Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Leirkerasmiðurinn mikli og verk hans

Leirkerasmiðurinn mikli og verk hans

Leirkerasmiðurinn mikli og verk hans

„[Verðið] ker til viðhafnar, . . . hæfilegt til sérhvers góðs verks.“ — 2. TÍMÓTEUSARBRÉF 2:21.

1, 2. (a) Hvernig var sköpun mannsins og konunnar meistaraverk Guðs? (b) Í hvaða tilgangi skapaði leirkerasmiðurinn mikli þau Adam og Evu?

 JEHÓVA er hinn mikli leirkerasmiður. Ættfaðir mannkyns, Adam, var meistaraverk sköpunarinnar. Biblían segir okkur: „Þá myndaði [Jehóva] Guð manninn af leiri jarðar og blés lífsanda í nasir hans, og þannig varð maðurinn lifandi sál.“ (1. Mósebók 2:7) Þessi fyrsti maður var fullkominn, gerður í líkingu Guðs sjálfs og merki um visku hans og ást á sönnu réttlæti og réttvísi.

2 Guð notaði efni úr rifi Adams og bjó til hjálpara handa honum — konuna. Flekklaus yndisþokki Evu tók fram því fegursta sem þekkist meðal kvenna nú á tímum. (1. Mósebók 2:21-23) Fyrstu mannhjónin voru fullkomin á líkama og hæf til þess hlutverks að gera jörðina að paradís. Þeim var líka gefinn hæfileiki til að framfylgja fyrirmælum Guðs í 1. Mósebók 1:28: „Guð blessaði þau, og Guð sagði við þau: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni.“ Að lokum áttu milljarðar manna að byggja þessa heimsparadís, sameinaðir í kærleika sem er „band algjörleikans.“ — Kólossubréfið 3:14.

3. Hvernig urðu fyrstu foreldrar okkar ker til vansæmdar og með hvaða afleiðingum?

3 Því miður kusu fyrstu foreldrar okkar að gera uppreisn gegn yfirráðum skapara síns, hins mikla leirkerasmiðs. Stefna þeirra varð eins og lýst er í Jesaja 29:15, 16: „Vei þeim, sem leggjast djúpt til þess að dylja áform sín fyrir [Jehóva] og fremja verk sín í myrkrinu og segja: ‚Hver sér oss? Hver veit af oss?‘ . . . Eða skal meta að jöfnu leirinn og smiðinn, svo að verkið geti sagt um meistarann: ‚Hann hefir eigi búið mig til,‘ og smíðin geti sagt um smiðinn: ‚Hann kann ekki neitt?‘“ Uppreisn þeirra hafði skelfilegar afleiðingar — dóm til eilífs dauða. Og allt mannkyn, sem af þeim kom, erfði synd og dauða. (Rómverjabréfið 5:12, 18) Hinu fagra sköpunarverki leirkerasmiðsins mikla var stórspillt.

4. Hvaða göfugum tilgangi getum við þjónað?

4 En þrátt fyrir ófullkomleika okkar getum við, afkomendur syndarans Adams, lofsungið Jehóva með orðunum í Sálmi 139:14: „Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.“ Það er miður að upphaflegt handaverk leirkerasmiðsins mikla skuli hafa verið stórskemmt.

Leirkerasmiðurinn heldur áfram verki sínu

5. Hvernig ætlaði leirkerasmiðurinn mikli að beita kunnáttu sinni?

5 Sem betur fer ætlaði skapari okkar ekki að láta staðar numið eftir að hafa mótað mannkynið í upphafi. Páll postuli segir okkur: „Hver ert þú, maður, að þú skulir deila á Guð? Hvort mundi smíðisgripurinn segja við smiðinn: ‚Hví gjörðir þú mig svona?‘ Eða hefur ekki leirkerasmiðurinn leirinn á valdi sínu, svo að hann megi gjöra úr sama deiginu ker til sæmdar og annað til vansæmdar?“ — Rómverjabréfið 9:20, 21.

6, 7. (a) Hvernig kjósa margir að láta móta sig til vansæmdar? (b) Hvernig eru hinir réttlátu mótaðir til sæmdar?

6 Sum af verkum hins mikla leirkerasmiðs verða sem sagt mótuð til sæmdar en önnur til vansæmdar. Heimurinn sekkur æ dýpra ofan í fen óguðleikans. Þeir sem kjósa að fylgja honum mótast þannig að þeir eiga tortímingu í vændum. Þegar hinn dýrlegi konungur, Kristur Jesús, kemur til að fella dóm verða allir þeir menn ker til vansæmdar sem eru þrjóskir eins og hafrar. Um þá segir Matteus 25:46 að þeir fari til „eilífrar refsingar“ eða eyðingar. En sauðumlíkir ‚réttlátir‘ menn eru mótaðir til „sæmdar“ og taka ‚eilíft líf‘ að erfð.

7 Þessir réttlátu menn hafa í auðmýkt látið Guð móta sig. Þeir hafa gengið inn á lífsveg hans. Þeir hafa tekið til sín ráðin í 1. Tímóteusarbréfi 6:17-19 um að „treysta [ekki] fallvöltum auði, heldur Guði, sem lætur oss allt ríkulega í té til nautnar.“ Þeir hafa lagt sig fram um að „gjöra gott, vera ríkir af góðum verkum, örlátir, fúsir að miðla öðrum, með því safna þeir handa sjálfum sér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna, og munu geta höndlað hið sanna líf.“ Þeir láta sannleika Guðs móta sig og hafa óhagganlega trú á ráðstöfun hans í Kristi Jesú sem „gaf sig sjálfan til lausnargjalds fyrir alla“ til að endurheimta allt sem glataðist vegna syndar Adams. (1. Tímóteusarbréf 2:6) Við ættum því að hlýða mjög fúslega þeim ráðum Páls að ‚íklæðast hinum nýja manni sem endurnýjast [mótast] til fullkominnar þekkingar og verður þannig mynd skapara síns.‘ — Kólossubréfið 3:10.

Hvers konar ker verður þú?

8. (a) Hvað ræður því hvers konar ker maður verður? (b) Af hverju tvennu mótast maður?

8 Hvað ræður því hvers konar ker þú verður? Það eru viðhorf þín og hegðun sem mótast annars vegar af löngunum þínum og hneigðum hjartans. Hinn vitri Salómon konungur sagði: „Hjarta mannsins upphugsar veg hans, en [Jehóva] stýrir gangi hans.“ (Orðskviðirnir 16:9) Hins vegar mótast maðurinn af því sem hann sér og heyrir, af félagsskap sínum og lífsreynslu. Það er því mikilvægt að fara eftir ráðleggingunni: „Haf umgengni við vitra menn, þá verður þú vitur, en illa fer þeim, sem leggur lag sitt við heimskingja.“ (Orðskviðirnir 13:20) Eins og 2. Pétursbréf 1:16 segir megum við hvorki fylgja „uppspunnum skröksögum,“ þar á meðal mörgum af kenningum hins trúvillta kristna heims, né taka þátt í hátíðum hans.

9. Hvernig getum við brugðist jákvætt við mótun leirkerasmiðsins mikla?

9 Guð getur sem sagt mótað okkur í samræmi við viðbrögð okkar. Við getum því endurtekið auðmjúklega fyrir Jehóva bæn Davíðs: „Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar, og sjá þú, hvort ég geng á glötunarvegi, og leið mig hinn eilífa veg.“ (Sálmur 139:23, 24) Jehóva er að láta prédika boðskapinn um ríkið. Hjarta okkar hefur tekið þakklátt við fagnaðarerindinu og handleiðslu hans. Fyrir atbeina skipulags síns veitir hann okkur ýmis sérréttindi tengd prédikun fagnaðarerindisins. Við skulum þiggja þau og varðveita. — Filippíbréfið 1:9-11.

10. Hvernig ættum við að leggja okkur fram við andlegar iðkanir?

10 Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að gefa stöðugt gaum að Biblíunni, lesa daglega í henni og hafa þjónustuna við Jehóva og orð hans að daglegu umræðuefni í fjölskyldunni og meðal vina. Á hverjum degi er tilbeiðslustund við morgunverðarborðið á öllum Betelheimilum og trúboðsheimilum votta Jehóva, og þá er ýmist lesinn stuttur kafli í Biblíunni eða nýjustu Árbókinni. Getur fjölskyldan þín gert eitthvað svipað? Við höfum líka ómælt gagn af félagsskapnum innan safnaðarins og af samkomunum, sérstaklega hinu vikulega Varðturnsnámi og þátttöku í því.

Mótuð til að þola prófraunir

11, 12. (a) Hvernig getum við farið eftir ráðum Jakobs um prófraunir daglegs lífs? (b) Hvernig er reynsla Jobs okkur hvatning til að varðveita ráðvendni?

11 Guð leyfir að ýmsar aðstæður komi upp í daglegu lífi okkar og sumar geta verið erfiðar. Hvernig ber okkur að líta á þær? Jakobsbréfið 4:8 ráðleggur okkur að verða aldrei bitur heldur nálægja okkur Guði. Við erum hvött til að treysta honum af öllu hjarta í þeirri vissu að ‚hann nálgist okkur þegar við nálægjum okkur honum.‘ Að vísu þurfum við að þola erfiðleika og prófraunir, en þær eru leyfðar til að stuðla að mótun okkar og árangurinn er góður. Jakobsbréfið 1:2, 3 fullvissar okkur: „Álítið það, bræður mínir, eintómt gleðiefni, er þér ratið í ýmiss konar raunir. Þér vitið, að trúarstaðfesta yðar vekur þolgæði.“

12 Jakob segir jafnframt: „Enginn má segja, er hann verður fyrir freistingu: ‚Guð freistar mín.‘ Guð getur eigi orðið fyrir freistingu af hinu illa, enda freistar hann sjálfur einskis manns. Það er eigin girnd, sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir.“ (Jakobsbréfið 1:13, 14) Prófraunir okkar og freistingar geta verið margar og breytilegar, en þær eiga allar þátt í mótun okkar eins og Job fékk að reyna. Biblían kemst fagurlega að orði í Jakobsbréfinu 5:11: „Vér teljum þá sæla, sem þolgóðir hafa verið. Þér hafið heyrt um þolgæði Jobs og vitið, hvaða lyktir [Jehóva] gjörði á högum hans. [Jehóva] er mjög miskunnsamur og líknsamur.“ Munum að við erum eins og ker í hendi leirkerasmiðsins mikla. Megum við varðveita ráðvendni öllum stundum og treysta á farsæl málalok eins og Job gerði. — Jobsbók 2:3, 9, 10; 27:5; 31:1-6; 42:12-15.

Mótun barnanna

13, 14. (a) Hvenær ættu foreldrar að byrja mótun barna sinna og með hvað að markmiði? (b) Hvaða dæmi geturðu nefnt um góðan árangur?

13 Foreldar geta unnið að mótun barna sinna allt frá fæðingu, og börnin okkar geta verið ráðvönd með afbrigðum, jafnvel í erfiðustu prófraunum. (2. Tímóteusarbréf 3:14, 15) Fyrir nokkrum árum voru vottar Jehóva ofsóttir grimmilega í einu Afríkulandi. Ábyggileg fjölskylda prentaði þá Varðturninn með leynd í skúr á baklóðinni hjá sér. Dag einn komu hermenn í götuna og leituðu hús úr húsi að ungum mönnum í herinn. Ungu drengirnir tveir í fjölskyldunni hefðu haft tíma til að fela sig en þá hefðu hermennirnir örugglega fundið prentvélina við húsleit. Þá hefði öll fjölskyldan hugsanlega verið pynduð og jafnvel drepin. Hvað var til ráða? Drengirnir tveir vitnuðu djarfmannlega í Jóhannes 15:13: „Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.“ Þeir ætluðu að vera kyrrir í stofunni. Hermennirnir myndu finna þá og eflaust pynda þá hrottalega eða jafnvel drepa þá þegar þeir neituðu að gegna herþjónustu. En þá yrði ekki leitað í húsinu. Prentvélin og hinir í fjölskyldunni fengju að vera í friði. En málalokin voru ótrúleg. Hermennirnir slepptu þessu eina húsi og héldu áfram að því næsta! Þessi mennsku leirker, sem voru mótuð til sæmdar, björguðust ásamt prentvélinni og haldið var áfram að framleiða tímabæra, andlega fæðu. Annar drengjanna og systir hans þjóna nú á Betel og hann vinnur enn þá við gömlu prentvélina.

14 Það er hægt að kenna börnum að biðja og Guð svarar bænum þeirra. Við höfum framúrskarandi dæmi um það þegar fjöldamorðin áttu sér stað í Rúanda. Uppreisnarmenn voru í þann mund að kasta handsprengju að sex ára stúlku og foreldrum hennar. En stúlkan fór háum rómi með innilega bæn og bað þess að þeim yrði þyrmt til að þau gætu haldið áfram að þjóna Jehóva. Hinir væntanlegu morðingjar voru snortnir og þyrmdu þeim með þessum orðum: „Við getum ekki drepið ykkur vegna litlu stúlkunnar.“ — 1. Pétursbréf 3:12.

15. Hvaða spillandi áhrifum varaði Páll við?

15 Fá börn lenda í svona erfiðri stöðu, en margar prófraunir verða á vegi þeirra í skólanum og í spilltu samfélagi nútímans. Ljótur munnsöfnuður, klám, spillandi skemmtiefni og hópþrýstingur til rangra verka er gífurlegur víða um lönd. Páll postuli varar æ ofan í æ við slíkum áhrifum. — 1. Korintubréf 5:6; 15:33, 34; Efesusbréfið 5:3-7.

16. Hvernig getum við orðið ker til sæmdar?

16 Eftir að Páll hefur talað um leirker sem „sum eru til viðhafnar, önnur til óþriflegri nota“ segir hann: „Sá sem fær sig hreinan gjört af slíku, mun verða ker til viðhafnar, helgað og hagfellt húsbóndanum, hæfilegt til sérhvers góðs verks.“ Við skulum því hvetja unga fólkið okkar til að gæta að félagsskap sínum. Hvetjum það til að ‚flýja æskunnar girndir, en stunda réttlæti, trú, kærleika og frið við þá, sem ákalla Drottin af hreinu hjarta.‘ (2. Tímóteusarbréf 2:20-22) Ákveðin dagskrá til ‚uppbyggingar‘ í fjölskyldunni getur verið ómetanlegt mótunarafl fyrir börnin. (1. Þessaloníkubréf 5:11; Orðskviðirnir 22:6) Daglegur biblíulestur og nám með viðeigandi rit Félagsins til aðstoðar getur verið mikil hjálp.

Mótun fyrir alla

17. Hvernig mótumst við af aga og hvaða gleðilegur árangur hlýst af?

17 Jehóva notar orð sitt og skipulag til að leiðbeina okkur og móta. Streitumst aldrei gegn heilræðum hans. Bregðumst skynsamlega við þeim og látum þau móta okkur svo að Jehóva geti notað okkur til sæmdar. Orðskviðirnir 3:11, 12 ráðleggja: „Son minn, lítilsvirð eigi ögun [Jehóva] og lát þér eigi gremjast umvöndun hans, því að [Jehóva] agar þann, sem hann elskar, og lætur þann son kenna til, sem hann hefir mætur á.“ Fleiri föðurleg ráð er að finna í Hebreabréfinu 12:6-11: „[Jehóva] agar þann, sem hann elskar . . . Í bili virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni, heldur hryggðar, en eftir á gefur hann þeim, er við hann hafa tamist, ávöxt friðar og réttlætis.“ Orð Guðs er helsta boðleið þessarar ögunar. — 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.

18. Hvað lærum við um iðrun af 15. kafla Lúkasarguðspjalls?

18 Jehóva er líka miskunnsamur. (2. Mósebók 34:6) Hann fyrirgefur alvarlegustu syndir ef við iðrumst af öllu hjarta. Það er jafnvel hægt að móta ‚glataða syni‘ nútímans sem ker til sæmdar. (Lúkas 15:22-24, 32) Syndir okkar eru ef til vill ekki jafnalvarlegar og syndir glataða sonarins, en auðmýkt gagnvart biblíulegum ráðum leiðir alltaf til þess að við mótumst sem ker til sæmdar.

19. Hvernig getum við haldið áfram að þjóna sem ker til sæmdar í höndum Jehóva?

19 Þegar við lærðum sannleikann í fyrstu sýndum við að við vildum láta Jehóva móta okkur. Við létum af veraldlegu hátterni, byrjuðum að íklæðast nýja persónuleikanum, vígðumst Guði og létum skírast. Við hlýddum ráðleggingunum í Efesusbréfinu 4:20-24 um að „afklæðast hinum gamla manni, sem er spilltur af tælandi girndum, en endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.“ Megum við persónulega halda áfram að vera þjál í höndum Jehóva, hins mikla leirkerasmiðs, og vera alltaf ker til sæmdar.

Til upprifjunar

◻ Hver er tilgangur hins mikla leirkerasmiðs með jörðina?

◻ Hvernig geturðu látið móta þig til sæmdar?

◻ Hvernig er hægt að móta börnin okkar?

◻ Hvernig ættum við að líta á aga?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 9]

Lætur þú móta þig til sæmdar eða verður þér hafnað?

[Mynd á blaðsíðu 11]

Hægt er að móta börnin allt frá fæðingu.