Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Allir verða frjálsir

Allir verða frjálsir

Allir verða frjálsir

„Ég lít svo á, að ekki séu þjáningar þessa tíma neitt í samanburði við þá dýrð, sem á oss mun opinberast. Því að sköpunin þráir, að Guðs börn verði opinber [„bíður opinberunar sona Guðs,“ NW]. Sköpunin var undirorpin fallvaltleikanum, ekki sjálfviljug, heldur vegna hans, sem varp henni undir hann, í von um að jafnvel sjálf sköpunin muni verða leyst úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna. Vér vitum, að öll sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir allt til þessa.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 8:18-22.

Í ÞESSUM versum í bréfinu til kristinna manna í Róm lýsir Páll postuli afbragðsvel hvers vegna fólk nýtur ekki raunverulegs frelsis heldur býr oft við kvöl og tómleika. Hann skýrir einnig hvernig við getum öðlast raunverulegt frelsi.

„Þjáningar þessa tíma“

Páll er ekki að gera lítið úr ‚þjáningum þessa tíma‘ þegar hann segir að þær séu ‚ekki neitt í samanburði við þá dýrð sem á okkur muni opinberast.‘ Kristnir menn máttu þola miklar þjáningar undir harðri alræðisstjórn Rómverja, bæði á dögum Páls og síðar meir. Rómversk yfirvöld hirtu lítið um mannréttindi. Þegar Rómverjar komust á þá skoðun að kristnir menn væru óvinir ríkisins kúguðu þeir þá grimmilega. Sagnfræðingurinn J. M. Roberts segir: „Margir kristnir menn í höfuðborginni [Róm] hlutu hræðilegan dauðdaga á leikvanginum eða voru brenndir til bana.“ (Shorter History of the World) Annað sögurit segir um þessi fórnarlömb Nerós: „Sumir voru krossfestir, sumir saumaðir inn í dýrahúðir og eltir uppi af hundum, sumir voru þaktir tjöru og kveikt í þeim til að þeir gætu verið lifandi kyndlar þegar myrkrið skall á.“ — F. F. Bruce: New Testament History.

Frumkristnir menn hefðu gjarnan viljað vera lausir undan kúgun sem þessari, en þeir voru ófáanlegir til að ná því fram með því að brjóta gegn kenningu Jesú Krists. Þeir voru til dæmis algerlega hlutlausir gagnvart átökum rómverskra yfirvalda og frelsissinna Gyðinga, svo sem sílóta. (Jóhannes 17:16; 18: 36) Sílótar álitu „umræður um að bíða íhlutunar Guðs ótímabærar vegna yfirstandandi hættuástands.“ Þeir sögðu nauðsynlegt að grípa til „ofbeldis gegn óvininum,“ Róm. (New Testament History) Frumkristnir menn voru á öðru máli. Þeir álitu að eini raunhæfi kosturinn væri sá að „bíða íhlutunar Guðs.“ Þeir voru sannfærðir um að ekkert annað gæti í eitt skipti fyrir öll bundið enda á „þjáningar þessa tíma“ og komið á varanlegu og sönnu frelsi. (Míka 7:7; Habakkuk 2:3) En áður en við könnum hvernig það gerist skulum við athuga af hverju „sköpunin var undirorpin fallvaltleikanum“ í upphafi.

„Undirorpin fallvaltleikanum“

Benjamin Wilson bendir á að í þessu samhengi merki „sköpunin“ ekki „dýrin og hið lífvana sköpunarverk,“ eins og sumir gefi í skyn, heldur „allt mannkyn.“ (The Emphatic Diaglott; samanber Kólossubréfið 1:23.) Hún er allir menn — við öll sem þráum frelsi. Við vorum „undirorpin fallvaltleikanum“ vegna þess sem foreldrar mannkyns gerðu. Við gerðum það „ekki sjálfviljug,“ við völdum ekki þetta hlutskipti heldur tókum það í arf. Frá sjónarmiði Biblíunnar hafði Rousseau rangt fyrir sér þegar hann sagði að maðurinn væri „fæddur frjáls.“ Við erum öll fædd í fjötrum syndar og ófullkomleika. Við erum eins og þrælar kerfis sem er fallvalt og fullt af vonbrigðum. — Rómverjabréfið 3:23.

Af hverju? Af því að Adam og Eva, foreldrar mannkyns, vildu verða „eins og Guð,“ hafa fullan sjálfsákvörðunarrétt og ákveða sjálf hvað væri gott og illt. (1. Mósebók 3:5) Þau virtu að vettugi mikilvæga staðreynd í sambandi við frelsi, þá að enginn nema skaparinn getur haft algert frelsi. Hann er alheimsdrottinn. (Jesaja 33:22; Opinberunarbókin 4:11) Mannlegt frelsi hlýtur að vera takmörkum háð. Þess vegna hvatti lærisveinninn Jakob kristna menn á sínum tíma til að hafa „hið fullkomna lögmál frelsisins“ að leiðarljósi. — Jakobsbréfið 1:25.

Jehóva gerði Adam og Evu réttilega ræk úr alheimsfjölskyldu sinni og þau dóu fyrir vikið. (1. Mósebók 3:19) En hvað um afkomendur þeirra? Í miskunn sinn leyfði Jehóva Adam og Evu að eignast börn, þó svo að þau gætu ekki gefið þeim annað en ófullkomleika, synd og dauða í arf. Þannig ‚rann dauðinn til allra manna.‘ (Rómverjabréfið 5:12) Í þeim skilningi ‚varpaði Guð sköpuninni undir fallvaltleikann.‘

‚Opinberun sona Guðs‘

En Jehóva gaf sköpuninni „von“ þegar hann varpaði henni undir fallvaltleikann, von um að mannkynið myndi síðar meir hljóta frelsi vegna starfa „sona Guðs.“ Hverjir eru þessir ‚synir Guðs‘? Þeir eru lærisveinar Jesú Krists sem eru fæddir í þrælkun syndar og ófullkomleika líkt og „sköpunin“ í heild. Við fæðingu eiga þeir engan rétt á að tilheyra hreinni og fullkominni alheimsfjölskyldu Guðs. En Guð vinnur ótrúlegt miskunnarverk í þeirra þágu. Með lausnarfórn Jesú Krists frelsar hann þá úr fjötrum erfðasyndarinnar og lýsir þá ‚réttláta‘ eða andlega hreina. (1. Korintubréf 6:11) Síðan ættleiðir hann þá sem ‚syni‘ og leiðir þá aftur inn í alheimsfjölskyldu sína. — Rómverjabréfið 8:14-17.

Þessir kjörsynir Jehóva njóta mikilla sérréttinda. Þeir verða ‚prestar Guðs og munu ríkja yfir jörðinni‘ ásamt Jesú Kristi í himnesku ríki eða ríkisstjórn Guðs. (Opinberunarbókin 5:9, 10; 14:1-4) Þessi stjórn er grundvölluð á lögmálum frelsis og réttlætis — ekki kúgunar og harðstjórnar. (Jesaja 9:6, 7; 61:1-4) Páll postuli segir að þessir synir Guðs séu félagar Jesú, hins langþráða ‚afkvæmis Abrahams.‘ (Galatabréfið 3:16, 26, 29) Sem slíkir gegna þeir stóru hlutverki í því að uppfylla fyrirheit sem Guð gaf vini sínum Abraham. Einn þáttur þessa fyrirheits er að ‚allar þjóðir á jörðinni hljóti blessun‘ vegna afkvæmis Abrahams. — 1. Mósebók 22:18.

Hvaða blessun veita synir Guðs mannkyninu? Þeir eiga þátt í að frelsa allt mannkyn undan skelfilegum afleiðingum Adamssyndarinnar og lyfta því upp til fullkomleika. Menn af „alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum“ geta hlotið blessun vegna trúar á lausnarfórn Jesú Krists og með því að lúta blessunarstjórn hans. (Opinberunarbókin 7:9, 14-17; 21:1-4; 22:1, 2; Matteus 20:28; Jóhannes 3:16) Þannig mun „öll sköpunin“ aftur njóta „dýrðarfrelsis Guðs barna.“ Þetta verður ekki takmarkað og stundlegt pólitískt frelsi heldur frelsi frá öllu sem hefur þjakað mannkynið síðan Adam og Eva höfnuðu drottinvaldi Guðs. Það er ekkert undarlegt að Páll sagðist telja að ‚þjáningar þessa tíma væru ekki neitt‘ í samanburði við þá dýrlegu þjónustu sem trúfastir menn munu inna af hendi.

Hvenær ‚opinberast‘ synir Guðs? Mjög bráðlega þegar hann sýnir öllum ótvírætt hverjir synir sínir séu. Það gerist þegar þessir ‚synir,‘ sem hafa fengið himneska upprisu, vinna með Jesú Kristi að því að hreinsa jörðina af illsku og kúgun í stríði Guðs við Harmagedón. (Daníel 2:44; 7:13, 14, 27; Opinberunarbókin 2:26, 27; 16:16; 17:14; 19:11-21) Við sjáum allt í kringum okkur að það er langt liðið á ‚síðustu daga‘ hins langa tíma sem Guð hefur umborið uppreisn og þá illsku sem af henni hlýst. — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5; Matteus 24:3-31.

Já, það er dagsatt, eins og Páll postuli segir, að „öll sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir allt til þessa“ — en ekki miklu lengur. Milljónir núlifandi manna munu sjá ‚Guð endurreisa alla hluti, eins og hann hefur sagt fyrir munn sinna heilögu spámanna frá alda öðli,‘ þar á meðal frið, frelsi og réttlæti handa öllum. — Postulasagan 3:21.

Loksins ósvikið frelsi

Hvað þarftu að gera til að hljóta þetta ‚dýrðarfrelsi Guðs barna‘? Jesús Kristur sagði: „Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“ (Jóhannes 8:31, 32) Þetta er lykill frelsisins — að kynna sér boðorð og kenningar Krists og fara síðan eftir þeim. Það hefur í för með sér visst frelsi nú þegar. Í náinni framtíð verður frelsið fullkomið undir stjórn Jesú Krists. Það er skynsamlegt að kynna sér ‚orð‘ Jesú með biblíunámi. (Jóhannes 17:3) Sæktu samkomur með sönnum lærisveinum Krists eins og frumkristnir menn gerðu. Með því geturðu notið góðs af þeim frelsandi sannleika sem okkur stendur til boða fyrir milligöngu skipulags Jehóva nú á tímum. — Hebreabréfið 10:24, 25.

Meðan þú „bíður opinberunar sona Guðs“ geturðu byggt upp sams konar traust og Páll postuli hafði á vernd, umhyggju og stuðningi Krists, jafnvel í nánast óbærilegum þjáningum og ranglæti. Eftir að Páll hafði rætt um opinberun sona Guðs spurði hann: „Hver mun gjöra oss viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð?“ (Rómverjabréfið 8:35) Svo notuð séu orð Rousseaus voru kristnir menn á dögum Páls enn ‚í fjötrum‘ kúgunarafla af einu eða öðru tagi. Þeir voru „deyddir allan daginn“ eins og „sláturfé.“ (Rómverjabréfið 8:36) Bugaði það þá?

„Nei,“ skrifar Páll, „í öllu þessu vinnum vér fullan sigur fyrir fulltingi hans, sem elskaði oss.“ (Rómverjabréfið 8:37) Hvernig unnu frumkristnir menn sigur þrátt fyrir allt sem þeir máttu þola? Páll svarar: „Ég er þess fullviss, að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað muni geta gjört oss viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum.“ (Rómverjabréfið 8:38, 39) Þú getur líka ‚unnið sigur‘ á sérhverri ‚þjáningu, þrengingu eða ofsókn‘ sem þú þarft að þola þangað til. Kærleikur Guðs er trygging fyrir því að bráðlega — mjög bráðlega — verðum við „leyst úr [allri] ánauð . . . til dýrðarfrelsis Guðs barna.“

[Myndir á blaðsíðu 6]

‚Öll sköpunin stynur og hefur fæðingarhríðir allt til þessa.‘

[Myndir á blaðsíðu 7]

‚Sköpunin verður leyst úr allri ánauð til dýrðarfrelsis Guðs barna.‘