Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Líf eftir dauðann — hverju trúir fólk?

Líf eftir dauðann — hverju trúir fólk?

Líf eftir dauðann — hverju trúir fólk?

„Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur?“ — JOBSBÓK 14:14.

1, 2. Hvernig leita margir huggunar þegar þeir hafa misst ástvin í dauðann?

 Í ÚTFARARSTOFU í New York ganga vinir og fjölskylda hljóðlega fram hjá opinni líkkistu sautján ára pilts sem hefur ungur orðið krabbameini að bráð. Niðurbrotin móðirin endurtekur tárvot aftur og aftur: „Tommy líður betur núna. Guð vildi hafa Tommy hjá sér á himni.“ Þetta hafði henni verið kennt.

2 Í um það bil 11.000 kílómetra fjarlægð, í Jamnagar á Indlandi, kveikir elsti sonurinn af þremur í líkbrennslubálkesti látins föður síns. Við snarkið í eldinum endurtekur bramaninn í sífellu bænarþulu á sanskrít: „Megi sálin, sem aldrei deyr, halda áfram þeirri viðleitni sinni að sameinast hinum endanlega veruleika.“

3. Hvaða spurningum hefur fólk velt fyrir sér öldum saman?

3 Dauðinn er veruleiki alls staðar í kringum okkur. (Rómverjabréfið 5:12) Það er ósköp eðlilegt að við skulum velta fyrir okkur hvort dauðinn sé endir alls. Job, trúfastur fortíðarþjónn Jehóva Guðs, velti fyrir sér náttúrlegu lífsferli jurtanna og sagði: „Því að tréð hefir von, sé það höggvið, þá skýtur það nýjum frjóöngum, og teinungurinn kemur áreiðanlega upp.“ Hvað um mennina? „Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur?“ spurði Job. (Jobsbók 14:7, 14) Í aldanna rás hefur fólk allra menningarsamfélaga hugleitt spurninguna: Er líf eftir dauðann? Ef svo er, hvers konar líf? Hverju trúir fólk þar af leiðandi? Og af hverju?

Mörg svör, sameiginlegt stef

4. Hvað kenna hin ýmsu trúarbrögð um líf eftir dauðann?

4 Margir sem segjast kristnir trúa að fólk fari eftir dauðann annaðhvort til himins eða helvítis. Hindúar trúa aftur á móti á endurholdgun. Samkvæmt íslamskri trú kemur dómsdagur eftir dauðann þegar Allah mun vega og meta lífshlaup hvers og eins og senda menn í paradís eða til helvítis. Í sumum löndum eru trúarhugmyndir um hina dánu sérkennileg blanda staðbundinna siðvenja og kristni að nafninu til. Á Srí Lanka, til dæmis, skilja bæði búddhistar og kaþólskir dyr og glugga eftir galopna þegar einhver deyr á heimilinu og líkkistan er lögð þannig að fætur hins látna snúi að aðaldyrunum. Þeir trúa að þessar ráðstafanir auðveldi anda eða sál hins látna að fara út úr húsinu. Það er siðvenja hjá mörgum kaþólskum og mótmælendum í Vestur-Afríku að breiða yfir spegla þegar einhver deyr til þess að enginn líti í þá og sjái ef til vill anda hins látna manns. Fjörutíu dögum eftir lát hans halda vinir og vandamenn hátíðlega uppstigningu sálar ástvinar síns til himins.

5. Um hvaða grundvallarkenningu eru flest trúarbrögð sammála?

5 Þrátt fyrir þennan fjölbreytileika virðast flest trúarbrögð vera sammála um að minnsta kosti eitt grundvallaratriði. Þau trúa því að eitthvað innra með manninum — hvort sem það er kallað sál, andi eða vofa — sé ódauðlegt og lifi af líkamsdauðann. Næstum öll þau hundruð trúflokka og sértrúarhópa, sem mynda hinn kristna heim, eru málsvarar trúarinnar á ódauðleika sálarinnar. Þessi trú er líka opinber kennisetning í gyðingdómnum. Hún er sjálfur grundvöllur hindúakenningarinnar um endurholdgun. Múslímar trúa því að sálin lifi áfram eftir að líkaminn deyr. Frumbyggjar Ástralíu, afrískir andatrúarmenn, sjintótrúarmenn og jafnvel búddhatrúarmenn kenna allir tilbrigði um þetta sama stef.

6. Hvert er viðhorf sumra fræðimanna til hugmyndarinnar um ódauðleika sálarinnar?

6 Á hinn bóginn er líka að finna fólk sem trúir því að lífinu ljúki við dauðann. Því finnst hugmyndin um ópersónulega, óljósa sál, sem á að eiga sér meðvitaða tilveru aðskilda frá líkamanum, stríða gegn allri skynsemi. Spænski 20. aldar fræðimaðurinn Miguel de Unamuno skrifar: „Trú á ódauðleika sálarinnar er ósk um að sálin sé ódauðleg, en óskhyggjan er þá orðin svo áköf að skynseminni er ýtt til hliðar og óraunsæið eitt eftir.“ Aðrir sem voru svipaðrar trúar voru meðal annars jafnólíkir menn eins og hinir nafnkunnu, fornu heimspekingar Aristóteles og Epíkúros, læknirinn Hippókrates, skoski heimspekingurinn David Hume, arabíski fræðimaðurinn Averroës og fyrsti forsætisráðherra Indlands eftir að landið fékk sjálfstæði, Jawaharlal Nehru.

7. Hvaða mikilvægar spurningar um trúna á ódauðlega sál verður nú að fjalla um?

7 Þar sem við stöndum frammi fyrir svona andstæðum hugmyndum og trúarskoðunum verðum við að spyrja: Erum við virkilega með ódauðlega sál? Ef sálin er ekki ódauðleg í raun og veru hvernig getur þá slík falskenning verið óaðskiljanlegur hluti flestra trúarbragða nú á tímum? Hvar átti þessi hugmynd upptök sín? Það er áríðandi að við fáum rétt og góð svör við þessum spurningum vegna þess að framtíð okkar er háð því. (1. Korintubréf 15:19) En fyrst skulum við athuga hvernig kenningin um ódauðleika sálarinnar varð til.

Kenningin verður til

8. Hvaða þátt áttu Sókrates og Platón í því að breiða út þá hugmynd að sálin sé ódauðleg?

8 Grísku heimspekingunum Sókratesi og Platón á 5. öld f.o.t. er gefinn heiðurinn af því að hafa verið einna fyrstir til að útbreiða þá hugmynd að sálin sé ódauðleg. En þeir voru ekki upphafsmenn þessarar kenningar heldur fáguðu þeir hana og breyttu í heimspekikenningu og þannig varð hún meira aðlaðandi í augum menntastéttanna á þeirra dögum og æ síðar. Staðreyndin er sú að áhangendur Zaraþústra í Persíu til forna og Egyptar á undan þeim trúðu einnig á ódauðleika sálarinnar. Spurningin er því sú: Hver er uppruni þessarar kenningar?

9. Hvaða áhrifavaldur var sameiginlegur í menningu Egypta, Persa og Grikkja?

9 „Í fornöld,“ segir bókin The Religion of Babylonia and Assyria, „urðu Egyptaland, Persía og Grikkland fyrir áhrifum af babýlonsku trúarbrögðunum.“ Bókin bætir síðan við: „Í ljósi þess hve samskipti komust snemma á milli Egyptalands og Babýloníu, eins og sést af El-Amarna töflunum, gáfust viðhorfum og venjum Babýloníumanna vissulega kappnóg tækifæri til að seytlast inn í átrúnað Egypta.“ * Svipaða sögu má segja um persneska og gríska menningu til forna.

10. Hvert var viðhorf Babýloníumanna til lífs eftir dauðann?

10 En trúðu Babýloníumenn til forna á ódauðleika sálarinnar? Prófessor Morris Jastrow, yngri, við Pennsylvaníuháskóla í Bandaríkjunum skrifaði um þetta: „Hvorki fólkið né leiðtogar trúarlegrar hugsunar [í Babýloníu] horfðust nokkurn tíma í augu við möguleikann á algerri tortímingu þess sem eitt sinn hafði verið veitt líf. Dauðinn var [að þeirra mati] leið yfir til annars konar lífs, og afneitun ódauðleikans [í þessu lífi] undirstrikaði einungis hve ógerlegt var að komast undan þeirri tilvistarbreytingu sem dauðinn olli.“ Já, Babýloníumenn trúðu því líka að líf af einhverju tagi, í einhverri mynd, héldi áfram eftir dauðann. Þeir létu það í ljós með því að jarðsetja muni með hinum látnu sem þeir gætu notað handan grafar.

11, 12. Hvar kom kenningin um ódauðleika sálarinnar fyrst fram að loknu heimsflóðinu?

11 Kenningin um ódauðleika sálarinnar á greinilega rætur að rekja til Babýlonar í fornöld. Skiptir það máli? Vissulega, því að sonarsonarsonur Nóa, Nimrod, reisti borgina Babel eða Babýlon að sögn Biblíunnar. Að loknu heimsflóðinu á dögum Nóa höfðu menn aðeins eitt tungumál og eina trú. Nimrod var ekki aðeins „í andstöðu við Jehóva“ heldur vildi hann og fylgjendur hans ‚gera sér minnismerki.‘ Nimrod stofnsetti borgina og byggði þar turn og ný trúarbrögð komust þar á laggirnar. — 1. Mósebók 10:1, 6, 8-10, NW; 11:1-4.

12 Arfsögn segir að Nimrod hafi dáið á voveiflegan hátt. Eftir dauða hans er eðlilegt að Babýloníumenn hafi hneigst til að hafa hann í miklum heiðri sem stofnanda, byggjanda og fyrsta konung borgar sinnar. Þar sem guðinn Mardúk (Meródak) var álitinn stofnandi Babýlonar og margir Babelkonungar voru nefndir eftir honum hafa sumir fræðimenn sett fram þá tilgátu að Mardúk tákni Nimrod eftir að hann var tekinn í guðatölu. (2. Konungabók 25:27; Jesaja 39:1; Jeremía 50:2) Sé svo hlýtur sú hugmynd, að menn hafi sál sem lifi dauðann, að hafa verið orðin nokkuð útbreidd að minnsta kosti á þeim tíma er Nimrod dó. Hvað sem því líður sést af spjöldum sögunnar að kenningin um ódauðleika sálarinnar varð til í Babel eða Babýlon að loknu heimsflóðinu.

13. Hvernig dreifðist kenningin um ódauðleika sálarinnar um allar jarðir og með hvaða árangri?

13 Frásaga Biblíunnar sýnir enn fremur að Guð kom í veg fyrir ætlunarverk turnsmiðanna í Babel með því að rugla tungumál þeirra. Þar sem þeir gátu ekki lengur talað hver við annan, hættu þeir verkinu og tvístruðust „þaðan út um alla jörðina.“ (1. Mósebók 11:5-9) Við skulum hafa í huga að enda þótt tungumáli þessara svokölluðu turnsmiða hafi verið breytt, hafði hugsanagangi og hugmyndum þeirra ekki verið breytt. Þar af leiðandi tóku þeir trúarhugmyndir sínar með sér hvert sem þeir fóru. Á þann hátt dreifðust babýlonskar trúarkenningar — þar á meðal kenningin um ódauðleika sálarinnar — út um allar jarðir og urðu undirstaða allra helstu trúarbragða heims. Þar með var heimsveldi falskra trúarbragða stofnað. Það er á viðeigandi hátt kallað í Biblíunni „Babýlon hin mikla, móðir hórkvenna og viðurstyggða jarðarinnar.“ — Opinberunarbókin 17:5.

Heimsveldi falstrúarbragðanna breiðist til austurs

14. Hvernig breiddust babýlonsk trúarbrögð til Indlands?

14 Sumir sagnfræðingar segja að fyrir meira en 3500 árum hafi miklir þjóðflutningar átt sér stað og Aríar, sem eru ljósir á hörund, flust úr norðvestri inn í Indusdalinn sem nú er að mestu leyti í Pakistan og Indlandi. Þaðan dreifðust þeir um sléttlendið við Gangesfljót og út um allt Indland. Sumir sérfræðingar segja að trúarhugmyndir innflytjendanna hafi verið byggðar á fornírönskum og babýlonskum kenningum. Hindúatrú á rætur sínar að rekja til þessara trúarhugmynda.

15. Hvað varð til þess að hugmyndin um ódauðleika sálarinnar hafði áhrif á hindúatrú nútímans?

15 Á Indlandi tók hugmyndin um ódauðlega sál á sig mynd endurholdgunarkenningarinnar. Hindúaspekingar, sem voru að glíma við þá ráðgátu hvers vegna illsku og þjáningar væri alls staðar að finna í mannheimi, komu með það sem kallað er karmalögmálið, lögmál orsakar og afleiðingar. Með því að sameina þetta lögmál trúnni á ódauðleika sálarinnar fengu þeir út endurholdgunarkenninguna sem segir að fyrir verðleika sína eða galla í einu lífi fái menn umbun eða refsingu í því næsta. Takmark hins trúaða er sagt vera moksha eða lausn undan hringrás endurfæðinga og sameining við hinn endanlega veruleika sem þeir nefna nirvana. Þegar hindúatrú breiddist út í aldanna rás breiddist kenningin um endurholdgun líka út. Þessi kenning er orðin máttarstoð hindúatrúar nútímans.

16. Hvaða hugmyndir um líf eftir dauðann urðu ríkjandi í trúarlífi og trúariðkunum meirihluta íbúa Austur-Asíu?

16 Út af hindúatrúnni spruttu önnur trúarbrögð eins og búddhatrú, jainatrú og síkatrú. Þau halda einnig fram endurholdgun. Þegar búddhatrúin ruddi sér til rúms í nær allri Austur-Asíu — Kína, Kóreu, Japan og annars staðar — hafði hún veruleg áhrif á menningu og trúarbrögð alls þess heimshluta. Upp úr þessum jarðvegi spruttu trúarbrögð sem eru sambræðingur trúarhugmynda úr búddhatrú, spíritisma og forfeðradýrkun. Áhrifamest þeirra eru taóismi, konfúsíusarhyggja og sjintótrú. Á þennan hátt hefur sú trú, að lífið haldi áfram eftir líkamsdauðann, orðið ríkjandi trúarhugmynd og trúariðkun meirihluta manna í þessum heimshluta.

Hvað um kristna trú, gyðingatrú og íslam?

17. Hverju trúðu Gyðingar um líf eftir dauðann?

17 Hverju trúir fólk, sem aðhyllist gyðingatrú, kristna trú eða íslam, um líf eftir dauðann? Gyðingatrúin er langelst þessara trúarbragða. Rætur hennar má rekja um 4000 ár aftur í tímann til Abrahams — löngu áður en Sókrates og Platón mótuðu kenninguna um ódauðleika sálarinnar. Gyðingar til forna trúðu á upprisu dauðra en ekki á meðfæddan ódauðleika mannsins. (Matteus 22:31, 32; Hebreabréfið 11:19) Hvernig komst þá kenningin um ódauðleika sálarinnar inn í gyðingdóminn? Mannkynssagan veitir svar við því.

18, 19. Hvernig komst kenningin um ódauðleika sálarinnar inn í gyðingdóminn?

18 Árið 332 f.o.t. lagði Alexander mikli Grikklandskonungur undir sig Mið-Austurlönd, þar á meðal Jerúsalem. Þegar eftirmenn Alexanders héldu áfram þeirri áætlun hans að breiða út gríska menningu blandaðist menning Grikkja menningu Gyðinga. Með tímanum urðu Gyðingar vel að sér í grískri hugmyndafræði og sumir þeirra gerðust jafnvel heimspekingar.

19 Fílon frá Alexandríu var einn slíkra heimspekinga Gyðinga á fyrstu öld. Hann dáði Platón og leitaðist við að útskýra gyðingatrú með orðfæri grískrar heimspeki og ruddi þannig brautina fyrir gyðinglega hugsuði síðari tíma. Talmúð — ritaðar skýringar við munnlegt lögmál rabbínanna — er líka undir áhrifum grískra hugmynda. „Talmúð-rabbínarnir trúðu á áframhaldandi tilveru sálarinnar eftir dauðann,“ að sögn Encyclopaedia Judaica. Í síðari tíma dulhyggjuritum Gyðinga, eins og kabbala-ritunum, er jafnvel gengið svo langt að halda fram endurholdgun. Hugmyndin um ódauðleika sálarinnar komst þannig inn í gyðingdóminn um bakdyr grískrar heimspeki. Hvað má segja um innreið þessarar kenningar í kristna trú?

20, 21. (a) Hver var afstaða frumkristinna manna til platónskrar eða grískrar heimspeki? (b) Hvernig runnu hugmyndir Platóns saman við kenningar kristninnar?

20 Óbrengluð kristni hófst með Jesú Kristi. Miguel de Unamuno, sem vitnað var í hér að framan, skrifaði um Jesú: „Hann trúði frekar, að hinum gyðinglega hætti, á upprisu holdsins, ekki á ódauðleika sálarinnar að [grískum] platónskum hætti.“ Niðurstaða hans var þessi: „Ódauðleiki sálarinnar . . . er heiðin heimspekikenning.“ Í ljósi þessa skiljum við hvers vegna Páll postuli varaði frumkristna menn eindregið við „heimspeki og hégómavillu, sem byggist á mannasetningum, er runnið frá heimsvættunum, en ekki frá Kristi.“ — Kólossubréfið 2:8.

21 Hvenær og hvernig síaðist þessi ‚heiðna heimspekikenning‘ inn í kristnina? Alfræðibókin New Encyclopædia Britannica segir: „Frá miðbiki annarrar aldar eftir Krist þótti kristnum mönnum, sem höfðu fengið einhverja menntun í grískri heimspeki, þeir þurfa að tjá trúna með orðfæri hennar, bæði fyrir sína eigin hugaránægju og til að snúa menntuðum heiðingjum til trúar. Platónisminn var sú heimspeki sem hentaði þeim best.“ Tveir slíkir heimspekingar til forna, sem höfðu veruleg áhrif á kennisetningar kristna heimsins, voru Órigenes frá Alexandríu og Ágústínus frá Hippó. Báðir urðu fyrir miklum áhrifum af hugmyndum Platóns og áttu ríkan þátt í að bræða þessar hugmyndir saman við kristnar kenningar.

22. Hvernig hefur kenningin um ódauðleika sálarinnar verið ríkjandi í íslam?

22 Hugmyndin um ódauðleika sálarinnar kom fram í gyðingdómi og kristinni trú vegna áhrifa platónskunnar en var aftur á móti innbyggð í íslam frá byrjun. Kóraninn, hin helga bók íslams, kennir að maðurinn hafi sál sem heldur áfram að lifa eftir dauðann. Hann talar um að endanleg örlög sálarinnar séu annaðhvort líf í himneskum paradísargarði eða refsing í brennandi víti. Þar með er ekki sagt að arabískir fræðimenn hafi ekki reynt að tvinna saman kenningar íslams og gríska heimspeki. Verk Aristótelesar höfðu vissulega veruleg áhrif á arabaheiminn. Hvað sem því líður trúa múslímar að sálin sé ódauðleg.

23. Um hvaða áleitnar spurningar um líf eftir dauðann verður fjallað um í næstu grein?

23 Greinilegt er að trúarbrögðin vítt og breitt um heiminn hafa komið sér upp ruglingslegu safni trúarkenninga um framhaldslíf, byggðar á þeirri hugmynd að sálin sé ódauðleg. Og þessar trúarskoðanir hafa snert milljarða manna, já, meira að segja stjórnað lífi þeirra og hneppt þá í þrældóm. Andspænis öllu þessu finnum við okkur knúin til að spyrja: Er hægt að vita hið sanna um það hvað verður um okkur við dauðann? Er líf eftir dauðann? Hvað hefur Biblían að segja um það? Við munum fjalla um það í næstu grein.

[Neðanmáls]

^ El-Amarna er staður þar sem rústir egypsku borgarinnar Akhetaton er að finna en hún er sögð hafa verið byggð á 14. öld f.o.t.

Geturðu útskýrt?

◻ Hvað er sameiginlegt með hugmyndum flestra trúarbragða um líf eftir dauðann?

◻ Hvernig benda mannkynssagan og Biblían á að kenningin um ódauðleika sálarinnar eigi upptök sín í Babýlon?

◻ Hvaða áhrif hafa babýlonskar kenningar um ódauðleika sálarinnar haft á austurlensk trúarbrögð?

◻ Hvernig síaðist kenningin um ódauðleika sálarinnar inn í gyðingdóminn, kristni og íslam?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 20, 21]

Sigurvinningar Alexanders mikla leiddu til þess að grískir menningarstraumar blönduðust menningu Gyðinga.

Agústínus reyndi að bræða saman platónska heimspeki og kristni.

[Rétthafi]

Alexander: Musei Capitolini, Róm; Ágústínus: Úr bókinni Great Men and Famous Women