Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lyftu upp hollum höndum í bæn

Lyftu upp hollum höndum í bæn

Lyftu upp hollum höndum í bæn

„Ég vil, að karlmenn biðjist hvarvetna fyrir, með upplyftum heilögum [„hollum,“ NW] höndum, án reiði og þrætu.“ — 1. TÍMÓTEUSARBRÉF 2:8.

1, 2. (a) Hvernig á 1. Tímóteusarbréf 2:8 við um bænir fólks Jehóva? (b) Um hvað fjöllum við núna?

 JEHÓVA væntir hollustu af þjónum sínum og ætlast jafnframt til að þeir sýni hver öðrum hollustu. Páll postuli tengdi hollustu við bænina er hann sagði: „Ég vil, að karlmenn biðjist hvarvetna fyrir, með upplyftum heilögum [„hollum,“ NW] höndum, án reiði og þrætu.“ (1. Tímóteusarbréf 2:8) Páll var greinilega að tala um bænir í annarra áheyrn „hvarvetna“ sem kristnir menn kæmu saman. Hverjir áttu að fara með bæn á safnaðarsamkomum fyrir hönd fólks Guðs? Aðeins heilagir, réttlátir og lotningarfullir menn sem ræktu vandlega allar biblíulegar skyldur sínar gagnvart Guði. (Prédikarinn 12:13, 14) Þeir urðu að vera andlega og siðferðilega hreinir og Jehóva Guði trúir í hvívetna.

2 Safnaðaröldungar ættu öðrum fremur að ‚lyfta upp hollum höndum í bæn.‘ Innilegar bænir þeirra í nafni Jesú Krists bera vott um hollustu við Guð og hjálpa þeim að forðast þrætur og reiðiköst. Raunar ættu allir, sem fara með bæn fyrir hönd kristna safnaðarins, að vera lausir við reiði, óvild og óhollustu við Jehóva og skipulag hans. (Jakobsbréfið 1:19, 20) Hvaða annað í Biblíunni geta þeir sem biðja opinberlega fyrir annarra hönd haft til viðmiðunar? Og hvaða biblíulegar meginreglur ættum við að hafa að leiðarljósi í einkabænum okkar og fjölskyldubænum?

Hugsaðu fyrirfram um bænina

3, 4. (a) Af hverju er gott að hugsa fyrirfram um bænir sem við biðjum opinberlega? (b) Hvað má ráða af Ritningunni um lengd bæna?

3 Ef þú hefur verið beðinn að fara með opinbera bæn geturðu líklega hugsað eitthvað um bænina fyrirfram. Með því móti geturðu kannski fjallað um viðeigandi og mikilvæg mál í bæninni án þess að vera langmáll eða vaða úr einu í annað. Við getum auðvitað líka farið með einkabænir okkar upphátt og þær geta verið eins langar og verkast vill. Jesús baðst fyrir heila nótt áður en hann valdi postulana 12. En þegar hann kom á fót minningarhátíðinni um dauða sinn voru bænir hans yfir brauðinu og víninu trúlega fremur stuttar. (Markús 14:22-24; Lúkas 6:12-16) Og við vitum að Guð hafði líka fullkomna velþóknun á stuttum bænum Jesú.

4 Segjum sem svo að þú hafir þau sérréttindi að fara með borðbæn fyrir hönd fjölskyldu fyrir máltíð. Slík bæn gæti verið fremur stutt — en hvað sem þú segir í bæninni ættirðu meðal annars að þakka fyrir matinn. Ef við förum með bæn fyrir eða eftir kristna samkomu þarf bænin hvorki að vera löng né yfirgripsmikil. Jesús gagnrýndi fræðimennina sem ‚fluttu langar bænir að yfirskini.‘ (Lúkas 20:46, 47) Guðrækinn maður myndi aldrei vilja gera neitt slíkt. En stundum getur verið viðeigandi að opinber bæn sé í lengra lagi. Öldungur, sem valinn er til að flytja lokabæn á svæðismóti, ætti til dæmis að hugsa um hana fyrirfram og hann kýs kannski að minnast á allmörg atriði. En slík bæn má þó ekki vera óhóflega löng.

Nálgastu Guð með lotningu

5. (a) Hvað ættum við að hafa í huga þegar við förum með opinbera bæn? (b) Af hverju eiga bænir að bera vott um virðingu og reisn?

5 Þegar við förum með opinbera bæn ættum við að hafa hugfast að við erum ekki að ávarpa menn. Við, syndugir menn, erum að biðja til Jehóva Guðs sem er alheimsdrottinn. (Sálmur 8:4-6, 10; 73:28) Þess vegna ættum við að biðja í lotningarfullum ótta við að misþóknast honum með orðum okkar og tjáningu. (Orðskviðirnir 1:7) Sálmaritarinn Davíð söng: „Ég fæ að ganga í hús þitt fyrir mikla miskunn þína, fæ að falla fram fyrir þínu heilaga musteri í ótta frammi fyrir þér.“ (Sálmur 5:8) Ef við höfum þetta viðhorf, hvernig tjáum við okkur þegar við erum beðin að fara með bæn á samkomu votta Jehóva? Ef við værum að tala við mennskan konung myndum við sýna virðingu og reisn. Ættum við ekki að sýna enn meiri virðingu og reisn í bænum okkar, því að við erum að biðja til Jehóva, ‚konungs aldanna‘? (Opinberunarbókin 15:3) Við ættum því að forðast í bænum okkar orðalag á borð við: „Góðan dag, Jehóva,“ „ástarkveðjur“ eða „vertu blessaður.“ Ritningin sýnir okkur að eingetinn sonur Guðs, Jesús Kristur, ávarpaði himneskan föður sinn aldrei þannig.

6. Hvað ættum við að hafa í huga þegar við nálgumst „hásæti náðarinnar“?

6 Páll segir: „Göngum . . . með djörfung að hásæti náðarinnar.“ (Hebreabréfið 4:16) Við getum nálgast Jehóva með „djörfung“ þótt við séum syndug, af því að við trúum á lausnarfórn Jesú Krists. (Postulasagan 10:42, 43; 20:20, 21) En slík „djörfung“ merkir ekki að við röbbum við Guð og við ættum aldrei að vera ókurteis við hann. Til að bænir okkar frammi fyrir söfnuðinum séu Jehóva þóknanlegar verða þær að bera vott um viðeigandi virðingu og reisn, og það væri óviðeigandi að nota þær til að koma með tilkynningar, gefa einstaklingum ráð eða lesa yfir fólki.

Biddu í auðmýkt

7. Hvernig sýndi Salómon auðmýkt þegar hann baðst fyrir við vígslu musteris Jehóva?

7 Hvort sem við biðjum í einrúmi eða opinberlega þurfum við að hafa í huga þá mikilvægu, biblíulegu meginreglu að sýna auðmýkt í bænum okkar. (2. Kroníkubók 7:13, 14) Salómon konungur sýndi auðmýkt í opinberri bæn sinni við vígslu musteris Jehóva í Jerúsalem. Hann var nýbúinn að reisa einhverja mikilfenglegustu byggingu sögunnar. Samt bað hann auðmjúklega: „En mun Guð í sannleika búa á jörðu? Sjá, himinninn og himnanna himnar taka þig ekki, hve miklu síður þá þetta hús, sem ég hefi reist.“ — 1. Konungabók 8:27.

8. Nefndu dæmi um hvernig hægt sé að láta í ljós auðmýkt í opinberri bæn.

8 Við ættum að vera auðmjúkir, líkt og Salómon, þegar við förum opinberlega með bæn fyrir annarra hönd. Við getum sýnt auðmýkt í raddblæ okkar, þótt við forðumst auðvitað yfirdrifinn helgitón. Auðmjúkar bænir eru hvorki uppskrúfaðar né tilgerðarlegar. Þær beina ekki athyglinni að þeim sem fer með bænina heldur honum sem beðið er til. (Matteus 6:5) Auðmýktin kemur líka fram í því sem við segjum í bæninni. Ef bænin er auðmjúk hljómum við ekki eins og við séum að heimta að Guð geri vissa hluti eins og við viljum, heldur biðjum við hann að breyta í samræmi við heilagan vilja sinn. Sálmaritarinn sýndi rétta hugarfarið þegar hann bað: „[Jehóva], hjálpa þú, [Jehóva], gef þú gengi!“ — Sálmur 118:25; Lúkas 18:9-14.

Biddu af öllu hjarta

9. Hvaða góð ráð gaf Jesús í Matteusi 6:7 og hvernig má heimfæra þau?

9 Til að einkabænir okkar eða opinberar bænir þóknist Jehóva verða þær að koma frá hjartanu. Þá erum við ekki að endurtaka sömu bænaþuluna aftur og aftur án þess að hugsa um hvað við segjum. Jesús ráðlagði í fjallræðunni: „Þegar þér biðjist fyrir, skuluð þér ekki fara með fánýta mælgi að hætti heiðingja. Þeir hyggja [ranglega], að þeir verði bænheyrðir fyrir mælgi sína.“ Eða sagt með öðrum orðum: „Masið ekki; verið ekki með innantómar endurtekningar.“ — Matteus 6:7, Biblían 1981; NW Reference Bible, neðanmáls.

10. Af hverju væri viðeigandi að biðja oftar en einu sinni í tengslum við sama mál?

10 Auðvitað getum við þurft að ræða um sama mál aftur og aftur í bænum okkar. Það er ekkert rangt því að Jesús hvatti: „Haldið áfram að biðja og ykkur mun gefast, haldið áfram að leita og þið munuð finna, haldið áfram að knýja dyra og opnað verður fyrir ykkur.“ (Matteus 7:7, NW) Kannski hefur Jehóva blessað boðunarstarf safnaðarins svo að nú vantar nýjan ríkissal. (Jesaja 60:22) Það væri viðeigandi að halda áfram að nefna þessa þörf í einkabænum okkar og í bænum á samkomum fólks Jehóva. Það væru ekki „innantómar endurtekningar.“

Mundu eftir að þakka og lofa

11. Hvernig á Filippíbréfið 4:6, 7 við um einkabænir og opinberar bænir?

11 Margir fara með bæn aðeins til að biðja Guð um eitthvað, en kærleikur okkar til hans ætti að knýja okkur til að þakka honum og lofa hann, bæði í einkabænum okkar og opinberum bænum. „Verið ekki hugsjúkir um neitt,“ segir Páll, „heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.“ (Filippíbréfið 4:6, 7) Já, auk bæna og beiðna ættum við að tjá Jehóva þakklæti okkar fyrir þá andlegu og efnislegu blessun sem hann veitir. (Orðskviðirnir 10:22) Sálmaritarinn söng: „Fær Guði þakkargjörð að fórn og gjald Hinum hæsta þannig heit þín.“ (Sálmur 50:14) Og í ljóðrænni bæn Davíðs er þessi hjartnæmu orð að finna: „Ég vil lofa nafn Guðs í ljóði og mikla það í lofsöng.“ (Sálmur 69:31) Ættum við ekki að gera það líka, bæði í opinberum bænum okkar og einkabænum?

12. Hvernig er Sálmur 100:4, 5 að uppfyllast núna og fyrir hvað getum við þess vegna þakkað Guði og lofað hann?

12 Sálmaritarinn söng um Guð: „Gangið inn um hlið hans með lofsöng, í forgarða hans með sálmum, lofið hann, vegsamið nafn hans. Því að [Jehóva] er góður, miskunn hans varir að eilífu og trúfesti hans frá kyni til kyns.“ (Sálmur 100:4, 5) Fólk af öllum þjóðum er að ganga í forgarða helgidóms Jehóva núna, og við getum lofað hann og þakkað honum fyrir. Þakkarðu Guði fyrir ríkissalinn og sýnirðu þakklæti þitt með því að koma þangað að staðaldri ásamt öðrum sem elska hann? Og hefurðu upp rödd þína þar í lof- og þakkarsöng til hins ástríka föður okkar á himnum?

Veigraðu þér aldrei við að biðja

13. Hvaða dæmi úr Biblíunni sýna að við eigum að biðja auðmjúklega til Jehóva, jafnvel þótt okkur finnist við óverðug sökum sektarkenndar?

13 Jafnvel þótt við séum haldin sektarkennd og finnist við óverðug þess ættum við að nálgast Guð í einlægri bæn. Þegar Gyðingar syndguðu með því að taka sér erlendar konur féll Esra á kné, fórnaði höndum til Guðs og bað auðmjúklega: „Guð minn, ég fyrirverð mig og blygðast mín að hefja auglit mitt til þín, ó minn Guð! Því að misgjörðir vorar eru vaxnar oss yfir höfuð og sekt vor orðin svo mikil, að hún nær til himins. Allt frá dögum feðra vorra fram á þennan dag höfum vér verið í mikilli sekt . . . Og eftir allt það, sem yfir oss er komið vegna vondra verka vorra og vorrar miklu sektar — því að þú, Guð vor, hefir vægt oss og ekki hegnt oss, svo sem vér áttum skilið fyrir misgjörð vora, og veitt oss slíkar leifar —  ættum vér þá enn að nýju að brjóta boðorð þín og mægjast við þær þjóðir, sem aðhafast slíkar svívirðingar? Mundir þú eigi reiðast oss, þar til er vér værum gjöreyddir, svo að engar leifar væru eftir né nokkrir þeir, er undan hefðu komist? [Jehóva], Ísraels Guð, þú ert réttlátur! Vér erum eftir skildir sem leifar, er undan hafa komist, svo sem sjá má þann dag í dag. Sjá, vér stöndum frammi fyrir þér í sekt vorri, því að það er eigi unnt að standast fyrir þér vegna þessa.“ — Esrabók 9:1-15; 5. Mósebók 7:3, 4.

14. Hvað þarf til að hljóta fyrirgefningu Guðs eins og sýndi sig á dögum Esra?

14 Til að hljóta fyrirgefningu Guðs verður játning okkar að haldast í hendur við eftirsjá og „ávexti samboðna iðruninni.“ (Lúkas 3:8; Jobsbók 42:1-6; Jesaja 66:2) Á dögum Esra var iðruninni fylgt eftir með því að leiðrétta það sem aflaga fór, það er að segja með því að senda burt erlendu konurnar. (Esrabók 10:44; samanber 2. Korintubréf 7:8-13.) Ef við erum að leita fyrirgefningar Guðs vegna alvarlegrar syndar skulum við játa synd okkar í auðmjúkri bæn og bera ávöxt samboðinn iðruninni. Iðrunarhugur og löngun til að leiðrétta hið ranga ætti líka að fá okkur til að leita andlegrar hjálpar kristinna öldunga. — Jakobsbréfið 5:13-15.

Leitaðu hughreystingar í bæninni

15. Hvernig sést af reynslu Hönnu að við getum leitað hughreystingar í bæninni?

15 Þegar hjarta okkar er kvalið af einhverjum orsökum getum við leitað hughreystingar í bæninni. (Sálmur 51:19; Orðskviðirnir 15:13) Hin trúfasta Hanna gerði það. Þegar hún var uppi voru stórar fjölskyldur algengar í Ísrael en hún var barnlaus. Elkana, eiginmaður hennar, átti syni og dætur með annarri eiginkonu sinni, Peninnu, sem hæddist að Hönnu fyrir barnleysið. Hanna baðst fyrir í einlægni og hét því að eignaðist hún son skyldi hún „gefa hann [Jehóva] alla daga ævi hans.“ Bænin og orð Elí æðstaprests hughreystu hana og ‚var hún eigi framar með döpru bragði.‘ Hún eignaðist svo dreng sem hún nefndi Samúel. Síðar fór hún með hann í helgidóm Jehóva þar sem hann átti að þjóna. (1. Samúelsbók 1:9-28) Hanna var þakklát fyrir gæsku Jehóva í sinn garð, og í þakkarbæn lofaði hún hann sem óviðjafnanlegan Guð. (1. Samúelsbók 2:1-10) Líkt og Hanna getum við leitað hughreystingar í bæninni og treyst því að Guð svari öllu sem við biðjum hann um í samræmi við vilja hans. Þegar við úthellum hjörtum okkar fyrir honum þurfum við ‚ekki framar að vera með döpru bragði‘ því að hann léttir af okkur byrðinni eða gerir okkur kleift að bera hana. — Sálmur 55:23.

16. Af hverju ættum við að biðjast fyrir eins og Jakob þegar við erum óttaslegin eða áhyggjufull?

16 Ef eitthvert ástand veldur okkur ótta, kvöl eða áhyggjum skulum við gæta þess að leita hughreystingar í bæn til Guðs. (Sálmur 55:2-5) Jakob var kvíðinn að hitta óvinveittan bróður sinn, Esaú, en hann bað: „Guð Abrahams föður míns og Guð Ísaks föður míns, [Jehóva], þú sem sagðir við mig: ‚Hverf heim aftur til lands þíns og til ættfólks þíns, og ég mun gjöra vel við þig,‘ —  ómaklegur er ég allrar þeirrar miskunnar og allrar þeirrar trúfesti, sem þú hefir auðsýnt þjóni þínum. Því að með stafinn minn einn fór ég þá yfir Jórdan, en nú á ég yfir tveim flokkum að ráða. Æ, frelsa mig undan valdi bróður míns, undan valdi Esaú, því að ég óttast hann, að hann komi og höggvi oss niður sem hráviði. Og þú hefir sjálfur sagt: ‚Ég mun vissulega gjöra vel við þig og gjöra niðja þína sem sand á sjávarströndu, er eigi verður talinn fyrir fjölda sakir.‘“ (1. Mósebók 32:9-12) Esaú réðst ekki á Jakob og föruneyti hans. Þannig ‚gerði Jehóva vel‘ við Jakob á þeim tíma.

17. Hvernig getur bæn hughreyst okkur í erfiðum prófraunum eins og sést af Sálmi 119:52?

17 Þegar við biðjum getum við sótt hughreystingu í margt sem sagt er í orði Guðs. Það kann að hafa verið Hiskía prins sem söng í lengsta sálminum, fagurri bæn sem sett er við tónlist: „Ég minnist dóma þinna frá öndverðu, [Jehóva], og læt huggast.“ (Sálmur 119:52) Þegar við biðjum auðmjúklega í erfiðri prófraun getur verið að við munum eftir meginreglu eða lagaákvæði í Biblíunni sem hjálpar okkur að fylgja ákveðinni stefnu í þeirri vissu að við þóknumst föður okkar á himnum.

Drottinhollir menn eru staðfastir í bæninni

18. Hvernig er hægt að segja að ‚sérhver trúaður maður biðji til Guðs‘?

18 Allir sem eru hollir Jehóva Guði eru „staðfastir í bæninni.“ (Rómverjabréfið 12:12) Í 32. sálminum, sem hugsanlegt er að Davíð hafi ort eftir að hann syndgaði með Batsebu, lýsir hann kvöl sinni vegna þess að hann hafði ekki leitað fyrirgefningar, og þeim létti sem iðrun og játning til Guðs veitti honum. Síðan söng hann: „Þess vegna [vegna þess að þeir sem iðrast í alvöru geta hlotið fyrirgefningu Jehóva] biðji þig sérhver trúaður, meðan þig er að finna.“ — Sálmur 32:6.

19. Af hverju ættum við að lyfta upp hollum höndum í bæn?

19 Ef samband okkar við Jehóva Guð er okkur mikils virði biðjum við um miskunn hans á grundvelli lausnarfórnar Jesú. Við getum nálgast hásæti náðarinnar í trú og með djörfung og beðið um miskunn og hjálp á hagkvæmum tíma. (Hebreabréfið 4:16) Það eru fjölmargar ástæður til að biðja. Við skulum því ‚biðja án afláts‘ — og oft með innilegum þakkarorðum og lofgerð. (1. Þessaloníkubréf 5:17) Dag og nótt skulum við lyfta upp hollum höndum í bæn.

Hvert er svarið?

◻ Af hverju er gott að hugsa fyrirfram um bænir sem við biðjum opinberlega?

◻ Hvers vegna eigum við að biðja með virðingu og reisn?

◻ Hvaða hugarfar ættum við að sýna þegar við biðjum?

◻ Af hverju ættum við að muna eftir þökkum og lofgerð þegar við biðjum?

◻ Hvernig sýnir Biblían að við getum leitað hughreystingar í bæninni?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 25]

Salómon konungur sýndi auðmýkt í opinberri bæn sinni við vígslu musteris Jehóva.

[Myndir á blaðsíðu 26]

Þú getur leitað hughreystingar í bæn líkt og Hanna.