Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hve lengi er hægt að lifa?

Hve lengi er hægt að lifa?

Hve lengi er hægt að lifa?

Fólk er almennt langlífara en áður var. Það vekur þá spurningu hve lengi sé hægt að lifa.

ALFRÆÐIBÓKIN The New Encyclopædia Britannica (1995) segir að Pierre Joubert hafi áður fyrr verið talinn hafa lifað lengst allra manna. Hann lést árið 1814, þá 113 ára gamall. Að vísu eru til sagnir um langlífara fólk en aldur þess hefur ekki verið skjalfestur með trúverðugum hætti. Það er hins vegar vel skjalfest að margir hafa náð hærri aldri en Pierre Joubert.

Jeanne Louise Calment fæddist í Arles í suðaustanverðu Frakklandi hinn 21. febrúar árið 1874. Hún lést 4. ágúst 1997 — rösklega 122 ára — og var mikið fjallað um dauða hennar í fjölmiðlum. Japaninn Shigechiyo Izumi var 120 ára er hann lést árið 1986. Heimsmetabók Guinness 1999 segir að Sarah Knauss hafi verið elst manna er bókin var gerð. Hún fæddist 24. september árið 1880 í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Marie-Louise Febronie Meilleur í Quebec í Kanada var 26 dögum eldri en Sarah er hún lést árið 1998, þá 118 ára gömul.

Háöldruðu fólki hefur vissulega fjölgað verulega. Reiknað er með að á fyrri helmingi næstu aldar verði ríflega 2,2 milljónir manna í heiminum tíræðar. Fólki yfir áttrætt fjölgaði úr 26,7 milljónum árið 1970 í 66 milljónir árið 1998 eða um 147 prósent. Á sama tímabili fjölgaði íbúum jarðar um 60 af hundraði.

Og ekki nóg með það að fólk lifi lengur en áður heldur afreka margir hinna öldruðu ýmislegt sem flest tvítugt fólk getur ekki leikið eftir. Árið 1990 hljóp John Kelley maraþonhlaup — sem er 42,195 kílómetrar — á fimm klukkustundum og fimm mínútum. Hann var 82 ára. Mavis Lindgren hljóp sömu vegalengd árið 1991 á sjö klukkustundum og níu mínútum. Hún var 84 ára langamma. Og ekki er langt síðan 91 árs gamall maður lauk New York maraþoninu!

Ekki svo að skilja að aldraðir hafi ekki unnið ótrúleg afrek forðum daga. Abraham, einn af ættfeðrum biblíusögunnar, var 99 ára þegar hann „hljóp til móts við“ gesti sína. Kaleb var 85 ára er hann sagði: „Orka mín er enn hin sama og hún var þá [45 árum áður] til að berjast og til að ganga út og inn.“ Og Biblían segir um Móse þegar hann var 120 ára: „Eigi glapnaði honum sýn, og eigi þvarr þróttur hans.“ — 1. Mósebók 18:2, Biblíurit, ný þýðing 1995; Jósúabók 14:10, 11; 5. Mósebók 34:7.

Jesús Kristur talaði um hinn fyrsta mann, Adam, og arkarsmiðinn Nóa sem sannsögulegar persónur. (Matteus 19:4-6; 24:37-39) Fyrsta Mósebók segir að Adam hafi náð 930 ára aldri og Nói hafi orðið 950 ára. (1. Mósebók 5:5; 9:29) Hefur fólk í raun og veru lifað svona lengi? Er hugsanlegt að við getum lifað enn lengur en það, jafnvel að eilífu? Kannaðu rökin fyrir því í greininni á eftir.