Vertu árvakur og iðjusamur
Vertu árvakur og iðjusamur
„Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.“ — MATTEUS 25:13.
1. Til hvers hlakkaði Jóhannes postuli?
Í SÍÐASTA samtali sínu í Biblíunni lofaði Jesús: „Ég kem skjótt.“ Jóhannes, postuli hans, svaraði: „Amen. Kom þú, Drottinn Jesús!“ Postulinn efaðist ekki um að Jesús kæmi. Jóhannes var einn af postulunum sem spurðu Jesú: „Hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn komu [á grísku parósía eða nærveru] þinnar og endaloka veraldar?“ Já, Jóhannes hlakkaði til framtíðarnærveru Jesú og treysti á hana. — Opinberunarbókin 22:20; Matteus 24:3.
2. Hvernig hugsa kirkjurnar um nærveru Jesú?
2 Slíkt trúartraust er sjaldgæft nú á tímum. Mörg kirkjufélög hafa opinbera kenningu um „komu“ Jesú en fáir búast raunverulega við henni. Og þeir hegða sér samkvæmt því. Bókin The Parousia in the New Testament segir: „Parósíuvonin hefur varla marktæk áhrif á líf, hugsunarhátt eða starf kirkjunnar. . . . Hin brennandi ákefð, sem kirkjan ætti að sýna í iðrunarstarfi sínu og boðun fagnaðarerindisins, er máttlaus eða jafnvel algerlega glötuð.“ En ekki hjá öllum.
3. (a) Hvernig hugsa sannkristnir menn um parósíuna? (b) Hvað ætlum við sérstaklega að fjalla um núna?
3 Sannir lærisveinar Jesú bíða óþreyjufullir eftir endalokum hins núverandi illa heimskerfis. En jafnhliða því þurfa þeir að hafa rétt viðhorf til alls sem fólgið er í nærveru Jesú og hegða sér samkvæmt því. Þá geta þeir verið ‚staðfastir allt til enda og orðið hólpnir.‘ (Matteus 24:13) Samhliða spádómi sínum í Matteusi 24. og 25. kafla gaf Jesús viturleg ráð sem við getum farið eftir okkur til varanlegs gagns. Í 25. kaflanum eru dæmisögur sem þú þekkir sennilega, þeirra á meðal dæmisagan um meyjarnar tíu (hinar vitru og fávísu) og dæmisagan um talenturnar. (Matteus 25:1-30) Hvaða gagn getum við haft af þessum dæmisögum?
Verum árvökur eins og meyjarnar fimm
4. Endursegðu dæmisöguna um meyjarnar í stuttu máli.
4 Það gæti verið gott fyrir þig að lesa aftur dæmisöguna um meyjarnar í Matteusi 25:1-13. Sögusviðið er brúðkaup mikið að gyðinglegum hætti þar sem brúðguminn sækir brúðina heim til föður hennar og fylgir henni á heimili sitt (eða föður síns). Í slíkri hópgöngu gátu verið söngvarar og hljóðfæraleikarar, og komutíminn var óviss. Dæmisagan segir frá tíu meyjum sem biðu fram á nótt eftir að brúðguminn kæmi. Fimm höfðu verið svo fávísar að hafa ekki meðferðis næga ljósaolíu svo að þær urðu að fara til að kaupa meira. Hinar fimm sýndu þá fyrirhyggju að hafa með sér aukaolíu á könnum til að geta fyllt á lampa sína ef með þyrfti meðan þær biðu. Þessar fimm voru reiðubúnar þegar brúðguminn kom og þær einar fengu inngöngu í veisluna. Fávísu meyjarnar fimm komu of seint til brúðkaupsins og var ekki hleypt inn.
5. Hvaða ritningarstaðir varpa ljósi á táknræna merkingu dæmisögunnar um meyjarnar?
5 Margt í þessari dæmisögu hefur táknræna merkingu. Til dæmis talar Ritningin um Jesú sem brúðguma. (Jóhannes 3:28-30) Hann líkti sjálfum sér við konungsson sem búin var brúðkaupsveisla. (Matteus 22:1-14) Og Biblían líkir Kristi við eiginmann. (Efesusbréfið 5:23) Athygli vekur að engin brúður er nefnd í dæmisögunni þótt smurðir kristnir menn séu annars staðar kallaðir „brúður“ Krists. (Jóhannes 3:29; Opinberunarbókin 19:7; 21:2, 9) Dæmisagan talar hins vegar um tíu meyjar, og hinum smurðu er annars staðar líkt við mey sem er heitbundin Kristi. — 2. Korintubréf 11:2. *
6. Hvaða hvatningu kom Jesús með í lok dæmisögunnar um meyjarnar?
6 Auk þessa og spádómlegrar þýðingar þess má draga marga góða lærdóma af dæmisögunni. Við tökum til dæmis eftir að Jesús lauk henni með orðunum: „Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.“ Boðskapur dæmisögunnar er því sá að allir þurfi að vera vökulir gagnvart yfirvofandi endi þessa illa heimskerfis. Þessi endir nálgast óumdeilanlega þótt við getum ekki sagt til um daginn. Við skulum taka eftir afstöðu meyjahópanna tveggja í þessu sambandi.
7. Í hvaða skilningi reyndust fimm af meyjunum í dæmisögunni fávísar?
7 Jesús sagði: „Fimm þeirra voru fávísar.“ Trúðu þær ekki að brúðguminn væri að koma? Voru þær að skemmta sér annars staðar? Eða létu þær blekkjast? Nei, Jesús sagði að þessar fimm meyjar hafi ‚farið til móts við brúðgumann.‘ Þær vissu að hann var væntanlegur og vildu taka á móti honum, jafnvel vera með í ‚brúðkaupinu.‘ En voru þær nógu vel undirbúnar? Þær biðu hans um stund, fram til ‚miðnættis,‘ en þær voru ekki viðbúnar komu hans hvenær sem hún yrði — hvort sem hann kæmi fyrr en þær höfðu upphaflega búist við eða síðar.
8. Hvernig reyndust fimm af meyjunum í dæmisögunni hyggnar?
8 Hinar fimm — þær sem Jesús kallaði hyggnar — fóru líka út með logandi lampa til að bíða brúðgumans. Þær þurftu líka að bíða en voru „hyggnar.“ Gríska orðið, sem þýtt er „hyggnar,“ getur merkt „forsjáll, skynsamur, fyrirhyggjusamur.“ Þessar fimm meyjar sýndu hyggindi sín með því að taka með sér aukaolíu á könnum til að fylla á lampa sína ef nauðsyn krefði. Þeim var svo mikið í mun að vera tilbúnar þegar brúðguminn kæmi að þær vildu alls ekki gefa öðrum olíuna. Þessi forsjálni kom sér vel því að þær voru á staðnum og reiðubúnar að taka á móti brúðgumanum þegar hann kom. „Þær sem viðbúnar voru, gengu með honum inn til brúðkaupsins, og dyrum var lokað.“
9, 10. Hvað var Jesús að kenna með dæmisögunni um meyjarnar og hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur?
9 Jesús var hvorki að kenna hvað væri viðeigandi velsæmi í brúðkaupi né leiðbeina um sameiginleg afnot. Lexían var þessi: „Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.“ Spyrðu þig hvort þú sért í raun og veru vakandi gagnvart nærveru Jesú. Við trúum að hann ríki á himnum núna, en hversu skýrt höfum við í sjónmáli þann veruleika að ‚Mannssonurinn komi bráðlega á skýjum himins með mætti og mikilli dýrð‘? (Matteus 24:30) Á „miðnætti“ var vissulega skemmra í komu brúðgumans en þá er meyjarnar lögðu af stað til móts við hann. Koma Mannssonarins til að eyða núverandi illu heimskerfi er líka nær núna en hún var þegar við byrjuðum að hlakka til komu hans. (Rómverjabréfið 13:11-14) Höfum við haldið árvekni okkar og erum við sífellt betur vakandi eftir því sem tíminn nálgast?
10 Það kostar stöðuga árvekni að halda vöku sinni. Fimm af meyjunum létu olíuna ganga til þurrðar og fóru til að kaupa meira. Kristinn maður nú á tímum gæti líka orðið svo annars hugar að hann væri ekki fyllilega búinn undir yfirvofandi komu Jesú. Þannig fór fyrir sumum kristnum mönnum á fyrstu öld og þannig getur farið fyrir sumum núna. Hver og einn ætti því að spyrja sig hvort það sé að gerast hjá sér. — 1. Þessaloníkubréf 5:6-8; Hebreabréfið 2:1; 3:12; 12:3; Opinberunarbókin 16:15.
Vertu iðjusamur er endirinn nálgast
11. Hvaða dæmisögu sagði Jesús næst og hvaða annarri dæmisögu líkist hún?
11 Í næstu dæmisögu gekk Jesús lengra en að hvetja fylgjendur sína til árvekni. Eftir að hafa sagt dæmisöguna um hyggnu meyjarnar og hinar fávísu sagði hann dæmisöguna um talenturnar. (Lestu Matteus 25:14-30.) Að mörgu leyti er hún áþekk dæmisögunni um pundin sem Jesús sagði af því að margir „ætluðu, að Guðs ríki mundi þegar birtast.“ — Lúkas 19:11-27.
12. Endursegðu dæmisöguna um talenturnar í stuttu máli.
12 Í dæmisögunni um talenturnar segir Jesús frá manni sem kallar á þrjá þjóna sína áður en hann ferðast úr landi. Einum felur hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja aðeins eina — „hverjum eftir hæfni.“ Trúlega er hér átt við silfurtalentu sem var stöðluð upphæð og samsvaraði á þeim tíma 14 árslaunum verkamanns. Þetta voru verulegir fjármunir. „Löngu síðar“ snýr maðurinn heim aftur og lætur þjónana gera grein fyrir störfum sínum meðan hann var fjarverandi. Fyrstu tveir þjónarnir höfðu tvöfaldað þau verðmæti sem þeim var trúað fyrir. „Gott,“ sagði húsbóndinn, hét þeim báðum meiri ábyrgð og bauð þeim að ‚ganga inn í fögnuð herra síns.‘ Sá sem fengið hafði eina talentu staðhæfði að húsbóndinn væri með afbrigðum kröfuharður. Hann hafði ekki notað talentuna á arðbæran hátt heldur falið hana. Hann lagði féð ekki einu sinni í banka þar sem það hefði borið vexti. Húsbóndinn kallaði hann ‚illan og latan‘ af því að hann hafði unnið gegn hagsmunum hans. Talentan var því tekin af honum og hann var rekinn út þar sem var „grátur og gnístran tanna.“
13. Hvernig reyndist Jesús vera eins og húsbóndinn í dæmisögunni?
13 Hinir ýmsu þættir þessarar dæmisögu hafa líka táknræna merkingu. Maðurinn, sem fór úr landi, táknar Jesú sem yfirgaf lærisveinana, fór til himna og beið þar lengi uns hann tók við konungdómi. * (Sálmur 110:1-4; Postulasagan 2:34-36; Rómverjabréfið 8:34; Hebreabréfið 10:12, 13) En við getum líka dregið almennan lærdóm af dæmisögunni sem við ættum öll að taka til okkar. Hver er hann?
14. Á hvaða nauðsyn leggur dæmisagan um talenturnar áherslu?
14 Hvort sem við berum í brjósti von um ódauðleika á himnum eða eilíft líf í paradís á jörð er ljóst af dæmisögu Jesú að við ættum að leggja okkur vel fram í kristnu starfi. Reyndar má draga boðskap þessarar dæmisögu saman í eitt orð: iðjusemi. Postularnir gáfu réttu fyrirmyndina frá og með hvítasunnunni árið 33. Við lesum: „Með öðrum fleiri orðum vitnaði [Pétur], áminnti þá og sagði: ‚Látið frelsast frá þessari rangsnúnu kynslóð.‘“ (Postulasagan 2:40-42) Og hann sá stórkostlegan árangur af erfiði sínu. Þeir sem gengu í lið með postulunum í prédikun kristninnar voru líka iðjusamir svo að fagnaðarerindið ‚óx í öllum heiminum.‘ — Kólossubréfið 1:3-6, 23; 1. Korintubréf 3:5-9.
15. Hvernig ættum við sérstaklega að taka til okkar kjarna dæmisögunnar um talenturnar?
15 Höfum samhengi dæmisögunnar í huga en það var spádómur um nærveru Jesú. Við höfum meira en næga staðfestingu á því að parósía Jesú stendur yfir og nær bráðlega hámarki. Munum hvernig hann tengdi ‚endinn‘ því verki sem kristnir menn þurfa að vinna: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14) Með þetta í huga geturðu spurt þig: Hvers konar þjóni líkist ég? Er ástæða til að ætla að þú líkist þjóninum sem faldi það sem honum var treyst fyrir, kannski til að sinna eigin hagsmunum. Er ljóst að þú líkist góðu og trúu þjónunum? Ertu staðráðinn í að nota hvert tækifæri til að auka eigur húsbóndans?
Árvakrir og iðjusamir á nærverutíma hans
16. Hvaða boðskapur er fólginn í dæmisögunum tveim sem við höfum fjallað um?
16 Já, auk þess að hafa táknræna og spádómlega merkingu innihalda dæmisögurnar tvær skýra hvatningu beint af munni Jesú. Boðskapur hans er þessi: Vertu árvakur og vertu iðjusamur, einkum þegar tákn parósíu Krists blasir við. Það er núna. Erum við árvökur og iðjusöm í raun og veru?
17, 18. Hvað ráðlagði lærisveinninn Jakob í sambandi við nærveru Jesú?
17 Jakob, hálfbróðir Jesú, var ekki á Olíufjallinu til að heyra spádóm hans, en hann kynntist spádóminum síðar og skildi greinilega þýðingu hans. Hann skrifaði: „Þreyið því, bræður, þangað til Drottinn kemur. Sjáið akuryrkjumanninn, hann bíður eftir hinum dýrmæta ávexti jarðarinnar og þreyir eftir honum, þangað til hann hefur fengið haustregn og vorregn. Þreyið og þér, styrkið hjörtu yðar, því að koma [nærvera] Drottins er í nánd.“ — Jakobsbréfið 5:7, 8.
18 Jakob fullvissaði kristna menn um að Guð dæmir harðlega þá sem misnota auð sinn og hvatti þá til að vera ekki óþolinmóðir er þeir biðu þess að Guð léti til sín taka. Kristinn maður, sem er óþolinmóður, getur orðið hefnigjarn, rétt eins og hann eigi sjálfur rétt á að leiðrétta það sem rangt er gert. En það ætti hann ekki að gera af því að dómstíminn rennur örugglega upp. Jakob nefnir akuryrkjumanninn sem dæmi til að sýna fram á það.
19. Hvers konar þolinmæði gat ísraelskur bóndi sýnt?
19 Ísraelskur bóndi, sem sáði í akur sinn, þurfti fyrst að bíða eftir að jurtin kæmi upp, síðan eftir því að hún þroskaðist og loks eftir uppskerunni. (Lúkas 8:5-8; Jóhannes 4:35) Þetta tók nokkra mánuði sem buðu upp á tíma og jafnvel tilefni til að hafa einhverjar áhyggjur. Yrðu vorrigningarnar tímanlegar og nægar? Hvað um haustrigningarnar? Gætu skordýr eða stormur drepið plönturnar? (Samanber Jóel 1:4; 2:23-25.) Að jafnaði gat bóndinn í Ísrael þó treyst Jehóva og hringrásum náttúrunnar sem hann hafði komið af stað. (5. Mósebók 11:14; Jeremía 5:24) Þolinmæði bóndans jafngilti eiginlega trausti og öruggri von. Hann trúði og vissi að það sem hann beið eftir myndi örugglega koma.
20. Hvernig getum við sýnt þolinmæði í samræmi við ráðleggingar Jakobs?
20 Bóndinn hafði einhverja vitneskju um það hvenær hann mætti vænta uppskerunnar, en kristnir menn á fyrstu öld gátu ekki reiknað út hvenær nærvera Jesú yrði. En hún myndi örugglega eiga sér stað. Jakob skrifaði: „Koma [á grísku parósía eða nærvera] Drottins er í nánd.“ Þegar hann skrifaði þetta var hið víðtæka nærverutákn Krists um heim allan enn ekki sýnilegt. En það blasir við núna! Hvernig ætti okkur þá að vera innanbrjósts? Táknið er raunverulega sýnilegt. Við sjáum það. Við getum sagt með öryggi: ‚Ég sé að táknið er að koma fram.‘ Við getum sagt með trúartrausti: ‚Nærvera Drottins stendur yfir og hámark hennar er í nánd.‘
21. Hvað erum við algerlega staðráðin í að gera?
21 Af þessum sökum er sérstaklega mikilvægt að taka til sín þau grundvallaratriði sem við höfum lært af þeim tveim dæmisögum Jesú sem við höfum fjallað um. Hann sagði: „Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.“ (Matteus 25:13) Núna er tvímælalaust rétti tíminn til að vera kostgæfinn í kristinni þjónustu okkar. Við skulum því sýna daglega með líferni okkar að við skiljum það sem Jesús var að koma á framfæri. Verum árvökur og verum iðjusöm!
[Neðanmáls]
^ Nánar er fjallað um táknræna þætti dæmisögunnar í bókinni God’s Kingdom of a Thousand Years Has Approached (Þúsundáraríki Guðs er í nánd), bls. 169-211, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
^ Sjá bókina God’s Kingdom of a Thousand Years Has Approached, bls. 212-56.
Manstu?
◻ Hvaða meginlærdóm hefurðu dregið af dæmisögunni um hyggnu og fávísu meyjarnar?
◻ Hvað er Jesús að ráðleggja þér í dæmisögunni um talenturnar?
◻ Í hvaða skilningi er þolinmæði þín gagnvart parósíunni lík þolinmæði bóndans?
◻ Af hverju er sérstaklega spennandi og krefjandi að lifa nú á tímum?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 31]
Hvaða lærdóm dregur þú af dæmisögunni um meyjarnar og dæmisögunni um talenturnar?