Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Stenst verk þitt eldinn?

Stenst verk þitt eldinn?

Stenst verk þitt eldinn?

„Sérhver athugi, hvernig hann byggir.“ — 1. KORINTUBRÉF 3:10.

1. Hvaða vonir binda trúfastir kristnir menn við væntanlega lærisveina?

 KRISTIN hjón einblína á nýfætt barn sitt. Boðberi sér andlit biblíunemanda geisla af ákefð og áhuga. Kristinn öldungur er að kenna á sviðinu og sér áhugasaman mann fylgjast vandlega með í Biblíunni. Þessir trúföstu þjónar Jehóva eru allir vonglaðir. Sú hugsun leitar á hvort þessi einstaklingur, sem þeir eru að horfa á, eigi eftir að elska Jehóva, þjóna honum og varðveita trúfesti við hann. Það gerist auðvitað ekki sjálfkrafa heldur kostar vinnu.

2. Hvernig minnti Páll postuli kristna Hebrea á mikilvægi kennslustarfsins og til hvaða sjálfsrannsóknar gæti það hvatt okkur?

2 Páll postuli, sem var sjálfur afbragðskennari, lagði áherslu á hve mikilvægt væri að kenna og gera menn að lærisveinum. Hann skrifaði: „Tímans vegna ættuð [þið] að vera kennarar.“ (Hebreabréfið 5:12) Hann var að ávarpa kristna menn sem höfðu litlum framförum tekið miðað við aldur í trúnni. Þeir voru engan veginn í stakk búnir til að kenna öðrum heldur þurfti að minna þá á grundvallaratriði sannleikans. Okkur væri öllum hollt að líta af og til í eigin barm til að kanna hve góðir kennarar við erum og hugleiða hvernig við getum bætt okkur. Mannslíf eru í húfi. Hvað getum við gert?

3. (a) Við hvað líkti Páll postuli því að gera menn að lærisveinum? (b) Hvaða mikil sérréttindi höfum við sem kristnir húsasmiðir?

3 Páll líkir því að gera menn að lærisveinum við húsbyggingu. Hann segir fyrst: „Samverkamenn Guðs erum vér, og þér eruð Guðs akurlendi, Guðs hús.“ (1. Korintubréf 3:9) Við tökum þátt í byggingarstarfi sem tengist fólki; við eigum þátt í að gera það að lærisveinum Krists. Í því erum við samverkamenn hans sem „allt hefur gjört.“ (Hebreabréfið 3:4) Hvílík sérréttindi! Athugum hvernig innblásin ráð Páls til Korintumanna geta gert okkur færari í starfi. Við einbeitum okkur sérstaklega að kennslulist okkar. — 2. Tímóteusarbréf 4:2.

Leggðu réttan grunn

4. (a) Hvaða hlutverki gegndi Páll í kristnu byggingarstarfi? (b) Af hverju má segja að bæði Jesús og áheyrendur hans hafi skilið gildi þess að leggja góðan grunn?

4 Bygging þarf að standa á góðum grunni til að vera traust og varanleg. Páll skrifaði: „Eftir þeirri náð, sem Guð hefur veitt mér, hef ég eins og vitur húsameistari lagt grundvöll.“ (1. Korintubréf 3:10) Jesús Kristur tók svipaða líkingu og talaði um hús sem stóð af sér storm af því að það var byggt á traustum grunni. (Lúkas 6:47-49) Jesús vissi mætavel hve góður grunnur skiptir miklu máli. Hann var viðstaddur þegar Jehóva festi undirstöður sjálfrar jarðarinnar. * (Orðskviðirnir 8:29-31) Áheyrendur Jesú vissu líka að traustur grunnur er mjög mikilvægur. Hús þurfti að vera reist á góðum grunni til að standast skyndiflóð og jarðskjálfta sem stundum áttu sér stað í Palestínu. En hvaða grunn eða grundvöll hafði Páll í huga?

5. Hver er grundvöllur kristna safnaðarins og hvernig var því spáð?

5 Páll skrifaði: „Annan grundvöll getur enginn lagt en þann, sem lagður er, sem er Jesús Kristur.“ (1. Korintubréf 3:11) Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Jesú var líkt við grundvöll. Jesaja 28:16 hafði reyndar spáð: „Fyrir því segir hinn alvaldi [Jehóva] svo: Sjá, ég legg undirstöðustein á Síon, traustan stein, óbifanlegan, ágætan hornstein.“ Jehóva hafði lengi ætlað sér að sonur sinn yrði grundvöllur kristna safnaðarins. — Sálmur 118:22; Efesusbréfið 2:19-22; 1. Pétursbréf 2:4-6.

6. Hvernig lagði Páll réttan grundvöll hjá kristnum mönnum í Korintu?

6 Hver er grundvöllurinn hjá kristnum mönnum, hverjum og einum? Eins og Páll sagði er enginn annar grundvöllur hjá sannkristnum mönnum en sá sem orð Guðs leggur — Jesús Kristur. Páll lagði vissulega slíkan grundvöll. Í Korintu, þar sem heimspeki var í hávegum höfð, reyndi hann ekki að vekja hrifningu fólks með því að flíka veraldlegri visku. Hann prédikaði „Krist krossfestan“ sem þjóðirnar vísuðu á bug og þótti óttaleg ‚heimska.‘ (1. Korintubréf 1:23) Páll kenndi að Jesús færi með aðalhlutverk í tilgangi Jehóva. — 2. Korintubréf 1:20; Kólossubréfið 2:2, 3.

7. Hvað má læra af því að Páll skuli kalla sig ‚vitran húsameistara‘?

7 Páll benti á að hann kenndi „eins og vitur húsameistari.“ Þessi orð bera ekki vott um hroka heldur er hann einfaldlega að viðurkenna þá stórkostlegu gjöf sem Jehóva hafði gefið honum — að fá að skipuleggja eða stjórna ákveðnu starfi. (1. Korintubréf 12:28) Við höfum auðvitað ekki fengið þær náðargáfur sem kristnum mönnum á fyrstu öld voru gefnar. Og við lítum kannski ekki á okkur sem færa kennara þótt við séum það í mikilvægum skilningi. Sjáðu til: Jehóva hjálpar okkur með heilögum anda sínum. (Samanber Lúkas 12:11, 12.) Og við elskum Jehóva og þekkjum meginkenningar orðs hans. Kennari þarf að hafa þetta tvennt til að bera. Verum staðráðin í að nota það til að leggja réttan grundvöll.

8. Hvernig leggjum við Krist sem grundvöll hjá væntanlegum lærisveinum?

8 Þegar við leggjum Krist sem grundvöll lýsum við honum hvorki sem hjálparvana hvítvoðungi í jötu né sem jafningja Jehóva í þrenningu. Þetta eru óbiblíulegar hugmyndir sem eru undirstöður falskrar kristni. Við kennum að Jesús hafi verið mesta mikilmenni sögunnar, hafi lagt fullkomið líf sitt í sölurnar fyrir okkur og ríki núna á himnum sem skipaður konungur Jehóva. (Rómverjabréfið 5:8; Opinberunarbókin 11:15) Við reynum líka að vekja löngun nemenda okkar til að feta í fótspor Jesú og líkja eftir eiginleikum hans. (1. Pétursbréf 2:21) Við viljum að kostgæfni hans í boðunarstarfinu, meðaumkun hans með bágstöddum og undirokuðum, miskunn hans við sakbitna syndara og óbilandi hugrekki hans í prófraunum hafi sterk áhrif á þá. Jesús er svo sannarlega afbragðsgrundvöllur. En hvað kemur næst?

Notaðu rétt byggingarefni

9. Hvernig hugsaði Páll til þeirra sem tóku við sannleikanum sem hann kenndi, þótt það væri fyrst og fremst hlutverk hans að leggja grunninn?

9 Páll skrifaði: „En ef einhver byggir ofan á grundvöllinn gull, silfur, dýra steina, tré, hey eða hálm, þá mun verk hvers um sig verða augljóst. Dagurinn mun leiða það í ljós, af því að hann opinberast með eldi og eldurinn mun prófa hvílíkt verk hvers og eins er.“ (1. Korintubréf 3:12, 13) Hvað átti hann við? Athugum umgjörðina. Starf Páls fólst fyrst og fremst í því að leggja grunninn. Á trúboðsferðum sínum fór hann borg úr borg og prédikaði fyrir mörgum sem höfðu aldrei heyrt minnst á Krist. (Rómverjabréfið 15:20) Þegar fólk tók við sannleikanum, sem hann kenndi, voru stofnaðir söfnuðir. Páli var mjög annt um hina trúuðu. (2. Korintubréf 11:28, 29) En starf hans útheimti að hann héldi áfram ferð sinni. Eftir að hafa unnið í 18 mánuði í Korintu við að leggja grundvöllinn hélt hann til annarra borga að prédika þar. Hann hafði samt sem áður mikinn áhuga á því hvernig aðrir fylgdu eftir því starfi sem hann hafði sjálfur unnið þar. — Postulasagan 18:8-11; 1. Korintubréf 3:6.

10, 11. (a) Hvernig bar Páll saman ólík byggingarefni? (b) Hvers konar byggingarefni voru sennilega notuð í Korintu? (c) Hvers konar byggingarefni standast betur eld og hvaða lærdóm dregur kristinn kennari af því?

10 En sumir virtust byggja illa ofan á þann grunn sem Páll hafði lagt í Korintu. Hann lýsir vandanum með því að bera saman tvenns konar byggingarefni: gull, silfur og dýra steina annars vegar, og tré, hey og hálm hins vegar. Það er hægt að byggja úr góðum, varanlegum og eldtraustum byggingarefnum, en það er líka hægt að hrófla upp húsi úr endingarlitlum og eldfimum efnum. Eflaust hafa báðar byggingargerðir verið til í jafnstórri borg og Korintu. Þar stóðu mikilfengleg musteri úr gagnheilum og dýrum steinblökkum, kannski með klæðningu, eða gull- og silfurskreyttar. * Þessar varanlegu og tígulegu byggingar gnæfðu sennilega yfir kofa, hreysi og sölubása úr grófgerðri trégrind með stráþaki.

11 Hvað yrði um þessar byggingar í eldsvoða? Svarið var jafnaugljóst á dögum Páls og það er nú. Reyndar hafði rómverski hershöfðinginn Múmmíus kveikt í Korintuborg árið 146 f.o.t. Mörg hús úr tré, heyi og hálmi hafa að sjálfsögðu gereyðilagst. Hvað um sterklegar gull- og silfurskreyttar byggingar úr steini? Þær stóðu eflaust. Vel má vera að nemendur Páls í Korintu hafi gengið fram hjá slíkum byggingum daglega — reisulegum steinhúsum sem höfðu staðið af sér eldsvoðana sem eyddu endingarminni nágrönnum fyrir löngu. Páll kom aðalatriðinu á framfæri með því að benda á ljóslifandi dæmi. Þegar við kennum þurfum við að líta á okkur sem húsasmiði. Við viljum byggja úr vönduðustu og varanlegustu efnum sem völ er á. Þá eru góðar líkur á að verk okkar standist. Hver eru þessi varanlegu efni og hvers vegna er nauðsynlegt að nota þau?

Stenst verk þitt eldinn?

12. Hvernig byggðu sumir kristnir menn í Korintu hroðvirknislega?

12 Ljóst er að Páli fannst sumir kristnir menn í Korintu byggja illa. Hvað var að? Samhengið sýnir að sundurlyndi og mannadýrkun ógnaði einingu safnaðarins. Sumir sögðu: „Ég er Páls,“ en aðrir: „Ég er Apollóss.“ Sumir virðast hafa haft of mikið álit á eigin visku. Það er ekkert undarlegt að holdlegt hugarfar, andlegur vanþroski og „metingur og þráttan“ skyldi hljótast af. (1. Korintubréf 1:12; 3:1-4, 18) Þessi viðhorf endurspegluðust auðvitað í kennslunni innan safnaðarins og í boðunarstarfinu. Þess vegna voru vinnubrögðin við að gera menn að lærisveinum hroðvirknisleg, líkt og byggt væri úr lélegum efnum. Slíkir lærisveinar gátu ekki staðist ‚eldinn.‘ Hvaða eld var Páll að tala um?

13. Hvað táknar eldurinn í líkingu Páls og fyrir hverju ættu allir kristnir menn að vera vakandi?

13 Við lendum öll í vissri eldraun í lífinu því að trú okkar er reynd. (Jóhannes 15:20; Jakobsbréfið 1:2, 3) Kristnir menn í Korintu þurftu að hafa hugfast, og það þurfum við líka að gera, að allir sem við kennum sannleikann verða reyndir. Ef kennslan er slök geta afleiðingarnar orðið dapurlegar. Páll varaði við: „Ef nú verk einhvers fær staðist, það er hann byggði ofan á, mun hann taka laun. Ef verk einhvers brennur upp, mun hann bíða tjón. Sjálfur mun hann frelsaður verða, en þó eins og úr eldi.“ * — 1. Korintubréf 3:14, 15.

14. (a) Hvernig gætu kristnir kennarar ‚beðið tjón‘ en hvernig gætu þeir bjargast eins og úr eldi? (b) Hvernig getum við haldið tjónahættunni í lágmarki?

14 Þetta er alvarleg áminning! Það getur verið mjög sársaukafullt að leggja hart að sér að gera mann að lærisveini og sjá hann síðan láta undan freistingu eða bugast í ofsóknum og yfirgefa veg sannleikans. Páll viðurkennir það þegar hann segir að við bíðum tjón í slíku tilfelli. Svo mjög getur þetta reynt á okkur að það sé eins og við björgumst „úr eldi“ — rétt eins og manni sé naumlega bjargað úr eldsvoða en missi allt sitt. Hvernig getum við haldið tjónahættunni í lágmarki? Með því að byggja úr varanlegum efnum. Ef við náum til hjartans þegar við kennum nemendum okkar og hvetjum þá til að meta mikils kristna eiginleika eins og visku, hyggindi, ótta Jehóva og ósvikna trú, þá erum við að byggja úr varanlegum, eldtraustum efnum. (Sálmur 19:10, 11; Orðskviðirnir 3:13-15; 1. Pétursbréf 1:6, 7) Þeir sem tileinka sér þessa eiginleika halda áfram að gera vilja Guðs og hafa örugga von um eilíft líf. (1. Jóhannesarbréf 2:17) En hvernig getum við notfært okkur líkingu Páls í verki? Lítum á nokkur dæmi.

15. Hvernig getum við forðast hroðvirknisleg vinnubrögð þegar við kennum biblíunemendum okkar?

15 Þegar við kennum biblíunemendum ættum við aldrei að hampa mönnum fram yfir Jehóva Guð. Við ætlum okkur ekki að kenna þeim að líta á okkur sem aðalviskubrunninn. Við viljum að þeir horfi til Jehóva, orðs hans og skipulags sér til leiðsagnar. Þess vegna svörum við ekki spurningum þeirra frá eigin brjósti heldur kennum þeim að finna svörin með hjálp Biblíunnar og rita hins ‚trúa og hyggna þjóns.‘ (Matteus 24:45-47) Af sömu ástæðu gætum við þess að eigna okkur ekki þá sem við erum að kenna. Í stað þess að gremjast þegar aðrir sýna þeim áhuga ættum við að hvetja nemendur okkar til að gera „rúmgott“ hjá sér með því að kynnast eins mörgum í söfnuðinum og þeir geta. — 2. Korintubréf 6:12, 13.

16. Hvernig geta öldungar byggt úr eldtraustum efnum?

16 Kristnir öldungar gegna einnig mikilvægu hlutverki í því að byggja upp lærisveina. Þegar þeir kenna á safnaðarsamkomum leitast þeir við að byggja úr eldtraustum efnum. Kennsla þeirra, reynsla og persónuleiki getur verið æði breytilegur, en þeir notfæra sér ekki þennan mun til að safna að sér fylgjendum. (Samanber Postulasöguna 20:29, 30.) Við vitum ekki nákvæmlega af hverju sumir Korintumenn sögðust ‚tilheyra Páli‘ eða ‚Appollósi.‘ En við megum vera viss um að hvorugur þessara trúföstu öldunga stuðlaði að slíku sundurlyndi. Páll lét ekki skjalla sig með þessum hætti heldur barðist kröftuglega gegn því. (1. Korintubréf 3:5-7) Öldungar nútímans hafa líka hugfast að þeir eru að gæta ‚hjarðar Guðs.‘ (1. Pétursbréf 5:2) Hún tilheyrir engum manni. Öldungarnir standa því einarðir gegn sérhverri tilhneigingu í þá átt að einn maður ráði annaðhvort yfir hjörðinni eða öldungaráðinu. Meðan öldungarnir eru auðmjúkir og þrá að þjóna söfnuðinum, ná til hjartans og hjálpa sauðunum að þjóna Jehóva af allri sálu, þá byggja þeir úr eldtraustum efnum.

17. Hvernig leitast kristnir foreldrar við að byggja úr eldtraustum efnum?

17 Kristnir foreldrar láta sér einnig mjög annt um þetta mál. Þeir þrá svo heitt að sjá börnin sín lifa að eilífu! Þess vegna leggja þeir hart að sér til að „brýna“ meginreglur orðs Guðs fyrir þeim svo að þær festi rætur í hjartanu. (5. Mósebók 6:6, 7) Þeir vilja að börnin þekki sannleikann, ekki bara sem reglur og staðreyndir heldur sem hamingjuríkan lífsveg. (1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912) Ástríkir foreldrar vilja gera börnin sín að trúföstum lærisveinum Krists og reyna því að byggja úr eldtraustum efnum. Það er þolinmæðisvinna að hjálpa börnunum að uppræta eiginleika sem Jehóva hatar og rækta hjá þeim eiginleika sem hann elskar. — Galatabréfið 5:22, 23.

Hver er ábyrgur?

18. Af hverju er það ekki endilega sök kennarans þegar lærisveinn hafnar hinni heilnæmu kenningu?

18 Hér vaknar mikilvæg spurning. Ef einhver, sem við leitumst við að hjálpa, fellur frá sannleikanum, er það þá merki þess að okkur hafi mistekist sem kennurum — að við hljótum að hafa byggt úr lélegum efnum? Það er ekki víst. Orð Páls minna okkur vissulega á að það sé mikil ábyrgð að taka þátt í að gera menn að lærisveinum. Við viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til að byggja vel. En orð Guðs segir okkur ekki að axla alla ábyrgðina og láta svo sektarkenndina þjaka okkur þegar þeir sem við reynum að hjálpa snúa baki við sannleikanum. Ýmislegt fleira á hlut að máli en byggingarstarf okkar. Sjáum til dæmis hvað Páll sagði um kennara sem hefur byggt illa: ‚Hann bíður tjón en sjálfur mun hann frelsaður verða.‘ (1. Korintubréf 3:15) Hvað eigum við að hugsa fyrst þessi kennari öðlast hjálpræði en kristni persónuleikinn, sem hann reyndi að byggja upp hjá nemanda sínum, „brennur upp“ í eldrauninni? Það að Jehóva geri nemandann fyrst og fremst ábyrgan fyrir því hvort hann er trúfastur eða ekki.

19. Hvað skoðum við í næstu grein?

19 Einstaklingsábyrgðin er afar þýðingarmikil. Hún snertir sérhvert okkar. Hvað kennir Biblían sérstaklega um það mál? Næsta grein fjallar um það.

[Neðanmáls]

^ „Undirstöður jarðar“ geta merkt þau náttúruöfl sem halda henni — og öllum himintunglum — á sínum stað. Auk þess er jörðin þannig gerð að hún „haggast“ aldrei eða tortímist. — Sálmur 104:5.

^ ‚Dýru steinarnir,‘ sem Páll nefnir, þurfa ekki að hafa verið gimsteinar svo sem demantar og roðasteinar, heldur gátu þeir verið dýrir byggingarsteinar úr marmara, alabastri eða graníti.

^ Páll var að tala um að „verk“ húsasmiðsins gæti farist, ekki smiðurinn sjálfur. The New English Bible orðar versið þannig: „Ef bygging einhvers stendur verður honum umbunað, ef hún brennur þarf hann að bera skaðann, en þó kemst hann lífs af eins og úr eldi.“

Hvert er svarið?

◻ Hver er ‚grundvöllurinn‘ hjá sannkristnum mönnum og hvernig er hann lagður?

◻ Hvaða lærdóm má draga af ólíkum byggingarefnum?

◻ Hvað táknar „eldurinn“ og hvernig gæti hann orðið sumum til ‚tjóns‘?

◻ Hvernig geta biblíukennarar, öldungar og foreldrar byggt úr eldtraustum efnum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 23]

Algengt var í borgum fortíðar að eldtraustar steinbyggingar og lakari byggingar stæðu hlið við hlið.