Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hataðir fyrir trú sína

Hataðir fyrir trú sína

Hataðir fyrir trú sína

„Þér munuð hataðir af öllum vegna nafns míns.“ — MATTEUS 10:22.

1, 2. Nefndu dæmi um það sem vottar Jehóva hafa mátt þola fyrir að iðka trú sína.

 HEIÐARLEGUR verslunareigandi á eynni Krít er handtekinn mörgum sinnum og leiddur fyrir gríska dómstóla. Hann situr samanlagt meira en sex ár í fangelsi fjarri konu og fimm börnum. Sautján ára nemanda er vikið úr skóla í Japan þrátt fyrir góða hegðun og hæstu einkunnir í 42 nemenda bekk. Í Frakklandi er fjöldi manna rekinn fyrirvaralaust úr vinnu þótt þeir eigi að baki lýtalausan feril sem duglegir og samviskusamir starfsmenn. Hvað er öllu þessu fólki sameiginlegt?

2 Þetta eru allt vottar Jehóva. Og hver er „glæpurinn“? Fyrst og fremst sá að iðka trú sína. Hlýðinn kenningum Jesú Krists hafði verslunareigandinn sagt öðrum frá trú sinni. (Matteus 28:19, 20) Hann var dæmdur sekur aðallega samkvæmt úreltum grískum lögum sem kveða á um að trúboð sé glæpsamlegt athæfi. Nemandanum var vikið úr skóla af því að biblíufrædd samviska hans leyfði honum ekki að taka þátt í skylduæfingum í kendo (japanskri skylmingaíþrótt). (Jesaja 2:4) Og þeim sem voru reknir úr vinnu í Frakklandi var sagt að eina ástæðan væri sú að þeir væru vottar Jehóva.

3. Af hverju er fremur sjaldgæft að vottar Jehóva þjáist af annarra völdum?

3 Þessi dæmi eru einkennandi fyrir það harðræði sem vottar Jehóva hafa mátt þola sums staðar í heiminum undanfarið. Það er þó tiltölulega sjaldgæft að vottar Jehóva þurfi að líða miklar þjáningar af annarra völdum. Fólk Jehóva er þekkt um heim allan fyrir góða breytni, og slíkt mannorð gefur engum manni réttmætt tilefni til að vilja vinna þeim tjón. (1. Pétursbréf 2:11, 12) Þeir skipuleggja ekki samsæri eða taka þátt í nokkru skaðlegu athæfi. (1. Pétursbréf 4:15) Þeir reyna þvert á móti að lifa eftir því ráði Biblíunnar að vera undirgefnir Guði fyrst og síðan veraldlegum stjórnvöldum. Þeir greiða lögboðna skatta og leitast við að hafa „frið við alla menn.“ (Rómverjabréfið 12:18; 13:6, 7; 1. Pétursbréf 2:13-17) Í biblíufræðslustarfi sínu hvetja þeir til virðingar fyrir lögum, fjölskyldurækni og góðs siðferðis. Víða um lönd hafa þeir hlotið hrós stjórnvalda fyrir löghlýðni. (Rómverjabréfið 13:3) En eins og fram kemur í upphafi greinarinnar hafa þeir stundum mátt þola mótstöðu — og í sumum löndum banna yfirvöld þeim jafnvel að starfa. Ætti það að koma okkur á óvart?

‚Kostnaðurinn‘ af því að vera lærisveinn

4. Hverju máttu menn búast við, að sögn Jesú, ef þeir gerðust lærisveinar hans?

4 Jesús Kristur lét engan velkjast í vafa um hvað það fæli í sér að vera lærisveinn. „Þjónn er ekki meiri en herra hans,“ sagði hann fylgjendum sínum. „Hafi þeir ofsótt mig, þá munu þeir líka ofsækja yður.“ Jesús var hataður „án saka.“ (Jóhannes 15:18-20, 25; Sálmur 69:5; Lúkas 23:22) Lærisveinar hans gátu vænst þess sama — óréttmætrar andstöðu. Oftar en einu sinni varaði hann þá við: „Þér munuð hataðir af öllum.“ — Matteus 10:22; 24:9.

5, 6. (a) Af hverju hvatti Jesús væntanlega fylgjendur sína til að ‚reikna kostnaðinn‘? (b) Af hverju ættum við ekki að láta andstöðu koma okkur á óvart?

5 Þar af leiðandi hvatti Jesús væntanlega fylgjendur sína til að ‚reikna kostnaðinn‘ af því að vera lærisveinar. (Lúkas 14:28) Til hvers? Ekki til að vega og meta hvort þeir ættu að gerast lærisveinar hans eða ekki, heldur til að vera staðráðnir í að gera allt sem það fæli í sér. Við verðum að vera tilbúin til að þola hvaða prófraunir eða þrengingar sem fylgja sérréttindum okkar. (Lúkas 14:27) Enginn neyðir okkur til að þjóna Jehóva sem fylgjendur Krists. Það er sjálfviljaákvörðun, og það er ákvörðun byggð á vitneskju. Við vitum fyrirfram að auk blessunarinnar, sem fylgir því að eiga vígslusamband við Guð, verðum við „hataðir.“ Þess vegna kemur andstaða okkur ekki á óvart. Við höfum ‚reiknað kostnaðinn‘ og erum reiðubúin að standa undir honum. — 1. Pétursbréf 4:12-14.

6 Af hverju eru sumir andsnúnir sannkristnum mönnum, þeirra á meðal stjórnvöld sumra landa? Til að fá svar við því er gott að fræðast um tvo trúarhópa á fyrstu öld okkar tímatals. Báðir voru hataðir en af mjög ólíkum ástæðum.

Hatursfullir og hataðir

7, 8. Hvaða kenningar endurspegluðu fyrirlitningu á heiðingjum og hvaða afstaða þróaðist meðal Gyðinga í kjölfarið?

7 Ísrael var undir rómverskri stjórn á fyrstu öld og gyðingdómurinn, trúarkerfi Gyðinga, var á heildina litið í járngreip fræðimanna og farísea. (Matteus 23:2-4) Þessir ofstækismenn rangsneru ákvæðum Móselaganna um aðskilnað frá þjóðunum þannig að þeir heimtuðu fyrirlitningu á annarra þjóða mönnum. Trúin, sem til varð úr því, leiddi til haturs á heiðingjum og kallaði fram hatur heiðingja á móti.

8 Það var ekki erfitt fyrir leiðtoga Gyðinga að prédika fyrirlitningu á heiðingjum því að Gyðingar þess tíma litu á heiðingja sem illmenni. Trúarleiðtogarnir kenndu að Gyðingakona mætti aldrei vera einsömul með heiðingjum því að þeir „eru grunaðir um lostasemi.“ Gyðingakarl mátti ekki „vera einsamall með þeim því að þeir eru grunaðir um blóðsúthellingar.“ Ef heiðingi mjólkaði skepnu mátti ekki nota mjólkina nema Gyðingur hefði horft á hann mjólka. Undir áhrifum leiðtoga sinna urðu Gyðingar fálátir, strangir og vandfýsnir. — Samanber Jóhannes 4:9.

9. Hvaða áhrif höfðu kenningar Gyðinga á menn af öðrum þjóðum?

9 Slíkar kenningar um annarra þjóða menn voru síst til þess fallnar að stuðla að góðum samskiptum milli Gyðinga og heiðingja. Heiðingjar töldu Gyðinga hata allt mannkyn. Rómverski sagnaritarinn Tacítus (fæddur um árið 56) sagði að Gyðingar „litu á alla aðra menn sem hataða óvini.“ Hann fullyrti jafnframt að heiðingja, sem tæki Gyðingatrú, væri kennt að afneita landi sínu og meta ættingja og vini einskis. Almennt umbáru Rómverjar Gyðinga enda voru þeir óárennilegir sökum fjölda. En uppreisn Gyðinga árið 66 kallaði á harkaleg viðbrögð Rómverja og leiddi til þess að Jerúsalem var eytt árið 70.

10, 11. (a) Hvernig átti að fara með útlendinga samkvæmt Móselögunum? (b) Hvað lærum við af því sem gerðist í gyðingdómnum?

10 Hvernig var þessi afstaða til útlendinga í samanburði við þá tilbeiðslu sem útlistuð var í Móselögunum? Lögmálið stuðlaði vissulega að aðskilnaði frá þjóðunum en tilgangurinn var sá að vernda Ísraelsmenn, einkum hreina tilbeiðslu þeirra. (Jósúabók 23:6-8) Engu að síður krafðist lögmálið þess að útlendingar nytu réttvísi og sanngirni og mönnum bar að sýna þeim gestrisni — svo framarlega sem þeir óhlýðnuðust ekki lögum Ísraels gróflega. (3. Mósebók 24:22) Með því að snúa baki við þeirri sanngirni gagnvart útlendingum, sem var svo greinileg í lögmálinu, bjuggu trúarleiðtogarnir á dögum Jesú til tilbeiðsluform sem ýtti undir hatur og var hatað. Að síðustu missti Gyðingaþjóð fyrstu aldar velþóknun Jehóva. — Matteus 23:38.

11 Getum við dregið lærdóm af þessu? Já, sjálfumgleði og yfirlæti gagnvart þeim sem eru ekki sömu trúar og við gefur ekki rétta mynd af hinni hreinu tilbeiðslu á Jehóva og er honum ekki þóknanlegt. Lítum á trúfasta kristna menn á fyrstu öld. Þeir hvorki hötuðu ókristna menn né gerðu uppreisn gegn Róm. Engu að síður voru þeir „hataðir.“ Hvers vegna? Og hverjir hötuðu þá?

Frumkristnir menn — hverjir hötuðu þá?

12. Hvernig er ljóst af Ritningunni að Jesús vill að fylgjendur sínir hafi öfgalausa afstöðu til annarra?

12 Ljóst er af kenningum Jesú að hann ætlaðist til að lærisveinar sínir hefðu öfgalausa afstöðu til ókristinna manna. Annars vegar sagði hann að fylgjendur sínir yrðu aðgreindir frá heiminum — það er að segja að þeir myndu forðast hugarfar og hegðun sem stríddi gegn réttlátum vegum Jehóva. Þeir myndu vera hlutlausir í stjórnmálum og styrjöldum. (Jóhannes 17:14, 16) Hins vegar prédikaði Jesús alls ekki fyrirlitningu á ókristnum mönnum heldur sagði fylgjendum sínum að ‚elska óvini sína.‘ (Matteus 5:44) Páll postuli hvatti kristna menn: „Ef óvin þinn hungrar, þá gef honum að eta, ef hann þyrstir, þá gef honum að drekka.“ (Rómverjabréfið 12:20) Hann sagði þeim að „gjöra öllum gott.“ — Galatabréfið 6:10.

13. Af hverju voru trúarleiðtogar Gyðinga mjög andsnúnir lærisveinum Krists?

13 Samt sem áður voru lærisveinar Krists brátt „hataðir“ af þrem hópum manna. Fyrst er að nefna trúarleiðtoga Gyðinga. Það er ekkert undarlegt að kristnir menn skyldu fljótlega vekja athygli þeirra. Kristnir menn voru mjög siðsamir og ráðvandir og prédikuðu vonarboðskap af brennandi kostgæfni. Þúsundir manna yfirgáfu gyðingdóminn og tóku kristna trú. (Postulasagan 2:41; 4:4; 6:7) Trúarleiðtogar Gyðinga litu svo á að Gyðingar, sem gerðust lærisveinar Jesú, væru hreinir fráhvarfsmenn. (Samanber Postulasöguna 13:45.) Þessum reiðu leiðtogum fannst kristnin ógilda erfikenningar þeirra. Hún afneitaði meira að segja afstöðu þeirra til heiðingja! Frá og með árinu 36 gátu heiðnir menn gerst kristnir og átt sömu trú og sömu sérréttindi og kristnir Gyðingar. — Postulasagan 10:34, 35.

14, 15. (a) Af hverju bökuðu kristnir menn sér hatur heiðinna guðsdýrkenda? Nefndu dæmi. (b) Hvaða þriðji hópur ‚hataði‘ frumkristna menn?

14 Í öðru lagi bökuðu kristnir menn sér hatur heiðinna guðsdýrkenda. Í Efesus fortíðar var smíði litilla silfurmustera gyðjunnar Artemisar ábatasöm atvinna. En þegar Páll prédikaði þar tóku fjölmargir Efesusmenn trú og hættu að tilbiðja Artemis. Silfursmiðirnir töldu atvinnu sinni ógnað og stofnuðu til uppþots. (Postulasagan 19:24-41) Eitthvað áþekkt gerðist eftir að kristnin barst til Biþýníu (sem nú er í norðvesturhluta Tyrklands). Skömmu eftir að ritun kristnu Grísku ritninganna lauk greindi landstjórinn í Biþýníu, Pliníus yngri, frá því að heiðin hof stæðu auð og sala á fóðri handa fórnardýrum hefði dregist verulega saman. Kristnum mönnum var kennt um — og þeir voru ofsóttir — því að dýrafórnir og skurðgoð þekktust ekki í guðsdýrkun þeirra. (Hebreabréfið 10:1-9; 1. Jóhannesarbréf 5:21) Ljóst er að sumir, sem höfðu hag af heiðinni tilbeiðslu, töldu útbreiðslu kristninnar ógna hag sínum og brugðust ókvæða við þegar þeir töpuðu viðskiptum og peningum.

15 Í þriðja lagi voru kristnir menn „hataðir“ af þjóðernissinnuðum Rómverjum. Í fyrstu litu Rómverjar á þá sem smáan og kannski ofstækisfullan trúarhóp. En með tímanum varð það eitt að játa kristna trú dauðasök. Af hverju ætli heiðarlegir borgarar, sem lifðu kristilegu lífi, hafi verið taldir verðskulda ofsóknir og dauða?

Frumkristnir menn — af hverju hataðir í heimi Rómverja?

16. Hvernig héldu kristnir menn sér aðgreindum frá heiminum og af hverju gerði það þá óvinsæla í heimi Rómverja?

16 Kristnir menn voru fyrst og fremst hataðir í heimi Rómverja fyrir að iðka trú sína. Til dæmis héldu þeir sér aðgreindum frá heiminum. (Jóhannes 15:19) Þeir gegndu því ekki pólitískum embættum og neituðu að gegna herþjónustu. Þar af leiðandi var þeim lýst svo að þeir væru „steinsofandi og gagnslausir í öllum málefnum lífsins,“ að sögn sagnfræðingsins Augustusar Neanders. Að tilheyra ekki heiminum fól einnig í sér að forðast óguðlegt hátterni hins siðspillta rómverska heims. „Smá, kristin samfélög voru hinum skemmtanafíkna heiðna heimi þyrnir í augum vegna þeirrar guðrækni og siðsemi sem einkenndi þau,“ segir sagnfræðingurinn Will Durant. (1. Pétursbréf 4:3, 4) Með því að ofsækja og lífláta kristna menn voru Rómverjar kannski að reyna að þagga niður í óþægilegri rödd samviskunnar.

17. Hvað sýnir að prédikunarstarf kristinna manna á fyrstu öld var áhrifaríkt?

17 Kristnir menn á fyrstu öld prédikuðu fagnaðarerindið um Guðsríki af óbilandi kostgæfni. (Matteus 24:14) Árið 60 gat Páll sagt að fagnaðarerindið hefði verið ‚prédikað fyrir öllu sem skapað er undir himninum.‘ (Kólossubréfið 1:23) Undir lok fyrstu aldar höfðu fylgjendur Jesú gert menn að lærisveinum út um gervallt Rómaveldi — í Asíu, Evrópu og Afríku. Meira að segja höfðu sumir „í þjónustu keisarans“ tekið kristna trú. * (Filippíbréfið 4:22) Þessi kostgæfilega prédikun vakti reiði. Neander segir: „Kristnin sótti á jafnt og þétt meðal fólks af öllum stéttum, og óttast var að hún kollvarpaði ríkistrúnni.“

18. Hvernig setti það kristna menn upp á kant við rómversk stjórnvöld að þeir skyldu veita Jehóva óskipta hollustu?

18 Fylgjendur Jesú veittu Jehóva óskipta hollustu. (Matteus 4:8-10) Vera má að þessi þáttur í tilbeiðslu þeirra hafi meira en nokkuð annað sett þá upp á kant við Róm. Rómverjar voru umburðarlyndir gagnvart öðrum trúarbrögðum, svo framarlega sem áhangendur þeirra tóku líka þátt í keisaradýrkun. Frumkristnir menn gátu alls ekki tekið þátt í slíkri tilbeiðslu. Þeir töldu sig vera ábyrga gagnvart æðra yfirvaldi en rómverska ríkinu, það er að segja Jehóva Guði. (Postulasagan 5:29) Þar af leiðandi skipti ekki máli hve góðir borgarar kristnir menn voru að öðru leyti; þeir voru eftir sem áður álitnir óvinir ríkisins.

19, 20. (a) Hverjir báru að stórum hluta ábyrgð á hinum illgjarna rógi um kristna menn? (b) Hvað voru kristnir menn ranglega sakaðir um?

19 Það var enn ein ástæða fyrir því að trúfastir kristnir menn voru „hataðir“ af hinum rómverska heimi: Trúarleiðtogar Gyðinga áttu verulegan þátt í að útbreiða illgjarnan róg um þá, sem menn trúðu eins og nýju neti. (Postulasagan 17:5-8) Um árið 60 eða 61, þegar Páll beið þess í Róm að Neró keisari tæki mál hans fyrir, sögðu forystumenn Gyðinga um kristna menn: „Það er oss kunnugt um flokk þennan, að honum er alls staðar mótmælt.“ (Postulasagan 28:22) Vart fer hjá því að Neró hafi heyrt einhverjar lygasögur um þá. Sagan segir að árið 64, þegar honum var kennt um stórfelldan eldsvoða í Róm, hafi hann skellt skuldinni á kristna menn. Það virðist hafa hrint af stað ofsóknaröldu þar sem ætlunin var að útrýma þeim.

20 Hinar röngu ásakanir á hendur kristnum mönnum voru oft sambland af hreinum lygum og afbökunum á kenningum þeirra. Þeir voru kallaðir guðleysingjar af því að þeir voru eingyðistrúar og dýrkuðu ekki keisarann. Þeir voru sakaðir um að sundra fjölskyldum af því að ókristnir ættingjar settu sig stundum upp á móti trú þeirra. (Matteus 10:21) Þeir voru kallaðir mannætur sem sumir segja hafa byggst á rangfærslu á orðum Jesú við kvöldmáltíðina. — Matteus 26:26-28.

21. Af hvaða tveim ástæðum voru kristnir menn „hataðir“?

21 Það voru því tvær meginástæður fyrir því að Rómverjar ‚hötuðu‘ trúfasta kristna menn: (1) biblíuleg trú þeirra og trúariðkanir og (2) ósannar ásakanir á hendur þeim. En hver sem ástæðan var höfðu andstæðingarnir aðeins eitt markmið — að bæla niður kristnina. Raunverulegir forsprakkar ofsóknanna voru auðvitað ofurmannlegir andstæðingar þeirra, hinar ósýnilegu andaverur vonskunnar. — Efesusbréfið 6:12.

22. (a) Hvaða dæmi sýna að vottar Jehóva leitast við að „gjöra öllum gott“? (Sjá rammagrein á bls. 11.) (b) Hvað er fjallað um í næstu grein?

22 Vottar Jehóva nútímans hafa verið „hataðir“ víða um lönd líkt og frumkristnir menn. En þeir hata ekki þá sem standa utan safnaðarins og hafa aldrei verið gróðrarstía uppreisnar gegn yfirvöldum. Þeir eru þekktir um heim allan fyrir ósvikinn mannkærleika sem er hafinn yfir öll þjóðfélags-, kynþátta- og þjóðernislandamæri. Af hverju hafa þeir þá verið ofsóttir? Og hvernig bregðast þeir við andstöðu? Þessar spurningar eru ræddar í næstu grein.

[Neðanmáls]

^ Orðin „í þjónustu keisarans“ eða ‚heimilisfólk keisarans‘ samkvæmt sumum þýðingum geta átt við þjónustufólk og lágt setta starfsmenn sem unnu heimilisstörf á borð við matseld og ræstingu hjá keisarafjölskyldunni og starfsliði hennar.

Hvert er svarið?

◻ Af hverju hvatti Jesús væntanlega fylgjendur sína til að reikna kostnaðinn við að vera lærisveinar?

◻ Hvaða áhrif höfðu ríkjandi viðhorf til manna af öðrum þjóðum á gyðingdóminn og hvað lærum við af því?

◻ Úr hvaða þrem áttum urðu frumkristnir menn fyrir andstöðu?

◻ Af hvaða meginástæðum voru frumkristnir menn „hataðir“ af Rómverjum?

[Spurningar]

[Rammagrein á blaðsíðu 11]

‚Að gera öllum gott‘

Vottar Jehóva reyna að fara eftir þeirri hvatningu Biblíunnar að „gjöra öllum gott.“ (Galatabréfið 6:10) Á neyðartímum hefur náungakærleikur þeirra komið þeim til að hjálpa fólki sem er annarrar trúar. Til dæmis buðust evrópskir vottar til að fara til Afríku árið 1994 til að veita neyðaraðstoð vegna hörmunganna í Rúanda, og settu þar upp vel skipulagðar búðir og spítala. Matvæli, fatnaður og ábreiður voru fluttar þangað flugleiðis í stórum stíl. Flóttamennirnir, sem nutu góðs af þessu hjálparstarfi, voru meira en þrefalt fleiri en vottarnir á svæðinu.

[Mynd á blaðsíðu 9]

Kristnir menn á fyrstu öld prédikuðu fagnaðarerindið með óbilandi kostgæfni.