Vegur kærleikans bregst aldrei
Vegur kærleikans bregst aldrei
„Sækist heldur eftir náðargáfunum, þeim hinum meiri. Og nú bendi ég yður á enn þá miklu ágætari leið.“ — 1. KORINTUBRÉF 12:31.
1-3. (a) Hvað er líkt með því að læra að sýna kærleika og að læra nýtt tungumál? (b) Hvers vegna getur þurft að leggja töluvert á sig til að sýna kærleika?
HEFUR þú einhvern tíma reynt að læra nýtt tungumál? Það er svo sannarlega ekkert áhlaupaverk! Barn þarf að vísu ekki annað en að heyra málið talað til að læra það. Heili barnsins drekkur í sig hljóðin og merkingu orðanna, og áður en varir er það farið að tala málið reiprennandi, jafnvel óstöðvandi. En um fullorðna gegnir öðru máli. Við þurfum að fletta orðabókum fram og aftur til að ná tökum á fáeinum einföldum setningum á erlendu máli. En með tíma og æfingu förum við að hugsa á nýja málinu og þá verður auðveldara að tala það.
2 Að læra að sýna kærleika er að mörgu leyti líkt því að læra nýtt tungumál. Þessi eiginleiki Guðs er okkur að vísu eðlislægur að vissu marki. (1. Mósebók 1:27; samanber 1. Jóhannesarbréf 4:8.) Samt sem áður þarf að leggja talsvert á sig til þess að læra að sýna hann — ekki síst núna þegar eðlileg ástúð er orðin jafnfágæt og raun ber vitni. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Stundum er það þannig í fjölskyldunni. Margir alast upp í harðneskjulegu umhverfi þar sem kærleiksorð heyrast sjaldan — eða aldrei. (Efesusbréfið 4:29-31; 6:4) Hvernig getum við þá lært að sýna kærleika — jafnvel þótt við höfum sjaldan fundið fyrir honum?
3 Biblían getur hjálpað okkur. Í 1. Korintubréfi 13:4-8 skilgreinir Páll hvað kærleikur sé. Þetta er ekki vélræn skilgreining heldur lifandi lýsing á þessum göfuga eiginleika. Með því að athuga þessi vers skiljum við eðli þessa eiginleika og verðum færari í að sýna hann. Skoðum nokkra þætti kærleikans sem Páll lýsir. Við getum í grófum dráttum skipt þeim í þrjá flokka: í fyrsta lagi hegðun okkar almennt, í öðru lagi samskipti okkar við aðra og í þriðja lagi þolgæði okkar.
Kærleikur hjálpar okkur að yfirvinna stærilæti
4. Hvað bendir Biblían á í sambandi við afbrýði?
4 Eftir inngangsorð sín um kærleikann skrifaði Páll Korintumönnum: „Kærleikurinn er ekki afbrýðisamur.“ (1. Korintubréf 13:4, NW) Afbrýði getur birst í öfund og óánægju yfir velgengni eða árangri annarra. Þess konar afbrýði er skemmandi — líkamlega, tilfinningalega og andlega. — Orðskviðirnir 14:30; Rómverjabréfið 13:13; Jakobsbréfið 3:14-16.
5. Hvernig getur kærleikur hjálpað okkur að sigrast á afbrýði þegar fram hjá okkur virðist gengið við úthlutun guðræðislegra sérréttinda?
5 Í ljósi þessa skaltu spyrja þig hvort þú sért öfundsjúkur þegar gengið virðist fram hjá þér við úthlutun einhverra guðræðislegra sérréttinda. En örvæntu ekki þótt svarið sé já. Biblíuritarinn Jakob minnir á að ‚öfundartilhneigingin‘ búi í öllum ófullkomnum mönnum. (Jakobsbréfið 4:5, NW) Kærleikur til bróður þíns getur hjálpað þér að ná aftur jafnvægi. Hann getur gert þér kleift að gleðjast með þeim sem gleðjast og líta ekki á það sem persónulega lítilsvirðingu þegar einhver annar fær hrós eða blessun. — Samanber 1. Samúelsbók 18:7-9.
6. Hvaða alvarlegt ástand skapaðist í Korintusöfnuðinum á fyrstu öld?
6 Páll bætir við að kærleikurinn sé ‚ekki raupsamur, hreyki sér ekki upp.‘ (1. Korintubréf 13:4) Það er engin ástæða til að flíka því þótt við höfum einhverja gáfu eða hæfileika. Þetta var greinilega vandamál metnaðargjarnra manna sem höfðu læðst inn í Korintusöfnuðinn. Kannski voru þeir snillingar í að útlista hugmyndir eða höfðu betra verksvit en aðrir. Með því að vekja athygli á sjálfum sér hafa þeir ef til vill stuðlað að flokkadráttum í söfnuðinum. (1. Korintubréf 3:3, 4; 2. Korintubréf 12:20) Ástandið varð svo alvarlegt að Páll þurfti síðar að ávíta Korintumenn fyrir að ‚umbera hina fávísu‘ sem hann í gagnrýnistón kallaði ‚stórmikla postula.‘ — 2. Korintubréf 11:5, 19, 20.
7, 8. Notaðu Biblíuna til að sýna fram á hvernig við getum notað meðfædda hæfileika okkar til að stuðla að einingu.
7 Svipað ástand getur skapast núna. Sumir geta haft tilhneigingu til að stæra sig af afrekum sínum í boðunarstarfinu eða sérréttindum sínum í skipulagi Guðs. En höfum við ástæðu til að vera montin þótt við höfum einhvern sérstakan hæfileika eða kunnáttu sem aðra í söfnuðinum skortir? Þegar öllu er á botninn hvolft ættum við að nota alla meðfædda hæfileika okkar til að stuðla að einingu en ekki til að hreykja okkur upp. — Matteus 23:12; 1. Pétursbréf 5:6.
8 Páll segir að þótt söfnuður hafi marga limi ‚hafi Guð sett líkamann saman.‘ (1. Korintubréf 12:19-26) Gríska orðið, sem þýtt er ‚sett saman,‘ gefur til kynna samstæða blöndun eins og til dæmis í litum. Enginn í söfnuðinum ætti því að vera montinn yfir hæfileikum sínum og reyna að drottna yfir öðrum. Stærilæti og framagirni eiga ekki heima í skipulagi Guðs. — Orðskviðirnir 16:19; 1. Korintubréf 14:12; 1. Pétursbréf 5:2, 3.
9. Hvaða dæmi til viðvörunar bendir Biblían á um fólk sem hugsaði um eigin hag?
9 Kærleikurinn „leitar ekki síns eigin.“ (1. Korintubréf 13:5) Kærleiksríkur maður ráðskast ekki með aðra til að fá sínu framgengt. Biblían segir frá vítum til varnaðar þar um. Við lesum þar um Delílu, Jesebel og Atalíu — konur sem ráðskuðust með aðra í eigingjörnum tilgangi. (Dómarabókin 16:16; 1. Konungabók 21:25; 2. Kroníkubók 22:10-12) Absalon, sonur Davíðs konungs, er líka dæmi um þetta. Hann vék sér að fólki, sem kom til Jerúsalem til að fá dæmt í málum sínum, og dylgjaði lævíslega með það að konungur hefði ekki einlægan áhuga á vandamálum þeirra sem leituðu til hans. Síðan sagði hann berum orðum að það vantaði hjartahlýjan mann eins og sig til að dæma í málum fólks. (2. Samúelsbók 15:2-4) Það var auðvitað ekki áhugi á undirokuðum sem bjó að baki heldur var Absalon aðeins að hugsa um sjálfan sig. Hann hegðaði sér eins og sjálfskipaður konungur og hafði áhrif á hjörtu margra. En um síðir beið Absalon herfilegan ósigur og var ekki einu sinni álitinn verðskulda sómasamlega greftrun við dauða sinn. — 2. Samúelsbók 18:6-17.
10. Hvernig getum við sýnt að við hugsum um hag annarra?
10 Þetta er viðvörun til kristinna manna nú á tímum. Jafnt karlar sem konur geta búið yfir miklum sannfæringarkrafti. Við eigum kannski auðvelt með að hafa okkar fram með því að yfirgnæfa aðra í samræðum eða með því að þreyta þá sem eru annarrar skoðunar en við. En ef við erum kærleiksrík í alvöru hugsum við um hag annarra. (Filippíbréfið 2:2-4) Við notfærum okkur ekki aðra eða komum á framfæri vafasömum hugmyndum sökum reynslu okkar eða stöðu í skipulagi Guðs, rétt eins og skoðanir okkar séu þær einu sem máli skipta. Við höfum í huga biblíuorðskviðinn: „Drambsemi er undanfari tortímingar, og oflæti veit á fall.“ — Orðskviðirnir 16:18.
Kærleikur stuðlar að friðsamlegum samskiptum
11. (a) Hvernig getum við sýnt að kærleikurinn er bæði góðviljaður og hegðar sér sómasamlega? (b) Hvernig getum við sýnt að við gleðjumst ekki yfir óréttvísinni?
11 Páll segir einnig að kærleikurinn sé „góðviljaður“ og ‚hegði sér ekki ósæmilega.‘ (1. Korintubréf 13:4, 5) Já, kærleikurinn leyfir okkur ekki að vera ruddaleg, klúr eða ókurteis. Við virðum tilfinningar annarra. Kærleiksríkur maður forðast það sem gæti angrað samvisku annarra. (Samanber 1. Korintubréf 8:.) Kærleikurinn „gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum.“ ( 131. Korintubréf 13:6) Ef við elskum lög Jehóva gerum við ekki lítið úr siðleysi eða skemmtum okkur við það sem hann hatar. (Sálmur 119:97) Kærleikurinn hjálpar okkur að njóta þess sem byggir upp en ekki þess sem brýtur niður. — Rómverjabréfið 15:2; 1. Korintubréf 10:23, 24; 14:26.
12, 13. (a) Hvernig ættum við að bregðast við þegar einhver móðgar okkur? (b) Bentu á dæmi í Biblíunni til að sýna fram á að jafnvel réttmæt reiði geti komið okkur til að hegða okkur óskynsamlega.
12 Páll skrifar að kærleikurinn „reiðist ekki“ (sé „ekki fyrtinn,“ Phillips). (1. Korintubréf 13:5) Að vísu er fullkomlega eðlilegt að við ófullkomnir menn komumst í uppnám eða finnum til einhverrar reiði ef einhver móðgar okkur. En það væri rangt að ala með sér langvinna gremju eða vera reiður til langframa. (Sálmur 4:4, NW; Efesusbréfið 4:26) Réttmæt reiði getur jafnvel komið okkur til að hegða okkur óskynsamlega ef við höfum ekki taumhald á henni og Jehóva gæti kallað okkur til ábyrgðar fyrir það. — 1. Mósebók 34:1-31; 49:5-7; 4. Mósebók 12:3; 20:10-12; Sálmur 106:32, 33.
13 Sumir hafa látið ófullkomleika annarra hafa áhrif á samkomusókn sína eða þátttöku í boðunarstarfinu. Margir þeirra höfðu áður barist hetjulega fyrir trúnni og jafnvel þolað andstöðu frá fjölskyldunni, háðsglósur vinnufélaga og þvíumlíkt. Þeir stóðust slíka erfiðleika af því að þeir litu réttilega á þá sem prófraun á ráðvendni sína. En hvað gerist þegar trúbróðir segir eða gerir eitthvað kærleikslaust? Er það ekki líka prófraun á ráðvendni okkar? Svo sannarlega því að við getum ‚gefið djöflinum færi‘ ef við erum reið til langframa. — Efesusbréfið 4:27.
14, 15. (a) Hvað merkir það að vera „langrækinn“? (b) Hvernig getum við líkt eftir fyrirgefningarvilja Jehóva?
14 Páll bætir því við af ærnu tilefni að kærleikurinn sé „ekki langrækinn.“ (1. Korintubréf 13:5) Orðalag frummálsins er sótt til bókhalds, eins og misgerðin sé skráð í kladda svo hún gleymist ekki. Er það kærleiksríkt að skrá meiðandi orð eða verk í huga sér, rétt eins og við þurfum að fletta upp á þeim síðar? Við getum fagnað því að Jehóva grannskoðar okkur ekki af slíku miskunnarleysi. (Sálmur 130:3) Þegar við iðrumst afmáir hann misgerðir okkar. — Postulasagan 3:19.
15 Hér getum við líkt eftir Jehóva. Við ættum ekki að vera viðkvæm úr hófi þegar einhver virðist lítilsvirða okkur. Ef við erum móðgunargjörn er hætta á að við séum að særa sjálf okkur meira en hinn gat nokkurn tíma gert. (Prédikarinn 7:9, 22) Við þurfum að hafa hugfast að kærleikurinn „trúir öllu.“ (1. Korintubréf 13:7) Enginn vill auðvitað vera trúgjarn, en við ættum ekki heldur að tortryggja hvatir bræðra okkar úr hófi fram. Sé þess nokkur kostur skulum við gera ráð fyrir að hinum hafi ekki gengið neitt illt til. — Kólossubréfið 3:13.
Kærleikurinn hjálpar okkur að halda út
16. Við hvaða aðstæður getur kærleikur stuðlað að langlyndi?
16 Páll segir að ‚kærleikurinn sé langlyndur.‘ (1. Korintubréf 13:4) Hann gerir okkur kleift að umbera erfiðar aðstæður, jafnvel um langt skeið. Margur kristinn maður hefur til dæmis búið á trúarlega skiptu heimili í mörg ár. Sumir eru einhleypir, ekki af ásetningi heldur af því að þeim hefur ekki tekist að finna sér maka við hæfi „í Drottni.“ (1. Korintubréf 7:39; 2. Korintubréf 6:14) Og ekki má gleyma þeim sem eiga við að glíma erfiðan heilsubrest. (Galatabréfið 4:13, 14; Filippíbréfið 2:25-30) Í þessu ófullkomna kerfi kemst enginn hjá því að þurfa að sýna þolgæði í einhverri mynd. — Matteus 10:22; Jakobsbréfið 1:12.
17. Hvað hjálpar okkur að umbera allt?
17 Páll fullvissar okkur um að kærleikurinn ‚breiði yfir allt, voni allt, umberi allt.‘ (1. Korintubréf 13:7) Kærleikur til Jehóva gerir okkur fær um að þola hvað sem er vegna réttlætisins. (Matteus 16:24; 1. Korintubréf 10:13) Við sækjumst ekki eftir píslarvætti heldur höfum það markmið að lifa kyrrlátu og friðsömu lífi. (Rómverjabréfið 12:18; 1. Þessaloníkubréf 4:11, 12) En þegar við verðum fyrir trúarprófraunum þolum við þær fúslega af því að það er hluti af kostnaðinum við að vera lærisveinar Krists. (Lúkas 14:28-33) Og meðan prófraunin stendur reynum við að vera jákvæð og vona hið besta.
18. Hvers vegna er þolgæði nauðsynlegt jafnvel við hagstæð skilyrði?
18 Það er ekki aðeins í mótlæti sem við þurfum að vera þolgóð. Stundum er þolgæði hreinlega fólgið í því að þrauka, að halda áfram á sömu braut hvort sem aðstæður eru erfiðar eða ekki. Þolgæði felur í sér að hafa góðar, andlegar venjur. Tekurðu til dæmis eins virkan þátt í boðunarstarfinu og aðstæður þínar leyfa? Lestu Biblíuna, hugleiðir þú hana og talar við himneskan föður þinn í bæn? Sækirðu safnaðarsamkomur reglulega og stuðlar að gagnkvæmri uppörvun ásamt trúsystkinum þínum? Þá sýnirðu þolgæði, hvort heldur ytri skilyrði eru hagstæð eða óhagstæð. Gefstu ekki upp „því að á sínum tíma munum vér uppskera, ef vér gefumst ekki upp.“ — Galatabréfið 6:9.
Kærleikur — „miklu ágætari leið“
19. Hvernig er kærleikurinn „miklu ágætari leið“?
19 Páll kallaði kærleikann „miklu ágætari leið“ og lagði þar með áherslu á hve mikilvægt væri að sýna hann. (1. Korintubréf 12:31) „Ágætari“ í hvaða skilningi? Páll var nýbúinn að telja upp náðargáfur andans sem voru algengar meðal kristinna manna á fyrstu öld. Sumir gátu spáð, aðrir fengu kraft til að lækna sjúka og margir fengu þann hæfileika að tala tungum. Þetta voru undraverðar gjafir. Samt sem áður sagði Páll Korintumönnum: „Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla. Og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking, og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt.“ (1. Korintubréf 13:1, 2) Já, verk sem geta að öðru leyti haft ákveðið gildi, eru ‚dauð verk‘ ef hvötin að baki þeim er ekki kærleikur til Guðs og náungans. — Hebreabréfið 6:1, 2.
20. Af hverju þarf stöðuga viðleitni til að rækta með sér kærleika?
20 Jesús nefnir aðra ástæðu fyrir því að við ættum að rækta með okkur kærleika. „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars,“ sagði hann. (Jóhannes 13:35) Orðið „ef“ bendir á að það sé hverjum kristnum manni í sjálfsvald sett hvort hann lærir að sýna kærleika. Það eitt að búa erlendis hefur ekki sjálfkrafa í för með sér að maður neyðist til að læra málið sem er talað þar. Það eitt að sækja samkomur í ríkissalnum og umgangast trúbræður okkar kennir okkur ekki heldur sjálfkrafa að sýna kærleika. Það kostar stöðuga viðleitni að læra þetta „tungumál.“
21, 22. (a) Hvernig ættum við að bregðast við ef við náum ekki að sýna einhvern af þeim kærleiksþáttum sem Páll ræðir um? (b) Hvernig má segja að ‚kærleikurinn falli aldrei úr gildi‘?
21 Stundum tekst þér ekki að sýna einhvern af þeim kærleiksþáttum sem Páll ræðir um. En misstu ekki kjarkinn. Leggðu þig þolinmóður fram. Haltu áfram að leita til Biblíunnar og fara eftir meginreglum hennar í samskiptum við aðra. Gleymdu aldrei fordæmi Jehóva sjálfs. Páll hvatti Efesusmenn: „Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.“ — Efesusbréfið 4:32.
22 Með tíð og tíma verður auðveldara að tjá sig á nýju tungumáli, og eins verður líklega auðveldara þegar fram líða stundir að sýna kærleika. Páll fullvissar okkur um að ‚kærleikurinn falli aldrei úr gildi‘ eða bregðist aldrei. (1. Korintubréf 13:8) Kærleikurinn líður aldrei undir lok, ólíkt náðargáfum andans. Haltu því áfram að læra að sýna þennan eiginleika Guðs. Eins og Páll orðar það er kærleikurinn „miklu ágætari leið.“
Geturðu útskýrt?
◻ Hvernig getur kærleikur hjálpað okkur að sigrast á stærilæti?
◻ Hvernig getur kærleikur hjálpað okkur að stuðla að friði í söfnuðinum?
◻ Hvernig getur kærleikur hjálpað okkur að halda út?
◻ Hvernig er kærleikur „miklu ágætari leið“?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 15]
Kærleikur hjálpar okkur að horfa fram hjá göllum trúbræðra okkar.
[Myndir á blaðsíðu 17]
Þolgæði felur í sér að fylgja guðræðislegum venjum staðfastlega.