frekar en að vera í þjónustu Jehóva, njóta félagsskapar kristinna bræðra okkar og horfa með trúartrausti til hinnar eilífu framtíðar sem hann hefur heitið.
[Neðanmáls]
^ Líklega hefur Abraham gengið Lot bróðursyni sínum í föðurstað þegar hann missti föður sinn. — 1. Mósebók 11:27, 28; 12:5.
^ Sumir telja að Lot hafi talið sig öruggari í borginni eftir að hann var tekinn herfangi ásamt ránsfeng konunganna fjögurra.
Manstu?
◻ Af hverju er sterk trú nauðsynleg?
◻ Hvernig sýndi Abraham að hann hafði sterka trú?
◻ Hvernig hefur vígsla í för með sér breytingar í lífi manns?
◻ Af hverju fögnum við því að þjóna Guði þrátt fyrir vandamál sem verða á veginum?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 7]
Abraham var fús til að gera stórar breytingar í lífinu til að erfa fyrirheitið.
[Mynd á blaðsíðu 9]
Ljóst er að Jesús hefur fundið „trúna á jörðu“ á nærverutíma sínum.