Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Þetta á að verða“

„Þetta á að verða“

„Þetta á að verða“

„Jesús svaraði þeim: . . . ‚Þetta á að verða, en endirinn er ekki þar með kominn.‘“ — MATTEUS 24:4-6.

1. Hvaða máli ættum við að hafa áhuga á?

 ÞÚ HEFUR áreiðanlega áhuga á lífi þínu og framtíð. Þá ættirðu líka að hafa áhuga á máli sem vakti athygli C. T. Russels árið 1877. Russell, sem stofnaði síðar Varðturnsfélagið, skrifaði bæklinginn The Object and Manner of Our Lord’s Return (Markmið og eðli endurkomu Drottins). Bæklingurinn var 64 blaðsíður og fjallaði um endurkomu Jesú. (Jóhannes 14:3) Jesús var staddur á Olíufjallinu með postulum sínum þegar þeir spurðu hann um endurkomu sína: „Seg þú oss, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn komu þinnar [„nærveru,“ NW] og endaloka veraldar?“ — Matteus 24:3.

2. Af hverju eru margar ólíkar skoðanir á því hvað Jesús hafi sagt fyrir?

2 Þekkirðu og skilurðu svar Jesú sem er að finna í þrem af guðspjöllunum? Prófessor D. A. Carson segir: „Fáir kaflar Biblíunnar hafa vakið jafnmikinn ágreining meðal biblíuskýrenda og Matteus 24. kafli og hliðstæðar frásögur í Markúsi 13. kafla og Lúkasi 21. kafla.“ Síðan lætur hann í ljós sína eigin skoðun — sem er enn eitt dæmi um sundurleitar skoðanir manna. Margar slíkar skoðanir, sem komu fram á síðustu öld, báru vitni um trúleysi. Talsmenn þeirra héldu því fram að Jesús hefði aldrei sagt það sem við lesum í guðspjöllunum, heldur hafi orð hans verið færð í stílinn eða spár hans brugðist. Þessi sjónarmið áttu rætur sínar að rekja til æðri biblíugagnrýni. Einn biblíuskýrandi skoðaði jafnvel Markúsarguðspjall ‚út frá sjónarhóli mahayana-búddhatrúarheimspeki‘!

3. Hvaða augum líta vottar Jehóva spádóm Jesú?

3 Vottar Jehóva viðurkenna hins vegar Biblíuna sem áreiðanlega og ósvikna, þar á meðal það sem Jesús sagði postulunum fjórum sem með honum voru á Olíufjallinu þrem dögum fyrir dauða hans. Frá því að C. T. Russell var uppi hefur fólk Guðs jafnt og þétt fengið gleggri skilning á spádóminum sem Jesús bar fram þar. Á allra síðustu árum hefur Varðturninn aukið enn við skilning þeirra á þessum spádómi. Hefur þú drukkið í þig þessar upplýsingar og séð áhrif þeirra á líf þitt? * Rifjum þær upp.

Átakanleg uppfylling í nánd

4. Hver kann að vera ástæðan fyrir því að postularnir spurðu Jesú um framtíðina?

4 Postularnir vissu að Jesús var Messías. Þegar þeir heyrðu hann nefna dauða sinn, upprisu og endurkomu hlýtur þeim að hafa verið spurn hvernig hann gæti áorkað öllum þeim dásemdum, sem Messías átti að gera, ef hann dæi og hyrfi á brott. Og Jesús talaði um endalok Jesúsalem og musterisins. Postularnir hafa kannski velt fyrir sér hvenær þau yrðu og með hvaða hætti. Þeir voru að reyna að glöggva sig á þessu þegar þeir spurðu: „Hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn þess, að allt þetta sé að koma fram?“ — Markús 13:4; Matteus 16:21, 27, 28; 23:37–24:2.

5. Hvernig uppfylltust orð Jesú á fyrstu öld?

5 Jesús boðaði styrjaldir, hallæri, drepsóttir, jarðskjálfta, hatur og ofsóknir á hendur kristnum mönnum, falsmessíasa og víðtæka prédikun fagnaðarerindisins um ríkið. Þá átti endirinn að koma. (Matteus 24:4-14; Markús 13:5-13; Lúkas 21:8-19) Jesús sagði þetta snemma árs 33. Á áratugunum á eftir gátu vökulir lærisveinar hans séð hvernig það sem hann spáði rættist með markverðum hætti. Sagan sannar að táknið uppfylltist á þeim tíma og var undanfari þess að Rómverjar eyddu gyðingakerfinu á árunum 66-70. Hvernig gerðist það?

6. Hvernig var framvindan í samskiptum Rómverja og Gyðinga árið 66?

6 Sumarið 66 réðust sílótar Gyðinga á rómverska verði í virki nálægt musterinu í Jerúsalem. Þetta var kveikjan að ofbeldisverkum annars staðar í landinu. Prófessor Heinrich Graetz segir í bókinni History of the Jews: „Cestíus Gallus hafði það verkefni sem landstjóri Sýrlands að halda uppi heiðri herdeilda Rómar, . . . og gat ekki horft lengur upp á uppreisnina breiðast út án þess að aðhafast nokkuð til að stemma stigu við henni. Hann kallaði hersveitir sínar saman og grannhöfðingjar sendu herlið sitt sjálfviljuglega.“ Þessi 30.000 manna her umkringdi Jerúsalem. Eftir að hafa barist um hríð hörfuðu Gyðingar inn fyrir múrana umhverfis musterið. „Í fimm daga samfleytt gerðu Rómverjar áhlaup að múrunum en urðu alltaf að hörfa undan skeytum Júdeumanna. Það var ekki fyrr en á sjötta degi sem þeim tókst að grafa undan hluta af norðurmúrnum framan við musterið.“

7. Hvers vegna gátu lærisveinar Jesú haft annað sjónarmið en þorri Gyðinga?

7 Þú getur ímyndað þér hve ráðvilltir Gyðingar hljóta að hafa verið því að þeir höfðu löngum talið að Guð myndi vernda þá og hina helgu borg þeirra. En lærisveinar Jesú höfðu verið varaðir við að ógæfa biði Jerúsalem. Jesús hafði boðað: „Þeir dagar munu koma yfir þig, að óvinir þínir munu gjöra virki um þig, setjast um þig og þröngva þér á alla vegu. Þeir munu leggja þig að velli og börn þín, sem í þér eru, og ekki láta standa stein yfir steini í þér.“ (Lúkas 19:43, 44) En var þetta dauðadómur yfir kristnum mönnum sem voru í Jerúsalem árið 66?

8. Hvaða ógæfu boðaði Jesús og hverjir voru ‚hinir útvöldu‘ sem dagarnir yrðu styttir vegna?

8 Jesús spáði í svari sínu til postulanna á Olíufjallinu: „Á þeim dögum verður sú þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi sköpunar, er Guð skapaði, allt til þessa, og mun aldrei verða. Ef [Jehóva] hefði ekki stytt þessa daga, kæmist enginn maður af. En hann hefur stytt þá vegna þeirra, sem hann hefur útvalið.“ (Markús 13:19, 20; Matteus 24:21, 22) Dagarnir yrðu því styttir og ‚hinir útvöldu‘ myndu bjargast. Hverjir voru það? Ekki voru það hinir uppreisnarfullu Gyðingar sem sögðust tilbiðja Jehóva en höfðu hafnað syni hans. (Jóhannes 19:1-7; Postulasagan 2:22, 23, 36) Hinir útvöldu á þeim tíma voru Gyðingar og annarra þjóða menn sem iðkuðu trú á Jesú sem Messías og frelsara. Guð hafði útvalið þá og á hvítasunnunni árið 33 hafði hann gert þá að nýrri, andlegri þjóð, „Ísrael Guðs.“ — Galatabréfið 6:16; Lúkas 18:7; Postulasagan 10:34-45; 1. Pétursbréf 2:9.

9, 10. Hvernig voru árásardagar Rómverja ‚styttir‘ og með hvaða afleiðingum?

9 Voru dagarnir ‚styttir‘ og komust hinir smurðu og útvöldu í Jerúsalem af? Prófessor Graetz segir: „[Cestíus Gallus] taldi ekki ráðlegt að halda áfram bardögum gegn hetjulegum ofstækismönnum og eiga fyrir höndum langstæðan hernað á þessum árstíma þegar skammt var í haustrigningarnar . . . er gætu hindrað vistaflutninga til hersins. Það er sennilega ástæðan fyrir því að hann taldi hyggilegast að hörfa.“ Hvað svo sem Cestíus Gallus var að hugsa hvarf rómverski herinn frá borginni og Gyðingarnir, sem veittu honum eftirför, ollu miklum usla í liði hans.

10 Þetta óvænta undanhald Rómverja varð þess valdandi að ‚menn‘ komust af, það er að segja lærisveinar Jesú sem voru í lífshættu í Jerúsalem. Sagan greinir frá því að kristnir menn hafi flúið svæðið þegar þessi flóttaleið opnaðist. Þetta er glöggt dæmi um getu Guðs til að sjá framtíðina fyrir og tryggja að tilbiðjendur sínir bjargist. En hvað um vantrúa Gyðinga sem héldu kyrru fyrir í Jerúsalem og Júdeu?

Samtíðarmenn áttu að sjá þrenginguna

11. Hvað sagði Jesús um ‚þessa kynslóð‘?

11 Margir Gyðingar voru þeirrar skoðunar að tilbeiðslukerfi þeirra með miðstöð í musterinu ætti sér langa framtíð. En Jesús sagði: „Nemið líkingu af fíkjutrénu. Þegar greinar þess fara að mýkjast og laufið að springa út, þá vitið þér, að sumar er í nánd. Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið allt þetta, að hann er í nánd, fyrir dyrum. Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram. Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða.“ — Matteus 24:32-35.

12, 13. Hvernig hafa lærisveinarnir skilið orð Jesú um ‚þessa kynslóð‘?

12 Á árunum fram til 66 hafa kristnir menn séð marga þætti þessa samsetta tákns uppfyllast — styrjaldir, hallæri og jafnvel umfangsmikla boðun fagnaðarerindisins um ríkið. (Postulasagan 11:28; Kólossubréfið 1:23) En hvenær myndi endirinn koma? Hvað átti Jesús við þegar hann sagði: „Þessi kynslóð [geneaʹ á grísku] mun ekki líða undir lok“? Jesús hafði oft kallað hinn andsnúna fjölda Gyðinga, sem voru samtíða honum, ‚vonda og ótrúa kynslóð,‘ þeirra á meðal trúarleiðtogana. (Matteus 11:16; 12:39, 45; 16:4; 17:17; 23:36) Þegar hann talaði enn á ný um ‚þessa kynslóð‘ á Olíufjallinu átti hann augljóslega ekki við allan hinn gyðinglega kynstofn mannkynssögunnar, og ekki átti hann heldur við fylgjendur sína þótt þeir væru kallaðir „útvalin kynslóð.“ (1. Pétursbréf 2:9) Jesús var ekki heldur að segja að „þessi kynslóð“ væri tímabil.

13 Jesús átti við andsnúna Gyðinga á þeim tíma sem myndu lifa uppfyllingu táknsins sem hann gaf. Prófessor Joel B. Green segir um ‚þessa kynslóð‘ í Lúkasi 21:32: „Í þriðja guðspjallinu er ‚þessi kynslóð‘ (og skylt orðalag) stöðugt notað um flokk manna sem veitir tilgangi Guðs mótstöðu . . . um fólk sem snýr þrjóskulega baki við tilgangi Guðs.“ *

14. Hvað kom yfir ‚kynslóðina‘ en hvernig fór fyrir kristnum mönnum?

14 Hin vonda kynslóð andsnúinna Gyðinga, sem gat séð táknið uppfyllast, myndi einnig sjá endinn. (Matteus 24:6, 13, 14) Og það gerði hún svo sannarlega. Rómverski herinn sneri aftur árið 70 undir forystu Títusar, sonar Vespasíanusar keisara. Þjáningar Gyðinga, sem voru innikróaðir í borginni, eru nánast ólýsanlegar. * Flavíus Jósefus var sjónarvottur að atburðunum og hann segir að um 1.100.000 Gyðingar hafi látið lífið þegar Rómverjar eyðilögðu borgina, og að um 100.000 hafi verið teknir til fanga, en flestir þeirra hafi hlotið hryllilegan dauðdaga skömmu síðar, annaðhvort af völdum hungurs eða í rómverskum hringleikahúsum. Þrenging áranna 66-70 var svo sannarlega sú mesta sem Jerúsalem og gyðingakerfið hafði nokkurn tíma orðið fyrir og myndi verða fyrir. En kristnir menn höfðu hlýtt spádómlegri viðvörun Jesú og yfirgefið Jerúsalem eftir brotthvarf rómversku hersveitanna árið 66, og örlög þeirra urðu allt önnur. Smurðir kristnir menn, ‚hinir útvöldu,‘ ‚komust af‘ óhultir árið 70. — Matteus 24:16, 22.

Önnur uppfylling væntanleg

15. Hvernig getum við verið viss um að spádómur Jesú eigi að hljóta meiri uppfyllingu en varð árið 70?

15 En þetta var ekki lokauppfyllingin. Jesús hafði áður gefið til kynna að hann myndi koma í nafni Jehóva eftir að borginni væri eytt. (Matteus 23:38, 39; 24:2) Hann tók það síðan enn skýrar fram í spádómi sínum á Olíufjallinu. Eftir að hafa nefnt hina komandi ‚miklu þrengingu‘ sagði hann að falskristar myndu koma fram og að Jerúsalem yrði fótum troðin af heiðingjum um langt skeið. (Matteus 24:21, 23-28; Lúkas 21:24) Gat hugsast að spádómurinn ætti sér aðra og meiri uppfyllingu? Staðreyndirnar svara því játandi. Þegar við berum Opinberunarbókina 6:2-8 (sem var skrifuð eftir þrengingu Jerúsalemborgar árið 70) saman við Matteus 24:6-8 og Lúkas 21:10, 11 sjáum við að hernaður, matvælaskortur og drepsóttir voru framundan í meiri mæli en áður. Þessi meiri uppfylling orða Jesú hefur átt sér stað síðan fyrri heimsstyrjöldin braust út árið 1914.

16-18. Hvað væntum við að eigi eftir að gerast?

16 Vottar Jehóva hafa um áratuga skeið kennt að núverandi uppfylling táknsins sanni að ‚mikil þrenging‘ sé framundan. Hin núverandi illa „kynslóð“ mun sjá þrenginguna. Svo virðist sem aftur verði upphafskafli (árás á öll fölsk trúarbrögð) alveg eins og árás Gallusar árið 66 markaði upphaf þrengingarinnar í Jerúsalem. * Eftir hlé af ótiltekinni lengd kemur svo endirinn — eyðing á heimsmælikvarða sem samsvarar eyðingunni árið 70.

17 Jesús sagði um þrenginguna sem er rétt framundan: „Þegar eftir þrenging þessara daga [tortímingu falskra trúarbragða] mun sólin sortna og tunglið hætta að skína. Stjörnurnar munu hrapa af himni og kraftar himnanna bifast. Þá mun tákn Mannssonarins birtast á himni, og allar kynkvíslir jarðarinnar hefja kveinstafi. Og menn munu sjá Mannssoninn koma á skýjum himins með mætti og mikilli dýrð.“ — Matteus 24:29, 30.

18 Jesús segir því sjálfur að einhvers konar fyrirbæri verði á himni „eftir þrenging þessara daga.“ (Samanber Jóel 3:1-5, 20.) Óhlýðnum mönnum verður svo bilt við að þeir „hefja kveinstafi.“ Margir „munu gefa upp öndina af ótta og kvíða fyrir því, er koma mun yfir heimsbyggðina.“ En sannkristnir menn verða ekki í þeim hópi heldur munu þeir ‚lyfta upp höfðum sínum því að lausn þeirra er í nánd.‘ — Lúkas 21:25, 26, 28.

Dómur framundan

19. Hvernig getum við fundið út hvenær dæmisagan um sauðina og hafrana uppfyllist?

19 Þú tekur eftir að Matteus 24:29-31 boðar (1) að Mannssonurinn komi, (2) koma hans verður með mikilli dýrð, (3) englarnir verða í för með honum og (4) allar kynkvíslir jarðar munu sjá hann. Jesús endurtekur þessa þætti í dæmisögunni um sauðina og hafrana. (Matteus 25:31-46) Við getum því ályktað að dæmisagan fjalli um þann tíma, eftir að fyrri hluti þrengingarinnar brestur á, þegar Jesús kemur með englum sínum og sest í hásæti sitt til að dæma. (Jóhannes 5:22; Postulasagan 17:31; samanber 1. Konungabók 7:7; Daníel 7:10, 13, 14, 22, 26; Matteus 19:28.) Hverjir verða dæmdir og með hvaða afleiðingum? Dæmisagan sýnir að Jesús beinir athygli sinni að öllum þjóðum eins og þær væru samankomnar beint fyrir framan hásæti hans á himnum.

20, 21. (a) Hvað verður um sauðina í dæmisögu Jesú? (b) Hvað verður um hafrana í náinni framtíð?

20 Sauðumlíkir karlar og konur verða skilin frá og skipað við hægri hönd Jesú til tákns um hylli hans. Af hverju? Af því að þau notuðu tækifærin, sem þau höfðu, til að gera bræðrum Krists gott, það er að segja smurðum kristnum mönnum sem munu stjórna með honum á himnum. (Daníel 7:27; Hebreabréfið 2:9–3:1) Í samræmi við dæmisöguna hafa milljónir sauðumlíkra kristinna manna borið kennsl á andlega bræður Jesú og stutt þá í verki. Fyrir vikið hefur ‚múgurinn mikli‘ biblíulega von um að komast lifandi gegnum ‚þrenginguna miklu‘ og lifa síðan að eilífu í paradís, jarðneskum vettvangi Guðsríkis. — Opinberunarbókin 7:9, 14; 21:3, 4; Jóhannes 10:16.

21 En hlutskipti hafranna verður ólíkt. Þeim er svo lýst í Matteusi 24:30 að þeir ‚hefji kveinstafi‘ þegar Jesús kemur. Og þeir hafa ástæðu til því að þeir eru þekktir fyrir að hafna fagnaðarerindinu um ríkið, vera andsnúnir lærisveinum Jesú og kjósa heiminn sem fyrirferst. (Matteus 10:16-18; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Það er Jesús en enginn af lærisveinum hans á jörðinni sem ákveður hverjir hafrarnir eru. Hann segir um þá: „Þeir munu fara til eilífs afnáms.“ — Matteus 25:46, NW.

22. Hvaða hluti spádóms Jesú verðskuldar nánari athugun?

22 Stigvaxandi skilningur okkar á spádóminum í Matteusi 24. og 25. kafla er hrífandi. En einn þáttur í spádómi Jesú verðskuldar nánari athugun. Það er ‚viðurstyggð eyðingarinnar standandi á helgum stað.‘ Jesús hvatti fylgjendur sína til að athuga þetta mál og vera í viðbragðsstöðu. (Matteus 24:15, 16) Hver er þessi „viðurstyggð“? Hvenær stendur hún á helgum stað? Og hvernig tengist það lífshorfum okkar núna og í framtíðinni? Næsta grein fjallar um það.

[Neðanmáls]

^ Sjá námsgreinar í Varðturninum 1. júlí 1994, 1. febrúar 1996 og 1. október 1996.

^ Breski fræðimaðurinn G. R. Beasley-Murray segir: „Orðin ‚þessi kynslóð‘ ættu ekki að vefjast fyrir biblíuskýrendum. Þótt genea hafi í grísku fyrr á tímum merkt fæðing, afkvæmi og þar af leiðandi kynstofn . . . er það oftast [í grísku Sjötíumannaþýðingunni] þýðing hebreska orðsins dôr sem merkir aldur, aldur mannkyns eða kynslóð í merkingunni samtíðarmenn. . . . Í orðum, sem eignuð eru Jesú, virðist hugtakið hafa tvíþætta merkingu: Annars vegar merkir það alltaf samtíðarmenn hans, og hins vegar gefur það alltaf til kynna gagnrýni.“

^ Prófessor Graetz segir í bókinni History of the Jews að Rómverjar hafi stundum staurfest 500 fanga á dag. Stundum voru hendurnar höggnar af Gyðingum, sem þeir náðu, og þeir síðan sendir aftur inn í borgina. Hvernig var ástandið þar? „Peningar voru verðlausir því að brauð var ófáanlegt. Menn börðust örvæntingarfullir á götunum um viðbjóðslegustu og ógeðslegustu matarögn, hálmknippi, leðurpjötlu eða úrgang sem hent var fyrir hundana. . . . Lík hlóðust upp, sem ekki voru greftruð, svo að mollulegt sumarloftið varð heilsuspillandi og almenningur varð sjúkdómum, hungri og sverði að bráð.“

^ Næsta grein fjallar um þennan þátt hinnar væntanlegu þrengingar.

Manstu?

◻ Hvernig uppfylltist Matteus 24:4-14 á fyrstu öld?

◻ Hvernig voru dagarnir styttir á tímum postulanna svo að menn kæmust af eins og spáð var í Matteusi 24:21, 22?

◻ Hvað einkenndi ‚kynslóðina‘ sem nefnd er í Matteusi 24:34?

◻ Hvernig vitum við að spádómurinn á Olíufjallinu átti að hljóta aðra og meiri uppfyllingu?

◻ Hvenær og hvernig uppfyllist dæmisagan um sauðina og hafrana?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 19]

Lágmynd á Títusarboganum í Róm sem sýnir herfang frá Jerúsalem.

[Rétthafi]

Soprintendenza Archeologica di Roma