Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Blessun Jehóva yfir ‚landi‘ okkar

Blessun Jehóva yfir ‚landi‘ okkar

Blessun Jehóva yfir ‚landi‘ okkar

„Allt lifnar við, þar sem fljótið kemur.“ — ESEKÍEL 47:9.

1, 2. (a) Hve þýðingarmikið er vatn? (b) Hvað táknar vatnið í fljótinu í Esekíelssýninni?

 VATN er undraefni. Allt líf er undir því komið. Enginn lifir lengi án vatns. Vatn er líka nauðsynlegt hreinsiefni því að það leysir upp óhreinindi og skolar þeim burt. Þess vegna þvoum við líkama okkar, föt og jafnvel matvæli í vatni. Það getur bjargað lífi okkar.

2 Biblían notar vatn til að tákna andlegar lífsráðstafanir Jehóva. (Jeremía 2:13; Jóhannes 4:7-15) Þær eru meðal annars hreinsun fólks Guðs fyrir atbeina lausnarfórnar Krists og þekkingin á Guði sem er að finna í orði hans. (Efesusbréfið 5:25-27) Í musterissýn Esekíels táknar fljótið undraverða, sem rennur frá musterinu, slíka lífgandi blessun. En hvenær rennur fljótið fram og hvaða þýðingu hefur það fyrir okkur nú á tímum?

Fljót rennur um endurreist land

3. Hvað sá Esekíel samkvæmt Esekíel 47:2-12?

3 Landar Esekíels voru fangar í Babýlon og þörfnuðust sárlega ráðstafana Jehóva. Það var því uppörvandi fyrir Esekíel að sjá vatn vella upp undan musterinu í sýninni og streyma út úr því. Engill mælir lækinn með þúsund álna millibili. Fyrst nær vatnið í ökkla, síðan í kné, svo í mjöðm og að lokum er það orðið sundvatn. Fljótið veitir líf og frjósemi. (Esekíel 47:2-11) Esekíel er sagt: „Meðfram fljótinu, á bökkunum beggja vegna, munu upp renna alls konar aldintré.“ (Esekíel 47:12a) Þegar fljótið fellur í lífvana Dauðahafið kviknar líf! Allt morar í fiski og fiskveiðar blómstra.

4, 5. Hvað er líkt með spádómi Jóels um fljót og spádómi Esekíels og hvaða þýðingu hefur það?

4 Þessi fagri spádómur kann að hafa minnt hina herleiddu Gyðinga á annan spádóm sem skráður var meira en tveim öldum áður: „Lind mun fram spretta undan húsi [Jehóva] og vökva dal akasíutrjánna.“ * (Jóel 3:23) Spádómur Jóels boðar, líkt og spádómur Esekíels, að fljót muni renna frá húsi Guðs, frá musterinu, og lífga skrælnað landssvæði.

5 Varðturninn hefur lengi fært rök fyrir því að spádómur Jóels sé að uppfyllast á okkar tímum. * Hið sama hlýtur því að gilda um þessa áþekku sýn Esekíels. Í endurreistu landi nútímaþjóna Guðs hefur blessun hans svo sannarlega streymt fram líkt og í Ísrael til forna.

Blessun streymir ríkulega fram

6. Á hvað hefði það átt að minna Gyðinga að blóði var stökkt á altarið í sýninni?

6 Hvaðan kemur blessunin sem fellur endurreistu fólki Guðs í skaut? Taktu eftir því að vatnið rennur frá musteri hans. Á sama hátt streymir blessun Jehóva núna frá hinu mikla andlega musteri hans, fyrirkomulagi hans til hreinnar tilbeiðslu. Sýn Esekíels bætir mikilvægum upplýsingum við. Í innri forgarðinum streymir lækurinn fram hjá altarinu, rétt sunnan við það. (Esekíel 47:1) Altarið er alveg í miðju musterinu í sýninni. Jehóva lýsir altarinu ítarlega fyrir Esekíel og fyrirskipar að fórnarblóði skuli stökkt á það. (Esekíel 43:13-18, 20) Altarið hafði mikla þýðingu fyrir alla Ísraelsmenn. Sáttmáli þeirra við Jehóva hafði verið fullgiltur öldum áður þegar Móse stökkti blóði á altari við rætur Sínaífjalls. (2. Mósebók 24:4-8) Að blóði var stökkt á altarið í sýninni hefði átt að minna þá á að þegar þeir sneru heim í endurreist land sitt myndi blessun Jehóva streyma fram, svo framarlega sem þeir virtu sáttmála sinn við hann. — 5. Mósebók 28:1-14.

7. Hvaða merkingu hefur altarið táknræna fyrir kristna menn nú á tímum?

7 Nútímaþjónar Guðs njóta á sama hátt blessunar vegna sáttmála — betri sáttmála, nýja sáttmálans. (Jeremía 31:31-34) Hann var líka fullgiltur með blóði endur fyrir löngu, með blóði Jesú Krists. (Hebreabréfið 9:15-20) Hvort heldur við tilheyrum hinum smurðu, sem eiga aðild að þessum sáttmála, eða hinum ‚öðrum sauðum,‘ sem njóta góðs af honum, hefur hið táknræna altari mikla þýðingu fyrir okkur. Það táknar vilja Guðs varðandi fórn Krists. (Jóhannes 10:16; Hebreabréfið 10:10) Lausnarfórn Krists er þungamiðja hreinnar tilbeiðslu líkt og hið táknræna altari er alveg í miðju andlega musterisins. Hún er grundvöllur syndafyrirgefningar okkar og þar með allra vona okkar um framtíðina. (1. Jóhannesarbréf 2:2) Við kappkostum því að lifa samkvæmt lögmáli nýja sáttmálans, ‚lögmáli Krists.‘ (Galatabréfið 6:2) Meðan við gerum það njótum við góðs af lífsráðstöfunum Jehóva.

8. (a) Hvað vantaði í innri forgarð musterisins í sýninni? (b) Hvernig gátu prestarnir hreinsað sig?

8 Ein slík blessun er að geta staðið hrein frammi fyrir Jehóva. Í innri forgarði musterisins í sýninni vantar nokkuð sem var talsvert áberandi í forgarði tjaldbúðarinnar og í musteri Salómons — mikið ker, síðar kallað haf, sem var til þvottar fyrir prestana. (2. Mósebók 30:18-21; 2. Kroníkubók 4:2-6) Hvað gátu prestarnir í musterissýn Esekíels notað til að þvo sér og hreinsa? Nú, lækinn undraverða sem rann um innri forgarðinn! Jehóva myndi blessa þá og sjá þeim fyrir því sem þeir þyrftu til að geta staðið hreinir eða heilagir frammi fyrir honum.

9. Hvernig geta þeir sem eru af hinum smurðu og þeir sem eru af múginum mikla staðið hreinir frammi fyrir Guði?

9 Hinir smurðu nú á tímum hafa á sama hátt notið þeirrar blessunar að standa hreinir frammi fyrir Jehóva. Hann álítur þá heilaga og lýsir þá réttláta. (Rómverjabréfið 5:1, 2) Hvað um ‚múginn mikla‘ sem táknaður er af ættkvíslunum er ekki gegndu prestsþjónustu? Hann tilbiður í ytri forgarðinum, og sami lækur rennur um þennan hluta musterisins í sýninni. Það er því viðeigandi að Jóhannes postuli skuli hafa séð múginn mikla tilbiðja í forgarði andlega musterisins, skrýddan hvítum hreinum skikkjum. (Opinberunarbókin 7:9-14) Hvernig sem komið hefur verið fram við þá í þessum spillta heimi geta þeir treyst því að þeir séu hreinir og óspilltir í augum Jehóva, svo framarlega sem þeir iðka trú á lausnarfórn Krists. Hvernig iðka þeir trú? Með því að feta í fótspor Jesú og reiða sig fullkomlega á lausnarfórnina. — 1. Pétursbréf 2:21.

10, 11. Hvað er nátengt hinu táknræna vatni og hvernig tengist það stórauknum vatnsflaumi?

10 Eins og þegar hefur verið nefnt er annað nátengt þessu táknræna vatni — þekking. Í hinum endurreista Ísrael veitti Jehóva fólki sínu fræðslu frá Ritningunni fyrir milligöngu prestastéttarinnar. (Esekíel 44:23) Á sambærilegan hátt hefur hann veitt fólki sínu nú á tímum mikla fræðslu um sannleiksorð sitt fyrir atbeina hins ‚konunglega prestafélags.‘ (1. Pétursbréf 2:9) Þekking á Jehóva Guði, á tilgangi hans með mannkynið og sér í lagi á Jesú Kristi og messíasarríkinu hefur streymt fram í æ ríkari mæli á þessum síðustu dögum. Það er stórkostlegt að fá slíkan vaxandi straum andlegrar hressingar! — Daníel 12:4.

11 Líkt og fljótið, sem engillinn mældi, dýpkaði stöðugt hefur lífgandi blessun frá Jehóva streymt fram í stórauknum mæli til að liðsinna því fólki sem streymir inn í andlegt land okkar. Annar endurreisnarspádómur sagði: „Hinn minnsti skal verða að þúsund og hinn lítilmótlegasti að voldugri þjóð. Ég, [Jehóva], mun hraða því, þegar að því kemur.“ (Jesaja 60:22) Þessi orð hafa ræst — milljónir manna hafa þyrpst að til að sameinast okkur í hreinni tilbeiðslu. Jehóva hefur séð öllum, sem snúa sér til hans, fyrir gnóttum ‚vatns.‘ (Opinberunarbókin 22:17) Hann sér til þess að jarðneskt skipulag sitt dreifi biblíum og biblíuritum um heim allan á hundruðum tungumála. Og kristnar samkomur og mót hafa verið skipulögð um víða veröld til að allir geti fengið hið kristaltæra sannleiksvatn. Hvaða áhrif hefur þetta á fólk?

Vatnið lífgar!

12. (a) Af hverju geta trén í Esekíelssýninni borið allan þann ávöxt sem raun ber vitni? (b) Hvað tákna hin frjósömu tré á síðustu dögum?

12 Fljótið í sýn Esekíels lífgar og læknar. Esekíel er sagt um trén sem vaxa skyldu með fram fljótinu: „Laufblöð þeirra munu ekki visna og ávextir þeirra ekki dvína. . . . Og ávextir þeirra munu hafðir verða til matar og laufblöð þeirra til lyfja.“ Af hverju bera trén slíkar undraafurðir? „Af því að vötnin, sem þau lifa við, koma frá helgidóminum.“ (Esekíel 47:12b) Þessi táknrænu tré boða allar ráðstafanir Guðs til að endurreisa mannkynið til fullkomleika á grundvelli lausnarfórnar Jesú. Núna hafa hinar smurðu leifar á jörðinni forystu um að sjá fyrir andlegri næringu og lækningu. Eftir að hinir 144.000 hafa allir hlotið himnesk laun sín mun gagnið af prestsþjónustu þeirra og stjórn með Kristi vera til frambúðar og að lokum hafa í för með sér að Adamsdauðinn verði algerlega sigraður. — Opinberunarbókin 5:11, 12; 21:2-4.

13. Hvaða lækning hefur átt sér stað á okkar tímum?

13 Fljótið í sýninni fellur í lífvana Dauðahafið og læknar allt sem það kemst í snertingu við. Hafið táknar andlega dautt umhverfi. En „alls staðar þar sem fljótið kemur“ verður kvikt af lífi. (Esekíel 47:9) Á sama hátt hefur fólk á hinum síðustu dögum lifnað við andlega hvar sem lífsvatnið hefur náð að þrengja sér inn. Þeir fyrstu, sem lifnuðu þannig við, voru hinar smurðu leifar árið 1919. Þær vöknuðu andlega til lífsins úr dauðadái athafnaleysis. (Esekíel 37:1-14; Opinberunarbókin 11:3, 7-12) Þessi lífsvötn hafa síðan náð til annarra andlega dauðra manna sem hafa lifnað við og mynda sístækkandi mikinn múg annarra sauða sem elskar og þjónar Jehóva. Brátt nær þessi ráðstöfun til hins mikla fjölda er kemur í upprisunni.

14. Hverju lýsa fiskveiðarnar, sem blómstra með fram ströndum Dauðahafsins, vel?

14 Andlegur þróttur hefur í för með sér aukna starfsemi. Það má sjá af fiskveiðunum sem blómstra með fram ströndum hafsins sem áður var lífvana. Jesús sagði fylgjendum sínum: „Ég [mun] láta yður menn veiða.“ (Matteus 4:19) Fiskveiðarnar hófust á hinum síðustu dögum með samansöfnun þeirra sem eftir voru af hinum smurðu. En ekki hefur verið látið staðar numið þar. Hið lífgandi vatn frá andlegu musteri Jehóva, þar með talin blessun nákvæmrar þekkingar, nær til fólks af öllum þjóðum. Hvert sem fljótið hefur náð hefur það haft andlegt líf í för með sér.

15. Hvað sýnir að ekki munu allir taka við lífsráðstöfunum Guðs og hvernig fer að lokum fyrir þeim?

15 Auðvitað bregðast ekki allir vinsamlega við lífsboðskapnum núna. Og ekki munu allir, sem reistir verða upp í þúsundáraríki Krists, gera það heldur. (Jesaja 65:20; Opinberunarbókin 21:8) Engillinn lýsir yfir að sum svæði með fram hafinu verði ekki heilnæm. Þessir lífvana pyttir og síki eru „ætluð til saltfengjar.“ (Esekíel 47:11) Á okkar dögum þiggja ekki allir hið lífgandi vatn frá Jehóva sem komast í snertingu við það. (Jesaja 6:10) Allir, sem hafa kosið að vera áfram andlega lífvana og veikburða, verða ‚saltaðir‘ í Harmagedónstríðinu, það er að segja tortímt að eilífu. (Opinberunarbókin 19:11-21) En þeir sem hafa drukkið trúfastlega af þessu vatni geta vænst þess að lifa af og sjá lokauppfyllingu spádómsins.

Fljótið rennur í paradís

16. Hvenær og hvernig hlýtur musterissýn Esekíels lokauppfyllingu?

16 Líkt og aðrir endurreisnarspádómar hlýtur musterissýn Esekíels lokauppfyllingu í þúsundáraríkinu. Þá verður prestahópurinn ekki lengur til staðar hér á jörð. „Þeir [munu] vera prestar Guðs og Krists og þeir munu ríkja með honum [á himnum] um þúsund ár.“ (Opinberunarbókin 20:6) Þessir himnesku prestar miðla ásamt Kristi gagninu af lausnarfórn hans að fullu. Þannig frelsast réttlátt mannkyn og verður lyft upp til fullkomleika á ný. — Jóhannes 3:17.

17, 18. (a) Hvernig er lífgandi fljóti lýst í Opinberunarbókinni 22:1, 2 og hvenær á sýnin aðallega við? (b) Af hverju eykst vatnið í lífsfljótinu til mikilla muna í paradís?

17 Þegar hér er komið sögu streymir lífsvatnið í fljótinu, sem Esekíel sá, fram af mestum krafti. Þá fá spádómsorðin í Opinberunarbókinni 22:1, 2 aðaluppfyllingu sína: „Hann sýndi mér móðu [eða fljót] lífsvatnsins, skínandi sem kristall. Hún rann frá hásæti Guðs og lambsins. Á miðju stræti borgarinnar, beggja vegna móðunnar, var lífsins tré, sem ber tólf sinnum ávöxt. Á mánuði hverjum gefur það ávöxt sinn, og blöð trésins eru til lækningar þjóðunum.“

18 Í þúsundáraríkinu læknast allir sjúkdómar — líkamlegir, geðrænir og tilfinningalegir. Því er vel lýst með ‚lækningu þjóðanna‘ fyrir atbeina hinna táknrænu trjáa. Svo er þeim ráðstöfunum fyrir að þakka, sem Kristur og hinir 144.000 miðla, að „enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur.‘“ (Jesaja 33:24) Á þessum tíma verður fljótið vatnsmest. Það þarf að breikka og dýpka vegna milljóna, eða jafnvel milljarða, upprisinna manna sem fá að drekka hin tæru lífsvötn. Í sýninni gerði fljótið Dauðahafið heilnæmt og hafði líf í för með sér hvert sem það rann. Eins munu karlar og konur lifna í orðsins fyllstu merkingu í paradís og hljóta lækningu af hinum arfgenga Adamsdauða, ef þau iðka trú á lausnarfórnina og ráðstafanir hennar. Opinberunarbókin 20:12 segir að á þessu tímaskeiði verði „bókum“ lokið upp til að veita aukið skilningsljós sem hinir upprisnu fá notið góðs af. En því miður hafna sumir lækningu, jafnvel í paradís. Þessir uppreisnarseggir verða ‚saltaðir,‘ þeim verður tortímt að eilífu. — Opinberunarbókin 20:15.

19. (a) Hvernig fær skipting landsins uppfyllingu í paradís? (b) Hvað táknar borgin í paradís? (c) Hvað merkir það að borgin skuli vera staðsett í nokkurri fjarlægð frá musterinu?

19 Á þessum tíma fær skipting landsins í Esekíelssýninni einnig lokauppfyllingu. Esekíel sá að landinu var rétt úthlutað. Eins getur sérhver trúfastur kristinn maður treyst því að hann fái stað eða arfleifð í paradís. Löngun allra í eigið húsnæði til að búa í og hugsa um verður líklega fullnægt á skipulegan hátt. (Jesaja 65:21; 1. Korintubréf 14:33) Borgin, er Esekíel sá, lýsir vel því stjórnarfyrirkomulagi sem Jehóva ætlar nýju jörðinni. Hinn smurði prestahópur verður ekki lengur meðal mannkyns. Sýnin gefur það eiginlega til kynna með því að segja að borgin sé staðsett í ‚óheilögu landi‘ í nokkurri fjarlægð frá musterinu. (Esekíel 48:15) Þótt hinir 144.000 ríki með konunginum Kristi á himnum á hann sér einnig fulltrúa á jörð. Mennskir þegnar hans munu njóta góðs af kærleiksríkri leiðsögn og leiðbeiningum landshöfðingjahópsins. En hið raunverulega stjórnarsetur verður ekki á jörð heldur á himnum. Allir jarðarbúar, að landshöfðingjahópnum meðtöldum, lúta stjórn messíasarríkisins. — Daníel 2:44; 7:14, 18, 22.

20, 21. (a) Af hverju er nafn borgarinnar viðeigandi? (b) Hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur í ljósi þess sem sýn Esekíels hefur kennt okkur?

20 Taktu eftir lokaorðunum í spádómi Esekíels: „Borgin mun upp frá því heita: ‚[Jehóva] er hér.‘“ (Esekíel 48:35) Þessi borg er ekki til að veita mönnum völd eða áhrif, né heldur til að knýja fram vilja nokkurs manns. Þetta er borg Jehóva og mun ætíð endurspegla huga hans og kærleiksríka og sanngjarna vegi. (Jakobsbréfið 3:17) Þetta veitir okkur vissu fyrir því að Jehóva blessi áfram hið skipulega mannfélag ‚nýju jarðarinnar‘ um alla eilífð. — 2. Pétursbréf 3:13.

21 Hrífumst við ekki af því sem við eigum í vændum? Það er því viðeigandi að hver og einn spyrji sig: ‚Hvernig bregst ég við þeirri stórfenglegu blessun sem Esekíelssýnin varpar ljósi á? Styð ég trúfastlega það starf sem kærleiksríkir umsjónarmenn inna af hendi, meðal annars starf hinna smurðu leifa og væntanlegra meðlima landshöfðingjahópsins? Hef ég gert hreina tilbeiðslu að þungamiðju lífs míns? Nota ég til fulls lífsvatnið sem streymir svo ríkulega fram nú á tímum?‘ Megum við öll halda áfram að gera það og gleðjast yfir ráðstöfunum Jehóva að eilífu!

[Neðanmáls]

^ Hugsanlega er átt við Kídrondal sem teygir sig í suðaustur frá Jerúsalem og allt að Dauðahafi. Neðri hluti dalsins er vatnslaus og þurr allan ársins hring.

^ Sjá Varðturninn (enska útgáfu) 1. maí 1881 og 1. júní 1981.

Hvert er svar þitt?

◻ Hvað táknar vatnið sem streymir frá musterinu?

◻ Hvaða lækningu hefur Jehóva komið til leiðar með fljótinu táknræna og hvers vegna hefur vatnsmagn þess aukist?

◻ Hvað tákna trén á fljótsbökkunum?

◻ Hvað táknar borgin í þúsundáraríkinu og af hverju er nafn hennar viðeigandi?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 32]

Lífsins fljót táknar hjálpræðisráðstöfun Guðs.