Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Bók með visku handa nútímafólki

Bók með visku handa nútímafólki

Bók með visku handa nútímafólki

„AÐ EIGA spekina er meira um vert en perlur,“ sagði ættfaðirinn Job sem var vafalaust einhver ríkasti maður sinnar samtíðar. (Jobsbók 1:3; 28:18; 42:12) Speki eða viska er miklu haldbetri en efnislegar eignir fyrir þann sem vill njóta farsældar í lífinu. „Spekin veitir forsælu eins og silfrið veitir forsælu,“ sagði hinn vitri Salómon konungur, „en yfirburðir þekkingarinnar eru þeir, að spekin heldur lífinu í þeim sem hana á.“ — Prédikarinn 7:12.

En hvar er slíka visku að finna nú á tímum? Fólk leitar ráða við persónulegum vandamálum sínum hjá dálkahöfundum, sálfræðingum, geðlæknum og jafnvel hársnyrtum og leigubílstjórum. Og ótal sérfræðingar eru óðfúsir að miðla ráðum sínum um nálega hvað sem er — gegn hæfilegri þóknun. En ‚viska‘ þeirra hefur því miður oft valdið fólki vonbrigðum og jafnvel ógæfu. Hvar finnum við þá sanna visku?

Jesús Kristur hafði næman skilning á mannlegu eðli og hann sagði einu sinni að ‚spekin sannaðist af verkum sínum.‘ (Matteus 11:19) Við skulum líta á nokkur algeng vandamál og kanna hvaða viska hefur hjálpað fólki og reynst því verðmætari en „perlur.“ Þú gætir líka fundið þessa ‚speki‘ og notið góðs af henni.

Áttu við þunglyndi að stríða?

„Ef segja má að áhyggjuöldin hafi runnið upp jafnhliða tuttugustu öldinni er þunglyndisöldin að ganga í garð við lok hennar,“ sagði Lundúnablaðið International Herald Tribune fyrir fáeinum árum. Blaðið bætir við: „Fyrsta alþjóðlega rannsóknin á alvarlegu þunglyndi leiðir í ljós að það hefur aukist jafnt og þétt um heim allan. Hver ný kynslóð virðist berskjaldaðri gagnvart þessum sjúkdómi, jafnvel meðal afar ólíkra þjóða á borð við Taívana, Líbana og Nýsjálendinga.“ Sagt er að fólki, sem fætt er eftir 1955, sé þrefalt hættara við alvarlegu þunglyndi en fólki var tveim kynslóðum fyrr.

Tomoe átti við alvarlegt þunglyndi að stríða og lá í rúminu flesta daga. Hún var ófær um að annast son sinn, sem var tveggja ára, svo að hún flutti heim til foreldra sinna. Nágrannakona þeirra átti litla telpu á sama reki og drengurinn, og vingaðist við Tomoe. Þegar Tomoe sagði konunni að sér liði eins og hún væri einskis virði opnaði konan bók og sýndi henni stuttan texta sem var á þessa leið: „Augað getur ekki sagt við höndina: ‚Ég þarfnast þín ekki!‘ né heldur höfuðið við fæturna: ‚Ég þarfnast ykkar ekki!‘ Nei, miklu fremur eru þeir limir á líkamanum nauðsynlegir, sem virðast vera í veikbyggðara lagi.“ * Tárin spruttu fram þegar það rann upp fyrir Tomoe að allir eiga hlutverki að gegna í heiminum og þeirra er þörf.

Nágrannakonan stakk upp á að Tomoe gluggaði í bókina þar sem þessi orð stóðu. Tomoe kinkaði kolli, en fram til þessa hafði hún ekki getað gert nokkurn skapaðan hlut, ekki einu sinni gefið einfalt loforð. Konan hjálpaði henni að versla og matbjó með henni daglega. Mánuði síðar var Tomoe farin að fara á fætur á hverjum morgni, þvo þvott, ræsta heimilið, versla og matbúa eins og hver önnur húsmóðir. Hún þurfti að yfirstíga margs konar erfiðleika en segist hafa ‚treyst því að allt myndi ganga vel ef hún færi bara eftir þeim viturlegu orðum sem hún hafði fundið.‘

Tomoe sigraðist á þunglyndinu, sem þjáði hana, með því að fara eftir viskunni sem hún fann. Núna vinnur hún við það í fullu starfi að hjálpa öðrum að fara eftir orðunum sem gerðu henni kleift að takast á við vandamál sín. Þessi viskuorð er að finna í ævafornri bók sem hefur að geyma boðskap handa öllu nútímafólki.

Áttu í hjónabandserfiðleikum?

Hjónaskilnuðum fjölgar hröðum skrefum alls staðar í heiminum. Fjölskylduvandamál fara jafnvel vaxandi í Austurlöndum þar sem fólk lagði að jafnaði metnað sinn í að varðveita sterk fjölskyldubönd. Hvar geta hjón fengið skynsamleg ráð sem duga?

Tökum hjónin Shugo og Mihoko sem dæmi. Þau áttu í endalausum erfiðleikum í hjónabandinu og rifust af minnsta tilefni. Shugo var uppstökkur og Mihoko svaraði honum fullum hálsi hvenær sem hann fann henni eitthvað til foráttu. Mihoko var nánast viss um að þau gætu ekki verið sammála um nokkurn skapaðan hlut.

Dag nokkurn kom kona í heimsókn til Mihoko, fletti upp í bók og las fyrir hana þessi orð: „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ * Mihoko hafði engan áhuga á trúmálum en féllst á að fara yfir bókina sem þessi orð voru lesin úr. Hún hafði fyrst og fremst áhuga á að bæta fjölskyldulífið. En þegar henni var boðið að sækja samkomu þar sem fjallað var um efni bókarinnar Fjölskyldulíf þitt gert hamingjuríkt þáði hún boðið og tók eiginmanninn með. *

Shugo veitti því eftirtekt á samkomunni að viðstaddir fóru raunverulega eftir því sem þeir voru að læra og virtust mjög hamingjusamir. Hann ákvað þess vegna að glugga í bókina sem konan hans var að kynna sér. Þar rakst hann á setningu sem greip athygli hans: „Sá sem er seinn til reiði, er ríkur að skynsemd, en hinn bráðlyndi sýnir mikla fíflsku.“ * Það tók hann nokkurn tíma að tileinka sér þessa meginreglu, en smám saman tók hann breytingum sem vöktu athygli annarra, þeirra á meðal eiginkonu hans.

Þegar Mihoko sá eiginmann sinn breytast til batnaðar fór hún líka að tileinka sér það sem hún var að læra. Ein meginregla reyndist henni sérlega vel: „Dæmið ekki, svo að þér verðið ekki dæmdir. Því að með þeim dómi, sem þér dæmið, munuð þér dæmdir.“ * Mihoko og eiginmaður hennar ákváðu því að ræða saman um jákvæða eiginleika hvort annars og velta fyrir sér hvernig þau gætu bætt sig í stað þess að finna hvort að öðru. Og hver varð árangurinn? „Ég var mjög ánægð,“ segir Mihoko. „Við höfum gert þetta við matarborðið á hverju kvöldi. Drengurinn okkar, sem er þriggja ára, tók meira að segja þátt í samræðunum. Þetta hefur verið mjög hressandi fyrir okkur!“

Þegar hjónin tileinkuðu sér þau góðu ráð, sem þau höfðu fengið, tókst þeim að yfirstíga vandamálin sem höfðu reynt svo á samband þeirra að það var í þann veginn að bresta. Ætli það sé ekki miklu verðmætara fyrir þau en perlur?

Viltu njóta velgengni í lífinu?

Auðsöfnun er markmið margra. En auðugur kaupsýslumaður í Bandaríkjunum, sem hefur gefið hundruð milljóna dollara til líknarmála, sagði einu sinni: „Peningar hafa mikið aðdráttarafl fyrir suma, en enginn getur gengið í tvennum skóm.“ Fáir viðurkenna þessa staðreynd og enn færri hætta að sækjast eftir peningum.

Hitoshi ólst upp við fátækt og þráði það heitast að verða ríkur. Eftir að hafa séð hvernig lánardrottnar vefja fólki um fingur sér sagði hann við sjálfan sig: „Sá sigrar sem græðir mest.“ Hitoshi hafði slíka tröllatrú á mætti peninganna að hann hélt jafnvel að það væri hægt að kaupa mannslíf með þeim. Hann einbeitti sér að rekstri eigin pípulagningafyrirtækis og vann þrotlaust árið um kring, án þess að taka sér nokkurn tíma frí. Þótt hann legði sig allan fram varð honum fljótlega ljóst að sem undirverktaki gæti hann aldrei orðið jafnvoldugur og verktakarnir sem hann vann fyrir. Vonbrigði og ótti við gjaldþrot voru honum daglegt brauð.

Þá bankaði maður hjá Hitoshi og spurði hann hvort hann vissi að Jesús Kristur hefði dáið fyrir hann. Hitoshi gat ekki ímyndað sér að nokkur vildi deyja fyrir mann eins og sig. En forvitni hans var vakin og hann féllst á að ræða málið nánar. Í vikunni á eftir sótti hann fyrirlestur og honum brá nokkuð þegar hann heyrði þá hvatningu að varðveita auga sitt „heilt.“ Ræðumaðurinn útskýrði að „heilt“ auga væri framsýnt og horfði á hið andlega; hins vegar væri „spillt“ eða öfundsjúkt auga skammsýnt og horfði aðeins á þarfir holdsins. Orðin „hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera,“ snertu hann djúpt. * Auðsöfnun var þá ekki það mikilvægasta í lífinu. Hann hafði aldrei heyrt neitt þessu líkt.

Hitoshi fór að tileinka sér það sem hann lærði. Í stað þess að strita fyrir peningum fór hann að setja andleg gildi á oddinn. Hann tók sér líka tíma til að sinna andlegri velferð fjölskyldu sinnar. Það hafði auðvitað í för með sér að hann eyddi minni tíma en áður í vinnu, en viðskiptin blómguðust engu að síður. Af hverju?

Hitoshi hafði verið ágengur og frekur en gerðist nú mildur og friðsamur í samræmi við þau ráð sem honum voru gefin. Hann var sérstaklega hrifinn af hvatningunni: „Nú skuluð þér segja skilið við allt þetta: Reiði, bræði, vonsku, lastmæli, svívirðilegt orðbragð. Ljúgið ekki hver að öðrum, því þér hafið afklæðst hinum gamla manni með gjörðum hans og íklæðst hinum nýja, sem endurnýjast til fullkominnar þekkingar og verður þannig mynd skapara síns.“ * Hann varð ekki ríkur af því að fara eftir þessum ráðum, en ‚nýi maðurinn‘ hafði góð áhrif á viðskiptavini hans og ávann honum traust þeirra. Viskuorðin, sem hann fann, stuðluðu að velgengni í lífinu. Þau voru bókstaflega meira virði fyrir hann en fullt af perlum eða peningum.

Ætlarðu að notfæra þér hana?

Hefurðu áttað þig á hver sá viskubrunnur er sem reyndist þessu fólki svona gagnlegur? Það er Biblían, útbreiddasta og aðgengilegasta bók veraldar. Trúlega átt þú eintak af henni eða getur auðveldlega eignast hana. En það væri lítið gagn í því að eiga fullt af perlum en nota þær ekki, og það er jafnlítið gagn í því að eiga biblíu en lesa hana ekki. Hví ekki að opna Biblíuna og notfæra þér viturleg heilræði hennar og tímabær ráð? Hví ekki að kynnast því af eigin raun hvernig hún getur hjálpað þér að takast á við vandamál lífsins á árangursríkan hátt?

Þú yrðir eflaust þakklátur ef einhver gæfi þér fullan poka af perlum, og þig myndi langa til að vita deili á gefandanum til að geta þakkað honum fyrir. Veistu hver gaf okkur Biblíuna?

Biblían segir okkur hver sé höfundur viskunnar sem er að finna í henni. „Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm,“ segir hún. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Hún bendir líka á að ‚orð Guðs sé lifandi og kröftugt.‘ (Hebreabréfið 4:12) Þess vegna er viska Biblíunnar tímabær og árangursrík fyrir okkur sem nú lifum. Vottar Jehóva eru meira en fúsir til að fræða þig um þennan örláta gjafara, Jehóva Guð, til að þú getir notið góðs af þeirri visku sem Biblían geymir — bókin sem inniheldur visku handa nútímafólki.

[Neðanmáls]

^ Textinn er tekinn úr 1. Korintubréfi 12:21, 22.

^ Gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

[Rammi/Mynd á blaðsíðu 4]

Viska sem stuðlar að tilfinningajafnvægi

„Ef þú, [Jehóva], gæfir gætur að misgjörðum, [Jehóva], hver fengi þá staðist? En hjá þér er fyrirgefning, svo að menn óttist þig.“ — Sálmur 130:3, 4.

„Glatt hjarta gjörir andlitið hýrlegt, en sé hryggð í hjarta, er hugurinn dapur.“ — Orðskviðirnir 15:13.

„Ver þú ekki of réttlátur og sýn þig ekki frábærlega vitran — hví vilt þú tortíma sjálfum þér?“ — Prédikarinn 7:16.

„Sælla er að gefa en þiggja.“ — Postulasagan 20:35.

„Ef þér reiðist, þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar.“ — Efesusbréfið 4:26.

[Rammi/Mynd á blaðsíðu 5]

Viska sem stuðlar að hamingjusömu fjölskyldulífi

„Áformin verða að engu, þar sem engin er ráðagerðin, en ef margir leggja á ráðin, fá þau framgang.“ — Orðskviðirnir 15:22.

„Hjarta hins hyggna aflar sér þekkingar, og eyra hinna vitru leitar þekkingar.“ — Orðskviðirnir 18:15.

„Gullepli í skrautlegum silfurskálum — svo eru orð í tíma töluð.“ — Orðskviðirnir 25:11.

„Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og [Jehóva] hefur fyrirgefið yður, svo skuluð þér og gjöra. En íklæðist yfir allt þetta elskunni, sem er band algjörleikans.“ — Kólossubréfið 3:13, 14.

„Vitið, bræður mínir elskaðir: Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði.“ — Jakobsbréfið 1:19.

[Rammi/Mynd á blaðsíðu 6]

Viska sem stuðlar að velgengni í lífinu

„Svikavog er [Jehóva] andstyggð, en full vog yndi hans.“ — Orðskviðirnir 11:1.

„Drambsemi er undanfari tortímingar, og oflæti veit á fall.“ — Orðskviðirnir 16:18.

„Eins og borg, sem múrarnir hafa verið brotnir utan af, eins er sá maður, sem eigi hefir stjórn á skapsmunum sínum.“ — Orðskviðirnir 25:28.

„Ver þú eigi fljótur til að láta þér gremjast, því að gremja hvílir í brjósti heimskra manna.“ — Prédikarinn 7:9.

„Varpa þú brauði þínu út á vatnið, því þegar margir dagar eru um liðnir, munt þú finna það aftur.“ — Prédikarinn 11:1.

„Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra.“ — Efesusbréfið 4:29.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Biblíunám er fyrsta skrefið í þá átt að njóta góðs af visku Biblíunnar.