Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lausnargjald Krists — hjálpræðisleið Guðs

Lausnargjald Krists — hjálpræðisleið Guðs

Lausnargjald Krists — hjálpræðisleið Guðs

„Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ — JÓHANNES 3:16.

1, 2. Í hvaða sjálfheldu er mannkynið?

 ÍMYNDAÐU þér að þú sért með sjúkdóm sem dregur þig örugglega til dauða nema þú gangist undir skurðaðgerð. Hvernig heldurðu að þér yrði innanbrjósts ef þú þyrftir að greiða fyrir aðgerðina og uppsett verð væri langtum hærra en þú réðir við? Og hvernig liði þér ef sameiginlegt átak vina og ættingja hrykki ekki einu sinni fyrir greiðslunni? Þér þætti eflaust dapurlegt að vera í þessari úlfakreppu.

2 Þetta dæmi er góð lýsing á stöðu mannkynsins. Fyrstu foreldrar okkar, Adam og Eva, voru skapaðir fullkomnir. (5. Mósebók 32:4) Þau áttu fyrir sér að lifa að eilífu og framfylgja tilgangi Guðs: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna.“ (1. Mósebók 1:28) En Adam og Eva gerðu uppreisn gegn skapara sínum. (1. Mósebók 3:1-6) Með óhlýðninni gerðu þau bæði sjálf sig og ófædda afkomendur sína að syndurum. Hinn trúfasti Job lýsti því þannig síðar: „Hvernig ætti hreinn að koma af óhreinum? Ekki einn!“ — Jobsbók 14:4.

3. Hvernig hefur dauðinn breiðst út til allra manna?

3 Syndin er eins og sjúkdómur sem við höfum öll smitast af, því að Biblían segir að ‚allir hafi syndgað.‘ Við erum í lífshættu af því að „laun syndarinnar er dauði.“ (Rómverjabréfið 3:23; 6:23) Enginn kemst undan því. Allir menn syndga og allir menn deyja þess vegna. Við erum afkomendur Adams og fæðumst í þessari sjálfheldu. (Sálmur 51:7) „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann,“ skrifaði Páll, „og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað.“ (Rómverjabréfið 5:12) En þetta þýðir ekki að við höfum enga hjálpræðisvon.

Synd og dauði afmáð

4. Af hverju geta menn ekki af eigin rammleik útrýmt sjúkdómum og dauða?

4 Hvað þurfti að koma til svo að hægt væri að afmá syndina og dauðann sem af henni leiðir? Ljóst er að mannlegur máttur dugði ekki til. Sálmaritarinn segir í mæðutón: „Lausnargjaldið fyrir líf þeirra mundi verða of hátt, svo að hann yrði að hætta við það að fullu, ætti hann að halda áfram að lifa ævinlega og líta ekki í gröfina.“ (Sálmur 49:9, 10) Stundum er auðvitað hægt að lengja lífið um fáein ár með heilbrigðu mataræði og heilsugæslu, en enginn getur læknað okkur af hinni arfgengu synd. Enginn getur snúið við bæklandi áhrifum ellinnar og endurnýjað líkama okkar svo að hann verði fullkominn eins og Guð ætlaði honum í upphafi að vera. Páll er ekki að ýkja þegar hann segir að vegna syndar Adams sé hin mennska sköpun „undirorpin fallvaltleikanum“ — eða eins og biblíuþýðingin The Jerusalem Bible orðar það, hafi verið „gerð ófær um að ná tilgangi sínum.“ (Rómverjabréfið 8:20) En til allrar hamingju hefur skaparinn ekki yfirgefið okkur. Hann hefur gert ráðstafanir til að losa okkur við synd og dauða í eitt skipti fyrir öll. Hvernig?

5. Hvernig ber lögmálið, sem Ísrael var gefið, vitni um sterka réttlætisást?

5 Jehóva „hefir mætur á réttlæti og rétti.“ (Sálmur 33:5) Lagasafnið, sem hann gaf Ísrael, ber vott um mikinn áhuga á jöfnuði og réttsýni. Til dæmis má lesa í þessu lagasafni að láta skuli „líf fyrir líf.“ Með öðrum orðum varð Ísraelsmaður að gjalda fyrir með lífi sínu ef hann myrti annan mann. (2. Mósebók 21:23; 4. Mósebók 35:21) Líf hans kom í stað hins myrta og réttvísi Guðs var fullnægt. — Samanber 2. Mósebók 21:30.

6. (a) Í hvaða skilningi er hægt að kalla Adam morðingja? (b) Hvers konar lífi glataði Adam og hvers konar fórn þyrfti til að jafna vogarskálar réttvísinnar?

6 Þegar Adam syndgaði varð hann morðingi í þeim skilningi að hann gaf öllum afkomendum sínum syndarhneigð og dauða í arf. Það er vegna óhlýðni Adams að líkami okkar hrörnar núna og nálgast gröfina skref fyrir skref. (Sálmur 90:10) Og synd Adams hefur enn alvarlegri afleiðingar. Munum að það var ekki venjuleg 70 til 80 ára mannsævi sem hann fyrirgerði fyrir sjálfan sig og afkomendur sína. Hann glataði fullkomnu lífi — eilífu lífi. Hvers konar líf þurfti þá að gefa til að fullnægja réttvísinni í þessu tilviki ef gjalda átti „líf fyrir líf“? Rökrétt er að það hafi þurft að vera líf fullkomins manns sem gat getið af sér fullkomna afkomendur eins og Adam. Ef fullkomnu mannslífi væri fórnað yrðu vogarskálar réttvísinnar í jafnvægi og hægt yrði að afmá syndina algerlega og dauðann sem af henni hlýst.

Gjald syndarinnar greitt

7. Lýstu merkingu orðsins „lausnargjald.“

7 Gjaldið, sem greiða þurfti til að leysa okkur undan syndinni, er kallað „lausnargjald“ í Biblíunni. (Sálmur 49:8) Orðið er gjarnan notað um gjald sem mannræningi setur upp í skiptum fyrir mann sem hann hefur rænt. Lausnargjaldið, sem Jehóva hefur lagt fram, á auðvitað ekkert skylt við mannrán. En lausnargjaldshugmyndin er sú sama. Hebreska sögnin, sem nafnorðið „lausnargjald“ er dregið af, merkir reyndar bókstaflega „að þekja.“ Til að friðþægja fyrir syndina þarf lausnargjaldið að samsvara nákvæmlega því sem það á að þekja eða breiða yfir, það er að segja fullkomnu mannslífi Adams.

8. (a) Lýstu meginreglunni um lausn úr þrælkun gegn gjaldi. (b) Hvernig er meginreglan um lausn úr þrælkun tengd okkur sem syndurum?

8 Þetta samræmist meginreglu sem er að finna í Móselögunum — meginreglunni um lausn úr þrælkun gegn gjaldi. Ef Ísraelsmaður varð fátækur og seldi sig í þrælkun til manns af annarri þjóð gat ættingi keypt hann lausan með því að greiða gjald sem talið var jafngilda verðmæti hans. (3. Mósebók 25:47-49) Biblían segir að við, ófullkomnir menn, séum ‚þjónar (eða þrælar) syndarinnar.‘ (Rómverjabréfið 6:6; 7:14, 25) Hvað þarf til að kaupa okkur lausa? Eins og við höfum séð þarf að greiða fullkomið mannslíf fyrir fullkomið mannslíf sem glatast — hvorki meira en það né minna.

9. Hvaða ráðstöfun hefur Jehóva gert til að breiða yfir syndir?

9 Menn eru að sjálfsögðu fæddir ófullkomnir. Enginn okkar er jafningi Adams og enginn okkar getur greitt það lausnargjald sem réttvísin krefst. Eins og nefnt var í upphafi er það rétt eins og við séum með lífshættulegan sjúkdóm og höfum ekki efni á að greiða fyrir skurðaðgerð sem getur læknað okkur. Ef við stæðum í þessum sporum yrðum við eflaust mjög þakklát ef einhver greiddi kostnaðinn fyrir okkur. Jehóva hefur einmitt gert það. Hann hefur gert ráðstafanir til að kaupa okkur laus undan synd í eitt skipti fyrir öll. Hann er fús til að gefa okkur það sem við hefðum aldrei efni á að greiða sjálf. Hvernig? „Náðargjöf Guðs er eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum,“ segir Páll. (Rómverjabréfið 6:23) Jóhannes kallar Jesú „Guðs lamb, sem ber synd heimsins.“ (Jóhannes 1:29) Skoðum nú hvernig Jehóva notaði ástkæran son sinn til að greiða lausnargjaldið.

‚Samsvarandi lausnargjald‘

10. Hvernig bentu spádómarnir um ‚sæði‘ á Jósef og Maríu?

10 Strax eftir uppreisnina í Eden tilkynnti Jehóva að hann ætlaði sér að leiða fram ‚sæði‘ eða afkvæmi til að leysa mannkynið undan syndinni. (1. Mósebók 3:15) Í allmörgum opinberunum benti hann á ættina sem þetta sæði átti að koma af. Að lokum vísuðu þessar opinberanir á Jósef og Maríu sem voru þá trúlofuð og bjuggu í Palestínu. Engill vitraðist Jósef í draumi og sagði að María væri barnshafandi af völdum heilags anda og myndi „son ala, og hann skaltu láta heita Jesú, því að hann mun frelsa lýð sinn frá syndum þeirra.“ — Matteus 1:20, 21.

11. (a) Hvernig sá Jehóva um að sonur sinn fæddist sem fullkominn maður? (b) Af hverju gat Jesús greitt ‚samsvarandi lausnargjald‘?

11 Þetta var engin venjuleg þungun því að Jesús hafði verið til á himnum áður. (Orðskviðirnir 8:22-31; Kólossubréfið 1:15) Jehóva hafði beitt undramætti sínum til að flytja líf hans í móðurkvið Maríu, þannig að þessi elskaði sonur hans gæti fæðst sem maður. (Jóhannes 1:1-3, 14; Filippíbréfið 2:6, 7) Jehóva hagaði málum þannig að Jesús spilltist ekki af synd Adams heldur fæddist fullkominn. Hann hafði því það sem Adam glataði — fullkomið mannslíf. Loksins var kominn fram maður sem gat greitt gjald syndarinnar! Og það gerði hann hinn 14. nísan árið 33. Á þessum sögulega degi leyfði Jesús andstæðingum sínum að lífláta sig og greiddi þar með ‚samsvarandi lausnargjald.‘ —1. Tímóteusarbréf 2:6, NW.

Verðgildi fullkomins mannslífs

12. (a) Lýstu muninum á dauða Jesú og Adams. (b) Hvernig varð Jesús „Eilífðarfaðir“ hlýðinna manna?

12 Það var munur á dauða Jesú og Adams og þessi munur dregur skýrt fram verðgildi lausnargjaldsins. Adam verðskuldaði að deyja af því að hann óhlýðnaðist skapara sínum af ásettu ráði. (1. Mósebók 2:16, 17) Jesús verðskuldaði hins vegar alls ekki að deyja af því að „hann drýgði ekki synd.“ (1. Pétursbréf 2:22) Þegar Jesús dó átti hann því feikileg verðmæti sem syndarinn Adam átti ekki við dauða sinn — réttinn til að lifa sem fullkominn maður. Dauði Jesú hafði því fórnargildi. Þegar hann steig upp til himna sem andavera lagði hann verðgildi fórnar sinnar fyrir Jehóva. (Hebreabréfið 9:24) Þar með keypti hann syndugt mannkyn og varð nýr faðir þess í Adams stað. (1. Korintubréf 15:45) Hann er því réttilega kallaður „Eilífðarfaðir.“ (Jesaja 9:6) Hugsaðu þér hvað það þýðir. Adam, syndugur faðir, breiddi út dauða til allra afkomenda sinna. Jesús, fullkominn faðir, notar verðgildi fórnar sinnar til að veita öllum hlýðnum mönnum eilíft líf.

13. (a) Lýstu með dæmi hvernig Jesús ógilti skuldina sem Adam stofnaði til. (b) Af hverju nær fórn Jesú ekki til fyrstu foreldra okkar?

13 En hvernig gat dauði eins manns breitt yfir syndir margra? (Matteus 20:28) Fyrir nokkrum árum lýstum við lausnargjaldinu þannig í grein: „Ímyndum okkur stóra verksmiðju með hundruðum starfsmanna. Óheiðarlegur forstjóri gerir fyrirtækið gjaldþrota og verksmiðjunni er lokað. Hundruð manna ganga nú atvinnulausir og geta ekki greitt heimilisreikningana. Makar þeirra, börn og meira að segja lánardrottnar líða öll sakir spillingar eins manns! Þá birtist allt í einu auðugur velgjörðamaður sem greiðir upp skuldir fyrirtækisins og opnar verksmiðjuna á ný. Skuldauppgjör hans bætir þannig úr neyð hinna mörgu starfsmanna, fjölskyldna þeirra og lánardrottna. En eignast hinn upphaflegi forstjóri hlutdeild í nýjum uppgangi fyrirtækisins? Nei, hann situr í fangelsi og er því atvinnulaus til frambúðar! Á svipaðan hátt njóta milljónir afkomenda Adams góðs af því að skuld hans er gerð upp — en ekki Adam sjálfur.“

14, 15. Hvers vegna er hægt að segja að Adam og Eva hafi syndgað vísvitandi og hvernig er staða okkar ólík þeirra?

14 Þetta er sanngjarnt. Mundu að Adam og Eva syndguðu vísvitandi. Þau kusu sjálf að óhlýðnast Guði. Við erum hins vegar fædd syndug og eigum ekki um neitt að velja. Hve mjög sem við reynum getum við ekki forðast algerlega að syndga. (1. Jóhannesarbréf 1:8) Stundum er okkur kannski innanbrjósts eins og Páli sem skrifaði: „Þannig reynist mér það þá regla fyrir mig, sem vil gjöra hið góða, að hið illa er mér tamast. Innra með mér hef ég mætur á lögmáli Guðs, en ég sé annað lögmál í limum mínum, sem berst á móti lögmáli hugar míns og hertekur mig undir lögmál syndarinnar í limum mínum. Ég aumur maður!“ — Rómverjabréfið 7:21-24.

15 En vegna lausnargjaldsins höfum við von. Jesús er sæðið eða afkvæmið sem Guð hefur heitið að ‚allar þjóðir á jörðinni skuli hljóta blessun fyrir.‘ (1. Mósebók 22:18; Rómverjabréfið 8:20) Fórn Jesú opnar þeim sem iðka trú á hann dyr stórkostlegra tækifæra. Skoðum nokkur þeirra.

Gagnið af lausnarfórn Krists

16. Hvers getum við notið vegna lausnarfórnar Jesú, þótt við séum syndug?

16 Biblíuritarinn Jakob viðurkennir að „allir hrösum vér margvíslega.“ (Jakobsbréfið 3:2) Vegna lausnarfórnar Krists er hins vegar hægt að fyrirgefa okkur það. Jóhannes skrifar: „Ef einhver syndgar, þá höfum vér árnaðarmann hjá föðurnum, Jesú Krist, hinn réttláta. Hann er friðþæging fyrir syndir vorar.“ (1. Jóhannesarbréf 2:1, 2) Við ættum auðvitað ekki að vera kærulaus gagnvart syndinni. (Júdasarbréfið 4; samanber 1. Korintubréf 9:27.) En ef okkur verður á getum við úthellt hjarta okkar fyrir Jehóva í trausti þess að hann sé „fús til að fyrirgefa.“ (Sálmur 86:5; 130:3, 4; Jesaja 1:18; 55:7; Postulasagan 3:19, 20) Þannig gerir lausnargjaldið okkur kleift að þjóna Guði með hreinni samvisku og nálgast hann í bæn í nafni Jesú Krists. — Jóhannes 14:13, 14; Hebreabréfið 9:14.

17. Hvaða blessun er hægt að hljóta í framtíðinni vegna lausnargjaldsins?

17 Lausnarfórn Krists ryður því brautina að tilgangur Guðs uppfyllist — að hlýðnir menn lifi að eilífu í paradís á jörð. (Sálmur 37:29) Páll segir: „Svo mörg sem fyrirheit Guðs eru, þá er játun þeirra í honum [Jesú].“ (2. Korintubréf 1:20) Dauðinn hefur að vísu ‚tekið völd,‘ en lausnargjaldið er grundvöllur þess að Guð geti afmáð þennan ‚síðasta óvin.‘ (Rómverjabréfið 5:17; 1. Korintubréf 15:26; Opinberunarbókin 21:4) Lausnargjald Jesú er jafnvel til gagns þeim sem dánir eru. „Sú stund kemur,“ sagði Jesús, „þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans [Jesú] og ganga fram.“ — Jóhannes 5:28, 29; 1. Korintubréf 15:20-22.

18. Hvaða sorgleg áhrif hefur syndin haft á mennina og hvernig verður því snúið við í nýjum heimi Guðs?

18 Hugsaðu þér hve unaðslegt það verður að njóta lífsins eins og lífið átti að vera — laust við þær áhyggjur sem íþyngja okkur núna! Syndin hefur ekki aðeins gert okkur ósamstillt Guði heldur einnig huga okkar, hjarta og líkama. Biblían lofar því hins vegar að í nýjum heimi Guðs muni ‚enginn borgarbúi segja: „Ég er sjúkur.“‘ Líkamlegir og geðrænir sjúkdómar munu ekki hrjá mannkynið framar. Af hverju? Jesaja svarar: „Fólkið, sem þar býr, hefir fengið fyrirgefning misgjörða sinna.“ — Jesaja 33:24.

Lausnargjaldið — kærleiksverk Guðs

19. Hvernig ættum við hvert og eitt að bregðast við lausnarfórn Krists?

19 Það var kærleikur sem kom Jehóva til að senda ástkæran son sinn. (Rómverjabréfið 5:8; 1. Jóhannesarbréf 4:9) Það var líka kærleikur sem fékk Jesú til að „deyja fyrir alla.“ (Hebreabréfið 2:9; Jóhannes 15:13) Páll skrifar því af ærnu tilefni: „Kærleiki Krists knýr oss, . . . hann er dáinn fyrir alla, til þess að þeir, sem lifa, lifi ekki framar sjálfum sér, heldur honum, sem fyrir þá er dáinn og upprisinn.“ (2. Korintubréf 5:14, 15) Ef við kunnum að meta það sem Jesús gerði fyrir okkur bregðumst við rétt við því. Þegar öllu er á botninn hvolft gerir lausnargjaldið að verkum að það er hægt að bjarga okkur frá dauða! Við viljum sannarlega ekki gefa í skyn með verkum okkar að við metum fórn Jesú lítils. — Hebreabréfið 10:29.

20. Nefndu nokkur dæmi um hvernig við getum varðveitt „orð“ Jesú.

20 Hvernig getum við sýnt að við metum lausnargjaldið mjög mikils? Skömmu fyrir handtöku sína sagði Jesús: „Sá sem elskar mig, varðveitir mitt orð.“ (Jóhannes 14:23) Fyrirskipun Jesú um að ‚fara og gera allar þjóðir að lærisveinum og skíra þá‘ er hluti af ‚orði‘ hans. (Matteus 28:19) Hlýðni við Jesú birtist einnig í því að elska andlega bræður sína. — Jóhannes 13:34, 35.

21. Af hverju ættum við að vera viðstödd minningarhátíðina 1. apríl í ár?

21 Einhver besta leiðin til að sýna að við kunnum að meta lausnargjaldið er að sækja minningarhátíðina um dauða Krists sem ber upp á 1. apríl nú í ár. * Það er líka hluti af ‚orði‘ Jesú, því að þegar hann stofnsetti þessa hátíð bauð hann fylgjendum sínum: „Gjörið þetta í mína minningu.“ (Lúkas 22:19) Með því að sækja þessa þýðingarmiklu hátíðarsamkomu og hafa brennandi áhuga á öllu sem Kristur bauð, sýnum við að við séum sannfærð um að hann sé hjálpræðisleið Guðs. Vissulega ‚er hjálpræðið ekki í neinum öðrum.‘ — Postulasagan 4:12.

[Neðanmáls]

^ Fyrsti apríl í ár svarar til 14. nísan árið 33 þegar Jesús dó. Vottar Jehóva á svæðinu veita upplýsingar um það hvar og hvenær minningarhátíðin er haldin.

Manstu?

Af hverju geta menn ekki friðþægt fyrir syndarhneigð sína?

Á hvaða hátt er Jesús ‚samsvarandi lausnargjald‘?

Hvernig notaði Jesús í okkar þágu rétt sinn til að lifa sem fullkominn maður?

Hvaða blessun hlýtur mannkynið vegna lausnarfórnar Krists?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 10]

Einungis fullkominn maður — jafningi Adams — gat jafnað vogarskálar réttvísinnar.

[Mynd á blaðsíðu 12]

Þar eð Jesús átti rétt á fullkomnu lífi sem maður hafði dauði hans fórnargildi.