Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fjársjóður okkar í leirkerum

Fjársjóður okkar í leirkerum

Fjársjóður okkar í leirkerum

„Þennan fjársjóð höfum vér í leirkerum, til þess að ofurmagn kraftarins sé Guðs, en ekki frá oss.“ — 2. KORINTUBRÉF 4:7.

1. Hvernig ætti fordæmi Jesú að hvetja okkur?

 JESÚS kynntist veikleikum mannkyns af eigin raun meðan Jehóva var að móta hann hér á jörð. Ráðvendni hans ætti að vera okkur til mikillar hvatningar. Postulinn segir okkur: „Til þessa eruð þér kallaðir. Því að Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor.“ (1. Pétursbréf 2:21) Jesús sigraði heiminn með því að láta móta sig á þennan hátt. Jafnframt hvatti hann postula sína til að sigra heiminn. (Postulasagan 4:13, 31; 9:27, 28; 14:3; 19:8) Og vissulega veitti hann þeim mikla hvatningu í niðurlagsorðum síðustu ræðu sinnar. Hann sagði: „Þetta hef ég talað við yður, svo að þér eigið frið í mér. Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“ — Jóhannes 16:33.

2. Hvaða ljós höfum við, ólíkt blindum heimi?

2 Eftir að hafa borið saman blinduna frá ‚guði þessarar aldar‘ og „ljósið frá fagnaðarerindinu“ sagði Páll postuli um dýrmæta þjónustu okkar: „Þennan fjársjóð höfum vér í leirkerum, til þess að ofurmagn kraftarins sé Guðs, en ekki frá oss. Á allar hliðar erum vér aðþrengdir, en þó ekki ofþrengdir, vér erum efablandnir, en örvæntum þó ekki, ofsóttir, en þó ekki yfirgefnir, felldir til jarðar, en tortímumst þó ekki.“ (2. Korintubréf 4:4, 7-9) Þó að við séum brothætt ‚leirker‘ hefur Guð mótað okkur þannig með anda sínum að við getum unnið fullan sigur á heimi Satans. — Rómverjabréfið 8:35-39; 1. Korintubréf 15:57.

Mótun Ísraels til forna

3. Hvernig lýsti Jesaja mótun Gyðingaþjóðarinnar?

3 Jehóva mótar ekki aðeins einstaklinga heldur einnig heilar þjóðir. Ísraelsþjóðin til forna dafnaði þegar hún lét Jehóva móta sig. En að lokum forhertist hún í óhlýðni. Þar af leiðandi boðaði hann henni ógæfu. (Jesaja 45:9) Á áttundu öld f.o.t. talaði Jesaja við Jehóva um grófa siðspillingu Ísraels og sagði: „[Jehóva], Þú ert faðir vor! Vér erum leirinn, og þú ert sá, er myndar oss, og handaverk þín erum vér allir! . . . Allt það, sem oss var dýrmætt, er orðið að rústum.“ (Jesaja 64:7-10) Ísrael var orðinn eins og leirker sem var til einskis nýtt nema eyðileggingar.

4. Hvað var Jeremía látinn sýna með dæmi?

4 Einni öld síðar, þegar reikningsskiladagurinn nálgaðist, sagði Jehóva Jeremía að taka leirkrús og fylgja nokkrum af öldungum Jerúsalem út í Hinnomsdal. Hann sagði honum: „Þú skalt brjóta krúsina fyrir augum þeirra manna, sem með þér hafa farið, og segja við þá: Svo segir [Jehóva] allsherjar: Svo mun ég brjóta þessa þjóð og þessa borg, eins og menn brjóta leirker, sem ekki verður gjört heilt aftur.“ — Jeremía 19:10, 11.

5. Hversu víðtækur var dómur Jehóva yfir Ísrael?

5 Árið 607 f.o.t. eyddi Nebúkadnesar Jerúsalem ásamt musterinu og herleiddi eftirlifandi Gyðinga til Babýlonar. En eftir 70 ára útlegð var iðrandi Gyðingum leyft að snúa heim og endurreisa Jerúsalem og musterið. (Jeremía 25:11) Á fyrstu öld var þjóðin aftur búin að yfirgefa leirkerasmiðinn mikla og að síðustu drýgði hún þann mikla glæp að myrða Guðs eigin son. Árið 70 notaði Guð Rómaveldi til að fullnægja dómi sínum og afmá gyðingakerfið. Jerúsalem og musterið voru jöfnuð við jörðu. Aldrei framar yrði Ísraelsþjóðin mótuð í höndum Jehóva sem ‚heilagt og veglegt‘ ker. *

Mótun andlegrar þjóðar

6, 7. (a) Hvernig lýsir Páll mótun hins andlega Ísraels? (b) Hve mörg áttu ‚ker miskunnarinnar‘ að vera og hvernig var talan fullnuð?

6 Gyðingar, sem höfðu tekið við Jesú, voru mótaðir sem undirstaða nýrrar þjóðar, hins andlega ‚Ísraels Guðs.‘ (Galatabréfið 6:16) Orð Páls eru því viðeigandi: „Hefur ekki leirkerasmiðurinn leirinn á valdi sínu, svo að hann megi gjöra úr sama deiginu ker til sæmdar og annað til vansæmdar? . . . Guð, sem vildi sýna reiði sína og auglýsa mátt sinn, hefur með miklu langlyndi umborið ker reiðinnar, sem búin eru til glötunar, og . . . hann hefur gjört það til þess að auglýsa ríkdóm dýrðar sinnar á kerum miskunnarinnar, sem hann hafði fyrirfram búið til dýrðar.“ — Rómverjabréfið 9:21-23.

7 Hinn upprisni Jesús boðaði síðar að þessi ‚ker miskunnarinnar‘ yrðu 144.000 talsins. (Opinberunarbókin 7:4; 14:1) Þar eð Ísrael að holdinu hafði ekki fullnað þessa tölu lét Jehóva miskunn sína ná til manna af þjóðunum. (Rómverjabréfið 11:25, 26) Hinn nýstofnaði kristni söfnuður óx hratt. Á innan við 30 árum var fagnaðarerindið „prédikað . . . fyrir öllu, sem skapað er undir himninum.“ (Kólossubréfið 1:23) Þetta kallaði á viðeigandi umsjón með fjölda dreifðra safnaða.

8. Hverjir mynduðu hið fyrsta stjórnandi ráð og hvaða breytingum tók það?

8 Jesús hafði búið 12 postula undir það að mynda hið fyrsta stjórnandi ráð og þjálfað þá og aðra í boðunarstarfinu. (Lúkas 8:1; 9:1, 2; 10:1, 2) Kristni söfnuðurinn var stofnaður á hvítasunnunni árið 33 og þegar fram liðu stundir sátu ‚postularnir og öldungarnir í Jerúsalem‘ í hinu stjórnandi ráði. Jakob, hálfbróðir Jesú, virðist hafa verið í forsæti ráðsins um alllangt skeið þótt hann væri ekki postuli. (Postulasagan 12:17; 15:2, 6, 13; 21:18) Sagnaritarinn Evsebíus segir að postularnir hafi verið ofsóttir öðrum fremur og tvístrast til annarra svæða. Mannaskipan hins stjórnandi ráðs var breytt samkvæmt því.

9. Hvaða sorgleg þróun átti að eiga sér stað samkvæmt spá Jesú?

9 Undir lok fyrstu aldar tók ‚óvinurinn, sem er djöfullinn,‘ að ‚sá illgresi‘ meðal „hveitisins“ eða erfingja ‚himnaríkis.‘ Jesús hafði spáð því að þessi dapurlega þróun fengi að viðgangast fram til uppskerutímans við „endi veraldar.“ Þá myndu „réttlátir skína sem sól í ríki föður þeirra“ á nýjan leik. (Matteus 13:24, 25, 37-43) Hvenær yrði það?

Mótun Ísraels Guðs nú á tímum

10, 11. (a) Hvernig fór mótun Ísraels Guðs nútímans af stað? (b) Hvaða munur var á kenningum kristna heimsins og Biblíunemendanna?

10 Árið 1870 stofnaði Charles Taze Russell biblíunámshóp í Pittsburgh í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Árið 1879 hóf hann útgáfu mánaðarrits sem nú er kallað Varðturninn. Þessir Biblíunemendur, eins og þeir voru kallaðir, áttuðu sig fljótlega á því að kristni heimurinn hefði tekið upp óbiblíulegar og heiðnar kenningar, svo sem um ódauðleika sálarinnar, hreinsunareld, vítiseld, þrenningu og barnaskírn.

11 Þessir sannleiksunnandi menn hófu aftur á loft grundvallarkenningar Biblíunnar, svo sem um endurlausn vegna fórnar Jesú og um upprisu til eilífs lífs í friðsælli paradís á jörð undir stjórn Guðsríkis. Síðast en ekki síst lögðu þeir áherslu á að Jehóva Guð yrði bráðlega réttlættur sem alheimsdrottinn. Biblíunemendurnir trúðu að fyrirmyndarbæninni yrði bráðlega svarað: „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:9, 10) Heilagur andi Guðs var að móta þá sem heimsbræðralag friðelskandi kristinna manna.

12. Hvernig fengu Biblíunemendurnir skilning á mikilvægri tímasetningu?

12 Ítarleg rannsókn á 4. kafla Daníelsbókar og öðrum spádómum sannfærði Biblíunemendurna um að nærvera Jesú sem messíasarkonungur hlyti að vera nærri. Þeir skildu að „tímar heiðingjanna“ myndu taka enda árið 1914. (Lúkas 21:24; Esekíel 21:26, 27) Starfsemi Biblíunemendanna jókst hratt og þeir stofnuðu biblíunámsflokka (síðar kallaðir söfnuðir) út um öll Bandaríkin. Um aldamótin hafði biblíufræðsla þeirra teygt sig til Evrópu og Ástralasíu. Nú reið á góðri skipulagningu.

13. Hvernig var lagaleg staða Biblíunemendanna tryggð og hvaða einstæða þjónustu innti fyrsti forseti Félagsins af hendi?

13 Árið 1884 var Zion’s Watch Tower Tract Society lögskráð í Bandaríkjunum í því skyni að tryggja lagalega stöðu Biblíunemendanna. Aðalstöðvar félagsins voru í Pittsburgh í Pennsylvaníu. Stjórnendur þess þjónuðu sem stjórnandi ráð Biblíunemendanna og höfðu umsjón með prédikun Guðsríkis um heim allan. Fyrsti forseti Félagsins, Charles T. Russell, skrifaði sex bindi bókaraðarinnar Studies in the Scriptures (Rannsóknir á Ritningunni) og fór í langa prédikunarleiðangra. Hann gaf líka stórfé til alþjóðastarfs Guðsríkis, en því hafði hann safnað áður en hann hóf biblíurannsóknir sínar. Stríðið mikla var í algleymingi í Evrópu árið 1916 þegar bróðir Russell lést á prédikunarferðalagi, farinn að kröftum. Hann hafði gefið allt sem hann átti til að auka vitnisburðinn um ríki Guðs.

14. Hvernig barðist J. F. Rutherford „góðu baráttunni“? (2. Tímóteusarbréf 4:7)

14 Joseph F. Rutherford tók við af honum sem forseti, en hann hafði verið dómari í Missouri um tíma. Hann varði sannleika Biblíunnar af slíku kappi að klerkar kristna heimsins tóku höndum saman við stjórnmálamenn um að búa Biblíunemendunum „tjón undir yfirskini réttarins.“ Hinn 21. júní 1918 fengu bróðir Rutherford og sjö aðrir úr forystuliði Biblíunemendanna margfalda 10 eða 20 ára samskeiða fangelsisdóma. En Biblíunemendurnir létu ekki deigan síga. (Sálmur 94:20; Filippíbréfið 1:7) Þeir áfrýjuðu og voru látnir lausir 26. mars árið 1919, og voru síðar sýknaðir algerlega af hinum röngu ákærum um uppreisnaráróður. * Þessi reynsla átti sinn þátt í að móta þá sem dygga málsvara sannleikans. Með hjálp Jehóva létu þeir einskis ófreistað að sigra í baráttu sinni fyrir því að mega prédika fagnaðarerindið, þrátt fyrir andstöðu Babýlonar hinnar miklu. Baráttan er enn í fullum gangi árið 1999. — Samanber Matteus 23. kafla; Jóhannes 8:38-47.

15. Hvaða sögulega þýðingu hafði árið 1931?

15 Leirkerasmiðurinn mikli hélt áfram að móta hinn smurða Ísrael Guðs á þriðja og fjórða áratugnum. Spádómleg ljósleiftur úr Ritningunni heiðruðu Jehóva og beindu athyglinni að messíasarríki Jesú. Árið 1931 tóku Biblíunemendurnir sér fagnandi nýja nafnið vottar Jehóva. — Jesaja 43:10-12; Matteus 6:9, 10; 24:14.

16. og rammagrein á bls. 17. Hvenær var talan 144.000 fullnuð og hvaða rök eru fyrir því?

16 Samansöfnun hinna 144.000 „kölluðu og útvöldu og trúu“ virtist vera lokið á fjórða áratugnum. (Opinberunarbókin 17:14; sjá rammagrein á bls. 17.) Við vitum ekki hve mörgum af hinum smurðu var safnað á fyrstu öldinni og meðal ‚illgresisins‘ á myrkum fráhvarfsöldum kristna heimsins. En árið 1935 voru boðberar orðnir 56.153 í heiminum, og þar af lýstu 52.465 yfir himneskri von sinni með því að neyta af brauðinu og víninu á minningarhátíðinni. Hvað átti að verða um þá mörgu sem eftir var að safna saman?

„Sjá: Mikill múgur“

17. Hvaða söguleg þróun átti sér stað árið 1935?

17 Bróðir Rutherford flutti tímamótaræðu á móti sem haldið var 30. maí til 3. júní árið 1935 í Washington, D.C., í Bandaríkjunum. Ræðan hét „Múgurinn mikli.“ Þessi hópur, „sem enginn gat tölu á komið,“ átti að koma fram þegar innsiglun hinna 144.000 andlegu Ísraelsmanna væri að ljúka. Þeir myndu líka iðka trú á lausnarmátt ‚blóðs lambsins‘ Jesú og veita heilaga þjónustu innan musterisfyrirkomulags Jehóva. Sem hópur myndu þeir koma lifandi „úr þrengingunni miklu“ og erfa jarðneska paradís þar sem ‚dauðinn er ekki framar til.‘ Í fáein ár fyrir mótið hafði þessi hópur verið kallaður Jónadabarnir. — Opinberunarbókin 7:9-17; 21:4; Jeremía 35:10.

18. Hvað kom skýrt í ljós árið 1938?

18 Árið 1938 urðu skilin milli hópanna tveggja skýr. Í Varðturninum 15. mars og 1. apríl það ár birtist greinaflokkur í tveim hlutum sem nefndist „Hjörð hans,“ og þar var gerður skýr greinarmunur á stöðu hinna smurðu leifa og félaga þeirra, hins mikla múgs. Hinn 1. og 15. júní birti blaðið námsgreinar um „Skipulag“ byggðar á Jesaja 60:17. Allir söfnuðir voru beðnir um að óska eftir því að hið stjórnandi ráð skipaði þjóna á hverjum stað og kæmi þannig á betri guðræðisskipan. Og söfnuðirnir gerðu það.

19. og neðanmálsathugasemd. Hvað staðfestir að allsherjarsöfnun hinna ‚annarra sauða‘ hafi nú staðið yfir í meira en 60 ár?

19 Í skýrslu Árbókar votta Jehóva 1939 sagði: „Smurðir fylgjendur Krists Jesú á jörðinni eru orðnir fáir og þeim á aldrei eftir að fjölga. Ritningin kallar þá ‚leifar‘ afkomenda Síonar, skipulags Guðs. (Opinb. 12:17) Drottinn er að safna sér ‚öðrum sauðum‘ núna sem eiga að mynda hinn ‚mikla múg.‘ (Jóh. 10:16) Þeir sem nú er verið að safna eru félagar leifanna og vinna með þeim. Héðan í frá á hinum ‚öðrum sauðum‘ eftir að fjölga uns ‚múginum mikla‘ hefur verið safnað.“ Hinar smurðu leifar höfðu verið mótaðar til að annast samansöfnun múgsins mikla. Nú þurfti að móta múginn líka. *

20. Hvaða skipulagsbreytingar hafa verið gerðar frá 1942?

20 Joseph Rutherford lést í janúar 1942 meðan síðari heimsstyrjöldin var í algleymingi. Nathan Knorr tók við forsetaembættinu af honum. Þriðja forseta Félagsins er minnst með hlýju fyrir að koma á laggirnar guðveldisskólum í söfnuðunum og Gíleaðskólanum til trúboðaþjálfunar. Á ársfundi Félagsins árið 1944 tilkynnti hann að stofnskrá þess yrði endurskoðuð svo að félagsaðild byggðist ekki lengur á fjárframlögum heldur andlegu hugarfari. Næstu 30 árin fjölgaði boðberum úr 156.299 í 2.179.256 um heim allan. Á árunum 1971-75 þurfti að gera aðrar skipulagsbreytingar. Einn maður, sem gegndi starfi forseta, gat ekki lengur haft á hendi alla umsjón með starfi Guðsríkis um heim allan. Fjölgað var í hinu stjórnandi ráði svo að í því sátu 18 smurðir karlmenn sem skiptust á formennsku. Nálega helmingur þeirra hefur nú lokið jarðnesku skeiði sínu.

21. Hvað hefur gert litlu hjörðina hæfa til að fá ríkið í hendur?

21 Margra áratuga prófraunir hafa mótað þá sem eftir eru af litlu hjörðinni. Þeir eru hugrakkir því að þeir hafa fengið óyggjandi ‚vitnisburð andans.‘ Jesús hefur sagt þeim: „Þér eruð þeir sem hafið verið stöðugir með mér í freistingum mínum. Og yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér, að þér megið eta og drekka við borð mitt í ríki mínu, sitja í hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.“ — Rómverjabréfið 8:16, 17; Lúkas 12:32; 22:28-30.

22, 23. Hvernig er verið að móta litlu hjörðina og hina aðra sauði?

22 Samhliða fækkun hinna smurðu hér á jörð hefur þroskuðum bræðrum af múginum mikla verið falin andleg umsjón nálega allra safnaða um víða veröld. Og þegar síðustu smurðu vottarnir ljúka jarðnesku skeiði sínu verða höfðinglegir sarimʹ af hinum öðrum sauðum búnir að fá góða þjálfun til stjórnarstarfa hér á jörð sem landshöfðingjahópur. — Esekíel 44:3; Jesaja 32:1.

23 Litla hjörðin og hinir aðrir sauðir halda áfram að láta móta sig sem ker til sæmdar. (Jóhannes 10:14-16) Megum við þiggja boð Jehóva af heilum hug, hvort sem vonir okkar eru bundnar við ‚nýju himnana‘ eða ‚nýju jörðina‘: „Gleðjist og fagnið ævinlega yfir því, sem ég skapa, því sjá, ég gjöri Jerúsalem að fögnuði og fólkið í henni að gleði.“ (Jesaja 65:17, 18) Megum við, brothættir menn, alltaf þjóna í auðmýkt og láta „ofurmagn kraftarins“ — heilagan anda Guðs — móta okkur. — 2. Korintubréf 4:7; Jóhannes 16:13.

[Neðanmáls]

^ Hinn svikuli kristni heimur, sem Forn-Ísrael táknaði, er varaður við sams konar dómi frá Jehóva. — 1. Pétursbréf 4:17, 18.

^ Manton dómari, sem var rómversk-kaþólskur og hafði neitað að láta Biblíunemendurna lausa gegn tryggingu, var sjálfur hnepptur í fangelsi síðar eftir að hann hafði verið fundinn sekur um mútuþægni.

^ Aðsóknin að minningarhátíðinni var 73.420 um heim allan árið 1938, og þar af tóku 39.225 af brauðinu og víninu, eða 53 prósent viðstaddra. Árið 1998 var aðsóknin orðin 13.896.312 og aðeins 8756 tóku af brauðinu og víninu, eða innan við 1 í hverjum 10 söfnuðum.

Manstu?

◻ Hvernig var Jesús okkur fyrirmynd með því að lúta mótun föður síns?

◻ Hvaða mótun átti sér stað í Forn-Ísrael?

◻ Hvernig hefur „Ísrael Guðs“ verið í mótun allt til þessa?

◻ Í hvaða tilgangi hafa hinir ‚aðrir sauðir‘ verið mótaðir?

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 14]

Kristni heimurinn mótast áfram

Fréttastofan Associated Press sagði eftirfarandi í fréttaskeyti frá Aþenu um nýlega skipaðan yfirmann grísku rétttrúnaðarkirkjunnar: „Leiðtogi grísku rétttrúnaðarkirkjunnar á að vera boðberi friðar en hljómar meira eins og hershöfðingi sem býst til bardaga.

‚Við erum reiðubúnir að úthella blóði og færa fórnir ef þörf krefur. Við, kirkjan, biðjum fyrir friði . . . En við blessum hin helgu vopn þegar aðstæður útheimta það,‘ sagði Christodoulos erkibiskup nýverið á himnafarardegi Maríu meyjar sem er einnig haldinn hátíðlegur í Grikklandi sem dagur hersins.“

[Rammi á blaðsíðu 17]

„Það er engum bætt við!“

Frederick Franz, þáverandi varaforseti Varðturnsfélagsins, sagði nemendum á útskriftarhátíð Gíleaðskólans árið 1970 að það gæti gerst að þeir myndu skíra einhvern sem segðist vera af hinum smurðu leifum, þótt sjálfir væru þeir allir aðrir sauðir og hefðu jarðneska von. Gat það gerst? Bróðir Franz benti á að Jóhannes skírari hefði verið af hinum öðrum sauðum og hann hefði skírt Jesú og suma af postulunum. Síðan spurði hann hvort enn væri verið að kalla eftir fleirum af hinum smurðu. „Nei, það er engum bætt við!“ sagði hann. „Kallinu lauk á árunum 1931-35. Það er engum bætt við. Hverjir eru þá þessir nýju sem taka af brauðinu og víninu á minningarhátíðinni? Ef þeir tilheyra leifunum koma þeir í stað annarra! Þeir eru ekki viðbót við hóp hinna smurðu heldur valdir í stað þeirra sem kunna að hafa fallið frá trúnni.“

[Mynd á blaðsíðu 15]

Þjónusta okkar er fjársjóður sem við metum mikils.

[Mynd á blaðsíðu 16]

Forn-Ísrael varð eins og leirker sem var til einskis nýtt nema eyðileggingar.