Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Margir segjast trúa

Margir segjast trúa

Margir segjast trúa

„JESÚS er dásamlegur! Hann er hreinlega stórkostlegur!“ sagði trúuð kona í Brasilíu. Enginn mælir því mót að nafn Jesú búi yfir miklum krafti. Alla tíð hafa menn fúslega þjáðst og dáið fyrir hann.

Postularnir Pétur og Jóhannes prédikuðu ‚í nafni Jesú‘ í Jerúsalem. Fyrir vikið voru þeir handteknir og húðstrýktir. Samt sem áður „fóru [þeir] burt frá ráðinu, glaðir yfir því, að þeir höfðu verið virtir þess að þola háðung vegna nafns Jesú.“ — Postulasagan 5:28, 41.

Antípas var kristinn maður á fyrstu öld sem mat nafn Jesú líka mikils. Í síðustu bók Biblíunnar, Opinberunarbókinni, talar Jesús um hann sem ‚sinn trúa vott sem deyddur var hjá ykkur þar sem Satan býr.‘ (Opinberunarbókin 2:13) Líkt og aðrir kristnir menn í Pergamos hafði Antípas ekki viljað afneita trú sinni á Krist. Hann hélt sér fast við nafn Jesú þótt það kostaði hann lífið.

Pólýkarpus nokkur, sem játaði kristna trú, varð fyrir svipaðri prófraun um hálfri öld síðar, árið 155, þegar honum var skipað að lastmæla Kristi. Hann svaraði: „Í 86 ár hef ég þjónað honum og hann hefur aldrei beitt mig órétti. Hvernig get ég lastmælt konungi mínum sem hefur frelsað mig?“ Pólýkarpus var brenndur á báli fyrir að afneita ekki Kristi.

Postularnir, Antípas og fleiri voru fúsir til að innsigla vitnisburð sinn um Krist með dauða sínum! Hvað um fólk nú á tímum?

Nafn Jesú nú á dögum

Nafn Jesú vekur áfram sterkar tilfinningar. Í Rómönsku Ameríku hafa trúfélög, sem játa trú á Jesú, sjaldan vaxið jafnhratt og á síðustu áratugum. Í smæstu þorpum eru hvítasunnusöfnuðir. Pólitísk áhrif slíkra trúfélaga hafa vaxið að sama skapi. Svo dæmi sé tekið eiga þessi trúfélög 31 fulltrúa á þjóðþingi og í öldungadeild Brasilíu.

Jesús er einnig þungamiðja nýrrar trúarhreyfingar í Bandaríkjunum sem kallar sig Orðheldnir menn. Tímaritið Time sagði frá því árið 1997 að samkomusóknin hjá þeim hefði vaxið úr 4200 árið 1991 í 1,1 milljón árið 1996. Þessi ljóðlína er í einum af sálmum þeirra: „Jesús veitir sigur, frelsari minn um eilífð.“

En nafn Jesú hefur ekki einungis kveikt göfugar kenndir. Stríðsfáninn hefur oft verið dreginn að húni við hljóminn af nafni hans. Gyðingar hafa verið strádrepnir, heiðingjar brytjaðir niður og andófsmenn pyndaðir, limlestir og brenndir á báli — í nafni Jesú. Og á síðustu árum hefur boðun orðsins verið gerð að hreinni söluvöru eins og frægt er orðið. Allt er þetta ógeðfelld misnotkun á nafni Jesú og því sem það táknar.

Og þessi misnotkun vekur spurningar: Hvað er fólgið í því að trúa á nafn Jesú? Og hvaða augum líta vottar Jehóva þetta mál? Þeim er svarað í greininni á eftir.