Spurningar frá lesendum
Spurningar frá lesendum
Einstöku sinnum hefur vottum Jehóva verið boðin vinna við trúarlegar byggingar. Hver er afstaða Biblíunnar til slíkrar vinnu?
Kristinn maður, sem vill leggja sig fram um að fara eftir 1. Tímóteusarbréfi 5:8, getur þurft að taka afstöðu til þessa máls, en þar er lögð áhersla á þá skyldu að sjá fyrir heimili sínu. Þótt kristnir menn eigi að fara eftir þessum ráðum réttlætir það ekki að þeir taki að sér hvaða vinnu sem vera skal, hvers eðlis sem hún er. Kristnir menn gera sér ljóst að þeir þurfa að vera vakandi fyrir fleiri ábendingum um vilja Guðs í málinu. Svo dæmi sé tekið er ekki hægt að réttlæta það að brjóta gegn boðum Biblíunnar um siðleysi eða morð á þeim forsendum að það sé nauðsynlegt til að sjá fyrir fjölskyldunni. (Samanber 1. Mósebók 39:4-9; Jesaja 2:4; Jóhannes 17:14, 16.) Kristnir menn þurfa líka að hegða sér í samræmi við þau fyrirmæli að yfirgefa Babýlon hina miklu, heimsveldi falskra trúarbragða. — Opinberunarbókin 18:4, 5.
Fólk Guðs um heim allan þarf að taka afstöðu til margs konar aðstæðna í sambandi við vinnu. Það væri út í hött og utan valdsviðs okkar að reyna að tíunda alla möguleika og setja afdráttarlausar reglur um þá. (2. Korintubréf 1:24) Nefnum þó nokkur atriði sem kristnir menn ættu að íhuga áður en þeir taka persónulega ákvörðun í sambandi við vinnu. Þessi atriði voru rædd stuttlega í Varðturninum 1. maí 1983, í grein sem fjallaði um það að njóta góðs af samviskunni sem Guð hefur gefið. Á bls. 27 var spurt tveggja lykilspurninga og síðan komu nokkrar gagnlegar ábendingar.
Fyrri spurningin er þessi: Fordæmir Biblían þessa vinnu? Í umfjöllun sinni benti Varðturninn á að Biblían fordæmi þjófnað, misnotkun blóðs og skurðgoðadýrkun. Kristinn maður ætti að forðast veraldlega vinnu sem stuðlar beinlínis að athöfnum sem Guð hefur vanþóknun á, eins og þeim sem nefndar eru að framan.
Síðari spurningin er þessi: Myndi atvinnan tengja mann svo við starfsemi, sem er fordæmd, að hann yrði meðsekur? Maður, sem ynni í spilavíti, á fóstureyðingarstofu eða í vændishúsi, væri augljóslega meðsekur um óbiblíulega starfsemi. Jafnvel þótt dagleg störf hans væru eingöngu þau að sópa gólf eða svara í síma væri hann að ýta undir starfsemi sem orð Guðs fordæmir.
Margir kristnir menn hafa komist að raun um að þessar tvær spurningar nægja þeim til að komast að niðurstöðu um atvinnu.
Af þessum tveim spurningum er til dæmis auðséð hvers vegna sannur guðsdýrkandi getur ekki verið starfsmaður falstrúarstofnunar þannig að hann vinni beinlínis fyrir kirkjufélag eða í kirkjubyggingu. Opinberunarbókin 18:4 fyrirskipar: „Gangið út, mitt fólk, út úr henni, svo að þér eigið engan hlut í syndum hennar.“ Maður væri þátttakandi í verkum og syndum Babýlonar hinnar miklu ef hann væri fastur starfsmaður trúfélags sem kenndi falskar kenningar. Hvort sem hann væri garðyrkjumaður, húsvörður, viðgerðarmaður eða bókari væri hann með starfi sínu að ýta undir tilbeiðslu sem stangast á við sanna trú. Og fólk, sem sæi þennan starfsmann vinna við að fegra kirkjuna, halda henni við eða taka á annan hátt þátt í trúarlegri starfsemi hennar, myndi eðlilega tengja hann við þá trú.
En hvað um mann sem vinnur ekki að staðaldri fyrir kirkju eða trúfélag? Það er kannski kallað á hann í neyðartilfelli til að gera við lekt vatnsrör í kjallara kirkjunnar. Væri það ekki svolítið annað en að gera tilboð í viðhaldsvinnu fyrir kirkjuna, svo sem að einangra þakið eða skipta um þakklæðningu?
Sem fyrr er hægt að ímynda sér margs konar ólíkar aðstæður. Við skulum því rifja upp fimm atriði til viðbótar sem fjallað var um í Varðturninum:
1. Er vinnan einfaldlega fólgin í almennri þjónustu sem er ekki biblíulega röng í sjálfri sér? Tökum bréfbera sem dæmi. Varla er hann að ýta undir fordæmda starfsemi þótt eitt af húsunum, þar sem hann ber út póst, sé kirkja eða fóstureyðingarstofa. Guð lætur sólina skína inn um glugga allra bygginga, þeirra á meðal kirkna og fóstureyðingarstofa. (Postulasagan 14:16, 17) Kristinn bréfberi lítur kannski svo á að hann sé að inna af hendi almennt þjónustustarf dag frá degi sem nær jafnt til allra. Það er kannski sambærilegt við kristinn mann sem bregst við neyðarútkalli — pípulagningamanninn sem kallað er á til að gera við lekt vatnsrör í kirkju, eða sjúkraflutningamanninn sem kallaður er út til að sinna manni sem hné niður við messu. Hann getur litið á það sem tilfallandi almannaþjónustu.
2. Í hvaða mæli ber maður ábyrgð á því sem fram fer? Kristinn verslunareigandi fellst varla á að panta og selja jólaskraut, andatrúarbækur, sígarettur eða blóðmör. Hann er eigandi verslunarinnar og hann ræður. Fólk hvetur hann kannski til að selja sígarettur eða jólaskraut til að græða á því, en hann hegðar sér í samræmi við biblíulega trú sína. En kristinn starfsmaður í stórri matvöruverslun vinnur kannski á kassa, bónar gólf eða færir bókhald. Hann ræður því ekki hvaða vörur eru pantaðar og seldar, jafnvel þótt sumar þeirra gangi gegn kristnum meginreglum, svo sem sígarettur eða vörur tengdar * (Samanber Lúkas 7:8; 17:7, 8.) Þetta leiðir okkur að næsta atriði.
trúarhátíðum.3. Í hvaða mæli meðhöndlar maður vöruna? Höldum okkur við dæmið með verslunina. Afgreiðslumaður, sem vinnur á kassa eða raðar vörum í hillur þarf sjálfsagt ekki að meðhöndla sígarettur eða trúarlega hluti nema stundum; það er lítill þáttur í starfi hans í heild. Það er býsna ólíkt starfsmanni í sömu verslun sem gerir lítið annað en að afgreiða tóbaksvörur. Hann er allan daginn að meðhöndla vörur sem stríða gegn kristinni trú. (2. Korintubréf 7:1) Þetta dæmi sýnir hvers vegna taka þarf mið af því hve mikið maður tengist ákveðnum störfum eða meðhöndlar vissar vörur, þegar teknar eru ákvarðanir um vinnu.
4. Hver greiðir launin eða hvar eru störfin unnin? Tökum tvenns konar aðstæður sem dæmi. Fóstureyðingarstofa ákveður að bæta ímynd sína og greiðir manni laun fyrir að hreinsa nærliggjandi götur. Launin eru greidd af fóstureyðingarstofunni en hann vinnur ekki þar og enginn sér hann þar allan daginn. Menn sjá hann vinna við almannaþjónustu sem stríðir ekki í sjálfri sér gegn Ritningunni, hver svo sem greiðir launin. Tökum nú annað dæmi. Í landi, þar sem vændi er löglegt, er heilbrigðiskerfið með hjúkrunarfræðing á launum sem starfar í vændishúsum og fer með heilbrigðiseftirlit í því skyni að draga úr útbreiðslu samræðissjúkdóma. Laun hjúkrunarfræðingsins eru greidd af heilbrigðiskerfinu en starfið fer að öllu leyti fram í vændishúsunum og stuðlar að því að gera siðleysi öruggara og viðurkenndara. Þessi dæmi sýna hvers vegna taka þarf til athugunar hver greiðir launin og hvar störfin eru unnin.
5. Hvaða áhrif hafa störfin á heildina litið; koma þau við samvisku manns sjálfs eða hneyksla aðra? Taka þarf tillit bæði til okkar eigin samvisku og annarra. Jafnvel þótt flestum kristnum mönnum fyndist ákveðið starf (þar á meðal starfsstaður og launagreiðandi) vera boðlegt getur verið að það myndi ónáða samvisku einhvers. Páll postuli er okkur góð fyrirmynd og hann sagði: „Vér erum þess fullvissir, að vér höfum góða samvisku og viljum í öllum greinum breyta vel.“ (Hebreabréfið 13:18) Við ættum að forðast störf sem angra samvisku sjálfra okkar, án þess þó að gagnrýna aðra sem hafa ekki samviskubit út af því að vinna þau. Hins vegar getur verið að kristinn maður sjái ekkert biblíulega athugavert við að vinna ákveðið starf en honum er ljóst að það myndi trufla mjög samvisku margra í söfnuðinum og samfélaginu. Páll lét í ljós rétta hugarfarið þegar hann sagði: „Í engu viljum vér vera neinum til ásteytingar, til þess að þjónustan verði ekki fyrir lasti. Á allan hátt sýnum vér, að vér erum þjónar Guðs.“ — 2. Korintubréf 6:3, 4.
Snúum okkur nú aftur að aðalspurningunni sem fjallaði um það að vinna við kirkjubyggingu, svo sem að skipta um glugga, hreinsa teppi eða annast steypuviðgerðir. Hvaða áhrif hafa áðurnefndir þættir á afstöðu okkar til hennar?
Mundu að ábyrgð manns skiptir máli. Er hann eigandi eða framkvæmdastjóri og getur ákveðið hvort hann tekur að sér slíka vinnu við kirkjuna? Myndi kristinn maður, sem hefur þessa ábyrgð, vilja eiga eitthvað saman að sælda við Babýlon hina miklu með því að bjóða í verk eða gera verksamning sem auðveldaði einhverju trúfélagi að koma falskri tilbeiðslu á framfæri? Væri það ekki sambærilegt við að ákveða að selja sígarettur eða jólaskraut í eigin verslun? — 2. Korintubréf 6:14-16.
Ef hinn kristni er launþegi og ræður engu um það hvaða verkefni eru þegin þarf hann að íhuga aðra þætti, svo sem vinnustað og hlutdeild í verkinu. Er starfsmaðurinn einfaldlega beðinn um að afhenda eða raða upp nýjum stólum við eitthvert tækifæri eða inna af hendi almannaþjónustu, svo sem slökkvistarf í kirkju áður en eldur breiðist út? Mörgum myndi þykja munur á því og starfsmanni hjá verktaka sem vinnur klukkustundum saman við að mála kirkjuna eða vinnur þar að staðaldri sem garðyrkjumaður við að fegra garðinn. Slík regluleg eða langvinn störf auka líkurnar á því að margir setji hinn kristna í samband við trúfélag sem hann segist ekki aðhyllast, og það gæti hneykslað þá. — Matteus 13:41; 18:6, 7.
Við höfum bent hér á mörg mikilvæg atriði sem hugsa þarf um í tengslum við vinnu. Þau voru sett fram í sambandi við ákveðna spurningu tengda fölskum trúarbrögðum. En þau eiga alveg eins við um vinnu af öðru tagi. Í öllum tilvikum er rétt að brjóta málið til mergjar og gera það að bænarefni sínu, og taka tillit til þeirra sérstöku aðstæðna sem eiga við hverju sinni. Það sem hér hefur verið rætt hefur hjálpað mörgum einlægum kristnum mönnum að taka samviskusamlegar ákvarðanir sem bera vott um löngun þeirra að ganga ráðvandir frammi fyrir Jehóva og láta fætur sína troða beinar brautir. — Orðskviðirnir 3:5, 6; Jesaja 2:3; Hebreabréfið 12:12-14.
[Neðanmáls]
^ Kristið starfsfólk á spítölum hefur stundum þurft að velta fyrir sér þessum ábyrgðar- og forræðisþætti. Læknir hefur vald til að gefa fyrirmæli um lyfjagjöf og læknismeðferð sjúklings. Kristinn læknir gæti tæplega fyrirskipað blóðgjöf eða framkvæmt fóstureyðingu, þótt sjúklingurinn hefði ekkert á móti því, af því að hann veit hver afstaða Biblíunnar er til slíks. Hjúkrunarfræðingur á spítalanum hefur hins vegar ekki þetta vald. Læknir getur fyrirskipað hjúkrunarfræðingnum að gera blóðpróf ásamt öðrum störfum, eða að annast sjúkling sem ætlar að láta eyða fóstri. Í samræmi við dæmið, sem sagt er frá í 2. Konungabók 5:17-19, gæti hjúkrunarfræðingurinn hugsað sem svo að það sé ekki hann sjálfur sem fyrirskipar blóðgjöf eða framkvæmir fóstureyðingu, og veitt sjúklingnum þá þjónustu sem honum ber. En að sjálfsögðu þarf hann eftir sem áður að taka tillit til samviskunnar og gæta þess að ‚breyta með góðri samvisku fyrir Guði.‘ — Postulasagan 23:1.