Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Höldum áfram að ganga á vegi Jehóva

Höldum áfram að ganga á vegi Jehóva

Höldum áfram að ganga á vegi Jehóva

„Vona á [Jehóva] og gef gætur að vegi hans, þá mun hann hefja þig upp, að þú erfir landið.“ — SÁLMUR 37:34.

1, 2. Hvað þýddi það fyrir Davíð konung að ganga á vegi Jehóva og hvers krefst það af okkur núna?

 „GJÖR mér kunnan þann veg, er ég á að ganga, því að til þín hef ég sál mína.“ (Sálmur 143:8) Kristnir menn nú á tímum taka af öllu hjarta undir þessi orð Davíðs konungs. Þeir þrá í einlægni að þóknast Jehóva og ganga á vegi hans. Hvað felur það í sér? Fyrir Davíð þýddi það að halda lög Guðs. Það fól í sér að treysta á Jehóva en ekki á bandalag við þjóðirnar. Og það þýddi að þjóna honum með hollustu en ekki guðum grannþjóðanna. Fyrir kristna menn er fleira fólgið í því að ganga á vegi Jehóva.

2 Að ganga á vegi Jehóva nú á tímum merkir meðal annars að iðka trú á lausnarfórn Jesú Krists, að viðurkenna hann sem ‚veginn, sannleikann og lífið.‘ (Jóhannes 3:16; 14:6; Hebreabréfið 5:9) Það merkir líka að uppfylla „lögmál Krists“ sem felur í sér að sýna hver öðrum kærleika, einkum smurðum bræðrum hans. (Galatabréfið 6:2; Matteus 25:34-40) Þeir sem ganga á vegi Jehóva elska boð hans og meginreglur. (Sálmur 119:97; Orðskviðirnir 4:5, 6) Þeir meta mikils þau dýrmætu sérréttindi að taka þátt í hinni kristnu þjónustu. (Kólossubréfið 4:17; 2. Tímóteusarbréf 4:5) Bænin er fastur liður í lífi þeirra. (Rómverjabréfið 12:12) Og þeir ‚hafa nákvæma gát á hvernig þeir breyta, ekki sem fávísir heldur sem vísir.‘ (Efesusbréfið 5:15) Þeir fórna alls ekki andlegum auði fyrir skammvinnan, efnislegan hagnað eða óleyfilega, holdlega nautn. (Matteus 6:19, 20; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Og hollusta við Jehóva og traust til hans skiptir öllu máli. (2. Korintubréf 1:9; 10:5; Efesusbréfið 4:24) Af hverju? Af því að við erum í mjög líkri aðstöðu og Ísrael fortíðar.

Þörfin á trausti og hollustu

3. Hvernig hjálpar hollusta, trú og traust okkur að halda áfram að ganga á vegi Jehóva?

3 Ísrael var smáþjóð umkringd óvinveittum grannríkjum sem tilbáðu skurðgoð sín með lostafengnum athöfnum. (1. Kroníkubók 16:26) Aðeins Ísraelsmenn þjónuðu hinum sanna og ósýnilega Jehóva Guði og hann krafðist þess að siðferði þeirra væri á háu stigi. (5. Mósebók 6:4) Eins er það núna að einungis fáeinar milljónir manna tilbiðja Jehóva og þær búa meðal næstum sex milljarða manna sem hafa allt önnur trúarviðhorf og siðferðisreglur. Ef við tilheyrum þessum fáeinu milljónum, þá verðum við að vera á varðbergi til að verða ekki fyrir röngum áhrifum. Hvernig þá? Með hollustu við Jehóva Guð, trú á hann og óhagganlegu trausti á að hann uppfylli fyrirheit sín. (Hebreabréfið 11:6) Það kemur í veg fyrir að við setjum traust okkar á það sem heimurinn vonar á. — Orðskviðirnir 20:22; 1. Tímóteusarbréf 6:17.

4. Af hverju eru þjóðirnar ‚skilningsblindar‘?

4 Páll postuli bendir á að kristnir menn verði að vera mjög ólíkir heiminum. Hann segir: „Þetta segi ég þá og vitna í nafni Drottins: Þér megið ekki framar hegða yður eins og heiðingjarnir hegða sér. Hugsun þeirra er allslaus, skilningur þeirra blindaður og þeir eru fjarlægir lífi Guðs vegna vanþekkingarinnar, sem þeir lifa í, og síns harða hjarta.“ (Efesusbréfið 4:17, 18) Jesús er „hið sanna ljós.“ (Jóhannes 1:9) Þeir sem hafna honum eða segjast trúa á hann en hlýða ekki ‚lögmáli Krists‘ eru ‚skilningsblindir.‘ Þeir eru „fjarlægir lífi Guðs“ í stað þess að ganga á vegi hans. Hversu veraldarvitrir sem þeim finnst þeir vera, lifa þeir í ‚vanþekkingu‘ af því að þeir hafa ekki þekkinguna sem leiðir til lífs, þekkinguna á Jehóva Guði og Jesú Kristi. — Jóhannes 17:3; 1. Korintubréf 3:19.

5. Af hverju eru hjörtu margra ómóttækileg þótt ljós sannleikans skíni í heiminum?

5 En ljós sannleikans skín í heiminum! (Sálmur 43:3; Filippíbréfið 2:15) „Spekin kallar hátt á strætunum.“ (Orðskviðirnir 1:20) Á síðasta ári vörðu vottar Jehóva meira en milljarði klukkustunda í að segja nágrönnum sínum frá Jehóva Guði og Jesú Kristi. Hundruð þúsunda manna brugðust vel við. En ætti það að koma okkur á óvart að margir sýni engin viðbrögð? Nei, Páll talar um ‚hart hjarta þeirra.‘ Hjörtu sumra eru ónæm vegna eigingirni eða fégirndar. Sumir eru undir áhrifum falstrúarbragða eða veraldlegra viðhorfa sem eru ákaflega útbreidd núna. Þungbær lífsreynsla hefur gert marga afhuga Guði. Og sumir vilja ekki lifa eftir hinum háu siðferðiskröfum hans. (Jóhannes 3:20) Getur maður, sem gengur á vegi Jehóva, orðið ónæmur í hjarta sér að þessu leyti?

6, 7. Hvað varð Ísraelsmönnum að falli þótt þeir tilbæðu Jehóva og hvers vegna?

6 Það gerðist í Forn-Ísrael eins og Páll bendir á. Hann skrifar: „Þessir hlutir hafa gjörst sem fyrirboðar fyrir oss, til þess að vér verðum ekki sólgnir í það, sem illt er, eins og þeir urðu sólgnir í það. Verðið ekki skurðgoðadýrkendur, eins og nokkrir þeirra. Ritað er: ‚Lýðurinn settist niður til að eta og drekka, og þeir stóðu upp til að leika.‘ Drýgjum ekki heldur hórdóm, eins og nokkrir þeirra drýgðu hórdóm, og tuttugu og þrjár þúsundir féllu á einum degi.“ — 1. Korintubréf 10:6-8.

7 Páll minnist fyrst á það er Ísraelsmenn tilbáðu gullkálfinn við rætur Sínaífjalls. (2. Mósebók 32:5, 6) Það var hrein óhlýðni við boðorð frá Guði sem þeir höfðu fallist á að hlýða fáeinum vikum áður. (2. Mósebók 20:4-6; 24:3) Síðan nefnir Páll það er Ísraelsmenn féllu fram fyrir Baal með Móabsdætrum. (4. Mósebók 25:1-9) Kálfadýrkun einkenndist af gríðarlegu nautnalífi og skemmtanagleði. * Svívirðilegt siðleysi fylgdi Baalsdýrkuninni. (Opinberunarbókin 2:14) Af hverju drýgðu Ísraelsmenn þessar syndir? Af því að þeir leyfðu hjarta sínu að verða ‚sólgið í það sem illt var‘ — hvort heldur það var skurðgoðadýrkunin eða hinar lostafullu athafnir sem fylgdu henni.

8. Hvað getum við lært af reynslu Ísraels?

8 Páll gefur í skyn að við eigum að læra af þessum atburðum. Hvað? Það er óhugsandi að kristinn maður falli fram fyrir gullkálfi eða fornum móabískum guði. En hvað um siðleysi eða taumlaust nautnalíf? Það er mjög algengt nú á dögum og ef við leyfum að löngun í slíkt vaxi í hjarta okkar verðum við viðskila við Jehóva. Afleiðingin verður sú sama og hefðum við tekið þátt í skurðgoðadýrkun — við verðum fráhverf Guði. (Samanber Kólossubréfið 3:5; Filippíbréfið 3:19.) Páll lýkur reyndar umræðu sinni um þessa atburði með hvatningunni: „Flýið skurðgoðadýrkunina.“ — 1. Korintubréf 10:14.

Hjálp til að ganga á vegi Guðs

9. (a) Hvaða hjálp fáum við til að halda okkur gangandi á vegi Jehóva? (b) Nefndu dæmi um hvernig við heyrum ‚orðin kölluð á eftir okkur.‘

9 Við erum ekki hjálparvana ef við erum staðráðin í að halda áfram að ganga á vegi Jehóva. Jesaja spáði: „Eyru þín munu heyra þessi orð kölluð á eftir þér, þá er þér víkið til hægri handar eða vinstri: ‚Hér er vegurinn! Farið hann!‘“ (Jesaja 30:21) Hvernig heyra ‚eyru okkar þessi orð kölluð á eftir okkur‘? Enginn heyrir bókstaflega rödd kalla eða fær persónuleg boð frá Guði. ‚Orðin,‘ sem við heyrum, berast okkur öllum á sama hátt. Fyrst og fremst eru þau kölluð í hinni innblásnu ritningu, Biblíunni, sem hefur að geyma hugsanir Guðs og frásagnir af samskiptum hans við menn. Þar eð daglega dynur á okkur áróður frá þeim sem eru „fjarlægir lífi Guðs“ þurfum við að lesa Biblíuna og hugleiða hana að staðaldri til að halda góðri andlegri heilsu. Það hjálpar okkur að forðast það sem er ‚fánýtt‘ og vera ‚albúin og hæf til sérhvers góðs verks.‘ (Postulasagan 14:14, 15; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Það styrkir okkur, eflir og gerir okkur ‚gæfusöm.‘ (Jósúabók 1:7, 8) Orð Jehóva hvetur því: „Og nú, þér yngismenn, hlýðið mér, því að sælir eru þeir, sem varðveita vegu mína. Hlýðið á aga, svo að þér verðið vitrir, og látið hann eigi sem vind um eyrun þjóta.“ — Orðskviðirnir 8:32, 33.

10. Nefndu annað dæmi um hvernig við heyrum ‚orð kölluð á eftir okkur.‘

10 ‚Orðin kölluð á eftir okkur‘ koma líka frá ‚hinum trúa og hyggna þjóni‘ sem sér okkur fyrir „mat á réttum tíma.“ (Matteus 24:45-47) Þessi ‚matur‘ er meðal annars látinn í té í biblíutengdum ritum og hefur verið ríkulega fram borinn á síðustu árum. Tímaritið Varðturninn hefur til dæmis fágað skilning okkar á spádómunum. Þetta tímarit hefur hvatt okkur til að halda ótrauð áfram að prédika og gera menn að lærisveinum þrátt fyrir vaxandi áhugaleysi fólks, það hefur hjálpað okkur að forðast tálgryfjur og hvatt okkur til að þroska með okkur góða kristna eiginleika. Við metum mikils slíka fæðu á réttum tíma.

11. Nefndu þriðja dæmið um hvernig ‚orð eru kölluð á eftir okkur.‘

11 Hinn trúi og hyggni þjónn lætur okkur líka í té fæðu á reglubundnum samkomum, bæði vikulegum safnaðarsamkomum, svæðismótum tvisvar á ári og á árlegum umdæmismótum. Sérhver trúfastur kristinn maður kann að meta þessar samkomur. Þær eru okkur mikilvæg hjálp til að ganga á vegi Jehóva. Margir þurfa að eyða miklum tíma í vinnu eða skóla innan um fólk sem er annarrar trúar svo að reglulegt samneyti við trúsystkini okkar er hreinlega lífsnauðsyn. Samkomurnar eru gott tækifæri til að ‚hvetja hver annan til kærleika og góðra verka.‘ (Hebreabréfið 10:24) Við elskum bræður okkar og njótum þess að vera með þeim. — Sálmur 133:1.

12. Í hverju eru vottar Jehóva staðráðnir og hvernig létu þeir það í ljós fyrir nokkru?

12 Nálega sex milljónir manna ganga á vegi Jehóva og sækja styrk í þessa andlegu fæðu, og milljónir manna að auki eru að kynna sér Biblíuna til að læra það. Eru þeir kjarklitlir og máttlitlir af því að þeir eru fáir í samanburði við milljarðana sem byggja jörðina? Alls ekki. Þeir eru staðráðnir í að halda áfram að hlýða ‚orðunum sem kölluð eru á eftir þeim‘ og gera vilja Jehóva trúfastlega. Til að láta þessa staðfestu sína opinberlega í ljós samþykktu gestir á umdæmis- og alþjóðamótunum „Lífsvegur Guðs“ árið 1998-9 yfirlýsingu um einlæga afstöðu sína. Texti yfirlýsingarinnar fer hér á eftir:

Yfirlýsing

13, 14. Hvaða raunhæfa afstöðu hafa vottar Jehóva til heimsástandsins?

13 „Við, vottar Jehóva, sem erum samankomnir á umdæmismótinu ‚Lífsvegur Guðs,‘ erum heilshugar sammála um að vegur Guðs sé besti lífsvegurinn sem til er. Okkur er samt sem áður ljóst að meirihluti mannkyns er á öðru máli. Mannfélagið hefur prófað fjölmargar hugmyndir, heimspeki og trúarkenningar um hver sé besti lífsvegurinn. Heiðarleg athugun á mannkynssögunni og núverandi heimsástandi styður sannleiksgildi yfirlýsingar Guðs sem er skráð í Jeremía 10:23: ‚Það er ekki á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.‘

14 Á hverjum degi sjáum við fleira sem staðfestir sannleiksgildi þessara orða. Að stærstum hluta gefur mannfélagið engan gaum að lífsvegi Guðs. Fólk gerir það sem því sjálfu þykir rétt. Afleiðingarnar hafa verið hörmulegar — sundrun fjölskyldna sem skilur börnin eftir án handleiðslu; allsherjarefnishyggja sem endar með tómleika og vonbrigðum; tilgangslausir glæpir og ofbeldi sem eiga sér óteljandi fórnarlömb; þjóðernisdeilur og stríð sem taka hrikalegan toll í mannslífum; hömlulaust siðleysi sem kyndir undir kynsjúkdómafaraldur. Þetta er aðeins lítill hluti þeirra flóknu og margþættu vandamála sem torvelda manninum að öðlast hamingju, frið og öryggi.

15, 16. Hvaða ásetningur var látinn í ljós í yfirlýsingunni í sambandi við lífsveg Guðs?

15 Með hliðsjón af sorglegu ástandi mannkyns og nálægð ‚stríðsins á hinum mikla degi Guðs hins alvalda,‘ sem kallað er Harmagedón (Opinberunarbókin 16:14, 16), lýsum við, vottar Jehóva, yfir:

16 Í fyrsta lagi: Við lítum svo á að við tilheyrum Jehóva Guði þar sem sérhvert okkar hefur vígt sig honum skilyrðislaust og við viðhöldum óhagganlegri trú á lausnarráðstöfun Jehóva fyrir milligöngu sonar síns, Jesú Krists. Við erum staðráðin í að ganga á lífsvegi Guðs, þjóna sem vottar hans og lúta drottinvaldi hans sem hann sýnir fyrir milligöngu stjórnar Jesú Krists.

17, 18. Hvaða afstöðu munu vottar Jehóva halda sig við í siðferðismálum og gagnvart hinu kristna bræðrafélagi?

17 Í öðru lagi: Við höldum áfram að fylgja hinum háu andlegu og siðferðislegu stöðlum Biblíunnar. Við erum staðráðin í að ganga ekki eins og þjóðirnar því að hugsun þeirra er allslaus. (Efesusbréfið 4:17-19) Við höfum einsett okkur að halda okkur hreinum frammi fyrir Jehóva og óflekkuðum af þessum heimi. — Jakobsbréfið 1:27.

18 Í þriðja lagi: Við höldum fast við biblíulega stöðu okkar sem alþjóðlegt kristið bræðrafélag. Við varðveitum kristið hlutleysi meðal þjóðanna og leyfum okkur ekki að falla í snöru sundurlyndis, kynþátta- eða þjóðernishaturs.

19, 20. (a) Hvað munu kristnir foreldrar gera? (b) Hvernig munu allir sannkristnir menn halda áfram að auðkenna sig sem lærisveina Krists?

19 Í fjórða lagi: Við sem erum foreldrar innrætum börnum okkar veg Guðs. Við setjum fordæmi í kristilegu líferni sem felur í sér reglulegan biblíulestur, fjölskyldunám og heilshugar þátttöku í starfsemi kristna safnaðarins og boðunarstarfinu.

20 Í fimmta lagi: Við keppum öll að því að rækta með okkur þá guðrækilegu eiginleika sem skapari okkar er dæmi um og við kappkostum að líkja eftir persónuleika hans og vegum eins og Jesús gerði. (Efesusbréfið 5:1) Við erum ákveðin í því að gera allt í kærleika og auðkenna okkur þar með sem lærisveina Krists. — Jóhannes 13:35.

21-23. Hverju munu vottar Jehóva halda áfram og um hvað eru þeir sannfærðir?

21 Í sjötta lagi: Við látum ekki af að prédika fagnaðarerindið um Guðsríki, gera menn að lærisveinum og við kennum þeim lífsveg Guðs og hvetjum þá til að sækja sér frekari þjálfun og fræðslu á safnaðarsamkomum. — Matteus 24:14; 28:19, 20; Hebreabréfið 10:24, 25.

22 Í sjöunda lagi: Sem einstaklingar og trúfélag höldum við áfram að láta vilja Guðs skipa fremstan sess í lífi okkar. Við notum orð hans, Biblíuna, til leiðsagnar og víkjum hvorki til hægri né vinstri. Þannig staðfestum við að vegur Guðs er miklu fremri vegum heimsins. Við erum ákveðin í að ganga á lífsvegi Guðs — staðföst og drottinholl, nú og um eilífð!

23 Við samþykkjum þessa yfirlýsingu af því að við treystum fyllilega kærleiksríku loforði Jehóva að sá sem geri vilja hans vari að eilífu. Við samþykkjum þessa yfirlýsingu af því að við erum sannfærð um að það sé besti lífsvegurinn nú á dögum að lifa eftir meginreglum Biblíunnar, ráðleggingum hennar og áminningum, og að það leggi góðan grunn fyrir framtíðina þannig að við getum höndlað hið sanna líf. (1. Tímóteusarbréf 6:19; 2. Tímóteusarbréf 4:7b, 8) Umfram allt samþykkjum við þessa yfirlýsingu af því að við elskum Jehóva Guð af öllu hjarta, sálu, huga og mætti!

24, 25. Hvaða viðbrögð fékk yfirlýsingin og í hverju eru þeir staðráðnir sem ganga á vegi Jehóva?

24 Allir þeir sem viðstaddir eru á þessu móti og samþykkja þessa yfirlýsingu, vinsamlegast segi JÁ!“

25 Hundruð íþróttahalla og leikvanga um heim allan bergmáluðu af þrumandi „JÁI“ allra viðstaddra. Vottar Jehóva eru ekki í nokkrum vafa um að þeir haldi áfram að ganga á vegi hans. Þeir trúa og treysta fullkomlega að hann standi við fyrirheit sín. Þeir eru honum hollir hvað sem á dynur og staðráðnir í að gera vilja hans.

„Guð er með oss“

26. Hvert er gleðilegt hlutskipti þeirra sem ganga á vegi Jehóva?

26 Vottar Jehóva muna eftir hvatningu sálmaritarans: „Vona á [Jehóva] og gef gætur að vegi hans, þá mun hann hefja þig upp, að þú erfir landið.“ (Sálmur 37:34) Þeir gleyma ekki hvetjandi orðum Páls: „Ef Guð er með oss, hver er þá á móti oss? Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni, heldur framseldi hann fyrir oss alla, hví skyldi hann ekki líka gefa oss allt með honum?“ (Rómverjabréfið 8:31, 32) Já, ef við höldum áfram að ganga á vegi Jehóva lætur hann okkur „allt ríkulega í té til nautnar.“ (1. Tímóteusarbréf 6:17) Er til nokkur betri vegur til að ganga á en vegur Jehóva þar sem við göngum ásamt kærum bræðrum okkar og systrum? Með Jehóva okkur við hlið skulum við vera staðráðin í að halda okkur þar og vera þolgóð allt til enda. Og við megum treysta því að við sjáum hann uppfylla hvert einasta fyrirheit sitt í fyllingu tímans. — Títusarbréfið 1:2.

[Neðanmáls]

^ Biblíuskýrandi segir að gríska orðið, sem þýtt er „leika“ í 1. Korintubréfi 10:7, sé notað um dansa sem fram fóru á heiðnum hátíðum og bætir við: „Alkunna er að margir þessara dansa voru beinlínis til þess ætlaðir að vekja upp lostafengnustu ástríður.“

Manstu?

◻ Hvað þarf kristinn maður að gera til að ganga á vegi Jehóva?

◻ Af hverju þurfum við að rækta með okkur traust á Jehóva og hollustu við hann?

◻ Hvaða hjálp getum við fengið þegar við göngum á vegi Jehóva?

◻ Nefndu nokkur meginatriði yfirlýsingarinnar sem samþykkt var á mótunum „Lífsvegur Guðs.“

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 26]

Mikilvæg yfirlýsing var samþykkt á umdæmis- og alþjóðamótunum „Lífsvegur Guðs.“