Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vinnið að sáluhjálp ykkar

Vinnið að sáluhjálp ykkar

Vinnið að sáluhjálp ykkar

„Mínir elskuðu, . . . vinnið nú að sáluhjálp yðar með ugg og ótta.“ — FILIPPÍBRÉFIÐ 2:12.

1, 2. Hvað hefur komið þeirri hugmynd inn hjá mörgum að fólk ráði engu um það hvernig líf þess verði?

 „FÆDDIST þú svona?“ Þessari spurningu var slegið upp á forsíðu vinsæls tímarits fyrir nokkru. Undir fyrirsögninni stóð: „Nýjar rannsóknir sýna að genin stjórna að mestu leyti persónuleika, skapgerð og jafnvel ákvörðunum.“ Sé miðað við fullyrðingar af þessu tagi mætti kannski ætla að menn geti litla stjórn haft á lífi sínu.

2 Sumir óttast að slæmt uppeldi eða skólakennsla hafi á einhvern hátt dæmt þá til að eiga óhamingjusama ævi. Þeim finnst þeir kannski dæmdir til að endurtaka mistök foreldra sinna, láta verstu skyndihvatir ráða gerðum sínum og reynast Jehóva ótrúir — í stuttu máli sagt taka slæmar ákvarðanir. Kennir Biblían þetta? Víst heldur sumt trúhneigt fólk því fram að Biblían kenni eitthvað þessu líkt, það er að segja forlagatrú. Hún er í hnotskurn þannig að Guð hafi fyrir löngu ákveðið hvern einasta atburð á ævi manns.

3. Hvað segir Biblían svo uppörvandi um getu okkar til að bera ábyrgð á eigin framtíð?

3 Allar þessar ólíku hugmyndir eiga eitt sameiginlegt: Maðurinn hefur lítið valfrelsi og ræður litlu um það hvernig líf hans fer. Þetta er ekki uppörvandi boðskapur, og vanmáttarkennd gerir aðeins illt verra. Orðskviðirnir 24:10 segja: „Látir þú hugfallast á neyðarinnar degi, þá er máttur þinn lítill.“ En það er hvetjandi fyrir okkur að við skulum geta ‚unnið að sáluhjálp okkar‘ eins og Biblían segir. (Filippíbréfið 2:12) Hvernig getum við eflt tiltrú okkar á þessa jákvæðu biblíukenningu?

Okkar eigin uppbygging

4. Hvað er ekki gefið í skyn í 1. Korintubréfi 3:10-15 þótt þar sé talað um að byggja úr eldtraustum efnum?

4 Skoðum aðeins líkingu Páls postula í 1. Korintubréfi 3:10-15. Þar talar hann um byggingarstarf kristins manns, og meginreglan í líkingunni getur átt við þjónustu okkar bæði utan safnaðar og innan. Gefur hann í skyn að það sé algerlega á ábyrgð kennara og þjálfara hvort lærisveinn ákveður að lokum að þjóna Jehóva og heldur sig við þessa ákvörðun? Nei, Páll er að leggja áherslu á að kennarinn þurfi að vanda byggingarstarf sitt sem best hann getur. En eins og fram kom í greininni á undan var hann ekki að segja að nemandinn eða lærisveinninn hefði ekki um neitt að velja. Líking Páls fjallar að vísu um það byggingarstarf sem við vinnum í þágu annarra, ekki uppbyggingu sjálfra okkar. Það er ljóst af því að hann talar um að hroðvirknisleg bygging eyðileggist en húsasmiðurinn sjálfur bjargist. En Biblían notar stundum sams konar líkingamál um uppbyggingarstarf sjálfra okkar.

5. Hvaða ritningarstaðir sýna að kristnir menn þurfa að vinna að uppbyggingu sjálfra sín?

5 Lítum til dæmis á Júdasarbréfið 20 og 21: „Þér, elskaðir, byggið yður sjálfa upp í yðar helgustu trú. Biðjið í heilögum anda. Varðveitið sjálfa yður í kærleika Guðs.“ Júdas notar sama gríska orðið um ‚að byggja‘ eins og Páll notaði í 3. kafla 1. Korintubréfs, en Júdas virðist vera að tala um að við byggjum okkur upp á þeim trúargrundvelli sem við höfum. Í frásögunni af dæmisögu Jesú um manninn, sem byggði hús sitt á bjargi, notar Lúkas sama gríska orðið um ‚að grundvalla‘ og Páll notar í líkingu sinni um byggingarstarf kristins manns. (Lúkas 6:48, 49) Og Páll grípur til þess myndmáls að vera ‚grundvallaður‘ eða byggður á grunni þegar hann hvetur trúbræður sína til að taka andlegum framförum. Já, orð Guðs kennir að við vinnum ‚byggingarstarf‘ á sjálfum okkur. — Efesusbréfið 3:15-19; Kólossubréfið 1:23; 2:7.

6. (a) Lýstu með dæmi hvernig hver einasti kristinn lærisveinn er samvinnuverkefni margra. (b) Hvaða ábyrgð hvílir á hverjum einstökum lærisveini?

6 Er uppbygging kristins lærisveins eins manns verk? Nú, hugsaðu þér að þú ákveðir að byggja hús. Þú byrjar á því að fá arkitekt til að teikna það. Þú ætlar að vinna stóran hluta verksins sjálfur en færð þó verktaka til að vinna með þér og segja þér til um bestu aðferðirnar. Ef hann leggur traustan grunn, hjálpar þér að skilja teikningarnar, bendir þér á hver séu bestu byggingarefnin og kennir þér vel til verka fellst þú líklega á að hann hafi skilað góðu verki. En hvernig fer ef þú hunsar ráð hans, kaupir ódýr eða léleg byggingarefni og fylgir ekki einu sinni teikningum arkitektsins? Varla geturðu þá kennt verktakanum eða arkitektinum um ef húsið hrynur! Hver einasti kristinn lærisveinn er samvinnuverkefni margra. Jehóva er arkitektinn. Hann styður trúfastan kristinn mann sem kennir nemandanum og byggir hann upp sem ‚samverkamaður Guðs.‘ (1. Korintubréf 3:9) En nemandinn á líka hlut að máli. Þegar öllu er á botninn hvolft ber hann sjálfur ábyrgð á lífsstefnu sinni. (Rómverjabréfið 14:12) Ef hann vill hafa góða, kristna eiginleika þarf hann að leggja hart að sér til að byggja þá upp. — 2. Pétursbréf 1:5-8.

7. Hvað eiga sumir kristnir menn í höggi við og hvað getur hughreyst þá?

7 Ber þá að skilja það svo að erfðir, umhverfi og hæfni kennarans skipti engu máli? Alls ekki. Orð Guðs viðurkennir að allt sé þetta mikilvægt og hafi áhrif. Margar syndsamlegar og slæmar tilhneigingar eru meðfæddar og geta verið mjög erfiðar viðfangs. (Sálmur 51:7; Rómverjabréfið 5:12; 7:21-23) Uppeldi foreldranna og andrúmsloftið á heimilinu getur haft gríðarleg áhrif á börnin — til góðs eða ills. (Orðskviðirnir 22:6; Kólossubréfið 3:21) Jesús fordæmdi trúarleiðtoga Gyðinga fyrir hin slæmu áhrif sem kennsla þeirra hafði á aðra. (Matteus 23:13, 15) Við verðum öll fyrir áhrifum sams konar afla nú á tímum. Sumir af þjónum Guðs eiga til dæmis við vandamál að stríða vegna erfiðrar æsku. Þeir þarfnast góðvildar og samkenndar. Og þeir geta sótt hughreystingu í þau boð Biblíunnar að þeir séu ekki dæmdir til að endurtaka mistök foreldra sinna eða verða ótrúir. Sumir Júdakonunga til forna eru dæmi um það.

Konungar Júda völdu sjálfir

8. Hvaða slæmt fordæmi hafði Jótam í föður sínum en hvað ákvað hann sjálfur?

8 Ússía var ekki nema 16 ára þegar hann varð konungur í Júda og hann ríkti í 52 ár. Lengst af gerði hann „það sem rétt var í augum [Jehóva], með öllu svo sem gjört hafði Amasía faðir hans.“ (2. Konungabók 15:3) Jehóva blessaði hann með því að veita honum marga ótrúlega hersigra. En því miður steig velgengnin Ússía til höfuðs. Hann varð hrokafullur og gerði uppreisn gegn Jehóva með því að bera fram reykelsi á altarið í musterinu en það máttu aðeins prestar gera. Ússía fékk ávítur en reiddist þeim. Þá var hann auðmýktur — hann var sleginn holdsveiki og mátti búa í einangrun það sem eftir var ævinnar. (2. Kroníkubók 26:16-23) Hvernig brást Jótam sonur hans við þessu? Hann hefði hæglega getað látið föður sinn hafa áhrif á sig og látið sér gremjast leiðréttingu Jehóva. Þjóðin almennt kann að hafa haft slæm áhrif því að hún stundaði rangar trúariðkanir. (2. Konungabók 15:4) En Jótam tók sína eigin ákvörðun. „Hann gjörði það, sem rétt var í augum [Jehóva].“ — 2. Kroníkubók 27:2.

9. Nefndu dæmi um þau góðu áhrif sem Akas varð fyrir og hvernig líf hans fór engu að síður.

9 Jótam ríkti í 16 ár og var Jehóva trúfastur alla tíð. Akas sonur hans hafði því afbragðsfyrirmynd í föður sínum. Og Akas varð fyrir góðum áhrifum annar staðar frá. Hann hlaut þá blessun að vera samtíða trúföstum spámönnum, þeim Jesaja, Hósea og Míka sem spáðu af krafti í landinu. En hann valdi að gera það sem rangt var. „Hann gjörði ekki það, sem rétt var í augum [Jehóva], svo sem Davíð forfaðir hans.“ Hann lét gera líkneski af Baal, tilbað þau og brenndi jafnvel suma af sonum sínum til fórnar heiðnum guðum. Þrátt fyrir bestu áhrif sem hugsast gat brást hann hrapallega sem konungur og þjónn Jehóva. — 2. Kroníkubók 28:1-4.

10. Hvers konar faðir var Akas en hvað valdi Hiskía sonur hans?

10 Erfitt er að ímynda sér verri föður en Akas ef horft er til fordæmis hans í hreinni tilbeiðslu. En Hiskía sonur hans réði engu um faðerni sitt. Synirnir ungu, sem Akas myrti til fórnar Baal, voru bræður Hiskía. Var Hiskía dæmdur til að vera Jehóva ótrúr sökum þessa skelfilega uppruna? Nei, hann reyndist einn af fáum konungum Júda sem kalla mátti mikla — trúfastur, vitur og ástsæll. „[Jehóva] var með honum.“ (2. Konungabók 18:3-7) Það er ástæða til að ætla að Hiskía hafi verið innblásið að yrkja Sálm 119 meðan hann var ungur prins. Ef það er rétt er ekki vandséð hvers vegna hann skrifaði: „Sál mín tárast af trega.“ (Sálmur 119:28) Þrátt fyrir þessa þungbæru erfiðleika lét hann orð Jehóva leiða sig í lífinu. Sálmur 119:105 segir: „Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.“ Já, Hiskía tók sjálfur ákvörðun — hann valdi rétt.

11. (a) Hversu yfirgengileg var uppreisn Manasse gegn Jehóva, þrátt fyrir góð áhrif föður hans? (b) Hvað gerði Manasse seint á ævinni og hvað má læra af því?

11 Það er þverstæðukennt að einn af verstu konungum Júda skyldi koma af einum þeim besta. Manasse, sonur Hiskía, efldi svo skurðgoðadýrkun, spíritisma og stórkostlegt ofbeldi að keyrði um þverbak. Frásagan segir: „[Jehóva] talaði til Manasse og til lýðs hans,“ trúlega fyrir milligöngu spámannanna. (2. Kroníkubók 33:10) Samkvæmt arfsögnum Gyðinga lét Manasse þá saga Jesaja sundur. (Samanber Hebreabréfið 11:37.) Hvort sem það er rétt eða ekki lét Manasse viðvaranir Guðs sem vind um eyrun þjóta. Hann lét meira að segja brenna suma af sonum sínum lifandi að fórn, líkt og Akas afi hans hafði gert. En þetta illmenni iðraðist og breytti háttalagi sínu þegar hann komst í miklar nauðir síðar á ævinni. (2. Kroníkubók 33:1-6, 11-20) Fordæmi hans kennir okkur að maður getur átt sér viðreisnar von þótt hann hafi áður tekið afleitar ákvarðanir. Hann getur breytt sér.

12. Hvaða ólíka afstöðu tóku Amón og Jósía, sonur hans, til þjónustu við Jehóva?

12 Amón sonur Manasse hefði getað lært margt af iðrun föður síns. En hann tók rangar ákvarðanir. Hann meira að segja ‚jók á sök sína‘ uns hann var ráðinn af dögum. Jósía sonur hans stakk mjög í stúf við föður sinn. Ljóst er að hann kaus að draga lærdóm af því sem henti afa hans. Hann var ekki nema átta ára þegar hann tók við völdum. Aðeins 16 ára gamall tók hann að leita Jehóva og reyndist eftir það trúfastur fyrirmyndarkonungur. (2. Kroníkubók 33:20–34:5) Hann tók ákvörðun og hún var rétt.

13. (a) Hvað lærum við af þeim Júdakonungum sem við höfum rætt um? (b) Hve mikilvægt er gott uppeldi?

13 Þessi stutta athugun á sjö Júdakonungum er mjög lærdómsrík. Hún kennir okkur að sumir af verstu konungunum áttu bestu synina og öfugt. (Samanber Prédikarann 2:18-21.) Það breytir ekki því að gott uppeldi er afar mikilvægt. Foreldrar, sem ala börn sín upp í samræmi við veg Jehóva, gefa þeim bestu möguleika á að verða trúfastir þjónar Jehóva. (5. Mósebók 6:6, 7) Engu að síður velja sum börn ranga lífsstefnu, þrátt fyrir góða viðleitni trúfastra foreldra. Sum börn kjósa hins vegar að elska Jehóva og þjóna honum, þrátt fyrir verstu áhrif í foreldrahúsum. Með blessun Jehóva geta þau gert líf sitt farsælt. Veltir þú stundum fyrir þér hvernig þér eigi eftir að farnast? Líttu þá á nokkur dæmi um persónuleg loforð Jehóva fyrir því að þú getir tekið rétta ákvörðun.

Jehóva hefur trú á þér

14. Hvernig vitum við að Jehóva skilur takmörk okkar?

14 Jehóva sér allt. Orðskviðirnir 15:3 segja: „Augu [Jehóva] eru alls staðar, vakandi yfir vondum og góðum.“ Davíð konungur sagði um Jehóva: „Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni, ævidagar voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína, áður en nokkur þeirra var til orðinn.“ (Sálmur 139:16) Jehóva veit því hvaða slæmar tilhneigingar þú átt í höggi við. Hann veit hvort þú erfðir þær eða ávannst þér þær vegna áhrifa sem þú réðst ekki við. Hann skilur nákvæmlega hvaða áhrif þær hafa haft á þig. Hann skilur takmörk þín meira að segja betur en þú sjálfur. Og hann er miskunnsamur. Hann ætlast aldrei til meira af okkur en við getum með góðu móti gert. — Sálmur 103:13, 14.

15. (a) Hvað getur hughreyst þá sem aðrir hafa af ásettu ráði farið illa með? (b) Hvaða virðingu sýnir Jehóva okkur?

15 En Jehóva lítur ekki heldur á okkur sem hjálparvana fórnarlömb aðstæðna. Ef við höfum orðið fyrir slæmri reynslu í fortíðinni getum við leitað hughreystingar í því að Jehóva hatar allt slíkt sem okkur hefur verið gert af ásetningi. (Sálmur 11:5; Rómverjabréfið 12:19) En leyfir hann okkur að sleppa við afleiðingar rangra verka ef við tökum vitandi vits rangar ákvarðanir? Auðvitað ekki. Orð hans segir: „Sérhver mun verða að bera sína byrði.“ (Galatabréfið 6:5) Jehóva sýnir öllum skynsemigæddum sköpunarverum sínum þá virðingu að gera þær ábyrgar fyrir að gera rétt og þjóna sér. Það er eins og Móse sagði Ísraelsmönnum: „Ég kveð í dag bæði himin og jörð til vitnis móti yður, að ég hefi lagt fyrir þig lífið og dauðann, blessunina og bölvunina. Veldu þá lífið, til þess að þú og niðjar þínir megi lifa.“ (5. Mósebók 30:19) Jehóva treystir því að við getum líka tekið réttar ákvarðanir. Hvernig vitum við það?

16. Hvernig getum við ‚unnið að sáluhjálp okkar‘ með góðum árangri?

16 Tökum eftir orðum Páls postula: „Þess vegna, mínir elskuðu, . . . vinnið nú að sáluhjálp yðar með ugg og ótta . . . Því að það er Guð, sem verkar í yður bæði að vilja og framkvæma sér til velþóknunar.“ (Filippíbréfið 2:12, 13) Frumgríska orðið, sem þýtt er ‚vinnið að,‘ merkir hér að fullgera eitthvað. Ekkert okkar er því dæmt til að mistakast eða gefast upp. Jehóva Guð hlýtur að treysta að við getum fullkomnað verkið sem hann fól okkur — sem leiðir til hjálpræðis okkar — því ella hefði hann ekki innblásið þessi orð. En hvernig tekst okkur það? Ekki í eigin krafti. Ef við værum sjálf nógu sterk þyrftum við ekki „ugg og ótta.“ En Jehóva ‚verkar í okkur‘ á þann hátt að heilagur andi hefur áhrif á huga okkar og hjarta og hjálpar okkur „að vilja og framkvæma.“ Er nokkur ástæða til að taka ekki réttar ákvarðanir í lífinu og lifa eftir þeim, fyrst við höfum alla þessa kærleiksríku hjálp? Nei. — Lúkas 11:13.

17. Hverju getum við breytt í fari okkar og hvernig hjálpar Jehóva okkur til þess?

17 Við þurfum að yfirstíga ýmsar hindranir — kannski ævilanga ósiði og skaðleg áhrif sem geta brenglað hugsun okkar. En við getum sigrast á þeim með hjálp anda Jehóva. Eins og Páll skrifaði kristnum mönnum í Korintu er orð Guðs nógu kröftugt til að brjóta niður sterkustu „vígi.“ (2. Korintubréf 10:4) Reyndar getur Jehóva hjálpað okkur að gerbreyta sjálfum okkur. Orð hans hvetur okkur til að „afklæðast hinum gamla manni“ og „íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.“ (Efesusbréfið 4:22-24) Getur andi Jehóva raunverulega hjálpað okkur að gera slíkar breytingar? Vissulega. Andi Guðs gefur af sér ávöxt í fari okkar — fagra og dýrmæta eiginleika sem við ættum öll að vilja rækta með okkur. Sá fremsti er kærleikur. — Galatabréfið 5:22, 23.

18. Hvaða ákvörðun er sérhver skynsamur maður fær um að taka og hverju ættum við þar af leiðandi að vera staðráðin í?

18 Í þessu er fólginn mikill og frelsandi sannleikur. Kærleikur Jehóva Guðs er ótakmarkaður og við erum gerð í mynd hans. (1. Mósebók 1:26; 1. Jóhannesarbréf 4:8) Við getum því valið að elska Jehóva. Og þessi kærleikur — ekki fyrra líferni, áunnir gallar eða arfgeng tilhneiging til syndar — er lykillinn að framtíð okkar. Adam og Eva þurftu að elska Jehóva Guð til að varðveita trúfesti í Eden. Við þurfum öll að elska hann til að lifa af Harmagedónstríðið og standast lokaprófraunina við lok þúsund ára stjórnar Krists. (Opinberunarbókin 7:14; 20:5, 7-10) Við getum öll ræktað með okkur slíkan kærleika, óháð aðstæðum. (Matteus 22:37; 1. Korintubréf 13:13) Við skulum vera staðráðin í að elska Jehóva og byggja á þeim kærleika um alla eilífð.

Hvað finnst þér?

◻ Hvaða vinsælar hugmyndir stangast á við jákvæða kenningu Biblíunnar um einstaklingsábyrgð?

◻ Hvaða byggingarstarf þarf hver kristinn maður að vinna á sjálfum sér?

◻ Hvernig eru Júdakonungar dæmi um að hver maður tekur sína eigin ákvörðun?

◻ Hvernig fullvissar Jehóva okkur um að við getum tekið réttar ákvarðanir í lífinu, óháð slæmum áhrifum umhverfis okkur?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 28]

Er framtíð þinni stjórnað af erfðum?

[Mynd á blaðsíðu 31]

Jósía konungur kaus að þjóna Guði þrátt fyrir slæmt fordæmi föður síns.