Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Jehóva“ eða „Jahve“?

„Jehóva“ eða „Jahve“?

„Jehóva“ eða „Jahve“?

„BASTARÐUR,“ „skrípi,“ „afskræmi.“ Hvað skyldi fá fræðimenn í biblíuhebresku til að taka svona djúpt í árinni? Deiluefnið er það hvort „Jehóva“ sé réttur framburður á nafni Guðs og hefur deilan staðið í rösklega hundrað ár. Flestir fræðimenn virðast um þessar mundir aðhyllast hina tveggja atkvæða mynd „Jahve.“ En er framburðarmyndin „Jehóva“ virkilega slíkt „afskræmi“ sem haldið hefur verið fram?

Undirrót deilunnar

Að sögn Biblíunnar opinberaði Guð mannkyninu nafn sitt sjálfur. (2. Mósebók 3:15) Af Biblíunni má sjá að þjónar Guðs forðum daga notuðu nafn hans frjálslega. (1. Mósebók 12:8; Rutarbók 2:4) Aðrar þjóðir þekktu nafn Guðs líka, sér í lagi eftir að Gyðingarnir, sem höfðu snúið heim úr útlegðinni í Babýlon, komust í snertingu við fólk af mörgum þjóðum. (Jósúabók 2:9; Sálmur 96:2-10; Jesaja 12:4; Malakí 1:11) Orðabókin The Interpreter’s Dictionary of the Bible segir: „Margt bendir til að margir útlendingar hafi laðast að trú Gyðinga eftir útlegðina.“ Á fyrstu öld okkar tímatals hafði hins vegar myndast viss hjátrú í sambandi við nafn Guðs. Að lokum hætti Gyðingaþjóðin að nota nafn Guðs opinberlega og sumir bönnuðu jafnvel með öllu að það væri nefnt. Þar með glataðist réttur framburður þess — eða hvað?

Hvað er fólgið í nafni?

Nafn Guðs er skrifað יהוה á hebresku. Þessir fjórir stafir eru að jafnaði kallaðir fjórstafanafnið og eru lesnir frá hægri til vinstri. Mörg manna- og staðanöfn í Biblíunni eru samsett úr styttri útgáfu af nafni Guðs. Gefa þessi sérnöfn einhverja vísbendingu um það hvernig nafn hans var borið fram?

George Buchanan, sem er prófessor á eftirlaunum við Wesley-guðfræðiháskólann í Washington, D.C., í Bandaríkjunum, svarar því játandi. Hann segir: „Algengt var til forna að foreldrar nefndu börn sín eftir guðdómum sínum. Þeir hafa því borið nöfn barnanna eins fram og guðsnafnið. Fjórstafanafnið var notað í mannanöfnum, og menn notuðu alltaf miðsérhljóðið.“

Tökum nokkur dæmi um sérnöfn í Biblíunni sem fela í sér stytta útgáfu af nafni Guðs. Jónatan, sem er Jóhnaþanʹ eða Jehóhnaþanʹ í hebresku biblíunni, merkir „Jahó eða Jahóvah hefur gefið,“ segir prófessor Buchanan. Spámannsnafnið Elía er ʼElíjahʹ eða ʼElíjaʹhú á hebresku. Að sögn prófessors Buchanans merkir nafnið: „Guð minn er Jahóó eða Jahóó-vah.“ Og nafnið Jósafat er Jehóh-sjafatʹ á hebresku og merkir „Ja hefur dæmt.“

Sé fjórstafanafnið borið fram í tveim atkvæðum er hvergi rúm fyrir ó sérhljóðið í nafninu. En í tugum biblíunafna, sem fela í sér nafn Guðs, kemur miðsérhljóðið fyrir bæði í upprunalegri mynd nafnsins og styttri mynd þess, svo sem í Jehónaþan og Jónatan. Prófessor Buchanan segir því um nafn Guðs: „Sérhljóðinu óó eða óh er aldrei sleppt. Orðið er stundum stytt í ‚Ja‘ en aldrei í ‚Ja-veh.‘ . . . Þegar fjórstafanafnið var borið fram í einu atkvæði var það ‚Jah‘ eða ‚Jó.‘ Þegar það var borið fram í þrem atkvæðum hefur það verið ‚Jahóvah‘ eða ‚Jahóóvah.‘ Ef það var einhvern tíma stytt í tvö atkvæði var það ‚Jahó.‘“ — Biblical Archaeology Review.

Þessar athugasemdir skýra orð hebreskufræðingsins Geseníusar á 19. öld í riti hans, Hebrew and Chaldee Lexicon to the Old Testament Scriptures: „Þeir sem telja יְהוָֹה [Je-hó-vah] réttan framburð [nafns Guðs] hafa nokkuð til síns máls. Þannig er betur hægt að skýra hinar styttu samstöfur יְהוֹ [Je-hó] og יוֹ [Jó] sem mörg sérnöfn byrja á.“

Engu að síður segir Everett Fox í inngangsorðum nýlegrar þýðingar sinnar, The Five Books of Moses: „Hvorki nú né fyrrum hefur mönnum tekist að finna ‚réttan‘ framburð hins hebreska nafns [Guðs]; hvorki er hægt að sanna með óyggjandi hætti að ‚Jehóva,‘ sem stundum heyrist, né ‚Jahve,‘ hin hefðbundna útgáfa fræðimanna, sé rétt.“

Fræðimenn halda eflaust áfram að deila. Gyðingar hættu að bera nafn hins sanna Guðs fram áður en Masoretar þróuðu punktakerfi til sérhljóðatáknunar. Það er því engin leið til að sanna hvaða sérhljóðar stóðu með samhljóðunum JHVH (יהוה). Mannanöfn Biblíunnar — og réttur framburður þeirra glataðist aldrei — eru engu að síður áþreifanleg vísbending um það hvernig nafn Guðs var borið fram til forna. Á þeim forsendum hafa að minnsta kosti sumir fræðimenn fallist á að framburðurinn „Jehóva‘ sé ekkert „afskræmi“ þegar öllu er á botninn hvolft.

[Myndir á blaðsíðu 31]

„Jehóva“ er vinsælasta framburðarmynd nafns Guðs.