Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað þarf til að eiga farsælt hjónaband?

Hvað þarf til að eiga farsælt hjónaband?

Hvað þarf til að eiga farsælt hjónaband?

Myndirðu stinga þér út í á án þess að læra fyrst að synda? Slíkt glapræði gæti kostað þig lífið. En hugsaðu þér hve margir stökkva út í hjónaband án þess að gera sér glögga grein fyrir hvernig axla eigi ábyrgðina samfara því.

JESÚS sagði: „Hver yðar sest ekki fyrst við, ef hann ætlar að reisa turn, og reiknar kostnaðinn, hvort hann eigi nóg til að ljúka verkinu?“ (Lúkas 14:28) Það gildir sama lögmál um hjónaband og turnbyggingu. Þeir sem vilja giftast ættu að reikna kostnaðinn vandlega til að vera vissir um að getað staðið undir kröfum hjónabandsins.

Hjónabandið skoðað

Það er sannkölluð blessun að eiga maka til að deila með gleði og sorg. Hjónaband getur fyllt tómarúm einmanaleika eða örvæntingar. Það getur fullnægt meðfæddri löngun okkar í ást, félagskap og kynlíf. Það var því ekki að ástæðulausu að Guð sagði eftir að hann skapaði Adam: „Eigi er það gott, að maðurinn sé einsamall. Ég vil gjöra honum meðhjálp við hans hæfi.“ — 1. Mósebók 2:18; 24:67; 1. Korintubréf 7:9.

Hjónaband getur vissulega leyst sum vandamál, en önnur koma í staðinn. Af hverju? Af því að í hjónabandi mætast tveir ólíkir persónuleikar sem eru kannski samlyndir en þó ekki nákvæmlega eins. Þess vegna kemur jafnvel upp ágreiningur stöku sinnum milli hjóna sem eiga vel saman. Páll postuli sagði að þeir sem giftust myndu hljóta „þrenging . . . fyrir hold sitt“ — eða „sársauka og sorg í þessu holdlega lífi,“ samkvæmt The New English Bible. — 1. Korintubréf 7:28, Biblían 1912.

Var Páll bölsýnn? Alls ekki. Hann var eingöngu að hvetja fólk í hjónabandshugleiðingum til að vera raunsætt. Sæluvíman, sem fylgir því að laðast að öðrum, er ekki nákvæm mælistika á það hvernig hjónalífið verður næstu mánuði og ár eftir brúðkaupsdaginn. Hvert hjónaband hefur sínar þrautir og vandamál. Það er ekki spurning hvort þau skjóti upp kollinum, heldur hvernig eigi að takast á við þau þegar það gerist.

Vandamál gefa hjónum tækifæri til að sýna hve innileg ást þeirra er. Tökum dæmi: Skemmtiferðaskip getur virst glæsilegt á að líta þar sem það liggur makindalega við hafnarbakka. En raunveruleg sjófærni þess sannast á hafi úti — ef til vill í ölduróti fárviðris. Á sama hátt er ekki hægt að meta styrkleika hjónabands eingöngu eftir friðsælum og rómantískum kyrrðarstundum. Oft sannast hann við erfiðar aðstæður þegar hjón standa af sér storma og ágjöf.

Til þess að geta það þurfa hjón að finna sig skuldbundin hvort öðru því að Guð ætlaðist til að maður ‚byggi við eiginkonu sína‘ og að þau skyldu vera „eitt hold.“ (1. Mósebók 2:24) Tilhugsunin um skuldbindingu skelfir marga. En það er einungis sanngjarnt að tvær manneskjur, sem elska hvor aðra innilega, heiti því hátíðlega að halda saman. Skuldbinding göfgar hjónabandið. Hún veitir hjónum vissu fyrir því að þau styðji hvort annað, hvað sem á dynur. * Ef þú ert ekki tilbúinn að skuldbinda þig á þennan hátt, ertu í rauninni ekki tilbúinn að gifta þig. (Samanber Prédikarann 5:3, 4.) Jafnvel þeir sem eru þegar giftir gætu þurft að átta sig betur á því hve skuldbinding er nauðsynleg til að hjónaband endist.

Skoðaðu sjálfan þig

Þú getur vafalaust tíundað eiginleikana sem þú vilt að prýði maka þinn. En það er miklu erfiðara að líta í eigin barm og ákveða hvað þú getir sjálfur lagt af mörkum til hjónabands. Sjálfsrannsókn er nauðsynleg, bæði áður en hjúskaparheitin eru gefin og á eftir. Spyrðu sjálfan þig til dæmis eftirfarandi spurninga:

Er ég fús til að skuldbinda mig maka mínum ævilangt? — Matteus 19:6.

Á dögum Malakís spámanns yfirgáfu margir eiginmenn konur sínar, hugsanlega til að kvænast yngri konum. Jehóva sagði að altari sitt væri hulið tárum yfirgefinna eiginkvenna og fordæmdi menn sem ‚brugðu trúnaði‘ við maka sinn. — Malakí 2:13-16.

Ef ég er í hjónabandshugleiðingum, er ég þá kominn yfir æskualdurinn þegar kynhvötin er sterk og getur brenglað góða dómgreind? — 1. Korintubréf 7:36, NW.

„Það er mjög varhugavert að giftast of ungur,“ segir Nikki sem var 22 ára þegar hún gifti sig. Hún varar við: „Tilfinningar, markmið og smekkur breytast frá táningsaldri og fram yfir hálfþrítugt.“ Aldurinn er auðvitað ekki eini mælikvarðinn á það hvort maður sé undir það búinn að gifta sig. En að giftast á unga aldri þegar kynhvötin er sérlega sterk og framandi getur brenglað hugsunina og blindað mann fyrir hugsanlegum vandamálum.

Hvað hef ég til brunns að bera sem getur stuðlað að farsælu hjónabandi? — Galatabréfið 5:22, 23.

Páll postuli skrifaði Kólossumönnum: „Íklæðist . . . hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi.“ (Kólossubréfið 3:12) Þetta eru góð ráð til þeirra sem hyggja á hjónaband og til þeirra sem eru þegar giftir.

Hef ég nauðsynlegan þroska til að styðja maka á erfiðum stundum? — Galatabréfið 6:2.

„Þegar erfiðleikar skjóta upp kollinum er tilhneigingin sú að kenna makanum um,“ segir læknir. „Það skiptir ekki mestu máli hverjum er um að kenna, heldur hvernig maður og kona geta unnið saman að því að bæta hjónabandið.“ Orð hins vitra Salómons konungs eiga við hjón. „Betri eru tveir en einn,“ segir hann, „með því að þeir hafa góð laun fyrir strit sitt. Því að falli annar þeirra, þá getur hinn reist félaga sinn á fætur, en vei einstæðingnum, sem fellur og enginn annar er til að reisa á fætur.“ — Prédikarinn 4:9, 10.

Er ég almennt glaðlyndur og bjartsýnn, eða er ég aðallega neikvæður og bölsýnn? — Orðskviðirnir 15:15.

Neikvæður maður hefur allt á hornum sér. Það gerist ekkert kraftaverk við það að hann gifti sig. Einhleyp manneskja — karl eða kona — sem er að jafnaði gagnrýnin eða svartsýn verður jafngagnrýnin eða svartsýn þótt hún giftist. Slík neikvæðni getur valdið gríðarlegri spennu í hjónabandi. — Samanber Orðskviðina 21:9.

Held ég rónni undir álagi eða missi ég stjórn á mér? — Galatabréfið 5:15, 20.

Kristnum mönnum er sagt að vera ‚seinir til reiði.‘ (Jakobsbréfið 1:19) Fyrir hjónaband og í hjónabandi þurfa menn og konur að læra að lifa eftir þessari ráðleggingu: „Ef þér reiðist, þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar.“ — Efesusbréfið 4:26.

Tilvonandi maki skoðaður

„Kænn maður athugar fótmál sín,“ segir biblíuorðskviður. (Orðskviðirnir 14:15) Það á vissulega við um makaval. Að velja sér maka er ein mikilvægasta ákvörðunin sem maður eða kona tekur á ævinni. Samt vekur það eftirtekt að margir taka sér lengri tíma til að ákveða hvaða bíl eigi að kaupa eða hvaða skóla eigi að ganga í en hvaða manneskju þeir eigi að giftast.

Þeir sem falin er ábyrgð í kristna söfnuðinum eru „fyrst reyndir.“ (1. Tímóteusarbréf 3:10) Ef þú ert í hjónabandshugleiðingum skaltu því fyrst ganga úr skugga um hæfni hins aðilans. Íhugaðu til dæmis spurningarnar hér á eftir. Enda þótt þær séu miðaðar við konur eiga margar af meginreglunum einnig við um karlmenn. Jafnvel gift fólk gæti haft gagn af að íhuga þær.

Hvers konar orð fer af honum? — Filippíbréfið 2:19-22.

Orðskviðirnir 31:23 lýsa eiginmanni sem er „mikils metinn í borgarhliðunum, þá er hann situr með öldungum landsins.“ Öldungar borgarinnar sátu í borgarhliðunum og dæmdu. Eiginmaðurinn hefur því greinilega gegnt opinberu trúnaðarstarfi. Álit annarra segir sitthvað um orðstír manns. Ef hann fer með mannaforráð skaltu líka athuga hvaða augum starfsfólk lítur hann. Það gæti verið vísbending um það hvaða augum þú sem maki hans munir líta hann þegar fram í sækir. — Samanber 1. Samúelsbók 25:3, 23-25.

Hvers konar siðferði hefur hann?

Viskan frá Guði er „í fyrsta lagi hrein.“ (Jakobsbréfið 3:17) Hefur tilvonandi maki þinn meiri áhuga á eigin kynlífsfullnægju en á stöðu sinni og þinni frammi fyrir Guði? Ef hann reynir ekki að lifa eftir siðferðisstöðlum Guðs núna, hvaða ástæða er þá til að ætla að hann geri það eftir brúðkaupsdaginn? — 1. Mósebók 39:7-12.

Hvernig kemur hann fram við mig? — Efesusbréfið 5:28, 29.

Orðskviðirnir í Biblíunni tala um eiginmann sem „treystir“ konu sinni og „hrósar henni.“ (Orðskviðirnir 31:11, 28) Hann er hvorki sjúklega afbrýðisamur né gerir ósanngjarnar kröfur. Jakob segir að viskan að ofan sé „friðsöm, ljúfleg [„sanngjörn,“ NW], . . . full miskunnar og góðra ávaxta.“ — Jakobsbréfið 3:17.

Hvernig kemur hann fram við ættingja sína? — 2. Mósebók 20:12.

Það eru ekki aðeins börn sem eiga að virða foreldra sína. Biblían segir: „Hlýð þú föður þínum, sem hefir getið þig, og fyrirlít ekki móður þína, þótt hún sé orðin gömul.“ (Orðskviðirnir 23:22) Læknirinn W. Hugh Missildine segir: „Komast mætti hjá margs konar ósamlyndi og erfiðleikum í hjónabandi — eða minnsta kosti sjá þau fyrir — ef hin væntanlegu brúðhjón kíktu óformlega í heimsókn hvort til annars og fylgdust með samskiptum síns ‚tilvonandi‘ og foreldra hans. Afstaða hans til foreldra sinna hefur áhrif á það hvaða augum hann mun líta maka sinn. Maður þarf að spyrja sig: ‚Vil ég láta koma fram við mig eins og hann kemur fram við foreldra sína?‘ Og framkoma foreldra hans við hann er góð vísbending um hvernig hann mun koma fram og hvernig hann vill að þú komir fram við sig — eftir að hveitibrauðsdagarnir eru hjá.“

Er hann reiðigjarn eða svívirðilegur í tali?

Biblían ráðleggur: „Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður.“ (Efesusbréfið 4:31) Páll varaði Tímóteus við að sumir kristnir menn yrðu ‚sóttteknir af þrætum og orðastælum‘ og myndu fyllast ‚öfund, deilum, lastmæli, vondum hugsunum, þjarki og þrasi.‘ — 1. Tímóteusarbréf 6:4, 5.

Páll segir auk þess að „ofsafenginn“ maður — á frumgrískunni „áflogamaður“ — sé ekki hæfur til sérstakra sérréttinda í söfnuðinum. (1. Tímóteusarbréf 3:3) Hann má því ekki vera maður sem slær fólk bókstaflega eða kúgar það með orðum. Sá er ekki heppilegur maki sem hættir til ofbeldis í reiðikasti.

Hvaða markmið hefur hann?

Sumir sækjast eftir peningum og uppskera óhjákvæmilega afleiðingarnar. (1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Aðrir láta reka stefnulaust gegnum lífið, án nokkurra markmiða. (Orðskviðirnir 6:6-11) En guðrækinn maður sýnir sama ásetning og Jósúa sem sagði: „Ég og mínir ættmenn munum þjóna [Jehóva].“ — Jósúabók 24:15.

Umbun og ábyrgð

Hjónabandið er hefð sem Jehóva Guð er höfundur að. (1. Mósebók 2:22-24) Hjónabandið átti að vera varanlegt band milli karls og konu til að þau gætu stutt hvort annað. Þegar frumreglum Biblíunnar er fylgt geta hjón búist við því að hlutskipti þeirra í lífinu verði gleðilegt. — Prédikarinn 9:7-9.

Við þurfum þó að gera okkur ljóst að við lifum á ‚örðugum tíðum.‘ Biblían sagði fyrir að á þessu tímabili yrðu menn „sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, . . . vanheilagir, kærleikslausir, ósáttfúsir, . . . sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1-4) Þessi eðliseinkenni geta haft djúptæk áhrif á hjónaband. Þeir sem hyggja á hjónaband ættu því að reikna kostnaðinn af raunsæi. Og þeir sem eru giftir ættu að vinna áfram að því að bæta hjónaband sitt með því að kynna sér leiðbeiningar Guðs í Biblíunni og fylgja þeim.

Já, fólk í hjónabandshugleiðingum ætti að líta lengra en til brúðkaupsdagsins. Og allir ættu að hugleiða hvað felst í sambúð hjóna, en einblína ekki aðeins á brúðkaupið. Leitaðu leiðsagnar Jehóva til að þú hugsir málið af raunsæi en látir ekki bara ástina ráða ferðinni. Þannig aukast líkurnar á að hjónaband þitt verði farsælt.

[Neðanmáls]

^ ‚Hórdómur‘ — kynmök utan hjónabands — er eina skilnaðarforsendan í Biblíunni sem leyfir fólki að giftast aftur. — Matteus 19:9.

[Rammi á blaðsíðu 5]

„Besta kærleikslýsing sem ég hef lesið“

„Hvernig veistu hvort þú sért raunverulega ástfanginn?“ skrifar dr. Kevin Leman. „Til er ævaforn bók sem inniheldur lýsingu á kærleikanum. Hún er nærri tvö þúsund ára gömul en er samt besta kærleikslýsing sem ég hef lesið.“

Dr. Leman var að vísa til orða Páls postula sem er að finna í Biblíunni í 1. Korintubréfi 13:4-8:

„Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.“

[Rammi á blaðsíðu 8]

Tilfinningar geta blekkt

Stúlkan Súlamít á biblíutímanum vissi greinilega mætavel að ástríðufullar tilfinningar gætu hlaupið með hana í gönur. Þegar hinn voldugi Salómon konungur gerði hosur sínar grænar fyrir henni sagði hún stallsystrum sínum: „Vekið ekki, vekið ekki elskuna, fyrr en hún sjálf vill.“ (Ljóðaljóðin 2:7) Þessi skynsama unga kona vildi ekki láta vinkonurnar þröngva sér til að láta tilfinningarnar ráða. Það eru einnig raunhæf ráð til þeirra sem eru í hjónabandshugleiðingum núna. Hafðu gott taumhald á tilfinningum þínum. Ef þú giftist ætti það að vera af því að þú ert ástfanginn af manneskjunni en ekki bara heillaður af hugmyndinni um að giftast.

[Mynd á blaðsíðu 6]

Jafnvel þeir sem hafa verið giftir lengi geta styrkt hjónaband sitt.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Hvernig kemur hann fram við foreldra sína?