Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Nafnið sem kveikir sanna trú

Nafnið sem kveikir sanna trú

Nafnið sem kveikir sanna trú

„ÞIÐ trúið ekki á Jesú og lausnarblóð hans,“ sagði kona við einn af vottum Jehóva. Og maður sagði: „Þið kallið ykkur votta Jehóva en ég er vottur Jesú.“

Sú skoðun er nokkuð útbreidd að vottar Jehóva trúi ekki á Jesú eða haldi nafni hans ekki nægilega á loft. En hver er sannleikurinn í málinu?

Það er hárrétt að nafn Guðs, Jehóva, er hátt skrifað hjá vottum Jehóva. * Itamar, sem er brasilískur vottur, segir: „Það urðu þáttaskil í lífi mínu þegar ég kynntist nafni Guðs. Mér fannst ég vakna af djúpum svefni þegar ég las það í fyrsta sinn. Nafnið Jehóva örvaði mig og hrærði mig; það snart innstu fylgsni sálar minnar.“ En svo bætir hann við: „Ég elska Jesú líka innilega af öllu hjarta.“

Já, vottar Jehóva gera sér ljóst að þeir verða að trúa á „nafn Guðs sonar,“ Jesú, til að hljóta eilíft líf. (1. Jóhannesarbréf 5:13) En hvað er átt við með orðunum „í nafni Jesú“?

Það sem nafn Jesú táknar

Orðin „í nafni Jesú“ eða áþekkt orðalag er að finna víða í kristnu Grísku ritningunum eða „Nýja testamentinu.“ Reyndar er orðið „nafn“ notað meira en 80 sinnum í tengslum við hlutverk Jesú, þar af um 30 sinnum í Postulasögunni einni. Kristnir menn fyrstu aldar skírðu í nafni Jesú, læknuðu í hans nafni, kenndu í hans nafni, ákölluðu nafn hans, þjáðust vegna nafns hans og mikluðu nafn hans. — Postulasagan 2:38; 3:16; 5:28; 9:14, 16; 19:17.

Samkvæmt biblíuorðabók er gríska orðið, sem þýtt er „nafn,“ oft notað í Biblíunni „um allt sem nafn felur í sér, um vald, eðli, stöðu, tign, mátt, ágæti o.s.frv., um allt sem nafnið nær yfir.“ Nafn Jesú táknar því hátign hans og hið víðtæka vald sem Jehóva Guð hefur falið honum. Jesús sagði sjálfur: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu.“ (Matteus 28:18) Eftir að Pétur og Jóhannes höfðu læknað lamaðan mann kröfðu trúarleiðtogar Gyðinga þá skýringa og spurðu: „Með hvaða krafti eða í hvers nafni gjörðuð þið þetta?“ Pétur lýsti þá djarfmannlega yfir trú sinni á það vald og þann mátt sem nafn Jesú fól í sér og sagði að ‚í nafni Jesú Krists frá Nasaret stæði þessi maður heilbrigður fyrir augum þeirra.‘ — Postulasagan 3:1-10; 4:5-10.

Trú á Jesú eða keisarann?

En það yrði ekki auðvelt að játa slíka trú á nafn Jesú. Lærisveinar hans yrðu ‚hataðir af öllum þjóðum vegna nafns hans,‘ eins og hann hafði sagt fyrir. (Matteus 24:9) Af hverju? Af því að nafn Jesú táknar stöðu hans sem skipaður stjórnandi Guðs, sem konungur konunga er allar þjóðir verða að vera undirgefnar, og þær eru hvorki tilbúnar né fúsar til þess. — Sálmur 2:1-7.

Trúarleiðtogarnir á dögum Jesú vildu ekki sýna honum undirgefni. Þeir höfnuðu syni Guðs og sögðu: „Vér höfum engan konung nema keisarann.“ (Jóhannes 19:13-15) Þeir settu trú sína á nafn keisarans og heimsveldisstjórn hans, það er að segja á mátt og vald keisarans. Þeir ákváðu jafnvel að Jesús skyldi deyja til að þeir gætu haldið tign sinni og stöðu. — Jóhannes 11:47-53.

Margir, sem kölluðu sig kristna á öldunum eftir dauða Jesú, tileinkuðu sér sama viðhorf og trúarleiðtogar Gyðinga. Þessir svokölluðu kristnu menn settu trú sína á mátt og megin ríkisins og tóku þátt í hernaðarátökum þess. Nefnum dæmi: Á 11. öld stofnaði kirkjan militia Christi eða riddarasveit Krists handa iðjulausum hermönnum, og síðan „fluttist ábyrgðin á að heyja réttlátt stríð frá veraldlegum yfirvöldum í kristna heiminum til kirkjunnar vegna áhrifa riddarasveitar Krists.“ (The Oxford History of Christianity) Bókin bætir við að vissar yfirlýsingar páfa hafi komið þeirri hugmynd inn hjá meirihluta krossfaranna að með þátttöku sinni í krossferðunum hefðu þeir „gert samning við Guð og tryggt sér paradísarvist.“

Sumir halda kannski fram að það sé hægt að sýna Jesú hollustu og taka jafnframt þátt í stjórnmálum og styrjöldum þjóða. Þeim finnst það kannski skylda kristins manns að berjast gegn hinu illa hvar sem það sé að finna, jafnvel þótt það kosti stríð. En voru frumkristnir menn þeirrar skoðunar?

„Fyrstu kristnu mennirnir gegndu ekki herþjónustu,“ stóð í grein í tímaritinu The Christian Century. Í greininni segir að þess sjáist engin merki fram til áratugarins 170-180 að kristnir menn hafi gegnt herþjónustu. Greinin bætir svo við: „Kristnir menn létu smám saman af andstöðu sinni gegn herþjónustu.“

Hvaða afleiðingar hefur það haft? „Sennilega hefur ekkert komið jafnmiklu óorði á kristnina og það hátterni hennar að taka nánast sömu afstöðu til hernaðarþátttöku og ókristnir menn,“ segir í grein The Christian Century. „Það hefur reynst stórskaðlegt fyrir trúna að kristnir menn skuli annars vegar aðhyllast trú hins milda frelsara og hins vegar styðja trúar- og þjóðernisstríð af miklum ákafa.“

Að líkja eftir frumkristnum mönnum

Geta kristnir nútímamenn líkt eftir hinu góða fordæmi frumkristinna manna? Vottar Jehóva hafa sýnt það og sannað á þessari öld. Ritstjóri Holocaust Educational Digest segir um þá: „Enginn vottur Jehóva fer nokkurn tíma í stríð. . . . Ef allir valdamenn í heimi hefðu verið þessarar trúar hefði [síðari heimsstyrjöldin] aldrei átt sér stað.“

Hið sama má segja um svæðisbundin átök síðustu ára og áratuga, svo sem átökin á Norður-Írlandi. Fyrir allnokkrum árum var vottur Jehóva að prédika hús úr húsi á svæði mótmælenda í Belfast. Þegar húsráðandi nokkur komst að raun um að votturinn hefði verið kaþólikki áður en hann varð vottur spurði hann: „Studdir þú IRA [Írska lýðveldisherinn] meðan þú varst kaþólikki?“ Votturinn gerði sér ljóst að maðurinn gæti hugsanlega gripið til ofbeldis, því að það var nýbúið að sleppa honum úr varðhaldi eftir að hann hafði verið tekinn með byssu á leið til að drepa kaþólskan mann. Votturinn svaraði því: „Ég er ekki kaþólikki núna. Ég er vottur Jehóva. Ég er sannkristinn maður og myndi aldrei drepa aðra, hvorki fyrir stjórnvöld né nokkurn mann.“ Þá tók húsráðandi í hönd honum og sagði: „Manndráp eru alltaf röng. Þið eruð að vinna gott starf. Haldið því áfram.“

Það sem felst í því að trúa á nafn Jesú

En að trúa á nafn Jesú er meira en einungis að forðast þátttöku í stríði. Það felur í sér að hlýða öllum boðorðum hans. Jesús sagði sjálfur: „Þér eruð vinir mínir, ef þér gjörið það, sem ég býð yður,“ og eitt af boðorðum hans er: „Elskið hver annan.“ (Jóhannes 15:14, 17) Kærleikurinn leitast við að gera öðrum gott. Hann útilokar alla þjóðfélags-, trúar- og kynþáttafordóma. Jesús sýndi fram á hvernig hann gerði það.

Gyðingum á dögum Jesú var mjög í nöp við Samverja. Jesús talaði aftur á móti við samverska konu og það leiddi til þess að hún og margir aðrir trúðu á nafn hans. (Jóhannes 4:39) Hann sagði einnig að lærisveinar sínir myndu bera vitni um sig „í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“ (Postulasagan 1:8) Lífgandi boðskapur hans var ekki aðeins ætlaður Gyðingum. Þess vegna fékk Pétur fyrirmæli um að heimsækja rómverska hundraðshöfðingjann Kornelíus. Enda þótt Gyðingi væri bannað að heimsækja mann af öðru þjóðerni sýndi Guð Pétri fram á að hann ætti „engan að kalla vanheilagan eða óhreinan.“ — Postulasagan 10:28.

Vottar Jehóva líkja eftir Jesú og hjálpa fúslega hverjum sem er — óháð kynþætti, trú eða efnahag — til að kynnast hjálpræðinu sem fylgir nafni hans. Trú á nafn Jesú fær þá til að ‚játa að Jesús sé Drottinn‘ og boða það opinberlega. (Rómverjabréfið 10:8, 9) Við hvetjum þig til að þiggja hjálp þeirra svo að þú getir líka lært að trúa á nafn Jesú.

Nafn Jesú ætti vissulega að vekja virðingu og hlýðni. Páll postuli sagði að „fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottinn.“ (Filippíbréfið 2:10, 11) Enda þótt þorri jarðarbúa vilji ekki lúta stjórn Jesú sýnir Biblían fram á að sá tími er í nánd þegar allir menn verða annaðhvort að gera það eða farast. (2. Þessaloníkubréf 1:6-9) Núna er því rétti tíminn til að treysta á nafn Jesú með því að halda öll boðorð hans.

[Neðanmáls]

^ Nánari upplýsingar er að finna í bæklingnum Nafn Guðs sem vara mun að eilífu, bls. 28-31, gefinn út 1985 af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

[Mynd á blaðsíðu 6]

Milljónir manna hafa drepið og verið drepnar í nafni Jesú.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Jesús var laus við alla kynþáttafordóma. Hvað um þig?