Allir vilja vera frjálsir
Allir vilja vera frjálsir
„Maðurinn er fæddur frjáls og er þó alls staðar í fjötra felldur,“ skrifaði franski heimspekingurinn Jean-Jacques Rousseau árið 1762. Fæddur frjáls — það er dásamleg tilhugsun. En eins og Rousseau benti á hefur saga mannkyns einkennst af ófrelsi. Milljónir manna hafa aldrei verið frjálsar heldur eytt ævinni í fjötrum kerfis sem meinaði þeim að njóta hamingju og lífsfyllingar til langframa.
ENN í dag er það hlutskipti milljóna að „einn maðurinn drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.“ (Prédikarinn 8:9) Framagjarnir karlar og konur veigra sér ekki við að fótum troða frelsi annarra, knúin áfram af eigin valdafíkn. „Óðar dauðasveitir drápu 21,“ segir í dæmigerðri frétt. Í annarri frétt er talað um „grimmileg morð“ öryggissveita á ‚varnarlausum konum, börnum og gamalmennum. Liðsmenn skáru fólk á háls, skutu óbreytta fanga í höfuðið og skildu eftir sviðna jörð með því að eyða þorp og skjóta sprengikúlum af handahófi.‘
Hin sterka frelsisþrá fólks og barátta þess fyrir frelsi undan kúgun kemur ekki á óvart. En sannleikurinn er því miður sá að frelsisbarátta eins hefur oft í för með sér frelsisskerðingu annars. Oftast nær er saklausum körlum, konum og börnum fórnað í leiðinni; dauði þeirra er „réttlættur“ með því að málstaðurinn sé góður og réttlátur. Svo dæmi sé tekið varð bílsprengja í smábænum Omagh á Norður-Írlandi 29 saklausum vegfarendum að bana á síðasta ári og særði hundruð að auki. Það voru „frelsissinnar“ sem komu sprengjunni fyrir.
Enn í fjötrum
Hvað hefur áunnist þegar átökin eru afstaðin? Stundum tekst
„frelsissinnum“ að ná fram takmörkuðu frelsi þegar þeir sigra í átökum sínum. En eru þeir þá raunverulega frjálsir? Er fólk ekki enn í fjötrum grimmra húsbænda eins og fátæktar, ófullkomleika, sjúkdóma og dauða, jafnvel í þeim þjóðfélögum þar sem frelsi er talið hvað mest? Hvernig getur þá nokkur maður sagst vera raunverulega frjáls meðan hann er þræll þessa?Biblíuritarinn Móse lýsti því nákvæmlega hvernig hlutskipti margra hefur verið í aldanna rás og er enn. Við lifum í 70 eða 80 ár, sagði hann, en „dýrsta hnossið er mæða og hégómi.“ (Sálmur 90:10) Verður nokkur breyting á því? Verður nokkurn tíma hægt fyrir okkur öll að njóta lífsfyllingar, laus við þá kvöl og þann hrylling sem svo margir búa við?
Biblían svarar því játandi. Hún talar um ‚dýrðarfrelsi Guðs barna.‘ (Rómverjabréfið 8:21) Skoðum nánar hvers konar frelsi þetta er sem Páll postuli talaði um í bréfi til kristinna manna í Róm á fyrstu öld. Í þessu bréfi gerir hann ítarlega grein fyrir því hvernig við getum hvert og eitt öðlast varanlegt ‚dýrðarfrelsi.‘
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 3]
Úr bókinni Beacon Lights of History, 13. bindi