Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að ganga með Guði — með eilífðina fyrir augum

Að ganga með Guði — með eilífðina fyrir augum

Að ganga með Guði — með eilífðina fyrir augum

„Vér göngum í nafni [Jehóva], Guðs vors, æ og ævinlega.“ — MÍKA 4:5.

1. Af hverju er hægt að kalla Jehóva konung eilífðarinnar?

 JEHÓVA GUÐ á sér ekkert upphaf. Hann er réttilega kallaður „hinn aldraði“ því að hann hefur verið til frá eilífð. (Daníel 7:9, 13) Jehóva verður líka til að eilífu. Hann einn er „konungur aldanna“ eða eilífðarinnar. (Opinberunarbókin 10:6; 15:3) Og í augum hans eru þúsund ár „sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka.“ — Sálmur 90:4.

2. (a) Hver er tilgangur Guðs með hlýðna menn? (b) Hvað ættu vonir okkar og áform að snúast um?

2 Þar eð gjafari lífsins er eilífur gat hann gefið fyrstu mannhjónunum, Adam og Evu, kost á eilífu lífi í paradís. En með óhlýðni sinni fyrirgerði Adam rétti sínum til að lifa að eilífu og gaf afkomendum sínum synd og dauða í vöggugjöf. (Rómverjabréfið 5:12) Uppreisn Adams ónýtti hins vegar ekki upphaflegan tilgang Guðs. Það er vilji Jehóva að hlýðnir menn lifi að eilífu og vilji hans nær örugglega fram að ganga. (Jesaja 55:11) Það er því viðeigandi að vonir okkar og áform snúist um það að þjóna Jehóva með eilífðina fyrir augum. Enda þótt við viljum hafa ‚dag Jehóva‘ stöðugt í huga er mikilvægt að muna að það er markmið okkar að ganga með honum að eilífu. — 2. Pétursbréf 3:12.

Jehóva lætur til skarar skríða á tilsettum tíma

3. Hvernig vitum við að Jehóva hefur ákveðinn tíma til að hrinda tilgangi sínum í framkvæmd?

3 Þeir sem ganga með Guði hafa mikinn áhuga á að vilji hans nái fram að ganga. Við vitum að Jehóva er hinn mikli tímavörður og treystum því að hann bregðist aldrei í því að láta tilgang sinn ná fram að ganga á tilsettum tíma. Til dæmis ‚sendi Guð son sinn í fyllingu tímans.‘ (Galatabréfið 4:4) Jóhannesi postula var sagt að uppfylling hinna spádómlegu sýna, sem hann sá, ætti sér ákveðinn ‚tíma.‘ (Opinberunarbókin 1:1-3) Dómurinn yfir dauðum á sér ákveðinn ‚tíma.‘ (Opinberunarbókin 11:18) Fyrir meira en 1900 árum var Páli postula innblásið að segja að Guð hefði „sett dag, er hann mun láta mann, sem hann hefur fyrirhugað, dæma heimsbyggðina með réttvísi.“ — Postulasagan 17:31.

4. Hvernig vitum við að Jehóva þráir að binda enda á þetta illa heimskerfi?

4 Jehóva mun binda enda á þetta illa heimskerfi, því að nafn hans er smánað í heimi nútímans. Óguðlegir menn hafa blómgast. (Sálmur 92:8) Þeir móðga Guð með orðum sínum og verkum, og það tekur hann sárt að sjá þjóna sína smáða og ofsótta. (Sakaría 2:12) Það er engin furða að hann skuli hafa ákveðið að skipulagi Satans verði bráðlega gereytt. Guð hefur ákveðið nákvæmlega hvenær það gerist og uppfylling biblíuspádómanna sýnir svo ekki verður um villst að við lifum núna á ‚endalokatímanum.‘ (Daníel 12:4) Hann lætur bráðlega til skarar skríða til blessunar öllum sem elska hann.

5. Hvernig litu Lot og Habakkuk á ástandið í kringum sig?

5 Þjónar Jehóva forðum daga þráðu að sjá illskuna taka enda. Hinn réttláti Lot „mæddist af svívirðilegum lifnaði hinna guðlausu.“ (2. Pétursbréf 2:7) Spámaðurinn Habakkuk harmaði ástandið í kringum sig og bað til Guðs: „Hversu lengi hefi ég kallað, [Jehóva], og þú heyrir ekki! Hversu lengi hefi ég hrópað til þín: ‚Ofríki!‘ og þú hjálpar ekki! Hví lætur þú mig sjá rangindi, hví horfir þú upp á rangsleitni? Eyðing og ofríki standa fyrir augum mér. Af því koma þrætur, og deilur rísa upp.“ — Habakkuk 1:2, 3.

6. Hvernig svaraði Jehóva bæn Habakkuks og hvað lærum við af því?

6 Jehóva svaraði Habakkuk: „Enn hefir vitrunin sinn ákveðna tíma, en hún skundar að takmarkinu og bregst ekki. Þótt hún dragist, þá vænt hennar, því að hún mun vissulega fram koma og ekki undan líða.“ (Habakkuk 2:3) Þannig lét hann í ljós að hann myndi láta til skarar skríða á ‚ákveðnum tíma.‘ Þótt okkur virðist það dragast á langinn mun Jehóva standa við tilgang sinn. Það bregst ekki! — 2. Pétursbréf 3:9.

Þjónað af þrotlausri kostgæfni

7. Hvernig starfaði Jesús þótt hann vissi ekki nákvæmlega hvenær dagur Jehóva kæmi?

7 Þurfum við að vita tímasetningar Jehóva nákvæmlega til að geta gengið kostgæfin með honum? Nei, það er ekki nauðsynlegt. Lítum á nokkur dæmi. Jesús hafði mikinn áhuga á því hvenær vilji Guðs yrði gerður á jörðu eins og á himni. Hann kenndi fylgjendum sínum meira að segja að biðja: „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:9, 10) Jesús vissi að þessari beiðni yrði svarað en ekki nákvæmlega hvenær. Í hinum mikla spádómi sínum um endalok þessa heimskerfis sagði hann: „Þann dag og stund veit enginn, hvorki englar á himnum né sonurinn, enginn nema faðirinn einn.“ (Matteus 24:36) Þar eð Jesús Kristur er ein aðalpersónan í framvindu tilgangs Guðs mun hann eiga beinan þátt í því að eyða óvinum síns himneska föður. En þegar hann var á jörðinni vissi hann ekki einu sinni hvenær Guð myndi láta til skarar skríða. Dró það úr kostgæfni hans í þjónustu Jehóva? Síður en svo. Þegar lærisveinar Jesú sáu hann hreinsa musterið af mikilli kostgæfni kom þeim í hug „að ritað er: ‚Vandlæting vegna húss þíns mun tæra mig upp.‘“ (Jóhannes 2:17; Sálmur 69:10) Jesús var önnum kafinn í því starfi sem hann var sendur til að vinna og vann það af óbilandi kostgæfni. Hann þjónaði Guði með eilífðina fyrir augum.

8, 9. Hvað var lærisveinunum sagt þegar þeir spurðu um endurreisn ríkisins og hvernig brugðust þeir við?

8 Lærisveinar Jesú gerðu það líka. Jesús hitti þá rétt áður en hann steig upp til himna. Frásagan segir: „Meðan þeir voru saman, spurðu þeir hann: ‚Herra, ætlar þú á þessum tíma að endurreisa ríkið handa Ísrael?‘“ Líkt og meistari þeirra þráðu þeir að Guðsríki kæmi. En Jesús svaraði: „Ekki er það yðar að vita tíma eða tíðir, sem faðirinn setti af sjálfs sín valdi. En þér munuð öðlast kraft, er heilagur andi kemur yfir yður, og þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“ — Postulasagan 1:6-8.

9 Ekkert bendir til að þetta svar hafi gert lærisveinana vondaufa því að þeir prédikuðu af kappi og kostgæfni. Á fáeinum vikum voru þeir búnir að fylla Jerúsalem með kenningu sinni. (Postulasagan 5:28) Og á innan við 30 árum hafði prédikun þeirra náð svo víða að Páll gat sagt að fagnaðarerindið hefði verið prédikað „fyrir öllu, sem skapað er undir himninum.“ (Kólossubréfið 1:23) Enda þótt ríkið hefði ekki verið ‚endurreist handa Ísrael,‘ eins og lærisveinarnir höfðu ranglega gert sér vonir um, og þótt það hefði ekki verið stofnsett á himnum meðan þeir voru uppi héldu þeir áfram að þjóna Jehóva kostgæfilega með eilífðina fyrir augum.

Rannsökum hvatir okkar

10. Hvað höfum við tækifæri til að sanna þar eð við vitum ekki hvenær Guð eyðir kerfi Satans?

10 Nútímaþjónar Jehóva þrá líka að sjá þetta illa heimskerfi líða undir lok. En aðalmálið í huga okkar er ekki að bjargast sjálf inn í hinn fyrirheitna heim Guðs, heldur viljum við sjá nafn hans helgað og drottinvald hans réttlætt. Þar af leiðandi getum við glaðst yfir því að Guð skuli ekki hafa sagt okkur á hvaða ‚degi eða stund‘ hann ætli að eyða kerfi Satans. Við höfum því tækifæri til að sýna að við séum staðráðin í að ganga með Guði að eilífu vegna þess að við elskum hann, en höfum ekki eigingjörn skammtímamarkmið að leiðarljósi.

11, 12. Hvernig var ráðvendni Jobs véfengd og hvernig tengist það okkur?

11 Ráðvendni okkar við Guð á líka þátt í því að sanna að djöfullinn hafi haft rangt fyrir sér þegar hann sakaði hinn ráðvanda Job — og alla honum líka — um að þjóna Guði í eiginhagsmunaskyni. Eftir að Jehóva kallaði þjón sinn Job ráðvandan, réttlátan og guðhræddan fullyrti Satan: „Ætli Job óttist Guð fyrir ekki neitt? Hefir þú ekki lagt skjólgarð um hann og hús hans og allt, sem hann á, hringinn í kring? Handaverk hans hefir þú blessað, og fénaður hans breiðir sig um landið. En rétt þú út hönd þína og snert þú allt, sem hann á, og mun hann þá formæla þér upp í opið geðið.“ (Jobsbók 1:8-11) Með því að varðveita ráðvendni í prófraunum sannaði Job að þessi illgjarna staðhæfing væri röng.

12 Ef við varðveitum ráðvendni eins og Job getum við afsannað allar djöfullegar ákærur þess efnis að við þjónum Guði aðeins af því að við vitum að launin eru á næstu grösum. Að vita ekki nákvæmlega hvenær Guð fullnægir hefnd á hinum óguðlegu gefur okkur tækifæri til að sanna að við elskum hann í raun og veru og viljum ganga á vegum hans að eilífu. Það sýnir að við erum honum trú og að við treystum honum til að taka rétt á málum. Og það að vita ekki daginn og stundina heldur okkur árvökum og andlega vakandi af því að við gerum okkur ljóst að endirinn getur runnið upp hvenær sem er eins og þjófur á nóttu. (Matteus 24:42-44) Með því að ganga með Jehóva dag hvern gleðjum við hjarta hans og svörum djöflinum sem smánar hann. — Orðskviðirnir 27:11.

Búðu þig undir eilífðina

13. Hvað gefur Biblían í skyn um framtíðaráætlanir?

13 Þeir sem ganga með Guði vita að það er viturlegt að gera skynsamlegar framtíðaráætlanir. Minnugir erfiðleika og takmarkana elliáranna reyna margir að nota kraft og styrk æskunnar til að tryggja sér fjárhagslegt öryggi í ellinni. En hvað þá um andlega framtíð okkar sem er miklum mun mikilvægari? Orðskviðirnir 21:5 segja: „Fyrirætlanir iðjumannsins reynast fésamar vel, en öll flasfærni lendir í fjárskorti.“ Það er mjög skynsamlegt að búa sig undir eilífðina. Þar eð við vitum ekki nákvæmlega hvenær þetta heimskerfi líður undir lok þurfum við að hugsa eitthvað um þarfir okkar í framtíðinni. En sýnum jafnvægi og látum hagsmuni Guðs ganga fyrir. Þeim sem trúa ekki finnst það kannski skammsýni af okkur að einbeita okkur að því að gera vilja Guðs. En er það skammsýni?

14, 15. (a) Hvaða dæmisögu sagði Jesús um framtíðaráætlanir? (b) Af hverju var ríki maðurinn í dæmisögunni skammsýnn?

14 Jesús sagði athyglisverða dæmisögu í þessu sambandi: „Maður nokkur ríkur átti land, er hafði borið mikinn ávöxt. Hann hugsaði með sér: ‚Hvað á ég að gjöra? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum.‘ Og hann sagði: ‚Þetta gjöri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri, og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum. Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.‘ En Guð sagði við hann: ‚Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð, og hver fær þá það, sem þú hefur aflað?‘ Svo fer þeim er safnar sér fé, en er ekki ríkur hjá Guði.“ — Lúkas 12:16-21.

15 Var Jesús að gefa í skyn að ríki maðurinn hefði ekki átt að vinna að fjárhagslegu öryggi sínu í framtíðinni? Nei, því að Biblían hvetur til vinnusemi. (2. Þessaloníkubréf 3:10) Mistök ríka mannsins voru þau að gera ekki það sem þurfti til að vera „ríkur hjá Guði.“ Jafnvel þótt hann hefði getað notið auðlegðar sinnar í mörg ár hefði hann dáið um síðir. Hann var skammsýnn og hugsaði ekki um eilífðina.

16. Af hverju getum við treyst að Jehóva tryggi okkur örugga framtíð?

16 Það er bæði raunsæi og framsýni að ætla sér að ganga með Jehóva að eilífu. Það eru bestu framtíðaráform sem hægt er að gera. Þótt það sé vissulega skynsemi að gera raunhæfar áætlanir í sambandi við nám, atvinnu og fjölskylduábyrgð ættum við alltaf að hafa hugfast að Jehóva yfirgefur aldrei holla þjóna sína. Davíð konungur söng: „Ungur var ég og gamall er ég orðinn, en aldrei sá ég réttlátan mann yfirgefinn né niðja hans biðja sér matar.“ (Sálmur 37:25) Jesús fullvissaði áheyrendur sína líka um að Jehóva Guð sjái fyrir öllum sem leita fyrst ríkis hans og ganga á réttlátum vegum hans. — Matteus 6:33.

17. Hvernig vitum við að endirinn er nálægur?

17 Þótt við þjónum Guði með eilífðina fyrir augum höfum við dag hans samt sem áður efst í huga. Uppfylling biblíuspádómanna ber skýrt vitni um að dagurinn sé nálægur. Þessi öld hefur einkennst af styrjöldum, drepsóttum, jarðskjálftum og matvælaskorti, ásamt því að sannkristnir menn hafa verið ofsóttir og fagnaðarerindið um ríki Guðs prédikað um allan heim. Allt eru þetta tákn þess að endalokatími hins illa heimskerfis sé runninn upp. (Matteus 24:7-14; Lúkas 21:11) Heimurinn er fullur af mönnum sem eru „sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur, foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir, kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er, sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir, elskandi munaðarlífið meira en Guð.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Hinir síðustu dagar eru erfiðir fyrir þjóna Jehóva. Við þráum heitt þann dag þegar ríki hans sópar burt allri illsku. En meðan við bíðum skulum við vera staðráðin í að ganga með Guði með eilífðina fyrir augum.

Þjónað með eilíft líf fyrir augum

18, 19. Hvað sýnir að trúfastir þjónar Guðs til forna þjónuðu honum með eilífðina fyrir augum?

18 Þegar við göngum með Jehóva skulum við hafa í huga trú Abels, Enoks, Nóa, Abrahams og Söru. Eftir að hafa minnst á þau skrifaði Páll: „Allir þessir menn dóu í trú, án þess að hafa öðlast fyrirheitin. Þeir sáu þau álengdar og fögnuðu þeim og játuðu, að þeir væru gestir og útlendingar á jörðinni.“ (Hebreabréfið 11:13) Þessir trúföstu þjónar Guðs „þráðu . . . betri ættjörð, það er að segja himneska.“ (Hebreabréfið 11:16) Í trú hlökkuðu þeir til betra hlutskiptis undir stjórn Messíasarríkis Guðs. Við megum vera viss um að Guð umbunar þeim með eilífu lífi í hinni jarðnesku paradís undir stjórn Guðsríkis. — Hebreabréfið 11:39, 40.

19 Spámaðurinn Míka lýsir þeirri einbeittu afstöðu fólks Jehóva að tilbiðja hann að eilífu. Hann skrifaði: „Allar þjóðirnar ganga hver í nafni síns guðs, en vér göngum í nafni [Jehóva], Guðs vors, æ og ævinlega.“ (Míka 4:5) Míka spámaður þjónaði Jehóva trúfastur allt til dauða. Þegar hann rís upp í nýja heiminum heldur hann vafalaust áfram að ganga með Guði um alla eilífð. Þetta er gott fordæmi öllum sem lifa núna seint á endalokatímanum.

20. Hverju ættum við að vera staðráðin í?

20 Jehóva kann að meta þann kærleika sem við auðsýnum nafni hans. (Hebreabréfið 6:10) Hann veit að það er erfitt fyrir okkur að varðveita ráðvendni við hann í heimi sem er undir stjórn djöfulsins. Hins vegar ‚fyrirferst heimurinn, en sá sem gjörir Guðs vilja varir að eilífu.‘ (1. Jóhannesarbréf 2:17; 5:19) Með hjálp Jehóva skulum við því vera staðráðin í að standast þær prófraunir sem við verðum fyrir dag frá degi. Megi líf okkar og hugsun snúast um hina stórfenglegu blessun sem ástríkur faðir okkar á himnum hefur heitið. Við getum hlotið hana ef við höldum áfram að ganga með Guði með eilífðina fyrir augum. — Júdasarbréfið 20, 21.

Hvert er svar þitt?

◻ Hver er tilgangur Guðs með hlýðna menn?

◻ Af hverju hefur Jehóva enn ekki bundið enda á hinn óguðlega heim?

◻ Hvers vegna dregur það ekki úr kostgæfni okkar að við skulum ekki vita hvenær Guð lætur til skarar skríða?

◻ Hvers vegna er gagnlegt að ganga með Guði með eilífðina fyrir augum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 25]

Til að ganga með Guði þurfum við að þjóna honum kostgæfilega eins og fyrstu lærisveinar Krists.