Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Styrkið hjörtu yðar“

„Styrkið hjörtu yðar“

„Styrkið hjörtu yðar“

„Þolgæðis hafið þér þörf, til þess að þér gjörið Guðs vilja og öðlist fyrirheitið.“ — HEBREABRÉFIÐ 10:36.

1, 2. (a) Hvernig fór fyrir mörgum á fyrstu öld? (b) Af hverju getur trúin veiklast?

 ENGINN biblíuritari nefnir trú oftar en Páll postuli. Iðulega talar hann um menn sem höfðu veikst í trúnni eða glatað henni. Þeir Hýmeneus og Alexander höfðu „liðið skipbrot á trú sinni.“ (1. Tímóteusarbréf 1:19, 20) Demas yfirgaf Pál af því að „hann elskaði þennan heim.“ (2. Tímóteusarbréf 4:10) Sumir ‚afneituðu trúnni‘ með ókristilegum verkum sínum eða ábyrgðarleysi. Aðrir létu blekkjast af rangnefndri þekkingu og urðu „frávillingar í trúnni.“ — 1. Tímóteusarbréf 5:8; 6:20, 21.

2 Af hverju biðu þessir smurðu kristnu menn ósigur eins og hér er lýst? Nú, „trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá.“ (Hebreabréfið 11:1) Við trúum á það sem við sjáum ekki. Við þurfum ekki að trúa á það sem við sjáum. Það er auðveldara að vinna fyrir sýnilegum fjármunum en ósýnilegum, andlegum auði. (Matteus 19:21, 22) Margt hið sýnilega — svo sem „fýsn holdsins og fýsn augnanna“ — höfðar mjög sterkt til hins ófullkomna holds og getur veikt trúna. — 1. Jóhannesarbréf 2:16.

3. Hvers konar trú ætti kristinn maður að rækta með sér?

3 En Páll segir að ‚sá sem gangi fram fyrir Guð verði að trúa því að hann sé til og að hann umbuni þeim er hans leita.‘ Móse hafði þess konar trú. Hann „horfði fram til launanna“ og „var öruggur eins og hann sæi hinn ósýnilega.“ (Hebreabréfið 11:6, 24, 26, 27) Kristnir menn þurfa þess konar trú. Eins og bent var á í greininni á undan var Abraham afbragðsfordæmi að þessu leyti.

Trúarfyrirmyndin Abraham

4. Hvaða áhrif hafði trú Abrahams á lífsstefnu hans?

4 Abraham bjó í Úr þegar Guð hét honum því að hann myndi eignast afkvæmi eða sæði sem yrði öllum þjóðum til blessunar. (1. Mósebók 12:1-3; Postulasagan 7:2, 3) Abraham hlýddi Jehóva á grundvelli þessa fyrirheits og fluttist til Harran og síðan til Kanaanlands. Þar hét Jehóva að gefa niðjum hans landið. (1. Mósebók 12:7; Nehemíabók 9:7, 8) En stór hluti þess sem Jehóva hét Abraham átti að uppfyllast eftir dauða hans. Til dæmis átti Abraham aldrei land í Kanaan — nema Makpelahelli sem hann keypti fyrir grafreit. (1. Mósebók 23:1-20) Engu að síður trúði hann á orð Jehóva. Ekki síst trúði hann á framtíðarborg sem ‚hefur traustan grunn og Guð er smiður að og byggingarmeistari.‘ (Hebreabréfið 11:10) Slík trú hélt honum uppi alla ævi.

5, 6. Hvernig var trú Abrahams reynd í sambandi við fyrirheit Jehóva?

5 Þessi trú Abrahams sýndi sig sérstaklega í sambandi við fyrirheitið um að niðjar hans yrðu að mikilli þjóð. Til að það gæti gerst þurfti hann að eignast son, og hann beið þess lengi að hljóta þá blessun. Við vitum ekki hve gamall hann var þegar hann heyrði loforð Jehóva Guðs fyrst, en þegar hann lagði upp í langferðina til Harran hafði Guð enn ekki gefið honum barn. (1. Mósebók 11:30) Hann bjó nógu lengi í Harran til að ‚eignast fjárhluti og sálir,‘ og þegar hann fluttist til Kanaan var hann 75 ára og Sara 65. Enn höfðu þau ekki eignast soninn. (1. Mósebók 12:4, 5) Þegar Sara var um 75 ára taldi hún sig vera orðna of gamla til að ala Abraham barn. Þess vegna fékk hún honum ambáttina Hagar í samræmi við siði samtíðarinnar og hún ól honum son. En það var ekki barnið sem fyrirheitið hljóðaði upp á. Hagar og Ísmael sonur hennar voru að lokum látin fara af heimilinu. En þegar Abraham bað fyrir þeim lofaði Jehóva að blessa Ísmael. — 1. Mósebók 16:1-4, 10; 17:15, 16, 18-20; 21:8-21.

6 Á tilsettum tíma Guðs — löngu eftir að Abraham og Sara höfðu fyrst heyrt fyrirheitið — eignuðust þau soninn Ísak. Abraham var þá tíræður og Sara níræð. Þeim hlýtur að hafa fundist það stórkostlegt! Þessi öldruðu hjón voru ‚komin að fótum fram‘ svo að það var næstum eins og upprisa fyrir þau að geta af sér nýtt líf. (Rómverjabréfið 4:19-21) Biðin var löng en hún var þess virði þegar fyrirheitið rættist loksins.

7. Hvernig er trú tengd þolgæði?

7 Abraham er dæmi sem minnir á að trú á ekki að vera aðeins til skamms tíma. Páll tengdi trú við þolgæði þegar hann skrifaði: „Þolgæðis hafið þér þörf, til þess að þér gjörið Guðs vilja og öðlist fyrirheitið. . . . Vér skjótum oss ekki undan og glötumst, heldur trúum vér og frelsumst.“ (Hebreabréfið 10:36-39) Margir hafa beðið þess lengi að fyrirheitið rætist, sumir alla ævi, en sterk trú hefur haldið þeim uppi. Og líkt og Abraham verður þeim umbunað á tilsettum tíma Jehóva. — Habakkuk 2:3.

Að hlusta á Guð

8. Hvernig hlýðum við á Guð núna og af hverju styrkir það trúna?

8 Það var að minnsta kosti fernt sem styrkti trú Abrahams og það getur líka hjálpað okkur. Í fyrsta lagi sýndi hann þá ‚trú að Guð sé til‘ með því að hlýða orðum hans. Hann var ólíkur Gyðingum á dögum Jeremía sem trúðu á Jehóva en treystu ekki orðum hans. (Jeremía 44:15-19) Núna talar Jehóva til okkar á blöðum Biblíunnar sem er innblásið orð hans og Pétur líkti við ‚ljós sem skín á myrkum stað í hjörtum okkar.‘ (2. Pétursbréf 1:19) Þegar við lesum Biblíuna gaumgæfilega ‚nærumst við af orði trúarinnar.‘ (1. Tímóteusarbréf 4:6; Rómverjabréfið 10:17) Og núna á síðustu dögum lætur hinn „trúi og hyggni þjónn“ í té andlegan „mat á réttum tíma,“ það er að segja leiðsögn í því að beita meginreglum Biblíunnar og skilja spádóma hennar. (Matteus 24:45-47) Til að hafa sterka trú verðum við að hlusta á Jehóva eftir þessum leiðum.

9. Hvað hefur það í för með sér ef við trúum raunverulega hinni kristnu von?

9 Í öðru lagi var trú Abrahams nátengd von hans. „Abraham trúði með von, . . . að hann skyldi verða faðir margra þjóða.“ (Rómverjabréfið 4:18) Þetta getur líka hjálpað okkur. Við megum aldrei gleyma að Jehóva ‚umbunar þeim er hans leita.‘ Páll postuli sagði: „Þess vegna leggjum vér á oss erfiði og þreytum stríð, því að vér höfum fest von vora á lifanda Guði.“ (1. Tímóteusarbréf 4:10) Ef við trúum hinni kristnu von í einlægni einkennist allt líf okkar af trú eins og var hjá Abraham.

Að tala við Guð

10. Hvers konar bæn styrkir trú okkar?

10 Í þriðja lagi talaði Abraham við Guð og það styrkti trú hans. Við getum líka talað við Jehóva í bæn fyrir milligöngu Jesú Krists. (Jóhannes 14:6; Efesusbréfið 6:18) Það var eftir að Jesús hafði sagt dæmisögu um nauðsyn þess að biðja stöðugt sem hann spurði: „Mun Mannssonurinn finna trúna á jörðu, þegar hann kemur?“ (Lúkas 18:8) Trústyrkjandi bæn er hvorki hugsunarlaus né ósjálfráð. Hún er mjög innihaldsrík. Innileg bæn er til dæmis nauðsynleg þegar við þurfum að taka alvarlegar ákvarðanir eða erum undir miklu álagi. — Lúkas 6:12, 13; 22:41-44.

11. (a) Hvernig styrkti það Abraham að opna hjarta sitt fyrir Guði? (b) Hvað getum við lært af Abraham?

11 Þegar Abraham var orðinn gamall og Jehóva Guð hafði enn ekki gefið honum fyrirheitna sæðið talaði hann við Guð um áhyggjur sínar. Jehóva hughreysti hann. Það hafði þau áhrif að Abraham „trúði [Jehóva], og hann reiknaði honum það til réttlætis.“ Síðan staðfesti Jehóva hughreystandi orð sín með tákni. (1. Mósebók 15:1-18) Ef við opnum hjörtu okkar fyrir Jehóva í bæn, þiggjum þá hughreystingu sem hann veitir í orði sínu, Biblíunni, og hlýðum honum í einlægri trú, þá styrkir hann líka trú okkar. — Matteus 21:22; Júdasarbréfið 20, 21.

12, 13. (a) Hvaða blessun hlaut Abraham þegar hann fylgdi handleiðslu Jehóva? (b) Hvað getur styrkt trú okkar?

12 Það fjórða, sem styrkti trú Abrahams, var sá stuðningur sem Jehóva veitti honum þegar hann fylgdi handleiðslu hans. Jehóva veitti Abraham sigur þegar hann elti uppi innrásarkonungana til að bjarga Lot úr höndum þeirra. (1. Mósebók 14:16, 20) Jehóva blessaði hann efnislega þegar hann bjó sem útlendingur í landinu sem niðjar hans áttu að erfa. (Samanber 1. Mósebók 14:21-23.) Hann leiðbeindi ráðsmanni Abrahams svo að hann fyndi heppilega konu handa Ísak. (1. Mósebók 24:10-27) Já, Jehóva ‚blessaði Abraham í öllu.‘ (1. Mósebók 24:1) Trú hans var svo sterk fyrir vikið og samband hans við Jehóva Guð svo náið að Jehóva kallaði hann ‚vin sinn.‘ — Jesaja 41:8; Jakobsbréfið 2:23.

13 Getum við haft svona sterka trú? Já, ef við reynum Jehóva með því að hlýða fyrirmælum hans eins og Abraham gerði, þá blessar hann okkur líka og það styrkir trú okkar. Sé rennt yfir þjónustuskýrslu ársins 1998 sést að margir hlutu mikla blessun fyrir að hlýða fyrirmælum hans um að prédika fagnaðarerindið. — Markús 13:10.

Merki um trú

14. Hvernig blessaði Jehóva dreifingu Guðsríkisfrétta nr. 35?

14 Kostgæfni og eldmóður milljóna votta Jehóva varð til þess að dreifing Guðsríkisfrétta nr. 35 í október 1997 heppnaðist einstaklega vel. Nefnum Gana sem dæmi. Þar var dreift næstum 2,5 milljónum eintaka á fjórum tungumálum, og 2000 manns óskuðu eftir biblíunámskeiði í kjölfarið. Tveir vottar voru að dreifa Guðsríkisfréttum á Kýpur þegar þeir tóku eftir að prestur veitti þeim eftirför. Eftir nokkra stund buðu þeir honum eintak af Guðsríkisfréttum. Hann var búinn að fá eintak áður og sagði: „Ég var svo hrifinn af boðskapnum að mig langaði til að óska þeim til hamingju sem gerðu þetta rit.“ Í Danmörku var dreift einni og hálfri milljón eintaka af Guðsríkisfréttum og árangurinn var góður. Kona, sem starfar við almannatengsl, sagði: „Þetta smárit á erindi til allra. Það er auðskilið og hrífur mann svo að mann langar til að vita meira. Það hittir beint í mark.“

15. Hvað sýnir að Jehóva blessaði viðleitni þjóna sinna til að ná til fólks alls staðar?

15 Árið 1998 var lögð áhersla á að prédika fyrir fólki bæði heima hjá því og annars staðar. Á Fílabeinsströndinni komu trúboðahjón við í 322 skipum sem lágu í höfn. Þau dreifðu 247 bókum, 2284 blöðum, 500 bæklingum og hundruðum smárita, og auk þess skildu þau eftir myndbönd fyrir sjómenn til að horfa á á ferðum sínum. Vottur í Kanada gekk inn á bílaverkstæði. Eigandinn sýndi áhuga og bróðirinn staldraði við í fjóra og hálfa klukkustund, þótt vitnisburðartíminn hafi ekki verið nema um ein klukkustund milli þess sem eigandinn sinnti viðskiptavinum. Að lokum var ákveðið biblíunámskeið klukkan tíu að kvöldi. Stundum hófst það þó ekki fyrr en um miðnætti og stóð þá fram til klukkan tvö að nóttu. Þetta var ekki þægilegasti tíminn en árangurinn var góður. Maðurinn ákvað að loka verkstæðinu á sunnudögum svo að hann gæti sótt samkomur. Innan tíðar mátti sjá góða framför hjá honum og fjölskyldu hans.

16. Hvaða dæmi sýnir að Kröfubæklingurinn og Þekkingarbókin eru öflug verkfæri í prédikun okkar og kennslu?

16 Bæklingurinn Hvers krefst Guð af okkur? og bókin Þekking sem leiðir til eilífs lífs eru öflug verkfæri í boðunar- og kennslustarfinu. Nunna á Ítalíu þáði Guðsríkisfréttir meðan hún var að bíða eftir strætisvagni. Daginn eftir hitti votturinn hana aftur og nú þáði hún Kröfubæklinginn. Eftir það fékk hún biblíufræðslu hjá vottinum á biðstöðinni í 10 til 15 mínútur á hverjum degi. Eftir hálfan annan mánuð ákvað hún að yfirgefa klaustrið og snúa heim til Gvatemala til að halda biblíunáminu áfram. Kirkjurækin kona í Malaví, Lobina að nafni, var lítt hrifin þegar dætur hennar fóru að kynna sér Biblíuna með hjálp votta Jehóva. En stúlkurnar sögðu móður sinni frá sannleika Biblíunnar þegar þær gátu. Í júní árið 1997 sá Lobina Þekkingarbókina og orðin „þekking sem leiðir“ vöktu forvitni hennar. Í júlí þáði hún biblíunámskeið. Í ágúst sótti hún umdæmismót og hlustaði vandlega á alla dagskrána. Í lok mánaðarins var hún búin að segja sig úr kirkjunni og var hæf til að starfa sem óskírður boðberi. Hún lét skírast í nóvember 1997.

17, 18. Hvernig hafa myndbönd Félagsins reynst vel til að hjálpa fólki að „sjá“ það sem andlegt er?

17 Myndbönd Félagsins hafa hjálpað mörgum að „sjá“ það sem andlegt er. Maður á Máritíus yfirgaf kirkjuna vegna sundrungar í henni. Trúboði sýndi honum myndbandið United by Divine Teaching (Sameinuð með kennslu Guðs) til að benda honum á einingu votta Jehóva. Manninum fannst mikið til um það sem hann sá og sagði: „Þið vottarnir eruð þegar komnir í paradís,“ og þáði biblíunámskeið. Systir í Japan sýndi vantrúuðum eiginmanni sínum myndbandið Jehovah’s Witnesses — The Organization Behind the Name (Vottar Jehóva — skipulagið að baki nafninu) og hann var svo hrifinn að hann féllst á reglulegt biblíunámskeið. Eftir að hafa séð myndbandið „Sameinuð með kennslu Guðs“ vildi hann gerast vottur Jehóva. Myndböndin þrjú, The Bible — A Book of Fact and Prophecy (Biblían — bók staðreynda og spádóma), hjálpuðu honum að heimfæra meginreglur Biblíunnar á líf sitt. Myndbandið Jehovah’s Witnesses Stand Firm Against Nazi Assault (Vottar Jehóva standa einarðir gegn árásum nasista) sýndi honum að lokum fram á að Jehóva styrkir fólk sitt gegn árásum Satans. Maðurinn lét skírast í október 1997.

18 Þetta eru aðeins fáein dæmi af mörgum frá síðasta þjónustuári, en þau sýna að vottar Jehóva hafa virka trú og að Jehóva styrkir hana með því að blessa starf þeirra. — Jakobsbréfið 2:17.

Ræktum með okkur trú

19. (a) Hvernig erum við í betri aðstöðu en Abraham? (b) Hve margir komu saman á síðasta ári til að minnast fórnardauða Jesú? (c) Í hvaða löndum var minningarhátíðin einstaklega vel sótt á síðasta ári? (Sjá töfluna á bls. 12 til 15.)

19 Við erum að mörgu leyti í betri aðstöðu en Abraham. Við vitum að Jehóva efndi öll fyrirheit sín við hann. Afkomendur Abrahams erfðu Kanaanland og urðu að mikilli þjóð. (1. Konungabók 4:20; Hebreabréfið 11:12) Og 1971 ári eftir að Abraham fór frá Harran lét afkomandi hans, Jesús, skírast í vatni hjá Jóhannesi skírara í Jórdan, og síðan skírði Jehóva hann með heilögum anda svo að hann varð Messías, afkvæmi eða sæði Abrahams í fullum, andlegum skilningi. (Matteus 3:16, 17; Galatabréfið 3:16) Hinn 14. nísan árið 33 lagði Jesús líf sitt í sölurnar sem lausnarfórn handa þeim sem myndu iðka trú á hann. (Matteus 20:28; Jóhannes 3:16) Nú gátu milljónir manna hlotið blessun vegna hans. Á síðasta ári komu 13.896.312 saman hinn 14. nísan til að minnast þessa mikla kærleiksverks. Hvílík réttlæting fyrir Jehóva, hinn mikla Guð sem heldur fyrirheit sín!

20, 21. Hvernig hlaut fólk af öllum þjóðum blessun á fyrstu öld vegna sæðis Abrahams og hvernig hljóta margir blessun nú á dögum?

20 Á fyrstu öld iðkuðu margir menn trú á sæði Abrahams. Þeir urðu smurðir synir Guðs og mynduðu nýjan, andlegan „Ísrael Guðs.“ Þetta voru menn af öllum þjóðum en fyrstir voru Ísraelsmenn að holdinu. (Galatabréfið 3:26-29; 6:16; Postulasagan 3:25, 26) Þeir höfðu örugga von um að verða ódauðlegir andar á himnum og meðstjórnendur í Guðsríki. Aðeins 144.000 manns áttu að hljóta þessa blessun og af þeim eru fáir eftir. (Opinberunarbókin 5:9, 10; 7:4) Á síðasta ári báru 8.756 vitni um þá trú sína að þeir tilheyrðu þessum hópi með því að neyta brauðsins og vínsins við minningarhátíðina.

21 Núna eru nálega allir vottar Jehóva af ‚múginum mikla‘ sem spáð er um í Opinberunarbókinni 7:9-17. Þar eð þeir hljóta blessun fyrir atbeina Jesú hafa þeir von um eilíft líf í paradís á jörð. (Opinberunarbókin 21:3-5) Árið 1998 tóku 5.888.650 þátt í prédikunarstarfinu og það sýnir að þessi múgur er sannarlega „mikill.“ Það var sérstaklega hrífandi að sjá bæði Rússland og Úkraínu skýra frá ríflega 100.000 boðberum í fyrsta sinn. Og skýrslan frá Bandaríkjunum var líka framúrskarandi því að boðberar voru 1.040.283 í ágúst. Þetta eru aðeins þrjú lönd af 19 sem skýrðu frá fleiri en 100.000 boðberum á síðasta ári.

Von sem uppfyllist bráðlega

22, 23. (a) Af hverju ættum við að styrkja hjörtu okkar núna? (b) Hvernig getum við líkst Abraham en ekki hinum trúlausu sem Páll nefnir?

22 Minningarhátíðargestirnir voru minntir á hve langt fyrirheit Jehóva eru á veg komin að uppfyllast. Árið 1914 var Jesús krýndur sem konungur hins himneska ríkis Guðs og þá hófst nærvera hans sem konungs. (Matteus 24:3; Opinberunarbókin 11:15) Já, sæði Abrahams ríkir núna á himnum. Jakob sagði kristnum samtíðarmönnum sínum: „Þreyið og þér, styrkið hjörtu yðar, því að koma Drottins er í nánd.“ (Jakobsbréfið 5:8) Koma hans eða nærvera er orðin veruleiki. Það er enn frekari ástæða til að styrkja hjörtu okkar.

23 Megum við styrkja traust okkar til fyrirheita Guðs jafnt og þétt með reglulegu biblíunámi og innihaldsríkum bænum. Megum við aldrei hætta að njóta blessunar Jehóva sem hlýst af því að hlýða orði hans. Þá verðum við eins og Abraham en ekki eins og þeir sem veikluðust og liðu skipbrot í trúnni og Páll minnist á. Ekkert getur gert okkur viðskila við okkar helgustu trú. (Júdasarbréfið 20) Við biðjum að það verði hlutskipti allra þjóna Jehóva á þjónustuárinu 1999 og um eilífa framtíð.

Veistu?

◻ Hvernig getum við hlustað á Guð nú á dögum?

◻ Hvað hafa innihaldsríkar bænir til Guðs í för með sér?

◻ Hvernig styrkir það trú okkar að hlýða leiðsögn Jehóva?

◻ Hvað þótti þér sérstaklega athyglisvert í ársskýrslunni (bls. 12 til 15)?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 16]

Við styrkjum traust okkar á fyrirheit Jehóva ef við hlýðum á orð hans.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Þátttaka í boðunarstarfinu styrkir trú okkar.