Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna að trúa á Jesú Krist?

Hvers vegna að trúa á Jesú Krist?

Hvers vegna að trúa á Jesú Krist?

„MARGIR, sem ekki eru kristnir, telja hann mikinn og vitran kennara. Hann er tvímælalaust einhver áhrifamesti maður sögunnar.“ (The World Book Encyclopedia) Þessi „hann“ er Jesús Kristur, stofnandi kristninnar.

En hvað sem alfræðibókin segir vita hundruð milljóna manna í Austurlöndum fjær og víðar ósköp lítið um Jesú Krist. Hann er bara nafn sem þeir hafa kannski séð í skólabókum. Í kirkjum kristna heimsins má jafnvel finna guðfræðinga og presta sem segja að lítið sé vitað um Jesú í raun og veru, og þeir véfengja ævisögur hans fjórar (guðspjöllin) sem er að finna í Biblíunni.

Er hugsanlegt að guðspjallaritararnir hafi skáldað ævisögu Jesú? Nei, það er fráleitt. Hinn kunni sagnfræðingur Will Durant skrifaði eftir að hafa fjallað um frásagnir guðspjallanna: „Ef fáeinir einfaldir alþýðumenn hefðu á einum mannsaldri búið til svo máttugan og hrífandi persónuleika, svo háleita siðfræði og svo frjóvgandi framtíðarsýn um bræðralag mannanna, þá hefði það í sannleika verið enn meira undur heldur en nokkurt þeirra kraftaverka sem frá er sagt í guðspjöllunum. Eftir tveggja alda Biblíurýni stendur ævisaga Krists, einkenni hans og kenningar óhaggaðar, dýrlegasti þátturinn í sögu vestrænna manna.“

En sumir vísa Jesú Kristi á bug vegna alls hins illa sem svonefndir fylgjendur hans hafa gert. Japanar minna gjarnan á að fylgjendur hans hafi varpað kjarnorkusprengju á Nagasaki, þrátt fyrir að þar byggju fleiri kristnir menn en í flestum öðrum borgum Japans. En er hægt að kenna lækni um veikindi sjúklings sem hlítir ekki læknisráði? Flestir, sem kalla sig kristna, hafa löngum hunsað fyrirmæli Jesú um það hvernig hægt sé að sigrast á meinum mannkyns. En Jesús gaf uppskriftina að því hvernig leysa mætti dagleg vandamál okkar og ráða bót á öllum meinum mannkyns. Við hvetjum þig þess vegna til að lesa greinina á eftir og kynna þér sjálfur hvers konar maður hann var.